Fundargerð aðalfundar 2006
10.04.2006
Fundargerð
Aðalfundur Landssambands kúabænda
Reykjavík 6. og 7. apríl 2006.
Þetta var gert:
1. Fundarsetning, kosning starfsmanna fundarins og kjörbréfa- og uppstillingarnefndar
Formaður, Þórólfur Sveinsson setti fundinn og gerði tillögu um Sigurgeir Hreinsson og Katrínu Birnu Viðarsdóttur sem fundarstjóra.
Fundarstjóri gerði tillögu um að Magnús Sigurðsson, Gunnar Eiríksson og Ásthildur Skjaldardóttir verði skipuð í kjörbréfa og uppstillingarnefnd og var það samþykkt. Kjörbréf þurfa hafa borist nefndinni fyrir hádegi.
2. Skýrsla stjórnar og fagráðs
Þórólfur Sveinsson, formaður Landssambands kúabænda og fagráðs.
Ágætu fulltrúar; Góðir gestir í sal og þið sem fylgist með útsendingu frá fundinum.
Upphafið og þróunin.
Nú eru liðin tuttugu ár og tveim dögum betur frá því tuttugu fulltrúar frá níu félögum kúabænda hittust í húsnæði Osta- og smjörsölunnar og stofnuðu Landssamband kúabænda. Fyrir tíu árum var tekið saman afmælisrit þar sem sagt er frá stofnun og starfi sambandsins til þess tíma. Þar kemur m.a. fram að á stofnfundinum voru samþykktar nokkrar tillögur. Fyrsta tillagan fól í sér að Landssamband kúabænda skyldi sækja um aðild að Stéttarsambandi bænda sem búgreinafélag. Þarna var strax mörkuð sú stefna sem fylgt hefur verið síðan. Samhliða því að gæta í hvívetna hagsmuna kúabænda skyldi unnið með öðrum bændum að sameiginlegum hagsmunum. Þá var ályktað um tekjustofn fyrir hin nýju samtök, markaðsmál og síðan en ekki síst framleiðslustýringuna. Sá málaflokkur varð til sem viðfangsefni um 1980 þegar stjórnvöld og samtök bænda hófu sameiginlega, en mismunandi sammála, að grípa til aðgerða í því skyni að framleiðsla búvara yrði í takt við markaðsþarfir og komið yrði í veg fyrir tekjuhrun vegna offramleiðslu. Þegar þarna var komið við sögu hafði framleiðslustýring verið í mótun í nokkur ár og var komin í fastar skorður að því leyti að árið áður hafði verið gerður samningur við ríkið um verðábyrgð á tilteknu magni mjólkur og kindakjöts. Fjölmargt var samt að breytast og komst ekki í fast form fyrr en með þeim mjólkursamningi og lagabreytingum sem gengið var frá síðla árs 1992. Þegar litið er til baka yfir tímabilið frá 1980, er rétt að hafa í huga að fjölmargar þjóðir höfðu glímt við það á undan okkur að tryggja sína búvöruframleiðslu og stjórna að einhverju leyti. Hver þjóð hefur sín sérkenni og það tók nokkurn tíma að fyrir okkur íslendinga að finna færa leið í þessu efni. Leið sem tryggði að fólk teldi fært að fjárfesta og horfa fram á veginn án ótta um að ,,kerfisbreytingar“ ónýttu fyrirætlanir þess. Við erum talsvert einstaklingshyggjufólk og það var ekki fyrr en framleiðslurétturinn varð framseljanleg eign tengd lögbýli, að hlutirnir fóru að ganga með eðlilegum hætti.
En aftur að stofnun Landssambands kúabænda. Það merka fyrirtæki, Osta- og smjörsalan var stofnuð 1958. Á aðalfundi hennar árið 1983 var ákveðið að stofna svokallað Félagsráð. Þar sat einn mjólkurframleiðandi frá hverju mjólkurbússvæði og því var þetta Félagsráð fyrsti lýðræðislegi vettvangur kúabænda í landinu. Það var þetta Félagsráð sem hafði forgöngu um að boða til stofnfundar Landssambands kúabænda árið 1986. Síðar sama ár voru stofnuð Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði og þar með var skapað það félagslega landslag í hagsmunagæslu kúabænda og mjólkuriðnaðar sem við þekkjum í dag.
Það voru 1822 innleggjendur mjólkur á Íslandi þegar Landssamband kúabænda var stofnað og hvernig voru undirtektir meðal kúabænda við stofnun LK ? Guðmundur Þorsteinsson á Skálpastöðum svarar þessu skýrt og heinskilnislega í fyrrnefndu Afmælisblaði LK. Þar segir.
,, Það sem ég kynntist var allt frekar jákvætt. Félag kúabænda á Suðurlandi ruddi vissulega brautina – það varð til sem andófshópur, dálitið í takt við Sigtúnshópinn í Reykjavík sem mótmælti misgengi launa og vísitölu í tengslum við íbúðarhúsnæði. Þessir bændur á Suðurlandi höfu verulega fundið fyrir þessu misgengi. Síðan þróaðist þetta í takt við aðstæður í þessari grein og í þjóðfélaginu. Vissulega heyrðum við það oft og heyrum raunar enn að samtök kúabænda, hvort sem það er Landssambandið eða einstök félög, hafi ekki nógu algjöra þátttöku meðal kúabænda sjálfra. Það er vissulega rétt að í þessum stóra hópi, sem er vel á annað þúsund manns, þá eru skoðanir skiptar um ýmislegt og það er ósköp eðlilegt“.
Þetta var mat Guðmundar Þorsteinssonar árið 1996. En hvernig skyldi staðan vera núna ? Erum við sem erum í forsvari fyrir Landssamband kúabænda í dag sátt við stöðu samtakanna ? Hvað mig varðar þá svara ég þeirri spurningu játandi. Það er áhugi á því sem félagið fæst við og tengsl við grasrótina eru góð, þótt þar megi alltaf gera betur.
Svo sem áður er fram komið voru 1822 mjólkurinnleggjendur árið 1986. Sl. haust voru þeir 792. Mjólkurkýr voru þá um 34.000 en nú um 24.000 Innlögð mjólk álíka mikil eða um 110 milljónir lítra. Samandregið þá hefur kúabúum fækkað um ca. 56 % á þessum tuttugu árum, kúnum hefur fækkað um ca. 30 % en innlögð mjólk er nánast jafn mikil. Þetta er mikil breyting og engin vafi að afköst á hvert ársstarf hafa vaxið mjög verulega. Ef hægt er að tala um ,,meðalfjós“ þá hefur það gjörbreyst á þessum tíma og í heyverkun hefur rúlluverkunin, sem okkur þykir eiginlega orðin gömul, orðið ráðandi aðferð við geymslu heys. Mikil framþróun hefur orðið í ræktun fóðurjurta og fóðrun kúnna orðið nákvæmari eins og hækkun á meðalnyt sýnir.
Ósýnilega byltingin
Svona mætti áfram telja en kannski er það ósýnilega byltingin sem skiptir mestu máli að skilja. Lengst af hefur það verið þannig að í umfjöllun um landbúnað og bændur hefur sitt sýnst hverjum og svo er það enn. Í þeirri umfjöllun hefur undantekningarlítið verið gengið út frá því að hvað sem á dyndi þá væru bændur þarna, þeir sætu sínar jarðir og framleiddu sínar búvörur. Umræðan gerði sem sagt yfirleitt ekki ráð fyrir að landbúnaðurinn væri í samkeppni um fólk. Að því mjólkurframleiðsluna varðar þá er þetta gamla sjónarmið algerlega úrelt. Það verður ekki framleidd mjólk á Íslandi ef sú starfsemi getur ekki greitt laun. Við erum í samkeppni um fólk og þá og því aðeins aflar hæft fólk sér menntunar og leggur eigur sínar að veði til að stunda mjög bindandi starf, að starfið gefi viðunandi afkomu.
En er ekkert slæmt við þróun síðustu ára ? Sjálfsagt sýnist þar sitt hverjum en því er ekki að neita að íslensk kúabú eru mörg hver mikið skuldsett. Ég hef áætlað að heildarskuldir nautgriparæktarinnar hafi um síðustu áramót verið um tuttugu milljarðar. Vissulega hafa vaxtakjör batnað verulega og lánstími hefur lengst, en það verður ekki horft fram hjá því að þessi skuldsetning gerir búin viðkvæmari fyrir breytingum í rekstrarumhverfinu og sérstaklega breytingum á fjármagnsmarkaði.
Frá starfsárinu, greiðslumark, framleiðsla og sala nautgripaafurða.
En snúum okkur þá að því sem hæst bar á síðasta ári, ári sem færði okkur fleira óvænt en mörg önnur frá stofnun þessara samtaka. Af faglegum málum vil ég sérstaklega nefna að nú hafa Landbúnaðarháskóli Íslands, Bændasamtök Íslands og Landbúnaðarstofnun, mótað rannsóknaáætlun sem samanstendur af 7 rannsóknaverkefnum og er með þessum hætti vonast til að fundin verði skýring á óviðunandi kálfadauða í íslenska kúastofninum. Magnús B. Jónsson hefur umsjón með þessari áætlun. Þá hefur nokkuð komið til umræðu hvort hægt væri að kyngreina íslenskt nautasæði og fá þannig óskaskiptingu milli kvígna og nauta. Sú tækni sem notuð er til þessa er enn á þróunarstigi og ýmsir annmarkar á að þetta sé raunhæfur valkostur. Það er hins vegar til mikils að vinna ef þetta væri hægt og því er nauðsynlegt að kanna það til hlýtar.
Þegar kom að ákvörðun greiðslumarks á vordögum 2005 lá tvennt fyrir. Annars vegar að sú ákvörðun skipti engu varðandi ríkisútgjöld. Hins vegar að söluaukning hafði orðið meiri en nokkur gerði ráð fyrir og spár gerðu ráð fyrir framhaldi á þeirri þróun. Miðað við fyrri reiknireglu hefði greiðslumarkið átt að verða 110 milljónir lítra. Fóru nú skoðanir manna nokkuð út og suður hvort móta skyldi nýja reiknireglu, fylgja þeirri gömlu eða fara einhvern milliveg. Niðurstaðan varð sú að miða við tólf mánaða sölutölur til maíloka 2005, og spá um söluþróun. Þannig varð 111 milljón lítra greiðslumark til. Í ljósi þróunar á innvigtun síðustu mánuði hefði það engu breytt þótt greiðslumarkið hefði verið ákveðið hærra. Það eru líffræðilegir þættir en ekki pólitískir sem hafa takmarkað framleiðsluna síðustu tólf mánuði eða svo. Eigi að síður þarf að móta skýrari stefnu í þessu efni og því leggur stjórn LK nú tillögu fyrir aðalfund um að hverju beri að stefna að þessu leyti.
Já, sala mjólkurafurða hefur gengið einstaklega vel síðasta ár og sérstök ástæða til að þakka það frábæra starf sem unnið er í mjólkuriðnaðinum. Þessi söluauking hefur gerst hratt og því miður hefur ekki gengið eins vel að framleiða. Staðan er þannig núna að síðustu tólf mánuði hafa selst afurðir úr 112,8 milljónum lítra, en framleiðslan er 109,8 milljónir lítrar. Það var ljóst strax á haustmánuðum að staðan yrði erfið og því hefur verið hvatt til aukinnar framleiðslu eftir föngum. Leiðbeiningaþjónustan hefur unnið gott starf í þessu efni, en nú skiptir mestu að slaka ekki á, því mestu skiptir að auka innvigtun í sumar.
Að sjálfsögðu vissum við að afkastagetu íslenska kúastofnsins væru takmörk sett. Það kom hins vegar alveg á óvart að innvigtun skyldi minnka sex mánuði í röð eftir að greiðslumarkið hafði verið aukið um fimm milljónir lítra. Þessi niðursveifla í innvigtuninni hefur skapað nýja stöðu sem vissulega felur í sér svigrúm fyrir framleiðendur en einnig verulegar hættur sem fyrst koma fram hjá mjólkuriðnaðinum. Eitt af því sem getur þurft að taka til endurmats eru tilraunir til útflutnings á mjólkurvörum. Þær tilraunir lofa góðu en takmarkað hráefni setur okkur mjög þröngar skorður að þessu leyti.
Þótt ekki hafi verið teknar um það ákvarðanir, þá bendir allt til þess eins og staðan er núna, að greitt verði fyrir alla innvegna mjólk næsta verðlagsár.
Í umræðu um söluþróun á mjólk og mjólkurvörum er nauðsynlegt að geta þess að mjög óvenjulegt ástand hefur verið á smásölumarkaðnum mestan hluta síðasta starfsárs. Mjólk og einstakar mjólkurvörur hafa mánuðum saman staðið til boða á verði sem langt eða talsvert undir kostnaðarverði. Það er jákvætt fyrir neytendur að fá vörur á lágu verði en fyrir mjólkuriðnaðinn og bændur er þetta afar tvíbent ástand. Smásalan þarf að lifa eins og aðrir og ef verslun með mjólk og mjólkurvörur skilar litlu í kassann, er hætta á að minni áhersla verði lögð á þjónustu með þær vörur. Það er svo líka merkilegt að þrátt fyrir að mjólkin væri nánast gefin, þá hafði það nánast engin áhrif á söluna. Líklega má draga þessar ályktanir af því sem gerðist:
1. Mjólkin er mjög nauðsynleg fyrir marga, því er hún ákjósanleg ef verslanir vilja ná til margra viðskiptamanna.
2. Mjólkin hefur mjög lága verðteygni. Það liggur fyrir að heildsöluverðið er of lágt miðað við ýmsar aðrar vörur. Samkvæmt þessu er það mjög umdeilanleg verðlagning.
Nautakjötsframleiðslan er álíka mikil og fyrri ár að öðru leyti en því að kúaslátrun hefur dregist verulega saman síðustu mánuði. Eftirspurn eftir nautgripakjöti hefur verið góð og verð hafa lagast verulega og færst nær því að endurspegla raunverulegan framleiðslukostnað. Nokkur umræða hefur verið um það undanfarin ár hvort taka beri upp EUROP mat á nautakjöti. Nú liggur fyrir fundinum tillaga stjórnar um að hafinn verði undirbúningur að upptöku þess mats. Ástæða er til að ætla að það mat lýsi betur eiginleikum kjötsins en það mat sem við notum í dag. Það er að vísu ekki talað um EUROP mat á mjólk en það er nú þannig að við ákvörðun um gæðakröfur til mjólkur er horft til reglna Evrópusambandsins.
Umræður um búvöruverð, verðlagning ofl.
Fyrir jól og fram á þetta ár var í fjölmiðlum mjög óvægin umræða um matvælaverð og verndartolla á búvörum. Umræðan hófst með túlkun Samkeppniseftirlitsins á niðurstöðum úr samnorrænni skýrslu um vöruverð. Það er alveg ljóst að dregin var upp villandi mynd af þætti íslenskra búvara í þessu samhengi og til dæmis ekki nefnt að það tekur íslendinga álíka eða styttri tíma en marga aðra að vinna fyrir matarkörfu heimilisins, og ekki var heldur nefnt að ákveðið matvælaöryggi er hverri þjóð nauðsynlegt. Efnisatriði verða ekki rakin frekar hér, en hins vegar þurfum við að ræða hvernig best er að koma málstað okkar á framfæri við aðstæður sem þessar og raunar almennt. Við erum hluti af íslenskum landbúnaði og málsvörn fyrir hann er hjá Bændasamtökum Íslands. Of lítið heyrðist frá þeim fyrstu dagana í þessari orrahríð en ástæðan mun vera sú að forsvarsfólk þeirra komst nánast ekki að grundvallarfjölmiðlum fyrstu 3 – 4 dagana. Málsvörn samtakanna var góð þegar í fjölmiðla var komist. Við eigum ekki bara gott samstarf við SAM, Samtök Afurðastöðva í Mjólkuriðnaði, heldur eru hagsmunirnir oft svo nátengdir að annar aðilinn getur ekki útskýrt sína stöðu án þess að nefna stöðu hins. Það er því oft álitamál hvaðan skýringar og málsvörn eiga að koma. Sú umræða sem þarna var vitnað til er væntanlega byrjun á öðru meiru og það er mjög nauðsynlegt að fara yfir reynsluna af þessu til að við áttum okkur á hvernig við viljum skipuleggja það hvernig við komum okkar málstað á framfæri. Þessi óvægna umræða er ekki síst merkileg fyrir þær sakir að nú er væntanlega stutt í niðurstöðu í WTO-viðræðunum um aukið frjálsræði í alþjóðaviðskiptum með búvörur. Þá mun skýrast hvaða skyldur verða lagðar á aðildarþjóðir samningsins um almenna lækkun tolla og hvaða breytingar verða skyldum þjóðanna til að heimila innflutning búvara á lágmarkstollum. Frá okkar sjónarhóli séð er það svo fráleitt að íslensk stjórnvöld grípi til einhliða tollalækkana á innfluttum búvörum við núverandi aðstæður að áttum ekki von á umræðunni og hreint ekki með þeim þunga sem í henni var. Umræðan var samt staðreynd og full ástæða til að taka hana mjög alvarlega. Frá okkar sjónarhóli séð er tollvernd búvara af sama meiði og sú skipan að greiða skuli erlendu verkafólki laun í samræmi við íslenska kjarasamninga ef það vinnur á Íslandi.
Um áramótin skipaði forsætisráðherra nefnd til að greina verðmyndun matvæla og enginn vafi að framhald verður á þessari umræðu.
Þó það tengist ekki beint, þá er rétt í þessu sambandi að gera verðlagningu mjólkur til bænda að umtalsefni. Það gekk erfiðlegar en verið hefur að ná samkomulagi síðasta haust og niðurstaðan var lakari fyrir mjólkurframleiðendur en verið hefur undanfarin haust. Kannski var það lakast að verðlagsnefnd lagði til að samlögin greiddu ekki arðgreiðslur til innleggjenda vegna ársins 2005. Slíkt inngrip í starfsemi framleiðendasamvinnufélaga er í grundvallaratriðum alveg ómöguleg. Eigendur slíkra félaga verða njóta þess ef skynsamlegar ákvarðanir eru teknar og gjalda þess ef slaklega er staðið að málum. Öflug afurðasölufélög sem hafa burði og vilja til að gera vel í starfi sínu og stunda öfluga vöruþróun, eru ein dýrmætasta eign okkar. Það getur ekki gengið að höggvið sé á tengsl framleiðenda og afurðasölufélaga með þessum hætti. Hvað haustið varðar, þá eru horfur ekki sérlega uppörvandi. Það er gert ráð fyrir vaxandi verðbólgu næstu mánuði, jafnvel spáð að verðbólga mælist allt að 9 % á ársgrunni eftir nokkra mánuði. Gangi það eftir, verður þörf á mikilli leiðréttingu mjólkurverðs næsta haust. Einu gildir hvort kúabændur eru með skuldir tengdar gengi eða vísitölu neysluverðs, hvort tveggja mun hækka. Þá er þess einnig að geta að ríkisstuðningurinn lækkar um 1 % um næstu verðlagsáramót sem þrengir enn stöðu okkar. Horfur varðandi haustið eru að þessu leyti venju fremur dökkar. Gildandi samningur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar og búvörulög, gera ráð fyrir þeim möguleika að fella niður opinbera verðlagningu á mjólk til framleiðenda. Engar viðræður eru í gangi um þá breytingu nú. Hins vegar eru uppi hugmyndir um að fella niður verðmiðlunar- og verðtilfærslugjald af mjólk.
Verð á bújörðum ofl.
Í síðustu aðalfundarræðu var fjallað um verðþróun á greiðslumarki og bújörðum og þessi þróun sett í samhengi við þróun íbúðaverðs. Niðurstaða þessarar umfjöllunar var orðrétt þannig ,,einhver efri mörk hljóta að vera á verði greiðslumarks og verði íbúðarhúsnæðis. Það er hins vegar óljóst hversu hátt verð á jörðum getur farið ef eigandinn sækist eftir huglægum notum af eign sinni, það er, gerir ekki kröfu til þess að jörðin standi undir sér eins og við segjum. Það kæmi mér ekki á óvart þótt jarðarverðið eigi eftir að bera mun oftar á góma á næstu árum en hingað til og ráða mun meira um þróun íslensks landbúnaðar en verið hefur“. Þessi spá hefur gengið rækilega eftir. Verð á greiðslumarki hefir lækkað og engin ályktun liggur nú fyrir aðalfundi Landssambands kúabænda þar sem lýst er áhyggjum vegna verðs á greiðslumarki. Jafnvægi virðist vera að nást á húsnæðismarkaðnum en verð á jörðum heldur áfram að hækka. Það verður þó að taka fram að bújarðir eru ekki í auðskilgreinanlegum einingum og því ekki einfalt að bera saman verð á ólíkum jörðum. En hvað er að gerast og hvaða afleiðingar hefur það ? Það virðist að þrennt hafi gerst á svipuðum tíma:
1. Fjárfestar fá áhuga á íslenskum bújörðum, enda verð á bújörðum óeðlilega lágt fyrir 4 til 5 árum.
2. Bylting verður á fjármagnsmarkaðnum sem gerir þessi viðskipti auðveldari.
3. Um sama leyti er algerlega úreltum ákvæðum jarða – og ábúðarlaga breytt, og vissulega breytt mjög mikið því segja má að í stað þess að opna hliðið hafi öll girðingin verið tekin niður.
Um afleiðingar þessarar þróunar er að svo komnu erfitt að segja. Íslenskar sveitir eru eins og stór tilraunastofa á heimsvísu að þessu leyti og það er of stutt síðan þessi þróun hófst til að við getum fullyrt um afleiðingaranar. Til skamms tíma eru jarðirnar betra veð og það stuðlar að hagstæðari vöxtum. Hjá kúabændum er hvert prósentustig í vöxtum um tvöhundruð milljónir þannig að þetta atriði skiptir máli. Það skiptir líka máli að þeir sem vilja selja eignir sínar geti fengið fyrir þær sem hæst verð. Hins vegar getur þróunin grafið undan landbúnaðinum innanfrá. Til skamms tíma þannig að aðgangur að landi verði takmarkaður en sauðfjárræktin er viðkvæmasta búgreinin að því leyti. Til lengri tíma er hættan sú að þeir sem eiga landið hafi alls ekki áhuga á að nýta það til matvælaframleiðslu. Það einfaldar ekki málið að skilgreingin á landbúnaði hefur verið að víkka og nú getur nánast öll starfsemi sem fram fer í sveit verið skilgreind sem landbúnaður.
Engin vafi er á því að þetta mál verður á dagskrá áfram.
Innflutningur erfðaefnis ?
Á tuttuga ára starfstíma Landssambands kúabænda hefur ekkert eitt mál valdið jafn miklum klofningi innan þess eins og fyrirhugðuð samamburðartilraun með kýr af NRF-stofni en flytja átti fósturvísa af því kyni til landsins. Hvað sem um það mál má segja, tel ég að sú atkvæðagreiðsla sem fram fór haustið 2001 hafi verið félagslega afar mikilvæg fyrir Landssamband kúabænda. Við þorðum að spyrja grasrótina og fórum að fyrirmælum hennar. Fyrir þessum aðalfundi liggja tillögur um að huga á nýjan leik að innflutningi á erfðaefni úr vænlegu kúakyni. Engin tillaga liggur þó fyrir um að taka upp þráðinn frá 2001 og hefja undirbúning að lokaðri rannsókn eins og þá var ætlunin. Það er erfitt að ræða þetta mál nema sem hluta af framtíðarsýn íslenskrar mjólkurframleiðslu og enn stöndum við frammi fyrir þeirri spurningu hvernig á að bera saman ávinning af lækkuðum framleiðslukostnaði annars vegar, á móti þeirri breytingu að framleiða mjólkina ekki með landnámskyninu hins vegar. Það er vel hægt að nálgast mat á því hvaða fjárhagslegur ávinningur verður af notkun afkastameira kúakyns. Hitt atriðið er jafn erfitt að meta nú og þegar málið var á dagskrá áður.
Á þessum fundi þarf að ákveða hvort Landssamband kúabænda á að koma að þessu máli. Aðkoma félagsins að fyrirhugaðri tilraun sem hafnað var 2001, var sjálfsögð þar sem þá var ætlunin að afla þekkingar sem hefði komið öllum til góða. Hugsanlegur innflutningur erfðaefnis nú beinist að því að fá sem fyrst afkastameiri og hagkvæmari gripi í framleiðslu. Með hliðsjón af því sem á undan er gengið, er ljóst að taka verður fullt tillit til félagslegra sjónarmiða ef fela á Landssambandi kúabænda eitthvert hlutverk í þessu efni. Þá yrði að skilgreina vænlegustu leið eða leiðir og leggja málið síðan í dóm kúabænda í almennri atkvæðagreiðslu þegar valkostir hefðu verið ákveðnir.
Nokkur hversdagsleg atriði
Því miður hefur enn ekki verið sett reglugerð um gripagreiðslur en réttur til þeirra byrjaði að myndast 1. september 2005. Í þessu efni er tíminn að hlaupa frá okkur og mjög brýnt að setja reglugerðina sem fyrst ef standa á við þau áform að hefja gripagreiðslurnar um næstu verðlagsáramót. Það hefur heldur ekki tekist að standa við þau fyrirmæli sem síðasti aðalfundur LK gaf, að fyrir þennan fund skyldi leggja drög að skiptingu þess hluta framleiðslutengdra beingreiðslna sem færast á yfir í minna markaðstruflandi stuðning á samningstímanum. Ástæðan er ekki síst að WTO-samningarnir hafa dregist og ekki fullljóst hvort leikreglur um grænan stuðning verða algerlega óbreyttar frá sem nú er. Vissulega hefur nokkur hugmyndasöfnun farið fram en lengra er málið ekki komið. Undan þessu verkefni verður ekki vikist og málið kemur til kynningar hjá kúabændum, hvort sem það verður á fundum okkar í haust eða á næsta aðalfundi.
Félag kúabænda á Suðurlandi gekkst fyrir ráðstefnu nú í vetur þar sem horft var til framtíðar í mjólkurframleiðslunni. Þetta var gott framtak hjá félaginu og tókst vel. Eitt af því sem þarna kom skýrt fram var hversu fátæk við erum af grunnupplýsingum um stærðarhagkvæmni og hagkvæmni einstakra tæknilausna í mjólkurframleiðslunni. Þetta höfum við rætt margsinnis en breytingar til bóta eru nánast engar. Við þessar aðstæður er ákveðin hætta á að ekki sé nægilega traustur grunnur að ákvörðunum um fjárfestingar. Þetta er afleit staða en fátt um leiðir til úrbóta.
Hér verður ekki fjallað sérstaklega um WTO-samningana að þessu sinni. Greint hefur verið frá gangi mála í Bændablaðinu og fleiri fjölmiðlum. Þess er vænst að áfangar náist í samningunum á þessu ári og að niðurstaðan muni hafa áhrif á íslenskan landbúnað.
Heimasíður Landssambands kúabænda
Það kostar vissulega talsverða vinnu að halda heimasíðu LK, naut.is þokkalega lifandi. Daglegir gestir síðunnar vilja sjá sem mest nýtt og mikilvægt að þeir verði ekki fyrir vonbrigðum umfram þolmörk því þá fækkar heimsóknum á síðuna.
Á “Kýrhausnum” hafa oftlega verið mjög skemmtilegar umræður. Fjölmiðlar landsins fylgjast vel með vefnum og hafa ýmsar fréttir af vefnum og úr umræðum á “Kýrhausnum” ratað í stóru fjölmiðlana.
Á árinu var byrjað að selja auglýsingar á vefinn og hefur það skilað viðunandi árangri.
Neytendavefur LK, kjot.is, nýtur hylli og að öðrum ólöstuðum er það fyrir gott starf ritstjóra vefsins, Kristínar Lindu Jónsdóttur, bónda í Miðhvammi í Aðaldal.
