Beint í efni

Gert að handmerkja 2,2 milljónir dósa

30.04.2013

Oft er nú nefnt, þegar um Evrópusambandið er rætt, hve skriffinskan þar er mikil og hvað ”kerfið” ræður miklu. Ferköntuð sýn á hlutina þekkist þó einnig í öðrum löndum en steininn tók þó úr um daginn í Noregi, þegar þarlend Matvælastofnun (Mattilsynet) stöðvaði sölu á 2,2 milljónum dósa af hinni þekktu norsku lifrarkæfu „Stabburet liverpostei“.

 

Þessi kæfa, sem m.a. er gerð úr úrvals nautakjöti, er nefninlega í nýjum umbúðum og við prentun þeirra hafði það gerst að misritun varð á dósunum. Framleiðandinn lét að sjálfsögðu vita af þessum mistökum og fékk að launum að stöðva sölu dósanna!

 

Um er að ræða lítið hringlaga merki (sjá myndina) sem táknar þá verksmiðju sem framleiddi kæfuna en merkið tilheyrir annarri verksmiðju í eigu sama framleiðenda og gerðist þetta fyrir mistök auglýsingastofu sem var að endurhanna dósirnar.

 

Gæði vörunnar eru þó að sjálfsögðu í fullkomnu lagi og reyna nú forsvarsmenn Stabburet að fá heimild til sölu dósanna enda ekkert lítilræði af kjöti í húfi, alls um 440 tonn! Hið sveigjanlega norska eftirlit kom með þá tillögu að framleiddir yrðu límmiðar og dósirnar einfaldlega endurmerktar. Það er þó ekki vinnandi vegur enda merkin ekki nema 5 x 7 mm að stærð!

 

Nú streyma til fyrirtækisins tilboð frá ýmsum hjálparstofnunum um að taka við dósunum þrátt fyrir merkið smáa, en enn sem komið er má fyrirtækið ekki einusinni gefa dósirnar til góðgerðarmála vegna merkisins ranga. Áfram er þó unnið að lausn málsins/SS.