
GDT: örlítil hækkun
09.06.2017
Á þriðjudaginn var haldið uppboð mjólkurvara hjá GDT (Global Dairy Trade) og hækkaði heimsmarkaðsverð mjólkurvara á þeim markaði um 0,6%. Þetta er sjötta hækkunin á markaðinum í röð, en þó sú minnsta, og hefur verðstuðull GDT nú því hækkað þrjá mánuði í röð. Verðstuðullinn er nú kominn í 1.096 stig eftir þessa hækkun.
Alls nam heildarsalan á þessum uppboðsmarkaði 22 þúsund tonnum og sem fyrr hélt smjör áfram að hækka og er nú verðið á smjörtonninu komið í 5.631 dollara. Þetta gríðarlega háa verð á smjöri er nú þegar farið að sjást í verðlagi víða um heim en til að mynda hafa bakarar víða þurft að hækka vörur sínar vegna óvenju hás smjörverðs. Á sama tíma heldur svo verð á mjólkurdufti áfram að lækka og endaði meðalverð uppboðsins á 3.143 dollurum/tonnið en gleðilegu tíðindin af markaðinum eru þau að undanrennuduft er nú loks aftur á uppleið eftir að hafa verið í djúpri lægð. Á markaðinum nú fengust 2.156 dollarar fyrir tonnið.
Sem fyrr bendum við á einkar upplýsandi heimasíðu GDT: www.globaldairytrade.info/SS.