Beint í efni

Fyrirlestur um byggsjúkdóma á Íslandi

20.01.2009

Miðvikudaginn 28. janúar kl 14:30 mun Tryggvi Sturla Stefánsson segja frá MS verkefni sínu „Byggsjúkdómar á Íslandi: Tegundagreining, sýkingarhæfni og erfðafjölbreytileiki helstu sjúkdómsvalda“.  Fyrirlesturinn verður haldinn í Ársal, 3. hæð í Ásgarði aðalbyggingu Landbúnaðarháskóla Íslands, Hvanneyri.  Fyrirlesturinn er öllum opinn.

Ágrip - Sýnum af sýktum byggplöntum var safnað víðsvegar að af landinu með það fyrir augum að greina tegundafjölbreytileika sveppa á byggi. Tólf sveppategundir fundust, þar á meðal tveir vel þekktir byggsýklar, R. secalis og P. teres sem valda augnblett og byggbrúnflekk. Erfðafjölbreytileiki R. secalis og P. teres stofnanna var skoðaður og borinn saman við aðra stofna. Niðurstöður sýndu fram á mikinn erfðafjölbreytileika innan íslensku stofnanna og meiri aðgreiningu milli íslenskra og evrópskra stofna en gert var ráð fyrir. Sýkingarhæfni R. secalis og P. teres stofnanna var metin á völdum byggyrkjum og fannst mikill breytileiki hjá báðum tegundum hvað sýkingarhæfni varðar. Ekkert af þeim byggyrkjum sem mest er notað á Íslandi í dag var þolið gegn blöndu íslenskra P. teres afbrigða. Niðurstöðurnar benda til þess að íslenskir R. secalis og P. teres stofnar búi yfir miklum breytileika og hafi þar af leiðandi umtalsverða þróunarhæfni, sem gerir þá að erfiðum plöntusýklum. Byggt á þessum rannsóknum er mælt með því að nota magnbundnar varnir ásamt varnargenum í yrkjablöndum og fjöllínum til að ná fram varanlegu þoli gagnvart R. secalis og P. teres á Íslandi.

Prófdómari er Dr. Arnar Pálsson, dósent í þróunarfræði við Háskóla Íslands. Leiðbeinandi er Dr. Jón Hallsteinn Hallsson, lektor við LbhÍ.  Í MS nefnd eru Dr. Áslaug Helgadóttir, prófessor við LbhÍ og Jónatan Hermannsson, lektor við LbhÍ.