Nýr framkvæmdastjóri, nýtt aðsetur
Snorri Sigurðsson sagði starfi sínu lausu frá áramótum og eru honum færðar bestu þakkir fyrir kraftmikið starf í þágu Landssambands kúabænda um leið og við vonumst til þess að eiga við hann góða samvinnu í hans nýja starfi sem forstöðumanns Búrekstrarsviðs Landbúnaðarháskóla Íslands. Ég vil persónulega þakka Snorra fyrir afar þægilegt samstarf sem ekki bar skugga á. Ákveðið var að ráða Baldur Helga Benjamínsson sem framkvæmdastjóra og tók hann við starfinu um sl. áramót. Þá var einnig ákveðið að færa skrifstofu félagsins og er hún nú í húsnæði Osta- og smjörsölunnar við Bitruháls í Reykjavík. Við væntum mikils af Baldri og bjóðum hann sérstaklega velkominn til starfa.
Um leið og ég lýk þessari skýrslu til aðalfundar Landssambands kúabænda árið 2006, vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu aðilum og stofnunum sem Landssamband kúabænda hefur átt samskipti við á liðnu starfsári. Svo sem undangengin ár hafa tengsl og samskipti við landbúnaðarráðherra og landbúnaðarnefnd Alþingis verið góð og fyrir það vil ég þakka sérstaklega. Samskipti við afurðastöðvar í mjólkuriðnaði og samtök þeirra fara sífellt vaxandi og hafa verið með ágætum. Þá vil ég þakka stjórnarmönnunum Sigurði Loftsyni, Agli Sigurðssyni, Guðnýju Helgu Björnsdóttur og Jóhannesi Jónssyni mjög gott samstarf á starfsárinu. Sama gildir um varamennina Gunnar Jónsson og Guðrúnu Lárusdóttur, sem og framkvæmdastjórana Snorra Sigurðson og Baldur Benjamínsson. Margrét Helga Guðmundsdóttir er ritari hjá LK í hlutastarfi. Hún er í barneignarfríi núna en leggur okkur lið þessa fundardaga. Fyrir þá aðstoð og annað starf hennar í þágu Landssambands kúabænda vil ég þakka.
Megi aðalfundur Landssambands kúabænda skila góðu verki.
Egill Sigurðsson, stjórnarmaður í Landssambandi kúabænda, og Jón Gíslason, sem er fulltrúi Mjólkurbús Borgfirðinga hér á fundinum, voru báðir meðal þeirra tuttugu fulltrúa sem stofnuðu Landssamband kúabænda. Mig langar að biðja þá að koma hér upp og þiggja ostakörfu sem þakklætisvott fyrir mikið og gott starf í þágu íslenskra kúabænda.
Þórólfur Sveinsson
3. Ávörp gesta og umræður
Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtaka Íslands.
Þakkaði samstarf Bændasamtaka Íslands og Landssambands kúabænda. Hvaðst hafa spáð breyttri markaðsstöðu íslenskra búvara á síðasta aðalfundi og það hefði gengið eftir, eftirspurn væri nú meiri en framboð. Haraldur kvað ákveðin vandamál framundan vegna hárrar verðlagningar á kjöti. Hann fagnar því að bændur fái gott verð fyrir sínar afurðir en taldi hátt verð leiða af sér meiri þrýsting til lækkunar á matarverði. Talaði um viðbrögð BÍ við umræðunni um hátt matarverð. Erfitt var að fá pláss í sumum fjölmiðlum til að koma sjónarmiðum á framfæri. WTO samningar eru bændum ekki eins hættulegar og umræðan og þrýstingurinn hér innanlands. Taldi heppilegra að leita til almannatengslafyrirtækja til að hafa áhrif á umræðuna en að ráða einstakling. Talaði um þá vinnu sem er að fara í gang varðandi það að skoða samþjöppun í eignarhaldi á bújörðum og verð á bújörðum. Óskaði LK til hamingju með árin 20 og heilla í framtíðinni
Ágúst Sigurðsson rektor LbhÍ
Hlutverk háskólans er meðal annars að þjónusta almenning og atvinnugreinar, þar á meðal kúabændur. Talaði um rannsóknarverkefni um kálfadauða og bauð fram vinnu LbhÍ vegna hugsanlegs innflutnings á erfðaefni úr nýju kúakyni. Talaði um eflingu framhaldsnáms á háskólastigi við LbhÍ. Taldi heppilegt að byggja upp kynbótastöð fyrir nautgriparækt í nágrenni við Hvanneyri vegna hagræðingarmöguleika og samnýtingar á starfsfólki. Óskaði LK til hamingju og kvað samtökin sannarlega hafa staðið sig í stykkinu hingað til.
Guðni Ágústson landbúnaðarráðherra
Kvað LK hafa verið leiðandi í baráttu fyrir hagsmunum kúabænda. Þakkaði fyrir það tækifæri að hafa fengið að vinna með kúabændum síðustu ár. Telur mjólkuriðnaðinn vera flaggskip í matvælaiðnaði á Íslandi og að íslenskur landbúnaður sé nú betur undirbúinn undir framtíðina en nokkru sinni áður. Telur að við þurfum að standa okkur betur í nautakjötsframleiðslunni. Það er skylda kúabænda að skaffa neytendum gott nautgripakjöt. Talaði um breytingarnar á stofnanakerfi landbúnaðarins og sagði LbhÍ vera flaggskipið í kerfinu. Talaði um hækkandi jarðaverð og kvaðst vilja skoða raðuppkaup auðmanna á jörðum. En kvaðst fagna auknum áhuga fólks á að búa í sveit. Sagði okkur ekki þurfa að nýta allar bújarðir undir matvælaframleiðslu en engu að síður þurfi að byggja þær. Sagði að land til búvöruframleiðslu í heiminum verði takmarkað í framtíðinni og það geti skapað góða möguleika á útflutningi landbúnaðarafurða. Hvatti til að unnið verði faglega að umræðu um nýtt kúakyn, sagði að þegar fallið var frá hugmyndum um innflutning síðast hafi það verið vilji almennings. Benti á að málið væri viðkvæmt og þyrfti að vinna það á vísindalegan og faglegan hátt. Talaði um umræðu um hátt matarverð og benti á að innfluttar vörur eru ekki síður dýrar en innlendar. Óskaði kúabændum til hamingju með tuttugu ára afmæli LK og óskaði þess að næstu tuttugu ár verði jafn farsæl.
Umræður um skýrslu stjórnar og fagráðs
Sigurlaug Leifsdóttir
Þakkaði fyrir góða skýrslu stjórnar. Hvatti til þess að bændasamtökin ráði til sín fjölmiðlafulltrúa þar sem þeir eigi greiða leið inn í fjölmiðla. Taldi að eðlilegt hefði verið að auglýsa stöðu framkvæmdastjóra LK í vetur en ekki ráða án auglýsingar. Benti á að margar ályktanir beinast að landbúnaðarráðuneyti og landbúnaðarstofnun og hvatti ráðherra til að vinna vinnuna sína og láta verkin tala. Talaði um kálfaadauða og upplýsingar frá erlendum sérfræðingum sem töldu að kýrnar væru komnar í súrdoða fyrir burð og því dræpust kálfarnir. Talaði um kaup þéttbýlisbúa á jörðum undir frístundabyggð og taldi að þeim sem kaupa jarðir sé ekki alltaf ljós sú ábyrgð sem fylgir því að eiga jörð.
Skúli Einarsson
Sagði að landbúnaðurinn væri ekki lengur samkeppnishæfur í samkeppninni um bújarðir. Benti á að við kynnum að þurfa mun stærri hluta bújarða undir matvælaframleiðslu en nú er til að geta sinnt þeim möguleikum sem framundan eru í útflutningi búvara. Hvatti til að gripið verði inn í þá þróun sem er í eignarhaldi á bújörðum.
Stefán Magnússon
Talaði um eignarhald á bújörðum. Sagði að viðbrögð ráðamanna hafi verið lítl hingað til. Sagði að innan 10 ára verði 60 til 70% bújarða í eigu fyrirtækja og auðmanna og þá verði of seint að grípa inn í. Þakkaði Ernu Bjarnadóttur hennar þátt í viðbrögðum við umræðu um hátt matarverð. Talaði um breytingar á stofnanakerfi landbúnaðarins en benti á að flestir launahæstu starfsmenn kerfisins eru staðsettir í Reykjavík. Sagði að hluti af rökstuðningi fyrir stuðningi við landbúnaðinn væri stuðningur við byggð í landinu. Sagði að allir þeir sem starfa fyrir bændur eigi að vinna úti á landi. Sagði að aðalfundur LK og stjórn LK séu réttir aðilar til að taka ákvörðun um innflutning á erfðaefni til kynbóta á kúastofninum, það hafi verið stór mistök að viðhafa atkvæðagreiðslu árið 2001. Taldi að nú væru komnar fyrstu niðurstöður úr fyrirhugaðri rannsókn ef farið hefði verið út í hana.
Pétur Diðriksson.
Þakkaði stjórn fyrir vel unnin störf á liðnu ári og óskaði LK til hamingju með 20 ára afmælið. Talaði um grundvöll mjólkurframleiðslunnar, þ.e. að þeir sem við hana vinna verða að hafa af því viðunandi laun. Sagði að þó gæði íslensku mjólkurinnar væru mikilvæg væri staðan sú að við verðum að anna markaðnum í magni. Ef til innflutnings kemur í einhverju magni verður óvissa mikil varðandi fjárfestingar bænda og þeir hika við að binda sig til framtíðar með því að fjárfesta í greininni. Pétur taldi það ekki góða pólitík að slá vopnin úr höndum þeirra sem vilja þróa greinina með því að flytja inn erfðaefni með því að segja að almenningur vilji ekki nýtt kyn. Framtíð greinarinnar byggist á því að þeir sem eru framsýnir og vilja þróa sinn búskap hafi tækifæri til þess. Þakkaði ráðherra fyrir að stuðla að jákvæðri umræðu um landbúnað en óskaði eftir stuðningi hans við “óvinsælli” mál eins og innflutning á erfðaefni. Talaði um jarðaverð og eignarhald á bújörðum, sagði að breytingarnar á jarðalögum hafi verið of róttækar. Ræddi um fjárfestingar í landbúnaði og fjárhagslegar forsendur þeirra. Sagði leiðbeiningakerfið ekki vera tilbúið til að veita ráðgjöf um fjárfestingar og sagði að ýmsar fjárfestingar á síðustu árum væru ekki vel ígrundaðar. Taldi að LK þurfi að koma meira að leiðbeiningum fyrir kúabændur.
Þorsteinn Rútsson
Hefur áhyggjur af gæðum mjólkur úr mjaltaþjónum og ímynd mjólkurvara. Tók undir áhyggjur af uppkaupum á bújörðum. Sagði marga bændur í þeirri stöðu að geta ekki aukið við sína framleiðslu án þess að fá aðgang að auknu jarðnæði. Velti því fyrir sér hvort það væri eðlilegt að kjósa um það hvort það ætti að gera tilraun eins og gert var árið 2001. Taldi að eðlilegra væri að kjósa um hvort það á að nýta niðurstöður tilraunanna. Tók undir með ráðherra um að innflutningsmál þarf að vinna faglega og í sátt allra aðila. Þakkaði stjórn vel unnin störf.
4. Niðurstöður kjörbréfanefndar
Fulltrúarfjöldi á aðalfundi LK árið 2006 er 33 frá 13 aðildarfélögum LK. Fjöldi og skipting fulltrúa eftir félögum byggir á samþykktum LK. Eftirtaldir aðilar sátu aðalfund LK 2006 fyrir hönd sinna félaga:
Fyrir Mjólkursamlag Kjalarnesþings:
Ásthildur Skjaldardóttir, Bakka
Magnús Hannesson, Eystri-Leirárgörðum
Fyrir Mjólkurbú Borgfirðinga:
Jón Gíslason, Lundi
Pétur Diðriksson, Helgavatni
Ásbjörn Pálsson, Syðri-Haukatungu
Fyrir Mjólkursamlagið í Búðardal:
Ásgerður Jónsdóttir, Kverngrjóti
Bára Sigurðardóttir, Lyngbrekku
Fyrir Mjólkursamlag Ísfirðinga:
Sigmundur H. Sigmundsson, Látrum
Fyrir Nautgriparæktarfélag Vestur Húnavatnssýslu:
Skúli Einarsson, Tannstaðabakka
Fyrir Félag kúabænda í Austur-Húnavatnssýslu:
Magnús Sigurðsson, Hnjúki
Jóhannes Torfason, Torfalæk
Fyrir Félag kúabænda í Skagafirði:
Valdimar Sigmarsson, Sólheimum
Gunnar Sigurðsson, Stóru-Ökrum
Sigurður Baldursson, Páfastöðum mætti ekki og ekki varamaður
Fyrir Búgreinaráð BSE í Nautagriparækt:
Þorsteinn Rútsson, Þverá
Sigurgeir Hreinsson, Hríshóli
Stefán Magnússon, Fagraskógi
Bragi Konráðsson, Lönguhlíð
Fyrir Félag Þingeyskra kúabænda:
Sveinbjörn Þór Sigurðsson, Búvöllum
Marteinn Sigurðsson, Kvíabóli
Sif Jónsdóttir, Laxamýri
Fyrir Nautgriparæktarfélag Vopnafjarðar:
Gauti Halldórsson, Grænalæk (mætti ekki)
Fyrir Félag nautgripabænda á Héraði og Fjörðum:
Gunnar Jónsson, Egilsstöðum
Jón Júlíusson, Mýrum mætti ekki og ekki varamaður.
Fyrir nautgriparæktarfélag Austur Skaftfellinga
Sæmundur Jón Jónsson, Árbæ
Fyrir Félag kúabænda á Suðurlandi:
Jóhann Nikulásson, Stóru-Hildisey
Katrín Birna Viðarsdóttir, Ásólfsskála
Grétar Einarsson, Þórisholti
Birna Þorsteinsdóttir, Reykjum
Einar Haraldsson, Urriðafossi
Sigurlaug Leifsdóttir, Nýjabæ
Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ
Gunnar Eiríksson, Túnsbergi
Eftirtaldir aðilar sátu aðalfund LK, án atkvæðisréttar:
Fulltrúi holdanautabænda samkvæmt tillögu stjórnar LK:
Snorri Örn Hilmarsson, Sogni
Búnaðarþingsfulltrúi LK:
Kristín Linda Jónsdóttir, Miðhvammi
Aðrir búnaðarþingsfulltrúar eru jafnframt fulltrúar aðildarfélaga LK eða í stjórn LK
Stjórn og starfsmenn LK:
Þórólfur Sveinsson, Ferjubakka (formaður)
Sigurður Loftsson, Steinsholti (varaformaður)
Egill Sigurðsson, Berustöðum
Guðný Helga Björnsdóttir, Bessastöðum
Jóhannes Ævar Jónsson, Espihóli
Baldur Helgi Benjamínsson (framkvæmdastjóri LK)
Margrét Helga Guðmundsdóttir, Hesti (ritari LK)
5. Almennar umræður
Jón Gíslason, Lundi.
Þakkaði 20 ára ánægjulega samleið með LK, sem í flesta staði hefur verið ánægjuleg. Snemma á starfsárum LK fór Gunnar Jónsson og Egilsstöðum í pontu og mælti fyrir um innflutning á nýjum holdakynjum, en lét þess og getið að hann þyrði ekki að nefna mjólkurkúakyn í því sambandi. Í framhaldinu voru flutt inn ný holdakyn, átakalaust, án þess að það færi í gang nokkur hræðsluáróður um sjúkdómahættu eða þvíumlíkt. Árangurinn er ótvíræður. Jón man ekki betur en að fyrir fáum árum hafi hæstvirtur landbúnaðarráðherra mætt ásamt matreiðslumanni í sjónvarpið, með það sem þeir kölluðu besta nautakjöt í heimi, íslenskt kjöt af Aberdeen Angus. En því miður er staðan þannig í dag að við getum ekki framleitt neitt af þessu kjöti því íslenski kúastofninn leyfir það ekki að þetta kyn sé notað á hann. Minnti á að í upphafi hafi offramleiðsla á nautakjöti og lánamál verið efst á baugi á vettvangi LK. Skrýtið til þess að hugsa þegar staðan er þannig í dag að innflutningur á nautakjöti er nausynlegur til að uppfylla þarfir markaðarins og í lánamálum hafa umskiptin líka orðið ótvíræð. Allar okkar óskir og vonir á þeim tíma voru varðandi Lánasjóð landbúnaðarins, eða Stofnlánadeild eins og hún hét þá en í fyrra eða hitteðfyrra samþykktum við hér að Lánasjóðurinn yrði lagður niður. Telur enga ástæðu til að sjá eftir því, a.m.k. ekki enn. Í dag finnst honum meginverkefnin vera tvennskonar:
Annars vegar sjálfbærni kúastofnsins og þar af leiðandi erfiðleikar við að uppfylla þarfir markaðarins og hinsvegar væntanlegar breytingar á framleiðsluumhverfinu. Þá ræddi Jón kálfadauðann sem er ekki nýtt vandamál, þó hann hafi smátt og smátt farið vaxandi. Þessu hefur alltof lítill gaumur verið gefin. Það er ekki fyrr en í sumar, þegar þrír af okkar helstu sérfræðingum í nautgriparækt fóru að skrifa um þetta, að menn fóru að taka eitthvað við sér. Hann minnti á að fyrir fimm til sex árum var það sett á forgangslista fagráðs í nautgriparækt að það yrði farið að rannsaka snefilefnamagn í heyi. Hvatinn að þessu var meðal annars kálfadauðinn því hann var kominn á það stig á þessum tíma. Líklega árið 2002 fékk Rala styrk til að rannsaka snefilefnamagn í heyi, árið eftir þurftu þeir viðbótarpening, en það er fyrst í vetur sem fyrstu niðurstöður voru birtar. Hann er ekki viss um að lokaniðurstöður séu komnar ennþá og furðar hann sig á þessum seinagangi. Hann fagnar því að Landbúnaðarháskólinn ætli að fara út í alvöru rannsókn á þessu máli, en í ljósi reynslunnar er hann hræddur um að þetta sé eitthvað sem við leysum ekki í hvelli.
Þá saknaði hann þess í ræðu formanns að hann skyldi ekki minnast á WTO viðræðurnar, en Jón telur að þeir eigi eftir að valda miklum breytingum á starfsskilyrðum okkar. Þá með lækkun tollverndar og einnig með óskynsamlegum breytingum á stuðningsformi, Jón telur að LK eigi að vera fremst í flokki með að fylgjast með þessum málum og að upplýsa félagsmenn og búa þá undir það sem verða vill. Hann telur að breytingarnar komi til með að rýra kjör kúabænda og honum finnst það ekki tilhlökkunarefni að takast á við þær breytingar, með kúakyn sem ekki uppfyllir þarfir markaðarins í dag, er á mörkum þess að vera sjálfbært og maður fer að hugsa sig um hvort ekki þurfi að fara að halda í stritlur til þess eins að láta þær eiga kálfa. Þá er nú kannski heppilegt að það sé búið að taka upp gripagreiðslur, þær hjálpa aðeins uppá, ef ráðuneytið kemur því í verk að semja þá reglugerð sem þarf. Hann óskaði LK til hamingju með afmælið.
Sveinbjörn Þór Sigurðsson, Búvöllum.
Til hamingju Ísland, með að eiga LK 20 ára gamalt. Værum mun verr sett í dag ef LK hefði ekki komið til, afar mikilvægt að menn standi saman að málefnum greinarinnar og dreifi ekki kröftum sínum um of. Honum finnst tilraunir ganga hægt og það komi litlar niðurstöður. Honum líkaði skýring Sigurlaugar fyrr í dag um að sennilega þyrfti engar tilraunir, það væri búið að leysa málið. Kýrnar fengju súrdoða fyrir burð og þær koma kálfunum ekki lifandi frá sér, þetta þekkir hann vel í eigin ranni. Hún kom honum á óvart með því að segja að við yrðum að gera eitthvað í kyninu til að uppræta þetta. Líftími kúnna okkar er ákaflega skammur og hefur verið að styttast, svara þarf þeirri spurningu hvort þær lifa lengur í þessum nýju legubásafjósum sem byggð hafa verið. Þessi dýru fjós verða að sanna það að þau séu betri. Á fundinum í fyrra var samþykkt tillaga, þar sem stjórn LK var falið að fjalla um hámark bústærðar. Hann furðaði sig á því að hún skyldi verða samþykkt. Hann er ekki hissa á að stjórn LK hafi ekki viljað taka á þessu máli og telur hann að tillagan eigi frekar að fjalla um að takmarka beingreiðslu til einstaklings en ekki um hámark bústærðar vegna þess að í dag er engin þörf á takmörkun á framleiðslu. Spurning hvort endalaust sé hægt að dæla beingreiðslum í fjárfesta sem kaupa og kaupa jarðir. Hann telur erfitt fyrir bændur að verja það að beingreiðslur fari til stóreignamanna út um allar tryssur og það verður erfiðara að sækja þessa peninga áfram til ríkisins, með stefnuleysi hvað þetta varðar. Hann er fylgjandi tillögu frá stjórninni um að lágmarksnýting greiðslumarks verði 95 % til að framleiðandi haldi óskertum A-greiðslum, menn eru þá ekki að stökkva til og kupa kvóta án þess að framleiða. Tekur undir þau orð að menn hafi stundum farið út í vanhugsaðar fjárfestingar eins og t.d. að kaupa 50 þús. lítra kvóta án þess að ná að framleiða neitt upp í það. Hann telur nauðsyn að lækka kvótaverðið og það hefur auðvitað verið að lækka. Honum finnst alveg óskiljanlegt að núna þegar nánast búið er að segja okkur að við fáum allt að 55 kr fyrir líterinn af umframmjólk að þá séu menn enn að greiða 320 kr. fyrir lítrann í kvóta, en kannski skilja þetta aðrir betur. Hann telur mikilvægt að lækka tolla á kjarnfóðri, því öll smáu atriðin skipta máli, þegar kemur að því að WTO fer að hafa áhrif. Varðandi kúakynið, þá er það hart að arfblendin naut skuli vera farin að kynbæta mjólkurkýrnar hjá manni, þannig væri það í hans fjósi!
Grétar Einarsson, Þórisholti.
Hann byrjaði á því að efast um að það sér rétt að hafa fundarstjóra úr hópi fulltrúa, því að þá dæmist þeir úr leik í starfi fundarins að stórum hluta auk þess sem þeir geta verið vanhæfir í fundarstjórn við afgreiðslu mála ef þeir hafa tekið þátt í nefndarstarfi. Hann spyr hvort það sé kúnum að kenna hvað þær séu fáar? Er það ekki vegna þess að undanfarin misseri höfum við verið að minnka framleiðsluna og fækka þeim. Ef við værum með afurðameira kúakyn þá væri sveiflan skarpari og staðan enn hættulegri. Verðum að bregðast við og framleiða meiri mjólk, ekki má koma til innflutnings á mjólkurvörum. Verðum að spýta í lófana, fara út og strjúka kúnum og biðja þær um að mjólka svolítið meira. Það eru eflaust mörg ráð til í því! Hér er talað um kynbótastöðina, flutning á henni, byggingar og breytingar. Líst ekki á að fara með hana á stað þar sem hvað mest hætta er á smitleiðum, það er í kringum sýningarfjósið á Hvanneyri, telur að kynbótastöðin þurfi að vera í svolítið vernduðu umhverfi. Hann ræddi óþolandi inngrip verðlagsnefndar í mjólkursölufyrirtæki bænda, að afurðastöðvarnar séu nánast settar upp við vegg og þær mega ekki borga mönnum út arð sem er búið að vinna að í mörg ár með hagræðingu og þessháttar. Svo þegar það hefur náðst þá er ekki hægt að koma arðinum út til bænda, þeirra sem eiga þessi fyrirtæki, það er ekki ásættanlegt. Menn eru eitthvað hræddir við orðstýr, eru ekki bankarnir að sýna hér þvílíkan hagnað og það talar enginn um að það þurfi að lækka vexti! Hvaðan er sá hagnaður kominn? Það virðist vera löng bið eftir þessum óframleiðslutengdu greiðslum, beðið er eftir WTO samningum og fleiru. Drífa þarf í því að koma þessu á þannig að þeir sem eru í mjólkurframleiðslu njóti þeirra greiðslna.
Jóhannes Torfason, Torfalæk.
