Beint í efni

Fundargerð aðalfundar 2004

17.04.2004

Aðalfundur Landssambands kúabænda 2004

 

Aðalfundur Landssambands kúabænda 2004 var haldinn á Hótel KEA, Akureyri, dagana 16. – 17. apríl 2004 og hófst kl. 10:00.

 

Þetta var gert:

 

1. Fundarsetning.
Þórólfur Sveinsson, formaður Landssambands kúabænda, setti fundinn og bauð fulltrúa og gesti velkomna.

 

2. Kosning starfsmanna fundarins:

1. Kosinn fundarstjóri og varafundarstjóri. 
Tillaga kom fram um að Valdimar Guðjónsson yrði kosinn fundarstjóri og Birgir Ingþórsson aðstoðarfundarstjóri og var hún samþykkt samhljóða.

2. Kosinn ritari. 
Tillaga kom fram um að Gylfi Þór Orrason yrði ritari fundarins og var hún samþykkt samhljóða.
 
3. Kosning Kjörbréfa- og uppstillingarnefndar.
Kosningu hlutu Magnús Sigurðsson, Gunnar Eiríksson og Ásthildur Skjaldardóttir.

 

4. Skýrsla stjórnar og fagráðs.

Skýrsla stjórnar og fagráðs var flutt af Þórólfi Sveinssyni og fer ræða hans, er hann fylgdi henni úr hlaði, hér á eftir í heild sinni:

 

Þórólfur Sveinsson, formaður Landssambands kúabænda

Ágætu fulltrúar;  góðir gestir.

Ég vísa til framlagðra gagna um störf Landssambands kúabænda frá síðasta aðalfundi. Skýrsla um störf stjórnar og framkvæmdastjóra hefur verið send til fulltrúa, sem og samantekt um störf fagráðs í nautgriparækt. Þessar skýrslur eru nokkuð ýtarlegar og því verður umfjöllun um félgsstarfið stillt í hóf hér.

 

 Almennt er við það miðað að skipulagt nautgriparæktarstarf á Íslandi hafi byrjað með stofnun nautgriparæktarfélaganna árið 1903 og hafi því átt aldarafmæli á síðasta ári. Í bókinni ,,Íslenska mjólkurkýrin´´ segir m.a. um upphaf ræktunarstarfsins ,,Búnaðarfélag Íslands hóf að styðja kynbótastarf þegar um miðja 19. öld en eftir að Guðjón Guðmundsson var ráðinn búfjárræktarráðunautur árið 1902 komst meiri festa í starfsemina. Árið 1905 voru svo sett lög á alþingi um kynbætur.

 Tilgangur búfjárræktarlaganna frá 1905 var m.a. að tryggja að kúakynið gæfi sem mesta og besta mjólk, sé hraust og samkynja að útliti og eiginleikum með fast arfgengi. Hefur þessari stefnu í raun verið fylgt síðan og mest áhersla lögð á að bæta mjólkurlagni kúnna en jafnframt að útrýma göllum þeirra, einkum júgurgöllum. Guðjón Guðmundsson taldi að markmiðið með nautgriparæktinni ætti að vera mjólkurframleiðsla og það ætti að keppa að því að fá sem mesta mjólk eftir hverja fóðureiningu sem kúnni væri gefin. Ekki taldi hann að nota ætti nautgripi til dráttar, þar væri hesturinn heppilegri því hann er meðfærilegri“.

 Árið 1904 eru starfandi sex nautgriparæktarfélög á svæðinu frá Skaftafellssýslu í austri til Kjalarness í vestri, og sjöunda félagið sem þá er talið á bókum er Kúakynbótafélag Hörgdæla. Guðjón ráðnautur sem fyrr er nefndur segir um þetta í grein í Frey: ,,Orsökin mun aðallega sú, að ég gat ekki komið við að ferðast um fyrir norðan í sumar sem leið, en gömul og ný reynsla sýnir, að með ritgjörðum og bréfaskriftum er ekki hægt að hafa eins mikil áhrif og með samræðum og fundahöldum“. 

Það færi vel á því að atvinnugreinin í samstarfi við landbúnaðarráðuneytið minnist á næsta ári aldarafmælis hinna fyrstu búfjárræktarlaga. Jafnframt er rétt að þakka hér það sem nær stendur í tíma, kúasýninguna  ,,Kýr 2003“ sem haldin var með glæsibrag hér í Eyjafirði sl. sumar. 

 

 Ytri aðstæður voru nautgriparæktinni almennt hagfelldar á síðasta ári og sá vetur sem við kveðjum eftir nokkra daga hefur verið mildur og snjóléttur.

 Óvenjulegur samdráttur hefur verið í innvigtun mjólkur það sem af er verðlagsárinu. Skýringarnar eru í óræðum hlutföllum minni heygæði og færsla á burðartíma kúnna. Vonandi vex framleiðslan næstu mánuði þannig að endar nái saman. Minnt skal á að greiðslumarkið er reiknað 25 % frá sölu á fitugrunni og 75 % frá sölu á próteingrunni. Þetta þýðir miðað við núverandi neyslumynstur að viðvarandi þörf er á próteini úr 2 – 3 milljónum lítra af umframmjólk á hverju ári til að mæta þörfum innlenda markaðarins.

 

Verð á mjólk hækkaði um 2,4 % til framleiðenda 1. janúar sl., án þess að verð til neytenda þyrfti að hækka. Það er fagnaðarefni að afkoma mjólkuriðnaðarins gerði þetta mögulegt og vissulega góður árangur ef hægt verður að halda verðinu óbreyttu til neytenda út þetta ár. 

 Sala mjólkurvara hefur gengið í meðallagi og á þessu stigi ekki hægt að fullyrða hvort greiðslumarkið helst í 105 milljónum lítra eða fer í 104 millj. ltr. Alltaf þarf að hafa í huga að greiðslumarkið fer eftir því hvernig okkur gengur að markaðssetja afurðirnar. Nú hefur verið ákveðið að sækja fram í því efni, bæði almennt á vegum Markaðsnefndar mjólkuriðnaðarins og með sérstöku skólamjólkurverkefni sem hófst 24. september sl. með skólamjólkurdegi sem haldinn var um allt land. Þarna þarf að halda áfram því í sölu- og markaðsmálum má aldrei slaka á.

 

 Af faglegum vettvangi í nautgriparæktinni má nefna að nú styttist í að nýtt fjós á Hvanneyri verði tilbúið til notkunar og vondandi verður það lyftistöng fyrir kennslu og annað faglegt starf í nautgriparæktinni. Á árinu fór í gang sérstakt verkefni sem hefur það markmið að kynna bændum valkosti og möguleika varðandi tæknilausnir í fjósum, mjög brýnt verkefni. Kálfadauði og frjósemisvandamál eru verulegt áhyggjuefni og óhjákvæmilegt að leggja aukna áherslu á að finna ástæður vandans og leiðir til úrbóta.

 

 Liðið starfsár hefur verið vissulega viðburðaríkt og nokkuð annasamt hjá Landssambandi kúabænda. Tvennt ber þó hæst. Annars vegar var lokið við þá stefnumótun fyrir nautgriparæktina sem síðasti aðalfundur fjallaði um, og hins vegar er starf nefndar sem landbúnaðarráðherra skipaði til að kanna framkvæmd núgildandi mjólkursamnings og gera tillögur um stefnumótun fyrir greinina og undirbúa þannig gerð næsta samnings.

 Hvað stefnumótunina varðar þá er með hana eins og önnur mannanna verk á þessu sviði, að forsendur breytast og stefnumörkun sem þessi getur ekki gefið svör við öllum spurningum sem breyttar aðstæður bera með sér. Mestu skiptir að það er okkur nauðsynlegt að setjast niður öðru hvoru og íhuga hvaða þættir það eru sem ráða mestu um framtíð okkar, og að því marki sem það er á okkar valdi, reyna að átta okkur á því hvert við viljum stefna. Það er mitt mat að stefnumörkunin hafi hjálpað okkur til þessa og að þeim tíma og fjármunum sem ráðstafað var í þetta verkefni hafi verið vel varið.

 

 Mikil vinna var lögð í að finna færar leiðir til að styðja við framleiðslu á úrvals nautakjöti. Mótað var verkefni sem því miður náðist ekki að koma af stað eins og til stóð. Þess í stað var greiddur nokkur stuðningur til að koma til móts við brýnustu þörfina í þessu efni. Að öðru leyti verður fjallað um málið í tengslum við gerð nýs mjólkursamnings. Segja má að nautakjötið hafi sloppið eftir atvikum vel í hrunadansi kjötmarkaðarins. Vefurinn okkar, kjöt.is, hefur gengið vel og fjöldi áskrifenda með því mesta sem gerist með slíka vefi.

 

 Niðurstaða nefndar landbúnaðarráðherra hefur þegar verið kynnt á fundum sem aðildarfélög LK héldu nú í vetur. Það er sérstök ástæða til að þakka landbúnaðarráðherra skipan þessarar nefndar og ráðuneytinu fyrir  þátt þess í vinnunni. Skýrsla hópsins er góð greining á stöðu nautgriparæktarinnar, þróun hennar á gildistíma núgildandi mjólkursamnings, og tillögur um markmið og leiðir í nýjum mjólkursamningi. Það er mjög jákvætt að full samstaða varð í nefndinni um þann texta sem skilað var og vil ég þakka nefndarfólki öllu fyrir málefnalegt starf. Rétt er að viðurkenna og benda á að að eitt atriði hefur sérstöðu í kaflanum Tillögur nefndarinnar. Um eitt atriði sem þar er nefnt var ágreiningur og er gerð glögg grein fyrir honum í eftirfarandi texta: ,, Í ljósi þess að það getur orkað tvímælis að óheft samþjöppun geti átt sér stað í grein sem nýtur jafnmikils opinbers stuðnings og raun ber vitni í tilfelli mjólkurframleiðslunnar komu fram hugmyndir innan nefndarinnar um hámark á þá bústærð sem beinar greiðslur eru greiddar á, þó með þeim hætti að slíkt dragi ekki til skaða úr stærðarhagkvæmni í framleiðslunni.  Með þessu móti væri jafnframt verið að koma til móts við kröfur um sjúkdómavarnir, dýravelferð og heilnæmi afurðanna og þar með styrkja ímynd og stöðu framleiðslunnar í samkeppni við erlendar búvörur.  Skiptar skoðanir voru þó um ágæti slíkra tillagna, ekki síst í ljósi þeirrar nauðsynjar að tryggja sem mesta hagkvæmni í framleiðslunni svo greinin geti farsællega tekist á við þá vaxandi erlendu samkeppni sem blasir við á komandi árum´´. Einmitt þetta atriði hefur talsvert verið rætt síðustu vikur og það er verkefni samninganefnda bænda og ríkis að finna þarna farsælan meðalveg. 

 Skýrsla hópsins er mikil að vöxtum og verður ekki endursögð hér, en  hvað stöðumatið varðar vil ég sérstakleg draga fram punkt þar sem segir ,, Frá 1. september 1998 til 31. ágúst 2003, hafa viðskipti með greiðslumark á milli lögbýla numið tæplega 25 milljónum lítra.  Það er að meðaltali 4,7% af greiðslumarkinu ár hvert.  Á sama tíma urðu handhafabreytingar á greiðslumarki á lögbýlum, án þess að greiðslumark færðist milli lögbýla, um 21 milljón lítra.  Það er um 4% greiðslumarksins ár hvert.  Í einhverjum mæli er sama greiðslumarkið selt oftar en einu sinni en allt að 45% greiðslumarksins hefur skipt um eigendur á þessu fimm ára tímabili“. Þetta er ótvírætt lýsing á atvinnugrein í mikilli þróun og á ekki að koma neinum á óvart þó þessari þróun hafi fylgt tímabundin skuldasöfnun. Með sama hætti er erfitt að lýsa niðurstöðunni í fáum orðum. Þó má segja að kjarni málsins sé dregin saman þar sem segir í 8. kafla skýrslunnar ,, Stöðnun einkenndi rekstur kúabúa þegar drög voru lögð að gildandi mjólkursamningi. Það er mat nefndarinnar að sú þróun sem átt hefur sér stað á gildistíma núgildandi samnings sé um margt jákvæð og að styrkleikar núverandi fyrirkomulags vegi þyngra en veikleikar. Því leggur nefndin til að næsti mjólkursamningur verði gerður á sömu grundvallarforsendum og gildandi samningur“.  Það er að sjálfsögðu gott að fá með þessum hætti staðfestingu á því sem við höfum haldið fram um þróun og stöðu greinarinnar. Hins vegar má aldrei gleyma því að það eru undirritaðir samningar og staðfest lög frá Alþingi en ekki góðar álitsgerðir sem skipta máli þegar upp er staðið.

 

 Úr því minnst er á Alþingi þá er rétta að geta þess að nú eru þar til umfjöllunar óvenju veigamikil mál er snerta landbúnaðinn. Annars vegar Jarða- og ábúðalög sem hafa verið lengi í endurskoðun og eru nú að koma til endanlegrar afgreiðslu, annað hvort á vorþingi eða í haust. Hins vegar frumvörp um niðurlagningu Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, og í framhaldi af því stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands. Þetta er afar afar athyglisvert mál og full ástæða til að óska landbúnaðarráðherra til hamingju með hversu hér er gengið hreint til verks. Í þessu sambandi langar mig að minna á greinargerð dönsku ráðgjafanna sem RANNÍS-hópurinn fékk til að skila áliti um íslenska mjólkurframleiðslu. Í álitinu segir m.a. ,,Eins og staðan er í dag, er í landbúnaðarrannsóknum reynt að ná yfir alla þætti landbúnaðarframleiðslunnar, en í sumum tilvikum eru fjáveitingar til rannsókna einfaldlega of litlar til að það sé unnt að gera vel. Þess vegna ber að þrengja landbúnaðarrannsóknir við tiltekin rannsóknasvið og taka í meira mæli upp samvinnu á formlegum grundvelli við rannsóknarstofnanir í löndum með áþekk framleiðsluskilyrði. Mjög mikil umræða hefur farið fram á Íslandi um skipulag landbúnaðarrannsókna. Á því er ekki vafi að sameining Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins muni reynast hagkvæm vegna minni stjórnunarkostnaðar og bættrar nýtingar rekstrarþátta. Slík sameining mun sennilega einnig leiða af sér meira hvetjandi rannsóknarumhverfi og bæta rannsóknirnar.  Það er vel þegar faglegar álitgerðir nýtast svo vel fyrir ákvarðanatöku ráðuneytisins. Í kjölfarið hlýtur að koma til endurskoðunar á öðrum þáttum fagstarfsins og staðsetningu stjórnsýsluverkefna sem landbúnaðinn varða og hið opinbera kostar. Það snertir vonandi hina nýju stofnun að eitt af þeim vandamálum sem upp komu í starfi mjólkurhópsins sem fyrr var nefndur, var hversu erfitt reyndist að leggja mat á afkomu kúabænda á undanförnum árum. Það kemur fulltrúum hér væntanlega ekki á óvart því þetta höfum við margrætt á undangengnum aðalfundum. Vissulega hefur einyrkjarekstur eins og mjólkurframleiðslan oftast er, ýmsa sérstöðu svo sem að erfitt er að skilgreina vinnutíma með sama hætti og þar sem launafólk á í hlut. Fleira mætti nefna, en það er talsvert alvarlegt mál að geta ekki lagt fram hliðstæðar upplýsingar um heildarafkomu kúabænda eins og við getum gert fyrir mjólkuriðnaðinn. Það verður að leita leiða til þess að svo geti orðið eins og mjólkurhópurinn bendir á í  skýrslu sinni. Þetta snertir hinn nýja Landbúnaðarháskóla þannig að með stofnun hans er tækifæri til að skipuleggja hvernig hinu vanrækta sviði hagrannsókna skuli sinnt. Kannski væri skynsamlegt að vista núverandi Hagþjónustu landbúnaðarins innan hins nýja skóla og gera hana þar að kjarna hagfræðilegs fagstarfs í landbúnaði? Sjálfsagt koma fleiri leiðir til greina, mestu skiptir að bæta úr brýnni þörf fyrir öflugra starf á hinu hagfræðilega sviði í íslenskum landbúnaði því við svo búið má ekki standa.

