Fundargerð aðalfundar 2000
24.08.2000
Aðalfundur Landssambands kúabænda
haldinn á Hótel Selfossi 23.-24. ágúst 2000
Formaður LK, Þórólfur Sveinsson, setti fund kl. 11.10 og bauð fundarmenn velkomna. Gunnar Eiríksson og Árni Sigurðsson voru kjörnir fundarstjórar og tóku við stjórn fundarins. Í kjörbréfa- og uppstillingarnefnd voru skipuð Elvar Eyvindsson formaður, Sigríður Bragadóttir og Pétur Diðriksson. Fundarritarar voru samþykkt Álfhildur Ólafsdóttir og Sigurgeir Pálsson.
1. Skýrsla stjórnar
Þórólfur Sveinsson flutti skýrslu stjórnar. Hann vísaði til framlagðra gagna um starfsemi liðins árs sem hann taldi hafa verið kúabændum fremur gott. Sala mjólkurvara hefur gengið vel en viðskipti með umframmjólk þurfa að komast í fastara horf. Umfjöllun um annað og hugsanlega afkastameira kúakyn hefur tekið tíma en ekkert komið fram sem mælir gegn þeirri tilraun. Þetta er einstæð umræða og ítrekaði formaður þakkir fyrir þann hlýhug sem íslenska kýrin hefur notið. Hann ræddi annmarka fjölskyldubúsins, erfiðleikana að skapa sér viðunandi frítíma og öryggisleysið ef slys eða veikindi ber að höndum. Stofnun sjúkrasjóðs var rædd á árinu en niðurstaðan varð að nýta aðkeyptar tryggingar. Fjallað hefur verið um gæðastýringu og tveir hópar ætla að fara af stað með tilraunaverkefni á komandi vetri. Minnti á að bændur taka upp gæðastýringu til þess að bæta eigin afkomu. Þakkaði Guðbirni Árnasyni og bauð Snorra Sigurðsson velkominn til starfa. Þórólfur gerði grein fyrir breytingum á skipulagi félagskerfis landbúnaðarins samhliða niðurlagningu Framleiðsluráðs um síðustu áramót. Hvatti til endurskoðunar þjónustusvæða fagþjónustu landbúnaðarins. Mikil vinna hefur verið lögð í endurskoðun verðlagsgrundvallar kúabús á árinu og gera má ráð fyrir miklum breytingum, væntanlega um næstu áramót. Þá greindi Þórólfur frá samstarfssamningi um rannsóknir m.a. við Háskóla Íslands. RANNÍS-verkefnið, sem ætlað er að leggja mat á þörf greinarinnar fyrir faglega þjónustu, hefur dregist óhæfilega og seinagangur í aðlögun fagþjónustu að breyttum aðstæðum er mikill. Danskir ráðgjafar um þessi mál eru væntanlegir í haust. Kostnaður við sæðingar stefnir í algjört óefni á mörgum svæðum. Jógúrtinnflutningur frá Spáni, sem kom bæði kúabændum og mjólkuriðnaði í opna skjöldu, undirstrikar þá staðreynd að á alþjóðamarkaði dregur úr innflutningsvernd. Innganga í ESB getur þýtt alvarlega erfiðleika fyrir kúabændur og óvíst er hvaða áhrif nýir WTO samningar hafa. Æskilegt er að skoða þessi mál í víðara samhengi. Loks ræddi Þórólfur fjölþætt gildi landbúnaðar og þakkaði síðan samstjórnarmönnum sínum, kúabændum öllum og framkvæmdastjórum samtakanna samstarfið á liðnu ári.
2. Reikningar
Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri, yfirfór og skýrði endurskoðaða reikninga ársins 1999. Rekstrartekjur voru kr. 16.853.677 og rekstrargjöld kr. 16.569.780 en hagnaður að teknu tilliti til fjármunatekna og fjármagnsgjalda kr. 661.599. Niðurstaða efnahagsreiknings var kr. 13.495.336, þar af eigið fé kr. 13.036.989.
Heildargjöld afleysingasjóðs voru kr. 6.756.605 en tekjur kr. 1.037.583. Gjöld afleysingasjóðs umfram tekjur voru kr. 5.719.022. Eigið fé sjóðsins í árslok var kr. 10.065.351. Á árinu var greitt til 23 afleysingahringja sem að stóðu 111 kúabú.
3. Skýrsla um störf Fagráðs í nautgriparækt
Jón Gíslason, formaður ráðsins, flutti skýrsluna sem lá fyrir í fundargögnum. Þróunarfé nautgriparæktarinnar í ár er 10 – 11 Mkr. en óvíst að öllu verði ráðstafað. Gat um RANNÍS-úttektina sem enn er beðið eftir sem er mjög bagalegt og enn er beðið niðurstöðu landbunaðarráðherra varðandi tilraunainnflutninginn. Ný stefna um áhersluatriði í rannsókna- og þróunarstarfi gerir ráð fyrir minnkaðri áherslu á fóður og fóðrun en meiri áhersla verði lögð á vinnu og tækni og á bústjórn (gæðastýringu og bættar upplýsingar). Að lokum þakkaði Jón samráðsmönnum sínum og boðaði að þetta yrði síðasta skýrsla sín um störf fagráðs á aðalfundi LK.
4. Ávörp gesta
Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, bauð fundarmenn velkomna til Selfoss og á Suðurland. Hann gerði örar breytingar síðustu áratuga að umtalsefni og víðtæk áhrif þeirra á byggð og búsetu. Hann ræddi hlutverk landbúnaðarins og skyldur hans og kvaðst sannfærður um að staða greinarinnar væri sterk. Samningur til ársins 2005 tryggir stöðu mjólkurframleiðslunnar og opnar nýjar leiðir en kallar jafnframt á fækkun bænda og stærri einingar. Þetta er hliðstæð þróun og í nágrannalöndunum – fækkun og stækkun að vissu marki er óhjákvæmileg. Verðlaging framleiðsluheimilda er of há. Óttast ráðherra að það leiði til þess að menn ofmeti gildi þeirra í næstu samningum og að yngri kynslóð bænda verði of skuldsett. E.t.v. væri réttara að setja nú í gang starf að mati á framtíðaraðstæðum. Ekki má einblína um of á hagfræðihliðina – þá verður bóndinn þrællinn. Fáir einmana stórbændur er ekki sú framtíð landbúnaðarins sem Guðni óskar eftir. Nýleg Noregsferð sýndi að Norðmenn skilja margþætt hlutverk landbúnaðarins. Ásýnd landbúnaðarins er betri þar en hér og meiri skilningur á að landbúnaðurinn er meira en bara framleiðsla. Skýrsla um mögulega aðilda Íslands að ESB sem birtist í apríl sl. er ömurleg lesning fyrir þá sem vilja veg landbúnaðarins sem mestan. Telur bændur of andvaralausa gagnvart þessari stöðu og lýsti bágri þróun hjá finnskum bændum eftir inngöngu Finna í ESB. Ráðherra leggur til að landbúnaðarráðuneytið, Bændasamtökin, búgreinasamböndin og afurðastöðvarnar taki nú þegar höndum saman um að fjármagna úttekt á áhrifum hugsanlegar aðildar að ESB á íslenskan landbúnað. Varðandi umsókn LK um tilraunainnflutning á NRF sagði ráðherra eðlilegt að bændur leiti afkastameiri framleiðslutækja. Þetta hefur skipt þjóðinn í tvær fylkingar. Fyrstu hugmyndir hafa verið of ráðandi og fyrirliggjandi umsókn fengið of litla umfjöllun meðal almennings og bænda. Tekur undir með þeim sem telja að ekki hafi verið hugað nægilega að möguleikum íslensku kýrinnar í umræðu liðinna ára og bendir á að sumir ná góðum árangri með henni. Leitað hefur verið umsagna fjölmargra aðila varðandi þetta mál og öll gögn hafa nú skilað sér til ráðuneytisins auk þess sem margir hafa lagt inn gögn að eigin frumkvæði. Síðustu gögn bárust í byrjun ágúst og því ekki enn verið unnt að kanna þau til hlítar. Nefnd til að meta sérstöðu mjólkur m.t.t. gæða og hollustu hefur skilað áliti og gerði ráðherra grein fyrir helstu niðurstöðum hennar. Tók undir varnaðarorð nefndarinnar. Framundan er erfið og vandasöm ákvörðun og Guðni vildi geta sætt sjónarmið. Boðaði að lokum að svar við umsókn LK muni liggja fyrir nú á haustdögum og óskaði kúabænda allra heilla.