Honum heyrist svo á fundarmönnum að kýrnar séu svona ægilegt vandamál. Hann efast um að svo sé, hann telur að hann sjálfur og bændurnir séu stærsta vandamálið! Hér í þessum sal eru menn sem eru að ná frábærum árangri og kannski líka menn sem eru að ná mjög slökum árangri. Vandamálið í dag er að mæta eftirspurn eftir mjólk, það er nú ekki meira en það að hjálpa okkur þessum skussum, sem erum fyrir neðan meðaltalið, að komast þó ekki væri nema upp í meðaltalið. Það tekur ekki nema kannski eitt tvö ár og til þess höfum við öll tækin, ræktunarlandið, leiðbeiningaþjónustuna, dýralæknaþjónustuna, þekkingu á skólunum, úr rannsóknunum en það sem klikkar er það að við notum þetta ekki, þetta er vandamálið. Hitt, varðandi innflutning á erfðaefni, það færi að skila okkur einhverju inn í greinina eftir kannski 10 til 15 ár, jafnvel þó fljótvirkasta aðferðin yrði valin með frjóvguð egg, því dreifingin tekur ákv. tíma. En það er vel hægt. Afurðameiri kúastofn myndi auka ákv. áhættu í framleiðslunni því þegar hópurinn er orðinn minni, þá hefur tiltölulega lítið áfall miklu meiri afleiðingar. Því vill hann að það sé tekið á mannlega þættinum og er hann viss um að landbúnaðarráðherra myndi glaður leggja því lið. Töluvert er rætt um afkomu bænda og hún er mjög misjöfn. Hann hefur hinsvegar tekið eftir því að á bændafundum er bílakosturinn með því glæsilegra sem maður sér á samkomu, hvort sem það er einhver mælikvarði eða ekki, það skal hann ekki segja til um. Kannski er það bara vegna þess að bændur hafa meira lánstraust heldur en aðrar stéttir? Kannski er það bara vegna þess að við höfum það svo gott. Við hljótum að hafa það gott ef það hefur getað borgað sig að vera að borga á fimmta hundrað krónur fyrir kvóta sem verið er að kaupa. Stéttin hefur verið að nota um þriðjunginn af beingreiðslunum til þess að þeir sem eftir eru geti haldið áfram að framleiða. Viðsemjendur okkar, úr verkalýðshreyfingunni og annarsstaðar, þeir standa sig ekki ef þeir geta ekki bent okkur á einfaldari leið til að miðla kvótanum á milli okkar, eða þessu markaðsaðgengi sem kvótinn er! Við erum að nota þessa peninga ákaflega illa! Jú eina réttlætingin er sú, að við getum sagt að það er mjög mikilvægt að versla með kvóta og hefur hann stutt það, vegna þess að það er svo mikilvægt fyrir þá sem eru að fara út úr greininni. Það var kannski eini lausi peningurinn sem gat fengist, en nú hefur verð á jörðum hækkað svo þetta hefur breyst á síðustu árum. Það hefur gerst því fleirum hefur orðið ljóst að land er takmörkuð auðlind og það er orðið stöðutákn að eiga land. Það eru æ fleiri sem geta veitt sér það að eignast þetta land. Hann telur að vandi eins og sinueldar á Mýrum eigi eftir að verða algengari þegar land fer úr daglegum notum. Þetta er bara staðreynd, þróun sem ekki verður stöðvuð en það má hafa áhrif á landnotkun með því að beita sveitarstjórnarstiginu. Treystum við okkur til að beita því valdi? Það er óvíst og það er líklega mun erfiðara í smáum sveitarfélögum en stórum. Ásóknin í landið er líka mjög mikil. Telur að við séum hálfgerðir tækjabrjálæðingar í mjólkurframleiðslunni og kollegar hans í nágrannalöndunum gætu aldrei leyft sér slíka tækjaeign. Við þurfum sumt af þessu jú vegna þess að við búum við erfiðar náttúrulegar aðstæður og við virðumst geta leyft okkur meira í þessum en flestir aðrir í okkar nágrannalöndum. Einmitt þeim löndum sem munu verða keppinautar okkar ef að opnast eitthvað fyrir markaðsaðgengi að íslenska markaðnum og þarna þurfum við að taka til í okkar ranni. Aðstæður okkar í rekstri eru ekkert slæmar, við erum bara ekki að nýta tækni og hæfni nógu vel, við erum ekki að ná nógu miklum afköstum eftir vinnueininguna. Erum að sjá í róbótafjósum og jafnvel í nýtísku mjaltabásum að það eru tveir, þrír, fjórir menn að elta þessi tæki fyrir kannski 50 til 70 kýr. Það er ekki nema fyrir einn mann að mjólka 60 til 80 kýr og sinna daglegri hirðingu. En það er voða gaman félagslega að vera fleiri, en það er bara munaður. Gáum að því að það virðist að við getum leyft okkur þennan munað. Einhver orðaði WTO viðræður, samninga og breytingar á stuðningi þannig að menn myndu velja óskynsamlegri leiðir til að koma stuðningnum til skila. Honum finnst gripagreiðslur ákaflega óskynsamleg leið, en þetta kemur frá Evrópusambandinu. Það er miklu skilvirkari leið að greiða slíkan stuðning út á framleidda einingu, þ.e. mjólk. Ef hinsvegar er verið að sækjast eftir kjötinu þá hlýtur að eiga að miða þetta við kjötið. Hann hefur haldið því fram áður að það hefði verið óskaplega gott fyrir íslenskan landbúnað að menn hefðu ekki farið inn á það fyrir 70 til 80 árum að nota landbúnaðarvörur sem tæki til að hafa áhrif á lífskjör fólks og að við hefðum bara verið með okkar landbúnaðarvörur eins og aðrar vörur sem fólk kaupir, laus við niðurgreiðslur og slíkar aðgerðir. Þetta viðhorf sem við lendum fyrir, í áratugi, í rauninni hálfgerðir blórabögglar í þjóðfélaginu því þetta séu styrkir, það sé verið að halda okkur uppi! En auðvitað er það þannig að þessar greiðslur eru hugsaðar til að hafa áhrif á það verð sem neytendur eru að fá vörurnar á. Það eru beingreiðslur til mín, sem eru til þess að lækka verð á mjólk sem keypt er hér úti í búð. Hinsvegar er greitt kr 700 fyrir viðtal hjá lækni en læknirinn fær 5000 kall, það er kostnaður við heilbrigðiskerfið. Sama með skólann, hann er ókeypis. Höfum hugfast að það er hvorki þörf fyrir skólann né heilbrigðiskerfið ef það er enginn matur til í samfélaginu, því hann er grundvallarþörf. Honum finnst ekkert lögmál að maturinn eigi að vera ódýr. Skoðum þróun í matarverði, fyrir 30 til 40 árum var meðaljóninn að eyða 35 til 38% af sínum útgjöldum til að kaupa mat, í dag er þetta 12 til 15%, þetta er þróunin. Á sama tíma er margt annað sem hefur hækkað. Varðandi fóðuröflunina hjá okkur er mikið verk að vinna, hann telur að bændur séu upp til hópa lélegir eftirspyrjendur leiðbeininga. Auðvitað eru margir frábærir bændur og það á að draga okkur áfram. Bændur eru mis flinkir og ná mis mikilli mjólk úr kúnum. Honum finnst að leiðbeiningaþjónustan eigi að banka uppá hjá þeim sem gengur ekki eins vel, og aðstoða menn til að gera betur, þannig vill hann að stuðningskerfið taki sig og aðra bændur í gegn. LK er líklega félagsskapur sterkustu búgreinarinnar, fjárhagslega og félagslega og það fylgir því mikil ábyrgð. Bændum fækkar stöðugt og er það slæmt því hann telur erfiðara að sækja samúð og stuðning í þjóðfélagið þegar kúabændum fækkar. Við þurfum að nýta það afl sem við höfum sem kúabændastétt til að axla verulega mikla ábyrgð í bændasamfélaginu og hann færir LK þær afmælisóskir að því auðnist það hlutverk.
Sigurgeir Hreinsson, Hríshóli
Fundarstjórar eru tveir svo þeir geti vísað frá sér fundarstjórn ef þá langar til að taka til máls. Hann þakkaði stjórn LK starfið á árinu og formanni fyrir skýrsluna. Hann ræddi stöðuna í markaðsmálum, sem hefur aldrei verið betri, semsagt meiri eftispurn eftir vörum okkar, en framboðið, ef litið er hjá smá mun hvað varðar fituna. Öflugt markaðsstarf á mörgum sviðum og svo hafa veðurguðirnir líka valdið því að hey eru með lakara en þau hafa verið um langt árabil, þó vissulega séu víða góð hey. Einnig var leiðinlegt tíðarfar á s.l. hausti og minnkaði það framleiðsluna líka og hefur hún ekki náð sér á strik. Hann styður átak um aukna mjólkurframleiðslu, sem er nauðsynlegt, en það lagar ekki heyin. Varla nokkurri kú er slátrað, þannig að vandinn á kjötmarkaðnum er vegna færri gripa og öflugs markaðsstarfs og vöruþróunar þar líka. Verð til bænda hefur verið að hækka, hann efast um að það sé gott að hækka verðið mikið því þá eykst pressan á innflutningnum og núna er líklega búið að samþykkja einhvern innflutning á hakki. Eðlilegt að menn deili um innflutning á kúakyni, munur á milli afurða hjá kúabændum hér á landi verður þó alltaf til staðar, þannig er það í öllum löndum. Ef við fáum afkastameira kúakyn þá færist framleiðslustigið bara til á skalanum og jafnvel er hugsanlegt að munurinn á milli lægstu og hæstu verði eitthvað meiri en hann er í dag. Jóhannes ýjaði að því að leiðbeiningaþjónustuan ætti að bjarga skussunum, það er búið að reyna það í áratugi og það verður haldið áfram við að brasa við þetta en þessi munur verður samt sem áður alltaf. Jói í Hildisey og aðrir sem eru á þeim slóðum, hækka bara meira. Vissulega eru til slæm fjárfestingadæmi, eins og Sveinbjörn á Búvöllum benti á. Aðeins hefur verið minnst á róbotafjós og mjólkar Sigurgeir í einu slíku, honum dettur yfirleitt ekki í hug annað en að vera einn þar, nóg að tala við kýrnar. Reynir að hafa einhvern sem getur leyst hann af, sem er þá með honum í fjósi annað slagið. Endurnýjun á fjósi er stór pakki. Fyrir ca 15 árum var lítið byggt af fjósum, það var allt stein dautt. Ekki byggð fjós í langan tíma. Síðan verður mikil vakning eftir þetta langa stöðnunartímabil, framleiðslan og stéttin hefði dáið út með því að byggja engin fjós. Þegar svo bjartsýni kemur í greinina á ný kringum aldamótin og menn fara að byggja á ný þá er eðlilegt að menn velti fyrir sér þeirri tækni sem er í boði og eru byggðar ýmsar fjósgerðir, bæði með mjaltaþjón og einnig mjaltabás, nánast öll fjós eru byggð sem legubásafjós. Varðandi fjárfestingu þá er sáralítill munur á þessu tvennu ef menn eru að byggja nýtt fjós, það þarf svo mikið stærra hús og eftir því sem vinnuþátturinn við bygginguna er stærri, þeim mun dýrari er byggingin. Hinsvegar hvort menn ákveða að gera þetta eða ekki, getur verið spurning um það hvort menn ætla að hætta eða ekki í þessu. Tekur undir með Pétri að margar fjárfestingar í landbúnaði orka tvímælis og við erum fjárfestingaglaðir. Íslendingar eru í fremstu röð í heiminum af því að við þorum að taka áhættu og eru bændur ekkert öðruvísi en aðrir landsmenn. Varðandi gæðaþáttinn á mjólkinni í róbotafjósum, þá er það rétt að gæðamálin voru eitthvað mismunandi til að byrja með, hjá honum sjálfum er þetta ekkert vandamál. En þetta er nákvæmlega það sama og gerðist þegar menn voru að taka upp rörmjaltakerfin á sínum tíma, þá vorum mikil vandamál með mjólkurgæði, með þrif og annað, svona kemur oft upp þegar menn innleiða nýja tækni og svo læra menn á þetta og vinna sig útúr þessu.
Tillaga frá LK sem var lögð fyrir búnaðarþing bar yfirskriftina “þjónusta búnaðarsambanda verði seld” en hún var á þessa leið “Búnaðarþing 2006 bendir á að hlutfall búnaðargjalds til búnaðarsambanda er mjög mishátt eftir búgreinum. Nauðsynlegt er að þær búgreinar sem greiða hæsta gjaldið njóti þess á einhvern hátt, þrátt fyrir að búnaðargjald sé skilgreint sem skattur”. Síðan er talað um í greinargerð að af afurðum nautgripa og sauðfjár sé verið að greiða 0,5% af afurðum en t.d. má nefna svín, aðrar afurðir greiði margar 0,1%. Meðalbú með kannski 150 þús. lítrar og heildar brúttótekjur með kjöti kannski 100 kr á lítra mjólkur, slíkt bú er kannski að borga 80 þús. kr. á ári til búnaðarsambands. Hann veit sem dæmi að það eru þrjú svínabú í Eyjafirði og hann álítur að hvert þeirra sé að greiða ca 80 þúsund. Þannig að munurinn á % álagningunni er vegna veltumunar á búunum en ekki vegna þess að það sé verið að skattleggja menn mishátt. Eins getur hann fullyrt að kúabú í Eyjafirði fá margfalt meiri þjónustu frá búnaðarsambandi heldur en svínabú. Hinsvegar er mjög hollt og nauðsynlegt að fara í gegnum þær breytingar sem hafa orðið á síðustu árum, en t.d. hjá Búgarði hefur það færst í aukana að þjónusta sé seld. Dæmi um það er kortateikningar en sú þjónusta stendur undir sér, bókhaldsþjónustan er rekin sem sér kennitala sem stendur undir sér og öll samningavinna, eins er með hana. Áburðar og fóðurleiðbeiningar eru innheimtar að hluta. Það vantar skilgreiningu í svona tillögu, hvað menn vilja að sé selt. Eyfirðingar tóku þá umræðu fyrir nokkrum árum síðan og var ákveðið að selja ekki út þá þætti sem eru á félagslegum ræktunargrunni eins og skýrsluhald og ræktunarstarf. Varðandi tillöguna sem hér um ræðir, sem segir eiginlega ekki neitt, þá má vel vera að mikil hugsun sé þarna á bakvið, en hún þarf þá einhversstaðar að koma fram.
Kristín Linda Jónsdóttir, Miðhvammi
Mikill styrkur fyrir þá sem koma inn í þessa grein að hafa svona öflug samtök eins og LK þar sem fólk hlustar hvert á annað og leitar leiða framávið. Henni finnst á þessum tímamótum gæta þess dálítið hjá ræðumönnum hér áðan að menn væru dálítið of neikvæðir út í okkur sjálf. Það finnst henni umhugsunarvert, því henni finnst ekki yfir neinu að kvarta! Afmælisfundur, fullur salur af greindu fólki af báðum kynjum og á öllum aldri. Kvartað var yfir því að við ættum of flotta bíla, værum of fá en samt kannski of mörg að mjólka í einu! Að við verðlegðum eigur okkar of hátt við ættum frekar að hafa þær á útsölu. Að kýrnar okkar væru of lélegar, ef það væri ekki það þá værum við of léleg, sem værum að mjólka þær. Við værum bölvaðir skussar í starfi svona sum hver í það minnsta, jafnvel að við værum ekki að vinna nóg, henni fannst nóg komið og ákvað því að biðja um orðið, Við eigum að vera helvíti stolt af því að eiga þokkalega bíla, við byggjum þetta land og búum ekki öll í 101 Reykjavík. Við þurfum að eiga einhverjar druslur til að komast yfir jörðina, henni finnst ágætt að bílarnir komist í það minnsta í gegnum snjóskaflana í heimreiðinni. Ekki á hún von á einhverjum frá bænum sem kemur og ýtir þeim í burtu. Eigum að vera stolt yfir því að starfa í þessari framleiðslugrein, erum að framleiða vörur sem eru svo eftirsóttar að við höfum ekki undan. Við þurfum ekki að standa á torgum og selja vörurnar okkar, eins og bankamennirnir virðast þurfa að gera, en hún rakst á sölumenn frá þeim í Kringlunni í gær. Það gengur svo vel að selja vörurnar og þær falla neytendum svo vel í geð að við hljótum að vera glöð og stolt. Íslenskir neytendur fá ekki nóg og útflutnings sóknarfæri virðast vera í sjónmáli. Hún vann það verkefni um síðustu helgi fyrir okkur, kúabændur hjá LK, að veita verðlaun í keppni meistarafélags kjötiðnaðarmanna fyrir áhugaverðustu vöruna úr nautakjöti. Þar fékk verðlaun kjötiðnaðarmaðurinn Sigurður Árni, frá SS á Selfossi fyrir Ruddi Tuddi nautakæfa. Þar ræddi hún við söluaðila og úrvinnsluaðila. Helstu áhyggjurnar sem hún varð vör við þarna voru þær að of margir eru farnir að þurfa að flytja inn nautakjöt og væntanlega ekki líklegt að þeir myndu bakka út úr þvi ferli. Þá spyr maður sig, hvernig verður staðan á þessum markaði eftir x ár ef þessi aðilar bakka ekki úr því ferli?
Í sambandi við verð á kvóta, verðmæti á landi. Okkur finnst allt dýrt sem við erum að kaupa, en ágætt að fá gott verð fyrir það sem við ætlum að selja. Oft heyrist um að verðlag á jörðum sé hátt, en enginn kippir sér upp við það þó t.d. einbýlishús á Akureyri hafi hækkað um 10 milljónir á örfáum árum. Erum við alveg tengd við raunveruleikann þegar við erum að tala niður verðið á okkar eignum? Hvort er betra fyrir framtíðina að eiga verðmæti staðsett á lögbýli í sveitinni, jafnvel þó þurfi að greiða af umalsverðum skuldum, eða að eiga galtómar skuldlausar sveitir. Á hennar svæði eru sveitir þar sem lítið sem ekkert hefur verið fjárfest kannski í 25 ár, nema kannski nýr jeppi, ekkert verið byggt. Eru þessar sveitir betri fyrir framtíðina? Í sumum sveitum er t.d. ekkert barn á leikskóla eða grunnskólaaldri. Hér í þessum sal eru ungir kúabændur sem skulda ábyggilega töluvert, en þeir búa í sveitinni, í einbýlishúsi með þokkalega vinnuaðstöðu. Þeir senda börnin sín í skóla, leikskóla, tónlistarskóla og gott ef ekki á dansnámskeið líka. Er það verra en að sveitin sé nánast tóm af því það þorði enginn að fjárfesta, þorði enginn að skulda? Þegar hún kom inn í greinina fyrir um 11 árum var mikið framboð á endurmenntun, sérstaklega námskeið frá Landbunaðarháskólanum. Núna finnst henni óskaplega lítið auglýst og lítið af endurmenntun í boði frá Landbúnaðarháskólanum. Það kunna að vera ýmsar skýringar á þessu en hún er ekki að hnýta út í menntunina á skólum landbúnaðarráðuneytisins. Nýta þarf hvern skóla vel og skólann á Hvanneyri til endurmenntunarstarfa fyrir kúabændur, sem standa jú að stærstum hluta verðmætasköpunar í landbúnaðinum hérlendis. Erum við að gera nóg til að tryggja stéttinni aðgengi að þekkingu og fræðslu? Á síðasta fundi var samþykkt ályktun um þetta mál og hefur hún áhyggjur af þessu, það ætti að vera meiri fræðslumenning í gangi meðal okkar í greininni. T.d. sér hún stundum auglýst spennandi námskeið hjá BSSL en þá vantar hana veg yfir hálendið. Erum við að knýja nóg á að landbúnaðarháskólarnir hafi nægt framboð af menntun í nautgriparæktinni?
Stefán Magnússon, Fagraskógi
Vill ræða um mjólkuriðnaðinn og varpa fram þeirri spurningu hvort við eigum að sameina mjólkuriðnaðinn í eitt núna! Það lítur þannig út að við séum með þrjú til fjögur fyrirtæki í þessu núna. Hann lítur svo á að jafnvel ómeðvitað samkomulag sé um að halda þessum fyrirtækjum aðskildum, svona að nafninu til áfram, meðan við höfum þessa innnflutningsvernd. Það má hinsvegar velta því fyrir sér hvort við eigum fyrr eða seinna að setja þetta í eitt fyrirtæki? Breytingin yrði ekki stórkostleg, heldur meira í þá átt að nálgast raunveruleikann heldur en hitt. Staða þessara fyrirtækja í þessum iðnaði er afskaplega misjöfn. Við höfum MS mjög stórt og eignasterkt. Höfum mjólkursamlag Kaupfélags Skagfirðinga sem er í blandaðri samvinnueign og svo Norðurmjólk sem við bændur björguðum úr höndum KEA á síðustu stundu og erum að bögglast við að eignast. Þar er MS náttúrulega með rétt tæpan helmings eignahlut. Þetta setur málin í svolítið flókið samhengi vegna þess að þegar verið er að ræða um afkomu í greininni þá er eiginlega himin og haf á milli Norðurmjólkur annars vegar og MS hinsvegar, þó ekki væri nema bara út af af eignastöðunni. Eiginfjárhlutfall er gríðarhátt hér fyrir sunnan, en bara eins og í hverjum öðrum atvinnurekstri fyrir norðan. Hérna er kannski helsta vandamálið það að losna við peninga til eigenda og hafa menn valið að gera það per líter og eiginlega greitt það sem afurðaverð, þó að kannski í raun væri verið að greiða út eign og ætti þá að fara eftir einhverjum öðrum kanal. Þetta setur okkur í mjög erfiða stöðu vegna þess að við höfum ekki úr neinum sjóðum að ausa fyrir norðan og við byggjum ekki á neinu öðru en rekstrafkomu okkar fyrirtækis á hverju ári. Það er nú reyndar svo að rekstarafkoma Norðurmjólkur er bara ágætlega góð, í sjálfu sér hefur hún framundir þetta, kannski verið mun skárri heldur en hér sunnan heiða þó það fari nú væntanlega kannski að að breytast núna. Þannig að þegar menn hér vilja greiða út fjármuni til bænda, eins mikið og hægt er og kannski miklu meira en það, þá verður það til þess að skóinn kreppir mjög hjá okkur fyrir norðan, vegna þess að það skerðir möguleika okkar fyrirtækis til að greiða Auðhumlu, sem er samvinnufyrirtæki bænda sem á þennan hlut, arð þannig að við getum staðið undir okkar fjárfestingu í kaupum á Norðurmjólk. Það er líka orðið þannig að Samtök afurðastöðva, þar í stjórn eru fimm af félagssvæði MS en tveir þar fyrir utan. Það sjá allir hvaða valdahlutföll liggja þar og hvaða ákvörðun sú ágæta stofnun tekur. Þessvegna veltir maður því upp hvort að það væri einfaldara fyrir okkur bændur landsins að setja þetta í einn pott, eitt fyrirtæki. Hvort að það yrði til þess að staða okkar gagnvart innflutningi og innflutningsvernd myndi versna eitthvað við það? Í sjálfu sér ætti hún ekki að breytast neitt því mjólkuriðnaðurinn er rekin út á við sem ein heild þó það séu nokkur fyrirtæki með sitthvorri kennitölunni. Mál hafa þróast þannig að afurðastöðvum hefur fækkað og þær stækkað þannig að honum finnst engin goðgá að fundurinn velti þessu fyrir sér, enda hér besti vettvangurinn til þess og vill hann að menn hugsi þessi mál aðeins.
Gunnar Jónsson, Egilsstöðum.
Hvar væru kúabændur ef þeir hefðu ekki haft LK þessi 20 ár? Reynsla hans af störfum samtakanna er mjög góð, þau hafa varið hagsmuni okkar og náð góðu sambandi við ráðamenn og inn í mjólkuriðnaðinn. Gunnar er ánægður sem kúabóndi í dag. Auðvitað eru þó alltaf einhver ský á lofti. Gott fólk hefur alltaf starfað fyrir LK, ekki síst framkvæmdastjórarnir. Vill aðeins ræða jarðarverð. Ánægður með að jarðaverð hækki, gott fyrir bændur en ekki vandræðalaust. Hefur áhyggjur að við gætum þurft að fá meira land til landbúnaðar í framtíðinni og ekki er víst að hægt verði að ná því landi til baka í landbúnaðarnotkun ef landið hefur verið selt til annara nota. Hann hefur trú á Íslandi sem landbúnaðarframleiðslulandi í framtíðinni. Slæmt að hafa ekki land til að framleiða afurðir á ef vel gengur í útflutningi. Nú eru menn t.d. í Færeyjum að markaðssetja okkar vörur og það er jákvætt, ekki síst fyrir okkur austfirðinga því styst er þaðan til Færeyja með Norrænu. Varðandi innflutningsmál á nýju mjólkurkúakyni þá er það hans skoðun að það hafi verið einn svartasti dagur í sögu kúabænda þegar við ákváðum að fresta innflutningi til tilrauna, að hans áliti mikið fyrir beiðni ráðherra. Það kom upp umræða um kúariðu á þessum tíma en það var vont að fresta þessu þá. Í dag hefðum við þá staðið með vitneskjuna í höndunum, hvað við gætum fengið út úr innflutningi og hvað ekki! Hann kann ekki að meta það að menn í þessari ágætu grein, mjólkurframleiðslu séu að forðast vitneskjuna, að neita að gera tilraunir og afla sér upplýsinga. Betra seint en aldrei, telur að fundurinn verði að taka markvisst á því hvernig við ætlum í þetta núna. Ekki ásættanlegt að geta ekki staðið okkur í að láta reyna á útflutningsmöguleika okkar á mjólkurafurðum. Jóhannes á Torfalæk talaði áðan um leiðbeiningaþjónustuna, við ættum að sækja þetta þangað, þessi orð hans urðu nú til þess að ég ætla að segja nokkuð, sem er kannski ekkert sniðugt. Leiðbeiningaþjónustan, því miður, hefur alltaf verið á eftir kúabændum undanfarna áratugi, það er bara ekkert flóknara en það! Þeir eru alltaf að fara að athuga hluti eftir að kúabændur nútímans eru búnir að framkvæma þá. Þeir fóru að athuga ferlisathuganir í lausagöngufjósum löngu eftir að það var búið að ryðja þessu upp á fullt af bæjum. Það var farið að tala um að athuga hvað áhrif það hefði á mjólkurgæði og fleira að mjólka með róbótum, löngu eftir að þetta var komið í fullt af fjósum og svona mætti lengi telja. Leiðbeiningaþjónustan hún þarf bara einfaldlega að vera frjó, þarf að vera fyrr á ferðinni. Þetta er samt orðið þannig og við erum það vel búin í okkar stétt að það er það mikið af vakandi ungu fólki sem fer víða erlendis og sér hvað er að gerast hér í nágrannalöndunum og það er komið með þessa þekkingu heim á undan leiðbeiningaþjónustunni oft á tíðum. Varðandi innflutning á mjólkurkúakyni vill hann árétta það að innflutningur á stórum kúm myndi styðja stórkostlega kjötframleiðsluna í landinu. Telur að nautakjötframleiðsla verði aldrei rekin af neinu viti hér, nema sem hliðarframleiðslu í mjólkurframleiðslu. Guðni Ágústsson sagði hér áðan að okkur bæri að fullnægja innanlandsþörfinni fyrir nautakjöt og þetta væri þá liður í því! Hann vildi selja Bændahöllina um daginn, en það mál var að hans áliti ekki nógu vel undirbúið. Ekki var búið að ákveða hvað átti að gera við peningana. Eigum að marka okkur stefnu úti í héruðunum hvað við viljum með Bændahöllina og starfssemi Bændasamtakanna. Æskilegt væri að hér á fundinum færi fram málefnaleg umræða um þessi atriði.
Egill Sigurðsson, Berustöðum
Hefur haft áhyggjur af raðkaupum á jörðum. Skipulagsmálin skipta þarna miklu máli því þegar ákveðið er til hvaða nota mismunandi land er, þá er um leið verið að hafa mikil áhrif á verðmæti landsins. Hann hitti oddvita og sveitarstjóra úr Hrunamannahreppi, en þeir eru brautryðjendur í þessum skipulagsmálum. Þeir hafa tekið þá stefnu hjá sér að taka frá hluta af besta landinu undir landbúnaðinn og færa þá frekar frístundabyggðina út í land sem hentar betur undir það, skógræktina líka og slíkt, þeir hafa nálgast þetta svolítið eftir þessari leið. Þetta er frumherjastarf og mætir mikill andstöðu því þetta hefur áhrif á verðmæti lands. Ekki bara staðsetning og peningar sem hafa áhrif, líka þetta, hvernig tekið er á málum skipulagslega af hálfu sveitarstjórna. Nú eru mörg sveitarfélög að sameinast og stækka og þá fer kannski valdið úr sveitunum aftur, inn í þorpin og þar verður kannski litið öðruvísi á þetta. Hefur ekki miklar áhyggjur af jarðarverði, vill að menn geti fengi sanngjarnt verð fyrir sínar jarðir. Margir kúabændur með ríflegt land, enda kúabúskapurinn ekki svo landfrekur. Vonandi er framleiðslan hjá okkur að aukast en það þarf að vera gott sumar svo vel gangi. Leggjumst öll á eitt með að hvetja alla til að gera eins og þeir geta í að framleiða meira. Samkomulagið í verðlagsnefnd um að skipa fyrir um að það sé ekki greitt yfirverð eða arðgreiðslur á mjólk, alveg sammála að þetta eru óþolandi afskipti af rekstri afurðastöðva. Að menn fái ekki að njóta þess ef vel gengur, kannski finna menn aðra leið til að hygla sínum félagsmönnum, en þetta er vandræðamál og hann vonast til þess að við gerum aldrei aftur svona samninga. Varðandi það sem Stefán sagði um sameina allan mjólkuriðnaðinn í eitt fyrirtæki, kannski er þetta framtíðin, ég veit það ekki. Hann minntist á að mikið væri til af peningum hjá MS og aðalvandinn væri að koma peningunum út, hann getur fullvissað Stefán um að það er ekkert vandamál fyrir þá að stjórna því. En hann vill minna Stefán á eitt, að á MS svæðinu þá er alltaf innheimt í stofnsjóð 15 aurar á hvern innvegin lítra. Það eru eignatengslin, þetta er séreign hvers framleiðanda. Honum er ekki kunnugt um að þetta sé gert fyrir norðan. Hann bendir þeim á að íhuga þennan möguleika til að fjármagna ykkar kaup. Varðandi stjórn SAM að þar séu skekkt valdahlutföll, það má vel vera. Egill situr í stjórn SAM og hún er ekki mikil valdastofnun, þetta er samráðsvettvangur, hún sendir tilmæli til afurðastöðva og stjórn hverrar stöðvar ákveður hvort farið er eftir tilmælunum. Slíkt er líka með kaup á umframmjólk o.fl. þetta er allt á tilmælastigi, SAM tekur ekki ákvörðunina en getur lagt línuna. Um greiðslu búnaðargjalds til búnaðarsambandanna. Hann vill meina að við eigum að fá viðurkenndan þennan rétt okkar kúabænda, útfrá því að við greiðum hæsta gjaldið 0,5% af veltu, að við eigum rétt á vörum eða þjónustu í stað þessara peninga. Það kom út úr áliti Eiríks Tómassonar að búnaðargjald, alveg sama til hvers það færi, væri skilgreint sem skattur sem myndaði engin skilgreind réttindi. Túlkun okkar hefur hinsvegar verið sú að kúabændur eigi að njóta þessarar háu % í gjaldi, með því að greiða lægri þjónustugjöld, á þetta þarf að láta reyna á. Minnir á í leiðinni að á meðan Lánasjóðurinn var við lýði þá var mismunandi inngreiðsla búnaðargjalds til lánasjóðsins. Þar var alveg hiklaust horft til greiðslu búnaðargjalds, bæði í lánum og vöxtum. Þarna er því mismunun og teljum við að þeir sem greiða hærra búnaðargjald, eins og kúabændur, eigi rétt á afslætti á þjónstunni.