 

 Líklega rekur einhverja viðstadda minni til þess að ég gaf kost á mér til formennsku í Bændasamtökum Íslands nú í vetur. Sú  ákvörðun var að sjálfsögðu tekin vegna fjölda áskorana þar um en ekki varð það nú niðurstaðan að ég sæti uppi með starfið. Ég óska nýjum formanni Bændasamtaka Íslands velfarnaðar í starfi og vona að hann, ásamt öðrum stjórnarmönnum þessara heildarsamtaka bænda, sveigi starf samtakanna að hinum fjölmörgu sameiginlegu hagsmunamálum bændastéttarinnar sem verður að veita meiri athygli en gert hefur verið. Hið hversdagslega amstur í kringum framleiðslu og sölu hjá hverri búgrein hlýtur að vera og verða búgreinamál, en því sameiginlega verða Bændasamtök Íslands að sinna. Þar er sannarlega af nógu að taka.

 

Þá er það samningurinn um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar. Á fundunum sem aðildarfélögin héldu í vetur var farið yfir það sem ætla mætti að yrði megin viðfangsefni í samningavinnunni. Allt hefur það farið eftir, hingað til að minnsta kosti. Svo sem þar var gert ráð fyrir er líklegt að þau markmið sem sátt náðist um í mjólkurhópnum verði markmið nýs samnings. Þessi markmið eru:

  • Að almenn starfsskilyrði í framleiðslu og vinnslu mjólkurafurða og stuðningur ríkisins við greinina stuðli að áframhaldandi hagræðingu, bættri samkeppnishæfni og lægra vöruverði.
  • Að fjárhagslegur stuðningur ríkisins við greinina nýtist sem best til að lækka vöruverð til neytenda.
  • Að viðhaldið verði þeim stöðugleika sem náðst hefur milli framleiðslu og eftirspurnar.
  • Að greinin fái svigrúm til að búa sig undir aukna erlenda samkeppni.
  • Að greinin geti þróast þannig að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið í hópi mjólkurframleiðenda og unnt sé að endurnýja framleiðsluaðstöðu með eðlilegum hætti.
  • Að gætt sé sjónarmiða um dýravelferð og heilnæmi afurða.

 

Þau atriði sem nú eru til umfjöllunar eru þá þær leiðir sem fara á til að ná þessum markmiðum. Það eru atriðin sem við ræddum á fundunum í vetur, svo sem heildarstuðningurinn og form stuðnings, hugsanlega þrepaskiptur stuðningur og fyrirkomulag verðlagningar, bæði til bænda og afurðastöðva. Við þetta má svo bæta stuðningi við nautakjötið eins og við ályktuðum um á síðasta aðalfundi. Rétt er að gera svokallaðar grænar greiðslur nokkuð að umtalsefni. Í áliti mjólkurhópsins segir ,,til að stuðla að lækkun á verði greiðslumarks telur nefndin koma til greina að nokkur hluti beingreiðslnanna verði greiddur á alla innvegna mjólk óháð greiðslumarki og/eða sem sérstakur óframleiðslutengdur stuðningur, sem uppfyllir skilyrði WTO um grænar greiðslur“ Það verður að koma fram að svokallaður ,,grænn stuðningur“ er safnheiti og á í sumum tilvikum ekkert sameiginlegt nema nafnið. Það eru ákveðnir möguleikar til að fara þessa leið í nokkrum mæli án þess að valda umtalsverðri röskun á stöðu einstakra framleiðenda. Þetta skiptir mjög miklu máli því eitt það allra þýðingarmesta sem við verðum að hafa í huga er réttur og staða þeirra sem hafa keypt þau réttindi sem fylgja greiðslumarki til mjólkurframleiðslu. Þau réttindi hafa verið keypt til viðkomandi jarðar, samkvæmt gildandi reglum og það hvílir á okkur mjög rík skylda að þessi réttindi eða þær greiðslur sem þau tryggja, verði í sem minnstum mæli tekin af viðkomandi jörðum með kerfisbreytingum. Annað sem er rétt að nefna varðandi grænan stuðning er það hvort hann hefur eftir kerfisbreytingu áhrif á verð til neytenda. Það hafa verið og eru þýðingarmestu rökin fyrir núverandi formi stuðnings við mjólkurframleiðsluna, að tryggt er að hver króna sem til þessa verkefnis er varið, kemur til lækkunar á vöruverði til neytenda. Þetta er sú grunnforsenda sem samkomulag varð um í þjóðarsáttinni 1990 og hefur haldist svo síðan. Það hlýtur að vera öllum sem málið varðar mikið hagsmunamál að svo verði áfram.

Hvað tímaþátt málsins varðar þá hefur það legið fyrir í heilt ár að þrjár leiðir koma til greina:

A: Gera mjólkursamning og  nauðsynlegar lagabreytingar í vetur.                

B: Gera mjólkursamning fyrir 1. júlí og ljúka nauðsynlegum lagabreytingum í haust.                                                                                                                     C: Gera viðaukasamning vegna mjólkuriðnaðarins fyrir 1. júlí n.k. og mjólkursamning í haust.

 Sú leið sem við höfum stefnt að og er ákjósanlegust, er að ljúka málinu í vetur eða vor. Hvort sem samningavinnan tekur lengri eða skemmri tíma þá skulum við muna að það er innihald samningsins sem skiptir máli en ekki aðdragandinn að honum. Efni núgildandi samnings sem hefur reynst svo vel, var ekki lögtekið fyrr en á vorþingi 1998, en gildistakan var 1. september sama ár. Ég er bjartsýnn á að samningur sé stutt undan og við erum ekkert að gefast upp.

 

 Nokkur orð um mál sem við höfum margrætt á þessum vettvangi. Þar er um að ræða þá réttaróvissu sem uppi er varðandi starfsumhverfi mjólkuriðnaðarins eftir að hætt verður að verðleggja mjólkurvörur á heildsölustigi, en að óbreyttum ,,Samningi um starfsskilyrði mjólkuframleiðslunnar“ gerist það núna 1. júlí n.k. Það var niðurstaða margnefnds mjólkurhóps að ekki séu forsendur til að hverfa nú frá opinberri verðlagningu og má segja að skilningur á kostum þess skipulags sem við búum við hafi aukist verulega. Jafnframt er nú þessar vikurnar unnið að faglegri skoðun þessara mála á vegum landbúnaðarráðuneytisins og full ástæða til bjartsýni um niðurstöðu úr þeirri vinnu. Jafnframt er unnið að hagræðingu á vettvangi samlaganna og vonandi að sú vinna sem þar er í gangi skili árangri.

 

 Þó margt hafi gerst og ýmislegt í umhverfi okkar sé að breytast, er ljóst að öllu framar þurfum við að treysta þann faglega grunn sem við byggjum starf okkar á og leita allra færra leiða til að hagræða í rekstri. Ítrekað skal að við erum að framleiða gæðavöru og okkur eru allir vegir færir hvað þann þátt varðar. Hins vegar er hár framleiðslukostnaður mjólkur á Íslandi það viðfangsefni sem við verðum að takast á við af mikilli alvöru á komandi árum. Einmitt þess vegna vil ég enn á ný taka undir það sem segir í RANNÍS-skýrslunni þar sem fjallað er um opinberar aðgerðir ,,Áríðandi er að þær breytingar sem stjórnvöld kunna að gera dragi ekki úr hvata til hagræðingar“.

 

Um leið og ég lýk þessari skýrslu til aðalfundar Landssambands kúabænda árið 2003, vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu aðilum og stofnunum sem hafa átt samskipti við Landssamband kúabænda á liðnu starfsári. Að ýmsu leyti hefur reynt venju fremur á stjórnina á liðnu ári. Ekki skal dæmt um frammistöðu formanns, en stjórnarmennirnir Sigurður Loftsson, Egill Sigurðsson, Kristín Linda Jónsdóttir og Jóhannes Jónsson hafa að mínum dómi staðið sig vel og eru þökkuð góð samskipti. Sama gildir um varamennina Gunnar Jónsson og Skúla Einarsson, og síðast en ekki síst  Snorra Sigurðsson framkvæmdastjóra.

 

 Megi aðalfundur Landssambands kúabænda skila góðu verki.

 

 

5. Erindi.

1. Útflutningsmöguleikar mjólkurafurða.
Þórarinn Egill Sveinsson, mjólkurverkfræðingur og starfsmaður félagssviðs Bændasamtaka Íslands, flutti erindi um útflutningsmöguleika mjólkurafurða.

 

6. Ávörp gesta:

 

1. Ávarp Guðna Ágústssonar, landbúnaðarráðherra.

Ráðherra hóf mál sitt með því að fjalla um hið markverða starf sem LK hefur unnið að á undanförnum árum. Landbúnaðurinn væri í mikilli þróun og innan hans væri víða unnið að nýsköpun og framförum, en menn gera sér jafnframt grein fyrir því að ýmis erfið verkefni bíða úrlausnar. Hann hrósaði formanni LK fyrir hina góðu og skýru stefnumótun sem komið hefði fram í ræðu hans. Þá lýsti hann ánægju sinni með erindi Þórarins Egils Sveinssonar, sem hvatti kúabændur til að huga stöðugt að framtíðinni með heiminn allan að markmiði. Þær afurðir landbúnaðarins sem við flytjum út, hvort sem það eru mjólkurafurðir, lambakjöt eða íslenski hesturinn, eigum við bara til í takmörkuðu magni og því verðum við að selja þær dýrt og á grundvelli gæða, hollustu og sérstöðu Íslands. En þar eigum við vissulega tækifæri. Stærsta málið er hins vegar að halda vel utan um heimamarkaðinn og það hafa mjólkurframleiðendur vissulega gert í gegnum tíðina. Við þurfum þó að herða okkur í sambandi við nýmjólkina sem hefur látið undan síga í baráttunni á markaðnum á undanförnum árum. Það yrði mikill búhnykkur fyrir kúabændur ef þeir næðu sambandi við unga fólkið og fengu það til þess að drekka meiri mjólk. Heilbrigðisyfirvöld hafa bent á hollustu nýmjólkurinnar, sem gefur okkur kalkið til að styrkja beinin og leggja þannig inn í forðabúrið fyrir fullorðinsárin. Ráðherra flutti kúabændum bestu kveðjur ríkisstjórnarinnar og þakkaði LK fyrir gott samstarf undanfarin ár. Hann kvaðst hefði viljað að samningagerð um nýjan mjólkursamning væri lengra komin en raun ber vitni, en gerð aðlögunarskýrslunnar hefði tekið lengri tíma en ætlað var. Það væri hins vegar fyrir mestu að það hafi tekist að ná samstöðu um hana með aðilum vinnumarkaðarins. Ráðherra kvaðst gera sér grein fyrir því hversu mjólkurframleiðendum væri mikilvægt að nýr samningur sæi dagsins ljós sem fyrst þannig að þeir gætu séð langt fram í tímann í ákvörðunum sínum. Forystumenn stjórnarflokkanna eru sammála um að vilja gera langtímasamning við kúabændur á grundvelli þess samnings sem nú gildir. Hins vegar verður ekki hjá því komist við samningagerðina nú, að sníða af nokkra vankanta af þeim samningi og horfa með nýjum hætti til framtíðar næstu 6-8 árin. Markmið samnings eru að tryggja áframhaldandi samstöðu um búgreinina á meðal kúabænda og þjóðarinnar allrar. Einn af vanköntum núgildandi samnings er hátt kvótaverð, framhjá því verður ekki litið. Óvíst er að það sé heppilegt fyrir framtíð mjólkurframleiðenda og mjólkuriðnaðarins að svo verði til framtíðar. Við verðum að læra af áföllunum í svínaræktinni. Óvíst er hvort að okkur takist að halda þeirri búgrein í landinu ef svo heldur áfram sem horfir. Hagræðing í framleiðslunni sem kostuð er með skuldaaukningu hjá bönkunum er ekki neytendum í hag til lengri tíma litið. Það getur ekki talist eðlilegt að verð mjólkurkvóta sé kr. 265 á lítra. Menn vita ekki um niðurstöður næsta samnings og stutt er eftir af núgildandi samningi. Það verður að skoða verðmyndun kvótans og leita nýrra leiða til að lækka hann í verði.  Ekki er sjálfgefið að stóru glæsilegu búin komist með sama áframhaldi til næstu kynslóðar ef kvótinn einn kostar kr. 50-100 milljónir og jörðin síðan annað eins.  Hvernig á afkomandinn að geta tekið við af foreldrum sínum undir slíkum kringumstæðum, því  hin systkinin vilja líka sinn arf? Mikilvægt er að menn taki sér þann tíma sem þarf til að skoða breytingar á samningnum þó að grunnurinn verði sá sami. Í því sambandi þarf m.a. að hugleiða hvort að greiða eigi hluta stuðningsins út á korn og endurræktun túna. Ný hugsun í kringum ræktun landsins hefur skilað bændum miklu á undanförnum árum og endurræktun túna, kálrækt og kornrækt hefur skilað bændum miklu. Þá er það ekki sjálfgefið að það verði einungis hagkvæmt að framleiða ost í íslenskum landbúnaði. Alls staðar í heiminum er nautakjötið dýrasta kjöttegundin. Það er því slæmt að hugsa til þess ef íslenskir bændur hafa ekki efni á að framleiða það, því það mun hafa innflutning í för með sér með allri þeirri hættu sem honum er samfara. Staðreyndin er sú að það getur vart talist hyggilegt að kaupa kvóta og borga fyrir hann kr. 25-30 pr. lítra í vexti og afborganir af lánum til kaupanna til þess að tryggja sér kr. 38 í beingreiðslur. Markmiðið hlýtur að vera það að bæta afkomuna frekar en eingöngu að vera eignaaukning. Neytendur vilja lækkað verð mjólkurafurða og hafa fengið það á sl. 10 árum. Innfluttar landbúnaðarafurðir og fiskurinn úr sjónum hafa hækkað gríðarlega á sama tíma og rjómi og smjör hafa lækkað mikið. Landbúnaðurinn hefur verið að koma til móts við neytendur og mun gera það áfram. Þetta virða neytendur. Standa verður vörð um afurðastöðvarnar. Þær eru miðstöðvar þróunar- og markaðsstarfseminnar og þeim má ekki sundra. Við þurfum að koma í veg fyrir að samkeppnislög verði æðri búvörulögum. Samstaða er um það í ríkisstjórninni að verja mjólkuriðnaðinn. Samkeppnin á smásölumarkaði er m.a. háð því að það takist. Stórir aðilar eru nú komnir með um 75% af smásöluversluninni og ef mjólkuriðnaðinum verður fórnað á altari samkeppnislaganna, þá munu smáu söluaðilarnir ekki lifa af. Opinber verðlagning mjólkurafurða hefur verið til heilla fyrir neytendur í gegnum tíðina en að henni er vegið. Opinber verðlagning hefur lækkað verð mjólkurafurða meira en nokkuð annað, neytendum til hagsbóta, og á sama tíma tryggt lífsafkomu bænda. Ég hef verið skammaður fyrir þá hugsjón mína að mjólkurframleiðsla þrífist best á fjölskyldubúi. Fólkið í Reykjavík á sér sömu sýn í þessum efnum og fólkið í sveitunum. Við skulum verja fjölskyldubúsformið og halda því áfram. Menningarlíf sveitanna byggir m.a. á því búformi. Þróunin í stækkun búanna til hagræðingar verður að vera innan skynsamlegra marka. Að lokum þakkaði hann forystumönnum LK fyrir gott samstarf á undanförnum árum og óskaði kúabændum velfarnaðar í baráttu sinni við að auka sölu framleiðsluvara sinna innanlands sem utan.

