Beint í efni

GEA kynnir byltingu á EuroTier

15.10.2012

Þegar landbúnaðarsýningin EuroTier opnar dyrnar 13. nóvember næstkomandi verður þar margt að sjá enda meira en 2 þúsund fyrirtæki að kynna þjónustu sína á þessari stærstu landbúnaðarsýningu ársins. Alltaf koma fram áhugaverðar nýjungar á sýningum sem þessum og nú þegar er farnar að berast upplýsingar um nýjungar sem vafalítið munu vekja áhuga kúabænda. Nýjungar þessar eru flokkaðar til gull-, silfur- og bronsverðlauna en margar nýjungar geta hlotið verðlaun í hverjum flokki. Til þess að fá gullverðlaun þarf þó að vera um byltingarkennda nýjung að ræða sem aldrei hefur áður sést.

 

Stórfyrirtækið GEA Farm Technologies, sem meðal annars framleiðir Westfalia mjaltatækin og MiOne mjaltaþjóninn áhugaverða, mun fá gullverðlaun á sýningunni fyrir nýjung sína GEA Dairy ProQ sem er mjaltaþjónn fyrir venjulega mjaltabása! Áður hefur DeLaval komið með sjálfvirka mjaltahringekju en GEA tekur með þessu skrefið inn í hefðbundna mjaltabása sem þegar hafa verið settir upp. Segir í tilkynningu félagsins að hægt sé að setja mjaltaþjóninn upp í hvaða mjaltabás sem þegar hefur verið byggður, hvort heldur sem um er að ræða þar sem kýr eru mjólkaðar frá hlið eða aftan frá.

 

Í kjölfar kaupa hins alþjóðlega GEA á Westfalia hefur legið í loftinu að félagið ætli sér að halda sér í fremstu röð innan mjaltatækni. Nú er vissulega of snemmt að segja til um hve vel GEA Dairy ProQ stendur sig, en ef tækið vinnur eins og GEA heldur fram þá er hér ekkert minna en bylting í mjaltatækni á ferð, sem líkja má við þá byltingu sem varð þegar mjaltaþjónar komu fyrst fram á markaðinn árið 1992, fyrir nákvæmlega tveimur áratugum/SS.