
Gefur nautunum súkkulaði
09.12.2016
Nautgripirnir á kúabúinu Mayura í Ástralíu fá heldur betur óhefðbundið fóður en á búinu eru nautgripir af hinu afar sérstaka holdanautakyni Wagyu, en gripir þessir eru annálaðir fyrir að vera með bestu fitusprengingu allra holdanautagripa í heiminum. Þar sem Wagyu gripir safna fitu mjög jafnt og þétt inn í vöðva sína, og það í mun meira magni en önnur holdanaut, tíðkast víða að gefa þeim allskonar bragðbætandi fóður, enda er nokkuð auðvelt að hafa áhrif á bragðgæði fitunnar. Alþekkt er að gefa Wagyu nautum bjór að drekka en eins og áður segir er fóðrið á Mayura búinu enn óvenjulegra en það. Nautin fá nefninlega súkkulaði!
Það er bóndinn Scott de Bruin sem sem fékk þessa hugmynd en hann fóðrar nautin á 1-2 kílóum af Cadbury súkkulaðibitum á degi hverjum en auk þess fá þau hefðbundið gróffóður og korn. Fyrir vikið segir Scott þessi að þau vaxi heldur hægar og um leið verði kjötið einstaklega bragðgott. Þetta snýst auðvitað að hluta til um að skapa sér sérstöðu og óhætt er að segja að Scott hafi náð henni, enda eru föllin seld fyrir metfé og fá víst færri en vilja/SS.