Get ég fengið lánaða kú hér?
25.05.2013
Víða erlendis eru nautgripir notaðir sérstaklega í þeim tilgangi að halda niðri gróðri á sérstökum verndarsvæðum. Er þetta gert til þess að koma í veg fyrir að óæskilegar plöntur nái fótfestu á landi sem nýtur náttúruverndar. Þeir sem eiga slíkt land, sem bundið er nýtingarskilmálum, standa oft í þeim sporum að þurfa að beita land sitt og ekki er sjálfgefið að viðkomandi eigi nautgripi til þess að vinna það verk.
Á norðurhluta Jótlands í Danmörku er all nokkur fjöldi slíkra svæða þar sem tröllahvönn (bjarnarkló) hefur verið að festa sig í sessi, þvert á það sem náttúrufræðingar vilja. Það hefur sýnt sig að nautgripir henta afar vel til þess að halda þessari plöntu í skefjum og nú er hafið tilraunaverkefni á vegum nautgriparæktarfélags á svæðinu. Landeigendur geta einfaldlega fengið lánaðar holdakýr í ákveðinn tíma, sem þá sinna verkefninu að festu eins og við er að búast af öflugum beitardýrum.
Þegar skepnurnar eru lánaðar út er alltaf um tvær kýr að ræða og eitt naut og hefur reynslan í Danmörku sýnt að svona „sett“ hentar afar vel. Lánssamningarnir eru til þriggja eða fimm ára og að lánstíma liðnum skilar landeigandinn gripunum til baka ásamt einu afkvæmi en má aftur á móti halda öðrum afkvæmum.
Verkefni þetta er styrkt af hinu opinbera og standa vonir aðstandenda verkefnisins til þess að verkefnið efli áhuga fólks á holdanautabúskap. Ástæða lánssamninga í stað kaups felst einfaldlega í stofnkostnaði en ef kaupa ætti þrjá gripi kostar slíkt um 650-700 þúsund íkr., sem fara t.d. þess í stað í girðingar/SS.