Guðni Ágústsson, Landbúnaðarráðherra
Líkar vel þessar málefnalegu umræður um stöðu greinarinnar, landbúnaðarins og þakkar þann styrk sem hann finnur á fundinum. Velgengni ykkar er auðvitað hluti af velgengni þjóðarinnar. Heimamarkaðurinn byggir á því að efnahagur sé góður, eins og hann er nú og sala afurða er því góð. Menn hafa farið að hugsa um að ala upp neytendur, skólaæskuna, skólamáltíðir, þið og afurðastöðvarnar þurfið að fylgja því eftir að það sé góður íslenskur matur í skólunum. Mesta auðlind hverrar þjóðar er maðurinn sjálfur og það eru auðvitað leiðandi menn sem draga hina með sér og hjálpa hinum! Guðna fannst ræða Jóhannesar á Torfalæk mjög góð, en að vísu dálítið hörð, gagnrýnin inn í hópinn, eins og við þurfum bæði að hafa í svona félagsskap og í allri pólitík. Honum fannst hann benda á hluti sem skipta mjög miklu málu, það hlýtur að vera keppikefli dagsins í dag, miðað við þessar góðu aðstæður að eftirspurn eftir vörunum er þetta mikil. Forsætisráðherra er með 70 manna lið í Færeyjum, þar er 50 þúsund manna markaður sem bíður eftir því að fá íslenskar vörur. Við eigum mikla möguleika og því þurfum við að hugsa um stöðu dagsins í dag. Ég hygg að Jóhannes hafi sagt það rétt, tek undir með það að það þýðir ekkert bara að vera að rífast um kúakyn það er ekki spurning dagsins. Spurningin er hvernig við getum framleitt? Um 22 þúsund kýr eru til í landinu, ef við tökum 20% kúnna hjá þeim allra bestu og segjum að þeir hjálpi sér sjálfir, þeir halda áfram að bæta sig. Ef við tökum svo 20% hjá þeim slökustu og segjum að það þýði ekkert að hjálpa þeim, þeir ætli ekkert að taka þátt í þessu! Þá eru eftir um 13.500 kýr og ef við segðum nú sem svo við ætlum að nota Landbúnaðarháskólann, ráðunautaþjónustuna, fá allan þann stuðning sem við höfum fyrir, til þess að bæta búskap þessara manna og toga þá upp og láta þá læra af þeim bestu, hvað myndi það þýða ef við næðum því nú í gegn að kannski á tveimur árum myndu þeir bæta meðalnytina um 500 lítra á kú? Eru þá ekki komnar 6,5 milljónir lítra og enginn vandræði lengur. Þannig að hann telur þetta vera kjarna málsins, þurfum að hugsa um þetta! Sammála honum um það eðli okkar um að við viljum frekar kaupa vél, fá afskriftir og borga litla skatta. Það sjáum við auðvitað í vélaeign Íslendinga bæði bænda og annara. Auðvitað verða menn að bera sig, vera brattir og stoltir af því sem þeir eru að gera, klæða sig vel, vera ekki mikið í flíspeysum. Stoltið skiptir máli, þið eruð bara flott! Það er ekkert meiri bisnesssvipur á bankastjórunum en ykkur. Það er ekkert verið að hóta ykkur með WTO samningunum, þeir ganga hægt, þarna eru 149 þjóðir sem allar eru að hugsa um sinn landbúnað. Þær ætla ekki fyrirhafnalaust að láta sinn landbúnað af hendi. Vill þakka einum blaðamanni, sveitadrengnum Agli Ólafssyni, fyrir að taka fyrir matvælaverðið, hann gerði það mjög vel. Þurfum að velta því fyrir okkur pólitískt, er þetta rétt stefna þjóða heimsins, að taka landbúnaðinn úr heilum þjóðfélögum, vegna þess að tollar eru lækkaðir og aðgangur opnaður. Hvers vegna er nautakjötsframleiðslan að fara úr Skotlandi til Brasilíu og Argentínu, er það hyggilegt? Jarðvegur mannkynsins hefur minnkað á 25 árum um 30%. Jarðvegurinn er dýrmætasta auðlindin sem við jarðarbúar eigum. Það segir okkur það, um leið og mannkyni fjölgar, þurfum við að kenna þjóðunum að búa og framleiða matvælin heima hjá sér þannig að menn séu sjálfbærir. Hugsið ykkur það að koma til Kúbu, þar sem kommúnistar hafa ráðið í 50 ár og framsóknamenn ekki verið til. Iðagræn jörð, eilíft sumar, fólkið fátækt, menn með plóginn og nautið fyrir framan, þetta er hræðilegt. Þurfum að hugsa um þessa alþjóðasamninga öðruvísi, ekki leggja af landbúnað í góðum löndum. Auðvitað eru þessir samningar á leiðinni, kannski verður ákvörðunin, aðferðafræðin mótuð á þessu ári og svo breytingarnar innleiddar á næstu 6 til 7 árum. Rétt er það, það verður allt flóknara og erfiðara sem fylgir þeim. Varðandi stuðningskerfið, förum ekki í deilur um það, hvaða efnahag þeir búa við sem framleiða mjólk eða kjöt. Þá förum við út í mjög erfiðar deilur því að sumir þessir menn sem hafa verið að kaupa jarðir, reka bú og hafa ráðsmenn, ekki mörg bú. Það væru skelfileg átök ef við héldum því fram að þetta væri ekki til að lækka matarverð. Svo verðum við að átta okkur á því að sum ykkar eru fólk sem sækir heilmikil laun inn í önnur störf í þjóðfélaginu. Hann þekkir menn sem eiga róbota, eru kennarar og fyrilesarar. Þeir fá áræðanlega mikið út úr WTO samningunum því þar er, að honum skilst, borgað fyrir að flytja ræður. Hvernig getum við sem best haldið þeim stuðningi sem við höfum, ljóst mál er að beinn framleiðslutengdur stuðningur verður að minnka um fjóra til fimm milljarða. Við eigum einn þátt þar sem metin er á fjóra milljarða, það er hin opinbera verðlagning mjólkuriðnaðarins. Svo verðum við náttúrulega að vona að tollarnir og tollígildin hverfi ekki of hratt. Sem betur fer eru flestar þjóðir þarna að hugsa um sinn hag, munið það að kannski ætla þarna þeir stóru að reyna að valta yfir allt. Gamli Bush sagði eitt sinn að það yrði ekki samið við GATT nema það væri bandarískum bændum hagstætt, þannig hugsa þessar þjóðir. Varðandi þessar norsku kýr, þá er alltaf litið á mig sem einskonar sökudólg. Hugsið ykkur hvað ég lagði á mig fyrir ykkur? Ég lá undir feldi í líklega nálægt ár, sagði að þetta væri flókið og erfitt mál. Svo tók ég skýra afstöðu og ákvað svo að leyfa þessa tilraun, með ákveðnum hætti. Hann bjóst við því að menn myndu taka tilrauninni fagnandi og myndu fara í hana, hann hvatti aldrei til að menn skiptu um skoðun, það var alfarið gert í ykkar samtökum. Tekur undir með Þorsteini, það að fara með tilraun í atkvæðagreiðslu er náttúrulega bara hrein vitleysa. Þannig að Guðni var alveg heill í þessu verkefni. Hann taldi sig hafa greitt úr málinu og varð hissa þegar málið fór í atkvæðagreiðslu. Hann er þeirrar skoðinar að þrátt fyrir allt hafi þetta ekkert gert til, því að þið séuð með tiltölulega góða mjólkurkú í höndunum. Ekki gott að láta það heyrast að sumir séu að tala niður til íslensku kýrinnar. Hún hefur þjónað þessari þjóð vel og við sjáum það í gegnum okkar bestu bændur að þeir eru að ná miklum árangri. Þrátt fyrir vilja ykkar um fá að ná í gen til að blanda “hár úr hala” einhvers kúakyns til að blanda inn í hann til að bæta eiginleika, þá skulum við tala vel um þessa íslensku kú og virða hana mikils, telur það ekki gott út í frá að tala mikið niður til hennar Búkollu. Varðandi auðmenn og jarðir þá skiptir hann því máli alveg í tvennt. Hann hefur áhyggjur af raðuppkaupum og mönnum sem þessvegna leggja landið í eyði. Tekur undir það sem komið hefur hér fram um skipulagsmálin og Ágúst Sigurðsson kom vel inn á á ráðstefnu sem hann sat. Þar er kannski stórt verkefni sem við þurfum að fara í LbhÍ, Landbúnaðarráðuneytið, BÍ, sveitarfélögin, að fara yfir skipulagsmál sveitanna. Halda um það ráðstefnu hvernig við eigum að skipuleggja þetta land. Sammála því að margar sveitarstjórnir eru ekki nógu sterkar til þess að berjast við ofurvald peninganna og breyta skipulaginu þannig að eignir manna falli, eða hugsa út frá landbúnaði eins og þeir eru að gera með glæsilegum brag í Hrunamannahreppi. Þetta væri tilvalið ráðstefnuefni sem fyrst og það væri mjög gagnlegt bæði fyrir þingið, landbúnaðinn og þjóðina að menn settust yfir þetta stóra framtíðarverkefni um leið og við skoðum hvort þessir raðuppkaupamenn eru að valda tjóni. Þeir hafa margir góðan tilgang líka, en það er alltaf hættulegt þegar menn eru farnir að kaupa jarðir í kippum. Til hamingju með jarðaverðið. Það voru margar jarðir verðlausar og óseljanlegar fyrir sjö árum þegar hann byrjaði. Höfum séð hvernig jarðaverðið hefur hækkað og sveitin orðið að tísku. Heldur að margir þeir sem koma inn í sveitirnar, þó þeir séu ekki ær eða kýr þá verði þeir góðir sveitamenn og góðir bændur á sínum jörðum. Þetta er þróun sem við þurfum samt að fara yfir að skoða. Til hamingju með þá framsýni og stórhug sem ríkir í ykkar röðum.
Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ
Ræddi ímynd okkar út á við og það áhlaup sem varð að okkur kringum áramótin. Þá saknaði hann radda okkar forystumanna. Guðni talaði okkar máli og gerði það vel. Við þurfum að hafa öfluga málsvara fyrir okkar stétt. Svona PR menn eru nauðsynlegir í okkar þjóðfélagi til að tala okkar máli. Þetta var öflugt áhlaup á okkar skipulag og okkar launakjör eins og Þórólfur kom inn á. Rök þeirra sem þrýsta á innflutning matvæla eru að mörgu leiti bitlaus. Ef gengið var á talsmenn verslunar og þjónustu, hversvegna heildarverð matvöru myndi lækka við tollalækkun hluta þeirra, sem innfluttar…., nei innlendar landbúnaðarvörur eru, þá voru engin svör eða rök fyrir því, bara af því bara. Hann saknar þess að fá ekki upp á borðið hvað menn meina með þessu! Að heildarverð matvöru myndi lækka þó nokkrir tollar myndu gera það. Hann skrifaði grein í Morgunblaðið fyrir nokkrum árum, þegar könnun hafði birst um meðalverð matvöru í ESB löndum. Þá beindi hann þeirri spurningu m.a. til framkvæmdastjóra verslunar og þjónstu, það var kannski ekki von að hann svaraði einhverjum litla putta úti í sveit. Óskað var röksemda fyrir því hvers vegna t.d. sultur, safar, grautar, morgunkorn o.fl. væri dýrara hér en í öðrum löndum ESB. Engin svör bárust, hann vill meina að það sé margt á veikum grunni, þegar sótt er að okkur. Varðandi WTO er kannski ekki ástæða til að hafa stórar áhyggjur af ennþá, en þetta virðist mikið núna snúast um útflutningsbætur, sem eru löngu aflagðar hér. Þessar viðræður súast ekki bara um landbúnaðarmál, ýmsir aðrir hagsmunir, eins og t.d. iðnaðarhagsmunir valda því að það fer sjálfsagt eitthvað að gerast í WTO viðræðunum. Aðeins var komið hér inn á sameiningu afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Kannski kemur að því, en hann telur að staðan gegn innflutningi væri veikari ef það yrði gert núna. Það yrðu enn meiri rök og þrýstingur ef þetta væri allt undir einni sæng. Aðeins um Hótel Sögu en hann skilur ekki það mál. Lítið hefur heyrst í þeim sem vildu halda eigninni og finnst honum þeir skulda sínum umbjóðendum skýringar. Honum sýndist verðið ásættanlegt og ástæðulaust að halda í eignina.
Jóhann Nikulásson, Hildisey
Til hamingju með afmælisárið, telur að samtökin hafi reynst okkur happadrjúg í gegnum tíðina. Fram kom hjá Þórólfi, sem við þurfum að velta fyrir okkur, að við þyrftum hugsanlega að endurskoða áform okkar um útflutning á mjólkurvörum. Það væri vont að þurfa að bakka til baka loksins þegar hyllir undir að við náum einhverjum árangri. Ekki víst að það myndi breyta öllu, þó það komi hugsanlega til vöntunar, þetta er ekki það mikið magn en þó eðlilegt að velta þessu fyrir sér. Hér hefur verið komið inn á hátt verð á jörðum, það er gott fyrir þann sem er að selja en hugsanlega erfitt fyrir þann sem er að kaupa og byrja. Heldur samt að það verði að huga að þessu út frá almennum landnotum, fara frekar þá leiðina heldur en að reisa einhverja háar varnargirðingar eða múra. Sem dæmi þá þarf kúabúskapur ekki mikið land, dæmi úr hans heimasveit, meðalframleiðslan í Austur Landeyjum er að nálgast 200 þúsund lítra, en þrátt fyrir það eru menn svona nánast að leika sér nánast í einu horni á jörðunum. Þannig að það er langt í það að þetta fari að verða eitthvað vandamál út af fyrir sig. Það getur að vísu verið eitthvað misjafnt eftir landsvæðum. Mikið hefur verið rætt um innflutning á erfðaefni til kynbóta á íslenska kúastofninum. Þetta hefur lengi verið töluvert áhugamál hjá honum. Honum finnst gæta nokkurs misskilnings í þessu, held að flestir sem eru að spá í þetta viti að menn redda ekki framleiðslunni núna með þessu, menn eru að horfa lengra fram í tímann og velta fyrir sér framtíðinni og þeim möguleikum sem við eigum. Eitt sem hann vill minnast á við formann Bændasamtakanna að nú eiga Bændasamtökin fulltrúa í matarverðsnefndinni. Hvert er upplegg eða útspil sem fulltrúi Bændasamtakanna mun fara með þar inn sem tillögu til að lækka matarverðið? Telur það farsælla í svona starfi að hafa frumkvæði í að benda á leiðir, frekar en að vera alltaf í vörn. Sammála Valdimar með Hótel Sögu, hefði viljað selja hótelið. Finnst vanta skýringar á því af hverju það var ekki gert, ekki er víst að þær komi.
Gunnar Kr. Eiríksson, Túnsbergi
Til hamingju með 20 ár starfsafmæli LK Stofnun samtakanna var mikill happafengur fyrir greinina. Síðustu 10 – 15 ár hafa verið mjög öflug í starfinu. Hefur verið gaman að kynnast fólki og fá tækifæri til að taka þátt í umræðum. Minnisstætt frá einum af fyrstu fundum sem hann var á þegar þeir tókust á Gunnar á Egilsstöðum og Bergur í Hólmahjáleigu, stutt var þá í hlátrasköllin. Mikilvægt líka að það komi svona saman góður hópur af fólki, það skilar vel. Vel hefur valist í forystusveit stjórnar hverju sinni og þakkar hann stjórn fyrir störf síðasta árs. Varðandi jarðarverð, þá er nauðsynlegt fyrir hvert sveitarfélag að hafa tekjur til að geta rekið sig. Við bændur erum nú þannig að við skilum nú ekki miklum sköttum og skyldum af okkur til sveitarfélagsins, það virðist vera okkar háttur að þó að við höfum þokkalegan rekstur þá virðast tekjurnar okkar vera litlar. Stóreignamenn sem kaupa jarðir og færa lögheimili sitt eru oft að skila gríðarlegum tekjum inn í sveitarfélagið. Það er ekki alltaf samhengi milli þess að jarðir séu bara seldar og ekkert gert á þeim og verður ekkert nema sina og slæmt í kringum það. Hann hefur séð í kringum sig að það geta góðir hlutir gerst líka. Sumarbústaðabyggð var skipulögð alveg að hans landamerkjum fyrir 10-12 árum síðan og var hann ekkert sérstaklega hrifin af því til að byrja með, en eftir að það byggðist upp og hann kynntist þessu fólki hefur hann ekkert nema gott um það að segja. Þannig telur hann tvær hliðar á öllum málum. Varðandi þá umræðu sem hefur verið um skipulagsmál í hans heimasveit Hrunamannahreppi, en þar voru skipulögð ákveðin landbúnaðarsvæði sem ákveðið svar við þessu, þetta er ekki farið að virka mikið. Þetta er alveg gríðarlega vandmeðfarið ef þessi leið er farin, því það kemur þá til kasta sveitarstjórna hverju sinni hverjir fá að breyta þessu landbúnaðarsvæði í önnur not, sama hvort það er skógrækt eða sumarbústaðir. Núna er búið að samþykkja, telur að það séu þrjú svæði sem sumarbústaðir verða byggðir á, búið að hafna líklega tveimur umsóknum. Það eru fimm menn í sveitarstjórn, meirihluti sveitarstjórnar ræður, þannig að þrír menn ráða í 800 manna sveitarfélagi. Þetta er gríðarlega vandmeðfarið. Vildi koma þessu á framfæri því honum fannst umræðan vera þannig hér áðan að þetta væri leiðin til að redda málunum en hann telur svo ekki vera.
Þórólfur Sveinsson, Ferjubakka
Þakkar góðar og málefnalegar umræður. Að hans mati ekkert rétt og ekkert rangt í því hvernig staðið er að ráðningu framkæmdastjóra LK. Ákveðið var þetta skiptið að auglýsa ekki, heldur reyna að fá ákveðin aðila til starfans sem gekk. Haft verður í huga að auglýsa þegar næst verður ráðið. Stefán Magnússon fór nokkuð hörðum orðum um atkvæðagreiðsluna um innflutning á erfðaefni hér um árið, fleiri hafa tekið í sama streng og telja að það hafi verið mistök að láta fara fram atkvæðagreiðslu um tilraunina. Þórólfur er alls ekki sammála og segir að LK séu eru grasrótarsamtök þar sem hver einasti aðili verður að borga hvort sem hann vill eða ekki. Það þýðir að hópurinn, sem hópur, á siðferðilegan rétt á því að greiða atkvæði um öll þau mál sem viðkvæm eru og honum sýnist. Það er hópurinn sem ákveður það ekki einhverjir sjálfskipaðir spekingar sem ákveða það hvaða mál fara í atkvæðagreiðslu. Það var ekki spurning að við áttum að fara með þetta mál í atkvæðagreiðslu. Hvað við eigum að gera núna þurfum við að ákveða á morgun. Það er hinsvegar alveg ljóst að ef LK á að vinna í þessu og það finnst mér sjálfum ekkert liggja í augum uppi, því ég skynja það ekki svo að menn séu að biðja um þessa lokuðu vísindatilraun sem að áformuð var á sínum tíma. Þá er það ekkert álitamál að við eigum að hafa baklandið með okkur, við eigum að vinna fyrir umbjóðendur okkar, það er algjört grundvallaratriði. Sýna umbjóðendunum þá virðingu að við séum að vinna fyrir þá, við erum í raun húskarlar fyrir þetta fólk. Það versta sem við lendum í er tvímælalaust það að við förum af stað og fáum svo á okkur óviðráðanlega kröfu um atkvæðagreiðslu þegar við erum komin nokkuð áleiðs. Förum þessvegna hina leiðina og höfum atkvæðagreiðslu með það að hópurinn taki ákvörðun ef á, á annað borð, sem ég hef verulegan fyrirvara gagnvart, að þetta sé eðlilegt verkefni LK. Hef svolítið verið að hugleiða, af því að það eru að verða komnir sextíu róbótar. Hvernig hefði sú þróun gengið eftir ef að LK eða einhver slík samtök hefð átt að hafa með þetta að gera? Held það hefði komið upp mörg alveg ófyrirséð vandamál, sem ekki hafa komið upp, ef þetta hefði átt að vinna á félagslegum grunni. Afstaða mín hvað varðar rétt þess fólks sem ég þykist hafa verið að vinna fyrir, til þess að hafa skoðun á því sem samtökin eru að gera, hún er algjörlega skýr og afdráttarlaus! Vill taka undir með Pétri, án þess að gera lítið úr öðrum hugmyndum sem ég nefni ekki, en hann veltir því fyrir sér hvort LK og SAM eigi að fara að huga að þessum eftirlitsþáttum, dýralæknaþjónustu og öðru slíku. Hvernig koma kollegar okkar á norðurlöndunum þessu fyrir og erum við örugglega með þetta í þeim farvegi sem við eigum að hafa þetta? Við vitum að mjólkuriðnaðarfyrirtækin reka með miklum ágætum skipulagt eftirlitskerfi með mjólkurgæðum og mjólkurtækjum og öðru slíku. Heldur að það sé full ástæða til við förum að hugleiða þetta. Nokkur skrif hafa orðið um samskipti okkar við dýralækna, þeir eru sumir ofurlítið viðkvæmir fyrir gagnrýni okkar á kostnað og í sumum tilvikum á þjónustu. Rétt að greina frá því að strax eftir páska eigum við fund með yfirdýralækni og fleirum úr þeirra hópi, þannig að það er nú ekki þannig að menn séu ekki að tala saman. Jón Gíslason gagnrýndi að ég skyldi ekki fjalla um WTO samninga í minni setningarræðu, það er í sjálfu sér alveg réttmæt gagnrýni. Þórólfi fannst bara eftir að hafa farið yfir ræður fyrri ára, að það hefði ekki gerst svo mikið sem snerti okkur og ekki skýrst svo mikið á milli funda að það væri ástæða til að hafa um það mikla umfjöllun. Hann deilir alveg þeirri skoðun með Jóni að þetta getur haft umtalsverð áhrif og það má ekki undir neinum kringumstæðum taka það svo að hann sé að gera lítið úr þeim áhrifum sem samningarnir kunna að hafa á okkar hag. Varðandi meinta andstöðu Þórólfs gangvart niðurfellingu á fóðurtollum, þá er þar á ferðinni einhver misskilningur. Við erum að fá þróunarfé til nautgriparæktarinnar gegnum gjaldið á hráefnum, það þarf að leysa það. Það getur verið auðvelt í okkar tilviki því það styttist í að þessar óframleiðslutengdu greiðslur komi til sögunnar og þetta hlýtur að vera alveg gráupplagt sem grænar greiðslur, það er tiltölulega auðvelt að dekka þann hlut. Nú hitt, það er nánast ekkert kjarnfóður flutt inn blandað, þannig að það er enginn tekjustofn sem myndast þar, nú er þetta bara á borði sjórnvalda hvað þau ætla að gera og telur hann að það sé nokkuð breið samstaða um það að þessa breytingu sé óhjákvæmilegt að gera. Þakkar Grétar ábendingar varðandi val á fundarstjórum, það er nokkuð sem er vert að skoða. Tekur undir þau orð Sigurgeirs að það er mjög stutt síðan það var fremur dauft okkur kúabændum og við töldum að mjólkurframleiðsla á Íslandi yrði ekki langlíf af því að það þorði varla nokkur maður að byggja nýtt fjós. Telur að okkur vanti frekar meiri en minni bjartsýni. Varðandi söluáformin með Hótel Sögu, af hverju hún var ekki seld og skort á upplýsingum um afstöðu manna, þá telur hann að allir sem tengjast LK séu búnir vitna um það á opinberum vettvangi hvernig þeir hafi greitt atkvæði og telur hann að það hafi allt verið á einn veg, þeir vildu selja. Á niðurstöðunni eru að sjálfsögðu ýmsar skýringar, þó þær komi ekki fram á þessum fundi. Þær koma eflaust fram á fundum þar sem þeir mæta sem greiddu atkvæði gegn hótelsölunni. Þakkaði enn á ný fyrir málefnalegar og góðar umræður.
