Um BÍ
Búgreinadeildir
Málaflokkar
Til baka
Um Alifuglabændur
Upplýsingar
Kolefnisspor
Til baka
Til baka
Um Hross BÍ
Fræðsla
FHB
Til baka
Um NautBÍ
Upplýsingar
LK
Til baka
Sauðfjárbændur
Upplýsingar
Til baka
Starfið
Stjórnsýsla
Til baka

Fundargerð aðalfundar 2005

08.04.2005

Aðalfundur Landssambands kúabænda 2005

 

Aðalfundur Landssambands kúabænda 2005 var haldinn á Hótel Selfossi

dagana 8. – 9. apríl 2005 og hófst kl. 10:00.

 

Þetta var gert:

 

1. Fundarsetning, kosning starfsmanna fundarins

Þórólfur Sveinsson, formaður Landssambands kúabænda, setti fundinn og bauð fulltrúa og gesti velkomna.  Gerði hann tillögu um að Sveinn Ingvarsson yrði fundarstjóri og Sveinbjörn Þór Sigurðsson yrði honum til aðstoðar. Var það samþykkt. Sverrir Heiðar hafði áður verið ráðinn ritari fundarins. Að þessu loknu bað hann Svein og Sveinbjörn að taka við stjórn fundarins sem þeir og gerðu. Sveinn þakkaði traustið fyrir þeirra hönd og hóf dagskrá fundarins.

2.  Skýrsla stjórnar og fagráðs.

Skýrsla stjórnar og fagráðs var flutt af Þórólfi Sveinssyni og fer ræða hans hér á eftir í heild sinni:

 

Þórólfur Sveinsson, formaður Landssambands kúabænda

Ágætu fulltrúar; Góðir gestir.

Ég vísa til framlagðra gagna um störf Landssambands kúabænda frá síðasta aðalfundi. Skýrsla um störf stjórnar og framkvæmdastjóra hefur verið birt á vef LK, sem og samantekt um störf fagráðs í nautgriparækt. Það er nú svo góðir fulltrúar, að aðalfundur okkar stendur aðeins tvo daga og við höfum ekki notað kvöldið milli fundardaga til nefndarvinnu. Þetta gengur því aðeins upp að mjög skipulega sé unnið. Við skulum hafa hugfast að margar ályktanir eru ekki markmið, heldur hitt að fundurinn láti ljós skoðun á nauðsynjamálum nautgriparæktarinnar eftir því sem aðstæður kalla á hverju sinni. Einnig þarf fundurinn að gefa stjórninni nauðsynleg fyrirmæli um stefnu og verkefni. Það er hins vegar reynslan að á fundum bænda koma gjarnan fram ýmsar hugmyndir og ábendingar í tillöguformi sem gott er að koma inn í umræðuna, en eiga oft betur heima sem ábendingar til stjórnar en ályktanir frá aðalfundi.

 

Þá er nú í fyrsta skipti bein útsending í gegnum Internetið frá aðalfundinum. Þetta er tilraun til þess að færa fundinn nær umbjóðendum okkar.

 

Liðið starfsár er eitt af þeim annasömustu á vegferð Landssambands kúabænda. Þegar síðasti aðalfundur okkar var haldinn, lá fyrir skýrsla Starfshóps landbúnaðarráðherra um málefni mjólkurframleiðslunnar og unnið var nýjum samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar. Samningur þar um var síðan undirritaður 10. maí sl. vor. Hinn 19. maí var síðan undirritaður viðaukasamningur við núgildandi mjólkursamning þar sem fellt var út ákvæði þess efnis að skráning heildsöluverðs á mjólk og mjólkurvörum skyldi hætt 30. júní 2004.   Samningurinn um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar var undirritaður með fyrirvara, bæði af hálfu fulltrúa bænda og fulltrúa ríkisins. Fyrirvari bænda var sá að samningurinn yrði samþykktur meðal bænda í almennri atkvæðagreiðslu. Samningurinn var lagður í dóm kúabænda og var niðurstaða atkvæðagreiðslu sem hér segir: Á kjörskrá voru 1529. Atkvæði greiddu 1021, sem er 66,8 %. Já sögðu 961 sem er 94,1 %. Nei sögðu 43, sem er 4,2 %. Auðir seðlar og ógildir voru 17, sem er 1,7 %.

 

Fyrirvari fulltrúa ríkisins var sá gerðar yrðu nauðsynlegar lagabreytingar á Alþingi. Breytingar á búvörulögum þar sem efni samnings um Starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar var lögfest, var síðan samþykkt á alþingi 28. maí. Á Alþingi féllu atkvæði þannig þegar efni samningsins var fellt inn í búvörulög, að 43 sögðu já, 4 sátu hjá, fjarstaddir voru 16. Eins og þessar atkvæðatölur bera með sér var góð sátt um málið á Alþingi og það er sérstök ástæða er til að þakka landbúnaðarráðherra og landbúnaðarnefnd Alþingis fyrir góðan skilning á málefnum greinarinnar.

Mér þykir rétt að dvelja nokkuð við niðurstöðu þessa samnings, svo mikilvægur sem hann er fyrir íslenska nautgriparækt. Þar er fyrst að þó við séum sátt við samninginn, þá náðum við ekki fram öllu sem við hefðum kosið og í samningnum eru atriði sem betra hefði verið að vera laus við.

 

  • Við náðum ekki fjármagni til að styðja við nautakjötsframleiðsluna. Það er í rauninni þannig að þegar núgildandi búvörulög voru sett að stofni til árið 1985, var tekin sú pólitíska ákvörðun af sömu flokkum og mynda núverandi ríkistjórn, að styðja ekki nautakjötsframleiðsluna. Í rauninni má segja að þessi grundvallarafstaða stjórnvalda sem þá var mótuð, standi enn. Ég og fleiri mjólkurframleiðendur sem skráð höfðum hluta af búmarki yfir á nautakjötsframleiðslu vorum nú ekki alsælir með þessa framvindu þarna á níunda áratugnum. Með sama hætti eru sumir framleiðendur nautakjöts eðlilega ekki ánægðir með sína stöðu. Sem betur fer hefur staðan á nautakjötsmarkaðnum þó batnað til muna og því ber að fagna.

 

  • Við náðum ekki fjármagni til þróunarstarfsemi en það þróunarfé sem samið var um í núgildandi samningi gengur nú til þurrðar. Það er ekkert neyðarástand í þessum efnum en það má heldur ekki gerast að nauðsynleg þekkingaröflun fyrir nautgriparæktina verði svelt.

 

  • Samningurinn  ber með sér lækkun stuðnings á samningstímanum sem betra hefði verið vera laus við. Koma verður fram að þegar beingreiðsluhlutfallið var ákvarðað út frá reynslutölum um niðurgreiðslur mjólkurvara árið 1992 voru mjólkurframleiðendur um 1500. Við upphaf núgildandi samnings voru þeir 1185 en eru nú um 850. Óumdeilt er að kröfur til mjólkurframleiðslunnar hafa vaxið mikið á þessum tíma, en stjórnvöld halda því fram að dregið hafi úr kostnaði við framleiðsluna við þessa samþjöppun og að ríkisvaldið skuli njóta þess að hluta.

 

  • Í samningnum er ekki yfirlýsing af hálfu ríkisins um óbreytta stöðu innflutnings mjólkurafurða. Í ljósi yfirstandandi viðræðna um frjálsari alþjóðaviðskipti er sú afstaða stjórnvalda skiljanleg.

 

Samningurinn sem gerður var sl. vor er fyrsti mjólkursamningurinn sem gerður er í skugga alþjóðlegra samninga sem kunna að setja stjórnvöldum skorður hvað varðar framleiðslutengdan stuðning. Það hefur svo hrakið stjórnvöld (og bændur) yfir í að færa hluta stuðningsins frá framleiðslunni þótt ekki hvarfli að nokkrum reikningslega sjálfbærum manni að það sé markvissari ráðstöfun fjármuna. Bæði gripagreiðslurnar sem teknar verða upp 1. september 2006, og stuðningur við kynbótastarfið sem tekur gildi 1. september næstkomandi, munu haldast að fullu innan nautgriparæktarinnar, en dreifast með öðrum hætti milli bænda en nú er. Hvað þann hluta varðar sem eftir er að semja um, þá var mjög nauðsynlegt að fá meiri tíma til að skoða það mál. Engar formlegar viðræður hafa farið fram en væntanlega verður farið að skoða það í haust og nauðsynlegt að geta kynnt hugmyndir á næsta aðalfundi okkar að ári. Þetta þarf allt að skoða vandlega og fara þá leið sem tryggir best að stuðningnum verði ráðstafað í samræmi við markmið samningsins. Það er vissulega vandasamt að gera allt í senn; halda stuðningnum grænum samkvæmt skilgreiningu alþjóðasamninga, tryggja að hann haldist að mestu leyti hjá þeim framleiðendum sem njóta hans nú, og tryggja jafnframt að hann komi til lækkunar á vöruverði til neytenda. Í umræðum um þessa hugsanlegu breytingu gætir oft nokkurrar léttúðar gagnvart hagsmunum kúabænda. Annars vegar er það staðreynd að þeir hafa keypt hlutdeild í stuðningum eins og lög gefa þeim kost á, og hins vegar eru það síðustu krónurnar sem skapa launin. Ef stuðningur til einstakra bænda skerðist vegna kerfisbreytinga, þá eru það launin sem lækka fyrst, ekki kostnaðurinn.

 

Það er vissulega eðlilegt að bera þennan nýja samning saman við fyrri samninga sem gerðir hafa verið á sömu forsendum eftir að ákveðið var að hætta greiðslu útflutningsbóta á mjólkurafurðir.

 

  • Samningurinn 1992 var róttækasti samningurinn, bæði til góðs og ills. Með honum var mótuð sú stefna að bændur gætu átt frjáls viðskipti með greiðslumarkið en það er að flestu leyti grunnur undir framförum í nautgriparæktinni. Hins vegar var í þeim samningi gengið lengra í verðlagskröfum á hendur bændum en þeir réðu við á þeim tíma. Lækkun stofnfjárhæða í samningnum núna er mun léttbærari en þær kröfur voru.

 

  • Það hefur gengið vel hjá okkur á gildistíma samningins frá 1997. Það er fyrst og fremst vegna þess að markaðsaðstæður hafa verið hagstæðar, og stjórnvöld og fulltrúar þeirra launþegahreyfinga sem koma að verðlagningunni hafa sýnt skilning á leiðréttingum á verði mjólkur. Þann skilning ber að þakka því núverandi skipulag hefði allt eins mátt nota með öðrum hætti. Hins vegar eru ákveðnar blikur á lofti í verðlagningunni sem komið verður að síðar.

 

  • Það er grundvallarbreyting að nú er samið um fasta stuðningsupphæð sem fylgi verðlagsbreytingum, en skuli óháð magni og verði mjólkur. Því má fullyrða að þessi samningur veitir mest öryggi hvað varðar opinberan stuðning á samningstímanum eftir að núverandi skipan mála var tekin upp 1992. Niðurstaða útreikningings á framtíðaráhrifum kerfisbreytingarinnar er hins vegar algerlega háð þeim forsendum sem við gefum okkur um mjólkurverð og markað.

 

Um þessa samningsgerð almennt má segja að núverandi form á samningum við ríkið hefur gefist kúabændum vel. Það er ótvíræður styrkur og dýrmætt aðhald fyrir samningamenn kúabænda að samningurinn skuli lagður í dóm kúabænda. Sú skoðun heyrist öðru hvoru að fella beri sem mest af stuðningi við landbúnaðinn undir einn samning. Sá samningur yrði þá líklega gerður við Bændasamtök Íslands og ólíklegt að hægt yrði að bera hann undir atkvæði bænda, í það minnsta myndu vandséð að kúabændur héldu þeim sjálfstæða atkvæðisrétti sem þeir hafa nú. Það er vonandi langt í næsta samning en í ljósi umræðunnar er rétt að kúabændur velti því fyrir sér í hvaða farveg þeir vilja að þessi mál fari.

 

En hvað er þá framundan? Hvaða þróun verður í nautgriparæktinni á gildistíma næsta samnings?

Árið 1980 voru 2.262 lögbýli með mjólkurframleiðslu. Árið 1991 voru þau 1.509 og eru nú um 850. Ef við reiknum með 3 – 4 % fækkun á ári, þá verða lögbýli með greiðslumark á bilinu 620 til 670 árið 2012.

Sé litið til þess hvar mjólkin verður framleidd og miðað við svæði mjólkursamlaga sem nú eru starfandi, þá hafa verið tvö sóknarsvæði í íslenskri mjólkurframleiðslu sl. áratug. Skagafjörður, sem hefur aukið hlutdeild sína um 21 %, og Mjólkurbú Flóamanna hefur aukið hlutdeild sína um 4 %, en að sjálfsögðu er mikill stærðarmunur á þessum samlögum. Önnur svæði hafa gefið eftir. Hlutfallslega er samdrátturinn mestur á Ísafjarðarsvæðinu, en í magni er samdrátturinn mestur á svæði Mjólkursamsölunnar, þ.e. á svæðinu frá Reykjavík og vestur á sunnanvert Snæfellsnes. Almennt má segja að breytingar á milli svæða hafa ekki verið miklar. Mér finnst líklegt að þróun næstu ára verði eftir sama mynstri.

Í allri þessari umræðu um hvers konar samninga megum við aldrei gleyma að faglegur styrkur greinarinnar er sú burðarstoð sem við verðum flestu framar að treysta. Hvaða hræringar sem verða í skipulaginu, þá er eðli starfsins það sama og hinar faglegu forsendur breytast ekki við skipulagsmál. Við erum að framleiða gæðavöru og okkur eru allir vegir færir hvað þann þátt varðar. Hins vegar er hár framleiðslukostnaður mjólkur á Íslandi það viðfangsefni sem við verðum áfram að takast á við á komandi árum. Búgreinin er talsvert skuldsett og þótt vextir hafi lækkað og lán verið lengd, þá setja fjárskuldbindingar bændum ákveðinn ramma sem getur reynst hættulega þröngur.

 

Svo oft hefur verið rætt um mikilvægi afurðasölunnar að því verður að mestu sleppt nú. Þó er ástæða til að fagna þeirri sameiningu sem nú er að verða hjá Mjólkurbúi Flóamanna og Mjólkursamsölunni. Jafnframt hefur staðan almennt batnað á kjötmarkaðnum og loksins hefur orðið nokkur leiðrétting á verði nautgripakjötsins. Sala mjólkurvara hefur gengið betur en dæmi eru til áður og gæti greiðslumarkið að óbreyttum reiknireglum hækkað í 107 milljónir lítra.

 

Um síðustu áramót tók Landbúnaðarháskóli Íslands til starfa. Skólanum og rektor hans er óskað velfarnaðar í starfi. Það er augljóst að virkni þessa nýja skóla mun ráða miklu um fagstarfið í nautgriparæktinni á næstu árum. Við skulum vera bjartsýn og vænta góðs af starfi skólans. En úr því fagstofnun er nefnd, er líka rétt að nefna vandamál sem við leitum faglegra lausna á. Kálfadauði í íslenska kúastofninum er of mikill og fer heldur vaxandi. Niðurstöður úr könnun sem gerð var hjá kúabændum eru nú að verða tilbúnar og vonandi verður hægt að ákveða í vor hver verða næstu skref til að finna skýringar á vandanum.

 

Hugsanleg áhrif alþjóðasamninga á íslenskan landbúnað hafa verið mikið í umræðunni síðustu misseri og ár. Nú er stefnt að ráðherrafundi aðildarríkja WTO í desember næstkomandi og að þá verði meginlínur nýs samnings um frjálsari viðskipti með landbúnaðarvörur tilbúnar. Samningurinn gæti síðan komið til framkvæmda í ársbyrjun 2007. Skipta má meginefni þessara samninga í þrjú svið:

  • Útflutningsbætur
  • Innanlandsstuðningur, upphæðir og form
  • Markaðsaðgangur (tollvernd)

Um útflutningsbætur er hægt að vera stuttorður. Þær voru afnumdar á Íslandi fyrir 14 árum og skipta því ekki máli í þessu sambandi.

Um innanlandsstuðninginn hefur okkur Íslendingum orðið skrafdrjúgt og talið að þar væri framundan mikill vandi. Áhrifa af þeirri umræðu gætir eins og fyrr segir í nýjum mjólkursamningi. Á þessu stigi verður ekki fullyrt hvort formbreyta verður einhverju af þeim stuðningi sem nú er um saminn sem framleiðslutengdan stuðning í nýjum mjólkursamningi. Áður hefur verið rakið við hvaða erfiðleika er að etja við breytingar á stuðningsformi. Þær breytingar geta bæði skert kjör og breytt tekjuskiptingu milli bænda, en þær svipta okkur hins vegar ekki markaði fyrir framleiðsluvörur okkar.