 

2.  Ávarp Haraldar Benediktssonar, formanns Bændasamtaka Íslands.

Ræðumaður kvað landbúnað á Íslandi í gegnum tíðina hafa verið borin uppi af sauðfjárbúskap og kúabúskap.  Þessar greinar eru nú hins vegar að breytast í fámennisgreinar og aðrar búgreinar að verða meira áberandi í flóru landbúnaðarins.  Okkur er því holt að minnast þess að það er fleira landbúnaður í dag en mjólk og kjöt. Bændur eru stöðug að taka afdrifaríkar ákvarðanir um framtíðina, eiga þeir að stækka við sig eða hætta búrekstri?  Við þurfum að stefna að því að bæta aðbúnaðinn við framleiðsluna til þess að fara betur með heilsu bænda. Slíkar breytingar kalla á miklar fjárfestingar og í þeim efnum verður að fara varlega. Hann kvaðst gera sér grein fyrir því að menn sæju tvær hliðar á hinu háa verði greiðslumarksins. En hvaða skilaboð eru kúabændur að senda frá sér út í þjóðfélagið með þessu háa kvótaverði? Atvinnugreinn stendur frammi fyrir miklum breytingum og menn verða að huga að skuldsetningu búa sinni er þeir taka ákvörðun um kvótakaup á slíkum verðum. Það er ekkert sem bendir til þess að það framsalskerfi framleiðslukvóta sem við nú búum við verði aflagt á næstunni þannig að það er enginn að missa af lestinni. Síbreytilegt alþjóðaumhverfi veldur því að menn eru stöðugt á tímamótum í skipulagningu framleiðslunnar.  Við þurfum að fara að huga að því að gera rammasamning við ríkisvaldið sem gildi fyrir landbúnaðinn í heild. Mjólkursamningurinn og fleiri slíkir verði þannig hluti af slíkum samningi. Það eru gömul sannindi og ný að hagsmunir allra bænda liggja saman og við verðum að gæta okkur á því að dreifa ekki kröftnum meira en orðið er og missa sjónar á heildarhagsmunum stéttarinnar. Stöðugt fækkar í hefðbundnum landbúnaði og við verðum að skoða þróun undanfarinna ára gagnrýnum augum. Við verðum að vera sjálfum okkur samkvæm í orðum og gjörðum. Kjötgreinarnar hafa verið að senda BÍ hugmyndir sínar í tengslum við kjötframleiðsluspá fyrir kjötmarkaðinn í heild. Þar kemur m.a. fram að sauðfjárbændur eiga von á minnkandi framleiðslu á árinu, framleiðsla nautakjötsins er talin munu standa nokkrun vegin í stað, en en fugla- og svínabændur eiga von á svipaðri framleiðslu og á sl. ári, sem er óskiljanlegt í ljósi þeirra verða sem þeir fengu þá fyrir framleiðsluna. Að lokum árnaði hann fundinum heilla í störfum sínum og áréttaði að LK væri ein öflugasta stoð Bændasamtakanna.

 

3.  Ávarp Magnúsar B. Jónssonar, rektors Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri.

Ræðumaður flutti fundinum kveðjur starfsfólks og nemenda LBH.  Miklar breytingar hafa orðið á starfi skólans síðan Landbúnaðarháskólinn var stofnaður árið 1999 á rótum Bændaskólans.  Námsbrautum hefur fjölgað og námssvið verið útvíkkuð í samræmi við fjölþættar hlutverk landbúnaðarins.  Þá hefur það styrkt ímynd Hvanneyrar að hafa megnað að laða ýmsar stofnanir þangað með starfsemi sína. Þrátt fyrir aukna áherslu á háskólanám í búvísindum hefur á engan hátt verið dregið úr þeim metnaði sem lagður er í starfsnámið. Mastersnám er nú í boði í fyrsta sinn og gert er ráð fyrir að fyrstu tveir nemendurnir útskrifist fljótlega, en verkefni þeirra beggja tengjast búvísindum. Vinnuhópur hefur skilað tillögum um hvernig efla megi starfsnámið í ljósi breyttra aðstæðna þar sem meira er hugað að hinu fjölþætta hlutverki landbúnaðarins. Ennfremur að efla og styrkja rekstrarlega hluta námsins. Bændadeildin mun því taka miklum breytingum á næstu misserum.  Hann kvað það mjög mikilvægt fyrir skólann að finna fyrir stuðningi frá stéttinni við starfsnámið. Nú sér loks fyrir endann á byggingu nýs fjóss á Hvanneyri, en það verður tekið í notkun næsta sumar og því hefur síðasta kennslustundin líklega þegar farið fram í því gamla.  Enginn vafi leikur á því að tilkoma þess mun efla þá starfsemi sem tengist rannsóknum og fræðslu fyrir nautgriparæktina.  Samfara þessu hefur verið ákveðið að einn tilraunamaður sinni eingöngu verkefnum sem tengjast nýja fjósinu. Hann þakkaði LK fyrir frumkvæðið að byggingu fjóssins svo og stuðning og velvilja Framleiðnisjóðs. Þá kvað hann landbúnaðarráðherra ennfremur hafa stutt málið með ráðum og dáð. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp að breytingum að lögum um búnaðarfræðslu og rannsóknarstarfsemi í landbúnaði sem hefur það markmið að tengja saman betur rannsóknir og kennslu í heild sinni. Svo virðist sem vilji sé til þess á Alþingi að frumvarpið verði samþykkt þegar á yfirstandandi þingi og því má gera ráð fyrir að þegar næsti aðalfundur LK kemur saman verði búið að sameina þessa starfsemi undir heitinu Landbúnaðarháskóli Íslands. Að lokum óskaði hann eftir góðu samstarfi við kúabændur í framtíðinni og óskaði fundinum velfarnaðar í störfum sínum.

 

7. Niðurstöður Kjörbréfanefndar.

Magnús Sigurðssongerði grein fyrir störfum Kjörbréfanefndar. 

Fulltrúarfjöldi á aðalfundi LK árið 2004 er 33 frá 13 aðildarfélögum LK. Fjöldi og skipting fulltrúa eftir félögum byggir á samþykktum LK. Eftirtaldir aðilar munu sitja aðalfund LK 2004 fyrir hönd sinna félaga og samþykkti fundurin kjörbréf þeirra samhljóða:

 

Fyrir Mjólkursamlag Kjalarnesþings:

Ásthildur Skjaldardóttir, Bakka

Magnús Ingi Hannesson, Eystri-Leirárgörðum

 

Fyrir Mjólkurbú Borgfirðinga:

Ásbjörn Pálsson, Syðri-Haukatungu II

Jón Gíslason, Lundi

Pétur Diðriksson, Helgavatni

 

Fyrir Mjólkursamlagið í Búðardal:

Ásgrímur Bragi Konráðsson, Galtartungu

Lára Hansdóttir, Á

 

Fyrir Mjólkursamlag Ísfirðinga:

Árni Brynjólfsson, Vöðlum

 

Fyrir Nautgriparæktarfélag Vestur Húnvetninga:

Skúli Einarsson, Tannstaðabakka

 

Fyrir Félag kúabænda í Austur-Húnavatnssýslu:

Birgir Líndal Ingþórsson, Uppsölum

Magnús Sigurðsson, Hnjúki

 

Fyrir Félag kúabænda í Skagafirði:

Sigurður Baldursson, Páfastöðum

Sævar Einarsson, Hamri

Þórarinn Leifsson, Keldudal

 

Fyrir Búgreinaráð BSE í Nautagriparækt:

Guðbergur Eyjólfsson, Hléskógum (varamaður)

Sigurgeir Hreinsson, Hríshóli

Sigurgeir Pálsson, Sigtúnum

Þorsteinn Rútsson, Þverá

 

Fyrir Félag Þingeyskra kúabænda:

Ólöf Hallgrímsdóttir, Vogum

Sveinbjörn Þór Sigurðsson, Búvöllum

 

Fyrir Félag nautgripabænda á Héraði og Fjörðum:

Helga Guðmundsdóttir, Gilsárteigi II (varamaður)

Jóhann Gísli Jóhannsson, Breiðavaði (varamaður)

 

Fyrir Nautgriparæktarfélag Vopnafjarðar:

Halldór Georgsson, Síreksstöðum

 

Fyrir Nautgriparæktarfélag Austur Skaftafellssýslu:

Laufey Guðmundsdóttir, Lækjarhúsum (varamaður)

 

Fyrir Félag kúabænda á Suðurlandi:

Birna Þorsteinsdóttir, Reykjum

Grétar Einarsson, Þórisholti

Gunnar Eiríksson, Túnsbergi (varamaður)

Jóhann Nikulásson, Stóru-Hildisey

Katrín Birna Viðarsdóttir, Ásólfsskála

Sigrún Ásta Bjarnadóttir, Stóru-Mástungu

Sigurlaug Leifsdóttir, Nýjabæ

Sveinn Ingvarsson, Reykjahlíð

Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ

 

Eftirtaldir aðilar sitja aðalfund LK, án atkvæðisréttar:

Stjórn og starfsmenn LK:

Þórólfur Sveinsson, Ferjubakka (formaður)

Sigurður Loftsson, Steinsholti (varaformaður)

Egill Sigurðsson, Berustöðum

Kristín Linda Jónsdóttir, Miðhvammi

Jóhannes Ævar Jónsson, Espihóli

 

Snorri Sigurðsson, Hvanneyri (framkvæmdastjóri LK)

Margrét Helga Guðmundsdóttir, Hvanneyri (ritari LK)

 

Búnaðarþingsfulltrúar LK:

Gunnar Jónsson, Egilsstöðum

 

Aðrir búnaðarþingsfulltrúar eru jafnframt fulltrúar aðildarfélaga LK eða í stjórn LK

 

Tengiliður LK við nautakjötsframleiðendur:

Snorri Örn Hilmarsson, Sogni

 

8. Almennar umræður um skýrslur stjórnar og fagráðs.

 

1.   Sigurlaug Leifsdóttir.Ræðumaður þakkaði í fyrstu formanni fyrir góða skýrslu um starfsemina og hvað væri í deiglunni á næstunni. Hún gat þess næst að hún hafi hafið búskap fyrir sex árum og jafnframt verið dugleg að sækja sér menntun, bæði sótt bændaskóla og einnig með því að sækja bændafundi og námskeið og jafnan tekið alvarlega það sem henni hafi verið kennt. Því væri hins vegar ekki að neita að hún væri smám saman hætt að taka þessar leiðbeiningar alvarlega. Á sínum tíma var hagræðing lykilorðið, en eins og í öðrum fyrirtækjarekstri fer það saman að hagræða og stækka framleiðslueiningarnar. Hún kvaðst hafa hafið búskap með 88 þús. lítra kvóta en vera nú með um 200 þús. lítra, en jafnframt hafa sett sér það markmið að fara upp í 230 þús. lítra. Þetta gerist ekki í einu vetfangi, því auka þarf við byggingar, kaupa gripi, rækta landið o.s.frv. Þetta hefur gengið stórvel og því kvaðst hún enn vera að kaupa kvóta og vanta meira. Hún kvaðst því kunna illa við umræðuna um stærðarmörk á framleiðslueiningarnar.  Mjólkurframleiðendur hafa verið að reyna að hagræða til þess að búa sig undir samkeppnina sem brestur á þegar að innflutningi kemur. Hún kvaðst því ekki gera sér grein fyrir því hvort hennar bústærð flokkaðist undir það sem landbúnaðarráðherra kallar fjölskyldubú. Hún kvað það sína skoðun að þeir sem væru að leiðbeina bændum í þessum efnum væru komnir í heilan hring. Kúabændur kosta hagræðinguna í greininni innanfrá, en hið sama verður ekki sagt um sauðfjárræktina. Hún kvaðst stolt af því að vera kúabóndi og kvaðst ætla að halda sig við það. Að síðustu fjallaði hún um hina alvarlega stöðu sem væri í nautgripakjötsframleiðslunni og kvað hvatann fyrir bændur til þess að setja nautkálfa á ekki lengur vera til staðar.