6. Erindi
Framleiðslukostnaður í mjólkurframleiðslu
Daði Már Kristófersson Bændasamtökum Íslands
Daði gerði grein fyrir tildrögum könnunarinnar, en greiningin var unnin að beiðni nefndar um samkeppnishæfi íslenskrar búvöruframleiðslu. Verið að skoða hver sé kostnaðarsamsetning íslenskrar búvöruframleiðslu og þróun samanborið við helstu nágrannalönd í Evrópu. Noregur, Danmörk og Svíþjóð voru valin sem samanburðarlönd fyrir mjólkurframleiðsluna. Gögnin fyrir Ísland voru búreikningagögn frá Hagþjónusta landbúnaðarins, þetta er semsagt úrtak, kúabú sem hafa meira en 70% tekna af kúabúskap. Frá Noregi voru þau frá Norsk Institutt for Landbruksøkonomisk Forskning (NILF) og þá fyrir sérhæfð kúabú. Frá Danmörk og Svíþjóð frá Farm Accountancy Data Network (FADN) hjá Eurostat og að sama skapi fyrir sérhæfð kúabú. Nýjustu gögnin að utan í þessu eru frá 2003, en ekki er hægt að fá nýrri gögn að þaðan. Ef við skoðum bústærðina mælda í framleiðsu á mjólk þá eru Danirnir lang stæstir, búin eru að stækka mjög mikið í löndunum og þeim er líka að fækka, nema kannski í Noregi. Vandinn sem við er að glíma þegar verið er að bera saman mismunandi lönd, er að kostnaðarliðir eru ekki metnir eins, hugtak eins og t.d. breytilegur kostnaður, þarf ekki endilega að þýða það sama í löndunum. Samræma þurfti því gögnin, eins og kostur var. Stuðst var við kostnað á framleiddan lítra í þessum samanburði, einingin vinnuframlag bónda ekki tekið með. Allt reiknað yfir í íslenskar krónur og stuðst við markaðsgengi. Það auðveldar samanburð en er viðkvæmt fyrir gengisbreytingum sem koma fram sem breytingar á kostnaði. Íslenska krónan er ekki stöðugasti gjaldmiðill í heimi og því koma fram sveiflur í þessum sambanburði, t.d. milli 2000 og 2001 en þá féll gengi íslensku krónunnar verulega, svipað og er að eiga sér stað í dag. Svipað gildir um norsku krónuna en hún hefur sjálfstætt átt í hremmingum vegna sveiflna á olíuverði. Þannig að þegar eru skoðuð línurit yfir þessa þætti þá þarf að hafa þessar gengissveiflur í huga því það má greinilega sjá þær á kostnaðartölunum, þær eru ekkert annað en gengissveiflur. Ef við skoðum kostnaðarsamsetninguna 2003. Þá er breytilegur kostnaður hæstur í Noregi, svo á Ísandi, Svíþjóð og Danirnir eru lægstir. Segja má að við röðum okkur mjög í samræmi við umfang rekstrarins, sem bendir til þess, eins og menn grunar að það sé töluverð hagkvæmni stærðar í kúabúskap. Það er, því stærra sem kúabúið er, því lægri sé framleiðslukostnaðurinn per líter. Búin í Noregi eru lítið eitt minni en á Íslandi og má segja að þeir standi einna lakast að vígi hvað varðar breytilegan kostnað. Þegar við bætum svo við hálffasta kostnaðinum þá helst sama munstur á milli þjóðanna, nema að kostnaðurinn er verulega hærri í Noregi enda má segja að þeir hafi unnið ötullega að því að halda bústærðinni niðri með ýmsum reglum. Þessar tölur eru alls ekki afleitar fyrir okkur Íslendinga og benda til þess að við séum alls ekki eins langt frá því að vera samkeppnishæf við þessa nágranna okkar, eins og kannski suma hefur grunað. Það sem að gerist hinsvegar er það að þegar við bætum við vaxtagjöldum þá erum við í algjörum sérflokki hvað varðar þennan kostnaðarlið! Þessi kostnaðarliður hefur verið að vaxa mjög hratt á undanförnum árum. Síðan má bæta við einum lið enn, sem hann er sjálfur ekker sérstaklega hrifin af en það eru afskriftirnar. Þær gjörbreyta aðstöðunni, en þetta er ekki alveg sanngjarn samanburður. Í Evrópusambandinu og í Noregi er ekki leyfilegt að afskrifa greiðslumark, það myndi breyta töluvert þessari mynd. Síðan eru afskriftir ekki kostnaður, heldur leikur að tölum, einhverskonar nálgun fyrir skattayfirvöld og ber að taka með svona vissum fyrirvara. Þó að þessi þróun segi okkur eitthvað þá er samanburðurinn ekki alveg réttur. (innskot ritara, ef lesið er á súluritið þá er samanlögð kostnaðarsúla okkar Íslendinga um 76-77 kr/lítra, Norðmanna í um 71 krónu, Svíar í rúmum 46 og Danirnir lægstir með rúmar 34 krónur á lítrann.) Ef skoðuð er þróun framleiðslukostnaðar án vaxtagjalda og afskrifta, hefur þróunin verið þannig að við erum að nálgast Dani og Svía en fjarlægjumst Norðmenn. Ef tölurnar eru leiðréttar fyrir verðlagsáhrifum og notum þann varfærnislega leiðréttingastuðul, vísitölu neysluverðs án íbúðarhúsnæðis, þá hefur hreinn framleiðslukostnaður (kostnaður fyrir fjármagns- og fjárfestingaliði) hreinlega verið að falla. Lætur nærri að það fall sé um 1,12% á ári. Hér hefur tvímælalaust átt sér stað hagræðing sem er að skila sér í lægri framleiðslukostnaði. Ef við hinsvegar bætum vaxtagjöldunum við, þá förum við að nálgast Norðmenn í okkar framleiðslukostnaði. Þarna er sökudólgurinn þróunin hjá okkur í vaxtagjöldum, þar eru við á einstakri leið, uppá við og frá þeim. Vaxtagjöldin eru geysihá og ef þau eru t.d. borin saman við dýralæknakostnað á búunum hérlendis, þá virðist dýralæknakostnaðurinn ekki hár í þeim samanburði. Þrátt fyrir að kúabændur eigi auðvitað að skoða hvað þeir eru að borga dýralækninum, þá kemur hann með þá varfærnislegu tillögu að þeir skoði hugsanlega þennan kostnað fyrst. Að einhverju leiti skýrist náttúrulega þessi gríðarlegi kostnaður af skuldum og ef við skoðum þróun heildarskulda í kr. per lítra hjá okkur í samanburði við nágranna okkar, þá sjáum við að þær hafa verið uppá við hjá okkur og hugsanlega meira uppávið hjá okkur en nágrönnunum en munurinn er þó ekki eins gríðarlegur eins og í vaxtagjöldunum sjálfum. Við vitum hvaða fjárfestingar eru þarna á bakvið. Ef skoðaðar eru afskriftirnar hjá okkur og þróun þeirra þá er ljóst að afskriftir af mjólkurkvóta hafa vaxið mjög á þessu árabili. Afskriftirnar eru ágætur mælikvarði á fjárfestingar og hafa afskriftir af mjólkurkvóta farið frá því að vera nánast það sama og afskriftir af útihúsum 1998 yfir í það að vera langstærsti einstaki liðurinn 2004. Það er erfitt að komast að annari niðurstöðu en þeirri, að þessi hagræðing sem hefur átt sér stað hafi verið keypt til þess að gera mjög háu verði. Varðandi tekjurnar, ef skoðaðar eru búreikninganiðurstöður, ekki einingaverð frá afurðastöðvum, heldur meðaltekjur á seldan lítra, þá búum við svo vel hér á landi að vera með hæsta verðið frá afurðastöð, borið saman við þessa nágranna okkar. Sama getum við ekki sagt um kjötframleiðsluna, þar eru það tvímælalaust Norðmenn sem njóta bestu aðstöðunnar. Ekki er svo mikill munur varðandi kjötið, hjá okkur Dönum og Svíum. Ef við skoðum svo niðurgreiðslurnar þá breytist myndin töluvert, þær nema miklu hærri upphæð hjá okkur og Norðmönnum en hjá Dönum og Svíum. Þróun tekna af mjólkursölu hefur verið mjög jákvæð hér, ekki síst vegna góðrar eftirspurnar og ánægju markaðarins með vöruna. Þróun niðurgreiðsla hefur líka verið mjög stöðug. Ef tekjur og kostnaður er skoðað í samhengi er ljóst að grunn arðsemi í kúabúskapnum hér er mjög góð! Sorglega mikið af bilinu á milli okkar og hinna þjóðanna er á þessum vaxtagjaldalið, sem dregur úr þeim parti sem menn taka með heim. Ljóst er þó að Norðmenn hafa það hvað best ef við skoðum muninn á tekjum og kostnaði, þar á eftir komum við, svo Danir sem þurfa að lifa við ákaflega lítinn mun á kostnaði og tekjum og loks Svíar sem áttu í miklum þrengingum á þessu árabili eftir hugsanlega inngöngu í Evrópusambandið og aðra slíka þróun og sýna beinlínis tap í þessum tölum. Nú hverjar eru þá niðurstöðurnar? Framleiðslukostnaður án fjármagnsliða er litlu hærri hér en í Svíþjóð, þannig að við stöndum í grunnin tæknilega séð, ekkert illa til að takast á við samkeppni frá þessum nágrönnum okkar. Fjármagnskostnaður er hinsvegar verulega hærri hér á landi en í nágrannalöndunum og algjörlega sér á parti. Það er freistandi að álykta sem svo að hagræðing, sem vissulega hefur átt sér stað í mjólkurframleiðslunni hafi verið mjög dýr. Stækkun búanna, eins og allir vita krefst mikilla fjárfestinga og leiðir auðvitað að þeirri spurningu, er hugsanlega hægt að breyta með einhverjum hætti þessu kerfi sem við búum við, þannig að það megi lækka þennan kostnað? Þannig að sú þróun sem við sjáum núna á heildar framleiðslukostnaði haldi ekki áfram á sömu braut.
Ný nautastöð BÍ. Vinnuhópur um byggingu nýrrar nautastöðvar
Gunnar Guðmundsson Bændasamtökum Íslands.
Gunnar hóf mál sitt á að greina frá því að hann myndi gera örstutta grein fyrir þeirri vinnu sem unnin hefði verið á vegum BÍ varðandi skipulag og byggingu á nýrri nautastöð og myndi miða hana við það hvað hefði gerst í málinu frá síðasta aðalfundi LK. Upp frá þeim fundi settust þeir á rökstóla, hann sjálfur, Magnús Sigsteinsson, Snorri Sigurðsson, Baldur Helgi, Jón Viðar, Sveinbjörn Eyjólfsson ásamt fleirum. Þeir héldu áfram að skoða ýmsa þætti í verkefninu, sem upphaflega var að koma uppeldisaðstöðunni í Þorleifskoti í það horf að aðstaðan uppfyllti kröfur aðbúnaðarreglugerðarum. Við þá rýni stækkaði verkefnið og leyfðu þeir sér það að taka til heildarendurskoðunar bæði uppeldi og rekstur nautaðstöðvarinnar á Hvanneyri. Þeir lögðu sínar hugmyndir fyrir stjórn Bændasamtakanna í ágúst sem „samþykkti að hefja vinnu við hönnun á nýju kálfafjósi á eða í nágrenni við Hvanneyri, með það að markmiði að í framtíðinni verði bæði kálfauppeldið og sæðistakan rekin þar í einni einingu”
Það verkefni sem starfshópurinn tók að sér að skoða var fyrst og fremst að skoða rekstrarhagkvæmni til lengri tíma, aðbúnað og velferð gripa, vinnuaðstöðu starfsfólks og síðan að fara rækilega yfir þætti sem snúa að heilbrigði, sóttvarnir og öryggi að því leiti. Hlut ræktunarstarfsins og fagmennsku og eins þjónustu starfsseminnar við nautgriparæktina. Þeir nutu þessi í starfinu að fá til liðs við sig starfsmenn frá Embætti Yfirdýralæknis, sérstaklega Konráð Konráðsson til þess að meta hver er sjúkdómahættan við það að reka þessa starfssemi saman nánast undir sama þaki. Þar var unnið gott starf og niðurstaðan var sú að miðað við það hvað það er gott heilbrigðisástand búfjár hér á landi, þá telja þeir ekki teljandi áhætta á að reka uppeldi og sæðistöku á sama stað. Það er hinsvegar gerð eðlileg krafa um það að tæknilegur aðskilnaður í byggingum þurfi að vera fyrir hendi og að þessi starfssemi þurfi þá að lúta mjög ströngum og ákveðnum starfs- og umgengnisreglum og einnig hvað varðar aðgengi og umgengni almennings. Þeir skoðuðu líka hver væri áhætta fyrir ræktunarstarfið að hafa alla þessa starfssemi á einum stað ef það kæmi upp fár eða stóráföll. Niðurstaða þeirrar skoðunar er að það hafi óveruleg áhrif, ef tímabundið þarf að loka stöðinni vegna stóráfalla. Það sé í raun og veru hægt að sneiða hjá þeim með breyttu skipulagi í sæðisnotkun og nautavali. Talin er miklu meiri áhætta af því að gera eins og við gerum í dag, að geyma allt sæði á einum stað og er það hlutur sem við þurfum að bregðast við. Á þessu stigi vildum við líka skoða hvað kostar það okkur að stöðin geti uppfyllt ESB reglur. Gerum nú ekki ráð fyrir því að verða ríkir af útflutningi erfðaefnis, en því er ekki að neita að þeir hafa annað slagið fengið fyrirspurnir um það hvort þer geti útvegað erfðaefni, nú síðast 2-300 skammta til Svíþjóðar úr hæst dæmda nautinu af árganginum 1995. Þurfum að ákveða núna hvort byggja eigi með hugsanlegan útflutning erfðaefnis í huga! Skoða þarf kostnað á móti fjárhagslegu vægi til langs tíma. Þessar spurningar hafa verið lagðar ákveðið fyrir Embætti Yfirdýralæknis, en svör sérfræðinga ESB um kröfurnar liggja ekki fyrir. Því verður farin sú leið að fá mat Norðmanna og Dana á það hvaða kröfum við þurfum að mæta til að standast ESB reglur. Lítum ekki á þetta sem forgangsatriði en vilja skoða þetta á þessu stigi. Hópurinn fór í skoðunarferð til Danmerkur til að skoða sambærilega starfssemi. Niðurstaðan af þeirri heimsókn er í stuttu máli sú að það sé æskilegt og skynsamlegt að byggja þetta allt á einum stað, nánast undir einu þaki. Hjá Dönunum er allt á einum stað, uppeldisgripir í lausagöngu, hópstíur með hálmi, legupallastíur með sag- eða hálmundirburði og lausagöngustíur með misstórum legubásum. Nautin eru laus í einstaklingssstíum /búrum. Eitt af því sem fékk okkur til að fara af stað eru rekstrarforsendunrnar fyrir þessari starfssemi, það eru fækkandi gripir, færri sæðisskammtar, rýrnandi tekjugrunnur undir þessari starfssemi þannig að við þurfum á öllu okkar að halda til þess að það sé skynsemi í þessum rekstri. Þar kemur fyrst og fremst til, og byggjum við það á reynslu nágrannalanda okkar að með tæknibreytingum getum við fækkað stöðugildum í þessari starfssemi. Norðmenn umbyltu þessu fyrir nokkrum árum og fækkuðu stöðugildum hjá sér úr 11 í 5,5. Við viljum lágmarka launakostnað, en í dag er launakostnaður í heildarrekstri nautastöðvarinnar á Hvanneyri tæplega 50%. Við viljum að svo miklu leyti sem skynsemi er í, tæknivæða starfssemina hvað varðar fóðrun og hirðingu. Teljum skynsamlegt að útvista eins mörgum verkþáttum í starfsseminni og hægt er. Það eru líka ákveðnir möguleikar fólgnir í því að selja þær byggingar sem núverandi starfssemi er í og hafa þeir skoðað lauslega arðsemi nýbyggingarleiðarinnar, þ.e.a.s. að byggja allt frá grunni og telja þeir fullkomlega forsvaranlegt að leggja út í þær og að sú fjárfesting muni skila sér á tiltölulega skömmum tíma, innan við tíu árum. Staðsetning þessarar stöðvar er að sjálfsögðu atriði sem þarna kemur inní og þar hafa þeir horft til margra þátta. Þeir telja ekki óskynsamlegt að þessi starfssemi sé í nánum tengslum við rannsóknastarf og þróunarstarf í nautgriparækt og að stöðin sé í fagumhverfi greinarinnar. Varðandi kennslu getur þessi stöð líka skipt máli. Við vitum að búgreinin hefur ályktað á undanförnum árum um að það skuli þétta fagstarfið fyrir nautgriparæktina og þar má líka vitna í skýrslu RANNÍS. Þessi starfssemi þarf að vera í nágrenni við búrekstur að því er varðar heyöflun og kaup á mannafla til afmarkaðra verkefna. Við þurfum líka að huga að andliti nautgriparæktarinnar, við lítum á þessa starfssemi sem ákveðið andlit. Einnig þarf að huga að flutningi á gripum, sæði og svo dreifingu á vörum. Við höfum ekkert leynt því að okkur hefur litist vel á Hvanneyrarsvæðið, sem ályktanir hníga nú að, að eigi að vera miðstöð eða lögheimili nautgriparæktarinnar í landinu. En í ljósi þess að komið hafa fram ábendingar um, til að mynda Gunnarsholt og hafa okkar vísustu menn farið og skoðað möguleikana þar. Niðurstaða þeirrar skoðunar er í stuttum máli sú að þar er jú nægt byggingarland. Gunnarsholt í dag er skipulagt sem þéttbýli en ekki landbúnaðarsvæði. Við vitum að hrossaræktin, sem á þær byggingar sem þarna er horft til, sæðistökuhús og stóðhestastöð, áformar nýtingu þessara bygginga og frá hendi BÍ teljum við ekki skynsamlegt að ganga gegn hugmyndum hrossaræktarinnar meðan ekki liggur fyrir að þeir vilji afsala sér þessum byggingum. Við gerum okkur líka grein fyrir því að það þarf að kaupa þær, þær eru ekki ódýrar og það er mat okkar byggingasérfræðinga að þær séu ekki hentugar, að minnsta kosti ekki fyrir nautgripi og ætlar hann sjálfur ekki að hætta sér út í skoðun á því. Niðurstaðan er semsagt sú að þeir telja ekki vera augljósa kostir um að staðsetja þessa stöð í Gunnarsholti umfram Hvanneyri. Flóknari flutningsleiðir til Vestur- og Norðurlands og veikari fagleg tenging við annað fræðastarf í nautgriparækt. Það hefur líka verið leitað eftir því hvort að Möðruvellir í eigu LhhÍ væri valkostur, þar eru jú byggingar, en svör LbhÍ hafa verið í þá veru að þeir væru ekki tilbúnir að afsala sér þeim þar sem þær eru í fullri notkun og ekki fyrirsjánlegt að þær losni. Samandregin niðurstaða. Ný nautastöð er mikilvæg fyrir ímynd nautgriparæktarinnar, bæði inn og út á við. Getur aukið áhuga bænda á þátttöku í kynbótastarfinu. Þeir telja að það sé skynsamlegt að öll starfsemin sé á einum stað, ég segi ekki undir einu þaki, en á einum og sama stað. Eins og fram kom er sjúkdómaáhætta ekki mikil af því. Ræktunaráhætta er óveruleg en við teljum rekstrarhagkvæmni við að reka starfssemina á einum stað augljósa. Við teljum afar mikilvægt að tengsl séu við fagumhverfi nautgriparæktarinnar og í því sambandi vill hann nefna að Bændasamtökin hafa nýlega ákveðið að ganga fram fyrir skjöldu og kosta hluta af prófessorstöðu í kynbótafræði við Landbúnaðarháskólann. Við ætlum ekki þeim manni að tyggja blýanta, heldur verður gengið eftir því að við fáum, sem ábyrgðaraðili að ræktunar- og kynbótastarfi búfjár, sem Bændasamtökin eru í dag, út úr því starfi allt sem hægt er að fá. Hann bendir líka á að því er varðar erfðatækni, sameindaerfðafræði og slíka hluti, kyngreiningu á sæði, þá sé skynsamlegt að horfa til þess að nánd við rannsóknar og þróunarstarf sé fyrir hendi. Þessvegna er það þeirra niðurstaða að það sé skynsamlegt að horfa til þess að staðsetja þessa stöð á eða í nábýli við Hvanneyri og hafa þeir fyrir því umsögn rektors að land mun ekki skorta og það mun fást þar á þokkalegu verði.
Nokkrar fyrirspurnir voru leyfðar og fer hér á eftir það helsta:
Grétar Einarsson. Hafið þið skoðað hvort í stöðinn verði hægt að koma fyrir tækjabúnaði til kyngreiningar á sæði? Gunnar svaraði strax, að ef búgreinin telur að kyngreining á sæði sé mikilvægt fyrir hana þá að sjálfsögðu á að gera ráð fyrir því í stöðinni.
Jóhann Nikulásson. Liggja einhverjar kostnaðartölur fyrir í sambandi við þetta?
Gunnar svarar; áætlanir okkar um byggingu nautastöðvar og uppeldisstöðvar með nauðsynlegu aðstöðurými, sæðistöku, geymslum, skrifstofu, starfsmannaaðstöðu og mótttökuaðstöðu fyrir gesti og gangandi, kúabændur og aðra, losar 100 milljónir með vsk.
Birna Þorsteinsdóttir. Varðandi gesti og gangandi, er ekki svona uppeldisstöð lokuð út af sóttvörnum? og hefur verið skoðað ef kemur til innflutnings á erfðaefni, hvort ekki þarf einhverja aðra aðstöðu til þess?
Kristín Linda Jónsdóttir. Henni líst ekki á að bölvandi naut séu andlit nautgriparæktarinnar. Hún gerir þá kröfu til Landbúnaðarháskólans að það sé kennslufjósið á Hvanneyri, með mjólkandi kúm, kvígum og yngri kálfum. Ekkert að því að taka á móti bændahópum og fræðingum í nautastöð en ekki teyma almenning inn á svona stöð.
Jóhann Nikulásson. Í framhaldi af upplýsingum um kostnað, þá langar hann að vita hvað hefði kostað að laga aðstöðu á núverandi nautastöð og uppeldisstöðina í Þorleifskoti svo þær uppfylltu aðbúnaðarreglugerðir.
Gunnar minnir á að nautastöð BÍ á Hvanneyri er frá því rétt fyrir 1960, byggð á þremur pöllum. Hún er engan veginn hönnuð sem svona bygging og líka staðsett á vatnsbakka, þannig að það er mjög takmarkað hægt að byggja við hana og mjög hæpið. Hinsvegar hefði verið hægt að breyta byggingunni í Þorleifskoti í uppeldisfjós, en það er eftir sem áður gömul bygging. Við metum það svo að möguleikar til að selja núverandi eignir á móti nýfjárfestingu og þeirri hagræðingu sem við fáum, með því að geta fækkað starfsfólki, hún sé fyllilega forsvaranleg og arðsemin við þá fjárfestingu eigi að geta skilað sér á því árabili sem fram kom í hans framsögu. Þó það hafi ekki verið skoðað mjög gaumgæfilega, þá reiknar hann með því að hugsað verði fyrir aðstöðu í nýrri stöð hvað varðar innflutning á frjóvguðum eggjum, sæði og öðru slíku.
Gunnar beinir heimsóknarspurningum til Sveinbjörns Eyjólfssonar forstöðumanns nautastöðvar BÍ, því hann þekkir það á eigin skinni hvers virði það er að geta tekið á móti gestum.
Sveinbjörn Eyjólfsson, Varðandi aðgengi almennt að nautastöðinni þá er þar ekki galopin starfssemi. Eftir að nýja fjósið var byggt á Hvanneyri þá færðist mjög í vöxt að bændur vildu koma í nautastöðina eftir að þeir hefðu skoðað nýja fjósið. Auðvitað er það vinnufrekt að taka á móti þessum hópum en Sveinbirni finnst skylda að taka vel á móti bændum í stöðina og fræða þá um starfssemi hennar. Slíkum heimsóknum þurfi ekki að fylgja áhætta sé afar varlega farið.
Þorsteinn Rútsson, honum fannst koma fram að það væru til byggingar á Möðruvöllum sem ekki væru notaðar en þær væri ekki falar. Hverjar eru skýringar á því?
Sigurlaug Leifsdóttir, Er ekki áhætta að staðsetja svona stöð á Hesti, gagnvart riðuveiki og garnaveiki?
Gunnar svarar, Á Möðruvöllum er nýlegt fjós og var leitað eftir því hvort það væri falt undir þessa starfssemi og var svarið við því nei. Varðandi spurningu Sigurlaugar, þá er það mat, sérstaklega bæði Halldórs Runólfssonar og Konráðs Konráðssonar að þessi áhætta sé ekki það mikil að það sé ástæða til að hafa áhyggjur af því. Það er kannski fyrst og fremst garnaveikin sem menn hafa verið að horfa á, en það er aldrei tekin kálfur frá garnaveikibæ, þannig að þessi sóttvörn er á vissan hátt komin á þegar kálfar er teknir inn í fjósið. þetta verður einangrunarstöð sem kemur til með að þurfa að lúta mjög ströngum umgengnisreglum bæði starfsmanna og gesta en af því að Sveinbjörn vill taka á móti fólki, þá gerir Gunnar ráð fyrir því að það verði jafnvel að einhverju leiti haft á bakvið gler. Hann þekkir það frá sambærilegum stöðum erlendis, t.d. í Noregi þykir mjög spennandi að koma og sjá sáðlát hjá nauti, þar standa menn í hópum og fylgjast með því þegar nautin stökkva!
Egill Sigurðsson, það kom fram hjá Gunnari að haft hefði verið samband við hrossaræktarsamtökin sem eiga sérhæft sæðistökuhús í Gunnarsholti, telur að hitt sé í eigu ríkisins. Hann á bágt með að trúa því að þetta stóðhestahús eins og það var byggt, að innan þess veggja geti ekki rúmast nautastöð eða uppeldi á nautum. Hann trúir því ekki, mörg ykkar hafa komið í þetta hús og það er vel byggt og stórt. Vill fá að vita hver hafi gefið þessi svör gagnvart hrossaræktinni, því eins og honum heyrist þá er þessi sæðistaka í hrossum og frysting á því í einhverri kreppu, árangur hefur ekki verið slíkur og þetta stendur og fellur með einu félagi, Orrafélaginu, hvort þeir standa að þessu eða ekki og Dýralæknaþjónustu Suðurlands. Kosturinn sem hann hefði séð við Gunnarsholt er það að það er langt í önnur jórturddýr, ekki nautgripir og sauðfé á svæðinu og heyöflun á þessum túnum þarna í Gunnarsholti er mun hagkvæmari en nokkurn tímann þið náið upp í Borgarfirði á Hvanneyri, það telur hann óhætt að fullyrða. Það er auðvelt að heyja þarna og heyja mikið þarna, nóg ræktun. Gagnvart því að þetta sé skipulagt sem þéttbýli, þá vitið þið að stóðhestastöðin er í töluverðri fjarlægð frá íbúðabyggðinni í Gunnarsholti og það má byggja í allar áttir þar og það er bara spurning um einfalda breytingu á skipulagi og fannst honum þetta því léttvæg rök. Var gerð einhver grunn-kostnaðaráætlun, á hvað þessar byggingar væru falar, annars vegar af ríkinu og hinsvegar af hrossaræktarsamtökunum og hvað beyting gæti kostað og hvort þetta myndi rúma starfssemina. Hann kaupir ekki þau rök að það sé eitthvað erfiðara eða dýrarar með flutninga til og frá Gunnarsholti en til og frá Hvanneyri eða Hesti, það er bara skipulagsatriði, það getur ekki verið neinn munur á því!
Einar Haraldsson , Hefur heimildir fyrir því að það verði ekki tekið sæði í stöðinni í vor á vegum Dýralæknaþjónustu Suðurlands, áhugi hjá hrossabænum hefur farið minnkandi og þetta verður ekki gert í vor.
Gunnar Jónsson. Hvað kostar nettó að byggja, ef tekið er tillit tið söluandvirðis þeirra eigna sem á að selja á móti?
Magnús Hannesson, Hver er áætluð lækkun á rekstrarkostnaði hvert ár? Hvað eru mörg stöðugildi í allt í dag og hvað verða þau mörg í nýrri stöð?
Gunnar svarar, er ekki með þessar tölur handbærar með sér, þetta eru tvö íbúðarhús á Hvanneyri, annað þeirra var að vísu selt í haust, Sveinbirni stöðvarstjóra. Áætlað söluverð nautastöðvarinnar gömlu, metið af fasteignarsala er á bilinu 12 – 18 milljónir króna. Gróft mat fasteignasala á söluvirði uppeldisstöðvarinnar í Þorleifsfkoti er á bilinu 20-50 milljónir, aldrei undir 20 milljónum. Miðað við þær tölur sem við erum að heyra um fasteignaverð í Laugardælum, sem er gríðarlega hátt, þá treystir hann sér ekki til að spá neitt í þessar tölur. Íbúðarhúsið sem óselt er á Hvanneyri má áætla að seljist á 8-15 milljónir og það er spurning hvenær það verður gert. Hann minnir að í áætlunum hafi þeir verið að tala um að nettó fjárfesting í glænýrri stöð, að frádregnu áætluðu söluandvirði fasteigna sé einhversstaðar á bilinu 40-60 milljónir. Í dag er 45-50% af rekstri nautastöðvanna launakostnaður. Það eru greidd rúmlega fjögur ársverk í dag, í kringum 16 milljónir króna í launakostnað. Treystir sér ekki til að svara því nákvæmlega hversu mikið er hægt að fækka en hyggur að það megi spara á milli 3-6 milljónir í launaútgjöld. Út frá þessum forsendum hafa þeir fyrst og fremst verið að ganga. Sigurgeir Þorgeirsson hefur rætt við menn varðandi aðstöðuna í Gunnarsholti og hvaða hugmyndir væru uppi um nýtingu, það hefur verið rætt við formann Félags Hrossabænda, Kristinn á Skarði, við Hrafnkel Karlsson á Hrauni og við höfum rætt við Guðlaug Antonsson hrossaræktarráðunaut. Einmitt á síðasta fundi fagráðs í hrossarækt var verið að ræða ýmis verkefni sem hugsanlega væri skynsamlegast að vista í þessari aðstöðu sem þarna er og eins og hann tók fram áðan, á meðan að hrossaræktin hefur um það hugmyndir að nýta þessar byggingar þá finnst þeim ekki skynsamlegt að ganga gegn þeim hagsmunum. Þetta er einfaldlega mat þessara aðila.
Kristín Linda Jónsdóttir, spyr um tímaáætlun ef af nýbyggingu verður.
Gunnar svarar, það hefur ekki verið skoðað, en hugmyndavinna er komin það langt að hægt væri að byrja á þessu ári.
Jóhann Nikulásson, síðast þegar var byggt fjós á Hvanneyri, hver var þá kostnaðaráætlun og síðan raunkostnaður? Megum við eiga von á einhverju slíku í þessu dæmi?
