Gæðakönnun á nautahakki
12.03.2010
Í framhaldi af umræðum um gæði á nautahakki ákváðu Landssamband kúabænda og Neytendasamtökin að gera gæðakönnun á þessari vöru. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðneytið styrkti verkefnið að hluta. Matís sá um framkvæmd könnunarinnar. Könnunin náði til átta tegunda nautahakks.
Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:
1. Þrátt fyrir fullyrðingar um annað reyndist ekkert sýnanna innihalda aðrar kjöttegundir en nautakjöt.
2. Ekki fannst sojaprótein í neinum sýnanna, en því hefur einmitt oft verið haldið fram að kjötiðnaðarstöðvar drýgi nautahakk með sojapróteini.
3. Í sex sýnum var viðbætt vatn og í einu tilvikanna kom það ekki fram á umbúðum. Gjarnan er í slíkum tilvikum bætt við kartöflutrefjum. Fram kemur í skýrslu Matís að endurskoða þurfi reglugerð um kjöt og kjötvörur og taka bæði samtökin undir það. M.a. er bent á að reglugerðin sé óljós varðandi viðbætt vatn.
4. Það er skoðun Landssambands kúabænda og Neytendasamtakanna að ekki eigi að heimila að að bæta öðrum efnum í nautahakk, án þess að slíkt komi skýrt fram í vöruheiti og innihaldslýsingu.
5. Í of mörgum tilvikum voru merkingar á umbúðum ekki í samræmi við gildandi reglur. Þessu verða kjötiðnaðarstöðvar og verslanir að kippa í liðinn tafarlaust.
6. Í einu tilviki er nafngift vörunnar nautaveisluhakk. Matís bendir réttilega á að með slíkri nafngift sé gefið til kynna aukin gæði. Því er óeðlilegt að í slíka vöru séu notaðar kartöflutrefjar.
7. Í tveimur tilvikum reyndist fituinnihald meira en gefið er upp á umbúðum. Slíkt er að sjálfsögðu óásættanlegt enda varðar það við lög.
Það er niðurstaða skýrslunnar að flestir þættir sem kannaðir voru varðandi nautahakk séu í lagi, þó eru nokkur atriði sem þarf að laga nú þegar. Þessar niðurstöður leysa opinbera eftirlitsaðila ekki á nokkurn hátt frá þeirri skyldu sinni, að sjá til þess að ákvæði laga og reglna um matvæli, sem og aðrar neysluvörur sé framfylgt.
Sjá skýrslu Matís í heild sinni hér (PDF-skjal).
Er einnig á heimasíðu Neytendasamtakanna, www.ns.is