Beint í efni

Geldstaða á að vera löng!

20.07.2013

Við höfum áður brýnt fyrir kúabændum að stutt geldstaða mjólkurkúa getur verið afar dýr eins og fram kom í frétt hér á vefnum í fyrra. Í júní hefti JDS (Journal of Dairy Science) er birt enn ein staðfestingin á því að geldstaða skiptir öllu þegar horft er til afurða á komandi mjaltaskeiði. Niðurstöðurnar að þessu sinni eru frá hollenskum vísindamönnum sem skoðuðu gögn 755 svartskjöldóttra kúa á 11 búum.
 
Fram kemur að sé geldstaðan ekki nema 3 vikur verður dagsnyt kúnna á næsta mjaltaskeiði 6-13 kg minni en þeirra kúa sem eru geldar í 35 daga, sé horft til afurðanna fyrstu 305 daga mjaltaskeiðsins. Vissulega er ekki hægt að heimfæra þessar tölur beint á íslenskar mjólkurkýr en þar sem meðalnyt hinna svarskjöldóttur kúa er um 60-70% meiri má líklega gera ráð fyrir því að þessi áhrif hér á landi nemi 3,5-8 kg á dag.
 
Vísindamennirnir benda jafnframt á að mikill breytileiki er í gögnunum sem bendir til þess að sumir bændur geta með góðri bústjórn ráðið við stutta geldstöðu mjólkurkúnna án þess að það hafi veruleg áhrif á nyt næsta mjaltaskeiðs. Þá kom einnig fram í rannsókninni að þrátt fyrir verulegan mun á nyt, var ekki teljandi munur á frumutölunni eftir lengd geldstöðunnar/SS.