Beint í efni

Fundargerð aðalfundar 2003

11.04.2003

Drög að fundargerð aðalfundar LK 2003

 

Aðalfundur Landssambands kúabænda 2003 haldinn að hótel Sögu 10. -11. apríl 2003.

 

Formaður Landssambands kúabænda, Þórólfur Sveinsson, setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Fyrsti fundarstjóri var kjörinn Erlingur Teitsson, varafundarstjóri Valdimar Guðjónsson. Fundarritari, Steinunn Fjóla Benediktsdóttir.  Kjörbréfa- og uppstillingarnefnd Sigurður Baldursson,  Arnar Bjarni Eiríksson og Gunnsteinn Þorgilsson.

 

Skýrsla stjórnar og fagráðs var flutt af Þórólfi Sveinssyni og fer hún hér á eftir í heild sinni.

  

Ágætu fulltrúar, góðir gestir.

 

Ég vísa til framlagðra gagna um störf Landssambands kúabænda frá síðasta aðalfundi. Skýrsla um störf stjórnar og framkvæmdastjóra hefur verið send til fulltrúa, sem og samantekt um störf fagráðs í nautgriparækt. Þessar skýrslur eru nokkuð ýtarlegar og því verður umfjöllun um félagsstarfið stillt í hóf hér. Hinn hefðbundni tími fyrir aðalfund Landssambands kúabænda hefur verið í ágúst og það er ekki meira en svo að formaður og framkvæmdastjóri hafi aðlagast nýjum fundartíma hvað varðar samantekt á skýrslum og öðru efni. Allt stendur þetta til bóta og verður enn betra næst.

 

Það er gott að geta með góðri samvisku byrjað aðalfundarræðu á orðunum „Nú er að baki enn eitt líflegt starfsár hjá Landssambandi kúabænda“. Þótt stundum gæti óþolinmæði hjá þeim sem hratt vilja fara og lítið virðist breytast, þá er það þó svo að þróunin í nautgriparæktinni heldur áfram af fullum þunga, þar sem framfarahugur bænda er drifkrafturinn. Eigi að greina þróun, þá er það er hins vegar oft erfitt að merkja nákvæmlega við og segja að þetta ár hafi með einhverjum hætti ráðið úrslitum. Miklu fremur einkennist nautgriparæktin af því að framleiðsluferillinn er langur og allar ákvarðanir sem síðan marka þróunina eiga sinn aðdraganda. Árið markaði þannig ekki sérstök tímamót, heldur hélt sú þróun áfram að búum fækkaði og þau stækka að sama skapi og tæknivæðing vex. Það ríkir festa með frjálsræði í framleiðslustýringunni, en slíkar aðstæður eru að mörgu leyti forsenda nauðsynlegra framfara. Kúabændur eru duglegir að tileinka sér nýja þekkingu sem er lykillinn að framþróun, afurðir eftir hvern grip halda áfram að vaxa og viðhorf innan greinarinnar er almennt jákvætt.

 

Það breytist margt í umhverfi nautgriparæktarinnar hvað varðar laga- og stjórnvaldsfyrirmæli. Nú styttist í að nautgripir verði merktir í samræmi við ákvæði reglugerðar um skyldumerkingar búfjár, það styttist líka í að breytt ákvæði reglugerðar um mjólk og mjólkurvörur taki gildi. Endurskoðun jarða- og ábúðalaga sem lengi hefur verið áformuð stendur nú yfir og mörg fleiri svið mætti nefna þar sem löggjafinn er að breyta þeim forsendum sem gilt hafa á fjölmörgum sviðum. Oftast felast í hinum nýju fyrirmælum ríkari skyldur en áður var og þar með meiri kostnaður. Það skiptir afar miklu máli að íslenskum landbúnaði sé skapað það starfsumhverfi að hann geti séð íslenskum neytendum fyrir hollum og öruggum búvörum á hagstæðum kjörum. Í því sambandi þarf ekki bara að líta til viðskiptamöguleikanna, heldur þarf einnig að gæta þess að þær fjölmörgu kvaðir sem á atvinnureksturinn eru lagðar séu ekki óheyrilega íþyngjandi.

 

Þá er rétt að geta þess hér að nú blasir við að Lífeyrissjóður bænda þarf að skerða réttindi sjóðfélaga þar sem of mikið vantar upp á að sjóðurinn eigi fyrir heildarskuldbindingum. Er það dapurleg staða, sérstaklega í ljósi þess hversu lífeyrisréttindi bænda eru léleg.

 

Ytri aðstæður voru nautgriparæktinni almennt hagfelldar á síðasta ári. Fóðuröflum gekk vel síðasta sumar og sá vetur sem við kveðjum eftir nokkra daga hefur verið með eindæmum mildur og snjóléttur.

 

Verð á mjólk hækkaði til framleiðenda 1. nóvember 2002 og síðan til neytenda um áramótin. Þrátt fyrir að verð hafi ekki hækkað eins og framreikningur sýndi þó vera þörf á, ber að fagna því samkomulagi sem tókst í Verðlagsnefnd um þessi mál. Það var sátt um það sem gert var og framhjá því verður ekki litið að líklega er vísitala neysluverðs að verða sá mælikvarði sem hvað mestu skiptir að líta til við mat á þörf fyrir leiðréttingar á mjólkurverði. Ef höfuðstóll skulda hækkar meira en tekjurnar, þá er skammt í alvarlegan vanda. Sú staðreynd að mjólkuriðnaðurinn hefur nú í annað sinn tekið á sig hækkun til framleiðenda tveim mánuðum áður en verð breytist á heildsölustiginu, hefur mjög greitt fyrir samkomulagi um verðlagninguna. Það spillir svo ekki fyrir að hagræðing í mjólkuriðnaðinum hefur gert það að verkum að þrátt fyrir þetta hefur afkoma hans verið viðunandi, og betri en gera mátti ráð fyrir.

 

Verð á nautgripakjöti er því miður of lágt og ástandið á kjötmarkaðnum algerlega óviðunnandi. Í kjölfar ályktunar síðasta Aðalfundar Landssambands kúabænda um málefni nautakjötsins, var óskað eftir því við landbúnaðarráðherra að skipaður yrði vinnuhópur til að fara yfir stöðu nautgripakjötsframleiðslu á Íslandi og gera tillögur til úrbóta. Starfshópurinn skilaði áliti í janúar.

 

Í áliti hans koma þar fram hugmyndir um stuðning eftir tveim leiðum; Annars vegar til eigenda holdakúa og hins vegar gæðagreiðslu á hvern grip sem flokkast í úrvalsflokk. Að því er varðar greiðslu á innlagðan grip af tilteknum gæðum, þá eru engin sérstök vandamál tengd því fyrirkomulagi. Að því er varðar greiðslur á gripi er ekki sömu sögu að segja. Hugtakið holdakýr á sér enga skýrt skilgreinda merkingu í íslensku máli. Hugtakið er notað í forðagæsluskýrslum og þá þannig að eigendur kúa skilgreina sjálfir hvað telst holdakýr og hvað telst mjólkurkýr. Holdakýr geta því verið af hvaða því kúakyni sem til er í landinu og hvaða blanda þessara kynja sem vera skal. Jafnframt geta þær verið svo margar sem viðkomandi bóndi telur vera. Af þessu er augljóst að hugtakið holdakýr á forðagæsluskýrslu er ekki nothæfur greiðslugrunnur fyrir stuðning við þessa framleiðslugrein. Vissulega eru nokkuð skipt sjónarmið um það með hvaða hætti umræddum stuðningi, ef af verður, verði best komið til framleiðenda. Annars vegar eru þau sjónarmið að greiðslurnar verði einkum til að varðveita holdastofnana sem nú eru til í landinu. Þannig verði eigendum þeirra gripa gert kleift að stunda áfram framleiðslu gæðakjöts og þetta stuðningsform hafi lágmarksáhrif á markaðnum. Hins vegar er það sjónarmið að greiða út þá gæðaflokka sem verið er að tryggja neytendum aðgang að. Það er þó ágreiningslaust að ef fyrri leiðin væri farin, þá þyrfti samt að gera kröfur um innlegg af skilgreindu magni og gæðum. Þess vegna munu fjármunirnir í öllum aðalatriðum fara til sömu aðilanna hvor leiðin sem farin yrði.

