Beint í efni

Gengi yens og svissnesks franka frá 1997

01.08.2007

Eins og kom frá í síðasta hefti Peningamála Seðlabanka Íslands, hafa lánveitingar til einstaklinga í japönskum yenum og svissneskum frönkum aukist verulega að undanförnu. Í maímánuði sl. voru lán í þessum gjaldmiðlum um 85% lána í erlendri mynt. Í dag lækkaði gengi krónunnar um tæplega 3%, sem telst heldur mikið á einum degi. Því hefur verið spáð um skeið að krónan eigi eftir að veikjast, spurningin er hve mikið og hvenær? Í þessu samhengi er fróðlegt að skoða hver þróunin hefur verið á gengi þessara gjaldmiðla undanfarinn áratug eða svo.

Eins og sjá má á myndunum hér að neðan hefur gengi þessara gjaldmiðla sveiflast mjög mikið á tímabilinu, enda er íslenska krónan ekki þekkt fyrir að vera stöðugasti gjaldmiðill í heimi. Á neðstu myndinni má síðan sjá að yen og franki eru það svosem ekki heldur, hún sýnir gengi svissneska frankans gagnvart kanadískum dollar.

 

Í dag var gengi yens skráð 51,92 aurar íslenskir. Þennan dag fyrir 10 árum var það 60,6 aurar. Lækkun á tímabilinu er 14,3% og meðalgengi er 64,74 aurar. Lægst var gengið 48,4 aurar á síðari hluta ársins 1998, en hæst fór það seint á árinu 2001, 88,77 aura. Á þessum 3 árum veiktist krónan gagnvart yeni því um heil 80%. Þeir sem tóku gengistryggð lán í yenum ’98 hafa því upplifað tilsvarandi hækkun á greiðslubyrði. Það hefur þurft sterk bein til að þola slíkt.

 

Svipaða sögu er að segja af gengisþróun svissneska frankans. í dag var gengi hans skráð 50,93 kr. 1. ágúst 1997 var það 47,54 kr. Gengi frankans hefur því styrkst á tímabilinu um 7,13% en að meðaltali hefur það verið 53,06 kr á undanförnum áratug. Hæst hefur það farið í 66,47 kr um mánaðamótin nóv-des 2001 og lægst hefur gengið orðið 43,55 kr.

 

Hann sveiflast því heldur minna en yen, sk. flökt (e. coefficient of variation, staðalfrávik deilt með meðaltali) er 8,05% hjá franka en 10,73% hjá yeni. Flökt frankans gagnvart kanadíska dollaranum er 8,94%.

 

Það skal ekki um það dæmt hvort gjaldmiðillinn er að leggja upp í svipaða vegferð og frá 1998-2001, en í öllu falli sýnist óhætt að mæla með að þeir sem hafa til þess aðstöðu greiði upp eða inn á gengistryggð lán, það sýnist heldur skynsamleg fjárfesting um þessar mundir.

 

Gengi íslensku krónunnar gagnvart japönsku yeni, 1997-2007

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Gengi íslensku krónunnar gagnvart svissneskum franka 1997-2007

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Gengi svissnesks franka gagnvart kanadískum dollar

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Heimildir um gengi gjaldmiðlanna eru fengnar af heimasíðu Glitnis banka.