Beint í efni

Gestapennar: Sterkja er ekki bara sterkja. Hvað skortir þitt bú?

31.01.2020

Gestapennar á vefsíðu Landssambands kúabænda skrifa greinar frá ýmsum hliðum nautgriparæktarinnar. Þriðja greinin til birtingar er eftir Helga Eyleif Þorvaldsson, fóðurráðgjafa og sölustjóra hjá Líflandi. Við gefum lyklaborðið til Helga:

Sterkja er ekki bara sterkja. Hvað skortir þitt bú?

Gera má ráð fyrir að aukin áhersla verði á komandi árum á fullnýtingu innlendra hráefna, sem og aukin krafa verði um minnkandi innflutning á aðföngum til matvælaframleiðslu, bæði til að draga úr sótspori greinanna og til að auka skilvirkni og hagvæmni búa. Má m.a. sjá verulega aukna umræðu um þau málefni í Hollandi um þessar mundir þar sem fræðimenn, stjórnvöld, bændur og iðnaðurinn hafa sett sér metnaðarfull markmið um það hvernig megi auka nýtingu heimaaflaðs fóður, nýta betur það fóður sem framleitt er innan héraðs og hvernig megi lágmarka innflutning á fóðri til hefðbundinnar matvælaframleiðslu.

Í þessu samhengi er gott að velta því fyrir sér hverskonar fóður er hægt að framleiða á bænum sjálfum og hverskonar aðkeyptum hráefnum sé raunverulega þörf á. Margt mætti greina og skrifa um, s.s. hvort flýta megi slætti til að hámarka hráprótein og orku í heyjum, hvernig nýta megi lifandi geril og hýdroxísteinefni til að hámarka nýtingu gróffóðurs og heimaræktaðs byggs o.fl. Erfitt að gera mörgum liðum skil í stuttu máli. Því ætla ég að staldra við eitt tiltekið atriði sem mér hefur þótt þurfa meiri athygli við fóðrun mjólkurkúa á Íslandi, sterkju; Hverskonar sterkju þurfa bændur að kaupa og hverskonar sterkju er hægt að framleiða á búunum sjálfum og minnka þar með innflutt aðföng.

Plöntur geyma gjarnan þá orku sem þær mynda í formi sterkju eða sykra á meðan dýr geyma umframorku í formi fitu. Sterkja er fjölsykra sem samanstendur af mörgum glúkósaeiningum sem bundnar eru saman með glýkósíðtengjum. Sterkja í plöntum finnst í mestum mæli í fræjum, ávöxtum og rótum plantna og er í langflestum tilfellum blanda af tveimur mismunandi fjölsykrum, amýlósa og amýlópektíni.

Sterkja er afar mikilvægt næringarefni í fóðrun mjólkurkúa sem fæst öllu jafna úr korntegundum eins og byggi, hveiti og maís. Í góðu árferði er hægt að framleiða gott bygg á Íslandi þó vissulega sé það ekki alltaf raunin. Náist að þreskja nægjanlegt magn af góðu byggi mætti telja að búið sé vel sett með sterkju og ætti því ekki að þurfa að kaupa mikið umframmagn. En sterkja er ekki bara sterkja. Æði oft er verulegur skortur á tormeltri sterkju í fóðri mjólkurkúa á Íslandi, jafnvel þótt nægt bygg sé í boði. Það getur valdið lægri nyt, minna próteinmagni í mjólk, verra fanghlutfalli, súrdoða o.fl. En hvað er tormelt sterkja?

Tormelt sterkja er sá hluti sterkju sem fer ómelt í gegnum vömbina og er melt í smáþörmum eða gerjuð í víðgirni. Í smáþörmum er sterkja melt fyrir tilstuðlan ensíma og frásoguð sem glúkósi af frumum þarmaveggjarins. Tormelt sterkja er lykilþáttur í framleiðslu glúkósa sem nýtist sem blóðsykur, þótt vissulega myndist slík orka úr fleiri þáttum s.s. rokgjörnum fitusýrum og ónýttum próteinum. Slík orka er einkar mikilvæg fyrir kýr á fyrstu dögum/vikum mjaltaskeiðs sem og fyrir hánytja kýr þar sem glúkósi er eina næringarefnið sem er hægt að breyta í laktósa (mjólkursykur) í júgrinu. Þar af leiðandi er þörf fyrir glúkósa mikil þegar nyt er há og/eða þegar nyt eykst mikið á skömmum tíma, enda stjórnar framboð á laktósa mjólkurmagni sem kýrin getur framleitt. Auk þess eru vísbendingar um að skortur á glúkósa geti haft áhrif á og veikt ónæmiskerfi kýrinnar eftir burð, aukið líkur á bólgum í legi, stálmamyndun og minnkað gæði brodds. Nægt framboð af glúkósa gerir það einnig að verkum að kýrin nýtir síður amínósýrur til glúkósaframleiðslu en nýtir amínósýrur þess í stað til mjólkurpróteinframleiðslu eins og til er ætlast. Þar með ,,minnkar“ þörf á amínósýrum í fóðri þar sem nýtingin er skilvirkari sem er fjárhagslega mikilvægt fyrir bóndann enda eru amínósýrur, sem fást að stærstu leyti úr tormeltum próteinum og örverupróteini, dýrastar aðkeyptra hráefna fyrir bændur. Með öðrum orðum: Próteinið nýtist betur. En hvaðan fæst
tormelta sterkja?