Ari Teitsson, formaður Bændasamtaka Íslands, þakkaði boð á fundinn. Hann kvað ástæðu til að gleðjast yfir að gögn Hagþjónustu landbúnaðarins, sem kynnt verða á fundinum, sýna batnandi afkomu kúabænda. Aukin skuldsetning er þó áhyggjuefni. Afurðameðferð mjólkur á Norðurlandi hefur komist í betra skikk sem eru verulegar og jákvæðar breytingar. Fækkun og stækkun búa er erfið umræða og vandséð hvernig bregðast á við. Í drögum að nýjum verðlagsgrundvelli er verið að skipta á hartnær helmingi launagreiðslugetunnar og fjárfestingu sem er mikil breyting. Á nýliðnum aðalfundi alþjóðasamtaka búvöruframleiðenda (IFAP) þar sem m.a. var rætt um komandi WTO samning kom fram að engar líkur eru á að takist að halda til lengri tíma þeim beina framleiðslustuðningi sem við búum við. Sú mikla fjárfesting sem nú á sér stað, einkum í kvóta, vekur spurningu um hvort þær ákvarðanir séu teknar í ljósi þeirrar framtíðar sem gera má ráð fyrir. Þrátt fyrir sérstaka aðlögunarstyrki hafa Finnar horft upp á hrun landbúnaðar. Þar er nú mjólkurverð um 30 kr/ltr og hæstu styrkir tæplega 10 kr/ltr. Ólíklegt er að við næðum mikið yfir 40 kr mjólkurverði hérlendis í ESBumhverfi. Ræddi möguleg viðbrögð bænda við harðri ESB-umræðu sem alltaf hljóta að verða erfið. Ari lagði áherslu á nauðsyn þess að þessi fundur ræði í mikilli alvöru hvaða fyrirkomulag kúabændur vilja hafa á félagslegri starfsemi og fagþjónustu heima í héruðum. „Menn verða að koma sér saman um eina rödd og eina stefnu“ sagði Ari og óskaði aðalfundinum farsældar í störfum.
Bjarni Guðmundsson, formaður stjórnar Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, færði kúabændum þakkir fyrir samstarf liðinna ára. Hann ræddi þær umfangsmiklu breytingar landbúnaðarins sem yfir standa, úr handverki í tæknigrein, og hlutverk FL þar í. Sagði stjórn FL binda vonir við verk RANNÍS-nefndarinnar og lagði áherslu á að þessir breytingatímar kalla á átak í faglegum efnum. Loks óskaði Bjarni ársfundinum heilla í störfum.
Matarhlé kl.12.25 til 13.35.
5. Niðurstöður kjörbréfanefndar
Elvar Eyvindsson gerði grein fyrir áliti nefndarinnar. Eftirtaldir fulltrúar voru mættir:
Frá Mjólkursamlagi Kjalarnesþings:
Kristján Finnsson, Grjóteyri
Magnús Hannesson, Eystri-Leirárgörðum
Frá Mjólkurbúi Borgfirðinga:
Pétur Diðriksson, Helgavatni
Guðmundur Þorsteinsson, Skálpastöðum
Ásbjörn Pálsson, Syðri-Haukatungu 2
Frá Mjólkursamlaginu í Búðardal:
Lára Hansdóttir, Á
Guðrún Skarphéðinsdóttir, Kringlu, varamaður
Frá Mjólkursamlagi Ísfirðinga:
Árni Brynjólfsson, Vöðlum
Frá Nautgriparæktarfélagi V-Hún:
Skúli Einarsson, Tannstaðabakka
Frá Félagi austur-húnvetnskra kúabænda:
Magnús Sigurðsson, Hnjúki
Gróa Lárusdóttir, Brúsastöðum varafulltrúi
Frá Félagi kúabænda í Skagafirði:
Þórarinn Leifsson, Keldudal
Árni Sigurðsson, Marbæli
Frá Búgreinaráði BSE í nautgriparækt:
Gunnsteinn Þorgilsson, Sökku
Sigurgeir Pálsson, Sigtúnum
Benjamín Baldursson, Ytri-Tjörnum, varamaður
Þórður Þórðarson, Hvammi, varamaður
Frá Félagi þingeyskra kúabænda:
Sveinbjörn Sigurðsson, Búvöllum
Ólöf Hallgrímsdóttir, Vogum
Frá Nautgriparæktarfélagi Vopnafjarðar:
Sigríður Bragadóttir, Síreksstöðum
Frá Félagi nautgripabænda á Héraði og Fjörðum:
Gunnar Jónsson, Egilsstöðum
Jón Steinar Elísson, Hallfreðarstöðum, varamaður
Frá Nautgriparæktarfélagi Austur-Skaftafellssýslu:
Eiríkur Egilsson, Seljavöllum
Frá Félagi kúabænda á Suðurlandi:
Egill Sigurðsson, Berustöðum
Gunnar Sverrisson, Hrosshaga
Birna Þorsteinsdóttir, Reykjum
Gunnar Eiríksson, Túnsbergi
Arnar Bjarni Eiríksson, Gunnbjarnarholti
Elvar Eyvindsson, Skíðbakka II
Sigrún Ásta Bjarnadóttir, Stóru-Mástungu
Sigurður Loftsson, Steinsholti
María Hauksdóttir, Geirakoti, varamaður
6. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
Egill Sigurðsson gerði ávarp landbúnaðarráðherra að umtalsefni og álasaði ráðherra fyrir að etja saman búgreinum með skiptum á osta- og hrossakvótum. Kvað almennt vanta þekkingu á ESB-málefnum. Spurði ráðherra hve margar vikur hann ætli að liggja undir feldi enn að hugleiða tilraunainnflutning á fósturvísum.
