Gigi mjólkaði 33.197 lítra á einu ári!
05.02.2016
Holstein kýrin Gigi (sjá mynd) er engin venjuleg kýr en hún er líklega afurðamesta kýr heimsins. Gigi þessi er nú níu ára gömul og mjólkaði þegar hún var átta ára rúmlega 27 tonnum af mjólk og þótti nú mörgum nóg um. Nú bætti hún um betur og það hraustlega og jók afurðamuninn á einu ári um rúmlega 6 þúsund lítra. Gigi þessi er búsett í Bandaríkjunum og hafa augu þarlendra ræktenda beinst að henni í nokkur ár, en Gigi fékk t.d. sérstök verðlaun árið 2013 sem helsta vonarstjarna Holstein kynsins („Star of the breed 2013“).
Eins og við er að búast með svona afurðamikla kú þá er hlutfall efnainnihalda ekki mjög hátt en að jafnaði voru verðefnin frá Gigi 2,8% fita og 2,9% prótein. Vart þarf að koma á óvart að um nýtt met í afurðasemi er að ræða, en fyrra metið átti kýrin Ever-Green en hún mjólkaði 32.092 lítra árið 2010/SS.