 

Í umfjöllum um þetta mál hefur það mjög komið fram að ástæða væri til að efla gæðaímynd nautakjötsins. Eftir er að úrfæra það nánar en ljóst má vera að gæði eru grunnur að markaðssetningu á því nautakjöti sem þessum stuðningi er ætlað að ná til. Þá hefur kjötmatið einnig komið til umræðu en fram hjá því verður ekki horft að breytileiki innan matsflokka er allt of mikill. Má vel vera að óhjákvæmilegt sé að taka upp EUROP matskerfið í nautakjötinu. Hvernig sem niðurstaðan verður í þeim samningum og þreifingum sem nú standa yfir, þá þarf Landssamband kúabænda að reyna eftir föngum að tryggja afkomu þeirra sem stunda þessa kjötframleiðslu. Þeir einstaklingar sem þarna eiga hlut að máli eru okkar félagsmenn og á okkur hvílir sú skylda að standa vörð um þeirra hagsmuni. Hvert framhaldið verður svo eftir þann samning sem nú er reynt að gera er óljóst, væntanlega verður reynt að ná framhaldssamningi eða þá að samið verður um stuðning við mjólk og nautakjöt í einum samningi, formið á því er ekki aðalatriði.

 

Samkvæmt þeim upplýsingum sem nýjastar liggja fyrir um framleiðslu og sölu nautakjöts, þá hefur dregið úr innleggi á ungneytakjöti um nálægt 14 % á síðustu þrem mánuðum. Við vitum ekki um stöðu lifandi birgða en þetta gæti verið vísbending um að ungneytakjötið sé að gefa eftir. Sé það svo, þá mun innflutt nautakjöt í vaxandi mæli koma í stað þess innlenda eftir nokkurn tíma.

 

Eftir umfjöllun um þetta mál á vettvangi stjórnar LK, viðhorfskönnun hjá þeim bændum sem eiga 6 holdakýr eða fleiri á forðagæsluskýrslu, viðræður við nokkra eigendur holdakúa, viðhorfskönnun hjá aðalfundafulltrúum Landssambands kúabænda og formönnum aðildarfélaga þess, viðræður við landbúnaðarráðherra og eftir að Landssamband kúabænda og Bændasamtök Íslands höfðu sent sameiginlegt erindi með beiðni til landbúnaðarráðherra um formlegar viðræður, þá er staðan sú að málið er til umfjöllunar hjá landbúnaðarráðherra og ríkisstjórn. Afstaða stjórnvalda ræður úrslitum um framhaldið.

 

Sala mjólkurvara gekk einstaklega vel sumarið 2001 og fram á vormánuði 2002. Því voru forsendur til að ákveða greiðslumark 106 milljónir lítra fyrir yfirstandandi verðlagsár. Á síðasta aðalfundi var frá því greint að ef þær spár sem þessi greiðslumarksákvörðun byggði á, reyndust réttar, þá þyrfti innanlandsmarkaðurinn prótein úr 109 milljónum lítra mjólkur á næsta verðlagsári. Þetta hefur því miður ekki gengið eftir því slaki kom í söluna sl. sumar og á fram á veturinn. Það fór því svo að þetta viðbótargreiðslumark fer ,,hægt og hljótt“, rétt eins og það kom.  Því eru nú líkur til að greiðslumark næsta verðlagsárs verði 104 milljónir lítra. Of snemmt er að spá um próteinþörf og þar með um kaup á umframmjólk þess verðlagsárs. Greiðslumarkið fer eftir því hvernig okkur gengur að markaðssetja afurðirnar. Reynsla síðustu mánaða og missera er áminning um að þar má aldrei slaka á.

 

Síðasti aðalfundur okkar ályktaði um nýjan samning um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar.  Þrátt fyrir góðan vilja stjórnvalda þá kom í ljós á haustdögum að ekki voru tök á að ná nýjum mjólkursamningi í gegn í vetur eins og vonir stóðu til og fram kemur í umræddri ályktun. Ferill málsins hefur í grófum dráttum verið sá að snemma vetrar óskaði Alþýðusamband Íslands eftir aðkomu að samningi ríkisins um málefni mjólkurframleiðslunnar. Eftir viðræður landbúnaðarráðherra við aðila vinnumarkaðarins þar sem fram kom vilji þeirra til að taka þátt í þessu verkefni, ákvað ráðherra að skipa ,,nefnd sem fjalla á um framkvæmd á 9. grein samnings ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar. Hlutverk nefndarinnar verður að kanna framkvæmd ofangreinds samnings og gera tillögur um stefnumótun fyrir greinina“. Nefndina skipa tveir fulltrúar frá landbúnaðarráðuneytinu og er Guðmundur B. Helgason, formaður nefndarinnar. Aðrir nefndarmenn koma frá fjármálaráðuneytinu, Bændasamtökum Íslands, Landssambandi kúabænda, Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.          

 

Nefndin hefur nú haldið tvo fundi. Þess er vænst að starfi hennar ljúki á árinu 2003 og þá taki við hinar eiginlegu samningaviðræður milli bænda og ríkisvaldsins. Þetta ferli er nánast endurtekning á aðdraganda þess mjólkursamnings sem undirritaður var í desember 1997, en þá störfuðu þessir aðilar saman í ,,Sjömannanefndinni“.

 

Nokkrar ályktanir hafa borist um samningamálin frá aðildarfélögum, og er þar undantekningarlaust um að ræða stuðningsyfirlýsingu við þá stefnu sem Landssamband kúabænda mótaði í þessu máli á aðalfundi 2002. Þá kom skýrt fram á bændafundum sem LK stóð að sl. haust að mikill stuðningur er við það skipulag sem við búum við í dag varðandi framleiðslustýringu og fyrirkomulag stuðnings. Í því sambandi vegur þungt að með núverandi formi stuðnings við mjólkurframleiðsluna er tryggt að hver króna sem til þessa verkefnis er varið, kemur til lækkunar á vöruverði til neytenda. Það er sú grunnforsenda sem samkomulag varð um í þjóðarsáttinni um 1990 og hefur haldist svo síðan. Væri farið að greiða stuðning með einhverjum öðrum hætti, er erfiðara að tryggja að hann komi neytendum að fullu til góða með sama hætti og í núverandi kerfi.

 

Almennt virðist ríkja skilningur á nauðsyn þess að mjólkurframleiðslan geti þróast áfram með hliðstæðum hætti og verið hefur undangengin ár. Hvort sú nýja lota í viðræðum sem nú standa yfir á vegum WTO breytir möguleikum stjórnvalda til að styðja nautgriparæktina liggur ekki fyrir. Í þeim viðræðunum er að þessu sinni m.a. fjallað um takmarkanir á leyfilegum aðgerðum stjórnvalda í hverju aðildarlandi samnings til að styðja sinn landbúnað, og stefnt að frjálsara flæði búvara milli landa. Þetta eru sömu markmið og voru uppi í  GATT-lotunni fyrir áratug eða svo. Það má kannski segja að málið snúist um það núna hvort framhald verður á viðráðanlegri þróun í aukningu alþjóðaviðskipta með búvörur, eða hvort niðurstaða viðræðnanna felur í sér einhverja þá kollsteypu sem raskar möguleikum íslenskra stjórnvalda til að tryggja áfram eðlilega þróun og viðgang íslenskrar nautgriparæktar.

 

Aðlögun að niðurstöðu umrædds WTO-samnings er þá fyrst tímabær þegar skrifað hefur verið undir næsta samning á þeim vettvangi. Þannig gæti hugsanleg undanþága fyrir einangruð smáríki til að styðja framleiðslu fyrir heimamarkað, gerbreytt forsendum okkar varðandi nautgriparæktina. Slík undanþága er möguleg alveg fram til loka viðræðnanna. Í þessu sambandi er nærtækt að minna á ,,íslenska ákvæðið“  sem gerði Íslandi fært að gerast aðili að Kýótó-samkomulaginu. Hinu skulum við ekki gleyma niðurstaðan í WTO-viðræðunum getur knúið á um breytingar og það raunar mjög miklar breytingar. Meðan ekki er ljóst hverjar þær verða megum við ekki draga kjarkinn úr bændum og öðrum sem málinu tengjast því það tærir landbúnaðinn innan frá.

