Beint í efni

Fyrstu mánuðirnir hafa áhrif á æviafurðir

13.02.2018

Áhugaverð dönsk rannsókn, sem unnin var af ráðgjafafyrirtækinu SEGES, bendir til að fyrstu mánuðir ævinnar hafi sterk áhrif á æviafurðir kýrinnar. Ef vöxtur kvígunnar er góður á þessum fyrstu mánuðum ævinnar og ef hún veikist ekki á þessu tímabili þá stóraukist líkurnar á því að heildarafurðir hennar verði meiri en þeirra sem vaxa minna eða veikjast á mjólkurfóðrunartímanum.  Uppeldi kúa er af afar kostnaðarsamt og í Danmörku er reiknaður kostnaður við að „framleiða“ kú 10.000 danskar krónur eða um 170.000 íslenskar krónur. Það er því mikilvægt að nýta kúna vel þegar hún loks byrjar að skila af sér tekjum.

Rannsóknin sýnir jafnframt að í Danmörku er gríðarlega mikill munur á milli kúabúa þegar horft er til endingar kúa á fyrsta mjaltaskeiði. Danirnir nota sérstakt viðmið sem felst í því að telja saman hve margar af lifandi fæddum kvígum eru í mjólkurframleiðslu 60 dögum eftir fyrsta burð og er niðurstaðan 86% fyrir meðaltal bestu 25% búanna. Á hinum enda skalans er þetta hlutfall hins vegar mun lægra eða 74% og bendir þessi mikli munur á milli besta fjórðungsins og slakasta fjórðungsins að verulega megi bæta úr. Einkar fróðlegt væri að sjá sambærilegar tölur hér á landi/SS.