
GDT: heimsmarkaðsverðið lækkaði
21.03.2018
Í gær var haldið uppboð á mjólkurvörum hjá GDT (Global Dairy Trade) og lækkaði meðalverð mjólkurvaranna um 1,2% og eftir hreint ótrúlega góða byrjun á árinu með þremur góðum hækkunum í röð hefur nú síðustu þrír uppboðsmarkaðir sent heimsmarkaðsverðið heldur niður á við á ný. Á þessu uppboði í gær varð lækkun á nánast öllum vöruflokkum en mjólkurduft hækkaði þó um 0,1%. Mest lækkaði undarrennuduft eða um 8,6% en þess ber reyndar að geta að það hækkaði verulega á uppboðinu fyrir hálfum mánuði sem var þvert á allar spár þar sem mikið framboð er á undanrennudufti víða um heim um þessar mundir. Þrátt fyrir lækkunina í gær má í raun fullyrða að heimsmarkaðsverðið hafi verið nokkuð stöðugt síðustu 16 mánuði og síðan 1. nóvember 2016 hefur verðstuðull mjólkurvara á heimsmarkaði verið þetta í kringum 950-1.050.
Sé litið til einstakra vöruflokka þá fást núna 3.226 dollarar fyrir tonnið af mjólkurdufti og 5,281 dollarar fyrir tonnið af smjörinu . Í heildina var á þessum markaði verslað með 19 þúsund tonn og nam meðalverð viðskiptanna 3.632 dollurum á tonnið og nam heildarverðmæti viðskiptanna á þessu eina uppboði því um 6,7 milljörðum íslenskra króna á gengi gærdagsins. Verðstuðull heimsmarkaðsverðsins er nú 1.036 stig. Til þess að fræðast nánar um uppboðið má smella hér/SS