
GDT: sveiflur á uppboðsmarkaðinum
17.07.2019
Í gær fór fram uppboð á mjólkurvörum hjá GDT (Global Dairy Trade) og eftir nokkur uppboð þar sem verðið hafði lækkað, þokaðist það aftur upp á við í gær. Síðustu vikurnar hafa þó ekki orðið stórvægilegar breytingar á verðinu á heimsmarkaðinum, nokkuð stöðugt meðalverð en þó hafa einstakir verðflokkar mjólkurvara breyst. Allir flokkar sem voru boðnir til kaups hækkuðu á markaðinum í gær en engin afgerandi hækkun varð þó, líkt og markaðurinn væri að ná einhverju jafnvægi.
Eftir uppboðið í gær kostar nú tonnið af smjöri 4.406 dollara, tonnið af cheddar osti 3.869 dollara, tonnið af undanrennudufti 2.505 dollara og tonnið af mjólkurdufti 3.074 dollara. Verðstuðull heimsmarkaðsverðsins er eftir þessa breytingu kominn í 1.020 og meðalverð allra mjólkurvaranna er nú 3.412 dollarar.