Fyrstu niðurstöður ætternisprófana á kynbótagripum
28.10.2009
Síðastliðin tvö ár hafa miklar breytingar orðið á vinnuferlum varðandi skýrsluhald og gagnasöfnun fyrir sameiginlegt ræktunarstarf í nautgriparækt og mikil vinna lögð í að endurskoða alla verkferla með það að markmiði að auka öryggi kynbótastarfsins. Hluti af þessari endurskipulagningu er notkun DNA greininga til staðfestingar á ætterni þeirra gripa sem við notum í ræktunarstarfinu. Með tilkomu nýrrar nautastöðvar voru sett þau markmið að ætternisgreina alla kálfa sem koma inn á nautastöðina á Hesti. Talsverða undirbúningsvinnu þarf áður en slík próf eru tilbúin til notkunar en síðastliðið vor var gerður samningur við Matís-Prokaria um að taka að sér greiningar vegna ætternisprófana. Fyrstu niðurstöður DNA greininga hafa nú verið yfirfarnar. Í þessu fyrsta sýnaholli voru teknir fyrir flestir af eldri sonum Gosa 00-032, Náttfara 00-035, Spotta 01-028, Kappa 01-031, Alfons 02-008, Skurðar 02-012 og Umba 98-036.
Að loknum þessum fyrstu greiningum hefur komið í ljós að ekki er hægt að staðfesta Gosa 00-032 sem föður ungnautsins Þokka 08-024. Í slíkum tilfellum er venja að senda nýtt sýni til greiningar en þar sem niðurstöður DNA prófsins eru, í þessu tilfelli, óyggjandi var Þokki strax tekin úr dreifingu. Við nánari eftirgrenslan hefur einnig komið í ljós að raunverulegur faðir Þokka er Hófssonur notaður sem heimanaut á upprunabúi Þokka og verðu ætternið leiðrétt í samræmi við það. Ekki var búið að nota marga skammta úr Þokka en örfáar sæðingar eru þó skráðar við nautinu.
Þessa daga er unnið að því að senda í greiningu sýni úr öllum ungnautum sem og reyndum nautum sem eru í notkun ásamt sýnum úr feðrum svo hægt sé að staðfesta ætterni þessara gripa eins fljótt og mögulegt er. Ættu niðurstöður þessara greininga að vera komnar í hús fyrir áramótin og þar með staðfesting á ætterni þeirra nauta sem eru í notkun í dag. Einnig verða tekin sýni úr öllum lifandi nautsmæðrum nauta sem komið hafa inn árin 2008 og 2009 til að staðfesta faðerni þeirra. Verður héðan í frá gerð krafa um stroksýni úr móður við töku kálfs inn á nautastöð Bændasamtaka Íslands.
Það mál sem nú kemur upp varðandi Þokka sýnir okkur glögglega hversu brýn þörf er á að gera próf sem þessi. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að rangar ættfærslur liggja oft á bilinu 5-10%.
Val nautsmæðra byggir að hluta til á ætterni gripana og skipulag afkvæmaprófana gerir kröfu um það að við séum viss um ætterni þeirra gripa sem sendir eru út til bænda. Mikilvægi góðra og réttra ætternisfærsla er því sýst orðum aukið. Tilkoma DNA prófana til staðfestingar á ætterni kynbótagripa mun því koma til með að styrkja til muna sameiginlegt ræktunarstarf í nautgriparækt á Íslandi.
Hafi bændur áhuga á að senda DNA próf á eigin gripum til að staðfesta ætterni er hægt að hafa samband við Gunnfríði Elínu í gegnum tölvupóst geh@bondi.is til að fá nánari upplýsingar um slíkt.
Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Magnús B. Jónsson
Nautgriparæktarráðunautar Bændasamtaka Íslands