Beint í efni

Fundargerð aðalfundar 2001

23.08.2001

Aðalfundar Landssambands kúabænda 2001

 Aðalfundur Landssambands kúabænda 2001 var haldinn í í félagsheimilinu Skjólbrekku í Mývatnssveit dagana 21. og 22. ágúst og hófst kl. 11:00.

 Þetta var gert:

 

1. Fundarsetning.
 Þórólfur Sveinsson, formaður Landssambands kúabænda, setti fundinn og bauð fulltrúa og gesti velkomna.

 

2. Kosning starfsmanna fundarins:

 1. Kosinn fundarstjóri og varafundarstjóri. 
Tillaga kom fram um Gunnsteinn Þorgilsson, Sökku, og var hún samþykkt samhljóða og tók hann þegar við stjórn fundarins.  Hann bar síðan fram tillögu um að Sveinn Ingvarsson,  Reykjahlíð, yrði kosinn aðstoðarfundarstjóri og var hún samþykkt samhljóða.

2. Kosinn ritari. 
Tillaga kom fram um að Gylfi Þór Orrason yrði ritari fundarins og var hún samþykkt samhljóða.
 
3. Kosning Kjörbréfa- og uppstillingarnefndar.
 Kosningu hlutu þeir Elvar Eyvindsson, formaður, Erlingur Teitsson, Brún, og Skúli Einarsson, Tannstaðabakka.

 

4. Skýrsla stjórnar og fagráðs.
Þórólfur Sveinsson, formaður Landssambands kúabænda flutti skýrslu stjórnar og fagráðs. Hann sagði að líflegt starfsár LK væri að baki. Íslenskt nautakjöt hefur átt erfitt uppdráttar á árinu, m.a. vegna meiri verðsamkeppni á kjötmarkaði, lengri biðlista eftir slátrun, hægfara vöruþróun, vaxandi fákeppni á smásölumarkaði og tímabundinna vandamála vegna Goða/Kjötumboðsins. Þeir erfiðleikar hafa snúið öðruvísi að  kúabændum en sauðfjárbændum, en Goði hefur ekki reynt að taka kúabændur “í gíslingu” eins og sauðfjárbændur. Forsvarsmenn Goða hafa fullyrt að engin hætta sé á að inneignir kúabænda hjá fyrirtækinu séu í taphættu, en óvarlegt er að treysta því. En hvað má læra af þessu? Það að mikilvægi þess hvernig ákvarðanir eru teknar í afurðasölumálum bænda er stórlega vanmetið.

Það stangast á að langir biðlistar séu eftir slátrun nautgripa, annars vegar, sem þýðir að bændur setji á gripi til kjöteldis, og hins vegar að þessi framleiðsla greiði ekki laun. Í þessu sambandi væri það þessari framleiðslu mjög dýrmætt að skyldumerking væri komin á nautgripi og grundvöllur fengist þannig fyrir meiri festu á viðskipti bænda og sláturleyfishafa. Þá þarf fundurinn að ákveða um ráðstöfun á verðskerðingargjaldi á nautgripakjöti, en það gjald er nánast eina stjórntæki kúabænda á þessum markaði. Sala mjólkur og mjólkurvara hefur gengið vel og var unnt að hækka greiðslumarkið í 104 milljónir lítra fyrir næsta verðlagsár. Nýr verðlagsgrundvöllur tók gildi um sl. áramót og hækkaði mjólkurverð þá um 5%. Verðbólga í ár hefur verið umfram spár og telur stjórn LK ekki unnt að bíða til áramóta eftir að fá hækkun á mjólkurverð. Líklegt er að hækkun þurfi að verða um 7-9 %.  Í gildandi búvörusamningi er ákvæði þess efnis að hætt skuli opinberri skráningu á heildsöluverði mjólkur.  Hins vegar á verðtilfærsla að vera áfram heimil. Óvissa er nú um hvaða réttarreglur gilda eftir að hætt verður að verðleggja á heildsölustigi.

 

Nú liggur fyrir Rannís-úttekt á stöðu íslenskrar nautgriparæktar. Hún sýnir einkum að helsti veikleiki greinarinnar er hár framleiðslukostnaður. Fjárfestingar eru miklar í greininni en fátt bendir til óþarfa fjárfestinga í byggingum.  Vélakaup hafa verið veruleg og velta má fyrir sér hvort þar sé unnt að spara með meiri samnýtingu bænda á vélum eða viðskiptum við verktaka um heyskap ofl. störf. Nauðsynlegt er að endurskipuleggja leiðbeiningaþjónustu landbúnaðarins.  E.t.v. mun Rannís-skýrslan bæta hér nokkuð úr, sem og bygging nýs tilraunafjóss á Hvanneyri, en ljóst er að öflug fagþekking er forsenda fyrir framförum í nautgriparækt. Vinna að gæðastýringu í greininni er í gangi. Forritið Ískýr gegnir þar mikilvægu hlutverki, en notkun þess hefur ekki gengið sem skyldi og almennt vantar mikið upp á að bændur geti nýtt sér þá miklu möguleika sem tölvutæknin býður upp á. Þar veldur m.a. að flutningsgeta símakerfisins er ónóg og aðrar frumstæðar aðstæður hjá flestum bændum.

 

Kvótakerfið hefur nú staðið óbreytt frá árinu 1992. Það kerfi hefur mikla kosti og fáa annmarka.  Verð á greiðslumarki hefur þó verið of hátt, eða allt að 3,5 falt mjólkurverð en er nú þrefalt og með því hæsta sem þekkist í Evrópu. Æskilegt er að verðið lækki, eða niður í 2-3 falt mjólkurverð.  Mjólkursamlög standa á bak við mikið af þessum viðskiptum þar sem Skagfirðingar gengu á undan, en Eyfirðingar, MS í Reykjavík og Flóabúið fylgdu á eftir. Í þessu sambandi kemur í hugann hvert verði framtíðarvirði greiðslumarksins.  Þar er brýnt að samningar náist við ríkisvaldið um framtíðarskipan þeirra mála þannig að ungir bændur viti að hverju þeir ganga, en við núverandi aðstæður er unnt að kollvarpa fyrirkomulaginu á fárra ára fresti í búvörusamningum.

 

Fulltrúaráð LK og búnaðarþing ákváðu sl. vetur að láta fara fram atkvæðagreiðslu um fyrirhugaða tilraun með samanburð á NRF-kúm, íslenskum kúm og blendingum þessara kynja. Sl. vetur var jafnframt stofnað Nautgriparæktarfélag Íslands, NRFÍ, sem stefnir að innflutningi kúa af NRF-kyni. Mál þetta er flókið og ýmsir möguleikar í stöðunni. Í fyrsta lagi að tilraunin verði samþykkt í atkvæðagreiðslu og verkefnið fari í gang.  Í öðru lagi að henni verði hafnað í atkvæðagreiðslu og NRFÍ leiti þá eftir innflutning á NRF-kyni. Vandséð er á hvaða forsendum slíkri umsókn yrði hafnað.  Líklegt er að erfðaefni úr NRF-kúakyni verði flutt til landsins en óljóst á hvaða forsendum. Með samþykkt á innflutningi og tilraunaleiðinni má þó vænta minni árekstra innan stéttarinnar heldur en ef NRFÍ ynni verkið.  Hafa ber í huga að hér er verið að leita leiða til að lækka framleiðslukostnað á mjólk, sem neytendur mundu njóta í fyllingu tímans, væntanlega um 9-14%.  Það sem aftur tapaðist væri sérstaða íslenskrar mjólkurframleiðslu sem rekja má til kúakynsins.  Eftir innflutning á nýju erfðaefni verður hlutdeild þess áráðin stærð.  Spyrja má hvort neytendur muni óska eftir að fá mjólk úr íslenska kúakyninu óblönduðu þótt hún verði 5-10 kr. dýrari á lítrann.

 

Að lokum þakkaði Þórólfur öllum þeim sem átt hafa samskipti við LK á árinu, einkum þeim fjölmörgu bændum sem sóttu bændafundi á vegum LK sl. vetur,  sem og stjórn  og framkvæmdastjóra LK fyrir samstarfið.

 

5. Ávörp gesta:

 1. Magnús B. Jónsson, rektor Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri.
 Þakkaði boðið á fundinn og samstarfið við LK á liðnu ári. Samstarf Landbúnaðarháskólans og LK er nú orðið ennþá nánara við flutning skrifstofu sambandsins upp á Hvanneyri. Fagmenntun í nautgriparækt er í verkahring Landbúnaðarháskólans og LK hefur sýnt starfi skólans mikinn áhuga. Markviss fagmenntun er lykilatriði til þess að landbúnaðurinn fái staðist samkeppni í nútíma atvinnurekstri. Hún eykur mönnum víðsýni og framsýni til að leita nýrra tækifæra í því umhverfi sem samfélagið skapar atvinnurekstrinum á hverjum tíma.  Landbúnaðarháskólinn gerir sitt ítrasta til þess að þeir nemendur sem þar nema öðlist með menntun sinni verkfæri sem nýtist þeim í búskap sínum.  Í þessari viðleitni sinni hefur skólinn lagt áherslu á að byggt verði nýtt og fullkomið kennslu- og rannsóknafjós á Hvanneyri. Náin tengsl þurfa að vera á milli rannsókna og kennslu, en við núverandi aðstæður á Hvanneyri er erfitt fyrir skólann að uppfylla kröfurnar um rannsóknir í nautgriparæktinni. LK hefur stutt þessi áform skólans í hvívetna. Samkvæmt verkaskiptasamningi milli stofnana landbúnaðarins er Landbúnaðarháskólanum falið stórt hlutverk í rannsóknum bæði á sviði sauðfjárræktar og nautgriparæktar. Að síðustu óskaði hann aðalfundinum velfarnaðar í störfum.

 

 2. Ávarp Bjarna Guðmundssonar, formanns stjórnar Framleiðnisjóðs     landbúnaðarins.
 Þakkaði boðið á fundinn og samstarfið á liðnu ári. Hann fjallaði síðan um megin hlutverk Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, þ.e. að vinna að aukinni hagræðingu og hagkvæmni í íslenskum landbúnaði. Sjóðurinn hefur lagt talsverða fjármuni til hliðar vegna þróunarverkefna, t.a.m. fær nautgriparæktin u.þ.b. kr. 14 milljónir til slíkra verkefna á þessu ári. Í þeim efnum  ber samanburðartilraunina hæst, en sjóðurinn hefur þegar lagt fram umbeðna fjármuni vegna  hennar, og einnig bygging kennslu- og rannsóknarfjóss á Hvanneyri, en sjóðsstjórnin hefur þegar samþykkt að veita til hennar kr. 25 milljónum. Hann fjallaði einnig um samstarf sjóðsins við Rannís um ýmis verkefni sem tengd eru nautgriparæktinni, en til þeirra hefur verið varið u.þ.b. kr. 10 milljónum á ári. Að öðru leyti vísaði hann til skýrslu stjórnar Framleiðnisjóðs um ráðstöfun fjármuna. Ýmis önnur verkefni sem sjóðurinn styrkir koma kúabændum til góða, t.d. ýmis rannsóknar- og þróunarverkefni í sambandi við fóðuröflun o.fl. Að síðustu þakkaði hann gott samstarf og óskaði fundinum heilla í störfum sínum.