 

En það er annað sem nær stendur í tíma og brýnna er að fá lausn á. Þar er um að ræða þá réttaróvissu sem uppi er varðandi starfsumhverfi mjólkuriðnaðarins eftir að hætt verður að verðleggja mjólkurvörur á heildsölustigi, en að óbreyttum ,,Samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar“ gerist það 1. júlí 2004. Við getum ekki litið framhjá þeirri staðreynd að það eru ekki áhrif alþjóðasamninga sem eru að rústa kjötframleiðsluna núna, heldur fullkomið skipulagsleysi í framleiðslu og afurðasölu kjötframleiðenda. Þó standa kjötframleiðendur miklu betur að vígi en mjólkurframleiðendur til að eiga möguleika á að lifa af í óskipulegri afurðasölu. Ástæðan er sú mjólkurframleiðendur eru algerlega háðir verkaskiptingu í mjólkuriðnaðinum, þar sem á einum stað er framleidd þessi vara og á öðrum stað önnur vara, sem við þurfum síðan að geta selt í fyrirtæki á borð við Osta- og smjörsöluna. Jafnframt þarf að vera hægt að mæta þörfum neytenda fyrir vörur þar sem markaðurinn greiðir misjafnlega mikið fyrir hráefnið. Þá þarf líka að skipuleggja vinnsluna út frá því að við höfum sem markmið að framleiða sem næst þá mjólk sem íslenski markaðurinn þarfnast. Samandregið má segja að sá góði árangur sem íslenskur mjólkuriðnaður hefur náð undanfarin ár byggist á skynsamlegu heildarskipulagi og verkaskiptingu milli samlaga. En að hverju eigum þá að stefna í þessu efni ?   Opinber verðlagning á heildsölustigi hefur vissulega reynst okkur vel og gæti gert það áfram, það er þó háð afstöðu starfandi stjórnvalda á hverjum tíma. Auk þess verður að líta til þess að opinberar verðákvarðanir af þessu tagi eru almennt á undanhaldi. Því verður einnig að skoða aðrar leiðir og vissulega er unnið að því. Þar er einkum ,,frjálsa leiðin“  sem byggir á því að hráefnið er afreiknað á landsgrunni og síðan selt til vinnslunnar á breytilegu verði eftir því í hvaða afurðir eða afurðaflokka það á að fara. Þessi leið hefur ýmsa kosti en hún leysir þó ekki nema hluta vandans. Áfram stendur spurningin um heimildir til sameiginlegrar markaðssetningar og heildarskipulags. Þá er eðlilegt að upp komi spurningin um það hvort ekki sé komið að því að sameina þurfi íslenskan mjólkuriðnað í eitt fyrirtæki, og leysa þar með öll vandamál tengd verkaskiptingu og verðtilfærslu í eitt skipti fyrir öll ? Spurningin er ekki síst eðlileg vegna þess að nú er orðin eignar- og stjórnunarleg tengsl hjá stærstum hluta mjólkuriðnaðarins og tök framleiðenda á iðnaðinum hafa styrkst. Í gegnum þessi áhrif ætti að vera hægt að ná talsverðu af markmiðunum. Ef ,,frjálsa leiðin“ yrði farin, þá virðist kominn grunnur að slíkum samruna. Því má þó ekki gleyma sú leið felur í sér að öll fyrirtæki hafa sömu aðstöðu til að bjóða í hráefni til vinnslu yfir í sömu vörutegund. Það gildir einnig um ný fyrirtæki sem kynnu að verða stofnuð. Sameining á þeim afurðastöðvum sem nú eru starfandi myndi því ekki skapa þeim einokunarforskot, heldur auka hagkvæmni rekstrar. Því kann það að fara svo að framundan sé nánari sameining þeirra afurðastöðva sem nú eru starfandi, ásamt því að lagaramma um mjólkurvinnsluna verði breytt.

 

Í tengslum við þessi samningamál hafa að sjálfsögðu verið ýmsar óformlegar viðræður við stjórnvöld og fleiri aðila. Samskipti við stjórnvöld í tengslum við þessi mál hefur verið með ágætum og afstaða þeirra til kúabænda og nautgriparæktarinnar eins og hún hefur birst í þessum viðtölum, er mjög jákvæð. 

 

Nú liggur fyrir að mjólkuriðnaðurinn þarf ekki að kaupa prótein úr mjólk umfram greiðslumark á þessu verðlagsári til að mæta þörfum innlenda markaðarins. Það sýnir sig nú hversu nauðsynlegar þær breytingar voru sem gerðar hafa verið á svokölluðum C-greiðslum. Í heild eru þær áfram 15 % beinna greiðslna, en sú tilhögun að greiða þær á innvegna mjólk í júlí og ágúst skapar allt aðra og betri stöðu gagnvart umframmjólkinni. Nú er það svo sjálfsagt að öll umframmjólk komi í samlag að öll umræða þar um ætti að vera óþörf.

 

Stjórn Landssambands kúabænda og fulltrúar þess í Fagráði nautgriparæktar hafa undafarið ár unnið að stefnumótun fyrir nautgriparæktina eins og síðasti aðalfundur mælti fyrir um. Sigurður Loftsson mun gera grein fyrir niðurstöðunni hér á eftir. Það er vandaverk að eiga við stefnumótun af þessu tagi. Það er nógu erfitt að vinna stefnumótun fyrir eitt fyrirtæki og mörg dæmi um að slík vinna hafi orðið gagnslítil, hvað þá fyrir starfsgrein þar sem eru nálægt 900 kúabú. Það er þó enginn vafi á því að við höfum öll gott af því að meta hvar við stöndum og hvert við viljum stefna. Jafnframt verðum við að horfast í augu við það að innan skamms geta verið komnar upp einhverjar þær forsendur sem við sjáum ekki fyrir í dag. Þar með er ekki gefið að í stefnumótuninni sé að finna vegvísi um hvað við viljum í því efni. Við eigum að taka stefnumótunina alvarlega en forðast að líta á hana sem endanlega að einhverju leyti því við lifum við síbreytilegar aðstæður.

 

Í tengslum við stefnumörkunina hefur að sjálfsögðu einnig verið litið til þess hvað aðrar þjóðir eru að gera. Á síðasta aðalfundi Landssambands kúabænda var niðurstaðan dregin saman í setninguna;  Það er mikil óvissa um framtíðina. Þessi niðurstaða hefur ekkert breyst og líklega er það nú þannig að það hafi alltaf verið óvissa um framtíðina. Við þessa óvissu verðum við að búa sem best við getum. Öllu framar þurfum við að treysta þann faglega grunn sem við byggjum starf okkar á og leita allra færra leiða til að hagræða í rekstri. Við erum að framleiða gæðavöru og eru í raun allir vegir færir hvað þann þátt varðar. Hins vegar er hár framleiðslukostnaður nautgripaafurða á Íslandi það viðfangsefni sem við verðum að takast á við af mikilli alvöru á komandi árum. Einmitt þess vegna vil ég taka undir það sem segir í RANNÍS-skýrslunni þar sem fjallað er um opinberar aðgerðir ,,Áríðandi er að þær breytingar sem stjórnvöld kunna að gera dragi ekki úr hvata til hagræðingar“.

 

Um leið og ég lýk þessari skýrslu til aðalfundar Landssambands kúabænda árið 2003, vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu sem hafa átt samskipti við Landssamband kúabænda á liðnu starfsári. Einnig þeim félögum mínum í stjórninni, þeim Sigurði Loftssyni, Agli Sigurðssyni, Kristínu Lindu Jónsdóttur, Jóhannesi Jónssyni og varamönnunum, þeim Gunnari Jónssyni og Skúla Einarssyni, sem og  Snorra Sigurðssyni, framkvæmdastjóra,  fyrir gott samstarf á liðnu starfsári.

 Megi aðalfundur Landssambands kúabænda skila góðu verki.

 

Þessu næst kynnti Sigurður Loftsson  stefnumörkun Landssambands kúabænda.

 

Ávörp gesta.

Guðni Ágústsson. Hann óskaði kúabænda heilla í störfum í framtíðinni og þakkaði samstarfið í langa tíð. Hann talaði um að það ríki mikill kraftur í mjólkurframleiðslunni og mikið af ungu fólki starfi í greininni. Þeir sem hafa trú á sjálfum sér sjá hvað framtíðin er björt og hafa trú á því. Hann talaði um það að hann sem landbúnaðarráðherra hafi starfað með fólki sem hefur trú á sinni grein og finni hagstæðar leiðir til að bæta greinina og það sé gaman að vinna með slíku fólki. Hann sagðist vera sammála því að landbúnaðurinn hér þarf að búa við mikið atvinnuöryggi. Búin hafa verið að þróast og sérhæfðu kúabúin hafa skilað betri afkomu og meiri hagnaði en að vísu hafa skuldirnar aukist vegna mikilli fjárfestinga hjá bjartsýnum bændum. En bændum hefur verið að fækka sem er sárt en mikilvægt er að halda þróuninni áfram. Þessi atvinnugrein þarf sem fyrst að fá nýjan samning til næstu 7 eða 10 ára til að tryggja framtíð greinarinnar og hann þarf helst að gera á þessu ári. Hann mótmælir því harðlega sem nú ríkir í kosningabaráttunni að afnema þennan stuðning því að hann þarf að vera til að tryggja afkomu greinarinnar og stuðla að því að bændur geti haldið áfram að framleiða þá vöru sem þeir hafa framleitt fyrir neytendur og haldi niðri verðinu til neytenda.

 

Mjólkuriðnaðurinn er sá glæsilegasti iðnaður sem til er landinu og honum þarf að halda áfram. Nautakjötið hefur ekki hækkað í verði til bóndans í 10 ár. Hann telur mikilvægt að styrkja allar greinar landbúnaðarins. Íslenskur landbúnaður skapar mikil verðmæti fyrir þjóðina. Að lokum þakkaði hann samstarfið á þessu kjörtímabili og hvatti íslenskar bændur til áframhaldandi baráttu.