 

      2. Sigurður Baldursson.  Ræðumaður þakkaði í fyrstu forvera sínum í pontu fyrir ræðu sína og kvað hana orð í tíma töluð. Hann kvaðst jafnframt standa í svipuðum sporum og hún. Stærðarmörk eru eitt en öryggismörk annað, en dæmi um slíkt er að finna hjá fiskvinnslufyrirtækjunum sem mega ekki eiga meira en 12% kvótans í hverri fiskitegund. Það má ekki setja stærðarmörk í dag sem hindra eðlilega  þróun til framtíðar. Það má ekki hindra það að tveir eða þrír aðilar geti hagrætt í framleiðslunni og sett eina kennitölu fyrir beingreiðslurnar. Við verðum að vera samkeppnishæf þegar að innflutningi kemur og því verðum við að reka lífvænleg bú. Afkoman í greininni er ekki nægilega góð og við hljótum að stefna að því að geta búið með reisn og haft af því tekjur.  Við þurfum að geta endurnýjað framleiðsluaðstöðuna og -tækin þegar með þarf. Um hundrað býli hafa lagst af árlega að undanförnu og sú þróun mun ekki stöðvast. Hann kvað það sína skoðun að ekki væri pláss fyrir fleiri en 4-500 mjólkurframleiðslubýli á markaðnum. Fara verður varlega í að breyta formi beingreiðslna í þá átt að greiða hluta þeirra út á land, gripi o.s.frv. Hann kvaðst þó gera sér grein fyrir að hugsanlega þurfi að aðlaga stuðningsformið að alþjóðaskuldbindingum, en við megum ekki verða kaþólskari en páfinn í þeim efnum. Finna verður leið til að styrkja nautakjötsframleiðsluna til þess að halda uppi framboðinu með því að styðja við framleiðslu í bestu flokkunum. Það er mikill munur á því sem íslenskir mjólkurframleiðendur og þeir í nágrannalöndunum fá fyrir framleiðsluna, en sem betur fer höfum við haldið okkar hlut. Bilið hefur stöðugt verið að aukast á undanförnum árum, en það er slæm þróun. Hagræðing í búrekstrinum er því verkefni sem aldrei tekur enda. Við þurfum að komast að því með tilraunum hvort mögulegt sé að rækta íslensku kúnna þannig að hún geti skilað okkur sömu arðsemi og erlend kyn.

 

      3. Laufey Guðmundsdóttir.  Ræðumaður kvað slæmt til þess að hugsa að bændur hefðu engan hvata til þess að framleiða nautakjöt þrátt fyrir að skortur væri á því á markaðnum. Ekkert skipulag er til fyrir þessa framleiðslu og hvergi er til gagnagrunnur um þá gripi sem settir eru á til framleiðslunnar. Við vitum því ekkert um það framleiðslumagn sem er væntanlegt á markaðinn á næsta ári. Því má segja að með markaðssetningu okkar á nautakjöti séum við í raun að auglýsa innflutt nautakjöt.  Fundurinn verður að álykta um stefnuna í þessum málum.

 

      4. Sigurgeir Hreinsson. Ræðumaður þakkaði í fyrstu stjórn og starfsmönnum fyrir undirbúning fundarins og fyrirliggjandi gögn og ennfremur fyrir góð erindi og ávörp. Hvernig eigum við að hagræða í mjólkurframleiðslunni og hver er æskileg þróun í greininni? Hvernig ætlum við okkur að geta keppt við innflutning ef/þegar að honum kemur?  Hvers vegna hefur verð til framleiðenda lækkað svo mikið erlendis að undanförnu? Þar hafa búin stækkað gífurlega undanfarin ár, en menn eru þar víða nánast orðnir að þrælum og afkoman fjarri því góð. Mjólkurframleiðendum í Eyjafirði hefur fækkað stöðugt allt frá því  að kvótastýringin var tekin upp. Háu verði á kvóta hefur verið kennt um, en engu að síður hefur eftirspurnin alltaf verið meiri en framboðið. Það þýðir ekki að reyna að standa á móti þessari þróun. Sú búgrein sem ekki nýtir sér tækniframfarir verður einfaldlega undir. Er víst að meiri vinna verði því samfara í framtíðinni að framleiða 3-400 þús. lítra af mjólk en fyrir föður minn að hugsa um 18 kýr á sínum tíma? Það þótti þó vera fjölskyldubúskapur. Sauðfjárræktin hefur erfiða toppa og tæknilega hefur hún átt erfitt með að þróast og því á hún nú undir högg að sækja. Vandamálið í nautakjötsframleiðslunni fellst einfaldlega í of fáum kúm fyrir vinnslurnar, en því breytum við ekki í einu vetfangi. Hins vegar er eðlilegt að menn hafi áhyggjur af því hvort samstaða náist um að greiða sama stuðning og nú út á stöðugt færri en stærri bú. Við verðum því að leggja aðaláherslu á í okkar áróðri að allur stuðningur við mjólkurframleiðendur leiði til lægra vöruverðs, hvort sem framleiðslan fari fram í einu fjósi eða tveimur.

 

      5. Þorsteinn Rútsson. Ræðumaður þakkaði formanni í fyrstu fyrir greinargóða skýrslu og gestum og fulltrúum fyrir þeirra mál. Hann kvað stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands munu vera stórt skref fram á við í hnitmiðaðri viðleitni til að ná sem mestu út úr starfi þeirra stofnana sem þar sameinuðust. Þetta er leið að því marki að tryggja að það fjármagn sem til þeirra rennur skili sér sem best til  notendanna. Þegar talað er um hagræðingu og heppilegar stærðir kúabúa verða menn að hugleiða að það er síbreytilegt hversu stór bú er hægt að reka með hliðsjón af tækniþróun. Það er mjög auðvelt að fá lánsfjármagn til þess að auka framleiðsluna og því eðlilegt að ráðherra hafi áhyggjur af því að menn geti skotið yfir markið í þeim efnum. Því þurfum við að hugleiða hvort setja þurfi eitthvað þak á bústærð, en það þak verður hins vegar að vera færanlegt til þess að geta fylgt þróuninni. Verð kvóta þarf að stjórnast af þeim sem vilja vera eftir í greininni en ekki þeim sem nota kvótasölu til úreldingar fjósa. Það verður að halda áfram samstarfi í mjólkuriðnaðinum til að tryggja að unnt sé að halda vöruverði niðri. Við getum ekki keppt við erlendar landbúnaðarafurðir í verðum og margir vilja flytja þær inn eingöngu vegna þess að þær séu ódýrari. En í því ófremdarástandi sem nú ríkir í heiminum þá spilar matvælaöryggi þjóðarinnar stóra rullu, enda má segja að heimurinn fari ört minnkandi og ófriðurinn okkur því ekki svo fjarlægur. Eina sóknarfæri íslensks landbúnaðar í útflutningi grundvallast á gæðunum. Við þurfum að búa okkur undir að í framtíðinni kann að þurfa að færa stuðningsformið að einhverju leyti yfir á ræktun, gripi o.s.frv. en á þessari stundu er óþarfi að breyta stuðningsforminu. Núverandi kerfi er fullkomlega gegnsætt og segja má að eftirlitsþátturinn sé innifalinn í því. Formaður BÍ nefndi að í framtíðinni þyrfti að huga að gerð samnings við ríkisvaldið um heildarstuðning við landbúnaðinn. Það er mjög vandmeðfarið og viðkvæmt mál. Slíkur samningur kallar á mikla vinnu til að útdeila ríkisstuðningnum þannig að hann bitni ekki á þeirri þróun sem náðst hefur í einstökum greinum. Hver búgrein þarf að fá til sín beint þann stuðning sem talið er að hálfu stjórnvalda að hún þurfi á að halda og ekki má færa hann á milli búgreina. Mjólkurframleiðslan er lengra á veg komin í þróun framleiðslunnar en aðrar búgreinar. Mikið ríður hins vegar á félagslegri samstöðu bænda í tengslum við alþjóðasamninga. Að lokum taldi hann brýnt að byggja upp metnað hjá bændum til þess að framleiða betri nautgripakjötsflokkana og því verður að tryggja að framleiðslan njóti stuðnings grundvallaðan á gæðum.

 

      6.  Pétur Diðriksson. Þakkaði stjórn LK fyrir sín störf og greinargóða skýrslu. Þá fjallaði hann um mjólkursamninginn og aðdraganda hans og lýsti sérstakri ánægju sinni með stöðumatsskýrsluna. Það er með ólíkindum hversu þjóðin sýnir þessari búgrein mikinn velvilja og fyrir það ber okkur að vera þakklát. Það er hins vegar vandasamt mál að fara með þennan velvilja og bilið á milli þess að þjóðin sé ánægð og óánægð getur verið lítið. Meðan við njótum jákvæðs viðhorfs neytenda verðum við hins vegar að gæta okkur á að blindast ekki. Verð til framleiðenda á Íslandi er líklega með því allra hæsta í heiminum.  Við búum hins vegar þrátt fyrir allt í samfélagi þjóðanna þar sem verslað er með vörur á milli landa þannig að fyrr eða síðar munum við standa frammi fyrir innflutningi mjólkurafurða. Nú er unnið að gerð nýs mjólkursamnings sem tryggir okkur stuðning og bætt starfsskilyrði, en getur verið að verð mjólkur til bænda hér á landi sé að verða svo hátt að það geti einfaldlega orðið eftirsóknarvert að flytja inn mjólkurvörur þrátt fyrir innflutningstolla? Ef einhver sér sér hag í slíkum innflutning þá mun verða að honum. Hann nefndi síðan dæmi frá Svíþjóð þar sem þýsk verslunarkeðja hefur numið land og jafnframt komist að þeirri niðurstöðu að hagstæðara sé fyrir hana að flytja alla neyslumjólk inn frá Þýskalandi í stað þess að kaupa hana af sænskum bændum. Af þessum sökum hefur sænski mjólkuriðnaðurinn neyðst til þess að lækka skilaverð til bænda. Hann nefndi síðan dæmi um verð til framleiðenda í mörgum nágrannalanda Íslands. Það er vissulega skilvirkasta leiðin að greiða stuðninginn út á framleiðsluna, en það auðveldar okkur hins vegar ekki að átta okkur á því hvernig við getum framleitt mjólkina á sem hagkvæmastan hátt. Einmitt þess vegna er Evrópusambandið að breyta sínu stuðningsformi og við verðum einnig að fara að huga að slíkum breytingum. Við getum ekki litið á það sem sjálfsagðan hlut að við höldum öllum mjólkurmarkaðnum á Íslandi fyrir okkur til frambúðar. Í versta falli getum við lent í sömu vandræðum og í nautakjötinu þar sem við erum að glata markaðnum. Það er raunsætt mat að telja að stuðningsgreiðslur muni aldrei megna að hækka verð á nautkjöti til framleiðenda svo sköpum skipti. Auðvitað reynum við að finna leiðir til að styrkja framleiðslu gæðakjöts, en lykilatriðið er að ráðast að grunni vandans og finna leiðir til þess að menn geti hagnast á framleiðslunni. Nautakjöt verður því væntanlega aldrei framleitt á Íslandi nema sem hliðargrein við mjólkurframleiðsluna. Sérhæfðir nautakjötsframleiðendur eru orðnir svo fáir að pólitísk samstaða mun aldrei nást til þess eyða miklum fjármunum í styrki til þeirra. Í löndunum í kringum okkur borgar sig ekki að ala upp nautkálfaaf Jersey kúakyninu til kjötframleiðslu vegna smæðarog því hljóta allir að sjá að með íslensku kúnni getum við ekki framleitt nautakjöt með hagkvæmum hætti. Ef að við ætlum okkur til langframa að halda öllum mjólkurmarkaðnum og öllum nautkjötsmarkaðnum verðum við einfaldlega að flytja inn nýtt kúakyn til framleiðslunnar. Landsfeðurinir verða að átta sig á því að ef íslenskir kúabændur eiga að geta sinnti markaðnum verða þeir að fá til þess öll þau tæki sem eru nauðsynleg til þess.

 

      7. Skúli Einarsson. Ræðumaður þakkaði í fyrstu fyrir góðar skýrslur og formanni og stjórn fyrir farsælt starf á liðnu ári. Það er vel haldið utan um hlutina hjá LK og framsetning efnis fyrir aðalfundinn er til fyrirmyndar. Hann þakkaði síðan landbúnaðarráðherra fyrir sitt ávarp og kvaðst bjartsýnni eftir að hafa heyrt um samstöðuna í ríkisstjórninni um stuðning við mjólkurframleiðsluna. Hann kvaðst lengi hafa verið talsmaður þess að gripið verði til aðgerða til að lækka verð kvóta. Ungt fólk sem vill byggja upp sín bú þarf að eyða miklum fjármunum í að borga öðrum fyrir að hætta framleiðslu í stað þess að nota fjármunina til þess að byggja upp framleiðsluaðstöðuna, rækta landið, kaupa gripi o.s.frv. Auðvitað þurfum við að heimila áfram tilfærslu á milli framleiðenda, en hún má ekki verða á hvaða verði sem er. Mjólkurverð til bænda kemur fyrr eða síðar til með að lækka á Íslandi eins og gerst hefur í nágrannalöndum okkar. Nautakjötsframleiðslan getur eingöngu þrifist sem hliðarbúgrein við mjólkurframleiðslu þó nokkrir hafi reynt að hafa af því atvinnu. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að eigi að verja miklum fjármunum til þess að styrkja framleiðslu nautakjöts muni það á endanum koma niður þeim stuðningi sem nú er beint til mjólkurframleiðslunnar. Hins vegar verður ekki framhjá því litið að ef að við töpum nautkjötsmarkaðnum og innflutningur eykst úr hópi vex hættan á komu ýmisaa sjúkdóma til landsins. Stjónr LK verður því áfram að vinna að lausn á þessu vandamáli.