 

 3. Guðmundur Sigþórsson, skrifstofustjóri landbúnaðarráðuneytisins.
 Flutti kveðjur landbúnaðarráðherra, sem átti ekki heimagengt vegna ríkisstjórnarfundar, en þar átti m.a. á að ræða vanda búfjárslátrunar. Guðmundur kvað ýmis vandasöm mál liggja fyrir aðalfundinum að þessu sinni. Hann nefndi verðlagsmál nautgriparæktarinnar og greiðslumark, en það hefur nú verið aukið um eina milljón lítra á árinu. Mjög hraður vöxtur hefur verið í kaupgetu landsmanna sem hefur leitt til aukningar í neyslu mjólkur, þrátt fyrir verulega aukningu í innflutningi unninna mjólkurafurða. Stórverslanir hafa vaxandi áhuga á að ná til sín tollkvótum í innflutningi mjólkurvara. Athugun á frjálsri verðmyndun heildsöluverðs mjólkur, sem á að komast á í ár samkvæmt ákvæðum búvörusamnings, er enn ekki lokið. Verðlagsnefnd búvara er nú að láta vinna skýrslu um rekstrarafkomu einstakra mjólkurbúa. Nýr verðlagsgrundvöllur tók gildi 1. janúar sl., en samkvæmt honum hefur hæfileg stærð grundvallarbús verið tvöfölduð frá því sem áður var. Það er mikið áhyggjuefni hversu gífurlega mikinn kostnaðarauka  tæknivæðing í landbúnaði hefur í  för með sér. Vextir og hátt verðlag mjólkurkvóta eru erfiður fyrir mjólkurframleiðendur og leita verður allra leiða til þess að ná þeim kostnaðarþáttum niður. Landbúnaðarráðherra hefur veitt LK og BÍ heimild til samanburðarrannsóknar til þess að kanna getu og hæfni íslenska kúastofnsins, en það er félagsleg ákvörðun kúabænda sjálfra hvernig því máli vindur fram. Alþjóðlegt viðskiptaumhverfi teygir sig í vaxandi mæli til Íslands og mjólkurframleiðendur verða að búa sig undir vaxandi samkeppni, en það gera þeir best með því að leggja áherslu á gæði framleiðslunnar. Að síðustu óskaði hann fundinum velfarnaðar í störfum.

 

 4. Ávarp Ara Teitssonar, formanns Bændasamtaka Íslands.
 Þakkaði boðið og gott samstarf á liðnu ári. Útlitið er nokkuð bjart, aukning hefur orðið í sölu mjólkurvara, aukinn skilningur á gildi íslensks landbúnaðar og tíðarfar hefur verið bændum hagstætt að undanförnu. Þetta eykur okkur bjartsýni á framtíðina, en það eru enn mörg ljón í veginum. Fagstarfið og fagþjónustan hefur ekki náð að þróast nægilega hratt, en ýmsu hefur þar miðað vel áfram.  Svo virðist sem kúabændur séu sáttir við nýja nautgriparæktarforritið,  Ískúnna, en í því ætti að geta falist grunnurinn að fagstarfi nautgriparæktarinnar til framtíðar.  Vonandi næst að þróa forritið til að það geti staðið undir þeim væntingum. Styrking leiðbeiningaþjónustunnar fellst m.a. í samruna eininga og á þeim vettvangi miðar í rétta átt þótt ýmsum þyki fullhægt farið. Flestum bændum standa nú til boða sérhæfðar rekstrarleiðbeiningar, en þar riðu sunnlendingar á vaðið með Sunnuverkefninu, en nú er unnið að slíkum verkefnum í flestum héruðum landsins, eins og gert var ráð fyrir í búnaðarsamningi.

 

Samvinna RALA og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri hefur aukist og styrkst verulega á liðnu ári, en það styrkir allt fagstarf í landbúnaðinum. Landbúnaðarráðherra heimilaði á síðasta ári innflutning á nýju kúakyni til samanburðarrannsókna, en ákveðið var að fresta innflutningnum sl. vetur vegna þess að BÍ og LK skynjuðu að við þær aðstæður sem uppi voru, s.s. vegna búfjársjúkdóma í Evrópu o.fl., væri ekki skynsamlegt að halda óbreyttri innflutningsáætlun.  Ekki hefur hins vegar verið ákveðið að hætta alveg við að gera slíka tilraun því þörfin verður vissulega áfram fyrir hendi. Þá fjallaði hann um störf verðlagsnefndar og kvað margar blikur vera á lofti á þeim vettvangi.

 

Afkomutölur í mjólkurframleiðslunni bera það með sér að tekjur kúabænda hækkuðu um 17% á sl. ári, en þrátt fyrir það hefur launagreiðslugetan ekki hækkað, heldur hefur tekjuaukningin að mestu farið í vexti og afskriftir. Segja má að við verðlagningu á mjólkurafurðum sé um þrjár leiðir að velja, þ.e. a) opinbera verðlagningu, þar sem fulltrúar neytenda og ríkisvaldið ráða að mestu ferðinni, en hún er nú að renna sitt skeið og verður vart endurvakin. b) Óheft innlend samkeppni sé látin ráða verðinu, en verðlagsyfirvöld telja það hina einu réttu leið þar sem samkeppnislög gildi um mjólkurframleiðsluna, en sú leið er illframkvæmanleg ef halda á óbreyttu því kerfi sem viðgengist hefur við skipulagningu mjólkurframleiðslunnar. c) Stjórna verðinu á íslenskri mjólkurframleiðslu með innflutningi, en ekki er ólíklegt að sú leið verði ofan á. Við verðum hins vegar að horfast í augu við það að enginn þessara leiða eru án annmarka.  Finna verður leið sem er líkleg til að skapa bændum nægar tekjur og viðunandi rekstrarumhverfi á næstu árum.

 

Þá fjallaði hann um þá umræðu sem verið hefur í þjóðfélaginu um hugsanlega inngöngu Íslands í Evrópusambandið og taldi það vera framtíðarverkefni BÍ að vinna ötullega gegn öllum slíkum hugmyndum. Líklega kæmi það íslenskri mjólkurframleiðslu einna verst ef að af inngöngu Íslands í Evrópusambandið yrði. Að undanförnu hefur mismunur í aðstöðu kúabænda eftir landshlutum stöðugt verið að aukast, bæði hvað varðar afurðaverð, auk þess sem arðgreiðslur eru að festast í sessi á sumum svæðum en ekki öðrum, og nú á síðustu mánuðum eru vaxandi landshlutabundnir erfiðleikar í búfjárslátruninni. Að síðustu fjallaði hann um hið góða samstarf sem BÍ hefði átt við samtök bænda á hinum norðurlöndunum á undanförnum árum, ekki síst Norðmenn og Dani. Norðmenn eru nú að kynna sína framtíðarstefnu og vinnuferli til næstu fimm ára, en þar leggja þeir höfuðáherslu á að bændur standi saman um sín félög, jafnt á félagslega sviðinu og afurðasviðinu. Ennfremur að opin, málefnaleg og sanngjörn umræða um málefni landbúnaðarins sé stöðugt í gangi.  Kvaðst hann vonast til þess að einmitt þannig yrði umræðan á þeim aðalfundi LK sem nú væri að hefjast.

 

6. Reikningar Landssambands kúabænda 2000.
Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri, yfirfór og skýrði endurskoðaða reikninga Landssambands kúabænda fyrir árið 2000. Rekstrartekjur voru kr. 16.523.470 og rekstrargjöld kr. 12.180.949, en hagnaður að teknu tilliti til fjármunatekna og fjármagnsgjalda kr. 5.310.426. Niðurstaða efnahagsreiknings var kr. 18.652.990, þar af eigið fé kr. 18.347.415.

 

Heildargjöld afleysingasjóðs voru kr. 5.452.002 en tekjur kr. 1.271.321. Gjöld afleysingasjóðs umfram tekjur voru kr. 4.180.681. Eigið fé sjóðsins í árslok var kr. 5.884.669. Á árinu var greitt til 118 kúabúa vegna afleysinga.

Rekstrartekjur verðskerðingarsjóðs nautgripakjöts voru kr. 12.562.418 og rekstrargjöld kr. 13.182.581. Rekstrartap ársins, og þar með skuld sjóðsins við Landssambands kúabænda, var kr. 620.163.

 

Hádegisverðarhlé kl. 12:35-13:45.

 

7. Niðurstöður kjörbréfanefndar.
 Elvar Eyvindsson gerði grein fyrir áliti kjörbréfanefndar.  Eftirtaldir fulltrúar voru mættir:

Fulltrúar á fundinum voru:

Frá Mjólkursamlagi Kjalarnesþings:
Magnús Hannesson, Eystri-Leirárgörðum

Frá Mjólkurbúi Borgfirðinga:
Ásbjörn Pálsson, Syðri-Haukatungu II
Guðmundur Þorsteinsson, Skálpastöðum
Pétur Diðriksson, Helgavatni

Frá Mjólkursamlaginu í Búðardal:
Bragi Konráðsson, Galtartungu
Lára Hansdóttir, Á

Frá Mjólkursamlagi Ísfirðinga:
Árni Brynjólfsson, Vöðlum

Frá Nautgriparæktarfélagi V-Hún:
Skúli Einarsson, Tannstaðabakka

Frá Félagi Austur-Húnvetnskra kúabænda:
Gróa Lárusdóttir, Brúsastöðum
Magnús Sigurðsson, Hnjúki

Frá Félagi kúabænda í Skagafirði:
Rögnvaldur Ólafsson, Flugumýrarhvammi
Þórarinn Leifsson, Keldudal

Frá Búgreinaráði BSE í nautgriparækt:
Guðbergur E. Eyjólfsson, Hléskógum
Gunnsteinn Þorgilsson, Sökku
Þorsteinn Rútsson, Þverá
Þórður Þórðarson, Hvammi

Frá Félagi þingeyskra kúabænda:
Erlingur Teitsson, Brún
Sveinbjörn Sigurðsson, Búvöllum

Frá Nautgriparæktarfélagi Vopnafjarðar:
Gauti Halldórsson, Grænalæk

Frá Félagi nautgripabænda á Héraði og Fjörðum:
Gunnar Jónsson, Egilsstöðum
Jón Steinar Elísson, Hallfreðarstöðum

Frá Nautgriparæktarfélagi Austur-Skaftafellssýslu:
Steinþór Torfason, Hala (varamaður)

Frá Félagi kúabænda á Suðurlandi:
Arnar Bjarni Eiríksson, Gunnbjarnarholti
Elvar Eyvindsson, Skíðbakka II
Grétar Einarsson, Þórisholti
Kristinn Guðnason, Þverlæk
Sigrún Ásta Bjarnadóttir, Stóru-Mástungu
Sigurður Loftsson, Steinsholti
Sigurlaug Leifsdóttir, Nýjabæ
Sveinn Ingvarsson, Reykjahlíð

 

8. Umræður um reikninga.
 Rögnvaldur Ólafsson spurðist fyrir um hvers vegna þóknun Landssambands kúabænda vegna verðskerðingarsjóðs nautgripakjöts væri svo há sem raun bæri vitni, þ.e. kr. 1.739.270.