 

Drífa Hjartardóttir, formaður landbúnaðarnefndar Alþingis, óskaði allra Landssambandi kúabænda allra heilla og þakkaði samstarfið við formann L.K. Fannst ánægjulegt að sjá hvað mikill kraftur væri í greininni og hvað gaman væri að sjá kraftinn í unga fólkinu. Henni fannst ánægjulegt að sjá hversu margar konur sætu hér sem fulltrúar á þinginu. Henni fannst framtak L.K. með heimasíðuna kjöt.is ánægjulega og það væri góð leið til að auglýsa þá vöru sem væri verið að framleiða. Hún talaði um að nauðsynlegt væri að huga að sjúkrabótum fyrir bændur sem þeirra þarfnast hvort sem væri fyrir sjálfan sig eða fyrir börn sín sem þarf að fylgja á sjúkrahús.

 

Ari Teitsson, formaður Bændasamtaka Íslands, þakkaði fyrir samstarfið milli L.K. og Bændasamtakanna en það hefur helst verið í formi leiðbeiningarþjónustu til bænda. Hann lét óánægju sína í ljós um samstarfið varðandi forritið ískýr en kúabændur hafa ekki viljað nýta sér það forrit nógu vel og hann veit ekki hvaða leið eigi að fara í því sambandi. Ef við göngum í Evrópusambandið þá mun það vera erfitt fyrir okkur að keppa um verðið að kvótinn í mjólkurframleiðslunni muni nánast leggjast af, en hann er mikið verðmæti og öryggi fyrir bændur í mjólkurframleiðslu.

 

Torfi Jóhannesson, rannsóknarstjóri L.B.H., bar fundinum kveðju rektors Magnúsar B. Jónssonar en hann gat ekki komið. Torfi kynnti aðeins starfsemi skólans og þá kennslu sem þar fer fram. Hann talaði um fjósbygginguna og sagði að nú væri búið að brenna öll útboðsgögn á geisladiska og þau verði send út í vor. Fjósið á að taka í notkun haustið 2004. Að lokum óskaði hann fundarmönnum góðs gengis á fundinum. 

 

Umræður um skýrslu stjórnar

Birgir Ingþórsson þakkaði stjórninni fyrir vel unnin störf. Hann velti aðeins vöngum yfir stöðunni á kjötmarkaðnum en hún er frekar slæm núna. Hann hafði vonast eftir því að ráðherra myndi aðeins koma inn á það mál í ávarpi sínu, þar sem L.K. hefur verið í viðræðum við ráðuneytið um málið. Hann taldi að það væri mjög vont að bíða í svona mikilli óvissu. Hvernig eigum við að standast samkeppni við alifugla- og svínabændur, en heyrst hefur að bankarnir ætli að afskrifa um 70% af þeim skuldum og við það er erfitt að keppa. Ekki nema að það verði gert við alla bændur og þá fara bændur jafnvel að fá laun fyrir vinnu sína. Það þarf að flýta gerða samnings og huga betur að kjötgeiranum.

 

Ásthildur Skjaldardóttir. Vakti athygli á verkefni Bændasamtakanna “Dagur með bónda” en starfandi bændur heimsækja nemendur í 7.bekk og kynna starfsemi sína en þessi kennsla tekur 4 tíma. Einn liður í þessari dagskrá er ættartré sem börnin eru búinn að fá það í hendur og fylla út áður en bóndinn kemur í heimsókn. Þetta ættartré vekur mikla lukku meðal nemenda.

 

Pétur Diðriksson. Hann ræddi um vangaveltur formanns varðandi nautakjötið. Hann telur nauðsynlegt að halda nautakjötsframleiðslunni í landinu og hún eigi að fá að lifa með þeim aðferðum sem til verða fundnar. Hann vill að skoðað verði hvernig staðið er að nautakjötsframleiðslu í Evrópusambandinu þar sem hún er styrkt og hvað við getum nýtt okkur af því. Það er ekki stór hópur sem er eingöngu með holdakýr og spurning hvort við eigum við að halda honum úti. Þetta er pólitísk spurning. Framundan er gerð nýs Mjólkursamnings, telur hann að bændur vilji hann sem mest óbreyttan. En núgildandi samningur hefur reynst mjólkurframleiðendum vel. Mjólkurframleiðsla er það bindandi og fjárfrekt starf og bændur þurfa að geta lifað af henni. Það er búið að byggja upp landbúnaðinn síðustu öldina. Hann óttast ekki WTO. Þessi pólitíska umræða sem nú er í gangi er markaðsleg ógn og við þurfum að taka hana í okkar hendur og leiðrétta hana. Ef við getum haldið betur utan um mjólkuriðnaðinn með einu fyrirtæki þá erum við búinn að tryggja betri afkomu bænda. Það þarf að vera góð bústjórn í þessari atvinnugrein. Varðandi menntun bænda lítur hann svo á að það þurfi að fá stúdenta inn í bændadeildina til þess að þeir séu betur lesandi. Hann leggur áherslu á að bændur séu vel læsir á erlend tungumál.

 

Hádegishlé.

 

Niðurstöður kjörbréfanefndar gerði grein fyrir áliti nefndar Arnar Bjarni Eiríksson skýrði frá.

 

Frá Mjólkursamlegi Kjalarnesþings:

Magnús Hannesson, Eystri Leirárgörðum

Ásthildur H. Skjaldardóttir, Bakka, varamaður

 

Frá Mjólkurbúi Borgfirðinga:

Ásbjörn Pálsson, Syðri Haukatungu II

Pétur Diðriksson, Helgavatni

Jón Gíslason, Lundi

 

Fá Mjólkursamlaginu í Búðardal:

Lára Hansdóttir, Á

Bragi Konráðsson, Galtartungu

 

Frá Mjólkursamlagi Ísfirðinga:

Árni Brynjólfsson, Vöðlum

 

Frá Nautgriparæktarfélagi Vestur Húnavatnssýslu:

Skúli Einarsson, Tannstaðabakka

 

Frá Félagi kúabænda í Austur Húnavatnssýslu:

Magnús Sigurðsson, Hnjúki

Birgir Ingþórsson, Uppsölum

 

Frá Félagi kúabænda í Skagafirði:

Þórarinn Leifsson, Keldudal

Sigurður Baldursson

Gunnar Sigurðsson,Stóru- Ökrum

 

Frá Búgreinaráði BSE í nautgriparækt:

Þorsteinn Rútsson, Þverá

Gunnsteinn Þorgilsson, Sökku

Guðbergur E. Eyjólfsson, Hléskógum

Sigurgeir Pálsson, Sigtúnum

 

Frá Félagi þingeyskra kúabænda:

Sveinbjörn Sigurðsson, Búvöllum

Erlingur Teitsson, Brún

Ólöf Hallgrímsdóttir, Vogum

 

Frá Félagi nautgripabænda á Héraði og Fjörðum:

Jón Steinar Elísson, Hallfreðarstöðum II

Jóhann Gísli Jóhannsson, Breiðavaði

 

Frá Nautgriparæktarfélagi Austur Skaftafellssýslu:

Eiríkur Egilsson, Seljavöllum

 

Frá Félagi kúabænda á Suðurlandi:

Sveinn Ingvarsson, Reykjum

Arnar Bjarni Eiríksson, Gunnbjarnarholti

Grétar Einarsson, Þórisholti

Sigrún Ásta Bjarnadóttir, Stóru Mástungu I

Sigurlaug Leifsdóttir, Nýjabæ

Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ

Jóhann Nikulásson, Stóru Hildisey,

Katrín Birna Jónsdóttir, Ásólfsskála

Birna Þorsteinsdóttir, Reykjum

 

Kjörbréfin voru samþykkt.

 

Framhald umræðna um skýrslu stjórnar 

Þórarinn Leifsson þakkaði formanni og framkvæmdarstjóra fyrir vel unnin störf. Það er mjög erfitt fyrir nautakjötsframleiðendur að keppa við bankana í framleiðslu. Hvar á að setja mörkin við flokkun á úrvalsgripum, á að hafa þau sömu og eru í dag eða á að skipta upp UNIA í tvo flokka, a og b. Neytendastuðningurinn við mjólkurframleiðsluna er það auðveldasta sem við getum haft í dag. Það er auðvelt en dýrt og þá sérstaklega kvótaverðið á mjólkurkvótanum. Það er ekki æskilegt að greiða háar fjárhæðir út á móa, holt og hæðir heldur að nýta það til landbúnaðarins eins og Guðni nefndi í sínu ávarpi. Við þurfum að geta séð það 5 -10 ár fram í tímann hvernig við viljum hafa kerfið og núverandi samningur er ágætur. Stefnumörkun er plagg eins og það liggur fyrir í dag. Mikilvægt er að taka stefnu fram í tímann og vera sátt við hana. Það eru mikið til ungir bændur sem skuldsettir eru vegna þeirra framkvæmda sem þeir hafa staðið fyrir, síðan eru líka bændur á miðjum aldri sem hafa komið sér ágætlega fyrir og að lokum eldri bændur sem eru að hætta. Við þurfum að hækka menntunarstig greinarinnar eins og er í flest öllum greinum, það er alltaf verið að gera meiri menntunarkröfur á stéttirnar. Hann tekur undir orð Péturs um að grunnmenntun og tungumálakunnátta eru grundvallaratriði til þess að greinin geti starfað áfram.