 

Markaðsaðgangurinn er væntanlega það atriði þessara samninga sem gæti reynst nautgriparæktinni erfiðast. Það eru áform uppi um verulega aukna möguleika á viðskiptum með búvörur milli landa á grundvelli þess að lækka og takmarka tollvernd með ýmsum hætti. Það er alveg hugsanlegt að við töpum markaðshlutdeild vegna þessa, jafnvel nokkrum milljónum lítra.

 

Það verður ekki skilið við umræðuna um alþjóðasamninga án þess að nefna hversu mikilvægum árangri Íslendingar náðu með því að ná fram sérstöðuákvæði þegar samið var um alþjóðlegar aðgerðir vegna loftslagsbreytinga. Þó svo að íslensk stjórnvöld hafi að mínu mati unnið að þessum samningum af miklum heilindum, þá sakna ég þess ef sérstaða Íslands skilar ekki afdráttarlausara sérstöðuákvæði en nú eru horfur á.

 

Verð á greiðslumarki hefur oft komið til umfjöllunar á aðalfundum Landssambands kúabænda og venjulega vegna þess að það þætti í nokkuð háu verði. Verð á jörðum höfum við hins vegar lítið rætt. Eins og fulltrúar þekkja var það lengst af þannig að verð á greiðslumarki fór ekki yfir mjólkurverð sinnum 3,5. Síðasta haust fór hins vegar allt af stað í þessu efni og þegar litið er yfir síðasta ár, þá blasir við að jarðarverð er almennt talið hafa hækkað um 25-30%, fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu eitthvað álíka, og greiðslumark til mjólkur- og sauðfjárframleiðslu öllu meira eða um 30-40%. Er því von að spurt sé hvað gerðist eiginlega og hvert stefnir? Skýringarnar eru líklega einkum tvíþættar:

Hin fyrri er að 1. júlí sl. gengu í gildi breytt jarða- og ábúðarlög. Í hinum nýju lögum er á brott kastað nánast öllum takmörkunum gagnvart möguleikum innlendra og erlendra aðila til að kaupa íslenskar bújarðir. Að mínu mati hafði þetta í för með sér verulega hækkun á jarðarverði sem ekki sér fyrir endann á. Kaup Lífsvals og fleiri aðila á jörðum tengjast þessu ekki beint en starfsemi slíkra aðila eykur að sjálfsögðu eftirspurn eftir jörðum og stuðlar að hækkandi verði.

 

Seinni skýringin, sem tengist þeirri fyrri nokkuð, er að 1. júlí gerðist það einnig að Íbúðalánasjóður fór að lána peningalán til íbúðakaupa á hagstæðari kjörum en þekkst höfðu. Í kjölfarið hófu bankarnir samkeppni við sjóðinn á sömu kjörum en með hærra lánshlutfall. Þá kom það í ljós sl. haust að bændur sem gátu boðið bújörð að veði nutu mun betri kjara í bankakerfinu en áður hafði verið. Sjálfsagt tengist aukinn áhugi bankanna á viðskiptum við bændur bæði hækkandi jarðarverði og þar með traustari veðum, og einnig hinu að bændur eru almennt þekktir sem góðir viðskiptavinir. Lítill vafi er á því að aukið aðgengi að fjármagni á betri kjörum en áður, er stærsti áhrifavaldurinn í þeim verðhækkunum sem ég nefndi áðan. Einhver efri mörk hljóta að vera á verði greiðslumarks og verði íbúðarhúsnæðis. Það er hins vegar óljóst hversu hátt verð á jörðum getur farið ef eigandinn sækist eftir huglægum notum af eign sinni, það er, gerir ekki kröfu til þess að jörðin standi undir sér eins og við segjum. Það kæmi mér ekki á óvart þótt jarðarverðið eigi eftir að bera mun oftar á góma á næstu árum en hingað til og ráða mun meira um þróun íslensks landbúnaðar en verið hefur.

 

Það verð sem við fáum fyrir mjólkina hefur löngum verið eitt stærsta hagsmunamál okkar. Svo sem fram er komið verður sú grundvallarbreyting 1. september næstkomandi að ákvarðanir Verðlagsnefndar hafa ekki lengur áhrif á stuðning ríkisins við greinina. Stuðningurinn er umsamin upphæð sem fylgir hvorki magni né verði mjólkur. Hvaða áhrif þetta hefur á viðhorf innan Verðlagsnefndar er óljóst. Verðlagsgundvöllurinn sjálfur verður tekinn til skoðunar nú á næstu mánuðum, enda að stofni til frá 1999 og 2000. Almennt hefur samkomulag innan nefndarinnar verið gott en vissulega eru skiptar skoðanir um grundvallatriði í sambandi við yfirverð/arðgreiðslur til framleiðenda. Framleiðendur nutu í gegnum þessar greiðslur ávinnings af hagræðingu í mjólkuriðnaðinum í meira mæli en neytendur. Nú hefur hlutur neytenda í þessum ávinningi hins vegar vaxið verulega í gegnum stöðugt verðlag mjólkurvara, þrátt fyrir verðbólgu. Vonandi næst samkomulag um þá skiptingu ávinnings sem nú er orðin.

 

Nú bendir flest til þess að Lánasjóður landbúnaðarins verði lagður niður frá næstu áramótum, og eru það talsverð tíðindi fyrir kúabændur sem skulda líklega 8 – 9 milljarða hjá sjóðnum. Ekki hefur verið flutt frumvarp um niðurlagningu sjóðsins og á þessu stigi er ekki ljóst hver verður eigandi þeirra lánssamninga/skuldabréfa sem Lánasjóðurinn á nú ef eignir sjóðsins verða seldar. Væntanlega verður þróunin sú að hver bóndi verður með sína fjármálaþjónustu alla hjá einum viðskiptabanka og líklegt að sama gildi um þær skuldir sem bændur eru nú með í Lánasjóðnum. Því er það umhugsunarefni hvort ekki eigi í því söluferli sem nú er líklega framundan að gefa bændum kost á  aðilaskiptum að skuldabréfum við sjóðinn, t.d. þannig að eftir sölu eigna Lánasjóðsins hafi skuldarar sjóðins rétt til þess í tiltekinn tíma að fá skuldabréfin færð til annarrar fjármálastofnunar og spara sér þannig kostnað við nýja lántöku við að greiða upp lánin. Allt skýrist þetta á næstunni og nauðsynlegt að bændur fylgist vel með framvindu mála næstu vikur og mánuði. Síðan þarf að fylgjast með því hvort kúabændur muni almennt njóta eðlilegrar fjármálaþjónustu þó ekki liggi í augum uppi hvernig það verður tryggt.

 

Á liðnu starfsári lagði Landssamband kúabænda talsverða vinnu í skoðun á kjarnfóðurverði og viðskiptum með kjarnfóður. Tókst góð samvinna við Svínaræktarfélagið, Félag kjúklingabænda og Félag eggjabænda um þetta verkefni. Segja má að tilefnið hafi verið meint óeðlileg verðþróun á kjarnfóðri árið 2004. Aflað var upplýsinga og haldnir aðskildir fundir með fóðursölum. Margt fróðlegt kom fram í þessari vinnu og verður vonandi framhald á því samstarfi sem þarna var stofnað til. Það spillir ekki að verð á kjarnfóðri hefur lækkað nokkuð það sem af er árinu 2005. En það er fleira en kjarnfóður sem hefur hækkað eða virðist vera að hækka. Þar er tvennt efst í huga. Annars vegar virðast fyrstu fréttir af áhrifum skipulagsbreytinga á raforkudreifingu benda til verulegrar hækkunar á raforkuverði hjá bændum og líklega almennt á landsbyggðinni. Hins vegar verður að óbreyttum lögum tekið upp olíugjald í stað þungaskatts hinn 1. júlí í sumar. Reynist það svo að hráolía frá tanki verði dýrari en bensínið, þá hefur það veruleg útgjöld í för með sér. Bæði þessi atriði snúa mjög að landsbyggðinni og sveitunum. Við notum talsverða raforku í okkar rekstri og þurfum eðlilega að sækja alla þjónustu lengri veg en þeir sem búa í þéttbýli. Það er algerlega óviðunandi ef umræddar kerfisbreytingar leiða til stórfellds útgjaldaauka fyrir bændur.

 

Málefni Mjólku ehf. eru mjög til umræðu þessa dagana. Áformin eru þau að aðili án greiðslumarks hyggst framleiða mjólk og leggja inn í eigin afurðastöð. Frá þessari afurðastöð verði síðan seldar mjólkurvörur á innlendan markað. Í ljósi þess að öll mjólkurframleiðsla fellur undir búvörulög eins og skýrt kemur fram í 56. grein laganna, hlýtur sú spurning að vakna hver sé réttarstaða aðila án greiðslumarks til mjólkurframleiðslu við þessar aðstæður. Þar sem ekki er vitað um fordæmi sem megi vitna í með beinum hætti, hlýtur að vera eðlilegt að horfa til þess hvort landbúnaðarráðuneytið eða dómstólar hafa komið inn á þetta atriði í umfjöllun um greiðslumark og nýtingu þess. Með öðrum orðum, hvernig þessir aðilar hafa túlkað gildandi lög að þessu leyti. Ekkert óumdeilt virðist til að þessu leyti og málið þarfnast greinilega meiri skoðunar. Það er þó ljóst að álitaefnið snýst um það hvort handhafar greiðslumarks til mjólkurframleiðslu hafa forgang að eða hlutdeild í innanlandsmarkaði fyrir mjólkurvörur, umfram þá sem ekkert greiðslumark hafa. Það má reyndar líka segja að álitaefnið sé það, hvort munur sé á umframmjólk sem greiðslumarkshafi framleiðir, og mjólk sem framleidd er án greiðslumarks.

 

Sé litið á þær röksemdir sem fram hafa komið um að þessi starfsemi sé lögleg og er þá einkum horft til þess sem haft er eftir Hróbjarti Jónatanssyni hrl. í Morgunblaðinu sl. þriðjudag, þá virðast rökin einkum vera þau að framleiðslustýring samkvæmt búvörulögum sé fyrir þá sem hafa greiðslumark, en hinir sem ekki hafa greiðslumark og njóti ekki þess fjárstuðnings sem greiðslumarkinu fylgir, séu þá undanþegnir þeim kvöðum sem framleiðslustýringunni fylgja.

 

En hvert verður framhald þessa máls, hvenær skýrist réttarstaða þeirra áforma sem Mjólka ehf. hefur kynnt? Uppgjörsár framleiðslustýringarinnar er verðlagsárið, frá 1.september til 31.ágúst. Ef Mjólka ehf. tekur á móti mjólk og selur afurðir á þessu verðlagsári, þá reynir á það í haust hvað er umframmjólk og hvernig hún verður gerð upp.

 

Nú er von að spurt sé: Er þetta stórt og afdrifaríkt mál fyrir íslenska mjólkurframleiðslu? Það er að mínu mati fremur ólíklegt. Ef það yrði niðurstaðan að Mjólku ehf. væri heimilt að framleiða, vinna og selja eigin framleiðslu á fyrrnefndum forsendum, gæti greiðslumark kúabænda lækkað sem því nemur. Í ljósi vitneskju um framleiðslukostnað mjólkur er þó vandséð að rekstrargrundvöllur verði fyrir framleiðslu mjólkur í stórum stíl með þessum hætti. Ef fyrirtækið tekur við mjólk frá öðrum bændum og þá er átt við bændur sem hafa greiðslumark til mjólkurframleiðslu, þá gilda að sjálfsögðu nákvæmlega sömu reglur um þá mjólk og þá vinnslu eins og hjá öðrum mjólkursamlögum. Þetta er rétt að árétta sérstaklega því það er engin  réttaróvissa um mjólkurframleiðslu hjá greiðslumarkshöfum, hvort sem sú mjólk er innan greiðslumarks eða umfram það.

 

Um leið og ég lýk þessari skýrslu til aðalfundar Landssambands kúabænda árið 2005, vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu aðilum og stofnunum sem hafa átt samskipti við Landssamband kúabænda á liðnu starfsári. Þessir aðilar eru nú óvenju margir. Þá vil ég þakka stjórnarmönnunum Sigurði Loftsyni, Agli Sigurðssyni, Kristínu Lindu Jónsdóttur og Jóhannesi Jónssyni mjög gott samstarf á starfsárinu. Sama gildir um varamennina Gunnar Jónsson og Skúla Einarsson, og síðast en ekki síst Snorra Sigurðsson framkvæmdastjóra. Árið hefur verið annasamt en okkur hefur miðað í rétta átt.

 

Megi aðalfundur Landssambands kúabænda skila góðu verki.

 

3.  Skipan kjörbréfa- og uppstillingarnefndar.

Kosningu hlutu Magnús Sigurðsson, Hnjúki, formaður, Grétar Einarsson, Þórisholti og Þorsteinn Rútsson, Þverá.

 

4.  Ávörp gesta:

 

Ávarp landbúnaðarráðherra, Guðna Ágústssonar

Ráðherra hóf mál sitt á að fjalla um stolt LK, félagsfánann sem blakti við hún í heimabæ hans á Selfossi þennan morgun, í þessu mikla landbúnaðarhéraði. Honum finnst að bændur séu bjartsýnir á framtíðina og er það mikilvægt. Hann fór í stuttu máli yfir uppbygginguna í sunnlenskum landbúnaði allt frá gerð Flóaáveitu, en með henni óx kjarkur sunnlenskra bænda og þeir stofnuðu með sér Kaupfélag og  Mjólkurbú, þannig að hér er um merka sögu að ræða í þessum bæ sem íslenskir bændur hafa byggt upp.

 

Hann þakkaði gott samstarf við forystumenn kúabænda og tók undir með Þórólfi að þetta hafi verið tímamótaár að mörgu leiti því nýr mjólkursamningur til langs tíma skiptir kúabændur miklu máli.  Ekki síst vegna þess að um hann ríkti mikil samstaða, ekki bara meðal kúabænda heldur líka á Alþingi Íslendinga, þá hlaut hann litla gagnrýni frá almenningi í landinu. Í samningnum fá kúabændur og mjólkuriðnaðurinn tíma til að vinna áfram og búa sig undir framtíðina, kannski meiri samkeppni, meiri afurðir og enn frekari þróun greinarinnar. Honum finnst athyglisvert að kúabændur hafa ekki hækkað verð til neytenda í þrjú ár, heldur lagt það á mjólkuriðnaðinn, sem hefur hagrætt og þróað sína starfssemi, en þróunarstarf í mjólkuriðnaði hér er með því fremsta sem gerist í heiminum. Þar tekst vel að ná til fólksins í landinu og nefndi ráðherra skyr.is drykkinn sem gott dæmi um það. Því skiptir líka miklu máli að mjólkuriðnaðurinn fær að starfa áfram eins og hann hefur gert.

 

Ráðherra kvað sveitina vera vinsæla í dag, bæði vegna starfa kúabænda og vegna þeirrar nýju þróunar og nýsköpunar sem þar á sér stað og nefndi hann hestamennsku, skógrækt og ferðamennsku sem dæmi um það. Fólk vill búa í sveit, þó það vinni í þéttbýli, jafnvel þó um langan veg sé að fara. Jafnvel bóndinn er kominn í tísku á nýjan leik og ber höfuðið hátt, stoltur af sínum verkum. Miklu skiptir að varðveita þessa stöðu þegar bændur vinna að sínum málum. Hann hyggur að jarða- og ábúðalögin hafi ekki ein haft þessi áhrif, heldur geri margir sér grein fyrir því að land er dýrmætt og fleiri og fleiri vilja búa þar.  Hann fjallaði um hækkandi jarðaverð um allt land og nefndi að menn væru jafnvel að endurreisa eyðibýli og flytja með fjölskyldur sínar þangað, gerast sveitamenn og vinna í náttúru þessa lands að ýmsum verkefnum. Úrelt jarðalög voru þess eðlis að margar sveitarstjórnir lentu í því að vera að velja sér einstaklinga inn á jarðirnar, ákveða það á fundum sínum að velja einn kaupanda en hafna öðrum. Þetta gekk ekki upp fyrir dómstólum og þessum lögum var breytt í samræmi við einstaklingsfrelsi í landinu.