Gunnar svarar, vill bara minna á að í því dæmi er ein skýring sú að á miðju byggingarferlinu var tekin ákvörðun um stækkun, sem breytti kostnaðarforsendum.
7. Skipan í nefndir, málum skipað til nefnda og nefndastörf
Stjórn Landssambands kúabænda leggur til að á aðalfundi 2006 starfi fjórar starfsnefndir og hefur ályktunardrögum og öðrum verkefnum verið skipt niður á milli nefndanna.
Stjórn LK leggur til eftirfarandi skiptingu fulltrúa í nefndirnar, en vekur jafnframt athygli á því að hverjum og einum er auðvitað frjálst að skipta um nefnd og/eða sitja fundi annarra nefnda í ákveðnum málum:
Starfsnefnd 1
Gunnar Kr. Eiríksson, Túnsbergi (formaður)
Ásthildur Skjaldardóttir, Bakka
Gunnar Jónsson, Egilsstöðum V
Jón Gíslason, Lundi
Sigmundur H. Sigmundsson, Látrum
Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ
Valdimar Sigmarsson, Sólheimum
Þorsteinn Rútsson, Þverá
Egill Sigurðsson, stjórnarmaður LK, mun starfa með nefndinni
Verkefni starfsnefndar 1:
1. Um úttekt á kostum og göllum við að skipta um kúakyn.
3. Um áskorun til LK um að sækja um leyfi til innflutnings fósturvísa álitlegs kúakyns.
5. Um að LK sæki um heimild til að flytja inn fósturvísa úr erlendu kúakyni.
20. Um að skoðaðir verði möguleikar á innflutningi erfðaefnis úr afkastameiri kúakynjum.
21. Um að heimila stjórn LK að mæla með því við landbúnaðarráðherra að hann veiti leyfi til tilraunainnflutnings á erlendu mjólkurkúakyni til blöndunar.
Starfsnefnd 2
Birna Þorsteinsdóttir, Reykjum (formaður)
Bragi Konráðsson, Lönguhlíð
Einar Haraldsson, Urriðafossi
Gunnar Sigurðsson, Stóru-Ökrum 2
Helga Guðmundsdóttir, Gilsárteigi
Magnús Sigurðsson, Hnjúki
Sveinbjörn Sigurðsson, Búvöllum
Sæmundur Jón Jónsson, Árbæ
Sigurður Loftsson, varaformaður LK, mun starfa með nefndinni
Verkefni starfsnefndar 2:
2. Um að skattur á innflutt kjarnfóður verði felldur niður nú þegar.
4. Um að kjarnfóðurskattur verði felldur niður nú þegar.
9. Um að tollar verði felldir niður af hráefnum til fóðurgerðar og unnum fóðurblöndum.
11. Um að kjarnfóðurskattur verði fengin felldur niður nú þegar.
13. Um að mótmæla þeirri kjaraskerðingu sem Verðlagsnefnd búvara gerir mjólkurframleiðendum að þola með því að ákveða lágmarksverð mjólkur lægra en skylt er.
22. Um að fagna ályktun Búnaðarþings um nauðsyn þess að fella niður fóðurtoll af innfluttum fóðurblöndum.
23. Um að nú þegar verði hafin endurskoðun á aðsetri og starfsemi Bændasamtaka Íslands.
Starfsnefnd 3
Skúli Einarsson, Tannstaðabakka (formaður)
Bára Sigurðardóttir, Lyngbrekku
Jóhannes Torfason, Torfalæk
Marteinn Sigurðsson, Kvíabóli
Pétur Diðriksson, Helgavatni
Sigurlaug Leifsdóttir, Nýjabæ
Stefán Magnússon, Fagraskógi
Jóhannes Jónsson Espihóli, stjórnarmaður LK, mun starfa með nefndinni
Verkefni starfsnefndar 3:
12. Um að greiðslur fyrir mjólk frá afurðastöðvum til bænda, fari eingöngu eftir próteininnihaldi mjólkur.
14. Um að áfram verði unnið að því að losa það fjármagn, sem liggur í hús- og hóteleignum Bændasamtakanna, enda renni nettó söluhagnaður í Lífeyrissjóð bænda.
15. Um að greiðslumark til mjólkurframleiðslu verði ákveðið út frá áætlaðri þörf markaðarins fyrir þann efnaþátt mjólkur sem meira selst af.
16. Um að lágmarksnýting greiðslumarks verði 95 % til að framleiðandi haldi óskertum A-greiðslum.
18. Um seinagang varðandi setningu reglugerðar um gripagreiðslur.
19. Um tillögu frá síðasta aðalfundi LK þar sem því var beint til stjórnar LK að vinna að því að móta stefnu hvað varðar hámarks bústærðir.
Starfsnefnd 4
Jóhann Nikulásson, Stóru-Hildisey (formaður)
Ásbjörn Pálsson, Syðri-Haukatungu
Ásgerður Jónsdóttir, Kverngrjóti
Sif Jónsdóttir, Laxamýri
Grétar Einarsson, Þórisholti
Katrín Birna Viðarsdóttir, Ásólfsskála
Magnús Hannesson, Eystri-Leirárgörðum
Snorri Örn Hilmarsson, Sogni
Guðný Helga Björnsdóttir, stjórnarmaður LK, mun starfa með nefndinni
Verkefni starfsnefndar 4:
6. Um að hvetja BÍ. til að sjá til þess að komið verði skikki á forritunarmál í mjólkurframleiðslu.
7. Um kröfu þess efnis að BÍ upplýsi um kauptilboð í Hótel Sögu og Hótel Ísland og forsendur sem lágu til grundvallar ákvarðanatöku.
8. Um að skora á Landbúnaðarstofnun að birtar verði niðurstöður efnamælinga sem gerðar eru á innfluttum áburði og fóðurvörum .
10. Um sjúkdómaskráningu í MARK og greiðslur fyrir þjónustu dýralækna.
17. Um að mæla með því að EUROP-matskerfið verði tekið upp fyrir nautagripakjöt.
24. Um að Landbúnaðarstofnun birti upplýsingar um áburðartegundir sem ekki standast kröfur þess og hvernig honum er ráðstafað.
25. Um framkvæmd reglugerðar um merkingar búfjár.
Ársreikningur og fjárhagsáætlun LK 2005
Laun aðalfundarfulltrúa
8. Afgreiðsla mála
Fundarstjóri:
Smá breyting á dagskrá, hvergi minnst á reikninga, byrja á að biðja Snorra um að kynna reikninga og fara yfir þá.
Snorri Sigurðsson fylgdi úr hlaði ársreikningi 2005. Reikningar voru svo bornir undir atkvæði og samþykktir.
Afgreiðsla mála.
Niðurstöður frá starfsnefnd 1
Innflutningur erfðaefnis til kynbóta:
Aðalfundur LK, haldinn í Reykjavík 6. – 7. apríl 2006, beinir því til stjórnar LK að nú þegar verði hafin vinna við að meta hagrænan ávinning af innflutningi erfðaefnis til kynbóta á íslenska kúastofninum. Þá verði leitað eftir samstarfi við SAM um að áætla það magn mjólkur sem markaðurinn muni þarfnast á komandi árum og möguleikar núverandi kúastofns til að uppfylla þarfir hans metnir. Einnig verði hugsanleg áhrif innflutnings erfðaefnis á viðhorf neytenda metin í samstarfi við SAM. Samhliða þessu verði skoðað hvort mögulegt sé út frá heilbrigðissjónarmiðum að sækja erfðaefni, hvaða kúakyn komi til greina og hvort til greina komi að flytja inn erfðaefni á annan hátt en sem fósturvísa. Úttekt þessari verði lokið fyrir haustfund LK. Í framhaldi af haustfundum verði boðað til aukafulltrúafundar þyki stjórn LK tilefni til.
Greinargerð:
Kýrnar eru helsta framleiðslutæki kúabóndans. Ýmsir veikleikar eru auðséðir á íslenska kúastofninum, sem er að vonum þar sem smæð stofnsins útilokar að í honum náist jafn hraðar erfðaframfarir og í stærri stofnum.
Fyrirsjáanlegt er að næstu árin muni mjólkurframleiðslan búa við versnandi framleiðsluumhverfi. Því valda m.a. væntanlegir tollar, WTO – samningar sem búast má við að hafi í för með sér minnkandi tollvernd og óheppilegar breytingar á ríkisstuðningi. Þá kalla neytendur af vaxandi þunga eftir ódýrari matvörum. Vonir hafa verið bundnar við útflutning mjólkurafurða en til þess að af honum getir orðið í einhverjum mæli þarf framleiðslukostnaður að lækka, ásamt því að mögulegt sé að auka framleiðsluna umtalsvert.
Til að mæta ofangreindum breytingum í framleiðsluumhverfi hlýtur að þurfa að skoða alla hagræðingarmöguleika. Í ljósi þess hversu tímafrekur innflutningur erfðaefnis er, verður að hraða slíkri skoðun eftir föngum.
Gunnar Kr. Eiríksson gerði grein fyrir tillögunni sem unnin er upp úr nokkrum málum sem lágu fyrir nefndinni.
Skúli Einarsson sagði tillöguna vandaða. Hann var heldur á móti þessu hér um árið, en er miklu tilbúnari til að samþykkja eitthvað í þessa veruna núna, leggur til að hún verði samþykkt.
Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða.
Niðurstöður frá starfsnefnd 2
Starfsemi og aðsetur Bændasamtaka Íslands
Aðalfundur LK haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006 hvetur til þess að nú þegar verði hafin endurskoðun á aðsetri og starfsemi Bændasamtaka Íslands. Skoðað verði sérstaklega hvort ekki megi ná fram aukinni skilvirkni og hagkvæmni í rekstri samtakanna með því að:
• Leggja núverandi húsnæði undir starfsemi Hótels Sögu og flytja aðsetur Bændasamtakanna annað.
• Endurskipuleggja starfsemi tölvudeildar með því t.d. að bjóða verkefni hennar út.
• Tengja starfsemi ráðgjafasviðs við leiðbeiningamiðstöðvar búnaðarsambandanna, styrkja þær þannig faglega og auka nálægð við notendur.
Birna Þorsteinsdóttir gerði grein fyrir tillögunni í nokkrum orðum.
Nefndarmönnum sýndist einna helst koma til greina að flytja hluta af ráðgjafarsviðinu frá aðalstöðvunum eins og aðeins hefur verið gert og dæmi eru um, með loðdýraræktarráðunaut BÍ í Skagafirði og hrossaræktarráðunaut BÍ í Borgarfirði. Þetta væri tímapunktur til að gera naflaskoðun á starfssemi Bændasamtakanna og endurmeta.
Sigurgeir spyr hvort í seinustu setningunni hafi ekki komið til tals líka með Landbúnaðarháskóla Íslands, hvort ekki sé eðlilegt að tengja þetta þeirri starfssemi líka, telur rétt að taka þá umræðu.
Stefán Magnússon hefur þá skoðun að starfssemi og aðsetur Bændasamtakanna eigi að vera út um sveitir. Við erum búin að fá Landbúnaðarháskólann upp á Hvanneyri, Landbúnaðarstofnun verður á Selfossi og honum þætti ekki óeðlilegt að höfuðstöðvar BÍ verði á Akureyri, þó að það sé ekkert atriði í sjálfu sér. Í grunnin á starfssemi Bændasamtakanna að vera á þremur stöðum, Selfoss, Akureyri og Hvanneyri. Tekur álíka langan tíma að fara í ráðuneytið frá þessum þremur stöðum. Það myndi styrkja landbúnaðinn og landsbyggðina að fá þessa starfssemi, þangað sem hún á heima, auk þess sem þriðja hæð Sögu myndi losna og kæmist í arðbærari rekstur. Tekur undir það með tölvudeildina, ár eftir ár búum við við handónýt kerfi, forrit í landbúnaðargeiranum. Telur virkilega þörf á að taka á í þeim málum og útvega okkur þokkaleg forrit til að vinna með. Hefði viljað sjá tillöguna meira afgerandi, en getur í sjálfu sér stutt hana frekar en ekki.
Sigurður Loftsson. Tillagan kemur úr ranni félags kúabænda á Suðurlandi og því vildi hann ræða málið. Með vilja gert að nefna ekki Landbúnaðarháskólann í þessu sambandi, hann er þó ekki á móti því ef það skiptir máli. Hefur svipaða sýn og Stefán. Selfoss, Akureyri og Hvanneyri. Búnaðarsamtök Vesturlands eru staðsett á Hvanneyri við hliðina á Landbúnaðarháskólanum. Spurningin er hvort það eigi að binda starfssemi ráðgjafar á landsvísu inni í akademísku umhverfi Landbúnaðarháskólans, það getur vel verið að það virki jafn vel og á auðvitað að gera það í okkar litla samfélagi. Þetta er ráðunautaþjónusta á landsvísu sem tengir og bakkar upp ráðunautaþjónustuna út um land á búnaðarsamtökunum, því telur hann rétt að orða þetta með þessum hætti. Einnig og einkum og sér í lagi vegna þess að Búnaðarsamtök Vesturlands séu staðsett við hliðina á Landbúnaðarháskólanum, þannig að þar er tenging milli ráðgjafastarfsins og skólans. Þurfum alltaf að passa það grundvallaratriði að það verði ekki tengingarskortur milli faggeirans og notandans. Telur að nálægð við notendur skipti raunverulegu máli, það væri styrkur fyrir landsráðunautaþjónustuna að vera nær notandanum. Þeir þrír punktar sem dregnir eru fram, eru þeir sem nefndin taldi líklegast að kæmi til greina að næðust fram í þessari væntanlegu endurskoðun á starfssemi samtakanna. Ekki víst að það sé akkur í því að fara með aðsetur stjórnar og framkvæmdastjóra, útgáfusvið og félagssvið út fyrir Reykjavíkursvæðið.
Jóhann Nikulásson. Hrifinn af tillögunni. Í nefndinni sem hann starfaði í fengu þau forstöðumann ráðgjafasviðs og forstöðumann tölvudeildar sitt í hvoru lagi til fundar við sig. Ekki reyndist unnt að fá þá saman til fundar. Það kom svo greinilega í ljós að það er verulegur innanhússvandi þarna, alveg sitthvor póllinn á hvað eigi að gera. Hann treystir sér ekki til að segja hvor fer þar með rétt mál, þarna er eitthvað mikið að, á hvorum staðnum sem það svo sem er.
Jóhannes Torfason Tekur undir með Sigurgeir, saknar að sjá ekki LbhÍ nefndan í þessu sambandi. Hverju er ráðgjafaþjónustan að þjóna, milli 2 og 4 þúsund rekstrareiningum, það er nú ekki meira. Telur að það hafi háð þessu kerfi yfirleitt hvað það er margbrotið og sundrað. Fagnar efni tillögunnar sem er tilraun svolítið til að þétta þetta, færa leiðbeiningaþjónustuna nær notendum. Heldur að það sé mikilvægt að hún tengist líka menntuninni. Stefnum að því að samþætta sem mest, rannsóknir, kennslu og leiðbeiningar, í meginatriðum á einum stað. Þá erum við í rauninni komin svo langt á Hvanneyri að sá staður liggur nokkuð beint við. Rökrétt að byrja smátt og færa leiðbeiningaþjónustuna fyrst, erfitt með stjórnsýsluna og jafnvel útgáfusviðið. Þó það skipti ekki alla jafna máli að þurfa að fara 1 til 2ja tíma ferð, þá geta komið upp þau tilvik að það skipti máli, upp á viðbragð. Lýsir því yfir að LK hafi verið að stíga í öfuga átt með því að færa framkvæmdastjóra frá Hvanneyri til Reykjavíkur, þarna fara nú ekki alveg saman yfirlýsingar og gerðir. Telur að framkvæmdastjóri hafi í raun verið betur settur og eigi betur heima á Hvanneyri. Leggur eindregið til að bætt verði inn í þriðja liðinn, Landbúnaðarháskólanum.
Afgreiðslu frestað
Afnám fóðurtolla:
Aðalfundur LK haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006 tekur undir ályktun síðasta búnaðarþings um nauðsyn þess að hætt verði nú þegar innheimtu fóðurtolla af innfluttum fóðurblöndum og hráefnum til fóðurgerðar. Fundurinn beinir því til landbúnaðar- og fjármálaráðuneytis að þessi aðgerð komi strax til framkvæmda, svo að sem fyrst náist að skapa eðlilegt verðaðhald á fóðurmarkaði.
Sæmundur Jón Jónsson gerði grein fyrir tillögunni
Tillagan er unnin úr nokkrum málum sem nefndin fékk.
Las úr ályktunum búnaðarþings, um málið. Hann mælir með því að tillagan verði samþykkt.
Jóhann Nikulásson Spurning hvort skynsamlegt sé að hengja þetta tvennt saman. hráefnistollinn og tollinn á fóðurblöndunum. Vill að þessu yrði kippt út til að hnýta þetta ekki saman. Hann kom svo með eftirfarandi breytingartillögu:
Afnám fóðurtolla
Aðalfundur LK haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006 tekur undir ályktun síðasta búnaðarþings um nauðsyn þess að hætt verði nú þegar innheimtu fóðurtolla af innfluttum fóðurblöndum. Fundurinn beinir því til landbúnaðar- og fjármálaráðuneytis að þessi aðgerð komi strax til framkvæmda, svo að sem fyrst náist að skapa eðlilegt verðaðhald á fóðurmarkaði.
Breytingartillagan borin upp og samþykkt með 17 atkvæðum gegn fjórum.
Stefán Magnússon vill að menn geri aðra eins tillögu um hráefnin til fóðurgerðar svo að hægt sé að vinna í því máli líka.
Fundarstjóri lýsti eftir athugasemdum við tillöguna breytta, svo var ekki og er hún þá frágengin.
Samstarfssamningur LK og BÍ:
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006, heimilar stjórn LK að staðfesta fyrirliggjandi drög að breyttum samstarfssamningi milli Landssambands kúabænda annars vegar, og Bændasamtaka Íslands hins vegar.
Greinargerð:
Samstarfssamningur milli LK og BÍ var samþykktur í almennri atkvæðagreiðslu kúabænda árið 1998. Aðalfundur LK 2004 fól stjórn LK að leita eftir endurskoðun á samningnum. Nú liggur fyrir samkomulag aðila um nokkrar breytingar á samningnum og þá var ráðstöfun búnaðargjalds breytt um síðustu áramót.
Sigurður Loftsson gerði grein fyrir tillögunni. Á aðalfundi 2004 var stjórn falið af fara yfir samstarfssamning við stjórn BÍ hann og Þórólfur voru í þessu máli fh. LK. Með þeim störfuðu þá framkvæmdastjóranir, fyrst Snorri Sigurðsson og síðar Baldur H. Benjamínsson. Frá hendi Bændasamtakanna voru það Haraldur Benediktsson, Gunnar Sæmundsson og framkvæmdastjórinn Sigurgeir Þorgeirsson. Sigurður fór yfir og útskýrði helstu grundvallaratriði sem verða fyrir breytingum í samstarfssamningi við BÍ.
Orðið laust um tillöguna
Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða
Verðlagsmál:
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006, leggur ríka áherslu á að Verðlagsnefnd búvara gæti ákvæða búvörulaga við ákvörðun á lágmarksverði mjólkur. Fundurinn minnir sérstaklega á að lögin gera ráð fyrir að laun kúabænda séu hliðstæð ,,og gerist hjá starfsstéttum sem bera sambærilega ábyrgð á rekstri og mæta hliðstæðum kröfum um viðveru og færni’’. Þetta markmið næst ekki nema tekið sé nauðsynlegt tillit til kostnaðarhækkana við leiðréttingu á lágmarksverði mjólkur.
Þá áréttar fundurinn að samkvæmt sömu lögum er hverri afurðastöð heimilt að greiða framleiðendum hærra verð en lágmarksverð.
Gunnar Sigurðsson gerði grein fyrir tillögunni.
Samkvæmt upplýsingum frá Þórólfi er vinna í verðlagsnefnd á viðkvæmu stigi og því ekki skynsamlegt að vera með hvassar tillögur um þau mál.
Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða
Niðurstöður frá starfsnefnd 3
Mál 12
Aðalfundur Nautgriparæktarfélags Austur – Skaftfellinga, haldinn að Seljavöllum 8. mars 2006, beinir því til Landsambands kúabænda að beita sér fyrir því að greiðslum fyrir mjólk frá afurðastöðvum til bænda, fari eingöngu eftir próteininnihaldi mjólkur.
Nefndin leggur til að tillögunni verði hafnað.
Skúli Einarsson gerði grein fyrir tillögunni. Þeir fengu álit sérfræðinga og var talið að sú regla sem er notuð í dag sé í góðum takti við raunveruleikann, þetta er því ekki talið skynsamlegt og er tillagan ekki lögð fram.
Mál 14
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006, telur rétt að áfram verði unnið að því að losa það fjármagn sem liggur í hús- og hóteleignum Bændasamtakanna, enda renni nettó söluhagnaður í Lífeyrissjóð bænda, en með því móti verður komist næst því að skila því til þeirra sem lögðu það upphaflega fram. Fundurinn beinir því til stjórnar Landssambands kúabænda að vinna að málinu á þeim forsendum.
Skúli Einarsson gerði grein fyrir tillögunni
Sigurbjörg Björnsdóttir framkvæmdstjóri lífeyrissjóðsins var kölluð til og fór hún með þeim yfir málið. Niðurstaðan er þessi tillaga.
Sif Jónsdóttir spyr hvort búið sé að ákveða í sambandi við söluna, að peningarnir fari í Lífeyrissjóð Bænda?
Gunnar Sigurðsson. Sýnist að tillagan skarist við tillögu sem hans nefnd var send með heim í hérað aftur. Leggur til að afgreiðslu þessarar verði frestað og þær hugsanlega sameinaðar.
Sigurður Loftsson, heldur að það sé ekki rétt þó málin séu skyld að þau skarist. Það að flytja Bændasamtökin út úr Bændahöllinni og að rekstarfélagið kaupi hæðina og leggi það undir starfssemi hótelsins, þarf ekki að tengjast því að við seljum eignina og arðurinn renni í Lífeyrissjóð Bænda. Þó málin séu tengd eða skyld, þá eru þau framkvæmanleg sitt í hvoru lagi, telur þetta sterkara svona.
Jón Gíslason. Tekur undir með Sigurði, ekki skuli tengja þetta saman, þetta eru tvö mál. Varðandi orð Sifjar, þá er þetta bara stefnumörkun hjá fundinum. Fróðlegt ef einhver af búnaðarþingsfulltrúum gætu upplýst um það hvað hefði átt að gera við andvirðið ef þetta hefði verið selt í vetur.
Jóhannes Torfason. Vill að það komi fram að í nefndinni taldi hann sig ekki hafa forsendur til þess taka afstöðu til þess hvort ætti að selja þessa eign eða ekki. Vantaði upplýsingar um rekstur og aðrar forsendur. Hinsvegar er hann samþykkur ráðstöfun söluhagnaðar ef af yrði.
Kristín Linda Jónsdóttir. Stórt mál. Búið að fara í gegnum margar ræður hjá mörgum vísum mönnum með mismunandi skoðanir. Mikilvægt að Búnaðarþingsfulltrúar fái skýr skilaboð frá fundinum. Ef ekki næst samkomulag um að andvirðið renni í Lífeyrisjóð Bænda, vilja menn þá selja? Hangir þetta saman eins og kvöð, vilja menn ekki selja ef söluandvirðið rennur ekki í Lífeyrissjóðinn? Fundurinn þarf að velta þessu fyrir sér, erum við sátt við að söluandvirðið fari bara í eitthvað, eitthvað gott?
Valdimar er samþykkur tillögunni, harmar niðurstöðu búnaðarþings, gott að fundurinn árétti sína afstöðu. Gerir tillögu um breytingu á orðalagi:
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006, telur rétt að áfram verði unnið að því að losa það fjármagn sem liggur í hús- og hóteleignum Bændasamtakanna. Aðalfundur mæli með því að nettó söluhagnaður renni í Lífeyrissjóð Bænda, en með því móti verður komist næst því að skila því til þeirra sem lögðu það upphaflega fram. Fundurinn beinir því til stjórnar Landssambands kúabænda að vinna að málinu á þeim forsendum
Þórólfur Sveinsson. Varðandi þá tillögu sem stjórn BÍ lagði fram á aukabúnaðarþingi er best að lesa upp með leyfi fundastjóra
“stjórn BÍ leggur fyrir til afgreiðslu meðfylgjandi kaupsamning sem gerður hefur verið á grundvelli kauptilboðs.. og svo framvegis..tilboðið hefur verið samþykkt með fyrirvara um samþykki Búnaðarþings. Andvirði eignanna að frádregnum kostnaði við sölu, uppgreiðslu lána, greiðslu skatta og annars kostnaðar sem óhjákvæmilegur reynist verði þannig varið:
1. til að mæta eftirlaunaskuldbindingum Hótel Sögu ehf. sem BÍ yfirtaka ásamt hugsanlegum öðrum kostnaði vegna starfsmannahalds sem fellur utan kauptilboðsins.
2. til kaupa á skrifstofuhúsnæði fyrir Bændasamtök Íslands ásamt tilheyrandi kostnaði við flutning og nauðsynlega endurnýjun búnaðar samkvæmt ákvörðun stjórnar.
3. sú upphæð sem stendur eftir ráðstöfun skv. 1. og 2. lið verði lögð í sjóð sem skal ávaxta á þann hátt sem stjórn BÍ telur hagkvæmast og tryggilegast hverju sinni. Ekki skal ráðstafa á ári hverju úr sjóðnum hærri upphæð en sem nemur árlegum raunvöxtum á honum eða samkvæmt ákvörðun búnaðarþings. Tekjunum skal varið annars vegar til starfssemi Bændasamtaka Íslands og hinsvegar í sjúkrasjóð BÍ samkvæmt fjárhagsálætlun hverju sinni. Á móti tekjum BÍ af sjóðnum skal leita eftir lækkun á búnaðargjaldi sem rennur til starfssemi BÍ.”
Það kom glöggt fram í umræðunni á þinginu að um þessa ráðstöfun var grundvallarágreiningur í hópi búnaðarþingsfulltrúa. Þórólfur tekur undir með Sif með breytingu á orðalagi. Telur skynsamlegt að selja þessar eignir ef tilboð fæst svipað og í vetur. Óneitanlega mikil áhætta að vera með allar eignir BÍ í sömu körfunni, sama húsnæðinu og sömu rekstraráhættunni og af þeim sökum er afar erfitt að berjast fyrir sölunni en hopa svo frá því að vilja selja, þó maður nái ekki öllu fram hvað ráðstöfunarhliðina varðar.
Egill Sigurðsson, vill að í tillögunni sé bara talað um hóteleignir BÍ en ekki líka hús, því BÍ eigi t.d. orlofshús sem ekki sé verið að gera tillögu um að selja. Sammála því að megnið renni í Lífeyrisjóð Bænda, en í lagi að sjúkrasjóður BÍ komi þar inn líka. Sjúkrasjóðurinn var stofnaður fyrir tveimur árum og hefur það hlutverk að veita styrki til þeirra einstaklinga sem verða fyrir veikindum og slysum. Ekki mikil sókn í hann til að byrja með, kannski vegna þess að menn vissu ekki um hann, en þörfin hefur farið vaxandi. Þekkt hjá mörgum stéttarfélögum að hafa svona sjóð, félagslega mjög þarfur sjóður. Sammála athugasemdum Valdimars hér að framan.
Sigurlaug Leifsdóttir, telur svo að fundurinn dragist ekki á langinn, best að nefndin fái tillöguna til baka. Ýmislegt var rætt í nefndinni og fagnaði hún því að fá að ræða þetta í nefndinni aftur, því t.d. þá kom umræðan um sjúkrasjóðinn í þessu sambandi ekki inn í nefndina.