 

Gunnar Sigurðsson byrjaði á að þakka formanni, framkvæmdastjóra, og stjórn fyrir mjög gott starf. Það þarf að taka til endurskoðunar flokkunarkerfi í nautakjöti, það er ótrúlegt að það hafi ekki verið farið í EUROP kerfið á sínum tíma, en það kerfi þyrfti að taka upp. Hann segist vera afturhaldssamur bóndi og segist ekki fjárfesta nema að hann sjái fram á að það spari sér tíma og fyrirhöfn og nefndi hann í því sambandi forritið ískýr sem er tímafrekt og dýrt forrit. Hann vill að það verði ekki kvaðir á bændur að kaupa og nota forrit til þess að geta starfað í stéttinni. Það má ekki kúvenda stjórnkerfinu, heldur þarf að búa til umhverfi sem laðar okkur að breytum forsendum og endurskoðar það sem er í gangi hverju sinni. Þessi gagnsæja leið sem við notum í dag er mjög góð, en það er mjög erfitt að verja hana. Stefnumörkun í sambandi við rannsóknarþáttinn, þar þarf að samræma miklu meira aðgerðir. Það þarf að vera miklu meira vakandi um að koma rannsóknarniðurstöðum til bænda sem fyrst og helst án milliliða. Hann er mjög ánægður með tímasetningu aðalfundarins og þá staðsetningu sem honum var valin. Það mætti alveg fara með hann víðar um landið. Hann þakkaði Ásthildi fyrir kynninguna á “dagur með bónda”, það væri mjög gagnlegt og jafnvel mögulegt að byrja enn neðar og fara með það niður í leikskólana og kynna okkar starfsemi þar.

 

Kristín Linda Jónsdóttir talaði um að fyrst og fremst væri verkefni fundarins stefnumörkun sem Sigurður kynnti áðan. Það er ykkar núna að brýna þetta vopn til að vinna með því og til þess að þetta verði lifandi plagg í höndunum á okkur. Stefnumótunin hefur margþætt hlutverk. Þetta er líka ákveðin handbók á einn eða annan hátt sem þjónustar framleiðendur. Síðan getur forystusveit Landssambandsins vísað í það hverju sinni, því þarna stendur eitthvað svart á hvítu. Þetta er einhverskonar vegvísir til að ná fram markmiðum okkar. Hóparnir verða að velta fyrir sér þessum samningum hvernig við viljum hafa það. Kafli 1, 2 og 3 fjalla fyrst og fremst um mjólkurmarkaðinn. Viljum við setja það inn í stefnumótunina að framleiða snyrtivörur úr mjólk. Mjólkurfræðingarnir eru fyrst og fremst að framleiða úr mjólkinni til neyslu. Eitt í sambandi við markaðsetningu á mjólk er matarmenning. Við vitum jafnvel meira um kínverska matarmenningu heldur en íslenska. Útlendingar sem koma til landsins halda að kjúklingar og pitsur sé íslensk matarmenning, við verðum að markaðssetja meira íslenska matarmenningu. Í sambandi við fræðsluna þá erum við öll sammála um menntunina en hvaða menntunarstig er best. Ekki er hægt að mennta sig í eitt skipti fyrir framtíðina. Við erum sjálfstæðir atvinnurekendur með fjölbreytt starfssvið. Það er hennar mat að fólk er ekki tilbúið að fara í 6 ára nám til þess að verða bóndi. Félagskerfi kúabænda þarf að snúast um þætti nútímans en ekki fortíðina.

 

Sigurlaug Leifsdóttir var forvitinn að vita í hvað nefnd hún ætti að vera. Hún velti fyrir sér hvort taka ætti upp gæðastýringu í mjólkurframleiðslu þar sem mjög gott gæðaeftirlit væri nú þegar til staðar með forðagæslunni, mjólkurfræðingum og ráðunautum.

 

Jón Steinar Elísson lýsti sig sammála hverju orði Kristínar Lindu. Nautakjötsframleiðslan er honum ofarlega í huga. 2001 var framleiðslan 3000 tonn og af því voru 170 tonn í úrvalsflokki. Hvað eru verslanir tilbúnar að greiða fyrir kjötið. Ef skoðaðar eru þessar tvær hugmyndir, eins og gripastuðningur sem myndi greiðast jafnt á holdakýr, erum við þá eingöngu að styðja nautgripabændur sem framleiða þessi 170 tonn eða þessar gæðagreiðslur sem greiðist jafnt á UNI Ú A og B, sem er vænlegri kostur. Er hugsanlegt að álagsgreiðslur komi til að trufla greiðslur afurðastöðva? Við stöndum frammi fyrir samningnum um mjólkurframleiðsluna, er hugsanlegt að samningur um nautakjötsframleiðsluna muni trufla þann samning?

 

Þorsteinn Rútsson tók undir orð Drífu að hér væru margar konur á þessum fundi og því ber að fagna. Flýta þarf sameiningu mjólkuriðnaðarins í eitt fyrirtæki. Við sameinumst um að sameina iðnaðinn og síðan finnum við leiðir til að vinna eftir í hagræðingu. Engar líkur er til þess að neytandinn njóti góðs af afnámi heildsöluverðlagningar. Ef við stöndum ekki vörð um sameiningu iðnaðarins stöndum við afar illa. Við vildum heyra meira frá Guðna hvernig stjórnvöld vildu hafa þetta og hvernig það fari best. Þetta er ekki einfalt mál. Kristín Linda nefndi aðferðir erlendis og það sýnir okkur glöggt hversu erfitt er að gera flókna hluti utan um lítið kerfi. Ef ekki er haldið rétt utan um hlutina í upphafi er auðvelt að misnota þá. Flutning Bændasamtakanna og Rala út á land er hægt að hártoga á marga vegu. Það er ekki hægt að ætlast til að aðrir geri hlutina og gera ekkert sjálf. Það er ekkert sjálfgefið að við séum með þessa stofnun í dýrasta húsinu í landinu. Hann las upp tillögu sem innlögn í stefnumótunina. Hvetur til þess að mörkuð verði sú stefna að Bændasamtökin, Rala og tengdar stofnanir flytji út á land til þess að vera í betri tengslum við landbúnaðinn.

 

Sigurður Baldursson hældi Kristínu Lindu fyrir kjöt.is sem væri gott framlag. Hann hefur vanist því að mjólk og mjólkurvörur væru fyrst og fremst til að borða en það væri afar spennandi ef líka væri hægt að smyrja þeim á sig og skilaði vafalaust mun meiri peningum. Menntun bænda er nauðsynleg og Sigurður vill að það sé skilyrði fyrir því að menn sem ætli að verða bændur í dag þurfi að ljúka búfræðiprófi. Ari minntist aðeins á kvótann, en er til önnur leið til að bæta afkomu okkar? Að hans mati er það ódýrasta leiðin til að bæta afkomu sína til búrekstursins þó svo að hún sé dýr. Það þarf að styðja kjötframleiðsluna að einhverju marki. Er lausn að færa alla mjólkurframleiðsluna í eitt fyrirtæki? Er það óraunhæft að lífeyrissjóður bænda láni út á framkvæmdir heldur en að kaupa erlend bréf?

 

Sverrir Heiðar Júlíusson þakkaði Landssambandi kúabænda og þá sérstaklega Snorra Sigurðssyni fyrir gott samstarf. “Dagur með bónda” er mikið og þarft verkefni og nauðsynlegur þáttur. Það er nauðsynlegur þáttur hjá LBH að taka áfram á móti ungmennum og kynna fyrir þeim starfsemi bóndans og verður það enn auðveldara með tilkomu nýs fjóss. Hann hvatti til þess að bændur leyfi börnum sínum að taka meiri þátt í búskapnum og þá ekki bara í formi vinnu við mjaltir, þrif og þess háttar heldur líka að þau séu með í ákvörðunartöku t.d. um hvenær eigi að fara slá og þess háttar.

 

Jóhannes Jónsson vakti athygli á að atriði varðandi bindingu greiðslumarks á lögbýli, hann telur að þessi stranga túlkun sé farin að há okkur. Þannig að það má t.d. ekki byggja eitt fjós og framleiða í því inn á  greiðslumark tveggja jarða.. Sá sem stundar framleiðsluna og ber ábyrgð á rekstrinum fái beingreiðslurnar. Ekki er hægt að ætlast til að fólki fari út í stórar framkvæmdir fyrr en búið er að ganga frá nýjum búvörusamningi. Bændur eiga þennan iðnað að lang mestu leyti og þeir sjálfir þurfa að ákveða hvað eigi að gera.