Guðmundur Þorsteinsson þakkaði stjórn störf liðins árs og kvaðst sáttur við þau. LK hefur alltaf verið framsækið í störfum og tekið það fram yfir annað að bæta kjör og tryggja afkomu sinna félagsmanna þótt það kosti fækkun búanna. Taldi skorta framtíðarsýn og úrræði í máli ráðherra og formanns BÍ. Allir vita hvert stefnir – í meiri opnun, minni stuðning – en stefnu um viðbrögð og úrræði vantar. Raunin er sú að þróun og framfarir hafa lengst af komið frá bændum sjálfum en ekki frá stjórnvöldum eða samtökum bænda. Guðmundur taldi hátt verð á greiðslumarki vitna um bjartsýni og þrótt þótt vissulega væru einhverjir að kaupa á hærra verði en borgar sig. Skilaboð víða úr þjóðfélaginu hafa á liðnum mánuðum verið að landbúnaðarstefnan sé fornfáleg, landið eigi að opna upp á gátt. Á sama tíma ætla stjórnvöld bændum að búa við dýrari áburð og afkastaminni kýr en nágrannaþjóðirnar. Erfitt að taka því að svar við umsókn um tilraun til innflutnings fáist ekki í tvö ár. Hversu lengi í ósköpum ætlar þú að ofbjóða þolinmæði vorri? spurði hann ráðherrann að lokum.
Arnar Bjarni Eiríksson þakkaði stjórn störf og vék að máli ráðherra. Tók undir hugmynir ráðherra um vinnu að úttekt á ESB-aðild. Sagði kúabændur verða að horfast í augu við að hagfræðin skiptir miklu. Jógúrtinnflutningurinn er grafalvarlegt mál og hefur snaraukist án verndartolla. Það eina sem fer hægar en snigillinn er landbúnaðarráðherra. Minnti á að aðalfundur LK hefur í fleiri ár stutt innflutning og taldi hæpið að spyrja óupplýstan almenning ráða. Mjög villandi að benda á árangur bestu kúabænda sem rök fyrir því að íslenskar kýr standi norskum á sporði.
Þórarinn Leifsson kvaðst nýkominn úr ferð kornbænda til Noregs og Svíþjóðar. Sagði athyglisvert hvernig kjör snarbreyttust við landamæri þeirra landa. Greinilegt að norskir bændur standa vel sem m.a. birtist í góðri umgengni. Full ástæða til að fara að skoða hvað fylgir hugsanlegri ESB-aðild. Þórarinn þakkaði vel undirbúin fundargögn en kvartaði yfir illskiljanlegri skýrslu frá Hagþjónustu landbúnaðarins. Þyrfti að poppa hana fyrir fundarmenn!
Gunnar Jónsson þakkaði stjórn og taldi mál þar í góðu lagi. Stækkun kúabúa tengist m.a. innflutningi á framleiðslutækjum. Ekki viss um að þjóðin sé tilbúin að greiða okkur mannsæmandi laun fyrir að lifa hér á litlum og sætum kúabúum og viðbrögð við spönsku jógúrtinni styðja það. Verðum að sækja fram og auka framleiðnina. Nautakjötsmarkaðurinn er í uppnámi – hrun á verði til bænda núna og auknir afslættir skila sér ekki út til neytenda. Kúaslátrun er mikil og sögur herma að vöðvar jafnvel úr K3 endi á borðum neytenda sem úrvalskjöt. Þessu verður að bregðast við. Gunnar fullyrti að fólk sem tók þátt í skoðanakönnun varðandi innflutning á norskum kúm hefði ekki haft forsendur til þess að taka afstöðu. Lýsti eftir svari frá ráðherra um hvenær svar við umsókn kúabænda muni liggja fyrir.
Pétur Diðriksson þakkaði stjórn vel unnin störf á síðasta ári. Nýr verðlagsgrundvöllur er framtíðin sem við blasir. Það tollir enginn í þessari grein sem ekki hefur afkomu og eini möguleikinn til þess að bæta afkomuna er núna aukin framleiðsla. Danskir bændur segja svarið við frelsinu vera að stækka búin til þess að geta keypt inn vinnuafl. ESB-umræðan er nauðsynleg og hugmynd Guðna að ESB-úttekt er góð. Pétur sagði NRF-málið vera hundfúlt og bað um að fá svar við hvenær haustdögum lýkur.
Þórður Þórðarson sagðist taka undir margt sem fram hefur komið en menn mættu ekki horfa um of í eina átt. Í afurða- og smásölugeirann mætti sækja miklar kjarabætur og beindi því til landbúnaðarráðherra hvort hann gæti ekki látið Samkeppnisstofnun skoða hvort eðlilega sé staðið að málum á þeim vettvangi. Þórður efast um að hugmyndir að nýjum verðlagsgrundvelli séu raunhæfar. Hrynjandi nautakjötsmarkaður er grafalvarlegt mál.
Elvar Eyvindsson tók undir með Guðmundi Þorsteinssyni um takmarkaða framtíðarsýn forystumanna og lýsti yfir áhyggjum yfir tóninum í þeirra orðum. Á að halda byggðinni uppi með bændum í klöfum fátæktar og selja ferðamönnum aðgang að vernduðum viðundrum?
Eiríkur Egilsson sagði stjórn ekki hafna yfir gagnrýni og taldi ekki nógu vel haldið á nautakjötsmálum. Tregða til að greiða smákálfaverðlaun hefur verið of mikil og þess vegna er markaðurinn hruninn. Ræddi breytingar á verðlagsgrundvallarbúinu og taldi tvöföldun viðmiðunarbústærðar hæpna. Eiríkur taldi menn einblína of mikið á norskar beljur sem ekki komi til með að skila nokkrum sköpuðum hlut þegar upp verður staðið og hvatti til þess að vanmeta ekki mikilvægi þess að hafa einhverja sérstöðu í ört smækkandi heimi. Benti á að ætti að þróa góða eiginleika íslenskrar mjólkur varðandi sykursýki áfram í kúastofninum.