Ráðherra sagði Lánasjóð landbúnaðarins standa á tímamótum, því bankarnir hafi breytt sinni starfssemi, lengt lán, lækkað vexti og boðið fólki til viðskipta við á fleiri sviðum. Lánasjóðurinn ætti erfitt með að keppa við þessar aðstæður, einnig vegna þess að bændur sjálfir hafa ályktað að þeir vilji að búnaðargjaldið hverfi, en það var 140 milljónir af tekjum sjóðsins. Bændur sem ekki framkvæma í dag, vilji ekki borga þetta gjald, ekki heldur bændur sem hafa farið úr viðskiptum við Lánasjóðinn og endurfjármagnað sín lán hjá bankakerfinu. Hann spyr hvað gera eigi við sjóð sem á 3,3 milljarða í eigið fé? Ríksstjórnin og stjórnarflokkarnir vilja gjarnan styrkja veikasta lífeyrissjóð landsins, Lífeyrissjóð bænda og sjá nú tækifæri til að gera það við þessar aðstæður. Allir bankar og sparisjóðir hafa haft samband við ráðherra og spurt út í sölu Lánasjóðsins. Ráðherra hefur sagt að sjóðurinn verði seldur og finnst honum jákvætt að vita af þessum áhuga banka og sparisjóða á sveitunum og á því verkefni að vilja fá að þjónusta bændur. Hann sagði að ríkistsstjórnin væri nú að fara yfir það, hvort sjóðurinn verður lagður niður og eignir hans seldar, honum breytt í hlutafélag og hann seldur með manni og mús, eins og sagt er, eða hvort til greina komi að sameina hann Lífeyrissjóði bænda og reka hann þessvegna þar áfram. Hinsvegar standa lög um lífeyrissjóði líklega í vegi fyrir því að það væri hægt. En ráherra taldi glæsilegt að geta styrkt Lífeyrissjóð bænda, sem í dag vantar 2,6 milljarða til að geta staðið við skuldbindingar sínar og horft til framtíðar. Ráðherra hefur taugar til sjóðsins, enda var hann formaður hans um skeið, en hann telur að sjóðurinn hafi gegnt mjög mikilvægu hlutverki í gegnum tíðina sem hann á þakkir skyldar fyrir. Ráðherra vill horfa á stöðu sjóðsins út frá þeirri ábyrgð að í honum eru mikil verðmæti, og spyr hann hvort hægt sé að gera þau að meiri verðmætum til þess að styrkja hag íslenskra bænda. 

 

Hann telur bændur hafa góðan mjólkursamning í dag sem hann óskar þeim til hamingju með. Hann er þó ekki gallalaus en var sameiginleg niðurstaða stjórnvalda og bænda. Hann hvatti kúabændur til að nýta sér hann sem best og standa saman að sínum málum sem fyrr.

 

Ráðherra hefur skoðað málefni Mjólku með sínu ráðuneyti og er þeirrar skoðunar að hver og einn eigi rétt á því að meta sína hagsmuni eins og þeir standa. Atvinnufrelsi sé stjórnarskrárvarinn réttur og búvörulög feli ekki í sér slíka takmörkun og því er að hans mati ekkert bann við framleiðslu osta utan greiðslumarkskerfisins. 

Ráðherra telur mat bænda vera almennt að það sé ekki hagkvæmt að standa utan hins opinbera beingreiðslukerfis. Þáttur beingreiðslna hafi verið 47,1% af grundvallarverði mjólkur, sem sé sú hlutdeild sem forsvarsmenn Mjólku telji sig ekki þurfa á að halda miðað við þær forsendur sem þeir gefa sér. Ráðherra telur Mjólku eiga þetta val, enda standa þeir utan búvörusamninga í framtíðinni og utan hins opinbera kerfis og taka ekki á sig réttindi og skyldur búvörusamninganna. Vilji þeir starfa utan kerfisins þá reyni á þrek þeirra og búskaparhæfni við þær aðstæður. Þá hefur ráðherra heyrt í fjölmiðlum að talið sé að þetta fólk verði neytt til að taka við gripagreiðslum með nýjum samningi, en hann telur engan tilneyddan til þess. 

 

Ráðherra telur samninga við ríkisvaldið hafa verið bændastéttinni mikilvægir og að landbúnaðurinn hafi verið þróaður til mikilla framfara í gegnum slíka samninga. Hann telur líka mikilvægt fyrir allar greinar landbúnaðar að standa saman sem heild að sínum málum, það séu fleiri bændur en þeir sem eiga ær, eða mjólka kýr. Óskaði ráðherra svo fundinum velfarnaðar í störfum sínum.

 

 

Ávarp Haraldar Benediktssonar formanns Bændasamtaka Íslands:

Formaður BÍ bauð alla velkomna. Honum finnst kraftur og bjartsýni í kúabændum, með sinn nýja mjólkursamning. Ferðaþjónusta bænda nýbúin að fá viðurkenningu á ferðakaupstefnu í Þýskalandi og sauðfjárræktin nyti nú bætts ástands á kjötmarkaði, rétt eins og aðrar kjötgreinar og einnig markvissrar markaðsvinnu framkvæmdastjóra markaðsráðs kindakjöts.

 

Haraldur er ásamt öðrum formönnum búnaðarsambanda, nýkominn úr för til Noregs og Danmerkur þar sem þeir voru að ræða um bændapólitík, skoða uppbyggingu félagskerfisins og starfssemi og skilvirkni ráðgjafaþjónustu.  Hann vonar að þessi ferð marki þau tímamót að við hefjumst handa í nauðsynlegum umbreytingum á okkar ráðgjafaþjónustu, í nánu samstarfi allra sem málið varðar.  Hann segir að strax megi hefjast handa við að bæta ýmislegt í rekstrarumhverfi ráðgjafaþjónustunnar, taka á í umhverfi þeirra samninga sem hún starfar eftir, á grundvelli þess framlags sem hún fær. Kjarasamningar ráðunauta séu eitt af þeim atriðum sem mjög sé brýnt að breyta svo hægt sé að þróa ráðgjafaþjónustuna áfram. Hann á ekki við það að hann vilji umbylta þannig að hagsmunum þess fólks sem við þurfum á að halda og skilar góðu verki sé ógnað, en vill að öllum steinum sem við getum velt við, sé velt, til þess að takast á við framtíðina. Hann segir eftirlaunaskuldbindingar eldri ráðunauta vega t.d. þungt í rekstri búnaðarsambanda og þeim þurfi helst að létta af þeim, þ.e. færa þessar skuldbindingar til. Það takist vonandi í þeirri endurskoðun á búnaðarlagasamningnum sem hefur staðið yfir og lýkur nú í apríl eða byrjum maí. Þá gætu búnaðarsamböndin séð sér hag í nánari samvinnu, án þess að eftirlaunaskuldbindingar trufli slíka þróun.

 

Þá lýsti Haraldur því að nokkurn veginn tengt þessari samningagerð hafi tekist, í góðu samkomulagi við landbúnaðarráðherra, að létta örlítið undir með sérhæfðri nautakjötsframleiðslu og á hann von á að örlítill stuðningur verði nú greiddur þar. Sá stuðningur breyti þó ekki í grundvallaratriðum rekstrargrundvelli þessara bænda en þetta sé hugsað til að fleyta þeim yfir í það umhverfi sem nýjar gripagreiðslur munu leiða af sér.

 

Haraldur lýsti því að við gildistöku á nýjum mjólkursamningi væri gert ráð fyrir nokkrum breytingum á framkvæmd fjáröflunar til kynbótastarfs, kúasæðinga. Hann vill að við veltum fyrir okkur stærri skrefum í þeim efnum. Hann er sammála mörgum af forystumönnum kúabænda sem rætt hafa um að við formbreytingu stuðnings til grænna greiðslna sé það algjör forsenda að allir sitji við sama borð, að jafnræðis verði gætt. Að formbreyting verði ekki til þess að skapa misvægi milli framleiðenda, hvar sem þeir búa. Í þessu sambandi vildi Haraldur skoða möguleika á aukinni samvinnu á landsvísu í sæðingastarfsseminni. Færa rekstur hennar frá búnaðarsamböndunum og reka hana sem eina heild fyrir landið allt. Þannig megi ná samlegðaráhrifum og spara kostnað við stjórnun, bókhald og ýmsa stoðstarfssemi sem þessi þjónusta veitir. Allt gert til að gera þessa þjónustu ódýrari fyrir kúabændur, en Haraldur telur mikilvægt að það séu jöfn sæðingagjöld fyrir allt landið. Hann taldi að þessi breyting myndi líka gefa mörgum búnaðarsamböndum tækifæri á að endurskoða sitt skipulag og gera þeim betur kleift að starfa á breiðari grundvelli í hinum nýja landbúnaði, sem ráðherra vék að í sinni ræðu.  Hann telur að bændur þurfi að huga að framtíð félagskerfis síns í þessum nýja landbúnaði okkar sem er svo fjölþættur.

 

Hann vill að við gætum að breytingum innan WTO þar sem alvaran sé að hellast yfir okkur. Fram hafi komið á kynningarfundum og í þeim gögnum sem nú liggi fyrir að beinan stuðning við landbúnað, reiknaða markaðsvernd og framlög til landbúnaðar, þurfi að minnka um allt að 60% og komi það til með að bitna að langstærstum hluta á kúabændum hvort sem okkur líki það betur eða verr. Það hvernig stuðningi við landbúnað verði formbreytt, sé bara verkefni en það alvarlegasta sé hver verði niðurstaðan í viðræðum um verðtolla og markaðsaðgang, eins og formaður LK kom inn á í sinni ræðu. 

 

Honum finnst margir ekki líta á verð á greiðslumarki sem vandamál, en stór hluti stéttarinnar geri það þó. Hann vill skoða hvernig nágrannar okkar framselji mjólkurkvóta. Við undirritun nýs mjólkursamnings fylgdi viljayfirlýsing um að koma á fót kvótamarkaði, sem í sjálfu sér hafi ekki verið tekin ákvörðun um. Það sé líka reyndar opið fyrir það árlega, að gera það, með setningu reglugerðar en þetta þurfi að skoða. Kvótamarkaður sé kannski lausnin eins og í Noregi og Danmörku, þar sem landbúnaðarstefnan sé þó gjör ólík. Haraldur lýsti framsalskerfinu í Noregi og Danmörku og kom fram hjá honum að í Noregi sé markmiðið með landbúnaði að fæða þjóðina en í Danmörku sé það að vera fremstir innan Evrópusambandsins og að keppa á heimsmarkaði. Þessar tvær þjóðir stýri því báðar, hvernig þær vilji færa framleiðslurétt á milli manna. Í báðum löndum séu takmarkanir á hvað bóndinn megi og hvað bóndinn megi ekki. Í Danmörku sé m.a. sérstök umsókn um það, ef bóndinn vill stækka sitt bú og þarf hann að sækja um það með tveggja til þriggja ára fyrirvara. Það sé kannski regla sem okkur langi ekkert sérstaklega í, enda við ekki á leiðinni í Evrópubandalagið að mati Haraldar. Danir séu nú að breyta sínum kvótamarkaði og verði með fjögur útboð árlega í stað tveggja áður, í maí, ágúst, nóvember og febrúar. Þeir vilji að framleiðslan sé samkeppnishæf og þegar þeir selji kvótann svona sjálfir, beiti þeir aðgerðum til að kvótaverð hækki ekki óhindrað. Því kvótaverðið sé helsta hindrunin í að þeim takist að verða forystuland í mjólkurframleiðslu innan Evrópusambandsins. Því beiti þeir verðþvingunum, þannig að þeir henda út öllum tilboðum sem eru yfir 40% umfram meðalverð sölu á síðasta uppboði og reikni svo nýtt meðalverð sem allir kaupi á. Fleira nefndi Haraldur í þessum efnum, en yfirlýst markmið dana í þessu er að kvótaverð fari ekki yfir 4 dkr. en meðalverð síðasta mánaðar á mjólk þar var 2,23 dkr. Meðalverð síðustu kvótaviðskipta voru 3,85 dkr.

Norðmenn skikka bændur hinsvegar til að selja 40% af því sem þeir vilja selja, á föstu verði en 60% fara á almennan markað. Hann segir að á norska þinginu sé nú vaxandi vilji til þess að losa um þá svæðabindingu mjólkurkvótans sem hingað til hafi verið á honum. Bændur þar geti svo keypt af sveitarfélögunum, fylkiskommúnunum, á fasta verðinu og kaupi svo meira, ef þeir vilja, á frjálsa markaðnum. 

 

Haraldur flutti kveðju frá framkvæmdastjóra BÍ og þakkaði gott samstarf við forystu LK sem var mikið á síðasta ári, þá óskaði hann fundinum velfarnaðar í störfum sínum.

 

 

Drífa Hjartardóttir formaður landbúnaðarnefndar Alþingis:

Ávarpaði fundinn og flutti honum kveðju landbúnaðarnefndar. Hún þakkað gott samstarf landbúnaðarnefndar og formanns og framkvæmdastjóra LK. Þá óskaði hún félagi kúabænda á Suðurlandi til hamingju með glæsilegt afmælisrit. Hún var á aðalfundi sauðfjárbænda í gær og fannst ánægjulegt að heyra að þar ríkti bjartsýni og kraftur.

 

Drífa sagði að miklar kröfur væru gerðar til mjókurbænda og iðnaðarins, sem vel væri staðið undir. Mjólkursamningurinn sem var lokið s.l. vor hafi verið mikilvægur og mikil pólitísk sátt um hann, þó svo alltaf séu einhverjir þingmenn sem vilji ekki gera neina samninga við bændur. Hún taldi góðar breytingar hafa verið gerðar á jarðalögum. Jákvætt sé að verð hækki á jörðum, því þá fái bændur eitthvað fyrir sínar eignir. Í ábúðalögunum sé nú réttur eiganda landsins meiri en hann var áður. Áður hafi réttur ábúenda í raun verið meiri en eiganda. Mjólkursamningur tryggi starfsskilyrði kúabænda til 2012, þrátt fyrir að inni í honum verði að taka tillit til WTO samninganna, en það sé eitthvað sem menn vinni úr. Það er hennar skoðun að beingreiðslurnar séu mjög gegnsæjar og augljóst hvað ríkið sé að kaupa af bændum með þeim.

 

Þá vék hún að stofnun LBHÍ um áramót, þar sem lagðar voru niður þrjár stofnanir. Óskaði hún skólanum velfarnaðar og er hún sannfærð um að þetta skref hafi verið til góðs. Þá sé líka verið að ræða á Alþingi frumvarp um landbúnaðarstofnun. Þar sé verið að sameina nokkrar litlar stofnanir landbúnaðarins undir einn hatt. Sumir vilji leggja niður Landbúnaðarráðuneyti og því mikilvægt að styrkja það að hennar mati.

 

Hún sagði samdrátt í fjölda framleiðenda mikinn, en meira magn sé framleitt, það sé þróun sem sé í sjálfu sér jákvæð.

 

Hún telur að ekki eigi að berjast gegn því sem Mjólka sé að gera, ef þeir treysta sér til að gera þetta án stuðnings. Það ríki atvinnufrelsi í landinu og stríð gegn þessu sé tapað fyrirfram. Kannski séu einhverjir sterkir aðilar þarna á bakvið, en það sé ekki gott að átta sig á því. 

 

Drífa greindi frá því að nautgripabændur hafi leitað til nefndarinnar til að brúa bilið fram að gripagreiðslum. Menn séu þar enn sárir eftir stríðið við hvíta kjötið, samkeppnina við það, sem borguð var af þriðja aðila. Þetta stríð hafi haft mikil áhrif og sauðfjárræktin sé t.d. fyrst nú að rétta úr sér og það vanti lambakjöt á markaðinn. 

 

Henni finnst mikilvægt að mjólkurframleiðendur og mjólkurframleiðslan standi saman sem ein heild sem fyrr.

 

Fram kom í máli hennar að Lífeyrissjóður bænda sé veikur og þar þurfi að taka á. Þeir bændur sem séu að fá mest úr sjóðnum, fái rétt yfir 40 þúsund kr. sem sé afar lítið. Flestir sem fái greitt úr sjóðnum séu að fá á milli 15 og 22 þúsund kr. Þetta væri eftir ævistarfið og þarna þurfi að taka á. Hún telur einsýnt að ef Lánasjóðurinn verði seldur, þá verði það fjármagn notað til að styrkja Lífeyrissjóð bænda. Óskaði hún svo fundinum góðs gengis og þakkaði allt gott samstarf við forsvarsmenn kúabænda og sagði að landbúnaðarnefnd fylgdist vel með fundi LK og vildi vinna með bændum.