 

Ólöfu Hallgrímsdóttir þóttu umræðurnar líflausar á Mýveskan mælikvarða. Hún telur sig vera í góðum tengslum við neytendur þar sem hún er eini bóndinn sem rekur ferðamannafjós. Það er til hópur fólks sem hefur ekki hugmynd um það að bóndinn þarf að mjólka kýrnar tvisar á dag og á jólum líka. Við förum víða um Evrópu og okkur er boðið upp á heimagerðar vörur og það þykir sjálfsagt mál. En við gerðum þetta hérna heima þá gætum við dottið niður “dauð”. Þessu þarf að breyta. Hún talaði um að það þyrfti að auka úrvalið á mjólkinni og neytendur hefðu úr meiru að velja eins og t.d. ófitusprengda mjólk. Reglugerð dýralækna er henni enn ofarlega í huga og ólíðandi að tveir dýralæknar á sama svæði hafi ekki sama gjald. Hún vill að afurðastöðvarnar fari út af þeirri braut að kaupa mjólkurkvóta heldur nýti fjármagnið til frekari framleiðslu, enda mega þær ekki kaupa kvóta þar sem þær eru ekki lögbýli. Hún kom inn á það að engin kona væri í markaðsnefnd mjólkuriðnaðirins.

 

Arnar Bjarni Eiríksson þakkaði fyrir góð störf stjórnarinnar. Hann talaði um kvótakerfið. Beingreiðslurnar eru mjög skilvirkar og draga ekki úr taktík bænda að búa sem hagkvæmast. Við eigum ekki að kyngja öllu sem að okkur er rétt. Í sambandi við mjólkina sjálfa þá er ákvörðun afurðastöðva afar mikilvæg. Við hljótum að gera kröfur á afurðastöðvarnar og jafnframt að styðja fast við þær.

 

Egill Sigurðsson talað um stuðninginn gagnvart nautakjötinu, að samþykkja yfir okkur greiðslur án þess að framleiða. Menn verða gæta að sér hvert þeir ætla að fara með stuðninginn. Ari er ekki með sömu áherslur á búvörusamninginn og Guðni og Drífa en þegar pólitík stendur með okkur eru allt aðrar áherslur og þær eigum við að nýta okkur. Tekur heilshugar undar það að stofnanir flytji út á land og telur það fagnaðarefni að Eyfirðingar séu farnir að styðja það líka. Hann kom inn á það að til er ófitusprengd mjólk sem er lífræna mjólkin.

 

Þórólfur Sveinsson þakkaði lofsamleg ummæli gesta í garð Landssambands kúabænda og málefnalegar ræður fulltrúa. Hann var sammála Gunnari Sigurðssyni um að Ískýrin væri ekki nógu góð en hún myndi samt þjóna sínu hlutverki í búrekstrinum. Nokkrir komu inn á nautakjötið. Það sem vantaði inn í ræðu landbúnaðarráðherra er að við fáum fjármuni frá hinu opinbera til að setja inn í verkefnið. Um þetta leyti næsta árs verður vonandi kominn nýr mjólkursamningur. Hann vonast til að Bændasamtök Íslands og L.K. séu samhuga í þessari samningargerð og að Búvörusamninganefndin muni ná ágætlega saman. Varðandi sölumálin í mjólkinni, þá höfum við trúlega vanmetið stöðuna síðasta haust og hefðum þurft að leggja meiri áherslu á markaðsstarfið til að halda fengnum hlut. Við þurfum að vera stöðugt á vaktinni, ef við gerum það ekki sjálf þá gerir það enginn.

 

Flutt erindi:

Nautgriparækt og fjármálamarkaðurinn – Ingi Björnsson, útibústjóri Íslandsbanka hf. Akureyri.

 

Íslandsbanki var stofnaður árið 2000 og hefur sama nafn og var upphaflega árið 1904. Íslandsbanki veitir alhliða fjármálþjónustu fyrir einkafjármál og eignastýringu. Eignafjármögnun – Glitnir sem sér um lán til vélakaupa, bílakaupa og o.s.frv.

 

Markhópar fyrir bankann eru: heimilin, minni fyrirtæki, fagfjárfestar og stærri fyrirtæki. Útibúin eru að þjóna heimilum og minni fyrirtækjum en býli myndi flokkast undir minni fyrirtæki.

 

Mjólkuriðnaður er einkum Norðurmjólk sem er í viðskiptum hjá bankanum í formi bankaviðskipta, rekstarlána og fjárfestingalána. Einnig eru bændur í viðskiptum með bankaviðskipti og kvótalán.

 

Kvótakaup er litið á sem fjárfestingu, vara sem nýtist fyrirtækjum til frekari framleiðslu. Vélar/tæki, byggingar, kvóti. Arðsemiskrafa er að tekjur dekki umframgjöld að viðbættum vaxtakostnaði. T.d. eigið fé til að borga vexti af lánsfé.

 

Fjárfestingalán er kröfur til verkefnis eins og arðsemi, verkefnið verður að skila arðsemi til þess að það fái lán, stjórnun/ eigendur og eigið fé, og að til staðar séu  tryggingar fyrir lánveitanda. Þannig eru fjárfestingar ávallt metnar. Tryggingum má stundum sleppa ef hinir 3 þættirnir eru mjög góðir.

 

Kvótalán þau atriði sem höfð eru til skoðunar eru rekstraráætlun, greiðsluáætlun, saga rekstraraðila, skuldsetning, hversu mikil hún er, samsetning skulda, er þetta stutt lán, langtímalán eða mikið lán. Mat á veðstöðu er metið með kvóta x 1,5 – 2,0 = lán 50%, þá er bústofn skoðaður, vélar og tæki, jörð og húsnæði. Staðsetningu eins og landgæði, fjarlægð, afurðastöð og markaður. Lánstími er yfirleitt ekki yfir 10 ár. Ekki er lánað í annarri mynt en í íslenskum krónum nema sérstök ástæða sé fyrir öðru.

 

Mjólkurframleiðsla. Þumalputtareglan er að búið getur borið tvöfalda ársveltu í skuldum.

 

Áhættuþættirnir eru verð á mjólk, innflutningshöft, skipulag, reglugerð, opinber stuðningur, framleiðslustýring og alþjóðasamningar sem er mjög stór þáttur núna sem huga þarf að.

 

Eru kúabændur vænlegir viðskiptavinir? Það ræðst af ýmsu eins og t.d. verðmætasköpun, er einhver hagnaður í greininni? Það má ekki verða ofverndun. Ef hún er í gangi þá eru miklar líkur að hún verði tekin af, meðan hún er ekki þá ætti málið að vera í lagi, almenn viðmið sem eru sömu kröfur og aðrar fjárfestingar, svipað hjá öllum bönkum að enginn banki telji sig hafa einhverjum ákveðnum skyldum að gegna fyrir sérstaka landshluta, fyrirtæki og þess háttar.

 

Íslandsbanki lítur svo á að hann sé ekki skuldbundinn að þjónusta sérstaklega eina atvinnugrein. Skyldur einkabanka í samfélaginu eru bara við sína hluthafa að ávaxta sinn hlut. Fyrsti veðréttur er fýsilegur sama í hvaða formi sem hann er. Bankarnir horfa bara í reksturinn eins og hann er og taka sínar ákvarðanir út frá því. Ef Byggðastofnun myndi hætta að lána og leggja meira fé í tryggingar þá væru bankarnir meira tilbúnir að lána út á land.

 

Fundarmenn lögðu fjölmargar fyrirspurnir fyrir frummælanda og leysti hann greiðlega úr þeim.

