Beint í efni

Fyrirframgreiðslur til eflingar kornræktar hafa verið greiddar

20.06.2023

Matvælaráðuneytið hefur nú greitt út fyrirframgreiðslur vegna kornræktar til þeirra sem sóttu um jarðræktarstyrki. Samtals fá 48 bú fyrirframgreiðslu sem samanlagt eru með 1.048 hektara lands í kornrækt. Greiddar voru 9.946 krónur á hvern hektara eða 25% jarðræktarstyrks ársins 2022.

Byggir fyrirframgreiðslan á tillögum um eflingu kornræktar sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra kynnti í mars sl. Tillögurnar voru unnar af Landbúnaðarháskóla Íslands og kemur þar fram að áætlaður kostnaður við kornrækt á Íslandi sé sambærilegur við nágrannalönd. Að auki liggja helstu styrkleikar íslenskrar kornræktar í frjósömu og ódýru ræktarlandi, lágum raforku- og heitavatnskostnaði, og lágum kostnaði við varnarefni. Einnig benda niðurstöður til að nýting jarðvarma til að þurrka korn sé bæði raunhæfur og hagkvæmur kostur.

Næsta greiðsla vegna jarðræktarstyrkja verður greidd út í desember á þessu ári að lokinni úttekt á vegum búnaðarsambanda, sem annast úttekt fyrir hönd ráðuneytisins. Uppskera er forsenda fyrir greiðslu jarðræktarstyrks.