 

      8. Jón Gíslason. Ræðumaður fjallaði fyrst um undirbúning nýs mjólkursamnings og lýsti ánægju sinni með stöðumatsskýrsluna. Brýnt er að nýi samningurinn verði gerður í anda þess gamla. Við verðum að horfast í augu við hvað við eigum mikið undir velvilja og skilningi annarra og því er mikilvægt að  eiga gott samstarf við þjóðina í þessari samningagerð. Hann kvaðst þó vonast til að sá dráttur sem virtist kominn í samningagerðina væri ekki sökum þess að verið væri að reyna að troða einhverjum óskynsamlegum ákvæðum inn í hann. Þessi fundur verður að álykta ákveðið um það að hann vilji ekki að gerðar verði neinar breytingar á stuðningsforminu. Hann taldi hugmyndir um stuðnin út á gripi geta leitt til óheppilegri búskaparhátta, t.d. freistað manna til þess að draga að slátra gripum. Hann kvaðst óttast hugmyndirnar um stærðarmörk, en miklu skipti þó hvar slík mörk yrðu sett. Slík mörk mega ekki hindra áframhaldandi hagræðingu í greininni. Varðandi hugmyndir formanns BÍ um einn rammasamning fyrir allan landbúnaðinn kvaðst hann óttast að slíkt yrði mjög þungt í vöfum og benti máli sínu til stuðnings á hversu langan tíma það væri nú að taka að ganga frá samningi við einungis eina búgrein.

 

      9. Árni Brynjólfsson. Ræðumaður tók fyrst undir með Sigurgeiri Hreinssyni og kvað þær atvinnugreinar sem ekki nýttu sér tækninýjungar einfaldlega myndu verða undir í baráttunni. Það er markaðssetning afurðanna sem er okkur mikilvægust og við þurfum að eyða minna púðri í félagskerfið en við höfum gert og flytja þungann þaðan yfir í sölustarfið. Það eru margir góðir aðilar að vinna að markaðsmálum okkar, en við þurfum að veita þeim meira aðhald og láta þá vita þegar vel er gert og ýta við þeim þegar þörf krefur.

 

      10. Kristín Linda Jónsdóttir. Ræðumaður fjallaði fyrst um fæðuhring Manneldisráðs. Í honum er lang stærsti flokkurinn kornmeti, en af því er nánast ekkert framleitt á Íslandi, nema kartöflur. Næst kemur ávaxtaflokkurinn og þar framleiðum við ekkert heldur. Í grænmetinu er fluttur inn stór hluti neyslunnar. Í fituflokknum flytjum við inn allar olíur. Í flokknum fiskur og kjöt komum við hins vegar sterkt inn. Við verðum að gera ráðamönnum og þjóðinni grein fyrir því hversu litla hlutdeild matvæli framleidd á Íslandi í raun og veru í fæðuhring Manneldisráðs og jafnframt að benda henni á að það eru innfluttu matvörurnar sem hafa hækkað mest í verði, en ekki innlenda framleiðslan. Hún kvaðst hafa hugleitt nautakjötsmálin mikið að undanförnu og taldi óvíst hvort takast myndi að halda framleiðslunni í landinu. Stjórn LK byrjaði að hringja viðvörunarbjöllum vegna þessa máls fyrir löngu síðan. Framleiðslutími nautakjöts er mjög langur og því taka allar aðgerðir langan tíma.  Ríkisstjórnin þarf að aðstoða bændur í þessu verkefni. Margir telja framleiðslu nautakjöts vonlaust mál, en hins vegar má ekki gleyma því að þó bændur í nágrannalöndum okkar fái lítið verð fyrir mjólkina þá fá þeir talsverða styrki út á kjötframleiðsluna. Við verðum að gera það upp við okkur hvort við viljum opna lúgu á alþjóðalega kjötgámnum. Ef að nautakjöt fer að flæða til landsins í stórum stíl, t.d. er allt nautakjötið í Perlunni innflutt, þá er spurningin einfaldlega sú hvaða kjöttegundir komi næst. Ef að við ætlum ekki að opna þessa lúgu þá verðum við að spýta í lófana, matvælaöryggi þjóðarinnar er í húfi. Íslenskir kúabændur eru hér saman komnir til fundar fyrst og fremst til þess að tryggja íslensku þjóðinni áframhaldandi samning um aðgang að mjólk.

 

      11. Ásthildur Skjaldardóttir. Ræðumaður velti fyrir sér hvers vegna staða nautakjötsins væri svo slæm sem raun bæri vitni í ljósi þess að flutt hafa verið inn til landsins tvö erlend holdanautakyn.

 

      12. Sigurlaug Leifsdóttir. Ræðumaður vildi upplýsa þingheim um hættuna sem væri samfara kálaæxlaveiki sem nú herjaði á Suðurlandi. Þar er um að ræða svepp sem leggst á rætur allra jurta af krossblómaætt, þ.á.m. fóðurkál sem flestir bændur nota. Sveppurinn leggst líka á rófur, hjartaarfa og hrafnaklukku. Hann getur vaxið með fjölæru ríggresi og rauðsmára og fjölgar sér í fóðurkálinu. Sundgróin geta synt í mjög rakri mold og ef þau berast út í ár og læki dreifist þessi ófögnuður hvert sem er. Smitleiðin til bænda er margvísleg. Fjármuni skortir til að kortleggja sjúkdóminn, til rannsókna og aðgerða til að ráða á honum bót. Bændur þurfa að athuga hvort sjúkdóminn sé að finna í fóðurkálsreitum þeirra. Þegar sjúkdómurinn hefur greinst verður að loka viðkomandi blettum með grasfræi. Sjúkdómurinn er einstaklega erfiður viðureignar, enda sá fyrsti sem ekki er hægt að eitra fyrir.  A.m.k. sjö ár þarf til að losna við hann eftir að búið er  að loka blettunum.  Reglur Bjargráðasjóðs ná ekki yfir skaða af völdum sjúkdómsins. Gæta þarf vargætni varðandi vélar og alls ekki fara með þær á milli reita óþvegnar.

 

      13. Þórólfur Sveinsson. Ræðumaður þakkaði flutt erindi, ávörp og umræður. Ef okkur tekst á næstunni að ganga frá mjólkursamningi til næstu 6-8 ára höfum við þann tíma til að velta fyrir okkur hverjir eiga að koma fram fyrir hönd kúabænda gagnvart ríkisvaldinu og semja um þau grundvallarréttindi kúabænda sem fjallað er um í mjólkursamningi.  Samtök þeirra sem samningurinn brennur á hljóta að eiga að sinna því hlutverki beint og milliliðalaust við ríkisvaldið. Lítið er í raun vitað um framleiðslu á nautakjöti.  Hann kvað þetta sjötta aðalfund sinn sem formann, en í upphafi formannstíðarinnar voru fulltrúar sannfærðir um að biðlistar í slátrun nautgripa væru svo langir að til vandræða horfði.  Nautin á þeim biðlista komu aldrei til slátrunar.  Enginn gagnagrunnur er fyrir hendi og hann mun ekki verða til fyrr en skyldumerkingarnar eru komnar í það horf sem þær eiga að verða.. Slíkur gagnagrunnur er grundvallaratriði til þess að einstakir framleiðendur og sláturleyfishafar geti gert raunhæfar áætlanir. Stæsti hluti mjólkurframleiðenda er þegar farinn að merkja sína gripi, en eitthvað stendur þó enn út af.  Á næstu vikum og mánuðum verðum við að velta eftirlitskerfinu með skyldumerkingarkerfinu fyrir okkur, en það skipulag þess liggur enn ekki fyrir. Ljóst er að ákvæðið um að allir gripir skuli merktir 1. janúar 2005 mun ekki standast. Við megum ekki láta þá sem vilja ganga rólega inn í kerfið ráða hraðanum. Í kerfinu fellst sá gagnagrunnur sem sárlega vantar. Stöðumatsnefndin vellti því talsvert fyrir sér hvort að sú staða gæti komið upp að einhverjir sæju sér hag í því að flytja inn mjólkurafurðir þrátt fyrir tolla. Ýmis atriði hafa áhrif á það, s.s. gengisþróun og viðskiptaáhugi, en brögð eru að því að menn séu reiðubúnir til að taka á sig tímabundið tap til þess að ná markaði eins og dæmin sanna. Raunveruleg samkeppnisstaða er megin viðfangsefni alls fagstarfs í landbúnaði.  LK hefur stöðugt reynt að benda á leiðir til að stuðla að hagkvæmni. LK telur núverandi aðferð við að koma stuðningi til greinarinnar vera bæði ódýra og örugga og að ekki er hægt að svindla á kerfinu. Nýjar leiðir munu kosta fjámuni vegna eftirlits með kerfinu. Miklu skiptir hins vegar hvaða leiðir verða valdar í þeim efnum. Sem dæmi má nefna að það ætti að vera einfalt mál að fella niður svokallað auragjald sem lagt er á vegna sæðingarstarfseminnar og setja í stað þess jafnháa greiðslu inn í þá starfsemi í gegnum búnaðarlagasamning, sem þannig myndi flokkast undir grænar greiðslur. Grænn stuðningur er hins vegar safnheiti yfir ýmis stuðningsform og ýmislegt innan hans er hægt að gera með litlum tilkostnaði og útfæra þannig að það lækki vöruverð þó aðrar slíkar séru flóknari í framkvæmd.  Hann kvaðst bjartsýnn á að samningagerðinni myndi ljúka fljótlega á farsælan hátt. Varðandi innflutninginn á holdanautakynunum á sínum tíma þá benti hann á að hefði ekki komið til  hans hefði einfaldlega verið miklu meira flutt inn af nautalundum og hinum dýrari nautavöðvum en raun ber vitni. Hann kvað það hafa verið skynsamlega aðgerð að greiða styrk til nautakjötsframleiðenda, en það breytti því ekki að þeir sem eingöngu stunduðu þessa framleiðslu byggju við slæman kost. Við verðum að standa áfram vörð um nautakjötsframleiðsluna og besta leiðin er að styrkja úrvalsflokkana. Kálaæxlaveikin var til umfjöllunar á búnaðarþingi, en hún er einmitt gott dæmi um sameiginlegt verkefni allra bænda sem því sé best komið í forsjá heildarsamtakanna. Til eru viðbraðgsáætlanir vegna sjúkdóma sem leggjast á búfé, en líklega eru ekki til sambærilega áætlanir vegna jarðargróða.

 

      14.Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra. Ræðumaður kvað vinsældir stjórnmálamanna geta varað stutt, en hið sama gæti átt við um vinsældir heils atvinnuvegar, auk þess sem verslunarkeðjur koma og fara.  Við verðum því að meta stöðuna á hverjum tíma og segja þjóðinni satt. Hann kvaðst stoltur af því að hafa átt sinn þátt í að breyta viðhorfi almennings til íslenskra bænda og íslensks landbúnaðar. Hann hefur átt góða daga sem landbúnaðarráðherra og jafnframt fundið fyrir því að hafa haft þjóðina á sínu bændi. Hann hefur talað máli bænda hvar sem hann hefur komið og er stoltur af sínu starfi og hefur ekkert að skammast sín fyrir. En þessi árangur hefur ekki náðst án erfiðis. Ríkisstjórnin hefur staðið á bak við mig og stjórnarflokkarnir hafa staðið vel saman.  Meira að segja stjórnarandstaðan vill nú líka vera vinir sveitanna. Viðhorfsbreyting almennings endurspeglast m.a. í því að nú eru menn aftur stoltir af því að vera úr sveit. En við verðum að gera okkur grein fyrir því að kúrfan getur líka farið niður á við – himnarnir geta hrunið. Ánægjuvísitala þjóðarinnar getur sveiflast. Hvernig nota bændur beingreiðslurnar?  Stöðumatsskýrslan segir sannleikann og lýgur engu.  Nýmjólk, léttmjólk og undanrenna hefur hækkað minna en neysluvísitalan frá 1989, en jógúrt ostar og aðrar unnar mjólkurvörur hafa hins vegar hækkað meira en neysluvísitalan. Þegar talað er um stærðarmörk búa er ekki verið að tala um að binda með lögum að enginn megi framleiða meira enn 200 þús. lítra mjólkur. Kúabændur mega ekki tala af niðurlægingu til sauðfjárbænda, sem hafa verið í miklum þrengingum allt frá því að útflutningsbæturnar voru afnumdar á sínum tíma. Það er skiljanlegt að þessir stóru framleiðendur sem keyptu kvótann í gær á þessum háu verðum vilji ekki sjá verðið lækka. En við þurfum kannski að að breyta kerfinu aðeins til þess að landbúnaðarinn geti áfram verið í sátt við þjóðina. Landbúnaðurinn er breiður og flókinn og samningagerð um starfsskilyrði hans er það líka. En að greiða kr. 265 á lítrann og einungis sextán mánuðir eftir af gildandi samningi! Það er ekki heil brú í slíku. Ástandið líkist stöðugt meira því sem er að gerast í sjávarútveginum þar sem afurðastöðvarnar reyna hver um sig að halda vöku sinni fyrir byggðina á sínu svæði og sitt verkafólk. Það er ekkert vit í því að unga fólkið í bændastett þurfi að taka stór lán til þess að greiða starfslokasamninga þeirra eldri þegar þeir bregða búi. Gerum skynsamlegan samning um skynsamlegan fjölskyldubúskap, en ekki láta bankana borga þrælum í sveitum landsins fyrir störf sín. Sorglegast væri ef glæsileg bú hætta að geta ekki flust á milli kynslóða. Á Íslandi erum við ekki að reka landbúnað með sama hætti og í Danmörku.  Danmörk er á heimsmarkaði en við erum að reka landbúnað fyrir byggðina okkar og landið. Í íslenskum landbúnaði eigum við ótal tækifæri til þess að auðga líf Íslendinga en áframhaldandi fækkun í sveitum landsins gerir þær stöðugt fátækari. Að lokum óskaði hann fundinum velfarnaðar í störfum sínum. Óskaði fundinum velfarnaðar í störfum sínum.

 

      15. Laufey Guðmundsdóttir. Ræðumaður spurði formann LK hvort hún hefði misskilið skyldumerkingarkerfið. Áttu ekki allir kálfar að vera merktir frá og með 1. september 2003? Ef að þeir eru seldir annað fylgir merkingin með.

 

      16. Þórólfur Sveinsson.  Ræðumaður svaraði því til að ekki væru allir sem halda kálfa byrjaðir merkingar. Mikill munur er á fjölda skráðra nautgripaeigenda og þeirra sem hafa pantað merkingar til að setja í kálfana.

 

      17. Sveinbjörn Sigurðsson. Ræðumaður taldi það nánast “tabú” að aldrei mætti minnast á að kvótaverð væri of hátt því þá væru menn að tala niður eigur sínar. En er kvótinn eign? Hann er allavega ekki færður sem slíkur á skattframtali. Menn tala um að þessi viðskipti eigi að vera frjáls, en vita jafnframt að þau fara öll í gegnum millilið. Hvað kostar þessif milliðir? Það er ekki erfiðara að byggja fjós í dag en það var fyrir 30 árum.  En það kostar hins vegar meira að kaupa kvótann sem þarf til að geta rekið það en að byggja sjálft fjósið. Það vita allir að hátt kvótaverð hamlar gegn endurnýjun í greininni. Af hverju kaupum við kvóta á hvaða verði sem er?  Við eigum ekki að vera að flýta okkur í að fækka sem mest í stéttinni. Barátta fyrir bættum kjörum getur snúist upp í andhverfu sína eins og dæmið með nautakjötið sannar. Útreikningar sýna svo ekki verður um villst að það borgar sig ekki að framleiða nautakjöt og því hafa menn hætt því og einbeitt sér enn frekar að kvótakaupum. Hagræðingin hefur orðið í fjósunum, en ekki í afkomunni. Það er okkur lífsnauðsyn að fá sem líkastan samning áfram vegna þess að hagræðingin hefur ekki skilað sér í bættum kjörum.

