Beint í efni

Fyrsti haustfundur LK á Hvanneyri

20.10.2012

Fyrsti haustfundur Landssambands kúabænda var haldinn í matsal Landbúnaðarháskólans í fyrrakvöld. Um 40 manns mættu á fundinn, þar sem formaður og framkvæmdastjóri samtakanna fóru yfir helstu mál sem unnið er að þessi misserin. Þá fór Auður Lilja Arnþórsdóttir, sóttvarnadýralæknir hjá Matvælastofnun yfir stöðu mála varðandi smitandi barkabólgu í nautgripum sem greinst hefur á Egilsstöðum á Völlum og í einum grip sem gefinn var þaðan til Fljótsbakka í Eiðaþinghá. Talsverðar umræður voru um mögulegar smitleiðir og ýmsir möguleikar ræddir í því sambandi. Óvíst er þó með öllu hvort nokkurn tímann verði hægt að ákveða með óyggjandi hætti hvernig smit kann að hafa borist.

Þá voru talsverðar umræður um breytingar á mjólkursamningnum, afkomu búgreinarinnar og stöðu verðlagsmála. Stöðu umsóknar Íslands að ESB bar einnig á góma og talsvert rætt um fálmkennd vinnubrögð stjórnvalda við mótun á samningsafstöðu og hve máttlaus varðstaða þeirra er um íslenska hagsmuni á flestum sviðum. Nokkuð var rætt um drög að leiðbeiningum um góða framleiðsluhætti og hvaða þýðingu þau kynnu að hafa fyrir bændur hér á landi. Fundarmenn lýstu ánægju með fyrirhugaða veffræðslu LK sem senn verður hleypt af stokkunum. Umræður um horfur í nautakjötsframleiðslu hefðu mátt vera meiri, en fram kom að samdráttur í ásetningi nautkálfa er um 8% það sem af er ári. Þá lýsti einn fundarmanna yfir vonbrigðum með að atvinnuvegaráðherra hefði ekki haft tök á að mæta til fundarins til að fylgja breytingum á mjólkursamningi eftir, ásamt því að lýsa framtíðarsýn sinni á horfur greinarinnar, sem æskilegt væri að gera á tímamótum sem þessum.

 

Næsti haustfundur Landssambands kúabænda verður haldinn í Árhúsum á Hellu n.k. mánudagskvöld kl. 20.30./BHB

 

Hluti fundarmanna á Hvanneyri hlýðir á framsögu formanns LK