Sigríður Bragadóttir þakkaði útsend gögn. Hún lagði áherslu á nauðsyn þess að nýta þá aðstöðu sem fyrir er á Möðruvöllum og Stóra-Ármóti, að gæta verði hófs við byggingu fjóss á Hvanneyri og að menn mættu ekki vinna hver í sínu horni, heldur samnýta rannsóknafé og krafta. Taldi menn búna að tala mikið um endurskipulagningu fagþjónustu en lítið gera. Það fé sem lagt hefur verið í markaðsstarfsemi hefur farið fyrir lítið að hennar mati. Hinn almenni neytandi þekkir ekki nógu vel muninn á framleiðsluferli hvíts kjöts annars vegar og kinda- og nautakjöts hins vegar. Lýsti óánægju með tollkvótaskiptin við Norðmenn. Brýndi kúabændur á að vera vakandi fyrir að kynna mjólkurvörur sjálf og hvatti menn til að fylgja fordæmi Kristínar Lindu með blaðaskrif um þessi mál. Biðlistar í nautgripaslátrun gætu að einhverju leyti verið sjálfskaparvíti ef bændur skrá gripi án þess að þeir séu fyrir hendi. Sagðist treysta mönnum til þess að taka ákvörðun þegar innflutningstilrauninni lýkur. Tók undir nauðsyn rannsókna á snefilefnum o.fl. Innganga í ESB yrði íslenskum bændum hættuleg og menn skyldu muna að núverandi ríkisstjórn situr ekki til eilífðar og afstaðan til ESB getur breytst á einni nóttu.
Kristín Linda Jónsdóttir sagði nú spurninguna vera að vera eða vera ekki kúabóndi. Getum ekki lifað við svartsýna áhyggjustefnu. Viljum bjartsýni og framsýni en gerum okkur öll grein fyrir að það erum mörg ljón í veginum. Spurningin er hvort við ætlum að hafa matvælaframleiðslu í þessu landi og stundum þarf að taka tvær tröppur í hverju skrefi. Áhyggjurnar eru víða en þeir sem ætla upp þeir fara upp. Það er samþjöppun í fleiri greinum en mjólkurframleiðslu sbr. verslun og þjónustu. Kristín hvatti bændur og ráðherra til bjartsýni og framsýni og lýsti þeirri skoðun að lokum að ekki sé hægt að vera landbúnaðarráðherra og láta þennan stein liggja í götu þessarar stærstu framleiðslugreinar íslensks landbúnaðar.
Ari Teitsson sagðist sérstaklega hafa verið beðinn að fjalla um alþjóðastöðu í landbúnaði og hvort sem það sem það fæli í sér væri svartsýni væri staðan sú sem hún er. Ari gerði stöðuna við gerð síðasta samnings um mjólkurframleiðslu að umtalsefni. Fjárfesting í framleiðslurétti úr 80 þús. ltr upp undir 200 þús. gengur einfaldlega ekki upp. Menn verða að horfast í augu við að við munum ekki ráða öllu um okkar mál á næstu áratugum. Innan ESB eru t.d. hugmyndir um að afnema kvótakerfið árið 2006 og hvað verður þá um 20 milljóna fjárfestingu?
Guðni Ágústsson þakkaði þær umræður sem verið hafa en minnti á að heyrn manna og heilabú er mismunandi. Kvaðst ekki fyrr hafa verið sakaður um svartsýni sem landbúnaðarráðherra og vitnaði einnig í að almennur stuðningur við landbúnað hefði aukist á síðustu tveimur árum. „Gerið ekki menn að óvinum ykkar að óþörfu“ sagði ráðherra og ítrekaði fyrri orð sín varðandi bústærð en sagðist illa þola útúrsnúninga. Lagði áherslu á að bændur eru lifandi fólk. Taldi ekki tilefni til að vanþakka kvótasamning við Norðmenn. Minnti á margvíslegan ávinning landbúnaðarins á liðnum árum s.s. stóraukin framlög til skógræktar. Hann bað menn að íhuga hvernig innflutningsmálið hefði staðið fyrir tveimur árum og hvað liggur fyrir. „Íslenska þjóðin trúir að þið séuð að framleiða bestu mjólk í heimi.“ Ástæða til að flýta sér hægt. Hér og víðar hafa menn talað eins og flytja eigi inn NRF en ekki gera samanburðartilraun. Sagði frá ferð sinni til Noregs og lýsti fegurð norskra kúa. Benti á mikilvægi kúabænda í uppbyggingu annarra greina, s.s. skógræktar og ferðaþjónustu. Ræddi mikilvægi afurðastöðvanna sem bændur þyrftu að eiga og reka. Tók undir þörf á að fara yfir samkeppnislög og samkeppnisstöðu í verslun með landbúnaðarvörur. Þakkaði ræður fundarmanna, einnig þær sem honum hituðu í hamsi. Hvatti bændur til að hafa bjartsýni að leiðarljósi og að markaðssetja rétt. Fagnaðarefni hvernig mjólkuriðnaðurinn hefur fylgt eftir þjóðum eins og Frökkum og Dönum. „Hafið þjóðina með ykkur – hún vill standa með ykkur.“
Þórólfur Sveinsson þakkaði gestum, sem ætíð væru beinir þátttakendur í þessum fundum, fyrir þeir innlegg. Varðandi innflutning NRF minnti hann á orð Njálu: „…. var nú kyrrt um hríð og leið svo allt til jóla.“ Hann sagði ávöxtunarkröfu á eigið fé í verðlagsgrundvelli vera þá sömu og á húsbréf. Varðandi kálfaverðlaun sagði Þórólfur þau taka sinn tíma og kosta talsvert. Kjötmarkaðurinn í heild sinni er mjög erfiður og mun fara versnandi og verð lækka. Kvaðst aldrei hafa fengið kvartanir vegna mjólkur en oft fengið kvartanir vegna nautakjöts sem er alltof breytilegt að gæðum. Hann sagðist ekki sammála því að fé til markaðsmála hefði nýst illa en staðreyndin væri sú að ekki væri fjallað um vöru nema borga fyrir það. Ef á að borga kálfaverðlaun munu menn stíla upp á það og við getum ekki borgað verðlaun nema fyrst sé athugað hvernig á að borga reikninginn. Athuga þarf hvað kostar að taka út af markaðinum. Þórólfur telur að skipti máli að halda nautakjöti inni í umræðunni en það hefur vafist fyrir stjórninni að finna „patent“ lausn á þessu vandamáli.
Að umræðum loknum voru reikningar LK árið 1999 bornir upp og samþykktir samhljóða.
Kaffihlé kl. 15.45 til 16.10.
7. Erindi
a) Afkoma kúabænda 1999 samkvæmt búreikningum.
Jónas Bjarnason, forstöðumaður Hagþjónustu landbúnaðarins.
b) Markaðshorfur með íslenskar nautgripaafurðir m.t.t. alþjóðlegs viðskiptaumhverfis.
Vilhjálmur Egilsson, alþingismaður og framkvæmdastjóri Verslunarráðs Ísland.
Fyrirspurnir við framkomin erindi:
Guðmundur Þorsteinsson og Þórólfur Sveinsson þökkuðu áhugaverð og fróðleg erindi og spurðu Jónas um nánari útlistun á fáeinum atriðum úr erindi hans.
Jónas Bjarnason svaraði framkomnum fyrirspurnum.
