Beint í efni

Fyrirhugað að “teikna” Greiðslustofnun landbúnaðarstuðnings

28.01.2011

Í gær voru birt á heimasíðu utanríkisráðuneytisins skjöl vegna rýnifundar um landbúnað, sem fram fór í Brussel í Flæmingjalandi dagana 24.-27. janúar sl. Skjöl þessi eru greinargerðir sem samningahópur um landbúnaðarmál hefur komið að því að semja. Greinargerðirnar skiptast í eftirfarandi þætti:

Auk þess var gefin munnleg yfirlýsing á fundinum, sem svar við fyrirspurn framkvæmdastjórnar ESB. Hana er að finna hér.

Í greinargerð A. um beingreiðslur er fjallað um löggjöf ESB sem varðar beingreiðslur til bænda úr fyrri stoð sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar (CAP), skilyrði fyrir greiðslu þeirra og eftirlit með því að bændur uppfylli þau skilyrði. Ennfremur er gerð grein fyrir sérstöku fyrirkomulagi sem fjarlæg svæði (e. outermost regions) og grísku eyjarnar njóta innan kerfisins. Að lokum er gerð grein fyrir reglum sambandsins um ríkisaðstoð til viðbótar stuðningi úr sameiginlegu landbúnaðarstefnunni.

 

Grundvallarmunurinn á kerfi ESB og íslenska landbúnaðarkerfinu liggur í því að ESB hefur að mestu aftengt stuðningsgreiðslur frá búvöruframleiðslu, en hér eru flestir landbúnaðarstyrkir framleiðslutengdir, beint eða óbeint. Innan ESB er stuðningur að mestu greiddur út á land – þar sem akuryrkja gegnir mikilvægu hlutverki, enda þótt gripagreiðslur tíðkist ennþá í sauðfjárbúskap og nautgriparækt til kjötframleiðslu. Vegna aðstæðna á Íslandi
er hins vegar kvikfjárrækt algengust og akuryrkja mun veigaminni. Framkvæmd og eftirlit er þá gjörólíkt.

 

Verði af aðild, þýðir það algerlega nýtt starfsumhverfi og lagaumgjörð fyrir landbúnað á Íslandi. Endurskoða þyrfti öll lög sem varða framkvæmd landbúnaðarkerfisins og gera grundvallarbreytingar á stjórnsýslu landbúnaðarmála. Ákveða þarf fyrirkomulag og skiptingu beingreiðsluréttar innan nýs kerfis og koma á fót samþættu stjórnsýslu- og eftirlitskerfi.

 

Í greinargerð B. er fjallað um löggjöf ESB sem varðar fjármögnun sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar, stjórnsýslu hennar og stofnanakerfi sem setja þyrfti á fót innanlands,
gjaldmiðilsmál í þeim tilvikum þegar aðildarríkin hafa ekki tekið upp evruna, búreikningakerfi ESB og tilkynningar til framkvæmdastjórnarinnar um framkvæmd landbúnaðarstefnunnar.

 

Sameiginleg landbúnaðarstefna ESB er fjármögnuð af tveimur sjóðum en tekjur þeirra koma af almennum fjárlögum ESB. Vegna stuðnings við dreifbýlisþróun leggja aðildarríkin fram
mótframlag. Verði af aðild, þýðir það nýtt stjórnsýsluumhverfi og lagaumgjörð fyrir landbúnað á Íslandi. Stjórnsýslu landbúnaðarins á Íslandi er ólíkt fyrir komið samaborið við
reglur ESB. Mestu munar þar um að aðildarríkin fela stjórnvaldi hlutverk greiðslustofnunar sem tekur við fé úr landbúnaðarsjóðum ESB og annast greiðslu stuðnings. Uppsetning slíkrar stofnunar krefst mikils undirbúnings. Gera má ráð fyrir að stjórnsýsla landbúnaðarins verði umfangsmeiri og kostnaðarsamari en hún er í dag.

Íslenska búreikningakerfið byggir í meginatriðum á sama grunni og búreikningakerfi ESB. Umfangsmikil tilkynningaskylda til ESB, til að fylgjast með framboði og eftirspurn og þróun landbúnaðarins, yrði nýmæli.

 

Greinargerð C. Sameiginlegur markaður.