 

      18. Sveinn Ingvarsson. Ræðumaður kvað kvótaverðið hafa verið mest áberandi í umræðunni á fundinum. Fróðlegt væri að skoða hvaða aðferðir væri hægt að beita til að lækka það.  Þeir sem selja kvóta vilja eðlilega fá það verð fyrir hann sem þeir geta. Á að banna lánastofnunum að lána til kvótakaupa? Á að banna milligöngu afurðastöðvanna í kvótakaupum, eða banna bankakerfinu að grípa inn í?  Ekkert af þessu er auðvelt í framkvæmd og kallar jafnframt á miklar breytingar á ríkjandi kerfi. Hátt kvótaverð er tilkomið vegna þess að enn er nóg til af aðilum sem eru reiðubúnir til að kosta miklu til að stækka framleiðslueiningar sínar. Hver er hagkvæmasta bústærðin?  Það er vandséð á þessum tímapunkti. Útkoma stöðumatsskýrslunnar var hagstæðari kúabændum en nokkur þorði að vona og í raun og veru fyrirheit um lítt breyttan samning.  Hann kvaðst þó hafa áhyggjur af því að gera eigi á honum breytingar sem leiða til einhvers konar skömmtunar á athafnafrelsi.  Fundurinn þarf að álykta um að samningurinn verði eins líkur núgildandi samningi og mögulegt er.  Við megum ekki gefa okkur niðurstöður í komandi alþjóðasamningum fyrirfram, heldur eigum við að bregðast við þeim þegar og ef við þurfum þess með.

 

      19. Haraldur Benediktsson. Ræðumaður taldi ekki hjá því komist að menn veltu fyrir sér hvaða leiðir væru færar til þess að stuðla að lækkun kvótaverðs. Það er enginn ágreiningur í samninganefnd bænda um að ekki skuli gengið lengra en nauðsyn krefur til aðlögunar að alþjóðasamningum í þessari samningagerð. Nefndin hefur hins vegar fengið skýr skilaboð frá viðsemjendunum um að þeir vilji breytingar. Viðsemjendurinir hafa bent á að einföld leið til að lækka kvótaverð væri að afnema beingreiðslurnar. Við stöndum frammi fyrir því að viðsemjendurnir vilja sjá ákveðnar breytingar, en við hörfum ekki nema tilneydd. Það er skýr og ákveðin krafa hjá viðsemjandanum að nýr samningur leiði til lækkunar kvótaverðs. Hvaða skilaboð erum við annars að senda út í þjóðfélagið með því kvótaverði sem nú tíðkast? Að mjólkurframleiðendur séu svo ríkir að þeir hafi efni á þessu? Að lokum kvaðst hann bjartsýnn á að samningagerðinni ljúki fljótlega og bað kúabændur um að óttast ekki niðurstöðuna, en búa sig engu að síður undir ákveðnar breytingar frá núgildandi samningi.

 

      20. Skúli Einarsson.  Ræðumaður kvað hátt kvótaverð vera skýr skilaboð til viðsemjendanna um að kúabændur hafi það allt of gott. Því væri það eðlilegt að viðsemjandinn velti því fyrir sér hvort þeir þyrftu nokkuð að greiða svo háar beingreiðslur fyrst mjólkurframleiðendur hafa efni á svo dýrum kóta. Hver er ástæðan fyrir þessu háa kvótaverði? Það virðist vera að komast aftur í tísku í þjóðfélaginu að búa úti í sveit og mjólkurframleiðslan hefur þar verið arðbærasta búgreinin. Menn eru því tilbúnir til að kosta miklu til til þess að halda áfram í greininni. Verð mjólkurkvóta myndi ugglaust lækka ef það væri arðbærara en raun ber vitni að leggja stund á aðrar greinar landbúnaðarins.

 

9. Nefndarskipan og vísan mála.

Stjórn Landssambands kúabænda lagði til að á aðalfundi 2004 störfuðu fjórar starfsnefndir og var ályktunardrögum og öðrum verkefnum skipt niður á milli nefndanna. Stjórnin lagði ennfremur til eftirfarandi skiptingu fulltrúa í nefndirnar og var hún samþykkt samhljóða:

 

Starfsnefnd 1

Birna Þorsteinsdóttir, Reykjum (formaður)
Sigurður Baldursson, Páfastöðum
Magnús Ingi Hannesson, E-Leirárgörðum
Sigrún Ásta Bjarnadóttir, St.-Mástungu
Á. Bragi Konráðsson, Galtartungu
Þorsteinn Rútsson, Þverá
Magnús Sigurðsson, Hnjúki
Árni Brynjólfsson, Vöðlum
Guðbergur Eyjólfsson, Hléskógum

  

Starfsnefnd 2

Sveinn Ingvarsson, Reykjahlíð (formaður)
Grétar Einarsson, Þórisholti
Skúli Einarsson, Tannstaðabakka
Gunnar Eiríksson, Túnsbergi
Ásthildur H. Skjaldardóttir, Bakka
Sigurgeir Hreinsson, Hríshóli
Pétur Diðriksson, Helgavatni

Helga Guðmundsdóttir, Gilsárteigi

 

Starfsnefnd 3

Þórarinn Leifsson, Keldudal (formaður)
Sigurgeir Pálsson, Sigtúnum
Halldór Georgsson, Síreksstöðum
Jóhann Nikulásson, Stóru Hildisey
Sveinbjörn Þór Sigurðsson, Búvöllum
Ásbjörn Pálsson, S-Haukatungu II
Katrín Birna Viðarsdóttir, Ásólfsskála
Lára Hansdóttir, Á

 

Starfsnefnd 4

Jón Gíslason, Lundi (formaður)
Birgir L. Ingþórsson, Uppsölum
Sævar Einarsson, Hamri

Jóhann Gísli Jóhannsson, Breiðavaði
Laufey Guðmundsdóttir, Lækjarhúsum
Sigurlaug Leifsdóttir, Nýjabæ
Ólöf Hallgrímsdóttir, Hraunbergi
Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ

 

Verkefni starfsnefnda

 

Starfsnefnd 1:

1.      Rannsóknir á ástæðum kálfadauða og frjósemisvandamála í íslenska kúastofninum.

2.      Verklagsreglur um meðferð trúnaðarupplýsinga á kennitölugrunni.

3.      Bætt upplýsingagjöf um stöðu álagðs og innheimts búnaðargjalds.

4.      Auknar rannsóknir á dauðfæddum kálfum.

5.      Ársreikningur LK og Afleysingasjóðs og Fjárhagsáætlun.

6.      Laun fulltrúa á aðalfundi LK 2004.

 

Starfsnefnd 2:

1.      Endurskoðun verkaskiptasamnings LK og BÍ.

2.      Uppstokkun og endurskoðun á fagþjónustu landbúnaðarins.

3.      Flutningur allrar starfsemi RALA út fyrir höfuðborgarsvæðið samfara stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands.

4.      Aukið vægi eftirfylgni áætlana við úthlutun framlaga til “markmiðstengdra búrekstraráætlana.

5.      Endurskoðun reglna um Nautastöð Bændasamtaka Íslands.

 

Starfsnefnd 3:

1.      Skuldajöfnun við beingreiðslur mótmælt.

2.      Sameiginleg vörumerking fyrir alla íslenska matvöruframleiðslu.

3.      Einföldun og samræming eftirlits með nautgripahaldi og mjólkurframleiðslu.

4.      Hraðað verði gerð nýs samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar og að hann byggi á sömu grundvallarforsendum og gildandi samningur.

5.      Nautakjötsframleiðendur öðlist rétt til að senda einn fulltrúa á aðalfund LK.

6.      Breytingar á samþykktum LK.

 

Starfsnefnd 4:

1.      Endurskoðun á matsreglum nautakjöts og samræming matsins á milli sláturhúsa.

2.      Stuðningur við nautakjötsframleiðslu.

3.      Kannað verði hvort rétt sé að breyta töku verðskerðingargjalds af nautgripakjöti.

4.      Reglugerðir og lagastoðir yfirdýralæknis við sölu á nautgripum á milli bæja.

5.      Aðgerðir gegn kálæxlaveiki.

6.      Myndbandsupptaka á landbúnaðarsýningum.

 

10. Afgreiðsla mála.

 

1.      Endurskoðun verkaskiptasamnings LK og BÍ.

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 16.-17. apríl 2004 telur eðlilegt að verkaskiptasamningur LK og BÍ verði tekinn til endurskoðunar í ljósi þeirrar reynslu sem fengin er síðan hann var gerður. Fundurinn telur eðlilegt að í nýjum verkaskiptasamningi verði öll sérmál nautgriparæktarinnar á forræði Landssambands kúabænda. Jafnframt verði skýrar kveðið á um vinnulag við sameiginleg verkefni. Samhliða verði skipting búnaðargjalds milli Landsambands kúabænda og Bændasamtaka Íslands endurskoðuð með hliðsjón af umfangi þessara verkefna, svo og annara tekna sem nautgriparæktinni eru ætluð. Stefnt skal að því að ljúka samningsgerð fyrir næsta aðalfund LK.

 

Sveinn Ingvarsson, framsögumaður starfsnefndar 2, gerði grein fyrir tillögunni.

Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

2.      Uppstokkun og endurskoðun á fagþjónustu landbúnaðarins.

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 16.-17. apríl 2004 fagnar þeirri uppstokkun sem nú er í gangi á fagþjónustu landbúnaðarins með stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands.  Fundurinn leggur áherslu á að sú endurskoðun taki til allra þátta fagstarfsins. Fundurinn leggur til að Hagþjónusta landbúnaðarins verði sameinuð hinni nýju stofnun og verði þannig kjarni hagfræðilegs fagstarfs í landbúnaði. Þá leggur fundurinn áherslu á að markmiðslýsing fyrir hina nýju stofnun verði í fullu samræmi við markmiðslýsingu búvörulaga.

 

Greinargerð

Markmiðslýsing búvörulaga er þessi:

   a. að stuðla að framförum og aukinni hagkvæmni í búvöruframleiðslu og vinnslu og sölu búvara til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur,
   b. að framleiðsla búvara til neyslu og iðnaðar verði í sem nánustu samræmi við þarfir þjóðarinnar og tryggi ávallt nægjanlegt vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu,
   c. að nýttir verði sölumöguleikar fyrir búvörur erlendis eftir því sem hagkvæmt er talið,
   d. að kjör þeirra sem landbúnað stunda verði í sem nánustu samræmi við kjör annarra stétta,
   e. að innlend aðföng nýtist sem mest við framleiðslu búvara, bæði með hliðsjón af framleiðsluöryggi og atvinnu,
   f. að stuðla að jöfnuði á milli framleiðenda í hverri búgrein hvað varðar afurðaverð og markað.

Markmiðslýsing rannsóknasviðs Landbúnaðarháskóla Íslands er hins vegar samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi sem hér segir:

    Hlutverk rannsóknasviðs Landbúnaðarháskóla Íslands er að afla og miðla þekkingu um fjölþætt hlutverk landbúnaðar sem byggist á íslenskri náttúru og menningararfleifð. Meðal verkefna sviðsins eru rannsóknir er lúta að meðferð, ræktun og nýtingu lands, búfjár og ferskvatnsdýra til framleiðslu matvæla og annarrar atvinnu- og verðmætasköpunar, sem og rannsóknir er lúta að sjálfbærri og fjölþættri landnýtingu og umhverfismótun.

 

Sveinn Ingvarsson, framsögumaður starfsnefndar 2, gerði grein fyrir tillögunni.

Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

3.      Flutningur allrar starfsemi RALA út fyrir höfuðborgarsvæðið samfara stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands.

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 16.-17. apríl 2004 fagnar áformum um stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands og beinir því til landbúnaðarráðherra að hann stuðli að því samhliða þessari breytingu að starfsemi RALA verði öll flutt út fyrir höfuðborgarsvæðið.  Aðalfundurinn gerir að tillögu sinni að starfsemi RALA verði í megin dráttum flutt á þrjá staði: Um það bil þriðjungur á Selfoss (Stóra- Ármót, Gunnarsholt), þriðjungur á Hvanneyri og þriðjungur til Akureyrar (Möðruvellir). Framangreindar starfsstöðvar verði sérhæfðar hver á sínu sviði eftir því sem hagkvæmt þykir.

 

Það er trú aðalfundar að þessi skipan myndi efla rannsóknarstarfsemi  í landbúnaði. 

–     Tengsl rannsókarstöðvanna við kennslustarf á Hvanneyri myndu aukast.

–     Nálægð rannsóknarstarfseminnar við notendur þjónustunnar og nálægð við rannsóknarviðfangsefnin myndi aukast.

–     Tengslin við ráðgjafaþjónustuna og þær ráðgjafamiðstöðvar sem starfræktar eru á fyrrnefndum svæðum myndu eflast og þar með yrði þekkingarmiðlun til bænda og þekkingaröflun hjá bændum auðveldari.

 

Þá er ljóst að fjölgun háskólamenntaðs fólks á landsbyggðinni er mikil lyftistöng fyrir atvinnulíf og menningu landsbyggðarinnar.

 

Pétur Diðriksson, framsögumaður starfsnefndar 2, gerði grein fyrir því af hverju nefndin hefði kosið að afgreiða hana ekki úr nefnd.

Sigurgeir Hreinssonkvað tillöguna ættaða úr Eyjafirði, en ástæðan fyrir henni er sú að norðanmenn vilja efla starfsemina á Möðruvöllum. Ef að leiðbeiningamiðstöðvarnar eiga að virka eins og best verður á kosið þurfa þær kjarna fagmanna sem mynda sterka heild. Umræðan í nefndinni var góð og þar kom fram góður vilji til þess að leiðbeiningarmiðstöðvarnar verði efldar. Málið er því í góðum farvegi, þó það sé nokkuð viðkvæmt, og því er það því ekki til framdráttar að samþykkja slíka ályktun nú.

Tillagan hlaut því ekki afgreiðslu á fundinum.