8. Tillögur lagðar fram – skipan í nefndir
Guðmundur Þorsteinsson kynnti tillögu frá Mjólkurbúi Borgfirðinga um að við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri verði komið á fót starfi rannsóknamanns um mjaltatækni, vinnubrögð, aðbúnað gripa og starfsfólks o.fl.
Sigurður Loftsson kynnti tillögu frá Félagi kúabænda á Suðurlandi varðandi rannsóknir á nýjum tæknilausnum.
Þórarinn Leifsson kynnti tillögu frá Skagfirðingum um að kjör búnaðarþingsfulltrúa LK verði landshlutabundið.
Snorri Sigurðsson kynnti tillögur stjórnar LK fimm að tölu, varðandi stýringu mjólkurframleiðslunnar – ráðgjöf, þjónustu og ræktunarmál – nauðsyn á bættu símakerfi í sveitum – úttekt á nýjum lögum um dýralæknaþjónustu – aukna áherslu á rannsóknum á próteini í mjólk.
Magnús Hannesson kvaðst ósammála Þórólfi varðandi smákálfaverðlaun og endurflytti því tillögu um það mál frá í fyrra.
Fundarstjóri kynnti eftirfarandi tillögu að skipan nefnda og var hún samþykkt:
Fagmálanefnd: Sigurður Loftsson, formaður, Arnar Bjarni Eiríksson, Ásbjörn Pálsson, Eiríkur Egilsson, Gróa Lárusdóttir, Gunnar Jónsson, Kristján Finnsson, Magnús Sigurðsson, Pétur Diðriksson, Sigurgeir Pálsson og Sveinbjörn Sigurðsson
Félagsmálanefnd: Birna Þorsteinsdóttir, formaður, Árni Brynjólfsson, Benjamín Baldursson, Elvar Eyvindsson, Guðmundur Þorsteinsson, Gunnar Eiríksson, Lára Hansdóttir, María Hauksdóttir, Sigríður Bragadóttir, Skúli Einarsson og Þórarinn Leifsson.
Framleiðslunefnd: Gunnsteinn Þorgilsson, formaður, Árni Sigurðsson, Egill Sigurðsson, Gunnar Sverrisson, Guðrún Skarphéðinsdóttir, Jón Steinar Elísson, Magnús Hannesson, Ólöf Hallgrímsdóttir, Sigrún Ásta Bjarnadóttir og Þórður Þórðarson.
Fundi frestað kl. 17.40.
Fundi framhaldið 24. ágúst kl. 13.40.
9. Afgreiðsla mála
Tillögur frá Fagmálanefnd:
1.1. Ályktun um rannsóknir á nýjungum í fjósum
Framsögumaður Sigurður Loftsson
„Aðalfundur LK, haldinn á Selfossi 23. – 24. ágúst 2000, skorar á rannsóknaaðila í nautgriparækt og yfirdýralækni að halda vöku sinni gagnvart nýjungum í fóðrun, mjöltum og umhirðu nautgripa. Nauðsynlegt verður að teljast að til þess hæfir aðilar meti þær tæknilausnir sem fram koma þannig að leiðbeiningar liggi fyrir og reglugerðir þar að lútandi séu endurskoðaðar í tæka tíð.“
Greinargerð:
Á undanförnum misserum hafa átt sér stað örar breytingar í hönnun og uppbyggingu fjósa hérlendis og jafnframt hafa komið fram nýjar tæknilausnir varðandi fóðrun gripanna og mjaltir. Má þar m.a. nefna mjaltaþjóna og gjafakerfi fyrir gróffóðu en hvorutveggja þessara búnaða eru á undanþágu frá gildandi reglugerðum til næstu áramóta. Ætla verður að tímabundin undanþága sé gefin þar sem ástæða þykir til að skoða nánar eiginleika viðkomandi búnaðar. En hver er svo reyndin? Umrætt gróffóðurgjafakerfi byggir á þeirri grunnhugsun að gripirnir hafi jafnan og stöðugan aðgang að fóðrinu og því muni hægt að hafa fleiri gripi á hvert átpláss heldur en ef um venjulegan fóðurgang er að ræða þar sem gefið er á málum. Síðastliðinn vetur voru tvö svona kerfi tekin í notkun í íslenskum fjósum og allar líkur eru til að allmörg bætist í hópinn á komandi vetri. Samt sem áður hefur ekki verið gerð nein úttekt á þessum búnaði af hendi íslenskra rannsóknaaðila. Bændur nútímans hljóta að gera þá kröfu að rannsóknageirinn fylgist grannt með nýjungum og standi sig í öflun og dreifingu upplýsinga þegar um afdrifaríkar og kostnaðarsamar fjárfestingar er að ræða.
Til máls tók Þórólfur Sveinsson, auk framsögumanns.
Samþykkt samhljóða.
1.2 Ályktun um ráðgjafaþjónustu og ræktunarmál
Framsögumaður Sigurður Loftsson.
„Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 23. – 24. ágúst 2000, gerir kröfu til að aukin gjaldtaka fyrir leiðbeiningaþjónustu verði nýtt til lækkunar búnaðargjalds.
Greinargerð:
LK lítur svo á að skipta megi þjónustu sem nautgriparæktin þarfnast í þrjá flokka:
a. Sjá um kúasæðingar og fleira er tengist kynbótastarfi í nautgriparækt.
– LK leggur mikla áherslu á að við endurskoðun búnaðarsamnings verði horfið frá þeirri miklu skerðingu á framlögum til kynbótastarfseminnar sem raunin varð í núgildandi búnaðarsamningi en ljóst er að sæðingastarfsemin er víða í hættu þar sem rekstrargrundvöllur er ekki fyrir hendi.
– Nauðsynlegt er að skoða hvort hagkvæmt sé að veita á landsvísu stóran hluta af þeirri fagþjónustu sem nautgriparæktin þarfnast vegna ræktunarstarfsins. Minna má á að allt ytra umhverfi til slíks er gjörbreytt vegna nýrrar tækni og bættra samgangna. Nauðsynlegt er að skilgreina hvaða grunnþjónusta á að standa til boða vegna ræktunarstarfsins. Síðan verður að tryggja aðgengi allra bænda að þeirri þjónustu á jafnréttisgrundvelli. Þá getur frekari einstaklingsþjónusta staðið til boða og verið veitt gegn þjónustugjaldi.
– Mjög brýnt er að búnaðarsamböndin svari sem fyrst með nákvæmum hætti fyrirspurn BÍ um heildarkostnað við sæðingastarfsemina og ræktunarstarfið. Að þeim fengnum þarf að skoða hvort hagkvæmt er að öll sæðingastarfsemin verði undir einni stjórn. Þá hefur Fagráð ályktað um nauðsyn bættrar þjónustu hvað varðar kúaskoðun. Þær breytingar ganga nú yfir og þurfa að komast á um allt land sem fyrst.
b. Veita tiltölulega almennar upplýsingar er stundum/oft felast í að vísa hlutaðeigandi á hvar frekari upplýsingar er að hafa.