 

Skipan í nefndir:

 

Starfsnefnd 1: Kafli 3 og 4 og ályktanir um eftirlitsmál (2) og aksturskostnað

 

Þórarinn Leifsson (formaður)   Keldudal

Arnar Bjarni Eiríksson             Gunnbjarnarholti

Jóhann Nikluásson                  Stóru-Hildisey

Ásthildur Skjaldardóttir           Bakka

Gunnsteinn Þorgilssson           Sökku

Pétur Diðriksson                     Helgavatni

Eiríkur Egilsson                       Seljavöllum

 

Starfsnefnd 2:  Kafli 7 í stefnumótun og ályktanir um sæðingamál

 

Birna Þorsteinsdóttir (formaður) Reykjum

Gunnar Sigurðsson                   Stóru – Ökrum

Magnús Hannesson                   Eystri – Leirárgörðum

Valdimar Guðjónsson                Gaulverjabæ

Guðbergur E.Eyjólfsson             Hléskógum

Katrín Birna Viðarsdóttir            Ásólfsskála

 

Starfsnefnd 3: Kafli 6

 

Magnús Sigurðsson                 Hnjúki

Sveinbjörn Þór Sigurðsson       Búvöllum

Sigurgeir Pálsson                    Sigtúnum

Birgir Ingþórsson                    Uppsölum

Jóhann Gísli Jóhannsson          Breiðavaði

Sigurlaug Leifsdótttir               Nýjabæ

 

Starfsnefnd 4: Kafli 8 og 9 og ályktanir um lífeyrismál

 

Jón Gíslason (formaður)          Lundi

Sigrún Ásta Bjarnadóttir          Stóru Mástungu

Ásbjörn Pálsson                      Syðri Haukatungu 2

Bragi Konráðsson                   Galtartungu

Þorsteinn Rútsson                   Þverá

Ólöf Hallgrímsdóttir                 Vogum

Grétar Einarsson                     Þórisholti

 

Starfsnefnd 5: Kafli 1, 2 og 5

 

Sveinn Ingvarsson (formaður) Reykjahlíð

Lára Hansdóttir                       Á

Skúli Einarsson                       Tannstaðabakka

Erlingur Teitsson                     Brún

Jón Steinar Elísson                  Hallfreðarstöðum

Sigurður Baldursson                Páfastaðir

Árni Brynjólfsson                    Vöðlum

 

 

Nefndarstörf hófust kl: 17:10 og fundi var svo frestað til morguns. Fundi var svo framhaldið 11.apríl 2003 kl:13:

 

Afgreiðsla mála

 

Tillögur frá starfsnefnd 1.

 

Ályktun 1:

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn að hótel Sögu 10. og 11. apríl 2003 tekur undir þau sjónarmið sem koma fram í samþykkt Aðalfundar Mjólkursamsölunnar í Reykjavík 21. mars 2003, og samþykkt Aðalfundar Mjólkurbús Flóamanna 28. mars 2003, þess efnis að afnámi opinberrar verðlagningar mjólkur á heildsölustigi verði ekki hrint í framkvæmd nema óvissu um réttarstöðu mjólkuriðnaðarins verði eytt, og að starfsgrundvöllur mjólkuriðnaðarins og þar með kúabænda verði tryggður áfram.

Fundurinn telur eðlilegast að framkvæmd þessa ákvæðis verði frestað þar til nýr samningur bænda og ríkisins um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar hefur tekið gildi.

            Jafnframt fagnar fundurinn þeirri jákvæðu afstöðu til málsins sem fram kom í ræðu landbúnaðarráðherra við upphaf aðalfundar LK 2003.

               

Samþykkt samhljóða

 

Ályktun 2:

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn að hótel Sögu 10. og 11. apríl 2003 vill mótmæla gildandi gjaldskrá Yfirdýralæknisembættisins, vegna fjósaskoðunar. Jafnframt beinir fundurinn því til stjórnar LK að skoða í samráði við embætti yfirdýralæknis forsendur núverandi gjaldskrár með það að markmiði að lækka kostnað og auka skilvirkni án þess að draga úr öryggi eftirlitsins.

 

Greinargerð:

 

Í 13. gr. reglugerðar nr. 919/2002 um aðbúnað nautgripa og eftirlit með framleiðslu mjólkur og annarra afurða þeirra segir m.a.:

 

„Héraðsdýralæknar skulu, hver í sínu umdæmi, annast árlegt eftirlit með heilbrigði og hirðingu allra mjólkurkúa, kálfa og annarra nautgripa hjá mjólkur- og kjötframleiðendum samkvæmt reglugerð þessari. Úttektin skal a.m.k. ná til eftirfarandi þátta: húsakosts, gildandi úttekt mjólkureftirlitsmanns á mjaltakerfi og mjólkurhúsi, gæða vatns í mjólkurhúsi, mjaltaaðstöðu, hreinlætis, umgengni og öðru sem að framleiðslunni snýr. Telji héraðsdýralæknir að fullnægt sé þeim skilyrðum, sem sett eru í reglugerð þessari, gefur hann út framleiðsluleyfi fyrir viðkomandi framleiðanda sem veitir honum heimild til sölu nautgripaafurða. Úttekt héraðsdýralæknis skal send til viðkomandi framleiðanda ásamt framleiðsluleyfinu. Afrit af framleiðsluleyfi skulu varðveitt af héraðsdýralækni og viðkomandi afurðastöðvum. Framleiðsluleyfi skal skráð samkvæmt fyrirmælum yfirdýralæknis. Gildistími leyfisins er þar til næsta skoðun fer fram. Afurðastöðvum er óheimilt að taka við mjólk eða sláturgripum frá framleiðanda sem ekki hefur gilt framleiðsluleyfi. Árlega skulu héraðsdýralæknar semja yfirlitsskýrslu um fjósaskoðun og senda yfirdýralækni fyrir 1. júlí ár hvert“.

Kostnaður framleiðenda vegna þessa eftirlits hefur hækkað verulega frá því á síðasta ári, eða úr kr. 8,549- árið 2002 í kr. 14,248- á árinu 2003 eða um 67% á fjós undir 50 básum. Þær skýringar hafa m.a. verið gefnar á þessari hækkun að gjaldtakan hafi ekki staðið undir kostnaði við eftirlitið og ekki séu aðrar leiðir færar til að standa straum af honum. Þetta hefur vakið upp spurningar um hvort ekki sé mögulegt að draga úr umfangi þessa eftirlits án þess að minnka öryggi þess a.m.k. í því sem snýr að mjólkurframleiðslunni. Húsakostur sem uppfyllir öll skilyrði um aðbúnað breytist sjaldan mikið milli ára, fóðureftirlitsmönnum er ætlað að heimsækja forráðamenn búfjár árlega og taka út ástand bústofnsins auk þess sem mjólkureftirlitsmenn taka út ástand mjaltaaðstöðu, mjólkurhúsa og búnaðar því tengdu. Jafnframt fylgjast mjólkureftirlitsmenn a.m.k. sumstaðar með gæðum neysluvatns og hreinlæti við framleiðsluna. Samkvæmt þessu er ljóst að eftirlit með mjólkurframleiðendum, aðstöðu þeirra og gripum er mjög mikið, því ætti að vera óhætt að gefa út leyfisvottorð til lengri tíma þar sem þessir hlutir eru í lagi á annað borð. Þannig mætti draga mjög úr þessum kostnaði án þess að rýra á nokkurn hátt öryggi eftirlitsins en að sama skapi væri hægt að skerpa á eftirlitinu þar sem  þörf er á.

 

Samþykkt samhljóða

 

Ályktun 3:

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn að hótel Sögu 10. og 11. apríl 2003, felur stjórn LK að láta gera úttekt á kostum þess og göllum að miða greiðslumark við próteinmagn.

 

Samþykkt samhljóða

 

Ályktun 4:

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn að hótel Sögu 10. og 11. apríl 2003, felur stjórn LK að láta gera úttekt á kostum þess og göllum að greiða framleiðslutengdar beingreiðslur (B og C greiðslur) jafnt á alla mánuði ársins, á þann hátt að beingreiðsla mánaðarins skiptist jafnt á framleiðslu viðkomandi mánaðar.

 

Samþykkt samhljóða 

 

Ályktun 5:

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn að hótel Sögu 10. og 11. apríl 2003 beinir því til stjórnar LK að þegar í stað verði fundin viðunandi lausn á jöfnun á aksturskostnaði dýralækna sem kveðið er á í lögum um dýralækna frá árinu 1998 og beiti sér fyrir því að það fjármagn sem ætlað er til jöfnunar uppfylli lagaákvæðin. Jafnframt er bent á þá leið að bændur fylli sjálfir út form til innheimtu á akstursstyrk og sendi inn til BÍ. Þeim fjármunum sem til ráðstöfunar eru yrði skipt hlutfallslega á milli bænda samkvæmt fyrirliggjandi heildaraksturskostnaði bænda landsins fyrir viðkomandi uppgjörstímabil.

 

Samþykkt samhljóða

 

 

Starfsnefnd 4: Sigrún Ásta Bjarnadóttir

 

Ályktun 6:

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn að hótel Sögu 10. og 11. apríl 2003, leggur áherslu á að reynt verði að ná samningum við ríkisvaldið um að arður af hugsanlegri sölu þeirra hótela sem nú eru í eigu Bændasamtaka Íslands geti runnið til bænda sem lífeyrisgreiðslur, án þess að skerða annan lífeyrisrétt.