 

4.      Aukið vægi eftirfylgni áætlana við úthlutun framlaga til “markmiðstengdra búrekstraráætlana.

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 16.-17. apríl 2004 skorar á stjórn Bændasamtaka Íslands og Fagráðs í hagfræði að taka til endurskoðunar úthlutun framlaga vegna “markmiðstengdra búrekstraráætlana”  til búnaðarsambandanna með það að markmiði að auka vægi eftirfylgni áætlana frá því sem nú er.

 

Greinargerð:

Samkvæmt núgildandi búnaðarlagasamningi eru sérmerktir fjármunir sem ætlaðir eru til “markmiðstengdra búrekstraráætlana” Árlega tekur stjórn Bændasamtaka Íslands ákvörðun um úthlutun fjármagns úr þessum lið búnaðarlagasamnings. Miðað hefur verið við að greiða búnaðarsamböndum út á hverja áætlun sem unnin er hvert ár. Eins og úthlutunarreglur eru núna fæst tvöfalt hærra framlag á nýja áætlun en eftirfylgni eldri áætlana. Meira virðist því skipta máli að formgera hlutinn í þessu tilviki en að veita markvissa eftirfylgni og í raun verið að gera lítið úr þeirri vinnu sem hefst fyrir alvöru þegar viðkomandi bóndi og ráðgjafi fara að velta mismunandi kostum til betri árangurs í búrekstrinum.

 

Sveinn Ingvarsson, framsögumaður starfsnefndar 2, gerði grein fyrir tillögunni.

Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

5.      Endurskoðun reglna um Nautastöð Bændasamtaka Íslands.

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 16.-17. apríl 2004 telur eðlilegt að teknar verði til endurskoðunar „Reglur um Nautastöð Bændasamtaka Íslands” sem að stofni til eru síðan 1969.

 

Sveinn Ingvarsson, framsögumaður starfsnefndar 2, gerði grein fyrir tillögunni.

Egill Sigurðssonfjallaði um framtíðaruppbyggingu á uppeldisstöðinni í Þorleifskoti. Aðbúnaður gripanna og uppeldisaðstæður er úreltu, enda að stofni til mjög gamall.  Gripir eru bundnir á bása og ekki er fóðrað í stíum. Slíkt stenst engan veginn aðbúnaðarreglugerð. Gera þarf áætlun um hvernig á að bæta úr aðstöðunni, en bæta þyrfti ákvæði þess efnis í tillöguna.  Starfsfólkið á stöðinni stendur sig hins vegar mjög vel.

Sveinn Ingvarssonkvaðst sammála Agli, en taldi mál hans ekki tengjast tillögu nefndarinnar.  Þetta hefði þurft að koma fram í sérstakri ályktun frá fundinum. Umsjónarmenn í Þorleifskoti eru að komast á eftirlaunaaldur og allt eins er reiknað með því að starfsemin verði öll flutt til Hvanneyrar í framtíðinni.

Tillagan var síðan samþykkt samhljóða.

 

1.      Rannsóknir á ástæðum kálfadauða og frjósemisvandamála í íslenska kúastofninum.

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 16.-17. apríl 2004 beinir því til fagráðs í nautgriparækt að rannsóknir verði efldar á orsökum kálfadauða og frjósemisvandamálum í íslenska kúastofninum. 

 

Greinargerð

Dauðfæddir kálfar er vandamál sem nokkuð margir bændur eiga við að etja og alltof lítið er vitað um ástæður þess að kálfarnir fæðist lífvana.

    Algengt er að fyrstakálfskvígur eigi dauða kálfa og einnig er töluvert um að fullorðnar kýr beri kálfum sem eru með fylgjuna utan um sig og hafa  kafnað vegna súrefnisskorts sem engin skýring fæst á. 

    Ljóst er að hér er um mikið tjón að ræða á þeim búum þar sem þetta er fyrir hendi og mikilvægt er að fá meiri vitneskju  um tilurð kálfadauðans.

    Svo virðist sem dýralæknar hafi lítil svör við þessu vandamáli og einmitt þess vegna er það mikilvægt að varpa einhverju ljósi á það hvað geti valdi þessu.

 

         Birna Þorsteinsdóttir, framsögumaður starfsnefndar 1, gerði grein fyrir tillögunni.

         Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

2.      Verklagsreglur um meðferð trúnaðarupplýsinga á kennitölugrunni.

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 16.-17. apríl 2004 beinir því til Bændasamtaka Íslands að settar verði skýrar verklagsreglur um meðferð þeirra trúnaðarupplýsinga sem safnað er  á kennitölugrunni í ,,landbúnaðarkerfinu“. Jafnframt telur fundurinn nauðsynlegt að endurskoða birtingu upplýsinga sem tengjast einstökum lögbýlum s.s. úr kynbótaskýrsluhaldinu. Nauðsynlegt er að einstakir bændur geti beðist undan birtingu upplýsinga um þeirra bú.

 

Birna Þorsteinsdóttir, framsögumaður starfsnefndar 1, gerði grein fyrir tillögunni.

Jón Gíslason gerði tillögu að orðalagsbreytingu við tillöguna sem nefndin gerði að sinni.

         Tillagan var síðan samþykkt samhljóða.

 

3.      Bætt upplýsingagjöf um stöðu álagðs og innheimts búnaðargjalds.

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 16.-17. apríl 2004 leggur áherslu á að upplýsingagjöf frá Ríkisskattstjóra og Bændasamtökum Íslands um stöðu álagðs og innheimts búnaðargjalds verði bætt.

 

Birna Þorsteinsdóttir, framsögumaður starfsnefndar 1, gerði grein fyrir tillögunni.

         Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

4.      Auknar rannsóknir á dauðfæddum kálfum.

Tillagan var sameinuð ályktun nefndarinnar nr. 1.

 

5.      Ársreikningur LK og Afleysingasjóðs og Fjárhagsáætlun.

         Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri LK, gerði grein fyrir tillögu nefndarinnar.

         Ársreikningar LK og Afleysingasjóðs voru samþykktir samhljóða.

         Afgreiðslu fjárhagsáætlunar var hins vegar frestað þar til síðar á fundinum.

 

6.      Laun fulltrúa á aðalfundi LK 2004.

Lagt er til að laun fulltrúa verði óbreytt frá fyrra ári, kr. 18.000.

 

Birna Þorsteinsdóttir, framsögumaður starfsnefndar 1, gerði grein fyrir tillögunni.

Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

1.      Skuldajöfnun við beingreiðslur mótmælt.

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 16.-17. apríl 2004 mótmælir harðlega að gjöld og reikningar séu dregin af beingreiðslum nema til komi samþykki manna.

Fundurinn átelur þessi vinnubrögð harðlega og beinir því til stjórnar LK að gæta hagsmuna sinna félagsmanna varðandi þessi mál.

 

         Þórarinn Leifsson, framsögumaður starfsnefndar 3, gerði grein fyrir tillögunni.

         Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

2.      Sameiginleg vörumerking fyrir alla íslenska matvöruframleiðslu.

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 16.-17. apríl 2004 ályktar að með harðnandi samkeppni sé afar mikilvægt fyrir íslenska búvöruframleiðendur að geta aðgreint íslenska búvöru í verslunum heima og erlendis. Hvetur fundurinn til að tekin verði upp samræmt auðkenni fyrir innlendar búvörur.

 

Þórarinn Leifsson, framsögumaður starfsnefndar 3, gerði grein fyrir tillögunni.

         Tillagan var samþykkt samhljóða.

        

3.      Einföldun og samræming eftirlits með nautgripahaldi og mjólkurframleiðslu.

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 16.-17. apríl 2004 telur að einfalda og samræma beri eins og hægt er það eftirlit sem tilheyrir nautgripahaldi og mjólkurframleiðslu svo sem árlegt mjólkureftirlit, úttekt á vatnsbóli og vatnssýnatöku,  mjólkurgæða rannsóknir, fjósaskoðun, búfjáreftirlit og fleira. Bendir fundurinn á að eðlilegt sé að LK eigi fulltrúa í þeirri nefnd sem skipuð hefur verið til að fjalla um þessi mál þar sem þessir eftirlitsþættir tilheyri að stærstum hluta mjólkurframleiðslu.

 

Þórarinn Leifsson, framsögumaður starfsnefndar 3, gerði grein fyrir tillögunni.

         Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

4.      Hraðað verði gerð nýs samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar og að hann byggi á sömu grundvallarforsendum og gildandi samningur.

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 16.-17. apríl 2004, leggur áherslu á að hraðað verði gerð nýs samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar. Fundurinn tekur undir þá tillögu sem fram kemur í skýrslu um Stöðumat og stefnumótun í mjólkurframleiðslu: „að næsti mjólkursamningur verði gerður á sömu grundvallarforsendum og gildandi samningur“. Fundurinn leggur einnig mikla áherslu á að samningurinn raski sem minnst núverandi starfsumhverfi mjólkurframleiðenda og að hann virki hvetjandi á áframhaldandi hagræðingu í greininni.

 

Greinargerð:

Nú standa yfir viðræður um nýjan samning um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar og eru bundnar vonir við að samningur takist fljótlega. Ofangreind ályktun er studd ályktunum sem borist hafa frá almennum félagsfundum í:

·        Félagi þingeyskra kúabænda,

·        Búgreinaráði BSE í nautgriparækt,

·        Félagi kúabænda á Suðurlandi,

·        Mjólkurbúi Borgfirðinga og Mjólkursamlags Kjalarnessþings,

·        Félagi kúabænda í Skagafirði,

·        Félagi kúabænda í A-Húnavatnssýslu,

 

þar sem skýrsla um stöðumat og stefnumótun í mjólkurframleiðslu var kynnt.

 

Þórarinn Leifsson, framsögumaður starfsnefndar 3, gerði grein fyrir tillögunni.

         Tillagan var samþykkt með 33 samhljóða atkvæðum.

 

5.      Nautakjötsframleiðendur öðlist rétt til að senda einn fulltrúa á aðalfund LK.

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 16.-17. apríl 2004 felur stjórn að undirbúa fyrir næsta aðalfund breytingar á samþykktum á þann veg að félagsskapur nautakjötsframleiðenda öðlist rétt til að senda einn fulltrúa á aðalfund LK. Sá fulltrúi hafi málfrelsi og tillögurétt.

 

Greinargerð:

Fram hefur komið áhugi á því að nautakjötsframleiðendur hafi sérstakan vettvang til skoðanaskipta um sín hagsmunamál. Rétt þykir að koma til móts við þau sjónarmið með þessum hætti.

 

Þórarinn Leifsson, framsögumaður starfsnefndar 3, gerði grein fyrir tillögunni.

         Birna Þorsteinsdóttir spurði hvort nautakjötsframleiðendur teldu LK ekki vera sinn málsvara?

         Sigurlaug Leifsdóttir kvaðst sammála Birnu og kvað tillöguna ekki nautakjötsframleiðendum til framdráttar.  Ef þeir sem eingöngu framleiða nautakjöt telja á sér brotið eiga þeir að sækja fundi félaganna í sínum héruðum og sækja rétt sinn í gegnum þau. Hún lýsti sig því andvíga tillögunni.

         Jón Gíslason benti á að þeir sem eingöngu framleiddu nautakjöt væru mikill minnihlutahópur og þó þeir störfuðu innan sinna félaga ættu þeir erfitt með að láta sína rödd heyrast í gegnum sín félög.  Það er því mikilvægt að við leyfum þeirra rödd að heyrast í okkar samtökum.

         Þórólfur Sveinsson kvað nautakjötsframleiðendur hafa starfað saman í óformlegum hópi undanfarin misseri. Síðasti aðalfundur LK tók ekki undir hugmyndir um að greitt yrði sérstaklega á holdakýr eins og lagt hafði verið til í starfshóp. Þessir aðilar eiga fullan rétt á að stofna sjálfstæð samtök, en þeir vilja ekki gera það fyrr en þeir vita afstöðu LK til málsins. Það er því farsælast fyrir LK að koma málum þannig fyrir að hægt sé að tryggja að þeir sem vilja vinna saman í slíkum félagsskap geti látið rödd sína heyrast á aðalfundi LK. Spurningin er hins vegar hvort að við séum með samþykkt slíkrar tillögu að hvetja til stofnunar slíks félagsskapar. Þetta er þó skynsamlegasta niðurstaðan til þess að auka líkurnar á því að nautgriparæktendur geti áfram unnið saman sem einn hópur.

         Skúli Einarsson lýsti sig sammála Jóni og Þórólfi. Hann lagði jafnframt til að LK beini því til aðildarfélaga sinna að þau hvetji nautakjötsframleiðendur til að taka þátt í félagsstarfinu.

         Sigurður Loftsson taldi tillöguna vera ágætis málamiðlun og til þess fallna að skapa einingu á meðal nautgriparæktenda. Það væri hins vegar ófært að slíkt félag fái atkvæðisrétt hjá LK, enda myndi það brjóta upp félagslega uppbyggingu LK. Hann hvatti jafnframt nautakjötsframleiðendur til að ganga til liðs við félög kúabænda um land allt því báðum aðilum væri styrkur af hinum.

         Sigurgeir Hreinsson taldi að betra væri að tala um í tillögunni að nautakjötsframleiðendur fái að senda áheyrnarfulltrúa á fundinn fremur en fulltrúa.

         Grétar Einarsson velti því fyrir sér hvaða hópur kæmi næst. Skyldi það verða Félag “vélmennaeigenda” o.s.frv.?  Þetta er á skjön við félagslega uppbyggingu LK.

         Kristín Linda Jónsdóttir taldi ekki ólíklegt að næsti hópur yrði félagsskapur þeirra sem eru með heimasölu á kúabúum.  Það mál virðist hafa meðbyr innan stjórnkerfisins um þessar mundir. Ýmsir hópar munu í framtíðinni koma til með að hittast til að ræða sín sérmál. Með samþykkt tillögunnar erum við þó ekki að gefa nautakjötsframleiðendum atkvæðisrétt á aðalfundum. Hún kvaðst því ekki leggjast gegn því að málið verði skoðað fram að næsta aðalfundi.

         Árni Brynjólfsson kvaðst jákvæður fyrir tillögunni og benti á að á hans heimasvæði ættu nautakjötsframleiðendur ekki aðgang að félagi kúabænda á svæðinu, enda væru þeir einir gjaldgengir þar sem leggðu inn mjólk hjá mjólkursamlaginu.