Þorsteinn Rútsson. Tekur undir það að það skuli yfirfara tillöguna aftur, bæta sjúkrasjóði inn. Spyr Þórólf, var ekki búið að ganga frá skattalegri meðferð fjármagnsins inn í lífeyrisjóðinn? Þetta hlýtur að gerast þannig að að fjármagnið getur ekki runnið beint í lífeyrissjóðinn, það hlýtur að fá einhverja sérstaka skattalega meðferð!
Þórólfur Sveinsson. Greindi frá því að ekki hafi farið fram nein könnun á þessu máli, enda var tillaga BÍ ekki þess eðlis að peningarnir færu í Lífeyrissjóðinn.
Fundarstjórar leggja til að afgreiðslu tillögunnar verði frestað, nefndin fái að skoða hana á ný.
Mál 15
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006, mælir með að greiðslumark til mjólkurframleiðslu verði ákveðið út frá áætlaðri þörf innanlandsmarkaðar fyrir þann efnaþátt mjólkur sem meira selst af.
Skúli Einarsson gerði grein fyrir tillögunni og mælir með því að hún verði samþykkt.
Tillagan var borin upp og samþykkt samhljóða
Mál 16
Aðalfundur Landssambands kúabænda 2006 mælir með að lágmarksnýting greiðslumarks verði 95 % til að framleiðandi haldi óskertum A-greiðslum.
Nefndin leggur til að tillögunni verði hafnað.
Skúli Einarsson gerði grein fyrir að tillögunni sé hafnað og því farið í næsta mál.
Mál 18
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006, lýsir vonbrigðum með að enn skuli ekki hafa verið sett reglugerð um gripagreiðslur, en réttur til þeirra byrjaði að myndast 1. september 2005. Fundurinn leggur mikla áherslu á að reglugerðin verði sett sem fyrst, en ef það gerist ekki felur hann stjórn LK að leita eftir breytingu á ,,Samningi um starfskilyrði mjólkurframleiðslunnar“ þess efnis að það fjármagn sem sérmerkt er gripagreiðslum verðlagsárið 2006/2007, verði greitt út sem beingreiðslur á mjólk.
Skúli Einarsson gerði grein fyrir tillögunni
Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða
Mál 19
1. Minnisatriði til fundarins:
Á síðasta aðalfundi LK var eftirfarandi tillaga samþykkt: ,,Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, beinir því til stjórnar LK að vinna að því að móta stefnu hvað varðar hámarks bústærðir. Tekið verði tillit til öryggisþátta við framleiðsluna með hagsmuni heildarinnar í huga. Jákvæð ímynd greinarinnar og byggðasjónarmið verði jafnframt höfð að leiðarljósi í hvívetna. Stefnt verði að því að tillaga að stefnumótun LK í þessum málaflokki verði lögð fyrir aðalfund félagsins 2006“.
Stjórn Landssambands kúabænda hefur rætt þetta mál talsvert og telur ekki skynsamlegt að handvelja tiltekna bústærð í mjólkurframleiðslu og segja hingað og ekki lengra. Reynslan segir okkur að tækniþróun og breytt viðhorf úrelda slíkar viðmiðanir, jafnvel á fáum misserum. Það fólk sem kýs að gera nautgriparækt að ævistarfi og leggur eignir sínar að veði vegna fjárfestinga í greininni, á að hafa sem mest um það að segja hvernig það þróar atvinnugreinina. Fram hjá því verður þó ekki litið að öryggi framleiðslunnar skiptir miklu máli og því telur stjórnin vel koma til greina að setja hámark á hversu stór hluti framleiðslunnar sé á hendi sama framleiðanda eða í sama fjósi hjá fleiri eigendum. Verði þetta gert, telur stjórnin að miða beri við að lágmarki við 1 % framleiðslunnar. Þá telur stjórnin einnig skoðunarvert hvort setja beri það skilyrði að viðtakandi beinna greiðslna hafi lögheimili í því sveitafélagi sem lögbýlið tilheyir. Þessa leið þarf að athuga vel þar sem hún gæti haft áhrif á veðhæfi jarða. Þá skal og á það minnt að í gildandi mjólkursamningi eru í fyrsta sinn ákvæði um að stuðningur fari minnkandi eftir að bústærð hefur náð ákveðnu hámarki.
Með hliðsjón af fyrrgreindum rökum og þeirri stöðu sem nú er uppi í framleiðslu mjólkur, er það mat stjórnar að fara beri mjög varlega í allar aðgerðir sem dregið geta úr áræði og framkvæmdahug kúabænda.
Tillaga nefndarinnar er eftirfarandi:
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006 telur að ekki sé skynsamlegt að setja stærðartakmörk í mjólkurframleiðslu.
Skúli Einarsson gerði grein fyrir tillögunni og mælti með því að hún yrði samþykkt.
Gunnar Sigurðsson. Af öryggissjónarmiðum telur hann að við verðum að hafa einhver mörk, sammála því að ekki megi slá á hendurnar á þeim sem vilja framkvæma. Telur ekki skynsamlegt að hafa tillöguna svona orðaða, er ekki með tillögu um stærðarmörk.
Sveinbjörn Sigurðsson, tekur undir orð Gunnars. Telur að ekki sé verið að draga úr sóknarhug, þó sett séu einhver stærðarmörk. Telur að þetta þyrfti að tengja beingreiðslunum svo að menn séu ekki með kvóta án þess að framleiða. Betra að fella þetta niður, en að samþykkja tillöguna.
Magnús Sigurðsson, sammála síðustu ræðumönnum. Breytingar örar varðandi jarðasölu, getur líka gerst varðandi mjólkurrétt. Telur ekki rétt að samþykkja þessa tillögu, hann horfir alltaf á félagslega þáttinn líka. Kúabændur hafa verið ákaflega sterkir í félagslega þætti sveitanna, vill að það sé búið á sem flestum jörðum. Telur að við ættum að vara okkur á þessari tillögu.
Stefán Magnússon. Ýmsar hliðar á málinu. Ef einhver vill byggja fjós yfir 500 kýr þá setjum við ekki stærðartakmörk á það bú þá, þ.e.a.s. eftirá! En ef við setjum mörk nú þá getum við fellt þau niður ef okkur sýnist. Varðand stærðarmörk og öryggi, eigum við t.d. þá að takmarka mjólkurframleiðslu á vatnasvæði Mýrdalsjökuls? Nefndin kemur saman á eftir og myndi gjarnan vilja ræða málið aftur.
Skúli Einarsson þakkar umræður um tillögu nefndarinnar. Nefndin velti því fyrir sér hver stærðarmörkin ættu að vera en erfitt er að finna einhverja niðurstöðu þar. Kunnugt um að til eru ákv. stærðarmörk varðandi kjúklinga og svínabú, en ekki varðandi kýr og sauðfé. Býðst til að draga tillöguna til baka.
Kristín Linda Jónsdóttir. Gerir þá tillögu til nefndarinnar um að setja 1% stærðarmörk inn í tillöguna.
Sigurlaug Leifsdóttir. Ekki sammála Lindu núna. Telur ekki skynsamlegt að binda hendur manna. Ef hún tekur t.d. saman við þrjá aðra kúabændur, þá myndu þau fara strax yfir þetta 1% og gætu þá ekki hagrætt þannig ef þeim sýndist svo. Eigum frekar að nálgast málið út frá dýraheilbrigði, fjölda dýra á landsvæði og umhverfismati en ekki hengja okkur í 1% af landsframleiðslu.
Þórólfur Sveinsson. Ef nefndin vill halda til streitu tillögunni þá leggur hann til að tillagan sé orðuð öðruvísi og benti á nokkur atriði í því sambandi. Í textanum eins og tillagan er orðuð núna um stærðartakmörk í mjólkurframleiðslu myndi einhver segja “þar er ekkert fjallað um beingreiðslur”! Bara að við vitum af því að sumir vilja aðskilja þetta, en nú er tilveran stundum fljót að breytast og hún breyttist dálítið mikið þegar Mjólka ehf. kom til sögunnar. Úr því að slíkir aðilar mega starfa, þá takmörkum við ekkert umsvif þeirra gegnum beingreiðslustýringu. Þar gætu komið þessvegna 10% af landsframleiðslu, þannig að við þurfum að gera okkur grein fyrir því að ef við ætlum að stýra þessu þá verður það að vera á einhverjum þeim almennu forsendum sem ná til allra.
Kaffihlé
Niðurstöður frá starfsnefnd 4
Tillaga 6
Forritunarmál í mjólkurframleiðslu
Aðalfundur LK haldinn í Reykjavík 6.-7.apríl 2006, beinir því til stjórnar LK að nú þegar verði farið í viðræður við BÍ um framtíðarskipan forrita og forritunarmála fyrir nautgriparækt.
Jóhann Nikulásson gerði grein fyrir tillögunni
Kölluðu Gunnar Guðmundsson og Jón Baldur Lorange til fundar við nefndina. Þeir virðast hafa sitthvorar skoðanir á því hvað eigi að gera í tölvumálum samtakanna.
Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða með smá orðalagsbreytingu
Tillaga 7
Kauptilboð í hótelin
Aðalfundur LK haldinn í Reykjavík 6.-7. apríl 2006 krefst þess að BÍ upplýsi um kauptilboð í Hótel Sögu og Hótel Ísland og þær forsendur sem menn höfðu til að taka afstöðu um sölu eignanna. Jafnframt harmar fundurinn að atkvæðagreiðslan skuli ekki hafa verið fyrir opnum tjöldum. Fundurinn hvetur stjórn LK til að fylgja málinu eftir.
Jóhann Nikulásson gerði grein fyrir tillögunni
Þórólfur Sveinsson. Ef þetta er tillagan þá verður stjórn BÍ að leggja fram upplýsingar sem komu fram t.d. frá Heimi Haraldssyni löggiltum endurskoðanda, sem margar hverjar teljast trúnaðarupplýsinar, sérstaklega í ljósi þess að hótelið var ekki selt. Gildir það um upplýsingar frá fleiri aðilum. Ef hinsvegar hótelið hefði verið selt, þá hefði verið eðlilegt að fara fram að fá upplýsingar um það á hvaða forsendum sú ákörðun var tekin. Telur ekki hægt að fara fram á þetta.
Jóhann Nikulásson, leggur til að klípa aðeins framan af tillögunni og láta í ljós harminn á afgreiðslu BÍ á málinu.
Birna Þorsteinsdóttir, tekur undir með Þórólfi og er líka samþykk Jóhanni að við eigum að harma það hvernig að þessu var staðið. Hún myndi vilja fá yfirlýsingu um það hvernig fundurinn vill að unnið verði að því að selja hótelið. Það væri sterkt að hafa það, fyrir þá sem koma til með að ræða það á búnaðarþingi.
Nefndin ætlar að skoða tillöguna betur
Mál 24
Eftirlit með áburði
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006 skorar á Landbúnaðarstofnun að birtar verði niðurstöður efnamælinga sem gerðar eru á innfluttum áburði og fóðurvörum og beinir því til Landbúnaðarstofnunar að birta ætíð upplýsingar um þær áburðar- og fóðurtegundir sem ekki standast kröfur hennar og hvernig þeim er ráðstafað.
Greinargerð.
Á heimasíðu Aðfangaeftirlits kemur fram að árið 2004 voru tekin 31 sýni úr innfluttum áburði frá nokkrum innflytjendum, þar af reyndust 8 sýni ekki standast uppgefin gildi. Árið 2005 voru síðan tekin 45 sýni, þar af stóðust 10 sýni ekki uppgefin gildi. Ekki kemur fram um hvaða tegundir áburðar er að ræða eða frá hvaða innflytjendum hann er, né heldur hvernig honum er ráðstafað. Þar eð sýni úr umræddum áburðartegundum eru væntanlega ekki tekin fyrr en hann er kominn til landsins, hlýtur að vakna sú spurning hvað gert er við hann. Er það raunin að hann sé seldur á markaði eða er honum ráðstafað með öðrum hætti. Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa bænda að þeir viti hvort á markaði eru slík vara og þá hver hún er og frá hvaða seljendum.
Jóhann Nikulásson gerði grein fyrir tillögunni og gerði grein fyrir breytingum á orðalagi í henni sem nefndin vildi setja inn, sjá hér að neðan
Eftirlit með áburði
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006 skorar á Landbúnaðarstofnun að birta ætíð upplýsingar um þær áburðar- og fóðurtegundir sem ekki standast kröfur hennar og upplýsa hvernig þeim er ráðstafað.
Tillagan borin fram eins og hér segir til samþykkis, samþykkt samhljóða,
Tillaga 17
Um EUROP-matskerfið
Aðalfundur Landssambands kúabænda 2006, beinir því til stjórnar LK að farið verði í viðræður við Landssamtök sláturleyfishafa um hvort rétt sé að taka upp EUROP-matskerfið fyrir nautagripakjöt.
Jóhann Nikulásson gerði grein fyrir tillögunni
Sigurlaug Leifsdóttir, Finnst að við höfum ekkert í höndum til að breyta þessu eins og staðan er á kjötmarkaði, erum oft að sýsla með gripi sem fara of fljótt í slátrun. Telur sig ekki hafa neitt að sækja í EUROP kerfið í dag, t.d. er efsti flokkurinn fyrir Belgian Blue og þó að okkar gripir séu góðra gjalda verðir þá myndu þeir lenda ansi neðarlega í því. Er á móti þessari tillögu.
Stefán Magnússon. Er ekkert hlynntur nýju kjötmatskerfi, það þýðir ekki að það sé einhver dásemd kerfið sem er nú. Vill að það mat sem er á kjöti skili sér til neytenda. Í dag er bara hægt að fá nautakjöt og nautgripakjöt. Fór inn í kæli á veitingastað um daginn, þar var nautakjöt, eitthvað gott sem sláturleyfishafinn átti að hafa látið viðkomandi hafa. Miklu mikilvægara að gæðin, sem snúa að okkur, komi til neytenda líka, skili sér semsagt í gegn. Snúum okkur að því, en ekki þessu.
Kristín Linda Jónsdóttir. Hefur setið nokkra fundi fyrir LK um þessi kjötmál. Vangaveltur um að breyta kjötmatinu er að geta hugsanlega gert það sem Stefán er að tala um. Í dag er UN IA risa stór flokkur og mjög breytilegur. Þyrftum að ná einhverjum 20% í úrvalsflokk sem hægt væri að merkja sérstaklega, þetta skilar sér ekki í dag. Á flæðilínu sláturhúsa fylgja merkingar hverjum hluta skrokks, þessar merkingar fylgja ekki þegar kjötið er selt! Þannig að kaupandinn getur ekki vitað hverskonar kjöt þetta er. Yfirkjötmatsmaður telur að ef breytingar verði gerðar þá væri best að taka upp EUROP kerfið. Innflutningur á nautakjöti hefur aukist, hvernig gengur okkur að selja okkar kjöt flokkað eftir EUROP kerfi?
Jóhann Nikulásson. Það kom fram í máli Guðrúnar að framkvæmdin á því að klára matskerfið alveg út í kjötborð verslunarinnar er ekki einfalt mál. Heldur að það ætti að samþykkja tillöguna.
Gunnar Sigurðsson. Sammála Jóhanni, í sauðfjárræktinni veit enginn neitt hvað hann er að borða, að vísu flokkast lambakjötið svolítið breytilega í flokkana. Það þarf t.d. að flokka P í þrennt til að fá einhverja aðgreiningu á þeim besta og þeim lakasta. Er á móti tillögunni.
Tillagan borin upp og felld með meirihluta atkvæða.
Mál 25
Framkvæmd reglugerðar um merkingar búfjár
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006, lýsir yfir þungum áhyggjum af framkvæmd reglugerðar nr. 289/2005 um merkingar búfjár. Í því sambandi vill fundurinn skora á landbúnaðarráðuneytið að skerpa á framkvæmd reglugerðarinnar og sérstaklega auka upplýsingaflæði þar að lútandi. Óviðunandi er með öllu að framkvæmd gripagreiðslna sem taka eiga gildi 1. september n.k. sé enn í lausu lofti. Landssamband kúabænda fer fram á að framkvæmd gripagreiðslna verði ljós hið fyrsta.
Þá er ótækt að skráning sláturleyfishafa er ekki farin að virka.
Greinargerð:
Markmið reglugerðarinnar er að tryggja rekjanleika búfjárafurða frá upprunahjörð og/eða fæðingu viðkomandi dýrs til sölu afurða og skapa með því grundvöll að markvissu matvæla- og búfjáreftirliti, eftirliti með flutningum dýra, skráningu búfjársjúkdóma og meðhöndlun þeirra. Í því skyni er skylt að merkja og skrá alla nautgripi frá og með 1. janúar 2006 í einstaklingsmerkingakerfið MARK. Einstaklingsmerkingakerfið er jafnframt grunnur að gripagreiðslum skv. núgildandi samnings um starfsskilyrði í mjólkurframleiðslu en þar segir í grein 6.3:
“Gripagreiðslur: Frá og með verðlagsárinu 2006/2007 verða teknar upp gripagreiðslur, sbr. töflu 1. Greiðslunum skal ráðstafað til aðila er eiga kýr sem eru einstaklingsmerktar og hafa átt að minnsta kosti einn kálf samkvæmt upplýsingum úr einstaklingsmerkingakerfinu MARK. Viðtakanda greiðslna skal skrá sérstaklega og skal viðkomandi stunda virðisaukaskattsskyldan búrekstur, skv. lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988, á lögbýli. Ríkissjóður greiðir að hámarki út á samtals 27.400 kýr, sem er meðalkúafjöldi á árunum 2000-2002. Grundvöllur gripagreiðslna er meðalfjöldi einstaklingsmerktra kúa á viðkomandi búi næstliðið verðlagsár. Ef heildarfjöldi einstaklingsmerktra kúa á landinu er lægri en 27.400, hækkar greiðsla á kú hlutfallslega. Þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða á sama lögbýli er heimilt að skrá þá sérstaklega, sbr. reglur um skráningu handhafa greiðslumarks. Greiðslur á grip fara eftir fjölda kúa á hverju lögbýli skv. eftirfarandi töflu, töflu 2.
Tafla 2. Hlutfall gripagreiðslna
Fjöldi kúa Hlutfall óskertrar greiðslu
1-40 100 %
41-60 75 %
61-80 50 %
81-100 25 %
101 og yfir 0 %
Ef fjöldi gripa á lögbýli fer yfir 170 skerðast gripagreiðslur um 25% fyrir hverjar 10 kýr sem umfram eru, þannig að bú með fleiri en 200 kýr nýtur ekki gripagreiðslna. Framkvæmdanefnd búvörusamninga setur nánari reglur um greiðslur gripagreiðslna.”
Engar upplýsingar eða reglur hafa enn borist frá Framkvæmdanefnd búvörusamninga þó aðeins séu nú 5 mánuðir til stefnu þar til gripagreiðslur eiga að hefjast.
Eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar virðist ómarkvisst og tilviljanakennt en í 19. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að það sé í höndum embættis yfirdýralæknis, nú Landbúnaðarstofnunar. Þá segir ennfremur í 13. gr. reglugerðarinnar að embætti yfirdýralæknis, nú Landbúnaðarstofnun, hafi eftirlit með skráningu upplýsinga í kerfið f.h. landbúnaðarráðuneytisins.
Það hlýtur að vera krafa kúabænda að sá kostnaður sem af framkvæmdinni hlýst skili sér í formi betri upplýsingar og rekjanleika afurðanna. Um er að ræða umtalsverðan kostnað en hann nemur um 4 milljónum kr. á ári miðað við að um 17 þús. kálfar séu settir á til lífs árlega. Þar af eiga 70%, þ.e. 160 kr. af hverjum 230 kr. sem hvert einstaklingsmerki kostar, að renna til reksturs einstaklingsmerkingakerfisins eða um 2,7 millj. kr. á ári.
Gunnar Guðmundsson og Jón Baldur Lorange mættu til fundarins í sitt hvoru lagi.
Jóhann Nikulásson gerði grein fyrir tillögunni og lét menn stroka hluta út úr tillögunni hér að framan, sjá breytinguna hér að neðan eftir þá útstrokun.
Mál 25
Framkvæmd reglugerðar um merkingar búfjár
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006, lýsir yfir þungum áhyggjum af framkvæmd reglugerðar nr. 289/2005 um merkingar búfjár. Fundurinn skorar á landbúnaðarráðuneytið að skerpa á framkvæmd reglugerðarinnar og sérstaklega auka upplýsingaflæði þar að lútandi.
Þá er ótækt að skráning sláturleyfishafa er ekki farin að virka.
Stefán Magnússon. Gerir tillögu um smá orðalagbreytingu og fannst skýringar sem nefndin fékk skrýtnar.
Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða með smá orðalagsbreytingu
Laun aðalfundarfulltrúa
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006 leggur til að laun aðalfundarfulltrúa verði tvöfaldir dagpeningar.
Jóhann Nikulásson, gerði grein fyrir tillögunni.
Tillaga um laun aðalfundarfulltrúa borin upp og samþykkt samhljóða.
Einnig gerði Jóhann líka grein fyrir tveimur tillögum sem nefndin vísaði frá. Annars vegar um Land til búskapar og hinsvegar um sjúkdómaskráningu í MARK.
Kaffihlé
Afgreiðsla mála tekin á dagskrá á ný, eftir að nefndir höfðu lagfært tillögur!
Frá starfsnefnd 2. Ný tillaga.
Afnám fóðurtolla:
Aðalfundur LK haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006 tekur undir ályktun síðasta búnaðarþings um nauðsyn þess að hætt verði nú þegar innheimtu fóðurtolls af hráefnum til fóðurgerðar. Fundurinn beinir því til landbúnaðar- og fjármálaráðuneytis að þessi aðgerð komi strax til framkvæmda, svo að sem fyrst náist að skapa eðlilegt verðaðhald á fóðurmarkaði.
Sæmundur Jón Jónsson, gerði grein fyrir þessari nýju tillögu.
Þórólfur Sveinsson, þetta eru um 50 milljónir sem koma inn í þessum tollum, hlutur nautgriparæktar um 15 milljónir af þessu. Semsagt peningarnir koma til landbúnaðarins aftur. Eigum þó ekki að vera í vanda með fjármögnun vegna framleiðnisjóðs, en þetta er miserfitt fyrir búgreinarnar. Þetta má ekki verða til þess að landbúnaðurinn eigi ekki aðgengi að þróunarfé, telur þó rétt að samþykkja tillöguna.
Tillagan var borin upp og samþykkt samhljóða.
Frá starfsnefnd 2. Ný tillaga.
Starfsemi og aðsetur Bændasamtaka Íslands:
Aðalfundur LK haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006 hvetur til þess að nú þegar verði hafin endurskoðun á aðsetri og starfsemi Bændasamtaka Íslands. Skoðað verði sérstaklega hvort ekki megi ná fram aukinni skilvirkni og hagkvæmni í rekstri samtakanna meðal annars með því að:
• Leggja núverandi húsnæði undir starfsemi Hótels Sögu og flytja aðsetur Bændasamtakanna annað.
• Endurskipuleggja starfsemi tölvudeildar með því t.d. að bjóða verkefni hennar út.
• Tengja starfsemi ráðgjafasviðs við LbhÍ og leiðbeiningamiðstöðvar búnaðarsambandanna, styrkja þær þannig faglega og auka nálægð við notendur.
Stefán Magnússon. Gerir eina mikilvæga breytingartillögu við þetta, skoðað verði hvort ekki eigi að hnýta fyrir aftan fyrri setninguna “meðal annars”. Var vel tekið í það og er því breytt í tillögunni hér að framan
Tillagan var borin upp og samþykkt samhljóða.
Frá starfsnefnd 3, ný tillaga um uppúr máli nr. 14
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006, telur rétt að áfram verði unnið að því að losa það fjármagn sem liggur í hóteleignum Bændasamtakanna. Fundurinn leggur til að nettó söluhagnaður renni í Lífeyrissjóð bænda og sjúkrasjóð Bændasamtaka Íslands. Með því móti verður komist næst því að skila fjármagninu til þeirra sem lögðu það upphaflega fram. Fundurinn beinir því til stjórnar Landssambands kúabænda að vinna að málinu á þeim forsendum
Skúli Einarsson las upp tillöguna
Sigurlaugu Leifsdóttur finnst vanta meiri upplýsingar um sjúkrasjóð til að geta haft þetta svona í tillögu. Vildi gera grein fyrir því að tekjustofn í sjúkrasjóð í dag er ágóði af rekstri Hótels Sögu.
Egill Sigurðsson. Skýrði reglur sjúkrasjóðs. 10 milljónir voru lagðar í hann á fyrsta ári og 20 milljónir í ár. Hluti af arði hótelreksturs. Tekur undir að betur má kynna sjóðinn fyrir félagsmönnum og má t.d. gera það inni á vef LK. Telur þetta jafn þarft eins og að láta peningana renna í Lífeyrissjóð Bænda.
Tillagan borin upp, samþykkt samhljóða.
Skúli Einarsson kynnti næstu tillögu, sem er unnin með hliðsjón af minnisatriðum til fundarins, sjá mál 19 frá því fyrr í dag. Breytt tillaga nefndarinnar er eftirfarandi:
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006 telur að ekki sé skynsamlegt að setja stærðartakmörk í mjólkurframleiðslu.
Sigmundur Sigmundsson, er samþykkur tillögunni. Gerir athugasemd við minnisatriði til fundarins. Var tilneyddur til að flytja lögheimili sitt á Ísafjörð því sveitarfélagið vildi ekki greiða fyrir börn hans í skóla þar nema hann flytti. Því gerir hann athugasemdir við þetta, það geta fleiri verið í sömu erfiðu stöðu og hann.
Sveinbjörn Sigurðsson spurði hvort minnisatriðin hefðu nokkuð gildi sem samþykkt frá fundinum og voru menn á því að svo væri alls ekki. Tillagan væri eina stefnumörkunin.
Tillagan var borin upp og samþykkt.
Frá starfsnefnd 4.
Ný tillaga númer 7 Kauptilboð í hótelin
Aðalfundur LK haldinn í Reykjavík 6.-7. apríl 2006 átelur meðferð og afgreiðslu aukabúnaðarþings á kauptilboði í Hótel Sögu og Hótel Ísland.
Tillagan var borin upp og samþykkt samhljóða
Jóhann Nikulásson gerði grein fyrir fjárhagsáætlun 2006.
orðið laust um fjárhagsáætlun
Þórólfur Sveinsson.
Það var einn af góðum kostum Snorra Sigurðssonar að fara vel með peninga, vonar að það takist eins upp hjá Baldri. Áform eru uppi um að LK verði aðilar að Markaðsnefnd mjólkuriðnaðarins, höfum verið þarna aðilar en ekki greitt árgjald en höfum stundum getað komið þarna inn með peninga til einstakra verkefna. Hugmyndin er nú að koma þarna inn árlega með tvær milljónir króna. Síðan er það spurning hvað þarf að nota mikið í markaðsstarf fyrir kjötið á ári hverju, þarna er gert ráð fyrir 8 milljónum. Það er auðvitað verulega minna heldur en hefur undangengin ár innheimst í gegnum verðskerðingargjaldið. Um 12 milljónir, eða nálægt því eru inni í verðskerðingasjóði og eðlilegt að loka honum, þegar nokkurn veginn er séð fyrir hvernig áramótauppgjörið verður, t.d. miðað við 1. júní. Fjárhagslegur styrkleiki LK vex við þetta en það breytir því ekki að við verðum að halda áfram að lifa eftir mottói Snorra. Getum verið hæfilega stolt yfir því að okkur hefur tekist að gera tiltölulega mikið á 20 árum með fremur litlum tilkostnaði.
Fjárhagsáætlun borin til atkvæða, samþykkt samhljóða.
9. Kosningar
Kosning formanns
Formaður uppstillinganefndar Magnús Sigurðsson gerði grein fyrir þeirri tillögu að Þórólfur Sveinsson verði formaður til eins árs.
Atkvæði voru greidd og Þórólfur kjörinn með 26 atkvæðum Auðir seðlar voru 2 og Sigurður Loftsson fékk 1 atkvæði.