 

 

Bjarni Guðmundsson formaður stjórnar Framleiðnisjóðs landbúnaðarins:

Ávarpaði fundinn og þakkaði fyrir fundarboð og flutti kveðju stjórnar framleiðnisjóðs og framkvæmdastjóra hans. Hann þakkaði samstarfið á síðasta ári. Taldi fundarmenn þekkja hlutverk Framleiðnisjóðs en minnti bara á það að honum sé ætlað að stuðla að hagræðingu og vaxandi framleiðni í landbúnaði. Í upphafi hvers árs setji sjóðurinn sér starfsreglur sem móti meðferð hans á fjármunum á því ári, á grundvelli laga sem um hann gilda. Á þessu ári hafi sjóðurinn 260 milljónir til ráðstöfunar. Sérstaklega sé lagt til hliðar fé til búgreinanna sem slíkra.  Rétt til að impra á helstu verkefnum síðasta árs sem snúa að kúabændum, þá nefndi Bjarni kennslu og rannsóknaaðstöðu við LBHÍ, bæði á Hvanneyri og eins á Stóra Ármóti. Töluvert fór af peningum til stuðnings rannsóknum á sviði fóðurræktar, því af þeim 400 kornbændum sem Bjarni sagði vera í landinum, væri þorri þeirra kúabændur. Hann sagðist stoltur af því að Framleiðnisjóður hafi í raun staðið undir meginhluta kostnaðar við þær kornrannsóknir sem fram hafa farið. Þá hafi einnig farið nokkuð fyrir rannsóknum á gæðum og eiginleikum mjólkur, auk mælinga og rannsókna á aukaefnum í mjólk.

 

Þá ræddi Bjarni um hinn hluta stuðnings Framleiðnisjóðs við mjólkurframleiðsluna sem sé kannski langsóttari. Hann sé þannig að víða sé verið að breyta byggingum kúabænda í önnur og annarskonar mannvirki og slíka uppbyggingu hafi framleiðnisjóður styrkt, s.s. breytingar yfir í gistihús, hestamiðstöðvar, golfskála o.s.frv. Þannig taki Framleiðnisjóður á sinn máta þátt í nauðsynlegri umsköpun landbúnaðarins, með því að rýma fyrir framþróun og stuðla að því að hinn nýji landbúnaður geti þróast áfram. 

 

Bjarni sagði starfsumhverfi kúabænda sífellt vera að harðna og kannski hraðar en margra okkar hinna. Samkeppnisstyrkurinn, hvort sem okkur líkaði betur eða verr, lægi ekki síst í kunnáttu og færni, hann lægi ekkert ógurlega mikið í steypu og járni og steindauðum hlutum, hann fælist í kunnáttu og færni. Að lokum lýsti Bjarni því yfir að Framleiðnisjóður væri áfram fús að taka þátt í því með bændum, að styrkja þessa tvo mikilvægu þætti til þess að takast á við framtíðina. Hann þakkaði að lokum fyrir sig og óskaði fundinum og þeim sem starfa fyrir greinina velfarnaðar.

 

5.  Umræður um skýrslu formanns.

Sigurður Loftsson

Annasamt ár að baki, sérstaklega við fullfrágang mjólkursamnings.  Héldum að þá færðist ró yfir og fundur þessi yrði með rólega móti.  Svo er þó ekki.

 

Samruni MBF og MS er aðgerð til hagsbóta fyrir neytendur og framleiðendur.

 

Varðandi stofnun Mjólku, þá skulum við sjá til. Líklega styttist í að lotunni í WTO ljúki og þá kemur í ljós hvort við þurfum að gera einhverjar breytingar á rekstrarumhverfi okkar og þá má fara að skoða hvernig það verður best gert. 

 

Hann var á faraldsfæti s.l. ár og heimsótti þá Nýja Sjáland ásamt fjölda annara bænda. Fróðlegt að skoða framleiðsluumhverfi í öðrum löndum, Írland, Nýja Sjáland, Danmörk og bera saman aðstæður bænda þarna borið saman við okkar. Þetta eru útflutningsþjóðir á meðan við reynum bara að hámarka okkar innanlandsmarkað. Hinsvegar er margt líkt.  T.d. gríðarleg hækkun jarðarverðs sem veldur kostnaðarauka í framleiðslu bænda. Mikil áhersla á hagkvæmni og samþjöppun t.d. í Danmörku, sumpart það sama og á Nýja Sjálandi. Þó svo að önnur viðmið séu þar, en þeir reyna að hámarka framleiðslu á ha en ekki eftir grip. Mikil áhersla er á að lágmarka allan kostnað við framleiðsluna á Nýja Sjálandi því ekki er ljóst hverjar tekjur þeirra verða. Aukin krafa kemur eflaust hjá okkur um meiri innflutning og slakað verður á innflutningstollum. Sumir málsmetandi menn hafa haldið því fram að við séum ekki samkeppnishæf við nágrannalöndin vegna aðstæðna okkar. Sigurður telur okkar aðstæður jafnvel ekki lakari en dana, ef við hefðum sama umhverfi og hefð og þeir. Þetta byggir náttúrulega á stórum búum. Ógnanir eru í Danmöku s.s. landþrengsli og vandi við losna við skít o.fl. Þéttbýli sækir þar hraðar á heldur en hér. Við höfum nægt land og svo er veðurfar hlýnandi, hvorttveggja hjálpar til að gera okkur samkeppnishæf.

 

Hann spyr sig hvort við séum í okkar rekstri að framkvæma með of miklum kostnaði? Erum glaðbeitt í fjárfestingum í búnaði og aðstöðu.  Er þessi búnaður í öllum tilvikum samkeppnisfær, í þeim aðstæðum sem við erum að lenda. T.d. líklega bara einn mjaltaróbot á Írlandi.  Annar mjaltabúabúnaður virðist hagkvæmari, þar sem mjólkurverðið er lægra. Hann telur að við þurfum kannski of mörg ár til að borga niður okkar fjárfestingar.

 

Varðandi nýja mjólkursamninginn, þá er hann öðruvísi uppbyggður en sá gamli og þar telur hann að okkur opnist möguleikar til að stækka markaðinn, jafnvel með útflutningi, en alltaf er það kostnaðurinn sem ræður ferðinni.

 

Kristín Linda Jónsdóttir

Hefur ákveðið að hætta í stjórn LK eftir sex ár. Íslenskir kúabændur eru dugmiklir og eldklárt fólk og því um að gera að fá nýtt fólk inn í stjórn til að beita sér í hagsmunamálum íslenskra kúabænda. Fáni LK er mikilvægur gagnvart ímynd kúabænda og er hún stolt yfir því að sjá hann blakta hér við hún í dag. Mikilvægt að hafa nýjan mjólkursamning og finna þann pólitíska stuðning sem var að heyra á formanni landbúnaðarnefndar og ráðherra.

 

Henni finnst mikilvægt að við getum framleitt gott nautakjöt og nautgripakjöt svo við þurfum ekki að flytja það inn, að íslenskir neytendur hafi aðgengi að íslensku kjöti. Framleiðsla á nautakjöti nýtur ekki beingreiðslna eins og framleiðsla á lambakjöti, heldur er nautakjötsframleiðslan í sama umhverfi og framleiðsla á kjúklingum og svínakjöti. Bændur sem framleiða nautakjöt, eru að framleiða kjöt, en eru ekki bara að ala nautkálfana af því að þeir fæðast í heiminn. Ef það er ekki hagkvæmt að framleiða nautakjöt, þá framleiða kúabændur ekki nautakjöt. Sumir bændur viilja draga menn í dilka, eftir því hvaða aðra atvinnu þeir stunda samhliða nautakjötsframleiðslunni og hugnast henni sú flokkun ekki. Stuðningur við greinina, sem stendur fyrir dyrum þarf að vera þannig að allir sitji við sama borð. Hún veltir því fyrir sér hvort íslenska kúanynið hafi ekki sama rétt og innflutt holdakyn? Það er misskilningur að hún hafi horn í síðu þeirra sem framleiða kjöt af holdagripum og þeim sem eru með hjarðbúskap en hún telur það skyldu sína að gæta hagsmuna allra kúabænda, í störfum sínum fyrir LK. Úrvalskjöt, framleitt á lögbýli er bara gott kjöt, sama hvert kynið er og sama hvaða önnur atvinna er stunduð á viðkomandi lögbýli. Sem dæmi má nefna að 5% af lundum koma frá sérhæfðum kjötframleiðslubúum, meginhlutinn kemur af þeim búum þar sem verið er einnig að framleiða mjólk. Um 1100 bú eru þar sem framleitt var nautakjöt á síðasta ári og 50 hjarðbú og finnst henni ekki rétt að gera greinarmun á þeim búum í stuðningi við greinina, allir eigi að sitja við sama borð. Það er því miður ekki til staðar pólitískur vilji til að styðja sérstaklega atvinnugreinina nautakjötsframleiðslu, en er ekki rétt að berjast fyrir því áfram að fjármagna átaksverkefni í nautakjötsframleiðslu sem snýr að gæðum frá A-Ö, frá haga til maga, eins og Guðni hefur svo snilldarlega orðað. Auka arðsemi framleiðenda og tryggja neytendum úrvals íslenskt nautakjöt. Íslenskir kjötmatsmenn eru þessa dagana að vinna að því að skoða möguleikana á nákvæmara kjötmati, því of stór hluti kjötsins fer stóran pott UNI A. Í nýju kerfi væri auðveldara að merkja kjöt eftir gæðum í kjötvinnslu og í búðum og þá einnig mögulegt að greiða mismunandi verð fyrir mismikil gæði.  Þá þarf einnig að huga að aukinni framlegð í kjötvinnslunni, það hefur verið gert í öðrum kjötgreinum. Þá finnst nautakjöt ekki víða í kæliborðum verslana í tilbúnum pakkningum, úr því þarf líka að bæta. 

 

Hún fagnar ræðu Haraldar um sæðingastarfssemina og finnst eðlilegt að reyna að hagræða þar, fyrir um þremur árum ræddi hún mikilvægi þess að hafa alla starfssemina á einni hendi, þannig að hún hefur verið á þessari skoðun lengi.

 

Sumir bændur vilja breyta formi stuðnings við mjólkurframleiðsluna, en hún er því ósammála. Hún telur núverand beingreiðslur góða leið, og þá bestu til að tryggja lægra verð til neytenda. Eru íslenskir neytendur fremur til í að peningarnir fari í önnur verkefni í landbúnaði en beina matvælaframleiðslu? Hún telur mikilvægt að halda stuðningnum þannig að hann sé á framleiddan lítra mjólkur en ekki á aðra þætti rekstrarins, s.s. á ræktun ákveðinna jurta o.s.frv.

 

Hafið einangrar okkur enn, þannig að Evróputrukkurinn er ekki á leiðinni yfir heiðina, en allt er þetta spurningin hvað vill íslensk þjóð.  Við gætum öll fundið aðra vinnu, um það snýst ekki málið. En þá myndu íslensk börn ekki drekka íslenska mjólk og erlendar þjóðir myndu framleiða fyrir okkur steikurnar. Hún vill standa vörð um íslenska framleiðslu og tryggja það að íslensk börn njóti íslenskrar matarmenningar.

 

 

6.  Niðurstöður Kjörbréfanefndar

Fulltrúarfjöldi á aðalfundi LK árið 2005 er 33 frá 13 aðildarfélögum LK. Fjöldi og skipting fulltrúa eftir félögum byggir á samþykktum LK. Eftirtaldir aðilar sátu aðalfund LK 2005 fyrir hönd sinna félaga:

 

Fyrir Mjólkursamlag Kjalarnesþings:

Daníel A. Ottesen, Ytra-Hólmi (varamaður)

Magnús Hannesson, Eystri-Leirárgörðum

 

Fyrir Mjólkurbú Borgfirðinga:

Ásbjörn Pálsson, Syðri-Haukatungu

Pétur Diðriksson, Helgavatni

Guðmundur Þorsteinsson, Skálpastöðum

 

Fyrir Mjólkursamlagið í Búðardal:

Lára Hansdóttir, Á

Ásgerður Jónsdóttir, Kverngrjóti

 

Fyrir Mjólkursamlag Ísfirðinga:

Sigmundur H. Sigmundsson, Látrum

 

Fyrir Nautgriparæktarfélag Vestur-Húnavatnssýslu:

Skúli Einarsson, Tannstaðabakka

 

Fyrir Félag kúabænda í Austur-Húnavatnssýslu:

Magnús Sigurðsson, Hnjúki

Björn Magnússon, Hólabaki

 

Fyrir Félag kúabænda í Skagafirði:

Þórarinn Leifsson, Keldudal

Sævar Einarsson, Hamri

Gunnar Sigurðsson, Stóru-Ökrum (varamaður)

 

Fyrir Búgreinaráð BSE í Nautagriparækt:

Þorsteinn Rútsson, Þverá

Sigurgeir Hreinsson, Hríshóli

Stefán Magnússon, Fagraskógi

Bragi Konráðsson, Lönguhlíð

 

Fyrir Félag Þingeyskra kúabænda:

Erlingur Teitsson, Brún (varamaður)

Böðvar Baldursson, Ysta-Hvammi (varamaður)

Sveinbjörn Þór Sigurðsson, Búvöllum

 

Fyrir Nautgriparæktarfélag Vopnafjarðar:

Gauti Halldórsson, Grænalæk

 

Fyrir Félag nautgripabænda á Héraði og Fjörðum:

Helga Guðmundsdóttir, Gilsárteigi

Gunnar Jónsson, Egilsstöðum V (varamaður)

 

Fyrir Nautgriparæktarfélag Austur-Skaftafellssýslu:

Laufey Guðmundsdóttir, Lækjarhúsum (varamaður)

 

Fyrir Félag kúabænda á Suðurlandi:

Einar Haraldsson, Urriðafossi

Grétar Einarsson, Þórisholti

Jóhann Nikulásson, Stóru-Hildisey

Katrín Birna Viðarsdóttir, Ásólfsskála

Sigrún Ásta Bjarnadóttir, Stóru-Mástungu

Sigurlaug Leifsdóttir, Nýjabæ

Sveinn Ingvarsson, Reykjahlíð

Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ

 

Eftirtaldir aðilar sátu aðalfund LK, án atkvæðisréttar:

 

Fulltrúi holdanautabænda samkvæmt tillögu stjórnar LK:

Snorri Örn Hilmarsson, Sogni

 

Búnaðarþingsfulltrúi LK:

Birna Þorsteinsdóttir, Reykjum

 

Aðrir búnaðarþingsfulltrúar eru jafnframt fulltrúar aðildarfélaga LK eða í stjórn LK

 

Stjórn og starfsmenn LK:

Þórólfur Sveinsson, Ferjubakka (formaður)

Sigurður Loftsson, Steinsholti (varaformaður)

Egill Sigurðsson, Berustöðum

Kristín Linda Jónsdóttir, Miðhvammi

Jóhannes Ævar Jónsson, Espihóli

 

Snorri Sigurðsson, Hvanneyri (framkvæmdastjóri LK)

Margrét Helga Guðmundsdóttir, Hvanneyri (ritari LK)

 

7.  Almennar umræður.

Þórarinn Leifsson.

Telur of hratt farið í þá umræðu að leggja Lánasjóðinn niður. Bara hálft ár síðan bankarnir hófu innreið sína á þennan lánamarkað landbúnaðarins. Hann veltir því fyrir sér, ef sjóðurinn verður seldur með öllu, hver verður þá samningsstaða bænda gagnvart þeim aðila sem þeir lenda undir? Hann vill að það verði skoðað að fela sjóðinn annarri stofnun, og er þá með Byggðastofnun í huga. Innan hennar er lánastofnun, sem hefur reyndar líka gengið í gegnum ákveðnar þrengingar að því leyti að bankarnir hafa náð af henni viðskiptavinum og þá helst þeim viðskiptavinum sem eru bankanum velþóknanlegir.  Hvað ef sjóðurinn er færður í heilu lagi, hver verður samningsstaða bænda á jaðarbyggðum? Hvert verður veðhæfi eigna þeirra? Lán bankanna í dag er ”pakki” sem menn geta valið eða hafnað, ef Lánasjóðurinn verður lagður niður þá geta menn ekki lengur hafnað þessum pakka, því Lánsjóðsins nýtur ekki lengur við, sá valkostur verður þá úr sögunni.

