Gerir osta úr ösnumjólk
12.02.2013
Hinn heimsfrægi serbneski tennisleikari Novak Djokovic hefur fest kaup á allri mjólk sem framleidd verður í ár á eina sérhæfða ösnubúi Serbíu. Væntanlega þekkja fæstir til mjólkurframleiðslu með ösnum en mjólk þeirra inniheldur mun meiri mjólkursykur en minni fitu en hefðbundin kúamjólk. Ösnumjólk fæst ekki víða en er þó þekkt söluvara í suðurhluta Evrópu.
Á þessum serbneska búgarði, sem er í Zasavica héraðinu í mið-vestur Serbíu, eru 130 ösnur sem eru handmjólkaðar þrisvar á dag. Mjólkin fer svo öll til framleiðslu á hinum sérstaka osti ”pule” en til framleiðslu á einu kílói af þessum osti þarf 25 lítra af asnamjólk.
Ástæðan fyrir því að Djokovic keypti alla framleiðslu búgarðsins er að hann hefur opnað nýja veitingastaði og vill þar bjóða upp á þennan valkost. En osturinn er ekki alveg ókeypis, kílóaverðið er nálægt því að vera um 150 þúsund krónur svo maður þarf nú að vera í góðum álnum til þess að hafa efni á hamborgara með pule osti/SS.