Beint í efni

Gin- og klaufaveiki finnst á kúabúi í Bretlandi

04.08.2007

Gin- og klaufaveiki hefur fundist á kúabúi í Bretlandi, skammt frá bænum Guildford í Surrey héraði, suðvestur af London. Veikin er bráðsmitandi veirusjúkdómur í jórturdýrum og hefur 60 gripum á búinu þegar verið lógað. Umferð í 3 km radíus umhverfis búið er bönnuð, og varúðarráðstafanir hafa verið gerðar í 10 km radíus frá því. Ekki er lengra síðan en 2001 þegar sjúkdómurinn geisaði síðast í landinu. Þá þurfti að lóga milli 6,5 og 10 milljónum gripa, var tjónið af því 8,5 milljarðar punda, yfir 1000 milljarðar íslenskra króna. Þá varð fjöldinn allur af búum gjaldþrota, sem og ýmis önnur starfsemi í dreifbýli. Einnig hafði gin- og klaufaveikifaraldurinn gríðarlega neikvæð áhrif á ferðaþjónustu í Bretlandi.

Ýtarlega umfjöllun um málið er að finna á heimasíðu breska ríkisútvarpsins, BBC.