 

Pétur Diðriksson

Þakkar stjórn LK fyrir sína vinnu í þágu greinarinnar s.l. ár. Nýr mjólkursamningur er stór áfangi fyrir greinina. Vill velta fyrir sér framtíðinni út frá stöðu greinarinnar nú og því hvert hún stefnir.  Grunnurinn eru þær ferðir erlendis sem hann hefur farið í undanfarinn áratug. Fyrst samt aðeins varðandi WTO. Honum finnst að við eigum, sem sjálfstæð þjóð, að kynna fyrir viðsemjendum okkar hve mikilvægt það er fyrir svona eyþjóð að fá að framleiða þann mat sem hún þarf með þeim aðferðum sem þarf til. Við eigum að hafa þar frumkvæði um að leggja fram tillögu um hvernig landbúnaður á norðlægum slóðum eigi að þróast. Það á að framleiða mat allsstaðar þar sem fólk býr, það er grundvallaratriði á heimsvísu. Því þarf að halda áfram, þó ekki væri nema af umhverfisástæðum.

 

Á Nýja Sjálandi hreifst hann af að sjá 2000 kúa bú með 4000 lítra meðalnyt, samtals framleiðslu upp á um 8 milljón lítra. Þar þurftu þeir þó að dæla öllu vatni og vökva landið, þurftu að dæla alls 260 eða 280 lítrum á sekúndu af vatni uppúr jörðinni til að vökva, umverfislega er þetta rugl að hans mati. Við Íslendingar höfum nóg af vatni, okkar staða sem framleiðendur er sterk. Það er ekki umhverfislegt rugl að framleiða mjólk á Íslandi, þar sem framleiðslan er nánast sjálfbær.  Eigum að setja öxlina í þetta og mæta samningsaðilunum og stilla upp okkar kostum. Hafa sjálfstæði, þrek og hugsjón til að standa á þessu með að fá að framleiða matinn hér.

 

Íslensk mjólkurframleiðsla. Hvað þýðir minnkandi tollvernd? Minni framleiðsla hér? Hvaða munur á að vera á íslenskum mjólkurframleiðenda og dönskum í 9 mánuði, þegar báðir eru að framleiða mjólk undir þaki. Framsýnir og góðir bændur hér myndu geta þetta ef þeir hefðu pólitískan stuðning til þess. Hann telur að við eigum að geta framleitt það sama og þeir. 50 kúa bú hér á að geta framleitt það sama og 50 kúa bú í Danmörku. En til þess þurfum við sömu framleiðslutæki, s.s. nýtt kúakyn sem framleiðir meiri mjólk. Ekki bara byggingarnar. Þetta þarf ekki að kollvarpa íslenskum landbúnaði.  Fjölskyldubúið væri þannig að annar aðilinn ynni við búið en hinn aðilinn ynni eitthvað annað ef það býðst á svæðinu. Hann vill meina að við höfum tækifærin. Þetta snýst um pólitískan vilja. Hann hefur meiri áhyggjur af WTO samningnum. Erum með of litlar einingar og dreifðar og þurfum að velta fyrir okkur hagkvæmni iðnaðarins í þessu sambandi.

 

Hann er á móti því að styrkjakerfið breytist og er sammála Kristínu Lindu að best sé að halda því fyrirkomulagi sem er. Pétur er á móti því að taka upp býlisstyrkjakerfi.

Við eigum ekki að vera að bölsótast yfir því sem Mjólka ehf. er að gera. Þetta er hluti af að lifa í frjálsu landi og óskar hann þeim góðs gengis. Það verður fróðlegt að vita hvort þetta er hægt. Ef þetta er hægt, þá er það spurning hvað við hinir, framleiðendurnir erum að gera.

 

Stefán Magnússon

Sammála mörgu því sem komið hefur fram. 

 

Á netinu er ein skýrsla varðandi kjötmat eftir sláturleyfishöfum. Þar er merkilegt hve mismunandi flokkast eftir sláturleyfishöfum. Er það vegna þess hver metur, eða er munur milli landshluta milli gripa svona mikill. Hann spyr sig í hverju þessi munur liggur? Hann telur að það þurfi að bæta matið og ekki síst að láta það ná alla leið í verslunina.  Menn geta keypt nautakjöt, eða nautgripakjöt, sem er leyniorð fyrir kýrkjöt, og er honum til efs að það sér alltaf nógu vel tíundað á umbúðunum hvort og þá hverju sé blandað í kjötið, s.s. vatni eða próteini. Af einhverjum ástæðum hverfur sumt hakk við steikingu. Þetta leiðir til þess að menn nenna ekki að standa í þessu veseni með nautakjötið. Viðskiptavinurinn þarf alltaf að vita hvað hann er að kaupa.

Ræðir um leiðir til að lækka kvótaverð. Ýmsar leiðir, s.s. skandinavíska leiðin sem rædd var í morgun, hann telur að kvótamarkaður myndi halda heldur aftur af hækkuninni. Spurning hvort við eigum að tengja kvótann til nokkurra ára landshlutanum/afurðastöðvunum, til að koma þeim út úr því að hafa áhrif á kvótaverðið í dag. Í dag eru afurðastöðvarnar að berjast fyrir því að halda þeim lítrum sem þeir hafa og ná til sín aukningu, þetta hækkar verðið og þyrfti að ná afurðastöðvunum út úr þessari verslun með kvótann.

 

Mjólkursamningurinn er hagkvæmur okkur, en varðandi innflutningsverndina þá verður það að skýrast í WTO en hann tekur undir orð Péturs. Þegar samningur verður svo gerður, þá þurfum við að skoða hvernig við látum þann samning virka, það er allt annar handleggur. Honum finnst oft undirliggjandi undirlægjuháttur gagnvart því sem kemur að utan s.s. reglur frá EU. Reynum frekar að túlka okkur í hag og láta bara reyna á það. Nefndi sem dæmi viðgerðir á varðskipum, þar sem atvinna tapaðist úr landi, þrátt fyrir lítinn ætlaðan fjárhagslegan ávinning.

 

Gunnar Jónsson

Þakkar þeim sem unnu að gerð mjólkursamningsins fyrir hönd kúabænda og hann trúir því þetta sé góður samningur. Honum finnst þó óveðursský hrannast upp. Niðurstaðan í WTO nálgast, skýrsla HÍ um landbúnaðarmál, Mjólka, o.sfrv. Hann óttast að WTO valdi því að það dragi úr framleiðslu hér og innflutningur aukist. Verði það raunin og vörurnar þá kannski framleiddar við aðstæður sem eru verri en okkar aðstæður, telur hann það alls ekki skynsamlegt. Hann tekur undir orð Péturs og er sammála honum um sérstöðu okkar. Hann er ekki viss um að það sé æskilegt fyrir heiminn að draga úr landbúnaðaframleiðslu á norðlægum slóðum, ekki síst framleiðslu með jórturdýrum.

 

Aðeins um skýrslu frá HÍ sem hann heyrði af í útvarpinu. Þar er talið að málið snúist um of mikinn stuðning á formi innflutningsverndar fyrir íslenska bændur. Talað er um stuðning, jafnan á alla bændur. Krafa okkar er sú að stuðningurinn fari ekki út og suður. Ekki er gott að draga úr styrkjum á framleiðsluna sjálfa, það þýðir hærra verð og aukinn innflutning.

 

Hann hefur áhyggjur af Mjólku. Vegna þess að menn eru fara í kringum það mál eins og kettir kringum heitan graut. Þarna eru sterk öfl á bakvið sem ætla að kljúfa okkur í herðar niður að hans mati. Þessum sterku öflum munar ekkert um að borga búinu beingreiðslur á einhverju formi á meðan staðið er í þessu stríði. Hann telur málið ekki eins einfalt og landbúnaðarráðherra vill vera láta, því hann telur sjálfur að þarna sé í rauninni ekki bara á ferðinni einhver ákveðinn bóndi, þarna séu sterk öfl á bakvið. Sumir bændur eiga að hafa haft samanband við Mjólku og vilja leggja inn mjólk hjá þeim. Þar finnst honum menn hlaupa of fljótt til.

 

Hátt kvótaverð og verð á jörðum. Hefur ekki séð aðra lausn til að stýra mjólkurframleiðslunni í landinu. Hann trúir því að kvótaverð eigi eftir að leita jafnvægis og það sama gildi um jarðarverð. Hann lítur á það fremur af hinu góða að jarðaverð hækki. Það auðveldar mönnum að hætta þegar að því kemur að þeir þurfa að hætta vegna aldurs eða heilsu, þá geta menn staðið upp frá ævistarfinu og fengið eitthvað fyrir sitt.

 

Hann þakkar Kristínu Lindu fyrir vel unnin störf fyrir kúabændur. Hann ætlar ekki að hæla Guðna og Haraldi, það sé vandmeðfarið að greiða út á framleiðslu eða ekki framleiðslu. Greiðsla kr. 10. þúsund á kú sem framleiðir 0,8 kálfa á ári. Hvað með þá sem eru að framleiða mjólk líka? Hann sættir sig illa við þennan mismun að menn fái greiðslur fyrir holdagripi en ekki framleiðslu af íslenskum gripum. Þetta er ekki leið til að auka og styrkja það að framleitt sé gott nautakjöt fyrir neytendur í landinu.

 

Greiðslur út á allt mögulegt í sveitum landsins. Öflugustu aðilarnir í ferðamennsku eru kannski kúabændur því ásýnd landsins er m.a. þeirra mál. Ferðamaðurinn vill ferðast um vel uppbyggðar sveitir og það er það sem við erum að selja. Grænum greiðslum er því ekki illa varið í mjólkurframleiðslu því kúabúin eru öflug í uppbyggingu sveitanna og ferðamennskunnar.

 

Sigurgeir Hreinsson

Þakkar LK, BÍ, ráðherra og landbúnaðarnefnd góð störf í þágu kúabænda. Viss vatnaskil urðu þegar nýr mjólkursamningur var í höfn.  Þegar menn sjá starfsöryggi fram í tímann þá eru menn bjartsýnir og tilbúnir að vaða áfram. Því er ekkert skrýtið að kvótaverð hækki.  Hann tekur undir orð Gunnars, jákvætt að jarðaverð hækki að ákveðnu marki en ekki um of. Því það þarf að vera grundvöllur til að kaupa jarðir og stunda framleiðslu á mjólk á þeim áfram. Sammála Gunnari að það sé grundvallaratriði að menn hafi eitthvað eftir, að lokinni starfsævi. Þurfum að skoða hvort einhverjar leiðir séu færar til að hamla hækkun kvótaverðs, því hann er orðinn of stór biti í þessu.  Stefán nefndi landshlutabindingu, sem myndi örugglega hamla hækkun kvóta og mætti eflaust skoða einhverja útgáfu af þeirri leið.

 

Þakkar ræðu Péturs og tekur undir orð hans. Honum finnst stjórnvöld oft full samvinnuþýð og taka helst til of fljótt við því sem boðað er.

 

Tekur undir orð Þórarins um að fara rólega varðandi málefni Lánasjóðsins, kannski er eðlileg þróun í gangi en óþarfi að hlaupa til.  Huga þarf að afskekktari sveitum sem hafa lakari möguleika gagnvart bankamarkaðinum. Verði sú leið farinn að selja Lánasjóðinn, er hann sammála því að söluandvirðið renni til Lífeyrissjóðs bænda.

 

Sammála Haraldi með endurskoðun leiðbeiningaþjónustunnar, honum finnst nauðsynlegt að allt okkar kerfi þurfi að vera í stöðugri endurskoðun.

 

Á Eyjafjarðarsvæðinu vinna sæðingamenn ýmis önnur störf önnur en sæðingar s.s. bókhaldi, jarvegssýnatöku, heysýnatöku o.fl. enda eru þeir til húsa í Búgarði. Hann sér ekki í fljótheitum að aukin samvinna á landsvísu myndi vera heppileg fyrir Eyfirðinga.

 

Íslenskir bændur hafa byggt frekar dýrt og reynt að koma sér upp góðri aðstöðu. Ástæðan fyrir fáum mjaltaþjónum á Írlandi er sú að þar er fyrst og fremst beitarbúskapur, en þar hentar róbotinn ekki eins vel. Honum sýnist að þar sem kostnaður við nýbyggingar á fjósum hefur orðið mjög mikill, þá sé þar ekki allur munurinn vegna þess hvort valinn hefur verið mjaltaþjónn eða gott mjaltakerfi. Aðrir þættir vega þar mjög mikið s.s. eins og mikil vinna við frágang á fjósinu. Þar er það oft vinnuþátturinn sem hleypir kostnaði upp.

 

Ef Mjólka stenst lög, þá verðum við að bregðast við því eins vel og við getum. Það þýðir ekki að berjast gegn einhverju sem er þá löglegt því þá fáum við neytendur upp á móti okkur og við megum ekki við því.  Hann trúir því ekki að bændur hafi haft samband við Mjólku og vilji leggja inn hjá þeim mjólk. Vafalítið rétt sem Gunnar telur, að þeir fái ígildi beingreiðslna annarsstaðar frá. Þakkaði góðan fund.

 

Þorsteinn Rútsson

Honum finnst staða Lífeyrisjóðs bænda dapurleg, fram hefur komið að það vantar 2,6 milljarða svo hann nái að standa við sínar skuldbindingar. Okkar forfeður að fá lítið úr honum, en líklega í takt við það sem þeir borguðu í hann. Slæmt ef við getum ekki með einverjum hætti styrkt sjóðinn þannig að sjóðurinn geti stutt við bakið á þessari kynslóð. Við sem höfum verið að greiða í sjóðinn núna að undanförnu, erum hinsvegar að byggja þetta betur upp.

 

WTO. Lítur til baka, GATT og Jón Baldvin. Tekur undir orð Péturs, um að hver þjóð eigi að metta sig sjálf eins og hún mögulega geti. Það ætti að vera útgangspunktur í þessum WTO viðræðum. Nota svo innflutning til að hjálpa uppá en ekki til að þvinga uppá þjóðir, sem geta staðið að þessu og vilja standa sjálfar að sinni matvælaframleiðslu. Vill að okkar samningamenn haldi á lofti okkar sérstöðu hvað varðar hreinleika o.fl.

 

Honum finnst við ekki ekki geta verið sátt við þróunina á kvótaverðinu og telur að skoða eigi kvótamarkað, slíkur markaður gæti hugsanlega lækkað verð á kvóta.

 

Þakkar þeim sem komu að mjólkursamningnum. Til hamingju með 20 ára afmæli Félags sunnlenskra kúabænda, afmælisbarnið hefur getið af sér afkvæmi eins og t.d. félagsráð, sem er félagslega mikilvægt.

 

Valdimar Guðjónsson

Styður þá hugmynd að eigið fé Lánasjóðsins verði notað til að styrkja Lífeyrissjóð bænda. Hve lengi er hægt að halda úti sér sjóð fyrir svo minnkandi stétt?

 

Varðandi Mjólku þá sýnist honum greinilega áhugi margra að reyna að brjóta okkar kerfi niður. Honum finnst of víða alið á ranghugmyndum um að við séum í spennitreyju afurðastöðvanna, við viljum halda því mynstri að menn geti valið hvar þeir leggja inn afurðir sínar.

 

Hann vill að kaupmannastéttin, sem hann segir vera nánast bara tvær keðjur, sé spurð að því hvers vegna verð á innfluttum landbúnaðarafurðum sé ekki sambærilegt hérlendis við það sem það er erlendis? Menn hafa nefnt að það sé 60-80% dýrara hér en þar.

 

Sammála Pétri um að slæmt sé ef á að breyta greiðslum í ógagnsæjar greiðslur. Einfalt kerfi í dag og gott. Mjög einfalt borið saman við t.d. EU kerfi. 

 

Erlingur Teitsson

Þakkar störf og framlagðar skýrslur.

 

Hann telur innflutningsverndarleysi í þeim samningi sem við förum að vinna eftir eftir nokkra mánuði. Pétur telur að það sé hægt að framleiða eins ódýra mjólk hér og í Danmörku, því er hann ósammála.  Auðveldara að rækta í Danmörku og ýmsar aðrar aðstæður sem eru til að auðvelda búskapinn. 

 

Spyrjum okkur að því hvers vegna farið er út í þetta hjá Ólafi Magnússyni og Mjólku? Er þetta kannski vegna of hás kvótaverðs?  Ekki sammála Gunnari að kvótaverð leiti jafnvægis, við höfum beðið efti því í mörg ár og ekkert gerist. Þetta háa kvótaverð er að éta stéttina innanfrá og aðalfundur LK þarf að finna leiðir.

 

Hvaða bústærð viljum við sjá? Tilhneigingin hefur verið stækkun búa og þurfa þau aukinn kvóta. Í búvörusamningnum ríkti ákveðin sátt um að byggja landið sem mest og sá velvilji sem Alþingi sýnir okkur með samþykkinu, byggir á fjölskyldubúinu. Þar erum við að tala um 400-450 þús. lítra bú. Hann hefði viljað að LK markaði stefnu hvað varðar bústærð.