         Gunnar Jónsson kvað ekkert því til fyrirstöðu á Austurlandi að nautakjötsframleiðendur störfuðu þar í kúabændafélaginu og að þeir hefðu alla stöðu til þess að hafa áhrif á gang mála þar. Störf LK í gegnum tíðina hafa mikið snúist um nautakjöt. Auðvitað geta verið deildar meiningar um hvernig stuðningi skuli skipt út o.s.frv., en það er ekki eðlilegt að alltaf sé stofnað nýtt félag í hvert skipti sem menn eru ekki sammála um einstök mál.

         Skúli Einarsson var þeirrar skoðunar að fyrst að samþykktir félaganna væru svona misjafnar þá yrði LK að beita sér fyrir samræmingu á þeim þannig að nautakjötsframleiðendur hefðu alls staðar aðgang.

         Sveinbjörn Sigurðsson taldi LK hafa staðið sig vel í nautkjötsmálunum.  LK eiga ekki að ýta undir að komið sé á fót öðru félagi.  Slíkur hópur hefur enn ekki verið stofnaður og því væri réttast að vísa tillögunni frá.

         Bragi Konráðsson kvað nautakjötsframleiðendur ekki eiga aðgang að sínu félagi. Við verðum að heyra þeirra álit milliliðalaust.  Ekki er verið að tala um þeir fái atkvæðisrétt á aðalfundum, en við verðum að hlusta á þeirra skoðanir.

         Þórarinn Leifsson tók undir orð formanns og kvað hér vera á ferðinni ákveðna sáttatillögu. Þessir aðilar eru fáir og dreifðir um allt land. Ef þeir vilja mynda með sér félagsskap er það skynsamlegra að þeir starfi innan LK en að ýta undir að þeir hrekist úr félaginu. Ef við sláum á sáttahöndina erum við að eyðileggja fyrir okkur.

         Helga Guðmundsdóttir taldi gott fyrir LK að heyra sem flestar raddir og leita sátta þegar hægt er. Hún velti því hins vegar hvort þörf væri á breytingum á samþykktum í þessum tilgangi. Getur stjórn LK ekki einfaldlega ákveðið að bjóða áheyrnarfulltrúum án þess að breyta samþykktum til þess?

         Þórólfur Sveinsson taldi ekki þörf á að breyta félagsgrunninum samþykktum um hverjir megi sitja aðalfund með málfrelsi og tillögurétt væri breytt.  Í 5. grein kemur fram hverjir mega sækja fundinn og láta í ljós skoðanir sínar.  Fundurinn er opinn öllum félagsmönnum til áheyrnar. Það er hins vegar hreinlegast að breyta samþykktunum í þessu efni.  Varðandi aðra starfsemi, s.s. heimasölu þá fer það fyrst og fremst eftir því hvernig gjaldskyldan verður af því.  Verði greitt af því búnaðargjald til LK þá þarf að skoða það mál þegar þar að kemur.  Líklegra er að slíkt félag verði félagsskapur fleiri aðila en þeirra sem selja mjólkurafurðir heima.

         Tillagan var síðan samþykkt með 21 atkvæði gegn 5.

 

6.      Breytingar á samþykktum LK.

Grein 5.3 verði:

Fjöldi fulltrúa á aðalfundi LK skal vera 33. Hverju aðildarfélagi er heimilt að senda að lágmarki einn fulltrúa á aðalfund. Þeir fulltrúar sem upp á vantar til að fulltrúatalan verði 33 skulu skiptast milli aðildarfélaga eftir fjölda lögbýla á félagssvæðinu, sem hafa skráð greiðslumark í mjólk a.m.k. 5.000 lítra þann 1. janúar næstan á undan fundi, að viðbættum þeim fjölda, sem gengið hafa í félagið sem nautgripabændur en eru ekki handhafar greiðslumarks í mjólk.

 

Grein 7.2 verði: 

Formaður skal kosinn sérstaklega, en að öðru leyti skiptir stjórn með sér verkum varaformanns, ritara og meðstjórnenda svo fljótt sem kostur er.

 

Grein 9.2 verði:

Stjórn LK skal halda gerðarbók og skal hver fundargerð staðfest með undirskrift þeirra stjórnarmanna sem fundinn sitja. Fundargerðir stjórnarfunda skulu birtar á heimasíðu samtakanna eftir hvern fund.

 

Þórarinn Leifsson, framsögumaður starfsnefndar 3, gerði grein fyrir tillögunni.

         Tillaga til breytingar á grein 5.3 var samþykkt með 31 samhljóða atkvæði.

         Tillaga til breytingar á grein 7.2 var samþykkt með 33 samhljóða atkvæðum.

         Tillaga til breytingar á grein 9.2 var samþykkt með 33 samhljóða atkvæðum.

 

1.      Endurskoðun á matsreglum nautakjöts og samræming matsins á milli sláturhúsa.

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 16.-17. apríl 2004 telur brýnt að jafnhliða endurskoðun á matsreglum nautakjöts, verði farið yfir framkvæmd matsins með það fyrir augum að ná betra samræmi milli einstakra sláturhúsa.

 

Greinargerð:

Kjötmatsmenn eru í flestum tilfellum starfsmenn viðkomandi sláturhúsa sem vissulega verður að teljast hagkvæmt og einfalt fyrirkomulag. Hinsvegar hefur í gegn um tíðina oft virst sem að ekki sé fullkomið samræmi í matinu milli einstakra sláturhúsa. Slíkt vekur upp tortryggni um trúverðugleika matsins bæði hjá framleiðendum og neytendum. Brýnt er að skoða hvernig hlutleysi matsins verður best tryggt. 

 

Jón Gíslason, framsögumaður starfsnefndar 4, gerði grein fyrir tillögunni.

Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

2.      Stuðningur við nautakjötsframleiðslu.

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 16.-17. apríl 2004 ítrekar ályktun frá síðasta aðalfundi um stuðning stjórnvalda við nautakjötsframleiðslu á Íslandi, enda sýnt að á annan hátt verður ekki tryggt stöðugt framboð íslensks nautakjöts á markaði. 

 

Greinargerð: Á undanförnum árum hefur verð nautakjöts fallið gríðarlega, vegna óeðlilegs ástands á kjötmarkaðnum, og er orðið verulega undir framleiðslukostnaði. Afleiðing þessa er sú að verulega hefur dregið úr framleiðslu á nautakjöti en verð til framleiðenda þó hækkað óverulega, ekki síst vegna samkeppni erlendis frá. Kjötframleiðslan hérlendis er og verður fyrst og fremst af hreinræktuðum íslenskum gripum þar sem ör endurnýjunarþörf íslenska kúastofnsins kemur í veg fyrir umtalsverða framleiðslu holdablendinga. Íslenski stofninn, sem ekkert er kynbættur til kjötframleiðslu, á því í samkeppni við niðurgreidda erlenda framleiðslu af mun betri kjötframleiðslukynjum. Þrátt fyrir nokkra tollvernd virðist íslenska framleiðslan ætla að verða undir í samkeppni við þennan innflutning nema til komi opinber stuðningur.

 

Jón Gíslason, framsögumaður starfsnefndar 4, gerði grein fyrir tillögunni.

         Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

3.      Kannað verði hvort rétt sé að breyta töku verðskerðingargjalds af nautgripakjöti.

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 16.-17. apríl 2004 beinir því til stjórnar LK að íhuga hvort ástæða sé til breytinga á töku verðskerðingargjalds.

 

Jón Gíslason, framsögumaður starfsnefndar 4, gerði grein fyrir tillögunni.

         Tillagan var samþykkt samhljóða.

         Snorri Sigurðsson gerði grein fyrir reikningum verðskerðingarsjóðs árið 2003, en sjóðurinn er vistaður hjá Bændasamtökum Íslands.  Hann greindi ennfremur frá því hvernig sjóðurinn stæði að auglýsingastarfseminni.

         Tillagan var síðan samþykkt samhljóða.

 

4.      Reglugerðir og lagastoðir yfirdýralæknis við sölu á nautgripum á milli bæja.

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 16.-17. apríl 2004 felur stjórn LK að kanna til hlítar þær reglugerðir og lagastoðir sem störf yfirdýralæknisembættis byggja á við sölu á nautgripum milli bæja, í því skyni að tryggja, eftir því sem kostur er, fullt jafnræði milli bænda. 

Greinargerð:

Sala á nautgripum til lífs og möguleikar á gripakaupum hafa áhrif á aðstöðu og afkomu kúabænda og mikilvægt er að við starfslok einstakra kúabúa nýtist úrvals ræktunargripir sem best í áframhaldandi ræktun á öðrum búum. Greitt aðgengi að lífdýrum býður upp á mikilvægan sveigjanleika og möguleika á að bregðast við óvæntum áföllum á einstaka búum og er því verðmæti í afkomu kúabænda. Afar mikilvægt er að lög, reglugerðir og afgreiðsla séu ætíð í fullu samræmi og bændum aðgengilegar, og eðlileg stjórnsýsla viðhöfð við afgreiðslu mála.

 

Jón Gíslason, framsögumaður starfsnefndar 4, gerði grein fyrir tillögunni.

         Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

5.      Aðgerðir gegn kálæxlaveiki.

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 16.-17. apríl 2004 hvetur Bændasamtök Íslands og landbúnaðarráðuneytið að grípa nú þegar til varnaraðgerða gegn kálæxlaveiki sem orðið hefur vart á ákveðnum svæðum.

1. Kanna þarf nákvæmlega útbreiðslu veikinnar.

2. Leiðbeina um varnir gegn frekari útbreiðslu.

3. Leita leiða til að útrýma kálæxlaveiki.

 

Jón Gíslason, framsögumaður starfsnefndar 4, gerði grein fyrir tillögunni.

         Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

6.      Myndbandsupptaka á landbúnaðarsýningum.

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri 16.-17. apríl 2004 samþykkir að beina því til stjórnar LK að hún taki til athugunar að undirbúa með viðeigandi hætti að landbúnaðarsýningin Agromek og ef til vill fleiri markverðir atburðir er lúta að fræðslu og því að fylgjast vel með í greininni verði festir á filmu með formlegum hætti. Þetta myndefni stæði síðan bændum landsins og eða félögum þeirra til boða.

 

Greinargerð

Eins og kunnugt er hefur talsverður fjöldi bænda sótt sýningar og sótt þangað fróðleik, skemmtan, nýjungar og hugmyndir. Sýningar eru gjarnan stórar og yfirgripsmiklar og og alkunna er að erfitt er að skoða alla hluti og halda fullri athygli. Því gæti verið skoðunar vert hvort festa beri slíka atburði á myndband til að auka áhrifamátt efnisins.

 

Jón Gíslason, framsögumaður starfsnefndar 4, gerði grein fyrir ástæðum þess að nefndin ákvað af afgreiða tillöguna ekki úr nefnd. 

         Tillagan var því ekki tekin til afgreiðslu á fundinum.

 

         Þá var tekin til afgreiðslu tillaga starfsnefndar 1 þar sem hún leggur til að fjárhagsáætlun LK fyrir árið 2004 verði samþykkt.

         Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

11. Kosningar.

 

Magnús Sigurðsson, framsögumaður uppstillinganefndar, gerði grein fyrir tillögu nefndarinnar. Nefndin gerði það að tillögu sinni að formaður verði Þórólfur Sveinsson og meðstjórnendur þau Sigurður Loftsson, Jóhannes Ævar Jónsson, Kristín Linda Jónsdóttir, Egill Sigurðsson. Ennfremur að Gunnar Jónsson verði 1. varamaður í stjórn og Skúli Einarsson 2. varamaður.

 

Fyrst fór fram kosning um formann og féllu atkvæði þannig að Þórólfur Sveinsson hlaut 30 atkvæði, Skúli Einarsson 1, einn seðill var auður og 1 ógildur. Þórólfur Sveinsson telst því rétt kjörinn formaður Landssambands kúabænda til eins árs.

 

Næst fór fram kosning fjögurra meðstjórnenda og féllu atkvæði þannig að Sigurður Loftsson hlaut 31 atkvæði, Jóhannes Ævar Jónsson 31 atkvæði, Kristín Linda Jónsdóttir 30 atkvæði, Egill Sigurðsson 29 atkvæði og aðrir færri. Þau teljast því rétt kjörin sem aðalmenn í stjórn Landssambands kúabænda til eins árs.

 

Þá fór fram kosning tveggja varamanna í stjórn og féllu atkvæði þannig að Gunnar Jónsson fékk 21 atkvæði sem 1. varamaður í stjórn og Skúli Einarsson 15 atkvæði sem 2. varamaður í stjórn.  Þeir teljast því rétt kjörnir sem 1. og 2. varamaður í stjórn Landssambands kúabænda til eins árs.

 

Pétur Diðriksson og Magnús Hannesson, voru kosnir skoðunarmenn með lófaklappi.  Til vara Kristján Finnsson.

 

12. Önnur mál:

Fundarstjóri kvað afgreiðslu fundargerðar munu verða með þeim hætti að fulltrúum verði send hún og gefinn viss frestur til athugasemda áður en hún verður staðfest. 

 

Ólöf Hallgrímsdóttirkvaddi sér hljóðs og vildi nota tækifærið til að kynna fyrir fulltrúum ráðstefnu sem haldin verður á Hvanneyri um heimavinnslu og -sölu afurða, 30. apríl nk.  Ráðstefnan er öllum opin, en skráningargjald er kr. 1.500.  Hópurinn “Lifandi landbúnaður” mun sjá um veitingar, en þrír fyrirlesarar koma frá Noregi. Eðlilegt er að  sömu reglur gildi um þessi mál hér á landi og víða í Evrópu. Bað fulltrúa um að benda sér á aðila sem stæðu í slíkri vinnslu.

 

Katrín Birna Viðarsdóttirlagði fram svohljóðandi tillögu:

 

“Aðalfundur LK haldinn á Akureyri 16.-17. apríl 2004 beinir því til aðildarfélaga LK að samræma inngönguskilyrði í félögin.”

Tillagan var samþykkt samhljóða.”

 

13. Fundarslit.

Fundarstjórar þökkuðu fulltrúum fyrir góð störf og málefnalega umræðu og gáfu formanni LK, Þórólfi Sveinssyni, orðið til fundarslita.

Þórólfur Sveinssonþakkaði fyrir það traust sem honum hafi verið sýnt með kjörinu. Samstaðan innan hópsins skiptir mestu máli og er mikilvægari nú en oftast áður. Segja má að í mjólkursamningnum felist félagsleg fjárfesting.  Kúabændur eiga sem stétt mikið undir þeirri niðurstöðu sem þar fæst. Hann þakkaði heimamönnum fyrir góðan viðurgjörning og góð boð norðlenskra fyrirtækja. Þá þakkaði hann fundarstjórum, ritara og starfsfólki LK fyrir þeirra störf og sleit síðan fundi kl. 16:30.