Beint í efni

GDT: Ótrúleg byrjun ársins

07.02.2018

Í gær var haldið uppboð á mjólkurvörum hjá GDT (Global Dairy Trade) og hækkaði meðalverð mjólkurvara um 5,9% og byrjar þetta ár því hreint ótrúlega vel og hafa þrjú fyrstu uppboðin á þessu ári skilað verðhækkunum sem er afar mikilvægt fyrir útflutninginn þegar til lengri tíma er litið. Á þessu uppboði varð hækkun á öllum seldum vöruflokkum og hækkaði mjólkurduft og undanrennudfut ásamt smjöri um rúmlega 7% en aðrir flokkar minna. Þetta eru auðvitað afar jákvæð tíðindi enda þegar helstu mjólkurvörurnar hækka skapast aukið svigrúm til hækkunar á ferskvörum eins og t.,d. skyri. Nú fást 3.226 dollarar fyrir tonnið af mjólkurdufti og 5,277 dollarar fyrir tonnið af smjörinu .

Í heildina var á þessum markaði verslað með 22 þúsund tonn sem er svipað magn og verið hefur undanfarið og nam meðalverð viðskiptanna 3.553 dollurum á tonnið og nam heildarverðmæti viðskiptanna á þessu eina uppboði því 8 milljörðum íslenskra króna. Verðstuðull heimsmarkaðsverðsins er nú 1.061 stig sem er svipað því sem verðið var um mitt síðasta ár en í kjölfar þess gengis fengu bændur víða í Evrópu hæsta afurðastöðvaverð sem greitt hefur verið í langan tíma. Hvort þetta gengi á heimsmarkaðinum í janúar sé undanfari slíkst skal ósagt látið og rétt að minna á að árið 2015 rauk gengið hátt upp á stuttum tíma en hrundi svo hratt aftur og leiddi það til afar lágs afurðastöðvaverðs og hruns í greininni víða. Til þess að fræðast nánar um uppboðið má smella hér/SS