
Fundur um bótarétt og eignarnám vegna framkvæmda
08.02.2009
Bændasamtök Íslands hafa boðað til kynningarfundar í framhaldi af ályktun Búnaðarþings 2008 um bótarétt vegna framkvæmda í almannaþágu og framkvæmd eignarnáms. Fundurinn verður haldinn í Bændahöllinni í Reykjavík, salnum Princeton á 2. hæð, mánudaginn 9. febrúar nk. kl. 13:30 og er bændum og öðrum landeigendum, fulltrúum sveitarfélaga, Sambands íslenskra sveitarfélaga og fyrirtækja á sviði línulagna sérstaklega boðið á hann. Frummælandi verður Karl Axelsson hrl.
Bændur og aðrir landeigendur hafa orðið áþreifanlega varir við auknar verklegar framkvæmdir á undanförnum árum, bæði í almannaþágu og á vegum einkaaðila, svo sem vegna virkjana, vegagerðar, línulagna, efnistöku og fleira. Þessar framkvæmdir snerta hagsmuni landeigenda og valda oft óhagræði við landnotkun. Í sumu tilvikum rýra þær verðmæti jarða eða draga úr möguleikum eigenda á að ráðstafa landi sínu. Stjórnvöld hafa lagaheimildir til slíkra framkvæmda, til dæmis í vegalögum, orkulögum og víðar.
Lengst af voru slíkar framkvæmdir það umfangslitlar að áhrif þeirra voru minniháttar, auk þess sem landeigendur litu gjarnan á það sem þegnskap að leggja til land fyrir litlar bætur. Með auknum og umfangsmeiri framkvæmdum og í ljósi þess að grunnþjónusta í almannaþágu er uppfyllt koma önnur sjónarmið til sögunnar. Það horfir til dæmis öðruvísi við þegar einkafyrirtæki beitir þessum lagaheimildum til þess að fara um eignarlönd með framkvæmdir.
Bændasamtökin hafa sett fram tillögur í fimm liðum sem hafa beri að leiðarljósi við framkvæmdir:
1. Að við undirbúning framkvæmda í almannaþágu verði farið eftir fyrirfram ákveðnu skipulagi þar sem kveðið er á um samráð og samkomulag við landeigendur og aðkomu Matsnefndar eignarnámsbóta.
2. Að ef breytingar eru gerðar á eldri mannvirkjum og ef eigendaskipti verða á mannvirkjum þá verði samningsréttur landeigenda virtur.
3. Að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á vegalögum og lögum um fjarskipti, sbr. ályktun Búnaðarþings 2008.
4. Að teknar verði upp árlegar leigugreiðslur fyrir afnot af landi í stað eingreiðslu eins og tíðkast hefur.
5. Að ávallt verði unnið í fullu samráði við landeigendur þegar skipulag framkvæmda á sér stað.