Beint í efni

Fyrirsjáanleiki tryggður við úthlutun tollkvóta

18.11.2021

Í tilefni af nýuppkveðnum dómi Hæstaréttar í máli nr. 22/2021 þá vill stjórn Bændasamtaka Íslands koma eftirfarandi á framfæri:

Niðurstaða dóms Hæstaréttar felur í sér niðurstöðu í máli sem tekist hefur verið á um allt frá árinu 2019 og sneri að lögmæti gjaldtöku fyrir tollkvóta vegna innflutnings á kjötvörum á árinu 2018. Fjölmörg dómsmál hafa áður verið rekin vegna úthlutunar tollkvóta á grundvelli búvöru- og tollalaga þar sem ágreiningur hefur snúið að því hvort ákvæði laganna á hverjum tíma hafi falið í sér viðhlítandi heimild til skattheimtu í samræmi við ákvæði stjórnarskrár.

Með dómi Hæstaréttar er því slegið föstu að með skattlagningu sem fólgin er í gjaldtöku fyrir tollkvóta stefni löggjafinn að tilteknum lögmætum markmiðum samkvæmt 1. gr. búvörulaga. Svigrúm löggjafans við val á leiðum að þeim markmiðum hefur þar með verið viðurkennt, enda væri gætt að grundvallarsjónarmiðum stjórnarskrár um skattlagningu. Framkvæmdin, þ.e. á grundvelli útboðs, hafi uppfyllt kröfur stjórnarskrár,verið gerð á jafnréttisgrundvelli og í samræmi við reglur sem gilda m.a. um útflutningsafurðir Íslendinga til Evrópu. Í ljósi niðurstöðunnar er nú loks búið að skýra leikreglurnar með þeim hætti að fyrirsjáanleiki er nú tryggður við framkvæmd úthlutunar tollkvóta. Slíkur fyrirsjáanleiki er til hagsbóta fyrir alla sem koma að innflutningi matvæla og framleiðenda þeirra.