Beint í efni

Getum framleitt 40% meira af nautgripakjöti

21.10.2020

Landsssamband kúabænda hefur nú í fyrsta sinn tekið saman skýrslu um aðstöðu til nautakjötsframleiðslu. Er ætlunin að slík skýrsla verði gefin út á tveggja ára fresti líkt og í mjólkurframleiðslunni, en LK hefur tekið saman skýrslur um þróun fjósgerða og mjaltatækni allt frá árinu 2003. Byggir skýrslan á niðurstöðum könnunar sem framkvæmd var meðal kúabænda í árslok 2019 ásamt því að fjalla um þróun framleiðslunnar með tilkomu EUROP kjötmatskerfisins fyrir nautgriparækt.

Meðalaldur aðstöðu um 20 ár

Almennt má segja að niðurstaða skýrslunnar gefi til kynna að aðstaða til nautakjötsframleiðslu sé í lagi þó víða sé endurnýjunar þörf.  Elsta aðstaðan er 60 ára og yngsta 1 árs samkvæmt niðurstöðu könnunarinnar, en meðalaldur aðstöðu er rétt rúmlega 20 ára.  Almennt er aðstaðan góð eða í lagi, en í um 15% tilfella svarenda var aðstaðan sæmileg eða léleg.  Þá er loftræsting í flestum tilfellum góð og aðstaðan til ræktunar einnig rúm samkvæmt langflestum svarendum.

Framleiðsugeta langt umfram raunframleiðslu

Þegar borin er saman raunframleiðsla samkvæmt svörum bænda við mat þeirra á getu eigin aðstöðu til að framleiða gripi kemur í ljós að umframgetan á landsvísu er um 40% að meðaltali. Þá telja bændur á Norðurlandi og Norðausturlandi sig geta framleitt um 70% meira en nú er gert. Þegar sú tala er borin saman við innflutning á nautgripakjöti kemur í ljós að geta innlendra framleiðenda er hundruð tonna umfram innflutning á ári síðastliðin 4 ár.  Þetta gefur fyrirheit um að geta greinarinnar er vænleg þrátt fyrir að ytri aðstæður, t.d. lækkun á kostnaðarverði innflutts nautgripakjöts séu ekki eins hagfelldar.  Vísbendingar eru um að íslenskir nautgripabændur gætu þannig uppfyllt þörfina sem er til staðar og því enn mikilvægara að bæta starfsumhverfið til að þessi geta nýtist.

 

Skýrsluna er hægt að nálgast í heild sinni með því að smella hér og undir Ýmsar skýrslur hér á naut.is. /HS