Beint í efni

GDT: heimsmarkaðsverð lækkar

22.11.2017

Í gær var haldið uppboð hjá GDT, Global Dairy Trade,  í Nýja-Sjálandi og endaði heildarniðurstaða uppboðsins með því að heimsmarkaðsverð mjólkurvara lækkaði um 3,4% frá fyrra uppboði. Þetta var uppboð nr. 200 frá upphafi þessa sterka og leiðandi uppboðsmarkaðar mjólkurvara. Meðalverðið lækkaði nú í fjórða skipti í röð og líkt og fyrir tveimur vikum þá var það markaðsverðið á smjöri sem gaf verulega eftir eða um 5,9%. Þó svo að verðlækkunin sé veruleg, er heimsmarkaðsverð á smjöri enn töluvert hátt og t.d. hærra en það var sl. vor. Þá lækkaði hleypt kasein prótein einnig mikið í verði, en þetta prótein er unnið úr undanrennu með því að setja hleypi í hana. Alls námu viðskipti með hleypt kasein 4,5 þúsund tonnum og lækkaði það um 12,6% frá fyrra uppboði. Verð á þessu hráefni er nú með því lægsta sem hefur verið síðustu fimm ár.

Í heildina var á þessum markaði verslað með 35 þúsund tonn á þessum uppboðsmarkaði í 139 viðskiptum. Verðstuðull heimsmarkaðsverðsins er nú 969 stig en þegar heimsmarkaðsverðið hrundi sumarið 2015 fór þessi stuðull lægst í 514 stig. Ef þú vilt fræðast nánar um uppboðið, getur þú smellt hér/SS.