– LK gerir ráð fyrir að þessi starfsþáttur haldist lítt breyttur, eða ef þörf krefur, með töku vægs gjald fyrir viðtöl og upplýsingagjöf.
c. Veita ráðgjöf um tiltekin rekstrarleg/fagleg málefni.
– LK gerir ráð fyrir þeirri grundvallarbreytingu á þessum starfsþætti að verk er undir hann falla verði seld á kostnaðarverði. Nauðsynleg forsenda þess að taka upp þessa starfshætti er að búnaðarsamböndin viti nákvæmlega hvað hver starfsþáttur þeirra kostar, hvaða tekjur koma til hans af opinberu fé, hvaða hlutdeild hann á að fá í tekjum búnaðarsambands af búnaðargjaldi og í framhaldi af því ákveða þau hversu dýrt þarf að selja viðkomandi verk. Það er síðan bóndans að ákveða hvaða þjónustu hann kaupir og hvar hann kaupir hana.
– LK leggur mikla áherslu á að starfsumhverfið þarf að kalla á hagræðingu.“
Til máls tóku Þórólfur Sveinsson (lagði áherslu á að búnaðarþingsfulltrúar þurfi að vita hvernig menn vilja forgangsraða), Jón Gíslason, Árni Sigurðsson (varar við skerðingu til búnaðarsambanda), Eiríkur Egilsson (vill ekki hleypa rekstri búnaðarsambandanna í uppnám), Egill Sigurðsson (vill knýja búnaðarsamböndin til óhjákvæmilegrar endurskipulagningar), Hjörtur Hjartarson (litlar breytingar orðið hjá búnaðarsamböndum síðustu áratugi á meðan bændum hefur fækkað mikið), Skúli Einarsson (kerfið þarfnast verulegrar endurskipulagningar, leggur til að leiðbeininga-miðstöðvarnar verði þrjár), Birgir Ingþórsson (litlu einingarnar ráða ekki við að veita kúabændum þjónustu í nútímaþjóðfélagi, fimm stöðvar of mikið), Guðmundur Þorsteinsson (þarf róttæka endurskoðun, á hverju strandar hún?, 50% niðurskurður e.t.v. of hratt – aðlögunartími er nauðsynlegur), Jón Gíslason (við vitum ekki hlutfall seljanlegrar þjónustu, hefðum átt að vera búin að vinna að þeirri athugun), Þórólfur Sveinsson (kostnaður við kynbótastarfið hefur byggst á framreikningi en það stendur til bóta) og Kristín Linda Jónsdóttir (í ráðgjafastarfinu þarf mikilla breytinga við, búnaðarsamböndin voru börn síns tíma) auk framsögumanns (tillaga nefndarinnar er málamiðlun).
Samþykkt samhljóða.
1.3 Ályktun um innflutning á norskum fósturvísum í tilraunaskyni
Framsögumaður Sigurður Loftsson.
„Aðalfundur LK, haldinn á Selfossi 23. – 24. ágúst 2000, átelur harðlega þann drátt sem orðið hefur á að leyfi fáist til innflutnings á NRF-fósturvísum í tilraunaskyni. Skorar fundurinn á landbúnaðarráðherra að taka sem fyrst ákvörðun þar um.
Greinargerð:
Fyrir liggja allar umbeðnar umsagnir vegna innflutningsins og eru allar jákvæðar. Allur frekari dráttur á afgreiðslu hefur í för með sér aukinn kostnað, viðheldur óvissu hjá kúabændum og seinkar því að bændur fái notið hugsanlegs ávinnings af nýju kyni. Vissulega er málið umdeilt en úr því leysist ekki með lengri bið. Loks skal á það bent að vegna afmarkaðs burðartíma kúa í Noregi fer í hönd á næstu vikum æskilegasti tíminn til söfnunar fósturvísa þar. Allar aðstæður kalla því á skjóta afgreiðslu málsins.“
Samþykkt samhljóða.
1.4 Ályktun um um rannsóknir á próteini í mjólk
Framsögumaður Sigurður Loftsson.
„Aðalfundur LK, haldinn á Selfossi 23. – 24. ágúst 2000, beinir því til Fagráðs að aukin áhersla verði lögð á rannsóknir á próteini í mjólk. Einkum verði kannaðir möguleikar til að hafa áhrif á próteinhlutfall mjólkur með fóðrun. Jafnframt beinir fundurinn því til Fagráðs að kanna hvort ástæða sé til að auka vægi próteinhlutfalls í ræktunarstarfinu og jafnvel að velja fyrir lægra fituhlutfalli.“
Til máls tók Jón Gíslason (rannsóknir á þessu sviði eru að fara af stað undir forystu Braga Líndal).
Samþykkt samhljóða.
Tillögur frá Félagsmálanefnd
2.1 Ályktun um bætt símkerfi í sveitum
Framsögumaður Birna Þorsteinsdóttir.
„Aðalfundur LK, haldinn á Selfossi 23. – 24. ágúst 2000, ítrekar fyrri ályktanir um nauðsyn á bættu símkerfi í sveitum og krefst þess að öllum notendum símkerfisins verði tryggð viðunandi tenging við Netið.
Greinargerð:
Sú þróun sem orðið hefur undanfarið í rafrænum samskiptum skapar nýja og stórkostlega möguleika á fjölmörgum sviðum og getur gjörbreytt möguleikum fólks til atvinnu, menntunar og dægrardvalar óháð búsetu. Ekki er annað sýnna en að í náinni framtíð verði í ríkum mæli treyst á þessa tækni í miðlun hverskyns upplýsinga og ráðgjafar, ekki síst í hinum dreifðu byggðum. Þeir sem ekki hafa tök á að nýta þessa tækni verði því í óviðunandi stöðu að þessu leyti.
Enn er stór hópur bænda sem ekki á kost á viðunandi tengingu við Netið vegna takmarkana í símkerfinu og fer því á mis við þá möguleika sem þarna er boðið upp á. Er slík staða að sjálfsögðu með öllu óþolandi og í eyrum þessara manna næsta holur hljómur í hástemmdum yfirlýsingum ráðamanna um að þessi nýja tækni muni bjarga hinum dreifðu byggðum.
Því setur fundurinn þessa kröfu fram af fullum þunga.“
Samþykkt samhljóða.
2.2 Ályktun um úttekt á dýralæknaþjónustu
Framsögumaður Birna Þorsteinsdóttir.
„Aðalfundur LK, haldinn á Selfossi 23. – 24. ágúst 2000, telur fulla ástæðu til að fram fari úttekt á hvernig reynsla er af nýjum lögum um dýralæknaþjónustu. Bæði verði hugað að þjónustustigi við notendur og virkni eftirlitsþáttarins.
Greinargerð:
Eitt meginmarkmið nýrra laga um dýralæknaþjónustu var að aðskilja eftirlitsþáttinn frá almennum dýralækningum. Víðast hvar hefur þetta ekki tekist fullkomlega, enda varla framkvæmanlegt vegna kostnaðar. Reynslu þeirra sem að eftirlitinu stóðu var kastað fyrir róða og hefur kerfið orðið mun flóknara og þyngra í vöfum en áður var. Að auki virðist sem eftirlitið hafi versnað og gengur víða illa að fá endurnýjun á mjólkursöluleyfi.
