Beint í efni

Geno býður kyngreint sæði úr mjólkur- og kjötframleiðslukynjum

20.11.2012

Félagsmönnum í norska nautgriparæktarfélaginu Geno stendur nú til boða kyngreint sæði úr bæði mjólkur- og kjötframleiðslukynjum. Félagið mælir með að kyngreint sæði úr nautum af mjólkurkúakynjum sé notað á gripi sem sýna skýr beiðsliseinkenni og allra helst á vel ættaðar kvígur. Með notkun á kyngreindu aukast líkur á því að kvígukálfar komi í heiminn og á hún því helst við á búum sem eru að stækka við sig og auka mjólkurframleiðsluna. Einnig er léttara fyrir kýrnar að bera kvígukálfum en nautkálfum. Kyngreinda sæðið gefur einnig möguleika á að sæða lakari hluta mjólkurkúnna með holdanautasæði. Félagið býður eins og áður segir einnig upp á kyngreint sæði úr holdanautunum en öfugt við það sem gert er með mjólkurkúakynin, er holdanautasæðið kyngreint með tilliti til þess að úr því komi nautkálfar. Það ætti því ekki að nota á kvígur vegna aukinnar hættu á burðarerfiðleikum.

 

Við notkun á kyngreindu sæði í mjólkurkýr er fanghlutfallið um 13% lægra en við notkun á hefðbundnu sæði. Orsökin er m.a. sú að fjöldi sáðfruma í strái er 2 milljónir, á móti 15 milljónum í hefðbundnum stráum. Öryggi kyngreiningarinnar er um 90%. Kyngreiningin gerir einnig kröfu um að sæðisgæði nautanna séu mikil og aðeins er boðið upp á kyngreint sæði úr nautum sem uppfylla slíkar kröfur. Úrval gagnvart þeim eiginleika hefur verið strangt í mjólkurkúakyninu í Noregi um langan aldur, en ekki hefur eins verið hugað að því varðandi holdakynin.

 

Sjálf kyngreiningin á sæðinu fer fram hjá enska fyrirtækinu Cogent sem hefur sérhæft sig í kyngreiningu á sæði síðan 1999. Félagið hefur þróað sérstakan þynningarvökva sem gerir það að verkum að hægt er að flytja það ferskt frá nautastöðvunum á Store Ree og Hallsteingård til Englands, þar sem það er kyngreint sama dag. Að jafnaði nást um 250 kyngreindir skammtar úr hverju nauti í hvert skipti, sem síðan eru geymdir í einn mánuð til að útiloka hættu á smitsjúkdómum. 

 

Verð á kyngreindum sæðisskammti er 400 NOK, um 8.000 isk, bæði fyrir mjólkurkúakynin og holdakynin. Pöntunargjald er 400 NOK í hvert skipti, þannig að það borgar sig að panta nokkra skammta í einu ef því verður við komið./BHB

 

Heimild: Geno.no