 Þórólfur Sveinsson svaraði því til að verðskerðingarsjóður nautgripakjöts greiddi visst hlutfall af kostnaði við starf framkvæmdastjóra, en þetta hlutfall var reiknað út með hliðsjón af grófu mati á vinnuframlagi framkvæmdastjóra vegna þessara mála.

 Reikningar Landssambands kúabænda fyrir árið 2000 voru síðan bornir upp og samþykktir samhljóða.

 

9. Erindi:

 1. Afkoma kúabænda árið 2000 samkvæmt búreikningum.
 Jónas Bjarnason, forstöðumaður Hagþjónustu landbúnaðarins, flutti erindi um afkomu kúabænda árið 2000 samkvæmt búreikningum.

 

 2. Helstu niðurstöður Rannís-nefndar um stöðu íslenskrar nautgriparæktar og framtíðarhorfur.
 Einar Matthíasson, formaður Rannís-nefndar um stöðu íslenskrar nautgriparæktar og framtíðarhorfur, flutti erindi um helstu niðurstöður nefndarinnar.

 

10. Umræður um erindi.

 Jónas Bjarnason og Einar Matthíasson svöruðu fyrirspurnum fundarmanna varðandi erindi sín.

 

 Kaffihlé kl. 16:00-16:30.

 

11. Umræður um skýrslur stjórnar og fagráðs.
 
 1. Egill Sigurðsson. Ræðumaður beindi spurningum til Magnúsar Jónssonar, rektors Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, varðandi fyrirhugaða byggingu kennslu- og rannsóknafjóss á Hvanneyri. Hann benti á að þegar væru starfrækt rannsóknarfjós á Stóra-Ármóti og Möðruvöllum og taldi að Landbúnaðarháskólinn ætti að geta nýtt þá aðstöðu í stað þess að byggja nýtt fjós.

 

 2. Magnús Jónsson. Ræðumaður kvað það vera á misskilningi byggt ef menn héldu að Landbúnaðarháskólinn vildi ekki eiga samstarf við tilraunastöðvarnar að Stóra-Ármóti og á Möðruvöllum.  Það væri ekkert jafnaðarmerki á milli þess að byggja fjós á Hvanneyri og að leggja niður samstarf við aðra þá aðila sem stunda rannsóknir í nautgriparækt. Fjósbygging á Hvanneyri er fyrst og fremst nauðsynleg til þess að uppfylla kennsluhlutverk skólans því nemendurnir eru jú á Hvanneyri. Núverandi aðstaða til kennslu í nautgriparækt er hvergi nærri fullnægjandi, enda fjósið byggt árið 1929. Nautgriparæktin er stærsta grein íslensks landbúnaðar og tryggja verður mjólkurframleiðendum framtíðarinnar þá bestu kennslu sem völ er á. Hann benti ennfremur á að verði af fyrirhugaðri samanburðartilraun með NRF-kýrnar muni það binda bæði stöðina á Möðruvöllum og Stóra-Ármóti þann tíma sem tilraunin stendur.

 

 3. Pétur Diðriksson. Ræðumaður þakkaði í fyrstu stjórn LK fyrir vel unnin störf á liðnu ári. Hann lýsti sig sammála Magnúsi Jónssyni varðandi byggingu fjóss á Hvanneyri, enda væri enginn staður á landinu hentugri fyrir slíkt fjós. Fjósbygging á Hvanneyri er hins vegar óháð því hvað gert verður við hinar stöðvarnar.  Ef ekki reynist not fyrir þær þá hættum við rekstri þeirra, en höldum rekstrinum áfram ella. Hann áréttaði að samkvæmt Rannís-skýrslunni væri lagt til að kvótakerfi mjólkurframleiðslunnar yrði viðhaldið til framtíðar, enda auðveldaði það bændum mjög alla áætlanagerð til lengri tíma. Hann kvað verð mjólkurkvóta einfaldlega endurspegla þá bjartsýni eða svartsýni sem atvinnugreinin stæði frammi fyrir á hverjum tíma.  Bændur fjárfesta í kvóta ef þeir telja það hagkvæman kost, annars ekki. Hann kvað það farsælast fyrir íslenskan mjólkuriðnað ef mjólkursamlögin verði öll sameinuð í eitt fyrirtæki. Ekki þarf að óttast slíkan samruna út frá sjónarmiðum samkeppni, enda kemur hún til með að verða nægilega mikil erlendis frá. Hann kvaðst í grundvallaratriðum vera á móti einstaklingsmerkingum nautgripa, en kvað þó ástandið á kjötmarkaðnum í dag vera sterk rök fyrir slíkum aðgerðum. Kjötmarkaðurinn í heild er í raun ein rjúkandi rúst, allt frá slátrun til kjötborðs.  Bændur verða að fara að standa saman sem ein heild gagnvart smásalanum. Vinna verður að samruna þeirra fyrirtækja sem stunda slátrun þannig að einungis verði 2-3 fyrirtæki á markaðnum. Varðandi skýrslu Hagþjónustunnar taldi hann lítið samhengi verða á milli mjólkurmagns og vinnuframlags.  Þeir bændur sem hafa aukið framleiðslu sína hafa ekki þurft að auka vinnuframlagið að sama skapi.  Þá taldi hann það ekki eiga að vera lögmál að fóðuröflun væri bændum jafndýr og raun bæri vitni. Bændur huga ekki nægilega mikið að framleiðni í heyskap sínum og vélakosturinn er allt of mikill miðað við framleitt heymagn á Íslandi. Að síðustu fjallaði hann um NRF-málið og taldi einsýnt að ef tekin verður ákvörðun um a gera tilraun sem tæki 10-15 ár að fá niðurstöður úr hlyti að að koma fram umsókn um innflutnings erfðaefnis áður en niðurstöður tilraunarinnar liggja  fyrir.

 

 4. Sigurlaug Leifsdóttir.  Ræðumaður fjallaði um greinargerð um stöðu undirbúnings við byggingu kennslu- og rannsóknafjóss á Hvanneyri og benti á að þar virtist ekki gert ráð fyrir að kaupa þyrfti mjólkurkvóta fyrir framleiðslu fjóssins.

 

 5. Guðmundur Þorsteinsson. Ræðumaður þakkaði stjórn fyrir vel unnin störf og þau gögn sem lögð hefðu verið fyrir fundinn sem hann kvað gefa greinargott yfirlit yfir störf stjórnar og stöðu mála. Þá þakkaði hann ennfremur fyrir góð og vel flutt erindi. Hann taldi Rannís-skýrsluna skapa góðan umræðugrundvöll fyrir stefnumörkun í nautgriparæktinni. Þá fjallaði hann um skýrslu Hagþjónustunnar og kvað samanburð á vinnumagni, þ.e. mánaðarverk, ekki vera nægilegan góðan mælikvarða til þess að meta breytingar á vinnuframlagi bænda. Slíkur samanburður býður upp á þá hættu að menn dragi rangar ályktanir. Hann kvað aðal viðfangsefni þessa fundar vera stefnumörkun til framtíðar, þ.e.   hvernig tryggja á framtíð atvinnugreinarinnar. Mjólkurframleiðendur verða að ná aukinni hagræðingu í framleiðslu sinn og um það hlýtur umræðan að snúast. Hvernig náum við þeirri hagkvæmni og skilvirkni í okkar rekstri að hann fái staðið af sér þær ógnir sem framundan eru? Á Íslandi er háverðsmarkaður fyrir mjólkurvörur og þar með hlýtur markaðurinn hér að vera freistandi fyrir þá sem vilja flytja hingað mjólkurvörur. Mjólkuriðnaðurinn hefur þróast allt of hægt í hagræðingarátt og svo virðist sem stjórnendur þar vilji bara bíða og sjá til. Á þessum vettvangi eru því fjölmörg ónotuð hagræðingartækifæri. Ein leið til aukinnar hagræðingar í mjólkurframleiðslunni er að flytja til landsins afkastameira kúakyn en við eigum í dag.  Þá fjallaði hann um ráðgjafarþjónustuna og kvað það vera veikleika hennar að bændur greiði ekki fyrir hana í samræmi við notkun. Stefna LK hefur verið sú að auka bæri gjaldtöku og lækka það sem innheimt er í gegnum afurðaverðið. Það er engum vafa undirorpið að bændur eru reiðubúnir til þess að greiða fyrir ráðgjöf sem verður þeim að gagni í framleiðslu sinni, en það eitt er jafnframt eini raunverulegi mælikvarði á gæði þjónustunnar. LK hefur haft uppstokkun ráðgjafarþjónustunnar, innflutning á nýju kúakyni og hagræðingu í mjólkuriðnaðinum á stefnuskrá sinni mörg undanfarin ár og þar með sannað tilverurétt sinn. Ekki nægir að þjappa saman leiðbeiningamiðstöðvunum í stærri einingar, heldur verður einnig að bæta gæði þeirrar þjónustu sem boðið er upp á. Að lokum óskaði hann þess að samstarf Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og tilraunastöðvarinnar á Stóra-Ármóti megi verði sem farsælast.

 

 6. Elvar Eyvindsson. Ræðumaður kvað brýnt að menntunarstigið í nautgriparæktinni verði hækkað til þess að hún megnaði að standast samkeppni. Sameining mun auka framleiðni í rannsóknarstarfinu og því þyrftu allar rannsóknir í nautgriparæktinni að vera undir sama hatti, burtséð frá því hvort þær séu stundaðar á einum eða fleiri rannsóknarstöðvum. Framtíðarsýnin í mjólkurframleiðslunni er sú að búunum mun halda áfram að fækka og stækka. Vera mætti að auðvelt sé að fá fjármagn til að byggja nýtt fjós fyrir á Hvanneyri, en ljóst að engir peningar væru til tilrauna og reksturs slíks fjóss og hvaðst því vera á móti núverandi áformum miðað við óbreytt fyrirkomulag tilrauna og rannsókna.