Tormelt sterkja fæst að mjög litlu leyti úr byggi en í mun meira mæli úr t.d. úr maís. Munurinn á sterkju byggs og maís má að hluta útskýra með efnafræðilegri samsetningu fræja þessarra hráefna. Ysta lag fræjanna (aldinveggur) er afar þolið og myndar vörn fyrir örverumeltingu vambarinnar. Þessvegna er þörf á að valsa/kurla kornin til að örverur hafi aðgang að sjálfri fræhvítunni sem geymir sterkjuna. Sterkjan er umlukin fjölda próteina sem þarf að byrja á að melta eða vinna á með öðrum aðferðum áður en örverur vambarinnar geta nýtt sjálfa sterkjuna. Ólíkt byggi hefur maís tvo aðgreinanlega hluta af fræhvítu; glæra hvítu og mjölkennda hvítu. Örverur vambarinnar geta á auðveldan hátt komist í mjölkenndu hvítuna og nýtt sterkjuhluta hennar, hafi hráefnið verið valsað eða mulið. Glæra hvítan inniheldur hinsvegar sterkju umlukta próteinum sem afar þolið er fyrir örverumeltingu. Þar af leiðandi kemst sterkja og prótein glæru fræhvítunnar ómelt í gegnum vömbina og til smáþarmanna. Bygg hefur hinsvegar einungis mjölkennda fræhvítu og því er um 90% af sterkju byggs melt í vömb kúa en um 10% heldur áfram sem tormelt sterkja til smáþarma. Í maís er einungis um 60% sterkjunnar melt í vömb en um 40% heldur áfram til smáþarma.

Mikilvægt er einblína ekki eingöngu á eina tegund sterkju því þörf er fyrir báðar gerðir. Þó virðist hraðmeltri sterkju, sem ekki gefst rúm til að fjalla um hér, oftar gerð betur skil en tormeltri sterkju hér á landi, líklega vegna þeirra annmarka sem við búum við hvað varðar ræktun á mismunandi nytjajurtum vegna veðurfars. Afar mikilvægt er að leita ráðlegginga um val á orkugjöfum við fóðrun og komast þannig að því hvað raunverulega er vöntun á í hverju tilfelli fyrir sig enda eru þarfirnar jafn misjafnar og dæmin eru mörg. Þannig má koma í veg fyrir að keypt séu aðföng sem hægt væri að rækta heima á bæ og þau aðföng frekar keypt sem vöntun er á. Má þannig bæði spara peninga, óþarfa flutninga á vöru og auka skilvirkni í fóðrun.

Helgi Eyleifur Þorvaldsson

 

Heimildir

Bragi Líndal Ólafsson, Jóhannes Sveinbjörnsson & Emma Eyþórsdóttir. (2000). Efnainnihald í mjólk. Ráðunautafundur, 158-170. Reykjavík: Bændasamtök Íslands o.fl.

Gibb, D.J og McAllister, T.A. (á.á). Corn compared to barley in feedlot diets. Agriculture and Agri-Food Canada. Alberta: Lethbrigde Research Center.

McDonald, P., Edwards, R.A., Greenhalgh, J.F.D., Morgan, C.A., Sinclair, L.A. & Wilkinson, R.G. (2011). Animal nutrition. Edinborg: Pearson Education Limited.

NutriOpt dairy model manual. (á.á). Development recommendation requirements. Boxmeer: Nutreco.

U.S. Grains Council. (á.á.). Corn export cargo quality report 2016/2017. Skoðað 29. janúar á: https://grains.org/corn_report/corn-export-quality-report-2016-2017/6/