 

Eigum við að stefna að útflutningi? Þar þarf samvinnu milli afurðastöðva, bænda, LK og stjórnvalda. Í sjálfu sér er gott að jarðaverð sé hátt, svo menn geti staðið upp frá búskap. Í S. Þingeyjarsýslu, hefur Lífsval keypt fjórar jarðir sem nú eru komnar í eyði. Þeir hafa vafalaust lyft undir verð á jörðum sem er gott, en svona uppkaupum fylgja líka annmarkar.

 

Guðni Ágústsson

Varðandi WTO, þá spyr hann fundinn hvort menn séu búnir að gleyma GATT, sem Guðmundur Bjarnason stóð fyrir? Þá var boðaður heimsendir í íslenskum landbúnaði. Hve mikill er innflutningur og hvernig tókst að vinna úr þeim samningi? Hvernig tókst ykkur að vinna úr ykkar málum? Mjólkuriðnaðurinn hefur brugðist vel við GATT með vöruþróun þannig að innfluttu ostarnir voru ekki keyptir.

 

Það verður vel að þessu staðið af hálfu ráðuneytisins, hver svo sem niðurstaðan verður. Ráðherra trúir því að það takist að halda fram sérstöðu okkar svo að okkar hagsmunir komi fram og við getum áfram stundað landbúnað á Íslandi. 

 

Ráðherra kveið hagfræðiskýrslu Háskólans. Hann sá svo Svein Agnarsson í sjónvarpinu, og sagði hann að sér sýndist að kúabændur væru á þeirri leið að þegar þeir væru búnir að borga niður kvótann, þá væri þeir á góðri leið. Sama gildir um sauðfjárbændur.

 

Fjölmiðlamenn vilja ekki tala við ráðherra um Mjólku, eða um þessa skýrslu.

 

Ráðherra fannst nautgripabændur eiga erfitt í kjötstríðinu og fannst sanngjarnt að brúa fyrir þeim tímann fram að gripagreiðslum og styrkja á hverja kú. Afurðaverð svínabænda hefur hækkað, þannig að samkeppnisstaða kinda og nautakjöts er að batna.

 

Ekki gráta hátt jarðaverð, kvótaverðið er hinsvegar mjög hátt.

 

Megum ekki gleyma gullnu tækifæri, korninu en þar eru möguleikar í ræktun þess og kolefnisbindingu í skógi og landgræðslu.

 

Ráðherra ítrekaði að allt yrði reynt til að standa vel að WTO samningunum og svo verður enn meiri vandi að innleiða þann samning í okkar umhverfi, eins og það var með GATT.  Íslenskur landbúnaður á jafnvel stóra möguleika á að eignast nýja neytendur erlendis, sjá t.d. Whole foods.

 

Sigurlaug Leifsdóttir

Þakkar Kristínu Lindu fyrir vel unnin störf í stjórn LK, ekki síst með að halda utanum kjot.is. Henni finnst að það eigi að selja Lánasjóðinn um áramót og styrkja Lífeyrissjóð bænda með þeim peningum, líka með peningum af því að selja Hótel Sögu, og leggja hann svo niður.

 

Hún vill að bændur séu þeir sem sjá um málleysingja. Bændur og ferðaþjónustubændur séu allir með einhverja framleiðslu á sinni jörð, og helst hefðbundna framleiðslu.

 

Hún telur að Mjólka sé stofnuð, og sé ætlað að þjóna þeim ungu bændum sem eiga allt til að búa með annað en kvóta. Hún vill einkavæða leiðbeiningaþjónustuna og telur okkur geta lært mikið af Nýsjálendingum.

 

Sigmundur H. Sigmundsson

Vill ekki leggja niður Lánasjóðinn. Hann hefur sagt að dýrasta fjármagnið í dag sé úr sjóðnum. En það er ekki víst að það verði svo á morgun. Hann telur því rétt að doka við og sjá hvað setur. Hann myndi ekki kaupa dráttarvél með aðstoð sjóðsins í dag, því Glitnir og Lýsing bjóða honum betri kjör.

 

Ekki ætti að vera skylduaðild að Lífeyrissjóði bænda og finnst honum að skoða megi sameiningu við annan lífeyrisjóð.

 

Af Vestfjörðum er erfitt að koma gripum í slátrun. Bændur hafa verið að senda gripi á Sauðárkrók, Borgarnes og Króksfjarðarnes. Þetta eru langar leiðir og verðið ekki hátt, þó það sé á uppleið. Svo skiptir líka máli hvar maður leggur inn, flokkunin er misjöfn á milli húsa. Hátt verð hefur verið á nautakjöti út úr búð og vilja sumir segja að það sé vegna þess að verið sé að keppa við ”niðurgreitt” kindakjöt.

 

Varðandi Mjólku, þá verðum við að stíga hægt til jarðar því fjölmiðlar bíða eftir látum. Verum frekar hæfilega kurteislega frek. Þetta er afsprengi af háu verði á framleiðslurétti. Þetta háa kvótaverð og hátt jarðaverð tefur nýliðunina á jörðunum. Þegar menn eru farnir að skulda mikið þá er ekkert mál að fá fjármagn, t.d. til að kaupa kvóta.  Þetta er það sama og hefur verið að gerast í sjávarútveginum undanfarin ár, en kvótaverðið er þó enn hærra þar. Þannig má ætla að kvóti í mjólk eigi jafnvel eftir að hækka enn frekar áður en bankarnir fara að segja stopp.

 

Framleiðsluréttur og verð á honum hefur haft mikil áhrif á jarðarverðið.

 

Pétur Diðriksson

Vildi leiðrétta misskilning. Hann var að tala um afköst gripa en ekki afkomu búsins. Hann gerir sér vel grein fyrir muninum á framleiðslukostnaðinum á Íslandi og í Danmörku.

 

Þórólfur Sveinsson

Skildi orð landbúnaðarráðherra þannig að ákvæði stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi og búvörulög væru túlkuð með þeim hætti að greiðslumarkslausir mjólkurframleiðendur mættu framleiða mjólk og selja afurðir inn á innlenda markaðinn án kvaða um útflutning. Þetta mál yrði skoðað áfram í þessu ljósi.

 

Um Lánasjóðinn vill hann segja að stundum þarf að taka ákvarðanir hratt á fjármálamarkaði. Mat búnaðarþingsfulltrúa LK er að ekki verði friður um sjóðagjöldin. Það er verið að færa viðskipti frá sjóðnum í bankana og er milljarður farinn nú þegar.

Þurfum að reyna eftir föngum að tryggja bændum hagstæða vexti hjá nýjum eiganda skuldabréfanna.

 

Hugsanlega getur Byggðastofnun komið að hluta inn sem leið til lántöku.

 

Varðandi stefnu LK um bústærð, þá var mjólkursamningurinn gerður án þess að setja hámark á þann stuðning sem farið getur á einstök bú. En í nýja mjólkursamningnum eru ákvæði í fyrsta sinn, um að stuðningur fari minnkandi eftir að bústærð hefur náð ákveðnu hámarki.

 

8. Erindi.

 

Tímamót í íslenskum mjólkuriðnaði? 

Guðbrandur Sigurðsson, ráðgjafi stjórnar í sameiningarmálum MS og MBF.

Guðbrandur ræddi sameiningu MS og MBF og þróunina í mjólkuriðnaðinum. Iðnaðurinn einkennist af sterkum félagslegum bakgrunni í félagskerfinu og sterkri fagþekkingu í mjólkuriðnaðinum sjálfum sem eru mjög öflug samvinnufélög. Bændur hafa borið gæfu til að stýra umræðunni sér í hag og er það vel. Ekki hefur verið samkeppni innan greinarinnar, heldur samvinna um þróun og framleiðslu. Þetta á væntanlega eftir að breytast eitthvað á næstu árum. Verðlagsráð hefur ákveðið verð til bænda og samlögin hafa verið í eigu bændanna sjálfra. Markaðurinn er lítill og kröfuharður, en honum hefur verið vel sinnt með markaðsþróun og vandaðri vöru.  Fjöldi vörutegunda er geysilegur, á ekki stærri markaði. Aukning í neyslu upp á 1% á ári s.l. nokkur ár, sem er í samræmi við íbúafjölgun. Drykkjarvörumarkaðurinn dregst saman því meira er drukkið af gosi og safa, en neyslan á ýmsum öðrum mjólkurvörum vegur það upp, breytingar í neyslumynstrinu eru þannig örar.

Hann ræddi örlítið nýja skýrslu frá Háskóla Íslands um íslenskan landbúnað og stuðninginn við hann og hvatti alla fundarmenn til að kynna sér efni hennar. Þá ræddi hann kvótakerfið í kúabúskapnum og verð á kvóta og líkti því við sömu þróun og hefur orðið í kvótakerfinu  í sjávarútveginum, en kvótanum þar hefur fylgt hagræðing sem vissulega var sársaukafull. Hann hvatti kúabændur til að taka þátt í umræðunni um kvótamálin.

Hann telur mjólkuriðnaðinn vel í stakk búinn undir samkeppni sem er á eðlilegum grunni. Enda er þar mikil vöruvöndun, gott úrval, öflugt þróunarstarf og góð þjónusta við neytendur. Framundan er aukin samkeppni og breytingar á smásölumarkaði þar sem verslunin færist sífellt meira í stærri og stærri verslanir. Í framtíðinni verða væntanlega innflutningstollar afnumdir, en beinir styrkir þá auknir á móti. Búið er að samþykkja samruna MS og MBF og er það mál í eðlilegum farvegi í félagskerfi eigenda þeirra. Ímynd iðnaðarins er góð og sterk og mikill velvilji í garð mjólkuriðnaðarins. Áherslu þarf að leggja á hagræðingu innan greinarinnar og er mikið búið að gera þar, en margt hægt að gera í viðbót. Því eru spennandi tímar framundan í íslenskum mjólkuriðnaði.

 

Erum við á réttri leið? 

Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK.

 

Snorri hóf mál sitt á að tíunda hve margir koma að málum kúabænda, hagsmunagæslan, afurðastöðvar, leiðbeingastöðvar, rannsóknaaðilar ofl. Hvað þróun kúabúskapar varðar þá telur hann að við lok samningstíma nýs mjólkursamnings árið 2012 verði kúabú á Íslandi 600-650 talsins.

LK gerði könnun á aðstöðu í fjósum á búunum árið 2003 og var staðan þá þannig að 73,1% voru básafjós, 13,8% voru legubásafjós og 13,1% voru básafjós með mjaltabás, sem er að hans áliti nokkuð séríslenskt fyrirbæri. Þessi könnun verður endurtekin til að greina þá öru þróun sem nú er. Hann telur að það verði áfram básafjós á Íslandi og kannski höfum við ekki sinnt nógu vel því hvernig má þróa básafjósin áfram með tilliti til vinnuhagræðingar við mjaltir og fóðrun. Því ýmislegt má bæta þar, þó ekki sé byggt nýtt og breytt í legubása. Básafjósin eru vissulega vinnufrekari en aðrar fjósgerðir og þarf því að gera átak í leiðbeiningum varðandi vinnuhagræðingu í básafjósum s.s. varðandi mjaltir og fóðrun, bæði gróffóður og kjarfnóðrun. Hann telur að þróun legubásafjósa hérlendis og hönnun á þeim sé í góðum farvegi. Almennt má segja að tæknistig búa sé fremur hátt hérlendis og telur hann að þar verði áfram fjölbreytt flóra. Við eigum eftir að sjá fleiri róbóta en einnig stærri mjaltabása en við höfum áður séð.

Þróunin hefur verið ör og verður það áfram hvað varðar stækkun búa, sem kallar á meiri vinnu við hvert þeirra. 

Afurðastöðvar hafa þróast hratt á liðnum árum og frekari þróun framundan. Landið okkar er drefibýlt og ekki líklegt að skynsemlegt sé að aka allri mjólk í eina afurðastöð. Vöruþróunin hefur verið frábær og stöðug. Skyr.is er kannski gleggsta dæmið um það frábæra markaðsstarf sem unnið er. Spyrja má hvort útflutningur sé raunhæfur og þar þarf að skoða alla möguleika. Fundurinn hér á að taka afstöðu til og á að hafa skoðun á því hvað skynsamlegt er að gera. Snorri er sannfærður um að markaðir séu til sem geta borgað það verð sem við þurfum, málið er bara að finna þá réttu.

Varðandi nautakjötið þá hefur þar verið mjög jákvæð þróun, s.s. sífellt meira af skrokkum sem fara í úrvalsflokk. Afurðastöðvum þyrfti þó að fækka til að lækka megi sláturkostnað. Þá þarf að skoða flutningskostnað á gripunum, en bætt samgöngutækni og bættar samgöngur eru þarna grunnforsendur. Evrópskar reglur um flutning gripa eru það rúmar að þær eiga ekki að þurfa að trufla okkur hvað þetta varðar.

Við komum til með að sjá aukningu í verktöku á ýmsum sviðum kúabúskaparins. Tryggja þarf góða þjónustu við kúabændur og telur Snorri að sú leið að hafa eftirlit með þjónustuaðilum, s.s. að birta verð á kjöti, kjarnfóðri og dýralyfjum á vef LK virka leið til þess. Útprentanir af heimasíðu LK af þessum listum sér hann reglulega á borðum forstjóra þeirra fyrirtækja sem kúabændur skipta við.

Vaxandi þörf er fyrir sérhæfðari ráðgjöf í leiðbeiningaþjónustunni. Sem dæmi nefndi hann að þá vantaði stundum leiðbeiningar varðandi kaup á mjaltatækjum og þessháttar búnaði. Leiðbeiningamiðstöðvarnar þyrftu að geta unnið meira útfyrir sín landfræðilegu mörk vegna þess að ekki er hægt að hafa sérhæfða ráðunauta allsstaðar, s.s. varðandi nautakjötsframleiðslu svo dæmi sé tekið.

Snorri telur að hagsmunagæslunni sé vel fyrirkomið eins og hún er í dag, með hluta hjá LK og hluta hjá BÍ. Hugsanlega verður meiri samþætting LK og hagsmunagæslu afurðastöðvanna.

Gera þarf átak í endurmenntunarkostum fyrir kúabændur landsins og er það meðal annars verkefni þessa fundar að hitta endurmenntunarstjóra Landbúnaðarháskólans.

Erum á réttri leið en getum unnið markvissara. Stefnumörkun kúabænda 2004 markar þar leiðina.

 

9. Nefndarskipan og vísan mála.

 

Stjórn Landssambands kúabænda leggur til að á aðalfundi 2005 starfi fjórar starfsnefndir, og hefur ályktunardrögum og öðrum verkefnum verið skipt niður á milli nefndanna.

 

Stjórn LK leggur til eftirfarandi skiptingu fulltrúa í nefndirnar, en vekur jafnframt athygli á því að hverjum og einum er auðvitað frjálst að skipta um nefnd og/eða sitja fundi annarra nefnda í ákveðnum málum:

 

Starfsnefnd 1

Þórarinn Leifsson, Keldudal (formaður)

Þorsteinn Rútsson, Þverá

Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ

Sævar Einarsson, Hamri

Helga Guðmundsdóttir, Gilsárteigi

Sigmundur H. Sigmundsson, Látrum

Björn Magnússon, Hólabaki

Böðvar Baldursson, Ysta-Hvammi

Gunnar Jónsson, Egilsstöðum V

 

Egill Sigurðsson, Berustöðum II og meðstjórnandi LK, mun starfa með nefndinni.

 

Verkefni starfsnefndar 1:

1. Um ráðstöfun fjár til óframleiðslutengds stuðnings í nýjum mjólkursamningi, þannig þeir nýtist greininni sem best og einnig til lækkunar vöruverðs.

2. Samnýting greiðslumarks milli lögbýla.

3. Um samþjöppun á eignarhaldi á framleiðslurétti í mjólk.

4. Um aukið magn mjólkurframleiðslu í landinu og hámarks bústærð.

5. Grænar greiðslur og mikilvægi jöfnuðar í þeim milli bænda.

6. Að beingreiðslukerfinu verði sem minnst breytt.

7. Að fyrirhugaðar breytingar á stuðningi við mjólkurframleiðslu verði kynntar á næsta aðalfundi.

 

Starfsnefnd 2

Sigrún Ásta Bjarnadóttir, Stóru-Mástungu (formaður)

Sigurgeir Hreinsson, Hríshóli

Bragi Konráðsson, Lönguhlíð

Sveinn Ingvarsson, Reykjahlíð

Birna Þorsteinsdóttir, Reykjum

Gauti Halldórsson, Grænalæk

Laufey Guðmundsdóttir, Lækjarhúsum

Magnús Sigurðsson, Hnjúki

Sveinbjörn Sigurðsson, Búvöllum

 

Sigurður Loftsson, Steinsholti og varaformaður LK, mun starfa með nefndinni.

