Beint í efni

Gin- og klaufaveiki herjar í Egyptalandi

28.03.2012

Gin- og klaufaveikifaraldurinn sem nú hefur herjað í Egyptalandi í rúma viku hefur nú þegar leitt til sýkingar um 50 þúsund gripa en ætlað er að um 5 þúsund sýkist á degi hverjum þessa dagana! Þessum sjúkdómi fylgir afar há dánartíðni en um 15% sýkinganna leiða til dauða hjá skepnunum samkvæmt upplýsingum frá landbúnaðaryfirvöldum Egyptalands.

 

Ástæðan fyrir því að sjúkdómurinn er svona skæður nú er sú að nýr stofn sýkinnar er hér á ferð. Stofninn kallast SAT2 en búfé í mörgum löndum hefur verið bólusett gegn öðrum stofni veikinnar en ekki SAT2.

 

Þó svo að ekki sé vitað með vissu hvernig veikin barst til landsins leikur grunur á því að hún hafi komið með kindum og nautgripum sem smyglað var frá Líbíu. Faraldurinn kemur á allra versta tíma fyrir landið en einmitt í ár átti að auka kjötframleiðsluna verulega en nú þegar er ljóst að þær vonir heimamanna eru að engu orðnar.

 

Árið 2006 kom síðast upp faraldur af Gin- og klaufaveiki í Egyptalandi sem á þeim tíma leiddi til þess að nærri 1 milljón nautgripa féll. Haldi sjúkdómurinn nú áfram með sama hraða og dauðatíðni er því miður útlit fyrir að enn fleiri gripir falli að þessu sinni/SS.