Fyrirmyndarbú í framkvæmd 1. janúar 2017
02.05.2016
Stefna LK og SAM um Fyrirmyndarbú – leiðbeiningar um góða búskaparhætti á kúabúum var kynnt á aðalfundi LK á Egilsstöðum árið 2013 og afgreidd á aðalfundi samtakanna 2014 í Reykjavík. Stefnunni um Fyrirmyndarbú var dreift til bænda á útmánuðum 2015 og hefur hún verið aðgengileg hér á naut.is frá þeim tíma. Undirbúningur að framkvæmd verkefnisins hófst þá og sér nú fyrir endann á honum.
Ætlunin er að hrinda verkefninu í framkvæmd frá 1. janúar 2017 og verður m.a. skilyrði fyrir greiðslu á gæðaálagi fyrir mjólk að framleiðandi hafi staðist úttekt vegna þess. Undir flipann „Fyrirmyndarbú“ hér vinstra megin á síðunni eru komnir gátlistar fyrir framleiðendur og mjólkureftirlit, auk draga vinnuleiðbeiningum fyrir úttektaraðila. Bændur eru hvattir til að kynna sér þessi gögn; markmið LK í framtíðinni er að öll bú verði Fyrirmyndarbú./BHB