 

Verkefni starfsnefndar 2:

1. Um framtíð nautastöðvar BÍ.

2. Um gerð forskráðra eyrnamerkja.

3. Um nýmerkingar kúa.

4. Um skráningarkerfi vegna nautgripasjúkdóma .

5. Um uppsöfnun búnaðargjaldstillags nautgriparæktarinnar í B-deild bjargráðasjóðs.

 

Starfsnefnd 3

Skúli Einarsson, Tannstaðabakka (formaður)

Guðmundur Þorsteinsson, Skálpastöðum

Lára Hansdóttir, Á

Daníel A. Ottesen, Ytra-Hólmi

Pétur Diðriksson, Helgavatni

Gunnar Sigurðsson, Stóru-Ökrum

Sigurlaug Leifsdóttir, Nýjabæ

Stefán Magnússon, Fagraskógi

 

Kristín Linda Jónsdóttir, Miðhvammi og stjórnarmaður LK, mun starfa með nefndinni.

 

Verkefni starfsnefndar 3:

1. Endurmenntunarstarf fyrir nautgriparæktina á vegum LBHÍ.

2. Um útflutning mjólkurafurða.

3. Um viðhorfskönnun kúabænda.

4. Um WTO samninga og áherslur Íslendinga.


Starfsnefnd 4

Jóhann Nikulásson, Stóru-Hildisey (formaður)

Magnús Hannesson, Eystri-Leirárgörðum

Erlingur Teitsson, Brún

Snorri Örn Hilmarsson, Sogni

Einar Haraldsson, Urriðafossi

Ásbjörn Pálsson, Syðri-Haukatungu

Grétar Einarsson, Þórisholti

Ásgerður Jónsdóttir, Kverngrjóti

Katrín Birna Viðarsdóttir, Ásólfsskála

 

Jóhannes Ævar Jónsson, Espihóli og stjórnarmaður LK, mun starfa með nefndinni.

 

Verkefni starfsnefndar 4:

1. Eftirlitskerfi í nautgripahaldi.

2. Aksturskostnaður dýralækna.

3. Hagsmunir skuldara hjá Lánasjóði Landbúnaðarins, við niðurlagningu/sölu sjóðsins.

4. Um verðskerðingargjald á nautakjöti.

5. Ársreikningur og fjárhagsáætlun LK 2005.

6. Laun aðalfundarfulltrúa.

 

10. Afgreiðsla mála.

 

Niðurstöður frá nefndarstarfi starfsnefndar 1:

 

1. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, beinir því til samningsaðila um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar að hefja sem fyrst viðræður um ráðstöfun þess fjár sem skilgreint er sem óframleiðslutengdur stuðningur í samningnum. Jafnframt beinir fundurinn því til fulltrúa bænda í samninganefndinni að þeir beiti sér fyrir því að þessir fjármunir komi að sem bestum notum fyrir greinina og nýtist til lækkunar vöruverðs til neytenda. Fundurinn leggur áherslu á að drög að samkomulagi um ráðstöfun á óframleiðslutengdum/minna markaðstruflandi stuðningi verði kynnt á aðalfundi LK 2006.

 

Þórarinn Leifsson gerði grein fyrir tillögunni.

 

Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

2. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, skorar á landbúnaðarráðherra að standa við viljayfirlýsingu þá sem hann undirritaði 10. maí 2004 í tengslum við undirritun samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu, um að láta kanna hvort hægt sé að samnýta greiðslumark tveggja eða fleiri lögbýla. Bendir fundurinn á að með samnýtingu greiðslumarks í mjólkurframreiðslu geti bændur náð fram mikilli hagræðingu í rekstri og frítíma frá vinnu þar sem staðhættir og landfræðilegir kostir eru.

 

Þórarinn Leifsson gerði grein fyrir tillögunni.

 

Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

3. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, beinir því til stjórnar LK að vinna að því að móta stefnu hvað varðar hámarks bústærðir. Tekið verði tillit til öryggisþátta við framleiðsluna með hagsmuni heildarinnar í huga. Jákvæð ímynd greinarinnar og byggðasjónarmið verði jafnframt höfð að leiðarljósi í hvívetna. Stefnt verði að því að tillaga að stefnumótun LK í þessum málaflokki verði lögð fyrir aðalafund félagsins 2006.

 

Þórarinn Leifsson gerði grein fyrir tillögunni.

 

Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

Niðurstöður frá nefndarstarfi starfsnefndar 2:

 

4. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, beinir því til stjórnar BÍ að fullt samráð verði haft við stjórn LK um endanlega ákvarðanatöku í málefnum Nautastöðvar BÍ. Ákvörðun liggi fyrir ekki seinna en 1. september 2005. Að öðrum kosti verði þegar farið í endurbætur á núverandi aðstöðu Uppeldisstöðvarinnar, þannig að hún uppfylli ákvæði aðbúnaðarreglugerðar.

 

Sigrún Ásta Bjarnadóttir  gerði grein fyrir tillögunni.

 

Gunnar á Stóru Ökrum kvaddi sér hljóðs og spurði hvert tillögunni væri vísað og hver ætti að bregðast við henni. Var því svarað og tillögunni breytt.

 

Tillagan var svo samþykkt samhljóða.

 

5. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, vísar því til stjórnar LK vinna að því að koma einstaklingsmerkjum í lag þannig að bændur séu ekki að lenda í því að merkin séu ekki læsileg.

 

Sigrún Ásta Bjarnadóttir  gerði grein fyrir tillögunni.

 

Gunnar taldi tillöguna ekki nógu vel orðaða.

 

Kristín Linda veltir því fyrir sér hvort aðalfundur ætti ekki að leggja það til að BÍ beitti sér í málinu.

 

Þórarinn L. lýsti sig sammála Kristínu Lindu um að beina tillögunni til BÍ og yfirdýralæknis. Þar sem embætti yfrdýralæknis viðurkenndi þessi merki, þá er það ekki á ábyrgð bænda ef það verður uppnám í sláturhúsunum eftir 1. jan 2006 þegar allir gripir eiga að hafa læsileg einstaklingsmerki og í ljós kemur þá að merkin eru ekki læsileg.  Ábyrgð embættis yfirdýralæknis í málinu er mikil. 

 

Stefán Magnússon, spurði hvað það væri, að koma merkjamálum í lag? Hann vill fá bætta gallaða vöru sem hann hefur fengið, fyrr séu merkjamál ekki komin í lag.

 

Sveinbjörn fundarstjóri greindi frá því að framleiðendur hafi bætt gerð merkjanna og hægt verður að fá bætt þau merki sem hafa verið gölluð.

 

Sævar á Hamri vill fá endurgreidd þau merki sem hafa verið ónýt

 

Kristín Linda óskar þess að BÍ gangi svo frá málum að menn fái öll merki aftur.

 

Þorsteinn Rútsson, sammála Kristínu. Vill að bændur fái ný merki í alla gripina, enda ekkert mál að skipta um merki í gripunum að hans mati.

 

Sveinbjörn er ekki sammála því að það sé ekkert mál að skipta um merki í nautastíunni.

 

Þórólfur.  Sagði að embætti yfirdýralæknis viðurkenndi þessa gerð merkja og því væri ábyrgð þess embættis í málinu mikil.

 

Sveinn vísaði tillögunni aftur til nefndarinnar.

 

6. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, vísar því til stjórnar LK að kanna hvernig dýralæknar standa að skráningu sjúkdóma og lyfjanotkunar á hinum ýmsu stöðum á landinu, mikið ósamræmi virðist vera á þessari skráningu milli landssvæða.

 

Sigrún Ásta Bjarnadóttir gerði grein fyrir tillögunni.

 

Stefán Magnússon telur að það verði aldrei nein glóra í þessari skráningu fyrr en hún verði gerð rafræn úti á búunum og dýralæknar sendi þetta svo að kvöldi dags til bænda og BÍ. Hann telur að þetta verði aldrei til gagns ef þetta er á blöðum hingað og þangað.

 

Sigrún Ásta taldi tillögu Stefáns fela í sér kostnað því það kerfi til að taka við gögnunum er ekki til í dag.

 

Þorsteinn Rútsson. Samkvæmt hans heimildum hefur yfirdýralæknir boðað fund með dýralæknum til að fara yfir þessi mál. Þar skilst honum að stefna beri að því að svona rafræn skráning geti orðið að veruleika, sem auðvitað kostar sitt. Dýralæknar hafa kvartað yfir stórum vinnuþætti í fjósskoðun, betra væri að geta skráð beint rafrænt við þá skoðun.

 

Sigmundi á Látrum lýst betur á að nota tillöguna úr fundargögnunum, heldur en tillöguna eins og hún er lögð fram hér.

 

Stefán M. Tekur undir orð síðasta ræðumanns. Auðviðtað kostar þetta og kúabændur borga. En betra upplýsingakerfi skilar okkur jú áfram í ræktunarstarfinu.

 

Gunnar á Stóru Ökrum. Finnst að við kúabændur höfum verið of duglegir við að samþykkja yfir okkur eftirlitskostnað og eftirlit.

 

Þorsteinn. Rök dýralækna fyrir háu fjósaskoðunargjaldi var sú vinna sem þeir leggja í hana með núverandi skráningarkerfi, rafrænt kerfi myndi spara. Lyfjaskráningunni verður best komið fyrir með rafrænum hætti. Viljum hafa gott heilbrigðisyfirlit yfir gripina í framtíðinni.

 

Guðmundur Þorsteinsson. Finnst málið í tvennu lagi. Annars vegar skráning skv. reglugerð í fjósi. Hann er með spjald fyrir hverja kú í fjósi þar sem allt er skráð varðandi heilsu bæði frá dýralækni og þeim sjálfum og er þetta afar gagnlegt fyrir búið. Hin hliðin á málinu er sú að ef á að skrá þetta allt í sameiginlegan grunn, þá þarf fyrst þarfagreiningu áður en farið er af stað.

 

Sveinn vísar tillögunni aftur til nefndarinnar.

 

7. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, bendir á mikla uppsöfnun af búnaðargjaldstillagi nautgriparæktarinnar í B-deild Bjargráðasjóðs. Miðað við núverandi útgreiðslur bóta úr sjóðnum munu þessir fjármunir endast næstu 3-4 ár. Því leggur fundurinn til að inngreiðslum af búnaðargjaldi greinarinnar verði hætt amk tímabundið. Jafnframt beinir fundurinn því til stjórnar LK að kanna hvaða kostir eru í boði hjá tryggingamarkaði í stað Bjargráðasjóðs.

 

Sigrún Ásta Bjarnadóttir  gerði grein fyrir tillögunni.

 

Erlingur Teitsson efast um að það sé hægt að hætta þessu í bili, betra væri að lækka inngreiðsluna tímabundið.

 

Sigurlaug. Þá þarf að komast á hreint hve mikil lækkunin ætti að vera.  Finnst málið gott.

 

Sigurður Loftsson. Tekur undir orð Sigurlaugar um hve lækkunin á að vera mikil. Líka spurning um það ef við getum fengið jafngóða eða betri tryggingavernd með öðrum hætti, skiptar skoðanir um nýtingu á þessum peningum Bjargráðasjóðs og vilja sumir meina að hann sé misnotaður. Honum finnst óeðlilegt að leggja þetta alveg niður.

 

Stefán M. Bjargráðasjóður er eitt af þessum báknum. Hann telur meginhluta fjár í Bjargráðasjóði koma fá sveitarfélögunum og spurning hvort sé þá rétt að hætta, fremur eigi að lækka inngreiðslu kúabænda niður í 0,5.

 

Gunnar á Stóru Ökrum. Honum finnst að sjóðir eins og Bjargráðasjóður þurfi að hafa skýrar reglur og að þetta sé stóráfallasjóður en ekki sjóður sem er kannski hægt að læra á að nota. Hann telur sjóðinn barn síns tíma og vill láta leggja hann niður. 20% er sjálfsáhætta og svo er bætt 60% af restinni. Peningar í vörslu sem ekki nýtast rétt.

 

Sigurður. Það er 20% sjálfsábyrgð, reyndar að hámarki 100 þús kr. innan ársins.

 

Og las nýja tillögu:

Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, bendir á mikla uppsöfnun af búnaðargjaldstillagi nautgriparæktarinnar í B-deild Bjargráðasjóðs. Miðað við núverandi útgreiðslur bóta úr sjóðnum munu þessir fjármunir endast næstu 3-4 ár. Leggur fundurinn til að inngreiðslur af búnaðargjaldi greinarinnar verði lækkaðar úr 0,15 í 0,5.

 

Gunnar vildi skýrar reglur sem yrðu kynntar öllum svo allir gætu lært að nota sjóðinn. Ef þetta yrði lækkað, þá myndi sjóðurinn tæmast fljótt, ef fleiri kynnu að nota hann. Hingað til, í hans rekstri, og vonandi í rekstri annarra, hafa það verið talin nokkuð eðlileg afföll að missa eina og eina kú úr bráðadoða og/eða júgurbólgu, þar þurfi bjargráðasjóður ekki endilega að hlaupa upp á bagga. Finnst að ef það á að vera til þessi sjóður, þá þurfi að búa til reglur sem allir geti búið við.

 

Stefán. Skemmtileg umræða, því allir hafa rétt fyrir sér að einhverju leiti. Sammála Gunnari, kannski best að vera laus við sjóðinn, en samt gott að hafa sjóð til að mæta stóráföllum. Og ef svo á að vera þá veitir ekki af þessum peningum þarna inni. Dæmi ef það kæmi upp smitsjúkdómur, þá færu peningarnir hratt. Sjóðurinn hefur ekki bolmagn til að vera stóráfallasjóður og ekki eðlilegt að vera að bæta smámuni. Getur maður sleppt því að tryggja sig og treyst á hjálp Bjargráðasjóðs ef áföll verða? Er þetta sjóður fyrir þá sem ekki tryggja sig, þannig skussa? Áhugavert væri að vita hvernig tryggingavernd kúabændur hafa. Eru kúabændur vel tryggðir, eru menn með búfjártryggingar? Þetta væri áhugavert að skoða. Hefur sjálfur lent í máli þar sem kind fór út um opið hlið og lenti fyrir bíl. Búfjártrygging og hans tryggingar bættu það tjón. En ef einhver lendir í svona máli, ótryggður og þar sem kannski manntjón verður, þá getur sá hinn sami orðið gjaldþrota. Því þarf að huga að tryggingum bænda, þá ekki síst búfjártryggingum.

 

Sveinbjörn Þór sagði að það mætti skoða sameiginlega tryggingu bænda.

 

Sigurlaug. Vill ekki að niðurlag tillögunnar sé eins og það sé. Þetta eru bara 70 millj. í sjóðnum og ekki til að bæta nein stór tjón.

 

Þórólfur. Sammála Stefáni. Hann og Ari Teitsson skoðuðu þetta fyrir 15 árum á vegum Stéttasambands bænda og það er sama umræðan hér og þá. Sjóðurinn hentar vel í greinum þar sem einingarnar eru smáar.  Leggur því til að þetta verið lækkað og vill að niðurlag tillögunnar um hóptryggingu verði inni því slíkt er allt annar kostur en tryggingar einstaklinga, það á að vera hægt að ná mun betri samningum með þeim hætti. Sammála því að Bjargráðasjóður sé hættur að virka fyrir kúabændur eins og hann þyrfti að virka, en vill að við gleymum því ekki að hann hefur stundum verið notaður sem farvegur fyrir framlög frá ríkinu til að bæta tjón. Bjargráðasjóður hefur ekki baktryggingu eins og tryggingafélögin hafa, og má vel vera að hann sé barn síns tíma.

 

Kristín Linda taldi sjóðinn barn síns tíma og vill leggja hann niður. Af hverju komust þeir Ari ekki að annarri niðurstöðu fyrir 15 árum? Í nefndinni sem skoðaði þessa tillögu sem við erum að fjalla um, þá fannst engum þetta eðlilegt kerfi. Jafnvel bændur sem hafa lent í miklu kaltjóni hafa beðið hana um að berjast fyrir því að sjóðurinn verði lagður niður. Þetta eru bara 70 milljónir í sjóðnum og þegar búin eru orðin svona stór og dýr og vélakosturinn líka, þá er bolmagnið til bóta ekki mikið. Leggur til að það verði hætt að greiða í sjóðinn, tímabundið.

