Fundargerðir Félags kúabænda á Suðurlandi komnar á vefinn – ályktun félagsráðs frá 7. des.
06.01.2011
Fundargerðir félagsráðs Félags kúabænda á Suðurlandi frá 28. september og 7. desember sl. eru nú komnar á netið. Þá samþykkti fundurinn 7. des. svofellda ályktun um verðlagsmál, sem send var fulltrúum í verðlagsnefnd búvöru:
“Félagsráð Félags kúabænda á Suðurlandi lýsir þungum áhyggjum yfir stöðu kúabænda ef ekki tekst að leiðrétta lágmarksverð mjólkur. Það vill eindregið hvetja verðlagsnefnd til að líta á hversu alvarleg staðan í greininni getur orðið ef ekki tekst að koma leiðréttingu á lágmarksverði mjólkur fram sem fyrst.
Það er löngu orðið tímabært að leiðrétta lágmarksverð mjólkur það hefur ekki verið leiðrétt í rúm 2 ár. Hækkunarþörfin var 8,65% eða 6,15 kr/l samkvæmt verðlagsgrundvelli kúabús frá 1. september sl. og þá er ekki tekið tillit til leiðréttingu á fjármagnsliðum sem geymd hefur verið frá verðlagningu 1. apríl 2008 en hún var þá metin á 2,79 kr/l.
Afkoma kúabænda hefur þyngst verulega undanfarið. Því hefur lengi verið haldið fram með réttu að staða kúabænda sem stóðu í framkvæmdum (fjósbyggingum) á árunum fyrir hrun sé erfið. En nú er svo komið að þeir bændur sem sigldu nokkuð lygnan sjó úr hruninu með tiltölulega viðráðanlega skuldastöðu eiga í vaxandi greiðsluerfiðleikum með búreksturinn. Verðhækkanir í tugum prósenta hafa dunið yfir greinina eins og skúraský og það virðist ekkert lát á því, kjarnfóðurhækkanir í september s.l. 4% – 10% og nú um síðustu mánaðarmót hækkun um 2% -8%. Þá er talað um verulega hækkun á áburðarverði á næsta ári.
Auk þess sem að framan er upptalið er gengið ofan í gerða samninga eins og framlag ríkisins til Lífeyrissjóðs bænda. Það nam 8% af viðmiðunartekjum bænda en var fellt niður 1.júlí sl. Það er ekkert annað en kjaraskerðing , en á sínum tíma kom þetta framlag ríkisins til Lífeyrissjóðs bænda í stað verðhækkana á afurðum, að fella niður framlag í Lífeyrissjóð bænda er hrein kjaraskerðing á bændur. Skerðing á framlagi ríkisins til búnaðarlagasamningsins þýðir ekki annað en það að annað hvort fellur þjónustan og ráðgjöfin niður sem BÍ og búnaðarsambönd inna af hendi eða reikningurinn fyrir hana verður sendur viðkomandi bónda.”