 

 7. Rögnvaldur Ólafsson. Ræðumaður lýsti í fyrstu þeirri skoðun sinni að meginviðfangsefni aðalfunda LK á hverjum tíma hlytu að vera kjaramál bænda. Bændur fengu ekki risið undir þeirri hagræðingarkröfu sem gerð var til þeirra  í fyrri mjólkursamningi sem var því í raun  nauðarsamningur fyrir bændur. Landbúnaðurinn hefur notið mikillar velvildar að undanförnu, bæði hjá almenningi og stjórnmálamönnum. Hann varaði við hugmyndum um aflagningu kvótakerfisins og taldi fyrsta skrefið í þá átt vera það að takmarka með einhverjum hætti það frjálsa framsal sem nú væri við lýði. Ekki hefur verið sýnt fram á neitt kerfi sem getur komið í staðinn fyrir frjálst kvótaframsal. Hann taldi mjólkuriðnaðinn í raun þegar vera runninn saman í tvö tiltölulega stór fyrirtæki ef frá væri talin eitt samlag sem hefði tæplega 10% markaðshlutdeild og þrjú önnur agnarsmá. Smávægilegur innflutningur mun ekki nægja til þess að Samkeppnisstofnun sætti sig við að mjólkuriðnaðurinn verði sameinaður í eitt fyrirtæki. Mjólkursamlögin hafa starfað allvel saman í gegnum tíðina, en ef verðmiðlunarkerfið verður brotið  upp vegna frjáls heildsöluverðs þá mun fjandinn verða laus innan mjólkuriðnaðarins. Þau samlög sem verið hafa í ostaframleiðslunni munu þá þurfa að snúa sér að vörum sem gefa þeim meiri tekjur.  Á kjötmarkaðnum ríkir algjört ófremdarástand enda sér hver heilvita maður fáránleika þess að sláturgripir séu fluttir landshorna á milli og að bændur þurfi að greiða kr. 8-9 þúsund í sláturkostnað á grip. Ekkert vit er því í því að ala upp nautkálfa við núverandi aðstæður. Að síðustu fjallaði hann um NRF-málið sem hann kvað vissulega vera hluta af kjörum bænda og framtíðarsýn. Hann taldi það bjartsýni hjá formanni LK ef hann teldi að menn gætu starfað saman að einhverju viti innan LK ef mjólkurframleiðendur skiptust upp í tvo eða fleiri ræktunarhópa. Við verðum að gefa okkur tíma til að ná lendingu í málinu. Ekki liggur lífið á að fara með málið í atkvæðagreiðslu og áður en það verður gert verður að leita allra leiða til sátta. Verði af samanburðartilrauninni væri það hins vegar vænlegri kostur að RALA stæði að henni í stað LK og BÍ.

 

 8. Þorsteinn Rútsson. Þakkaði stjórn LK fyrir framlagðar skýrslur og gögn. Með tilkomu búgreinafélaganna var samtökum bænda skipt upp, en það var umdeild ákvörðun á sínum tíma og hefur bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar. Mikilvægt er að forðast að etja búgreinunum saman. Hann taldi að í framtíðinni myndi mjólkuriðnaðurinn sameinast í eitt til tvö stór fyrirtæki. Þá fjallaði hann um nautakjötsmarkaðinn og fagnaði tilkomu nautakjötsráðs á sl. ári. Ef bændur ná ekki tökum á markaðnum og megna ekki að fá sláturleyfishafana til þess að skilja það að þeir verða að taka höndum saman við bændur í verðlagningunni er eina svar bænda að mynda samtök um kjötsöluna og reka hana sjálfir og á eigin ábyrgð. Hann lýsti skilningi sínum á því að margir teldu fjósbyggingu á Hvanneyri vera forgangsverkefni. Bygging þess þarf ekki endilega að hafa í för með sér að aðrar ræktunarstöðvar leggist af. Þá fjallaði hann um NRF-málið og taldi að mistök hefðu verið gerð með þeirri könnun sem gerð var árið 1997. Upp kom óyndi í mörgum bændum vegna þessa sem hafa nú skipst upp í tvo andstæða hópa í málinu. Málið var umdeilt og því hefur þurft að fara gætilega og leita allra leiða til þess að ná sáttum í málinu. Með sívaxandi viðskiptum á milli landa hættir mönnum að vaxa í augum að búfjárkyn séu flutt á milli landa. Þegar einu sinni hefur verið gefið leyfi fyrir innflutningi erfðaefnis er vandséð hvernig hægt verður að synja öðrum aðilum um slíka heimild. Aðalatriðið er að tryggja að verði að slíkum innflutningi verði hann öllum mjólkurframleiðendum í landinu til hagsbóta. Hann óttaðist að sú staða kynni að koma upp að í framtíðinni verði ræktuð mörg kúakyn í landinu. Að síðustu óskaði hann eftir því að við kynningu fyrir atkvæðagreiðslu á meðal mjólkurframleiðenda um NRF-málið verði bæði Búkollu-hópnum og NRFÍ-hópnum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum tryggilega á framfæri.

 

 9. Þórólfur Sveinsson. Ræðumaður svaraði framkomnum fyrirspurnum. Hann benti á að hjá flestöllum nágrannaþjóðum okkar væru starfandi fleiri en eitt ræktunarfélag. Nautgripabændur þar starfa engu að síður saman að öðrum hagsmunamálum sínum og ekkert væri því til fyrirstöðu að sú yrði einnig raunin hér á landi. Hann taldi lítinn tilgang í að fresta atkvæðagreiðslu um málið enn frekar því málið væri búið að vera lengi til umfjöllunar. Stjórn LK hefur fundað sameiginlega með Búkollu-hópnum og NRFÍ-hópnum. Vel fór á með mönnum þótt skoðanir séu skiptar. Málið er einfaldlega þannig vaxið að uppi eru tvær eða fleiri andstæðar skoðanir og láta verður reyna á það meðal mjólkurframleiðenda hvaða leið þeir velja, líkt og þegar menn gera upp á milli stjórnmálaflokka í kosningum. Það verður því að vísa málinu til lýðræðislegrar atkvæðagreiðslu hjá kúabændum. Hann kvaðst ekki sjá hvernig það ætti að skaða mjólkuriðnaðinn þó að í framtíðinni verði lögð inn mjólk úr fleiri en einu kúakyni. Kostnaðurinn við verndun íslenska kynsins fer annars vegar eftir því hversu stóran hlut þess menn hyggjast vernda og hins vegar eftir því hversu miklir yfirburðir hins innflutta kyns koma til með að verða. Vandasamt er að gera sér grein fyrir hvernig best verður staðið að verndun þess, en hugsanlega má gera það með útboði, en þannig fæst líklega besta matið á þeim kostnaði sem verndun verður samfara. Í dag er markaður fyrir lífræna mjólk mjög lítill, en engu að síður mjög gott að bjóða neytendum upp á þann valkost. Í framtíðinni getur það hugsanlega einnig orðið valkostur að geta boðið neytendum upp á mjólk úr ,,hreinum“ íslenskum kúm. Bæði Búkollu-hópurinn og NRFÍ-hópurinn munu fá tækifæri til þess að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við kynningu fyrir atkvæðagreiðsluna.

 

 10. Jón Gíslason, Lundi (talaði fyrir hönd NRFÍ-hópsins). Ræðumaður benti á að NRFÍ-hópurinn lyti ekki á það sem hlutverk sitt að vinna að skoðanakönnun á meðal mjólkurframleiðenda um fyrirhugaða samanburðartilraun, enda væru þeirra fyrirætlanir um innflutning erfðaefnis algjörlega óháðar niðurstöðu slíkrar könnunar.

 

 11. Guðbergur E. Eyjólfsson. Ræðumaður kvað einsýnt að lögð yrði fram umsókn um innflutning erfðaefnis óháð því hver niðurstaða atkvæðagreiðslunnar yrði. Baráttan um stuðning bænda við fyrirhugaða samanburðartilraun væri því í raun smáatriði í samanburði við fyrirætlanir NRFÍ-hópsins. Hann spurði því um afstöðu stjórnar LK til fyrirætlana NRFÍ.

 

 12. Þórólfur Sveinsson. Ræðumaður kvað stjórn LK munu bjóða NRFÍ að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við kynningu fyrir atkvæðagreiðsluna, en ef þeir hefðu ekki áhuga á því þá væri það þeirra mál. Afstaða LK til fyrirætlana NRFÍ markast af því að ýmis atriði í þeirra hugmyndum NRFÍ eru enn óljós, t.d. hvort meiningin sé að hið innflutta erfðaefni verði sett beint í ræktun o.s.frv. Ekki er því hægt að taka afstöðu til málsins fyrr en umsókn NRFÍ hefur verið lögð fram. Samkvæmt lögfræðiáliti sem LK hefur látið gera getur LK hins vegar ekki lagt steina í götu ræktunarhóps eins og NRFÍ. Ljóst er engu að síður að NRFÍ mun ekki geta notið góðs af sæðissölu Nautastöðvar LK eins og raunin yrði á ef LK og BÍ standa að málinu. Þá er ennfremur óljóst hvort NRFÍ myndi njóta rekstrarstyrks vegna kynbótastarfs eins og stöðin í Hrísey gerir nú.  Þá er einnig óljóst hvort, og þá með hvaða hætti, Framleiðnisjóður landbúnaðarins myndi koma að verkefninu.

 

12. Tillögur lagðar fram – skipan í nefndir.

 Fundarstjóri flutti eftirfarandi tillögu að skipan nefnda og var hún samþykkt samhljóða:

 

 Fagmálanefnd:
 Ásbjörn Pálsson, Bragi Konráðsson, Erlingur Teitsson, Gauti Halldórsson, Gróa Lárusdóttir, Kristinn Guðnason, Sigrún Ásta Bjarnadóttir, Sigurður Loftsson, formaður, Skúli Einarsson, Þorsteinn Rútsson.

 

 Félagsmálanefnd:
 Árni Brynjólfsson, Elvar Eyvindsson, Grétar Einarsson, Guðbergur E. Eyjólfsson, Guðmundur Þorsteinsson, formaður, Gunnar Jónsson, Pétur Diðriksson, Rögnvaldur Ólafsson, Sigurlaug Leifsdóttir, Sveinn Ingvarsson.

 

 Framleiðslunefnd:
 Arnar Bjarni Eiríksson, Gunnsteinn Þorgilsson, Jón Steinar Elísson, Lára Hansdóttir, Magnús Hannesson, Magnús Sigurðsson, Steinþór Torfason, Sveinbjörn Þór Sigurðsson, Þórarinn Leifsson, formaður, Þórður Þórðarson.