Samningahópur um landbúnaðarmál hefur unnið greinargerð um helstu atriði sem hafa þarf í huga er varðar landbúnaðarlöggjöf ESB um markaðsskipulag, utanríkisviðskipti (tollar o.fl.),
stuðningur við markaðssetningu, gæðamál og lífrænn landbúnaður. Í greinargerðinni er fjallað um löggjöf ESB sem varðar markaðsskipulag innri markaðarins fyrir landbúnaðarvörur og reglur um inn- og útflutning landbúnaðarvara. Ennfremur er fjallað um stuðning við markaðssetningu landbúnaðarvara sem nýtur mótframlaga frá ESB, reglur um verndun landfræðilegra merkinga og hefðbundinna sérrétta og reglur um lífræna landbúnaðarframleiðslu.

Skipulag innri markaðarins er frábrugðið þeim markaðsráðstöfunum sem viðhafðar eru á Íslandi. Um breytt markaðsumhverfi yrði að ræða við innleiðingu á CAP. Markaðsstuðningur við landbúnað á Íslandi felst fyrst og fremst í tollvernd. Á innri markaði ESB er landbúnaður verndaður af tollum gagnvart þriðju ríkjum. Aðildarríkum ESB er hins vegar óheimilt að leggja á tolla í viðskiptum sín í milli.

 

Greinargerð D. Dreifbýlisþróun.

Stefnu um dreifbýlisþróun er ætlað að bæta upp stefnu um markaðs- og tekjustuðning innan hinnar sameiginlegu landbúnaðarstefnu ESB (CAP) með því að hlúa að verkefnum sem ýta undir samkeppnishæfni, bætta landnotkun, aukin lífsgæði og fjölbreytni í atvinnuháttum í dreifbýli. Hér á landi er engin sambærileg heildstæð stefna, en nokkra samsvörun má finna í störfum Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, skógræktar- og landgræðsluverkefnum og stuðningi við gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Innleiðing stefnunnar á Íslandi kallar á nokkrar réttarbætur.

Sex megingerðir setja fram markmið stefnunnar, skilgreina hlutverk Evrópska landbúnaðarsjóðsins fyrir dreifbýlisþróun (e. European Agricultural Fund for Rural Development – EAFRD), lýsa skipulagi stefnumótunar, framkvæmdar og eftirlits. Innan þess ramma sem ákveðinn er sameiginlega af aðildarríkjum ESB mótar hvert ríki innlenda dreifbýlisþróunarstefnu sem tekur mið af aðstæðum á hverjum stað. Að þeirri stefnumótun þurfa að koma stjórnvöld, hagsmunasamtök og sérfróðir aðilar.

 

Í munnlegri yfirlýsingu varðandi löggjöf og stjórnsýslu sem gefin var á fundinum, vekur eftirfarandi nokkra athygli:

 

„Í kringum okkar landbúnað er nú þegar rekið stjórnsýslukerfi, sem m.a. sinnir beingreiðslum, eftirliti, öflun upplýsinga og utanumhaldi þeirra. Stjórnsýsla þessi er sniðin að innlendum aðstæðum, umfangi og eðli landbúnaðarins. Einmitt af þessum sökum, hefur verið mörkuð sú stefna, að breyta ekki
íslenskri stjórnsýslu, eða lögum fyrr en fyrir liggur að aðildarsamningur hafi verið samþykktur
í
þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi.

 

Verið er að ganga frá umsókn um Taiex sérfræðiaðstoð, til að vinna með innlendum sérfræðingum við að greina stjórnsýslugetu við landbúnað á Íslandi og aðstoða íslenska sérfræðinga m.a. við að teikna upp greiðslustofnun sem uppfyllir kröfur CAP á sem einfaldastan og hagkvæmastan hátt“.

 

Í hinni munnlegu yfirlýsingu segir einnig að „[h]luti af sérfræðiaðstoðinni felst í því að byggja upp þekkingu á stofnanakerfi CAP innan íslensku stjórnsýslunnar þannig að hægt verði að bregðast hratt við og gera allar nauðsynlegar laga- og stjórnsýslubreytingar þannig að allt verði til reiðu frá gildistöku aðildar hafi aðildarsamningur verið samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi.

 

Ef tekið er mið af því sem fram kemur í greinargerðunum hér að framan, virðist annað tveggja þurfa að koma til, ef síðasta tilvitnun í yfirlýsingunni á að ná fram að ganga:

 

Margfalt lengri tími muni líða frá því að aðildarsamningur er samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu og þar til Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu, heldur en annars staðar eru dæmi  um, eða þá að hraði málsmeðferðar íslenskrar stjórnsýslu og Alþingis verður á áður óþekktum skala.