 

Þórólfur. Tryggingastærðfræðingur komst að því að kostnaðarmunurinn var svo mikill að það borgaði sig að halda Bjargráðasjóði við og þeirri tryggingavernd sem hann þó veitti. Ítrekar að við skulum kanna samtakamáttinn með hóptryggingu, reyna fá tilboð í slíkan pakka.  Innheimtukostnaður tryggingafélaga er geysilega mikill og geta þeir lækkað sig í gegnum svona hóptryggingu, þetta þekkist hjá sumum stéttarfélögum.

 

Gunnar Sigurðsson Stóru Ökrum. Upplýsandi umræða. Vill leggja á það áherslu við formanninn okkar að við gætum okkar í flatri gjaldtöku, finnst þessi forsjárhyggja hallærisleg, að geta ekki valið hvort menn fljóti með í hóptryggingu. Finnst eðlilegt, fyrst umræðan er komin svona langt hér, að við tökum bara það skref að kúabændur hætti að greiða í bjargráðasjóð og að stjórn LK leiti svo eftir hagstæðustu tryggingavernd fyrir kúabændur, sem menn gætu valið að taka þátt í eða ekki.

 

Sigurður Loftsson. Vildi ítreka að umræðan er góð og nauðsynleg.  Ræddi málið örlítið út frá öðrum búgreinum og taldi að við þurfum að stokka upp í búnaðargjaldsstofnunum.

 

Sveinn sendir tillöguna aftur til nefndar.

 

 

Niðurstöður frá nefndarstarfi starfsnefndar 3:

 

8. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, leggur ríka áherslu á að sem nánast samstarf takist með LK og LBHÍ um endurmenntun kúabænda. Tryggt verði að þörf þeirra sem starfa í greininni verði ætíð höfð að leiðarljósi við val og uppsetningu á námskeiðum.

 

Guðmundur Þorsteinsson kynnti tillöguna og greindi frá kynningu Guðríðar Helgadóttur frá LBHÍ, en hún vill að LK tilnefni einn mann í samráðshóp sem myndi funda með endurmenntunardeild LBHÍ einu sinni á ári og fara yfir málefni og þarfir endurmenntunar fyrir greinina.

 

Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

9. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, fagnar samþykkt stjórnar SAM um markvissa vinnu að öflun markaða fyrir íslenskar mjólkurvörur erlendis. Fundurinn hvetur til góðs samstarfs framleiðenda og afurðastöðva um þetta verkefni.

 

Sigurlaug Leifsdóttir kynnti tillöguna. Gott ef alltaf væri leitast væri við að fá sem hæst verð. Bæði flutt út prótein og fitu. Mikilvægt að skilaverð sé þannig að bændur fái sitt. Útflutningurinn yrði í gegnum SAM og árlega lögð fram skýrsla um kostnað við útflutning og markaðssetningu.

 

Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

10. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, leggur þunga áherslu á að íslensk stjórnvöld leiti allra leiða til að nýjir alþjóðasamningar, túlkun þeirra og útfærsla, verði sem léttbærastir fyrir íslenskan landbúnað og tryggi að íslenskir neytendur geti hér eftir sem hingað til haft aðgang að innlendum matvörum. Lögð verði áhersla á rétt þjóðarinnar til matvælaöryggis og varðveislu matarmenningar. Sérstaklega þarf að huga að möguleikum á undanþágu fyrir einangruð smáríki til að styðja framleiðslu fyrir heimamarkað. Er í þessu sambandi sérstaklega minnt á ,,íslenska ákvæðið“ í Kýótó-bókuninni.

 

Stefán Magnússon kynnti tillöguna.

 

Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

Niðurstöður frá nefndarstarfi starfsnefndar 4:

 

11. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, ítrekar ályktun um eftirlit vegna mjólkurframleiðslu frá síðasta aðalfundi sem send hefur verið landbúnaðarráðherra. Telur fundurinn að einfalda og samræma beri eins og hægt er það eftirlit sem tilheyrir nautgripahaldi og mjólkurframleiðslu. Þá krefst fundurinn þess að LK eigi fulltrúa í þeirri nefnd sem skipuð hefur verið til að fjalla um þessi mál þar sem eftirlitsþættir í landbúnaði tilheyra að stærstum hluta mjólkurframleiðslu.

 

Jóhann Nikulásson kynnti tillöguna.

 

Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

12. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, mótmælir því að ekki skuli ætlaðir meiri fjármunir til niðurgreiðslu á akstri dýralækna. Óviðunandi er út frá dýraverndunarsjónarmiði að mikill kostnaður við akstur dýralækna komi niður á dýravelferð.

 

Jóhann Nikulásson kynnti tillöguna.

 

Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

13. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, leggur áherslu á að hagsmunir skuldara hjá Lánasjóði landbúnaðarins verði tryggðir svo sem kostur er við niðurlagningu/sölu sjóðsins. Jafnframt hvetur fundurinn til þess að fjármálaráðgjöf á vegum BÍ og leiðbeiningamiðstöðva verði stórefld. Þetta er sérstaklega nauðsynlegt nú í gjörbreyttu viðskiptaumhverfi.

 

Jóhann Nikulásson kynnti tillöguna.

 

Þórarinn Leifsson, hvatti stjórn LK til að standa vörð um hagsmuni félagsmanna á afskekktari svæðum í þessu máli, svo að þeir fái viðunandi kjör.

 

Þórólfur. Ítrekaði að það væru áform ríkisstjórnar um að leggja sjóðinn niður, selja hann eða leggja hann saman við eitthvað annað.

 

Egill Sigurðsson, vill að því verði bætt við að andvirðið verði lagt í lífeyrisjóð bænda.

 

Stefán M. Sammála Agli. Vill tala um ráðgjafamiðstöðvar en ekki leiðbeiningamiðstöð í tillögunni.

 

Valdimar Guðjónsson tekur undir orð Egils.

 

Guðmundur Þorsteinsson er sammála ræðumönnum. Vildi þó helst að þessir peningar gætu alveg eins runnið til nágranna hans sem hann treystir betur til að gefa sér ráð í svona málum, en nokkurri ráðgjafamiðstöð. Sammála því að peningar Lánasjóðsins renni til Lífeyrissjóðs bænda. Vildi leiðrétta tölur þær sem ráðherra nefndi í gær um stöðu lífeyrisjóðsins. Ráðherra nefndi að 2,6 milljarða vantaði uppá að hann gæti staðið við sínar skuldbindingar, það voru bráðabirgðatölur, en rétta talan er nær 1,2-1,3 milljarðar. Ef það ætti að loka sjóðnum núna og reikna út áfallnar skuldbindingar, þá vantar í hann um 900 milljónir. Þetta leiðréttist hér með og staðan er ekki alveg eins slæm og menn töldu í gær.

 

Jóhann kom með nýja tillögu sem hljóðar svo:

13. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, leggur áherslu á að hagsmunir skuldara hjá Lánasjóði landbúnaðarins verði tryggðir svo sem kostur er við niðurlagningu/sölu sjóðsins. Söluandvirði sjóðsins renni til lífeyrisjóðs bænda. Jafnframt hvetur fundurinn til þess að fjármálaráðgjöf á vegum BÍ og ráðgjafamiðstöðva verði stórefld. Þetta er sérstaklega nauðsynlegt nú í gjörbreyttu viðskiptaumhverfi.

 

Tillagan samþykkt samhljóða.

 

14. Nefndin leggur til að reikningar Landssambands kúabænda 2004 verði samþykktir og að fjárhagsáætlun Landssambands kúabænda 2005 verði samþykkt.

 

Jóhann Nikulásson kynnti tillöguna.

 

Snorri Sigurðsson gerði grein fyrir reikningum og fjárhagsáætlun.

 

Gunnar Jónsson, spurði um þóknun frá verðskerðingasjóði upp á milljón. Snorri skýrði málið, LK hefur fengið þóknun fyrir að standa undir markaðsstarfi.

 

Guðmundur Þ. spurði um milljónina frá Bjargráðasjóði. Snorri svaraði því til að LK fékk peninga til að útbúa aðvörunarskilti til að setja á dyr fjósa og vara við að þar sé verið að framleiða matvæli og ekki megi vaða þar inn á skítugum skónum, ef þannig má að orði komast.  Yfirdýralæknir mun koma að þessari vinnu og verður þetta væntanlega framkvæmt í sumar.

 

Tillagan var samþykkt samhljóða að loknum þessum fyrirspurnum og svörum.

 

15. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, samþykkir að greiddir verði einn og hálfur dagpeningur í laun til aðalfundarfulltrúa.

 

Jóhann Nikulásson kynnti tillöguna.

 

Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

 

Tillögur starfsnefndar 2 í breyttri mynd:

 

Sigrún Ásta las tillögu merkta 5.

5. Aðalfundur LK haldinn á Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005 lýsir yfir miklum vonbrigðum með gerð þeirra forskráðu eyrnamerkja sem notuð hafa verið í skyldumerkingakerfi nautgripa. Bendir fundurinn á að auk þess að bæta framleiðslu merkjanna, verði framleiðanda gert að bæta þau merki sem þegar hafa verið keypt og/eða tekin í notkun.  Skorar fundurinn því á yfirdýralæknisembættið og B.Í. að tryggja nauðsynlegar úrbætur í þessum efnum.

 

Tillagan var samþykkt með smá orðalagsbreytingum, sem þegar hafa verið gerðar á henni hér að framan.

 

Tillaga merkt 6

Las nýja útgáfu

6. Aðalfundur LK haldinn á Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005 átelur þann seinagang sem orðið hefur á framkvæmd sjúkdómsskráningarkerfi nautgripa. Bendir fundurinn á að gagnagrunnur nautgripasjúkdóma innan einstaklingsmerkingakerfisins ÍMARK verði best tryggður með rafrænni sjúkdóms og lyfjaskráningu dýralækna á vettvangi. Skorar fundurinn á Landbúnaðarráðuneytið og embætti yfirdýralæknis að finna leiðir til að fjármagna þetta verkefni.

 

Tillagan var samþykkt með þorra atkvæða gegn tveimur.

 

Tillaga merkt 7

Las nýja tillögu

 

Þorsteinn spyr hvort ekki megi sleppa niðurlaginu “eftir þörfum”.

Var henni þá breytt smávegis og hljóðar hún þá svona:

7. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn að Hótel Selfossi 8. og 9. apríl 2005, bendir á mikla uppsöfnun af búnaðargjaldstillagi nautgriparæktarinnar í B-deild Bjargráðasjóðs og breyttar þarfir nautgriparæktarinnar fyrir tryggingavernd. Miðað við núverandi útgreiðslur bóta úr sjóðnum munu þessir fjármunir endast næstu 3-4 ár. Því leggur fundurinn til að inngreiðslum af búnaðargjaldi greinarinnar verði hætt. Jafnframt verði leitað eftir breytingum á lögum um Bjargráðasjóð á þann veg að tryggingar taki við af þeirri vernd sem Bjargráðasjóður hefur veitt.  Stjórnar LK vinni að málinu og leggi skýrslu og tillögu fyrir næsta aðalfund.

 

Tillagan borin undir atkvæði.

Tillagan var samþykkt með 18 atkvæðum gegn þremur.

 

11. Kosningar.

Magnús Sigurðsson framsögumaður kjörbréfa og uppstillingarnefndar gerði grein fyrir tillögu nefndarinnar og var hún eftirfarandi:

 

Formaður

Þórólfur Sveinsson Ferjubakka II

 

Meðstjórnendur

Sigurður Loftsson, Steinsholti

Egill Sigurðsson, Berustöðum II

Jóhannes Ævar Jónsson, Espihóli

Guðný Helga Björnsdóttir, Bessastöðum

 

Varamenn

1. varamaður Gunnar Jónsson, Egilsstöðum IV

2. varamaður Guðrún Lárusdóttir, Keldudal

Fundarstjóri innti fundinn eftir öðrum tillögum, þær komu ekki fram en hann ítrekaði að allir væru í kjöri.

 

Fyrst var kosið um formann og hlaut Þórólfur 29 atkvæði og Jóhannes á Espihóli 1 atkvæði, tveir seðlar voru auðir.

Sigrún Ásta Bjarnadóttir kom í pontu og fagnaði því að stillt væri upp tveimur konum.

 

Þá voru kosnir meðstjórnendur og var niðurstaðan eftirfarandi:

Sigurður Loftsson, Steinsholti                         31atkv.

Egill Sigurðsson, Berustöðum II                     30 atkv.

Jóhannes Ævar Jónsson, Espihóli                    30 atkv.

Guðný Helga Björnsdóttir, Bessastöðum          27 atkv.

 

Aðrir hlutu færri atkvæði og teljast þessi því réttkjörin.

 

Þá fór fram kosning tveggja varamanna og var niðurstaða hennar eftirfarandi.

1.varamaður Gunnar Jónsson, Egilsstöðum IV með 24 atkv.

2. varamaður Guðrún Lárusdóttir, Keldudal með 21 atkv.

 

Tillaga kjörnefndar um skoðunarmenn:

Pétur Diðriksson, Helgavatni

Magnús Hannesson, Eystri Leirárgörðum

 

Til vara

Kristján Finnsson, Grjóteyri

 

Þeir voru kosnir með lófaklappi.

 

12. Önnur mál:

Þorsteinn Rútsson. Minnti bændur á að huga að að öryggismálum við gripahirðingu. Það skiptir miklu máli að fara varlega í þessum efnum og hefur hann sjálfur einskonar öryggisgrindur, sem draga úr hættu á slysum á sínu búi við hirðingu gripanna, nauðsynlegar. Hvetur alla til að huga að þessum málum.

 

Magnús Sigurðsson. Mikil þróun hefur orðið varðandi mjaltabúnað. Við erum samt ennþá með ýmsa tækni til mjalta. Hann telur brýna ástæðu til að gera heimildarmynd um sögu mjaltatækni á Íslandi og skorar hann á stjórn LK að koma þessu í framkvæmd nú, á meðan öll þessi tækni er enn í notkun.

 

Sigmundur Sigmundsson. Það er verið að nota sömu myndbrotin í fréttum aftur og aftur og sumt af því efni er alls ekki til framdráttar fyrir stéttina. Stundum tækni án öryggisatriða, úrelt fjós o.sfrv. Vill að LK láti framleiða myndskot með myndefni sem er sæmandi stéttinni og afhendi það fréttastofum.

 

Gunnar Sigurðson á Stóru-Ökrum þakkaði stjórn fyrir góð störf á liðnum árum, auðvitað væri það ekki alltaf eins og hann vildi hafa það, en gott starf væri það engu að síður. Einnig þakka Kristínu Lindu fyrir sín störf, hún hefur komist langt með því að hamast mikið og komið miklu í verk. Tekur undir orð síðasta ræðumanns um gerð myndbrota fyrir fréttastofu. Þurfum að huga að menntunastigi stéttarinnar. Þakkar framkvæmdastjóra frábært starf almennt og ekki síst fyrir að stuðla að því að menn ferðist til útlanda og sjái aðra búskaparhætti og hefur hann farið tvær góðar ferðir með Snorra og hefur það verið góður skóli. Eigum að setja menntunina í öndvegi. Þakkar skemmtilegan fund.

 

Sigurður Loftsson. Þakkar fyrir traust við kosningu. Spennandi og skemmtilegt starf. Vill bjóða nýjan stjórnarmann velkominn. Þakkar Kristínu Lindu fyrir gefandi samstarf. Sem formaður Félags kúabænda á Suðurlandi þakkar hann fyrir samveruna hér, félagið lagði áherslu á að ná fundinum hingað á Selfoss. Heiður og ánægja að fá að hafa fundinn hér.

 

Þorsteinn Rútsson. Þakkaði Kristínu Lindu sérstaklega fyrir hennar störf að markaðssetningu nautakjöts, þar er góð grunnvinna sem gott er að byggja á.

 

13. Fundarslit.

Fundastjóri þakkaði fyrir hönd fundarstjóra fyrir þolinmæðina og góðan fund.

 

Þórólfur steig svo í pontu og þakkaði traust við kosningu til formanns.  Þá þakkaði hann Kristínu Lindu sérstaklega hennar störf en hún hefur komið með nýja vídd inn í stjórnina. Þakkar góðar veitingar og fundarstjórunum góð störf og fundarritara, sem skili vonandi góðri fundargerð. Þá þakkaði hann stjórn LK, sem og starfsmönnum fundarins þeim Snorra Sigurðssyni, framkvæmdastjóra LK og Margréti Helgu Guðmundsdóttur, ritara LK, og sleit svo fundi.

 

                                                            Fundarritari; Sverrir Heiðar