 

 Fundarstjóri kynnti átta tillögur frá stjórn LK um:
 a)  Úrbætur á símakerfi í dreifbýli.
 b) Skyldumerkingar nautgripa.
 c) Fyrirkomulag atkvæðagreiðslu um tilraunainnflutning á NRF-fósturvísum.
 d) Að 15% beinna greiðslna verði notaðar til að stuðla að því að innvigtun mjólkur falli sem best að þörfum markaðarins á hverjum tíma.
 e) Um breytingar á fagþjónustu landbúnaðarins í kjölfar Rannís-skýrslunnar og uppbyggingu þróunarseturs nautgriparæktarinnar á Hvanneyri.
 f) Að dýralæknum verði gert kleift að afhenda bændum sýklalyf til að meðhöndla bráðatilvik og fræðslu til bænda um lyfjanotkun.
 g) Úrbætur á forritinu Ískýr.
 h) Fjölda fulltrúa á aðalfundi.

 

 Þórarinn Leifsson kynnti tillögu frá samráðsfundi stjórna kúabænda á Norðurlandi um uppbyggingu miðstöðvar nautgriparæktarinnar á Hvanneyri og byggingu rannsóknarfjóss á Hvanneyri.

 

 Fundarstjóri kynnti tillögu frá Félagi kúabænda á Suðurlandi um að flytja stöðugildi landsráðunauta í nautgriparækt út í héruð.

 

 Fundarstjóri kynnti tillögu frá Mjólkurbúi Borgfirðinga um eflingu kynbótastarfsins með auknum fjárframlögum til sæðinga.

 

 Árni Brynjólfsson kynnti tillögu frá Mjólkursamlagi Ísfirðinga um lækkun flutningskostnaðar sláturgripa.

 

 Þorsteinn Rútsson kynnti tillögu frá Búgreinaráði BSE um breyttan fundartíma aðalfundar.

 

 Fundi frestað þriðjudaginn 21. ágúst kl. 18:45.

 

 Fundi framhaldið miðvikudaginn 22. ágúst kl. 13:00.

 

13. Afgreiðsla mála.

 1. Tillögur frá Fagmálanefnd.

1.1 Ályktun um forritið Ískýr.
Aðalfundur LK, haldinn í Skjólbrekku í Mývatnssveit 21.-22. ágúst 2001, gerir þá kröfu til Bændasamtaka Íslands að gert verið átak til að bæta forritið Ískýr þannig að það vinni eins og til er ætlast og nái þeirri útbreiðslu meðal kúabænda sem nauðsynleg er m.a. vegna skyldumerkingu nautgripa og gæðastýringar.

 

 Sigurður Loftsson, framsögumaður Fagmálanefndar, gerði grein fyrir tillögunni.

 

Fundarstjóri gaf nú orðið frjálst um tillöguna.

 

Pétur Diðriksson beindi fyrirspurn til nefndarinnar og spurði hvort forritið byði möguleikann á að keyra upplýsingar af þeim forritum sem bændur notast nú við inn á hið nýja kerfi.

 

Þórarinn Leifsson  svaraði framkominni fyrirspurn. Hann kvað höfund forritsins vera væntanlegan til landsins á næstunni.  Hann mun skoða hvaða kerfi eru í gangi hjá bændum og jafnframt hvað þurfi til til þess að þetta verði mögulegt.

 

Tillagan var síðan samþykkt samhljóða.

 

1.2 Ályktun um aukin fjárframlög til nautgripasæðinga og eflingu kynbótastarfs.
Aðalfundur LK, haldinn í Skjólbrekku í Mývatnssveit 21.-22. ágúst 2001, beinir því til stjórnar LK að hún beiti sér fyrir auknum fjárframlögum til nautgripasæðinga og stuðli þannig að eflingu kynbótastarfsins.

 

Greinargerð:
Undanfarin ár hafa opinber framlög til nautgripasæðinga farið ört lækkandi. Á sama tíma hefur kostnaður við rekstur bifreiða og laun frjótækna hækkað mjög. Allt þetta hefur kallað á svo miklar hækkanir á verðlagi þjónustunnar að ætla má að notkun hennar sé stefnt í nokkra tvísýnu. Dragi veruleg úr notkun sæðinganna verður reksturinn enn erfiðari og gæti þróun af þessu tagi orðið verulegur hnekkir fyrir kynbótastarfið, sem stendur og fellur með þátttöku i sæðingunum.
 Sá árangur í kynbótum, sem sæðingarnar hafa skilað, kemur öllum kúabændu til góða og því telur fundurinn að vandfundinn sé sá farvegur fyrir fjárframlög, þar sem þau nýtast betur en þar.

 

 Sigurður Loftsson, framsögumaður Fagmálanefndar, gerði grein fyrir tillögunni.

Fundarstjóri gaf nú orðið frjálst um tillöguna. Enginn kvaddi sér hljóðs.  Tillagan var síðan samþykkt samhljóða.

 

1.3 Ályktun um breytingar á fagþjónustu landbúnaðarins og þróunarsetur nautgriparæktarinnar.

 

 Sigurður Loftsson, framsögumaður Fagmálanefndar, gerði grein fyrir tillögunni.

 

Fundarstjóri gaf nú orðið frjálst um tillöguna.

 

Egill Sigurðsson kvað byggingu fjóss vera mjög mikilvæga fyrir Hvanneyri, en fundurinn mætti ekki skilja framtíðarstefnu LK í tilraunamálum nautgriparæktarinnar eftir í lausu lofti. Við verðum að setja fram skýra stefnu í málefnum tilraunastöðvanna að Stóra-Ármóti og Möðruvöllum. Það verður ekki til fjármagn til rannsókna sem réttlætir rekstur á þremur stöðvum. Hvernig ætla menn að fjármagna fjósbygginguna á Hvanneyri ? Kr. 25 miljóna framlag frá Framleiðnisjóði dugar ekki til. Hvernig á t.d. að fjármagna kvótakaup fyrir fjósið? Í greinargerð með tillögunni þarf að koma skýrt fram hver sé stefna LK varðandi áframhaldandi rekstur tilraunastöðvanna tveggja.

 

Rögnvaldur Ólafsson taldi að í tillögunni þyrfti að koma fram sá ásetningur fundarins að tilraunastarfsemin, kennslan og leiðbeiningastarfsemin myndi eina heild. Þessi tillaga skarast að talverðu leyti við tillögu nefndarinnar nr. 1.5.  Skýrara væri ef þeim yrði hnýtt saman í eina ályktun.

 

Sigurður Loftsson  svaraði framkomnum fyrirspurnum.  Hann kvað frekari  umfjöllunar vera þörf ef setja eigi fram framtíðarstefnu LK í tilraunamálum nautgriparæktarinnar. Hann  taldi ekki tímabært að kveða úr um það nú hvort leggja eigi niður þær tilraunastöðvar sem nú væru starfræktar. Varðandi athugasemd Rögnvaldar þá taldi hann að rannsóknir og kennsla ættu skilyrðislaust saman, en við erum að fara yfir í þróun þar sem leiðbeiningarnar eru að færast á fleiri hendur, t.d. eru dýralæknar farnir að koma að þeim.  Þær munu þegar frá líður verða söluvara og því er ekki rétt að fella þetta í eina tillögu þó vissulega sé hér um skyld mál að ræða.

 

Elvar Eyvindsson taldi tillögu nefndarinnar ber keim af skorti á framtíðarsýn varðandi rannsóknarstarfsemina.  LK verður að setja sér skýra stefnu í þessum málum áður en lengra verður haldið..

 

Sveinn Ingvarsson kvað fjárveitingar til rannsóknarstarfa í landbúnaði ekki hafa verið nægilega miklar.  Þær stöðvar sem nú eru starfræktar hafa liðið fyrir það, en hvernig fer þegar þriðja stöðin bætist við ? Þessi starfsemi hlýtur fyrr eða síðar að færast á eina hendi og á einn stað enda úr takmörkuðum fjármunum að moða.  Líklegt hlýtur að teljast að hlutverki stöðvanna að Stóra-Ármóti og Möðruvöllum ljúki með samanburðartilrauninni, verði af henni.

 

Þórólfur Sveinsson minnti á að á aðalfundi LK 1999 hafi í ályktun verið fagnað þeirri ákvörðun stjórnvalda að gera Hvanneyri að Landbúnaðarháskóla og jafnframt að miðstöð rannsókna í nautgriparækt. Í framhaldi af þeirri samþykkt lagði stjórn LK því til að byggt yrði nýtt fjós á Hvanneyri.  Jafnframt var talið eðlilegt að stöðinni á Stóra-Ármóti yrði komið undir stjórn Landbúnaðarháskólans og auk þess sem staða  Möðruvallastöðvarinnar skyldi endurmetin.

 

Birgir Ingþórsson kvað ekki vera nægilegt fjármagn fyrir hendi til að reka margar stöðvar.  Fjósbyggingin á Hvanneyri verður að rísa því einungis þannig getum við tryggt viðeigandi kennsluaðstöðu fyrir nautgripabændur framtíðarinnar. Fyrsta skrefið í samrunaferlinu ætti að vera það að setja rekstur Stóru-Ármóta undir stjórn Landbúnaðarháskólans.

 

Egill Sigurðsson  lagði til að bætt yrði við tillöguna ákvæði þess efnis að Landbúnaðarháskólinn skyldi koma að stjórn tilraunastöðvarinnar á Stóra-Ármóti og jafnframt að stöðin að Möðruvöllum skyldi lögð niður.

 

Sigurður Loftsson óskaði eftir að nefndin fengi tillöguna á ný til skoðunar í ljósi umræðna um hana á fundinum og samþykkti fundurinn það. Afgreiðslu hennar var því frestað þar til síðar á fundinum.

 

1.4 Ályktun um ráðstöfun beinna greiðslna.
Aðalfundur LK, haldinn í Skjólbrekku í Mývatnssveit 21.-22. ágúst 2001, ályktar eftirfarandi um ráðstöfum beinna greiðslna: Svonefndar C-greiðslur, sem eru 15% beinna greiðslna, verða á næsta verðlagsári greiddar þannig að 12% verða greiddar á innvigtun í nóvember til febrúar, 1% á innvigtun í júlí og 2% í ágúst.
Fundurinn leggur áherslu á að ráðstöfun C-greiðslu sé jafnan með þeim hætti að innvigtun mjólkur falli sem best að þörfum markaðarins á hverjum tíma.

 

 Sigurður Loftsson, framsögumaður Fagmálanefndar, gerði grein fyrir tillögunni.

 

Fundarstjóri gaf nú orðið frjálst um tillöguna.

 

Guðmundur Þorsteinsson kvað tillöguna í sjálfu sér ágæta en með henni væri einungis stigið lítið  skref í rétta átt.  LK og SAM verða þegar að marka stefnuna fyrir þar næsta verðlagsár (2002/2003) til þess að gefa bændum meiri tíma til aðlögunar. Lækka þarf C-greiðslurnar í nóvember til febrúar meira í framtíðinni en tillagan gerir ráð fyrir.  Hann lagði engu að síður til að hún yrði samþykkt.

 

Rögnvaldur Ólafsson  beindi nokkrum spurningum til formanns LK um málið.