Kosning meðstjórnenda
Formaður uppstillingarnefndar Magnús Sigurðsson leggur til að meðstjórnendur verði
Sigurður Loftsson, Egill Sigurðsson, Guðný Helga Björnsdóttir og Jóhannes Ævar Jónsson.
Kosning fór fram. Sigurður fékk 26 atkvæði, Guðný 27 atkvæði, Jóhannes 29 atkvæði og Egill 26 atkvæði. Sex aðrir fengu eitt atkvæði. Stjórnin var því rétt kjörin.
Kosning varamanna.
Tillaga formanns uppstillinganefndar Magnúsar Sigurðssonar var að Gunnar Jónsson og Guðrún Lárusdóttir yrðu varamenn til eins árs.
Kosning fór þannig að Gunnar hlaut 27 atkvæði, Guðrún 14 atkvæði, aðrir fengu færri.
Kosning tveggja skoðunarmanna til eins árs og eins til vara.
Magnús Hannesson og Pétur Diðriksson
Tillaga um að Valdimar Guðjónsson verði varamaður þeirra,
Þetta var borið upp og samþykkt með lófaklappi.
Fulltrúakosning á Búnaðarþing til þriggja ára.
Formaður uppstillinganefndar gerði tillögu um að eftirtalin yrðu kosin. Birna Þorsteinsdóttir, Gunnar Jónsson, Kristín Linda Jónsdóttir, Þórólfur Sveinsson og Sigurður Loftsson.
Kosning fór þannig að Birna fékk 22 atkv. Gunnar J. fékk 27 atkv. Kristín Linda fékk 24 atkv. Sigurður fékk 25 atkv. og Þórólfur fékk 26 atkv.
Tillaga um fimm varamenn á Búnaðarþing.
Formaður uppstillinganefndar gerði tillögu um að eftirtaldir yrðu kosnir:
Jóhannes Ævar Jónsson, Þórarinn Leifsson, Valdimar Guðjónsson, Pétur Diðrikssson og Skúli Einarsson.
Niðurstaða kosningar var eftirfarandi.
1. varamaður. Jóhannes Ævar Jónsson 21 atkv.
2. varamaður. Skúli Einarsson, 19 atkv.
3. varamaður. Pétur Diðriksson, 16, atkv. vann Valdimar á hlutkesti
4. varamaður. Valdimar Guðjónsson, 16 atkv.
5. varamaður. Þórarinn Leifsson, 13 atkv.
10. Önnur mál
Guðný Helga Björnsdóttir
Þakkar traustið að fá að vera áfram í stjórn, spennandi verkefni framundan og gaman að starfa með þessum mönnum í stjórninni. Varðandi umræður um endurmenntun, fram kom í gær að lítið um að vera þar. Snorri vann með endurmenntunarstjóra LbhÍ í fyrra, samantekt á námskeiðsóskum kúabænda er komin til Guðrúnar endurmenntunarstjóra. Hún hafði samband við hana um daginn og kom fram hjá Guðrúnu að það væri mikið álag á sér og að þetta þyrfti að vera meira en eitt starf. Nú væri búið að sameina stofnanirnar og endurmenntunin væri bara á einni hendi, þannig að þetta væri ekki eins gott og það gæti verið. Búin að vera ráðunautanámskeið, ráðunautar miðla því auðvitað svo áfram. Horfir vonandi til betri vegar, en þetta var miklu meira hér fyrir nokkrum árum. Bendir á fjarnámið sem góðan kost fyrir starfandi bændur, hafi þeir tíma. Sjáumst á morgun í Smáralindinni og svo á árshátíðinni.
Einar Haraldsson
Einar var ekki sáttur við erindi Gunnars um nautastöðina í gær, varð hálf orðlaus yfir því. Þar bar Gunnar saman staðsetninguna, Hvanneyri vs Gunnarsholt. Einar fór aðeins að skoða málið fyrir austan fjall og komst að því að ekki hafði verið rætt formlega við hrossaræktarsambandið um afnot af aðstöðunni þar. Þar verður ekki sæðingastarfssemi í vor, þar er rekin tamningastöð en árangur af sæðingum er lélegur og kostnaður hár og því áhugi á sæðingum ekki fyrir hendi. Þar er viðurkennt sæðistökuhús til útflutnings. Að vísu er svæðið skipulagt sem íbúabyggð og var það eitt af rökunum sem Gunnar taldi vera gegn þessu. Þá taldi Gunnar fóðuröflun vera auðveldari á Hvanneyri, þetta er bara ekki rétt. Þeir sem að þekkja Gunnarsholtssvæðið vita að túnið er þar tugum hekturum saman, þar eru líka verktakar sem taka að sér að heyja þessi tún. Fóðuröflun er einfaldlega auðveldari þar. Þá ræddi Gunnar svolítið um aðgengi almennings eða bænda að nautastöðinni. Það er bara einfaldlega þannig að nautastöðin er einangrunarstöð, þangað má bara engin koma inn, svo einfalt er það. Honum fannst dreginn taumur annars staðarins umfram hinn, án raka. Söluandvirði eigna í Þorleifskoti var sagt vera á bilinu 20-50 milljónir, þarna skeikar heilmiklu. Jafnvel þó við tökum lægri töluna 20 milljónir, þá er það í hans huga ágætis hús. Það hefur ekki verið skoðað hvað þarf að bæta í Þorleifskoti svo að hægt sé að reka stöðina áfram. Einar gagnrýnir að það sé komið með málið hingað, án þess að hafa kostnaðaráætlun eða nokkrar áætlanir annað en það að stöðina skal byggja á Hvanneyri hvað sem það kostar. Þetta er hans sýn á málið og gagnrýnir hann þetta harkalega. Samt vill hann taka það fram að hann hefur engar forsendur til að velja stað fyrir þessa stöð, en eftir þennan málflutning í gær getur hann ekki séð að aðrir hafi það heldur. Finnst einfaldlega óþolandi að þurfa að sitja hér undir því að einhver komi fram með mál gersamlega óundirbúin fjárhagslega og faglega og meira að segja fer með dylgjur og sumsstaðar ekki nægjanlega örugg sannindi í þeim tilgangi að fegra einn stað öðrum fremur. Einar bað fundarmenn afsökunar á hve harðorður hann væri en hann væri svolítið reiður yfir þessu.
Stefán Magnússon
Tillaga sem var hent um sjúkdómaskráningu í MARK. Finnst það svolítið skjóta skökku við í ljósi þess að þetta er eitt af grundvallaratriðum varðandi upplýsingar um stöðu íslenska kúastofnsins sjúkdómalega séð og að þær upplýsingar sem ættu að vera í þessum grunni nýttust við kynbótastarf og til samanburðar við hugsanlegan innflutning og fannst honum það heldur miður. Stefán saknar þess að hafa ekki fengið á vef LK gjaldskrá dýralækna, sem var tekin saman í haust. Telur hið þarfasta þing að fá þetta upp, þrátt fyrir að ekki hafi allir dýralæknar svarað en það er bara annað mál, það hlýtur að mega tína það inn eftir hendinni.
Í þriðja lagi er hér blómvöndur, sem fundurinn fékk frá Norðurmjólk. Við förum af fundinum en blómvöndurinn verður eftir og gerir hann það að sinni tillögu að yngsti aðilinn á fundinum Jómundur Örn Eyjólfsson fái blómvöndinn og biður hann að koma og taka við honum. Var svo vöndurinn afhentur piltinum í örmum móður sinnar Margrétar sem er ritari LK.
Birna Þorsteinsdóttir
Í framhaldi af hugleiðingum um endurmenntun, varðandi fjarnám vill hún vekja athygli á ágætis endurmenntunarmöguleikum á netinu bæði á fjarkennsla.is og tolvunam.is. Varðandi sjúkrasjóðinn, þá vissu greinilega ekki margir um hann, þá vill hún spyrja hvort fundarmenn hafi áttað sig á orlofssjóði bænda? Þar er hægt að fá úthlutun fyrir sumarbústaðadvöl eða ferðum erlendis. Þó hann sé ekki viðstaddur, vill hún þakka Snorra fyrir frábært starf. Hann á sinn þátt í síðunni naut.is. Hafa samtökin velt fyrir sér með naut.is síðan að ganga til samstarfs við bondi.is en þeir ætla að endurskoða sinn vef. Þá þakkaði hún stjórn gott starf á síðasta ári.
Þorsteinn Rútsson
Þarf endilega sjúkrasjóð og orlofssjóð og óskar hann eftir því að stjórnin geri það. Á árinu komu upp nokkur tilfelli varðandi lyfjaleyfar í mjólk. Lyfið hafði lengri útskolunartíma heldur en upp var gefið. Snorri tók það mál að sér, en spurning hver heldur því á lofti. Málið hefur tafist vegna mannabreytinga og óskar hann þess að nýr framkvæmdastjóri vinni í málinu áfram fyrir okkur. Búið að vera mjög mikið að gera hjá nýjum framkvæmdastjóra. Óskar stjórn og fulltrúum til hamingju með kosningu og þakkaði góðan fund.
Jóhann Nikulásson
Tekur undir með Einari á Urriðafossi í sambandi við nautastöðina. Jóhann minnir að búnaðarþing hafi samþykkt tillögu sem hljóðaði einhvern vegin þannig að þessu með nautastöðina væri vísað til umsagnar á aðlafundi LK. Hver er umsögn fundarins um nautastöðina, honum finnst að fundurinn eigi að láta eitthvað eftir sig um málið.
Sigmundur H. Sigmundsson
Engin leiðindi þó menn séu ekki sammála um staðsetningu nautastöðvar. Honum finnst mikið dregið allt þarna á einn stað við Hvanneyri. Kristín Linda talaði um að bölvandi naut væru ekki góð kynning út á við, þá kom fram að það væri vinsælt erlendis að fá að koma að horfa á sæðistökuna. Því setti hann saman þessar línur:
Bolarnir bölva á
bás í fjósi ísalands
og gestir munu horfa á
íslands nauta súludans
Jóhannes Torfason
Varðandi nautastöðvarmál þá leit hann ekki á það að það væri verið að leggja málið til umsagnar, heldur kynningu á máli sem væri í skoðun. Honum finnst það ekki góðir siðir að fjalla um mál sem búið er að kynna, þegar þeir sem kynntu það eru ekki lengur til staðar. Ef það á að fjalla um það, er eðlilegt að kalla þá til á ný og fá frekari skýringar, sammála Einari að þær upplýsingar sem voru gefnar sérstaklega fjárhagslegar, þá voru þær alls ekki þess eðlis að þær auðvelduðu manni að hafa skoðun. Hvaða skoðun viljum við hafa varðandi staðsetningu? Í einu orði tölum við um það að við viljum reyna að mynda sterkari kjarna, flétta saman rannsóknir leiðbeiningar og kennslu? Þá getum við ekki í gjörðum okkar verið að dreifa starfssemi sem við getum haft áhrif á hvar er. Hann telur að það hafi ákveðna jákvæða þætti, burtséð frá fjárhagslegu hliðinni, að vera með þessa starfssemi í grennd við menntastarfssemina og líka þar sem er mikil leiðbeiningasarfssemi. En meginatriðið er þetta, hann telur ekki eðlilegt að vera að fjalla um málið, nema þá að þeir málsaðilar sem kynntu fái tækifæri til að skýra það betur.
Sigurður Loftsson
Var í nefndinni sem vann tillöguna til búnaðarþings um málið. Getur staðfest að Búnaðarþing fól stjórn BÍ að leggja málið til umsagnar fyrir aðalfund Landssambands Kúabænda. Hann bjóst við því að í því fælust áframunnin gögn sem þeir höfðu í nefndinni, svo að hægt væri að skoða þetta hér inni í nefnd, en ekkert slíkt barst fundinum. Stjórn BÍ hefur því ekki farið eftir ályktunum búnaðarþings um meðferð málsins gagnvart aðalfundi LK, kynningin í gær var ekki það sem búnaðarþing lagði til að gert yrði gagnvart aðalfundi LK. Þakkar fyrir gott traust, endurnýjað umboð, þakkaði´ánægjulegan fund, gaman að starfa að þessum málum.
Skúli Einarsson
Spyr úr sæti sínu. Getum við falið stjórninni að gefa umsögn um nautastöðvarmálið? Þórólfur svarar og bendir á að stjórnin fari með mál samtakanna þannig að ef það kemur á borð hennar þá verði það gert.
Gunnar Jónsson
Eitt mál sem afgreitt var í dag, sem leiðir líkur að því að það verði haustfundur, kannski kemur málið inn þá til umsagnar ef það liggja þá fyrir meiri gögn.
Fundastjóri (Sigurgeir) benti líka á að BÍ ætti nautastöðina og bæri ábyrgð á málinu.
Sæmundur Jón Jónsson
Fyrsti aðalfundur hans og hann vonast eftir því að fá að koma á næsta ári. Hann er lítið eldri en samtökin, en hann vill að við lítum björtum augum á framtíðina. Hættum að hugsa um fortíðina hvað við höfum gert vitlaust, hugsum frekar um framtíðina og hvað við getum gert rétt þar.
11. Fundarslit
Fundarstjóri þakkaði fundinum, fyrir hönd fundarstjóranna og gaf Þórólfi Sveinssyni, nýkjörnum formanni stjórnar LK
Þórólfur þakkaði samvinnuna á fundinum og traustið. Nú lýkur þessu í dag, en við sjáumst á morgun. Spurt var um gjaldskrá dýralækna á vefnum. Tveir dýralæknar sendu inn gögn, hvorugur er hefur dýralækningar að aðalstarfi. Þá var farið í að skoða þetta út frá reikningum hjá bændum, ekki kom til greina að birta það. Fara þarf einhverjar nýjar leiðir í þessu.
Framhald verður örugglega á naut.is, við höfum reyndar velt fyrir okkur hvort mögulegt sé að sameina naut.is og sam.is Framkvæmdastjórinn hefur haft í býsna mörg horn að líta, þetta bíður skoðunar. Varðandi nautastöð, þá er aðalfundur fagráðs á Suðurlandi 19. apríl í Þingborg. Aðalfundurinn er lokaður en á eftir verður opinn fundur og þar verður kynning á væntanlegri nautastöð Bændasamtaka Íslands. Hvetur menn til að mæta þar.
Þakkaði félögum fyrir góðan fund og fundarstjórum fyrir fyrir góða fundastjórn. Óskaði góðrar heimferðar og skemmtilegrar árshátíðar og sleit fundi.
Jóhannes Ævar Jónsson ritaði fundargerð fyrir hádegi á fimmtud., fram að dagskrárlið nr. 4.
Sverrir Heiðar ritaði fundargerð frá hádegi á fimmtudag og út fundinn.
12. Viðauki 1.
Afgreiðsla mála á Aðalfundi LK 2006 í Reykjavík. Tillögur listaðar upp.
Samþykktar tillögur:
1. Innflutningur erfðaefnis til kynbóta
Aðalfundur LK, haldinn í Reykjavík 6. – 7. apríl 2006, beinir því til stjórnar LK að nú þegar verði hafin vinna við að meta hagrænan ávinning af innflutningi erfðaefnis til kynbóta á íslenska kúastofninum. Þá verði leitað eftir samstarfi við SAM um að áætla það magn mjólkur sem markaðurinn muni þarfnast á komandi árum og möguleikar núverandi kúastofns til að uppfylla þarfir hans metnir. Einnig verði hugsanleg áhrif innflutnings erfðaefnis á viðhorf neytenda metin í samstarfi við SAM. Samhliða þessu verði skoðað hvert mögulegt sé út frá heilbrigðissjónarmiðum að sækja erfðaefni, hvaða kúakyn komi til greina og hvort til greina komi að flytja inn erfðaefni á annan hátt en sem fósturvísa. Úttekt þessari verði lokið fyrir haustfundi LK. Í framhaldi af haustfundum verði boðað til aukafulltrúafundar þyki stjórn LK tilefni til.
Greinargerð:
Kýrnar eru helsta framleiðslutæki kúabóndans. Ýmsir veikleikar eru auðséðir á íslenska kúastofninum, sem er að vonum þar sem smæð stofnsins útilokar að í honum náist jafn hraðar erfðaframfarir og í stærri stofnum.
Fyrirsjáanlegt er að næstu árin muni mjólkurframleiðslan búa við versnandi framleiðsluumhverfi. Því valda m.a. væntanlegir tollar WTO – samningar sem búast má við að hafi í för með sér minnkandi tollvernd og óheppilegar breytingar á ríkisstuðningi. Þá kalla neytendur af vaxandi þunga eftir ódýrari matvörum. Vonir hafa verið bundnar við útflutning mjólkurafurða en til þess að af honum getir orðið í einhverjum mæli þarf framleiðslukostnaður að lækka, ásamt því að mögulegt sé að auka framleiðsluna umtalsvert.
Til að mæta ofangreindum breytingum í framleiðsluumhverfi hlýtur að þurfa að skoða alla hagræðingarmöguleika. Í ljósi þess hversu tímafrekur innflutningur erfðaefnis er, verður að hraða slíkri skoðun eftir föngum.
2. Starfsemi og aðsetur Bændasamtaka Íslands
Aðalfundur LK haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006 hvetur til þess að nú þegar verði hafin endurskoðun á aðsetri og starfsemi Bændasamtaka Íslands. Skoðað verði sérstaklega hvort ekki megi ná fram aukinni skilvirkni og hagkvæmni í rekstri samtakanna meðal annars með því að:
Leggja núverandi húsnæði undir starfsemi Hótels Sögu og flytja aðsetur Bændasamtakanna annað.
Endurskipuleggja starfsemi tölvudeildar með því t.d. að bjóða verkefni hennar út.
Tengja starfsemi ráðgjafasviðs við LbhÍ og leiðbeiningamiðstöðvar búnaðarsambandanna, styrkja þær þannig faglega og auka nálægð við notendur.
3. Afnám fóðurtolla af innfluttum fóðurblöndum
Aðalfundur LK haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006 tekur undir ályktun síðasta búnaðarþings um nauðsyn þess að hætt verði nú þegar innheimtu fóðurtolla af innfluttum fóðurblöndum. Fundurinn beinir því til landbúnaðar- og fjármálaráðuneytis að þessi aðgerð komi strax til framkvæmda, svo að sem fyrst náist að skapa eðlilegt verðaðhald á fóðurmarkaði.
4. Afnám fóðurtolls af innfluttum hráefnum til fóðurgerðar
Aðalfundur LK haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006 tekur undir ályktun síðasta búnaðarþings um nauðsyn þess að hætt verði nú þegar innheimtu fóðurtolls af hráefnum til fóðurgerðar. Fundurinn beinir því til landbúnaðar- og fjármálaráðuneytis að þessi aðgerð komi strax til framkvæmda, svo að sem fyrst náist að skapa eðlilegt verðaðhald á fóðurmarkaði.
5. Samstarfssamningur LK og BÍ
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006, heimilar stjórn LK að staðfesta fyrirliggjandi drög að breyttum samstarfssamningi milli Landssambands kúabænda annars vegar, og Bændasamtaka Íslands hins vegar.
Greinargerð:
Samstarfssamningur milli LK og BÍ var samþykktur í almennri atkvæðagreiðslu kúabænda árið 1998. Aðalfundur LK 2004 fól stjórn LK að leita eftir endurskoðun á samningnum. Nú liggur fyrir samkomulag aðila um nokkrar breytingar á samningnum og þá var ráðstöfun búnaðargjalds breytt um síðustu áramót.
6. Verðlagsmál
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006, leggur ríka áherslu á að Verðlagsnefnd búvara gæti ákvæða búvörulaga við ákvörðun á lágmarksverði mjólkur. Fundurinn minnir sérstaklega á að lögin gera ráð fyrir að laun kúabænda séu hliðstæð ,,og gerist hjá starfsstéttum sem bera sambærilega ábyrgð á rekstri og mæta hliðstæðum kröfum um viðveru og færni’’. Þetta markmið næst ekki nema tekið sé nauðsynlegt tillit til kostnaðarhækkana við leiðréttingu á lágmarksverði mjólkur.
Þá áréttar fundurinn að samkvæmt sömu lögum er hverri afurðastöð heimilt að greiða framleiðendum hærra verð en lágmarksverð.
7. Um sölu hóteleigna BÍ
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006, telur rétt að áfram verði unnið að því að losa það fjármagn sem liggur í hóteleignum Bændasamtakanna. Fundurinn leggur til að nettó söluhagnaður renni í Lífeyrissjóð bænda og sjúkrasjóð Bændasamtaka Íslands. Með því móti verður komist næst því að skila fjármagninu til þeirra sem lögðu það upphaflega fram. Fundurinn beinir því til stjórnar Landssambands kúabænda að vinna að málinu á þeim forsendum
8. Um greiðslumark og efnaþátt mjólkur
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006, mælir með að greiðslumark til mjólkurframleiðslu verði ákveðið út frá áætlaðri þörf innanlandsmarkaðar fyrir þann efnaþátt mjólkur sem meira selst af.
9. Reglugerð um gripagreiðslur
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006, lýsir vonbrigðum með að enn skuli ekki hafa verið sett reglugerð um gripagreiðslur, en réttur til þeirra byrjaði að myndast 1. september 2005. Fundurinn leggur mikla áherslu á að reglugerðin verði sett sem fyrst, en ef það gerist ekki felur hann stjórn LK að leita eftir breytingu á ,,Samningi um starfskilyrði mjólkurframleiðslunnar“ þess efnis að það fjármagn sem sérmerkt er gripagreiðslum verðlagsárið 2006/2007, verði greitt út sem beingreiðslur á mjólk.
10. Um stærðarmörk í mjólkurframleiðslu
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006 telur að ekki sé skynsamlegt að setja stærðartakmörk í mjólkurframleiðslu.
11. Um forrit og forritunarmál nautgriparæktar
Aðalfundur LK haldinn í Reykjavík 6.-7. apríl 2006, beinir því til stjórnar LK að nú þegar verði farið í viðræður við BÍ um framtíðarskipan forrita og forritunarmála fyrir nautgriparækt.
12. Kauptilboð í hótelin
Aðalfundur LK haldinn í Reykjavík 6.-7. apríl 2006 átelur meðferð og afgreiðslu aukabúnaðarþings á kauptilboði í Hótel Sögu og Hótel Ísland.
13. Eftirlit með áburði
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006 skorar á Landbúnaðarstofnun að birta ætíð upplýsingar um þær áburðar- og fóðurtegundir sem ekki standast kröfur hennar og upplýsa hvernig þeim er ráðstafað.
Greinargerð.
Á heimasíðu Aðfangaeftirlits kemur fram að árið 2004 voru tekin 31 sýni úr innfluttum áburði frá nokkrum innflytjendum, þar af reyndust 8 sýni ekki standast uppgefin gildi. Árið 2005 voru síðan tekin 45 sýni, þar af stóðust 10 sýni ekki uppgefin gildi. Ekki kemur fram um hvaða tegundir áburðar er að ræða eða frá hvaða innflytjendum hann er, né heldur hvernig honum er ráðstafað. Þar eð sýni úr umræddum áburðartegundum eru væntanlega ekki tekin fyrr en hann er kominn til landsins, hlýtur að vakna sú spurning hvað gert er við hann. Er það raunin að hann sé seldur á markaði eða er honum ráðstafað með öðrum hætti. Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa bænda að þeir viti hvort á markaði eru slík vara og þá hver hún er og frá hvaða seljendum.
14. Framkvæmd reglugerðar um merkingar búfjár
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006, lýsir yfir þungum áhyggjum af framkvæmd reglugerðar nr. 289/2005 um merkingar búfjár. Fundurinn skorar á landbúnaðarráðuneytið að skerpa á framkvæmd reglugerðarinnar og sérstaklega auka upplýsingaflæði þar að lútandi.
Þá er ótækt að skráning sláturleyfishafa er ekki farin að virka.
Greinargerð:
Markmið reglugerðarinnar er að tryggja rekjanleika búfjárafurða frá upprunahjörð og/eða fæðingu viðkomandi dýrs til sölu afurða og skapa með því grundvöll að markvissu matvæla- og búfjáreftirliti, eftirliti með flutningum dýra, skráningu búfjársjúkdóma og meðhöndlun þeirra. Í því skyni er skylt að merkja og skrá alla nautgripi frá og með 1. janúar 2006 í einstaklingsmerkingakerfið MARK. Einstaklingsmerkingakerfið er jafnframt grunnur að gripagreiðslum skv. núgildandi samnings um starfsskilyrði í mjólkurframleiðslu en þar segir í grein 6.3:
“Gripagreiðslur: Frá og með verðlagsárinu 2006/2007 verða teknar upp gripagreiðslur, sbr. töflu 1. Greiðslunum skal ráðstafað til aðila er eiga kýr sem eru einstaklingsmerktar og hafa átt að minnsta kosti einn kálf samkvæmt upplýsingum úr einstaklingsmerkingakerfinu MARK. Viðtakanda greiðslna skal skrá sérstaklega og skal viðkomandi stunda virðisaukaskattsskyldan búrekstur, skv. lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988, á lögbýli. Ríkissjóður greiðir að hámarki út á samtals 27.400 kýr, sem er meðalkúafjöldi á árunum 2000-2002. Grundvöllur gripagreiðslna er meðalfjöldi einstaklingsmerktra kúa á viðkomandi búi næstliðið verðlagsár. Ef heildarfjöldi einstaklingsmerktra kúa á landinu er lægri en 27.400, hækkar greiðsla á kú hlutfallslega. Þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða á sama lögbýli er heimilt að skrá þá sérstaklega, sbr. reglur um skráningu handhafa greiðslumarks. Greiðslur á grip fara eftir fjölda kúa á hverju lögbýli skv. eftirfarandi töflu, töflu 2.
Tafla 2. Hlutfall gripagreiðslna
Fjöldi kúa Hlutfall óskertrar greiðslu
1-40 100 %
41-60 75 %
61-80 50 %
81-100 25 %
101 og yfir 0 %
Ef fjöldi gripa á lögbýli fer yfir 170 skerðast gripagreiðslur um 25% fyrir hverjar 10 kýr sem umfram eru, þannig að bú með fleiri en 200 kýr nýtur ekki gripagreiðslna. Framkvæmdanefnd búvörusamninga setur nánari reglur um greiðslur gripagreiðslna.”
Engar upplýsingar eða reglur hafa enn borist frá Framkvæmdanefnd búvörusamninga þó aðeins séu nú 5 mánuðir til stefnu þar til gripagreiðslur eiga að hefjast.
Eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar virðist ómarkvisst og tilviljanakennt en í 19. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að það sé í höndum embættis yfirdýralæknis, nú Landbúnaðarstofnunar. Þá segir ennfremur í 13. gr. reglugerðarinnar að embætti yfirdýralæknis, nú Landbúnaðarstofnun, hafi eftirlit með skráningu upplýsinga í kerfið f.h. landbúnaðarráðuneytisins.
Það hlýtur að vera krafa kúabænda að sá kostnaður sem af framkvæmdinni hlýst skili sér í formi betri upplýsingar og rekjanleika afurðanna. Um er að ræða umtalsverðan kostnað en hann nemur um 4 milljónum kr. á ári miðað við að um 17 þús. kálfar séu settir á til lífs árlega. Þar af eiga 70%, þ.e. 160 kr. af hverjum 230 kr. sem hvert einstaklingsmerki kostar, að renna til reksturs einstaklingsmerkingakerfisins eða um 2,7 millj. kr. á ári.
15. Laun aðalfundarfulltrúa
Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn í Reykjavík 6. og 7. apríl 2006 leggur til að laun aðalfundarfulltrúa verði tvöfaldir dagpeningar.
Tillaga sem var felld:
16. Europ matskerfi fyrir nautakjöt
Aðalfundur Landssambands kúabænda 2006, beinir því til stjórnar LK að farið verði í viðræður við Landssamtök sláturleyfishafa um hvort rétt sé að taka upp EUROP-matskerfið fyrir nautagripakjöt..