Beint í efni

Geta þurrkað 1,3 milljarða lítra árlega

17.07.2013

Írska afurðafélagið Glanbia hefur, líkt og mörg önnur evrópsk félög, staðið í ströngu undanfarið til þess að undirbúa sig undir stóraukna mjólkurframleiðslu félagsmanna sinna eftir 2015. Líkt og hjá mörgum öðrum afurðastöðvum er stefnan sett á duftframleiðslu á umframmjólk sem svo verður flutt á markaði utan Evrópu. Uppsetning þurrkstöðvarinnar er í smábænum Belview í suður Kilkenny.

 

Framleiðslugeta þessarar nýju afurðavinnslu er eftirtektarverð en árlega munu streyma frá Belview 100.000 tonn af mjólkurdufti, þ.e. duft úr u.þ.b. 1.300 milljón lítrum mjólkur og verður þessi afurðastöð þar með ein sú afkastamesta í Evrópu. Í dag tekur félagið á móti 1,6 milljarði lítra frá sínum 4.300 félagsmönnum, sem svarar til um 30% af landsframleiðslunni, og má af því sjá að félagið gerir ráð fyrir gríðarlegri framleiðsluaukningu á næstu tveimur árum/SS.