 

Skúli Einarsson taldi þau skref sem stigin yrðu með tillögunni heldur smá. Hvatti hann stjórn LK til þess að hefja strax undirbúning að frekari breytingum í þessa átt enda kallaði markaðurinn á þær.  Mesta tjónið sem mjólkurframleiðslan getur orðið fyrir er ef markaðurinn fær ekki þá mjólk sem hann æskir. Við verðum að geta brugðist hratt við ef afurðastöðvarnar tekur að skorta mjólk.  Stjórnir LK og SAM verða að finna lausn á þessu máli.

 

Þórólfur Sveinsson kvað þetta mál hafa verið til umræðu á fulltrúafundi kúabænda í febrúar sl.  Ef byggja á greiðslumarkið að hluta til, eða alveg, á próteinmiðviðun þá kallar það á breytingar á búvörulögum og búvörusamningi. Það er hins vegar flókið mál enda mörg sjónarmið sem rekast á. Ef þessi fundur æskir þess að tillögum varðandi þar næsta verðlagsár verði skilað fljótlega, mun stjórnin að sjálfsögðu verða við því.

 

Ari Teitsson sagði að samstarfsnefnd SAM og BÍ hafi fjallað um þetta mál. Þar hefur bæði verið fjallað um C-greiðsluna og uppgjör fyrir umframmjólk og menn eru almennt sammála um að annað hvort verði að draga úr C-greiðslunni eða dreifa henni meira á árið. Þessi aðferð er líka bændum dýr og því verðum við að reyna losna eins hratt og við getum út úr þessu umhverfi og fara eftir bókstaf samningsins um að jafna framleiðsluna á árið. Líklega væri eðlilegast að ákvörðun um kaup á umframmjólk sé tekin tvisvar á ári, þ.e. um miðbik og í lok hvers verðlagsárs. Með því móti ættum við ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að fá ekki nægt prótein. Setja þarf verklagsreglur sem tryggja bændum einhverjar greiðslur fyrir þá umframmjólk sem iðnaðurinn þarf á að halda.  Grundvallaratriðið er að sjálfsögðu að útvega markaðnum nægilega mjólk með sem minnstum tilkostnaði.

 

Tillagan var síðan samþykkt samhljóða.

 

1.5 Ályktun um uppbyggingu leiðbeiningamiðstöðva í nautgriparækt.

 

 Sigurður Loftsson, framsögumaður Fagmálanefndar, gerði grein fyrir tillögunni.

 

Fundarstjóri gaf nú orðið frjálst um tillöguna.

 

Þórólfur Sveinsson beindi tillögu um orðalagsbreytingar til nefndarinnar. Ekki væri eðlilegt að tillögunni sé einvörðungu beint til stjórnar LK og ekkert samræmi í því t.d. miðað við tillögu 1.3.

 

Sigurður Loftsson kvað ástæðu þess að tillögunni væri beint til stjórnar LK eingöngu vera þá að nefndin treysti engum  betur en stjórn LK til að vinna málinu framgöngu.

 

Guðmundur Þorsteinsson lagði til að tillögunni yrði vísað til stjórnar LK.

 

Afgreiðslu tillögunnar var síðan frestað þar til síðar á fundinum.

 

 2. Tillögur frá Félagsmálanefnd.

2.1 Ályktun um fyrirkomulag atkvæðagreiðslu um tilraunainnflutning NRF-fósturvísa.
Aðalfundur LK, haldinn í Skjólbrekku í Mývatnssveit 21.-22. ágúst 2001, felur stjórn Landssambands kúabænda að láta fara fram atkvæðagreiðslu um tilraunainnflutning á NRF fósturvísum í samvinnu við stjórn Bændasamtaka Íslands, eigi síðar en 20. nóvember 2001. Fundurinn samþykkir að kjörskrá verði unnin á sömu forsendum og gert var vegna kosninga um mjólkursamninginn 1998. Verkefnið verði kynnt í samvinnu við aðildarfélög Landssambands kúabænda og Bændasamtök Íslands fyrir októberlok.

 

 Guðmundur Þorsteinsson, framsögumaður Félagsmálanefndar, gerði grein fyrir tillögunni.

 

Fundarstjóri gaf nú orðið frjálst um tillöguna. Enginn kvaddi sér hljóðs.  Tillagan var síðan samþykkt samhljóða.

 

2.2 Ályktun um fjölda aðalfundarfulltrúa.
Aðalfundur LK, haldinn í Skjólbrekku í Mývatnssveit 21.-22. ágúst 2001, samþykkir að lokamálsliður greinar 5.3. í samþykktum LK verði þannig:
“Fjöldi fulltrúa skal vera einn fyrir hverja þannig reiknaða 40 félagsaðila eða brot af þeirri tölu.”

 

 Guðmundur Þorsteinsson, framsögumaður Félagsmálanefndar, gerði grein fyrir tillögunni.

 

Fundarstjóri gaf nú orðið frjálst um tillöguna. Enginn kvaddi sér hljóðs. Tillagan var síðan samþykkt með 27 samhljóða atkvæðum.

 

2.3 Ályktun um úrbætur á símakerfi í dreifbýli.
Aðalfundur LK, haldinn í Skjólbrekku í Mývatnssveit 21.-22. ágúst 2001, treystir loforði Landssímans hf. um að allir sveitabæir eigi kost á ISDN tengingu fyrir árslok 2002 en bendir jafnframt á að víða næst ekki viðunandi tenging vegna takmarkaðrar flutningsgetu símalínanna. Fundurinn leggur áherslu á að úr þessu verði bætt.

 

 Rögnvaldur Ólafsson, framsögumaður Félagsmálanefndar, gerði grein fyrir tillögunni.

 

Fundarstjóri gaf nú orðið frjálst um tillöguna. Enginn kvaddi sér hljóðs.  Tillagan var síðan samþykkt samhljóða.

 

2.4 Ályktun um úttekt á starfsemi Goða/Kjötumboðsins hf.
Aðalfundur LK , haldinn í Skjólbrekku í Mývatnssveit 21.-22. ágúst 2001, beinir því til stjórnar LK að hún hlutist til um að unnin verði ítarleg greinargerð um starfsemi Goða hf., nú Kjötumboðsins hf., síðustu  misseri. Þar  verði m.a. leitt í ljós hvernig staðið var að stofnun og síðan rekstri félagsins og ákvörðunum um að taka við sláturgripum eftir að ljóst mátti vera að ekki yrði hægt að greiða bændum fyrir afurðirnar.
Komi fram vísbendingar um saknæmt athæfi verði farið fram á opinbera rannsókn. Eðlilegt er að leitað verði samstarfs við aðrar búgreinar um verkefnið.

 

 Gunnar Jónsson, framsögumaður Félagsmálanefndar, gerði grein fyrir tillögunni.

 

Fundarstjóri gaf nú orðið frjálst um tillöguna.

 

Birgir Ingþórsson taldi eðlilegt að gerð yrði fortakslaus krafa um að þegar fari fram opinber rannsókn á starfsemi fyrirtækisins.  Bókhald fyrirtækisins virðist hafa verið í molum.

 

Tillagan var síðan samþykkt samhljóða.

 

 3. Tillögur frá Framleiðslunefnd.

3.1 Ályktun um lækkun flutningskostnaðar sláturgripa.
Aðalfundur LK, haldinn að haldinn í Skjólbrekku í Mývatnssveit 21.-22. ágúst 2001, beinir því til stjórnar LK að beita sér fyrir lækkun flutningskostnaðar sláturgripa á svæðum þar sem flytja þarf gripi um langan veg til slátrunar.

 

 Þórarinn Leifsson, framsögumaður Framleiðslunefndar, gerði grein fyrir tillögunni.

 

Fundarstjóri gaf nú orðið frjálst um tillöguna.

 

Pétur Diðriksson kvað það ekki leysa vandann að styrkja flutningana. Þá kvað hann það ekki samræmast dýraverndarsjónarmiðum að flytja stórgripi langan veg á bílum.  Bændum væri lítill sómi af slíku. Hann velti upp þeirri hugmynd hvort ekki væri grundvöllur fyrir því að bændur eignuðust sláturhús á hjólum. Kanna þarf hvort fjárhagslegur grundvöllur sé fyrir því áður en ákvörðun er tekin um flutningsstyrki.

 

Þórólfur Sveinsson kvað hugmynd Péturs mjög athyglisverða.  Hann  taldi hins vegar að erfitt myndi um vik að fjármagna hefðbundna flutningsstyrki vegna nautgripaslátrunar. Lagabreytingar er þörf ef stofna á flutningajöfnunarsjóð fyrir nautgripi. Því þarf að skoða aðrar leiðir, t.d. þarf að skoða hugmynd Péturs í fullri alvöru, enda væri hugsanlega hægt að afla stuðnings til slíkra mála.

 

Gunnar Jónsson taldi að með því að ætla sér að greiða niður flutninginn væru kúabændur að sætta sig við  það sem eðlilegan hlut að nautgripir væru fluttir langan veg til slátrunar.  Hugsanlega má leggja til tímabundinn stuðning til þess, en þetta má ekki verða stefna LK til framtíðar.

Tillagan var síðan samþykkt með níu atkvæðum gegn einu.

 

3.2 Ályktun um skyldumerkingar nautgripa.
Aðalfundur LK, haldinn að haldinn í Skjólbrekku í Mývatnssveit 21.-22. ágúst 2001, skorar á landbúnaðarráðaherra að setja hið fyrsta reglugerð um skyldumerkingar nautgripa. Málið hefur verið lengi í undirbúningi og nú liggja fyrir drög að reglugerð. Skyldumerkingar nautgripa eru nauðsynlegar til að tryggja rekjanleika og til að gefa margvíslegar upplýsingar til hagsbóta fyrir kúabændur.

 

 Þórarinn Leifsson, framsögumaður Framleiðslunefndar, gerði grein fyrir tillögunni.

 

Fundarstjóri gaf nú orðið frjálst um tillöguna.

 

Gunnar Jónsson spurði hvort gerð hafi verið áætlun um kostnað við verkefnið.

 

Snorri Sigurðsson svaraði því til að nefndin hefði óskað eftir úttekt Hagþjónustu landbúnaðarins á málinu, en niðurstöður lægju enn ekki fyrir.  Í Danmörku og Noregi hefur ríkið greitt kostnaðinn við að koma kerfinu á fót, en bændur hafa hins vegar þurft að greiða fyrir merkin sjálf.  Áætlunin gerir ráð fyrir að kostnaðurinn við hvert merki verði ca. kr. 40.  Frá og með næstu áramótum verður ekki hægt að flytja út nautgripaafurðir til landa Evrópusambandsins nema að Ísland uppfylli sömu kröfur hvað þetta varðar og gerðar eru í löndum sambandsins. Mesti ávinningurinn er hins vegar fólginn í því að með merkingum náum við miklu betri yfirsýn yfir nautgripakjötsmarkaðinn.

