Beint í efni

Fyrsti mjaltaþjónninn í langan tíma

20.07.2010

Síðastliðin tvö ár hafa ekki verið fluttir mjaltaþjónar til landsins í kjölfar efnahagsástandsins, enda nemur slík fjárfesting tugum milljóna króna með allri aðstöðu sem slíku mjaltatæki fylgir. Nú hefur verið gengið frá kaupum á einum mjaltaþjóni, sem er af gerðinni DeLaval VMS 2010 og verður hann settur upp með haustinu í kúabúi á Suðurlandi.

 

Í dag eru í landinu mjaltaþjónar á nærri 100 kúabúum og eru nokkur bú með fleiri en einn mjaltaþjón. Í samantekt NMSM (norrænt samstarf afurðastöðva um mjólkurgæði) kemur fram að

ef miðað er við að hver mjaltaþjónn sinni 50 kúm þá er u.þ.b. fimmta hver kýr á Íslandi mjólkuð með mjaltaþjóni.

 

Í ljósi upplýsinga úr skýrsluhaldi BÍ má lesa út að þau kúabú sem eru með mjaltaþjóna eru að jafnaði með hærri meðalafurðir en kúabú með hefðbundin mjaltatæki. Ætla má því að af allri framleiddri mjólk á Íslandi þá sé fjórðungur hennar framleiddur af kúm sem eru mjólkaðar af sjálfvirkum mjaltatækjum, sem er hæsta hlutfall mjólkur úr mjaltaþjónum sem þekkist í heiminum.