Beint í efni

Geta fengið rúma milljón fyrir nautkálfana!

23.03.2011

Stjórn VikingGenetics, hinnar sam-norrænu kynbótastöðvar nautgripa (Danmörk, Svíþjóð og Finnland), hefur nú lagt til breytingar á verðkerfinu til greiðslu fyrir kynbótanaut. Er þetta gert til þess að jafna greiðslur á milli bænda með ólík afburðakyn auk þess sem nýja verðlagningarkerfið tekur tillit til breyttra tíma vegna úrvals á grunni erfðamengis (genomic selection) þar sem hægt er að kaupa inn færri kálfa en áður vegna stóraukins öryggis við val þeirra á grunni DNA greininga.

 

Nýja verðlagningarkerfið nær yfir kálfa af Holstein og VikingRed kyni og á að sögn forsvarsmanna VikingGenetics að tryggja kynbótafyrirtækinu að vera áfram í fremstu röð í heiminum.

 
Kerfið er mun einfaldara en það var áður (sjá fyrri umfjöllun naut.is um málið hér) en við kaup á nautkálfi greiðast kr. 2.250 evrur fyrir Holstein nautkálf og 1.800 evrur fyrir VikingRed nautkálf. Fari svo að nautið farið í sæðistöku fær bóndinn 5.000 Evrur fyrir Holstein og 3.000 Evrur fyrir VikingRed. Verði nautið svo valið til sæðissölu fær bóndinn 2% af veltu viðkomandi nauts. Samantekið fær því hver kúabóndi sem sendir Holstein naut (sem fer í sæðissölu) á stöð að lágmarki 7.250 Evrur (um 1,2 milljónir króna) og fyrir VikingRed naut fengi hann að lágmarki 4.800 Evrur (um 800 þúsund krónur). Til viðbótar koma svo veltutengdar greiðslur sem geta verið allt frá örfáum tugum þúsunda upp í milljónir. /SS