 

Tillagan var síðan samþykkt samhljóða.

 

3.3 Ályktun um breytingar á lyfjareglugerð.
Aðalfundur LK, haldinn í Skjólbrekku í Mývatnssveit 21.-22. ágúst 2001, leggur til við heilbrigðisráðherra að 17. grein reglugerðar nr. 539/2000 verði breytt með þeim hætti að dýralæknum verði gert kleyft að afhenda bændum sýklalyf til að meðhöndla bráðatilvik auk geldstöðumeðhöndlunar mjólkurkúa, enda séu þau einungis notuð í samráði við dýralækni og að jafnframt sé haldin skrá um notkun þeirra. Auk þess verði með reglugerðinni, bændum leyft að eiga og nota snefilefna- og fjölvítamínblöndur til að koma í veg fyrir efnavöntun í nautgripahjörðinni og bændum verði gert kleyft að nálgast bórkalk og magnesíum án lyfseðils í lyfjaverslun. Jafnframt verði hugað að markvissri fræðslu til bænda um lyfjanotkun, þ.e. meðferð lyfja og afleiðingar lyfjanotkunar.

 

 Þórarinn Leifsson, framsögumaður Framleiðslunefndar, gerði grein fyrir tillögunni.

 

Fundarstjóri gaf nú orðið frjálst um tillöguna. Enginn kvaddi sér hljóðs.  Tillagan var síðan samþykkt samhljóða.

 

3.4 Ályktun um fjósaskoðun.
Aðalfundur LK, haldinn í Skjólbrekku í Mývatnssveit 21.-22. ágúst 2001, krefst þess að embætti yfirdýralæknis fylgi því  eftir að héraðsdýralæknar framfylgi lögum og reglugerðum um fjósaskoðun.

 

 Þórarinn Leifsson, framsögumaður Framleiðslunefndar, gerði grein fyrir tillögunni.

 

Fundarstjóri gaf nú orðið frjálst um tillöguna.

 

Gunnar Sverrisson  gerði tillögu að orðalagsbreytingu við tillöguna sem nefndin gerði að sinni.

Tillagan, þannig breytt, var síðan samþykkt samhljóða.

 

3.5 Ályktun um viðunandi verð fyrir nautgripakjöt.

 Þórarinn Leifsson, framsögumaður Framleiðslunefndar, gerði grein fyrir tillögunni.

 

Fundarstjóri gaf nú orðið frjálst um tillöguna.

 

Gunnar Jónsson taldi hér vera á ferðinni stutta tillögu um stórt mál. Bændur eru ráðþrota í málinu og við verðum að fá inn á þennan fund upplýsingar um stöðu mála. Eru biðlistarnir að minnka? Hver er ungkálfalógunin? Hann spurði jafnframt hvaða samstöðu væri verið að vitna til í tillögunni?  Það er engin samstaða til staðar hjá sláturleyfishöfum.

 

Snorri Sigurðsson kvað biðlistana nú fara minnkandi, en þeir hafa verið lengstir á Suðurlandi það sem af er þessu ári. Eins og staðan er í dag eru ekki neinir biðlistar að kalla á svæðinu allt frá Mývatnssveit til og með Hellisheiði, ef frá eru skyldir Vestfirðir. Biðlistarnir, sem voru mjög miklir á Suðurlandi, um sjö mánuðir, eru í dag ca. 2,5-3 mánuðir.  Öll spenna ætti því að vera horfin af markaðnum.  Allir bændur sem voru með skráða gripi í slátrun á Vesturlandi hafa fengið úrlausn sinna mála.  Meiri slátrun var á ungkálfum framan af þessu ári heldur en í fyrra, en ekki hafa verið greidd ungkálfaverðlaun í rúm tvö ár, enda flestir þeirrar skoðunar að þau skili ekki neinum ávinningi til bænda. Við verðum að vanda vel hvernig við eyðum þeim kr. 16 milljónum sem við fáum í markaðsstarf fyrir nautgripakjötið.

 

Jón Steinar Elísson taldi að bændum væri að mörgu leyti sjálfum um að kenna hvernig komið væri. Sumir hræðast samkeppnina við hvíta kjötið, en í nágrannalöndum okkar er litið á nautakjöt sem lúxusvöru.  Hvers vegna er markaðshlutdeild nautgripakjötsins á Íslandi eins lítil og raun ber vitni, þ.e. aðeins um 15%? Kaupás gerði neyslukönnun í sínum verslunum þar sem viðskiptavinirnir  voru spurðir um hvaða kjöttegundir þeir keyptu fyrir jólahátíðina og hvar þeir keyptu.  Í þeirri könnun kom m.a. fram að um helmingur af öllu því nautakjöti sem keypt var fyrir jólahátíðina var af heimaslátruðu. Það verður að taka fyrir heimaslátrun í eitt skipti fyrir öll. Hefja verður nautakjötið á stall og bændur mega ekki láta það frá sér nema fyrir ásættanlegt verð.

 

Þórarinn Leifsson kvað nefndina vilja gera breytingu á niðurlagi tillögunnar samkvæmt ábendingu sem borist hefði.

 

Þorsteinn Rútsson fjallaði um Nautakjötsráð og lagði til að það boðaði til fundar með sláturleyfishöfum þar sem þeim yrði gerð grein fyrir því að bændur þurfi betra verð fyrir kjötið. Það verður að koma sláturleyfishöfum í skilning um það að bændur geta ekki rekið fyrirtæki við slíkar aðstæður. Sláturleyfishafarnir mega ekki láta smásöluverslunina beygja sig í duftið.  Í tillögunni ætti að beina áskorun um þetta efni til Nautakjötsráðs.

 

Pétur Diðriksson kvað lítið gagn í tillögunni eins og hún hljóðaði nú.  Það eina sem virkar til þess að knýja á um úrbætur er órofa samstaða bænda. Skoða ætti þann möguleika hvort hugsanlegt sé að Kjötframleiðendur hf. kaupi allt nautakjöt í landinu og miðli því þannig í gegnum einn markað til kjötvinnslnanna sem einfaldlega þurf að bjóða í kjötið. Sú staða sem nú er uppi á markaðnum er óskastaða kaupandans.

 

Rögnvaldur Ólafsson kvað lítið gagn í tillögunni og velti því fyrir sér hvað átt væri við með orðunum “viðunandi verð” í henni. Hann taldi biðlistana að einhverju leyti ekki hafa verið raunhæfa vegna þess að margir bændur hafi skráð gripi sína til slátrunar á mörgum stöðum. Bændur verða að ná fjárhagslegum eða eignalegum tökum á kjötvinnslunum.

 

Sigrún Ásta Bjarnadóttir kvaðst hafa fylgst vel með kjötúrvalinu í  kjötborði á Suðurlandi, þ.e. verslun KÁ á Selfossi. Hún kvað þau tilfelli teljandi á fingrum annarrar handar þegar  eitthvað annað nautakjöt væri í boði en “fillet” og lundir, að undanskildum 300 gr pakkningum. Af einhverjum ástæðum virðist nautakjötið vera sett til hliðar í kjötborðum verslana.

 

Þórólfur Sveinsson kvað Nautakjötsráð vera samstarfsvettvang aðila sem framleiddu kjöt. Hugmynd Péturs um eitt fyrirtæki sem keypti allt kjötið sem hefur skotið upp kollinum af og til síðustu 10 árin.  Ef áhugi er fyrir hendi getur stjórn LK látið skoða hvort hér sé um raunhæfan möguleika að ræða, en það hlýtur þó að teljast ólíklegt ekki síst með tilliti til samkeppnislaga. Síðasti aðalfundur LK ályktaði um verulega hækkun verðskerðingargjalda nautgripakjöts. Það kostar mikla fjármuni að taka kálfakjöt út af markaðnum. Möguleikar LK til virkra afskipta af kjötmarkaðnum eru mjög svo takmarkaðir.

 

Snorri Sigurðsson kvað kúabændur eiga í gríðarlegri samkeppni við annað kjöt á markaðnum. Hann varaði við hugmyndum um skerðingu eða takmörkun á framboði nautgripakjöts því aðrar kjöttegundir, sérstaklega svínakjötið, yrðu fljótar að nýta sér það. Framsetning kjöts í verslunum ræður mestu um neysluna og því verðum við, í samstarfi við verslanir, að reyna að auka framboð og úrval nautgripakjöts. Þá hjálpar það ekki að kýrkjöt er ekki selt sem slíkt, heldur sem nautgripakjöt, en það er of líkt orðinu nautakjöt og veldur því ruglingi hjá neytendum.

 

Afgreiðslu tillögunnar var síðan frestað þar til síðar á fundinum.

 

 Kaffihlé kl. 16:00-16:30

 

3.5 Ályktun um viðunandi verð fyrir nautgripakjöt (framhaldið).
Aðalfundur LK, haldinn í Skjólbrekku í Mývatnssveit 21.-22. ágúst 2001, beinir því til sláturleyfishafa að standa saman um að borga framleiðendum viðmiðunarverð LK. Einnig beinir fundurinn því til stjórnar LK að beita sér fyrir stórauknu framboði á unnu nautakjöt í verslunum í samráði við kjötvinnslur og smásöluverslanir. 

 

 Þórarinn Leifsson, framsögumaður Framleiðslunefndar, gerði grein fyrir endurskoðaðri tillögu nefndarinnar.

 

Fundarstjóri gaf nú orðið frjálst um tillöguna.

 

Snorri Sigurðsson upplýsti fulltrúa um hvert viðmiðunarverð LK væri nú.

 

Tillagan var síðan samþykkt samhljóða.

 

1. Tillögur frá Fagmálanefnd (framhaldið).

1.3 Ályktun um breytingar á fagþjónustu landbúnaðarins og þróunarsetur nautgriparæktarinnar (framhaldið).
Aðalfundur LK, haldinn í Skjólbrekku í Mývatnssveit 21.-22. ágúst 2001, skorar á landbúnaðarráðherra og aðra þá er að málinu koma að, í kjölfar RANNÍS-skýrslunnar verði gerðar nauðsynlegar breytingar á fagþjónustu landbúnaðarins. Fundurinn ítrekar fyrri ályktanir sínar um uppbyggingu þróunarseturs fyrir nautgriparæktina að Hvanneyri og leggur áherslu á að ekki verði frekari tafir á að byggt verði þar nýtt fjós. Jafnframt verði þess gætt að námsefni og kennsluhættir í nautgriparækt hérlendis séu ekki lakari en hjá nágrannaþjóðum.
Einnig skorar fundurinn á Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og RALA, í ljósi fyrri ályktana LK og samstarfssamnings LBH og RALA (frá 1997), að ganga frá sameiginlegri stefnumótun í rannsóknum og kennslu í nautgriparækt. Þá telur fundurinn brýnt að gerður verði samstarfssamningur LBH, RALA og Búnaðarsambands Suðurlands um starfsemi tilraunastöðvarinnar að Stóra-Ármóti.