 

 

Greinargerð:

Bændasamtök Íslands eiga nú Hótel Sögu og Hótel Ísland. Þreifingar hafa verið í gangi um að selja þessar eignir og hugsanlegt að það gangi eftir. Fjár til að byggja Hótel Sögu var m.a. aflað með því að skattleggja bændur og því hvílir rík siðferðileg krafa á umráðamönnum þessara eigna að láta arð af söluandvirði renna til þeirra sem greiddu umræddan skatt, ef þess er nokkur kostur. Verði ekki gerðar sérstakar ráðstafanir munu lífeyrisgreiðslur af umræddum arði hins vegar skerða almennan lífeyrisrétt vegna tekjutengingar bóta. Því er nauðsyn að fá sérákvæði um þetta bundin í lög, enda hér um mjög sérstaka forsögu að ræða. Á það skal og bent að staða Lífeyrissjóðs bænda er erfið og nú nýlega staðfesti stjórn sjóðsins að skerða verði réttindi sjóðsfélaga vegna þess hversu mikið vatnar á að sjóðurinn eigi fyrir heildarskuldbindingum.

 

Tillagan samþykkt með 6 atkvæðum á móti 3.

 

Ályktun 7:

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn að hótel Sögu 10. og 11. apríl 2003 fagnar framkominni stefnumörkun ASÍ í velferðarmálum og tekur í megin atriðum undir þau sjónarmið sem þar koma fram. Felur fundurinn stjórn LK að leggja baráttu ASÍ í þessum efnum lið.

 

Samþykkt samhljóða

 

Ályktun 8:

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn að hótel Sögu 10. og 11. apríl 2003 beinir því til stjórnar að skipan starfnefnda verði send aðalfundafulltrúum fyrir fund og framkomnum tillögum og greinargerðum raðað á starfsnefndir. Með þessu mætti ná markvissari árangri í nefndastörfum.

 

Samþykkt samhljóða

 

Ályktun 9: 

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn að Hótel Sögu 10. og 11. apríl 2003 lýsir ánægju sinni með að tengja saman aðalfund og árshátíð LK í apríl. Þá beinir fundurinn því til stjórnar að skoðað verði að halda aðalfundinn á föstudegi og laugardegi. Ennfremur að skoða fundarstað tilliti til samgangna og kostnaðar.

 

Samþykkt samhljóða

 

Ályktun 10:

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn að hótel Sögu 10. og 11. apríl 2003 telur brýnt að stjórnvöld styðji nú þegar nautakjötsframleiðslu á Íslandi og tryggi þar með aðgengi íslenskra neytenda að innlendu nautakjöti. Stuðningurinn greiðist á föll tengd gæðum. Jafnframt verði endurskoðað mat á nautakjöti.

 

Samþykkt samhljóða

 

Ályktun 11: 

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn að Hótel Sögu 10. og 11. apríl 2003 beinir því til stjórnar að skoða gjaldtöku fyrir nautgripasæði.

 

Samþykkt samhljóða

 

Ályktun 12: 

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn að Hótel Sögu 10. og 11. apríl 2003 lýsir yfir áhyggjum af stöðu endurmenntunar kúabænda. Nú um alllangt skeið hefur framboð námskeiða í nautgriprækt verið ófullnægjandi og hvetur fundurinn Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri til að auka framboð námskeiða í nautgriparækt strax á komandi hausti.

 

Samþykkt samhljóða

 

Ályktun 13: 

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn að Hótel Sögu 10. og 11. apríl 2003 leggur til að þegar veri hafist handa við að tryggja ferðaþjónustubæjum möguleika á sölu heimaunninna afurða til samræmis við þær reglur sem gilda víða í nágrannalöndum okkar.

 

Samþykkt samhljóða

 

Ályktun 14:

Lögð var fram tillaga um ráðstöfun á söluandvirði hótela í eigu Bændasamtaka Íslands.

 

Fram kom breytingatillaga frá Þorsteini Rútssyni, sem hann dró til baka.

 

Kristín Linda sagði að það gæti farið svo að það yrði of seint að fjalla um tillöguna á næsta ári.

 

Eiríkur Egilsson vakti athygli á því að LK á ekkert í Hótel Sögu. Ef þetta verður selt þá eigi féð að renna í lífeyrissjóðinn því stærsta vandamál bændastéttarinnar eru lífeyrismálin.

 

Guðmundur Þorsteinsson sagði þetta vera góður farvegur sem liggur í Hótelinu og studdi hugmynd Eiríks og var alveg á móti því að þetta væri notað til að lækka niður búnaðargjöld. Er þetta upplagt verkefni fyrir formannafund sem haldinn verður næsta haust.

 

Birgir Ingþórsson hvaðst ekki vera  hissa á því að menn væru í vafa um hvernig eigi að taka á þessu þar sem þetta er stórt mál og við höfum ekki ákvörðunartökuna heldur séu aðrir sem hafi hana, en það er hægt að hafa áhrif á hana og hann styður frestunartillöguna sem kom frá Þorsteini. En það þarf að kynna þetta vel og líka heima í héruðunum.

 

Birna Þorsteinsdóttir var hjartanlega sammála Eiríki á Seljavöllum og skilur ekkert í því af hverju ef fólk er í svona miklum vafa, af hverju það felldi þá ekki tillöguna.

 

Eiríkur Egilsson spurði hvort hægt væri að taka upp frestunartillögu eftir að mál væru upp borin.

 

Þórólfur Sveinsson kynnti frá því að það væri ekki hægt en það væri í raun verið að vísa málinu til stjórnar. Það er rétt sem Eiríkur benti á að við erum ekki að ráðstafa okkar eign.

 

Þorsteinn Rútsson finnst að þessi tillaga hafi hitt í mark með því að skapa umræðu um tillöguna og segist í raun geta dregið tillöguna til baka en breytir orðalaginu.

 

Eftir nokkrar breytingar á tillögunni varð niðurstaðan eftirfarandi:

 

Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn að Hótel Sögu 10. og 11. apríl 2003 hafnar þeim hugmyndum sem fram hafa komið að arður af andvirði sölu Hótelsins renni til lækkunar á búnaðargjaldi en beinir því til stjórnar LK að kanna aðrar leiðir til að koma söluandvirðinu til bænda.

 

Samþykkt samhljóða 

  

Reikningar Landssambands kúabænda 2002.

Snorri Sigurðsson lagði fram endurskoðaða reikninga LK og kynnti þá fyrir fundinum. Helstu liðir þeirra voru svohljóðandi: Rekstrartekjur: 13.745.708,-. Rekstrargjöld: 15.728.749,-. Tap fyrir fjármagnsliði: 1.983.041,-. Fjármagnsliðir: 672.765,-. Tap ársins: 1.310.276,-.

 

Niðurstaða efnahagsreikninga: 17.902.178,- (skuldir og eigið fé). Þar af eigið fé 16.534.880,- Skuldir um áramót: 1.367.298,-.

 

Að þessu loknu voru reikningar LK bornir upp til atkvæða og þeir samþykktir samhljóða.

 

Þá lagði Snorri fram fjárhagsáætlun vegna ársins 2003 og var hún samþykkt með minniháttar breytingum.

 

Að því búnu var farið yfir reikninga Afleysingasjóðs en helstu liðir voru: Heildargjöld afleysingasjóðs: 1.886.973,-. Vaxtatekjur: 479.057,-. Gjöld afleysingasjóðs umfram tekjur:1.407.916,-. Skuldir og eigið fé í árslok: 2.688.194,-.

 

Þá var farið yfir hreyfingarlista Verðskerðingarsjóðs, en sjóðurinn er endurskoðaður með reikningum Bændasamtaka Íslands. 

 

Að lokum var lögð fram tillaga um fundalaun, kr. 18.000,- fyrir setu á fundinum. Tillagan var samþykkt.

 

Kosningar.

Formaður til eins árs:

Þórólfur Sveinsson var kjörinn með 33 atkvæðum

 

Meðstjórnendur til eins árs:

Sigurður Loftsson með 32 atkv.

Jóhannes Jónsson með 32 atkv.

Kristín Linda Jónsdóttir með 33. atkv.

Egill Sigurðsson með 31. atkv.

 

Varamenn

1. varamaður: Gunnar Jónsson Egilsstöðum

2. varamaður: Skúli Einarsson Tannstaðabakka

 

Skoðunarmenn

Pétur Diðriksson, Helgavatni

Magnús Hannesson, Eystri-Leirárgörðum

 

Til vara

Kristján Finnsson, Grjóteyri.

 

Búnaðarþingsfulltrúar L.K. árið 2004-2007

Þórólfur Sveinsson, Ferjubakka 2 með 32 atkv

Sigurður Loftsson, Steinsholti með 30 atkv

Kristín Linda Jónsdóttir, Miðhvammi með 31 atkv

Gunnar Jónsson, Egilsstöðum með 29 atkv

Birna Þorsteinsdóttir, Reykjum með 31 atkv

 

Varmenn

1. Jóhannes Jónsson, Espihól

2. Þórarinn Leifsson, Keldudal

3. Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ

4. Pétur Diðriksson, Helgavatni

5. Skúli Einarsson, Tannstaðabakka

 

Að loknum kosningum þakkaði Þórólfur Sveinsson fundarmönnum fyrir góðan fund og sagði fundi slitið.

 

Fleira ekki bókað

Fjóla Benediktsdóttir