 

Sigurður Loftsson, framsögumaður Fagmálanefndar, gerði grein fyrir endurskoðaðri tillögu nefndarinnar.

 

Fundarstjóri gaf nú orðið frjálst um tillöguna. Enginn kvaddi sér hljóðs. Tillagan var síðan samþykkt samhljóða.

 

1.5 Ályktun um uppbyggingu leiðbeiningamiðstöðva í nautgriparækt (framhaldið).
Aðalfundur LK, haldinn í Skjólbrekku í Mývatnssveit 21.-22. ágúst 2001, beinir því til stjórnar LK að vinna að sameiningu leiðbeiningaþjónustunnar í 2-3 leiðbeiningamiðstöðvar. Jafnframt verði skoðuð hagkvæmni og faglegur ávinningur þess að flytja starfsgildi landsráðunauta í nautgriparækt í þær stöðvar.

Greinargerð:
Búnaðarþing 2001 fól stjórn BÍ að skipa nefnd sem hefði m.a. það hlutverk að endurskoða skipulag ráðgjafaþjónustu í landbúnaði og nýtingu búnaðargjalds. Skyldi nefndin skila áliti sínu fyrir næsta búnaðarþing.
Mikið hefur verið rætt um sameiningu leiðbeiningaþjónustu búnaðarsambandanna sem leið til að styrkja fjárhagslega og ekki síður faglega stöðu þeirra. Hinsvegar verður sá hluti leiðbeiningarþjónustunar ekki endurskoðaður án þess að jafnframt verði stöður landsráðunauta endurmetnar, eigi ásættanlegur árangur að nást.
Hjá Búnaðarsambandi Suðurlands hefur á undanförnum árum verið unnið markvisst að uppbyggingu leiðbeininga í nautgriparækt með góðum árangri. Þar er nú starfandi hópur ráðunauta og sérmenntaðra dýralækna sem sameiginlega taka á þeim verkefnum sem til falla. Engum vafa er undirorpið að frumkvæði verður meira og vinna markvissari þegar starfað er í slíku umhverfi en á einmenningssvæðum. Staðsetning landsráðunautar í hópi sem þessum myndi án efa efla starf hans, auk þess sem önnur svæði nytu þá jafnframt góðs af starfi hópsins í heild.

 

Sigurður Loftsson, framsögumaður Fagmálanefndar, gerði grein fyrir endurskoðaðri tillögu nefndarinnar.

 

Fundarstjóri gaf nú orðið frjálst um tillöguna.

 

Rögnvaldur Ólafsson  óskaði skýringa á útfærslu tillögunnar.  Eru menn að tala um útstöðvar úti í héruðunum o.s.frv.? Hann kvaðst ekki sannfærður um að það yrði framfaraspor fyrir þjónustuna við bændur á dreifðari svæðunum að þjónustan verði einungis gerð út frá 2-3 leiðbeiningamiðstöðvum.

 

Gunnar Jónsson kvað hér vera um hluta af miklu stærra máli að ræða.  Hvað ætla menn að gera við höfuðstöðvarnar í Reykjavík, sjálf Bændasamtökin, þegar við höfum flutt stöðugildi landsráðunautanna út í leiðbeiningamiðstöðvarnar? Stærstu framfarirnar í nautgriparæktinni á undanförnum árum koma eiga ekki rætur sínar að rekja til innlendra tilrauna heldur koma þær beint erlendis frá. 

 

Pétur Diðriksson lýsti ánægju sinni með tillöguna. Ef við viljum almennilegar leiðbeiningar sem virka fyrir landbúnaðinn í heild verðum við að eiga öflugar leiðbeiningamiðstöðvar.  Hvort einhver skrifstofa sé staðsett í heimahéraði bænda eða ekki skiptir þá litlu máli. Við verðum að þjappa þessu saman eins hratt og mögulegt er.  Bændurnir munu koma til með að sækja sér þjónustuna þangað sem þeir telja hana besta.

 

Tillagan var síðan samþykkt með þorra atkvæða gegn einu.

 

14. Kosningar.
 Elvar Eyvindsson, formaður Kjörbréfa- og uppstillingarnefndar, gerði grein fyrir störfum nefndarinnar, en síðan hófst leynileg kosning.

 

 Kosningu hlutu:

 Formaður til eins árs:
 Þórólfur Sveinsson, Ferjubakka, kjörinn með 20 atkvæðum.

 

 Fjórir meðstjórnendur til eins árs:
 Birgir Ingþórsson, kjörinn með 27 atkvæðum.
 Gunnar Sverrisson, kjörinn með 27 atkvæðum.
 Kristín Linda Jónsdóttir, kjörin með 24 atkvæðum.
 Egill Sigurðsson, kjörinn með 22 atkvæðum.

 

 Fyrsti varamaður til eins árs:
 Sigurgeir Pálsson, kjörinn með 25 atkvæðum.

 

 Annar varamaður til eins árs:
 Gunnar Jónsson, kjörinn með 21 atkvæði.

 

 Skoðunarmenn til eins árs, kjörnir með lófataki:
 Aðalmenn: Pétur Diðriksson, Helgavatni, og Magnús Hannesson, Eystri-Leirárgörðum.
 Varamaður: Kristján Finnsson, Grjóteyri.

 

15. Önnur mál:

Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda, kvað afgreiðslu fundargerðar verða með þeim hætti að fulltrúum verði send hún og gefinn viss frestur til athugasemda áður en hún verður staðfest.

 

Sveinbjörn Þór Sigurðsson óskaði heimildar fundarstjóra til að leggja fram eftirfarandi tillögu og varð fundarstjóri við ósk hans:

Aðalfundur LK, haldinn í Skjólbrekku í Mývatnssveit 21.-22. ágúst 2001, beinir því til stjórnar SAM að sjá til þess að afurðastöðvar fari að reglugerðum varðandi innlagða mjólk.

 

Sveinn Ingvarsson kvað það mat sitt að aðalfundur LK gæti ekki látið slíka ályktun frá sér fara.

 

Gunnar Sverrisson áréttaði að stjórn SAM teldi að það eina sem hún gæti gert í stöðunni væri að minna samlögin á reglugerðirnar. Hann lýsti þó skilningi á þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í tillögunni.

 

Arnar Bjarni Eiríksson kvað hér vera um óþolandi ástand að ræða, sem leiddi m.a. til hækkunar kvótaverðs. Sumar afurðastöðvanna hafa jafnvel leyft sér að færa verðlagsáramót til. Hann fór  fram á það að stjórn LK beitti sér að alefli í málinu.

 

Þórður Þórðarson kvaðst sammála fundarstjóra um að fundurinn mætti ekki láta slíka ályktun frá sér fara.  Það er alþekkt að menn leita allra leiða til þess að komast í kringum ákvæði slíkra reglugerða.

 

Kristinn Guðnason  tók undir orð síðasta ræðumanns.  Það er ekki svo auðvelt að loka öllum smugum á reglugerðinni. Þeir sem vilja finna alltaf einhverjar leiðir til þess að komast undan slíkum ákvæðum.

 

Erlingur Teitsson taldi það neyðarlegt að hér væri svo ljótt mál á ferðinni fyrir stéttina að fulltrúar þyrðu ekki að taka á því. Vissulega er hægt að fara aðrar leiðir framhjá þessu, en gera verðu þær torveldari. Fá þarf fram sjónarmið sem flestra fulltrúa í málinu svo stjórn LK fái vegarnesti til að vinna úr.

 

Guðmundur Þorsteinsson taldi þessi þeim mun erfiðara að þola þessi undanbrögð eftir því sem þau verða umfangsmeiri. Það er sameiginlegt áhugamál þeirra sem vantar mjólk, þeirra sem þurfa að losna við mjólk og viðkomandi afurðastöðvar að þetta sé gert. Reyna verður að hamla á móti þessari þróun þó sjálfsagt verði erfitt að koma alveg í veg slík undanbrögð.  Þeir sem þetta stunda eru bæði að fara framhjá lagafyrirmælum og einnig að níðast á hagsmunum stéttarbræðra sinna.

 

Skúli Einarsson lagði til að stjórn LK verði gefið eitt ár til þess að ná árangri í málinu, en að öðrum kosti verði það tekið upp á næsta aðalfundi.

 

Þórólfur Sveinsson kvað ekki vera völ á neinni einfaldri lausn á því máli sem fram kæmi í tillögu Sveinbjörns. Málið er ekki nýtt af nálinni og nokkuð hefur verið fjallað um það á undanförnum árum.

 

Tillögunni var síðan vísað til stjórnar LK með þorra atkvæða gegn einu.

 

Guðbergur E. Eyjólfsson fjallaði um NRF-málið.  Hann skoraði á NRFÍ-hópinn að hafa þolinmæði til þess að sannfæra meirihluta bænda um að þeirra leið sé hin eina rétta.  Ekki fara í innflutning í trássi við vilja meirihluta bænda. Það væri slæmt fordæmi að ef þeir sem lenda undir í samstarfi eins og innan LK slíti sig einfaldlega úr samstarfinu og vinni sjálfstætt að sínum málum.

 

Fundarstjóri lagði fram eftirfarandi tillögu um þóknun til fundarmanna:

Þóknun til aðalfundarfulltrúa árið 2001 verði kr. 17.500.  Ferðakostnaður verður greiddur samkvæmt reglum Ferðakostnaðarnefndar ríkisins, eða eftir samkomulagi.

 

Tillagan var samþykkt samhljóða.

 

Snorri Sigurðsson kynnti drög að Fjárhagsáætlun LK fyrir árið 2001.

Fjárhagsáætlunin var samþykkt samhljóða.

 

16. Fundarslit.

 Fundarstjórar þökkuðu fulltrúum fyrir góð störf og málefnalega umræðu.

 

 Þórólfur Sveinsson þakkaði mönnum það traust sem þeir hefðu sýnt honum með því að velja hann til formennsku á ný. Fjörugt  og árangursríkt ár er að baki en nú eru hins vegar ýmsar blikur á lofti og gera verður ráð fyrir átökum á ýmsum vígstöðvum, ekki síst í afurðaverði til kúabænda. Við verðum að búa okkur undir að sigla ekki jafn lygnan sjó í þeim efnum og við höfum gert undanfarin ár. Hann þakkaði síðan frábæran viðgjörning á staðnum. Hann kvað fundinn hafa verið góðan og umræðu alla verið málefnalega og fyrir það þakkaði hann fulltrúum.  Þá þakkaði hann starfsmönnum fundarins fyrir þeirra starf og óskaði mönnum síðan góðrar heimferðar og heimkomu og sleit síðan fundi kl. 18:00.

/Gylfi Þór Orrason