Fundurinn beinir því einnig til stjórnar að hún geri reglulega könnun á þjónustustigi og verðlagningu dýralæknisþjónustu um landið. Þetta virðist vera mjög mismunandi eftir landshlutum og eru það hagsmunir bænda að gerður sé á þessu samanburður sem menn geti gengið að.
Með nýjum reglum um lyfjagjöf eru möguleikar bænda til að meðhöndla ýmsa algenga sjúkdóma, skertir til muna. Nokkuð er mismunandi hvernig þetta er framkvæmt en ljóst er að þetta er mjög dýrt og óhentugt, ekki síst þar sem dýralæknaþjónustan er minnst.
Með virku innra eftirliti og gæðastýringu ætti að vera hægt að treysta bændum fyrir ýmsum þessum störfum og minnka með því kostnað og umstang.“
Samþykkt samhljóða.
2.3 Ályktun um tengsl bænda við almenning og fjölmiðla
Framsögumaður Birna Þorsteinsdóttir.
„Aðalfundur LK, haldinn á Selfossi 23. – 24. ágúst 2000, hvetur stjórn til að leggja aukna áherslu á kynningar og útbreiðslustarf til að gera sambandið og störf þess sýnilegri en verið hefur.
Þar er höfð í huga nauðsyn þess að ná athygli og velvild samfélagsins og ekki síður að efla tengslin við kúabændur sjálfa.
Í hraða nútíma þjóðfélags eru áhrif fjölmiðla gífurlega mikil og getur skipt sköpum að koma réttum upplýsingum á framfæri á réttum tíma. Þetta krefst fagmennsku og þekkingar á innviðum fjölmiðlanna. Fundurinn telur ástæðu til að kannað verði hvort hægt sé að ná samstöðu innan mjólkurgeirans um að ráða fjölmiðlafulltrúa.“
Til máls tóku Þórólfur Sveinsson (sagði frá breytingum á starfi Markaðsnefndar mjólkuriðnaðarins í fyrrahaust), Sigrún Ásta Bjarnadóttir (sýndar gamlar og gamaldags myndir með viðtölum um landbúnað í sjónvarpi, helst að ráða blaðafulltrúa), Kristján Finnsson (samtök bænda hefur skort stefnu í þessum málum), Eiríkur Egilsson (spurði hví „Bændur bjóða heim“ datt upp fyrir), Kristján Finnsson (skýrði viðhorf sín til „Bændur bjóða heim“, hugmyndin var ekkert þróuð – bændasamtökin áhugalaus, þörf fyrir að sinna erlendum ferðamönnum meira), Gunnar Eiríksson (fældist frá „Bændur bjóða heim“ því Bændasamtökin höfðu engan áhuga), Kristín Linda Jónsdóttir (þurfum að kynna okkur, þakkar BSSL fyrir væntanlega kúasýningu), Gunnsteinn Þorgilsson (greinileg þörf fólks að fá að vita meira um landbúnað, þurfum á því að halda að kynna okkar landbúnað) og Benjamín Baldursson (gaman að taka þátt í „Bændur bjóða heim“ en stuðningur BÍ ekki nægur, styður ráðningu fjölmiðlafulltrúa).
Samþykkt samhljóða.
Tillögur frá Framleiðslunefnd:
3.1 Ályktun til stjórnar LK um útreikninga á greiðslumarki
Framsögumaður Gunnsteinn Þorgilsson.
Til máls tóku Arnar Bjarni Eiríksson (gagnrýndi of stuttan fyrirvara á lækkun á C-greiðslum sem ákveðin var í sumar og lagði fram breytingatillögu), Þórólfur Sveinsson (lýsti aðdraganda breytinga á C-greiðslum með tilvísun í viðauka VII í fundargögnum og minnti á nauðsyn þess að sjá neytendum alltaf fyrir dagvörum), Kristín Linda Jónsdóttir (þurfum að stíga út úr umframmjólkurdansinum, greiddi atkvæði á móti C-greiðslubreytingunni innan stjórnar LK og vildi fá þetta rætt á aðalfundinum, telur að 2% lækkun muni varla skila árangri), Gunnar Sverrisson (C-greiðslubreytingin er eingöngu skilaboð), Eiríkur Egilsson (þarf að athuga möguleika á að markaðssetja meiri af mjólkurfitunni), Kristján Finnsson (C-greiðslulækkunin var eðlileg þótt gott sé að hafa fyrirvara), Gunnar Jónsson (er ánægður með C-greiðslu-breytinguna – C-greiðslan er stýritæki), Snorri Sigurðsson (Hollustuvernd fylgist vel með vörum sem settar eru á markað hérlendis), Arnar Bjarni Eiríksson (dregur til baka fyrri breytingatillögu og leggur fram nýja), Guðmundur Þorsteinsson og Þórólfur Sveinsson (eitt það versta fyrir ímynd kúabænda er að þeir sjáist henda framleiðsluvöru sinni).
Þá var tillagan með breytingum Arnars Bjarna borin upp og samþykkt með ellefu atkvæðum gegn einu, svohljóðandi:
„Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 23. – 24. ágúst 2000, telur nauðsynlegt að mjólkurframleiðendur viti með góðum fyrirvara hvaða mjólkurmagn þörf sé fyrir á komandi verðlagsári og að breytingar á greiðslufyrirkomulagi séu gerðar með svo góðum fyrirvara að framleiðendur geti brugðist við þeim áður en þeir skipuleggja framleiðslu verðlagsársins. Því felur fundurinn stjórn LK að leita eftir nauðsynlegum breytingum á útreikningi greiðslumarks til að svo megi verða.
Greinargerð:
Stýring í mjólkurframleiðslunni byggir á því að fundið er svokallað heildargreiðslumark sem á að endurspegla þörf markaðarins fyrir mjólk í eitt ár. Þetta heildargreiðslumark skiptist síðan í greiðslumark framleiðenda. Tveir megin efnaþættir mjólkurinnar eru prótein og fita. Það gerir málið flóknara að markaðurinn þarf ekki jafn mikið af þessum efnaþáttum. Þannig má segja að nú þurfi markaðurinn prótein úr allt að 105 milljónum lítra mjólkur en fitu úr 99 milljónum lítra mjólkur. Þegar afurðastöðvarnar gera upp við bændur greiða þær þannig fyrir mjólkina að próteinið vegur 75% en fitan 25%. Það heildargreiðslumark sem reiknað er ár hvert, er fundið með því að margfalda prótein- og fitusölu með þessum hlutföllum. Það gefur því auga leið að til viðbótar því próteini sem kemur úr mjólk innan greiðslumarks, þarf mjólkuriðnaðurinn að kaupa viðbótarprótein til að mæta þörfum markaðarins. Þannig voru keyptar um 5,6 milljónir lítra af umframmjólk á síðasta verðlagsári. Þær próteinbirgðir sem þá urðu til munu væntanlega klárast á næsta verðlagsári en þær gera að verkum að ekki eru forsendur til að greiða fyrir umframmjólk með sama hætti nú og í fyrra. Annmarki þessa kerfis er að ekki er til nein aðferð til að tryggja árlega framleiðslu á þeirri mjólk sem þarf til að skila því próteini sem markaðurinn þarf umfram það sem greiðslumarksmjólkin skilar. Að kaupa umframmjólk í slumpum eins og reyndin varð á síðasta verðlagsári er óskynsamlegt og kostnaðarsamt. Því felur aðalfundur LK stjórn að leita eftir nauðsynlegum breytingum á þessu fyrirkomulagi þannig að þörfum markaðarins verði sinnt með sem ódýrustum hætti.“
3.2 Ályktun um rannsóknastöðu í mjöltum og mjaltatækni við LBH
Framsögumaður Gunnsteinn Þorgilsson.
„Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 23. – 24. ágúst 2000, beinir því til stjórnar LK að hún beiti sér fyrir því að við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri verði komið á stöðu rannsóknamanns um mjaltatækni, vinnubrögð við mjaltir, aðbúnað gripa og starfsfólks og annað, sem að þeim málum lýtur.
Greinargerð:
Öllum má vera ljós nauðsyn þess að bændur, mjólkureftirlitsmenn og ráðunautar hafi jafnan aðgang að bestu þekkingu og upplýsingar um nýjustu tækni á þessu sviði. Það verður væntanlega best tryggt með því að einn ákveðinn aðili hafi það hlutverk að afla þessarar þekkingar og gera hana aðgengilega og eðlilegt að horft sé til LBH í því efni. Þar fer fram kennsla í nautgriparækt og góð aðstaða er til námskeiðahalds. Á Hvanneyri hefur þegar verið komið upp aðstöðu til kynningar á mjaltatækjum, þar er dýralæknir júgursjúkdóma staðsettur og Bútæknideild RALA..
Vegna smæðar mjólkurgeirans á Íslandi er ekki raunhæft að búast við því að hér verði stundaðar fræðilegar grunnrannsóknir að neinu ráði og því yrði þekkingarleit í öðrum löndum að sjálfsögðu fyrirferðarmikill þáttur í starfinu. Þó hlýtur í einhverjum mæli að þurfa að gera athuganir á ýmsum hlutum við íslenskar aðstæður og yrði það eðlilega hlutverk þessarar stofnunar að sjá um þær.“
Samþykkt samhljóða umræðulaust.
3.3. Ályktun um markaðsmál nautgripakjöts
Framsögumaður Gunnsteinn Þorgilsson.
Til máls tóku Snorri Sigurðsson (lélegt kýrkjöt selt sem hakk og gúllas), Eiríkur Egilsson (bændur panta slátrun á mörgum stöðum), Gunnar Jónsson (sala lélegs kjöts tekur markað frá betra kjöti og eyðileggur gæðaímynd nautakjöts – er ekkert hægt að kanna meint vörusvik?, ungkálfaverðlaun eru vandmeðfarin,), Snorri Sigurðsson (ásetningur kálfa er minni nú en áður, samkeppni á kjötmarkaði er gífurleg, LK tekur saman biðlista í slátrun en sendir þá ekki lengur út því KEA og SS hafa alltaf birt upplýsingarnar, verðmæti K3 kjötsins er um 32 Mkr.), Þórólfur Sveinsson (reglugerð um kjöt og kjötvörur gæti e.t.v. komið að gagni varðandi vörusvindl, hæpið að fáist hækkun á verðskerðingargjaldi án ákveðnari afstöðu frá LK – ella eru aðeins 16,8 Mkr til ráðstöfunar á næsta ári), Kristján Finnsson, Elvar Eyvindsson (markaðurinn er í molum, eigum ekki hafa hag af að senda K3 á markað), Jón Steinar Elísson (við eigum að vera með á kjötmarkaðnum og auka hlutdeild okkar og eingöngu bjóða fyrsta flokks vöru – henda bara hinu), Sigrún Ásta Bjarnadóttir (ef við tökum K3 af markaði minnkar magnið sem getur skaðað ímynd okkar), Kristín Linda Jónsdóttir (víða hefur vinnslan meðhöndlað nautakjötið sem afgangsstærð, höfum verið afskipt í vöruþróun, neytendur þurfa að geta keypt fjórar tegundir af steiktu nautahakki, fjölbreyttara álegg, forsteikt gúllas o.fl. o.fl., hvað setja vinnslurnar inn ef við kippum K3 út – svínakjöt?), Gunnar Sverrisson (kynnti viðaukatillögu með hliðsjón af umræðu nefndarinnar), Eiríkur Egilsson (mælti gegn viðaukatillögunni), Sveinbjörn Sigurðsson (einfaldast að breyta flokkuninni þannig að K3 verði úrkast, ungkálfaslátrun farsælust), Benjamín Baldursson, Árni Sigurðsson, Snorri Sigurðsson (skýrði núverandi fyrirkomulag verðskerðingargjalda), Skúli Einarsson (óskaði eftir mati formanns og framkvæmdastjóra á hækkunarþörfinni), Þórólfur Sveinsson (fundurinn verður að velja hvort menn vilja fara leið sem kostar mikla peninga eða ódýrari leið sem skilar minni árangri) og Snorri Sigurðsson (rándýrt að auglýsa).
Þá var endurskoðuð viðaukatillaga Gunnars borin upp og samþykkt með meginþorra atkvæða gegn einu. Tillagan í heild borin upp og samþykkt samhljóða svohljóðandi:
„Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 23. – 24. ágúst 2000, hvetur stjórn LK að fylgjast vel með stöðu mála á kjötmarkaði og grípa til aðgerða, sem vænlegastar eru á hverjum tíma, svo koma megi í veg fyrir óæskilega birgðasöfnun og verðfall afurða. T.d væri hægt að grípa til verðuppbóta á slátraða ungkálfa og afsetja lélegustu flokka kýrkjöts. Einnig hvetur fundurinn stjórn LK til að fylgjast vel með verðlagningu á nautakjöti. Til að fjármagna nauðsynlegar aðgerðir felur fundurinn stjórn LK að leita eftir hækkun á verðskerðingargjaldi í allt að 1600 og 2000 krónur, eftir tímabilum.“
Kaffihlé 17.25 til 17.52
Snorri Sigurðsson kynnti niðurstöður skoðanakönnunar varðandi aðalfundartíma, flestir vildu hafa hann óbreyttan eða lítt breyttan. Líklegasta tímasetning næsta aðalfundar er því 21. og 22. ágúst 2001. Því næst kynnti Snorri drög að kostnaðaráætlun LK 2001 og tillögu um að aðalfundarþóknun nú verði 15.000 kr.
Fjárhagsáætlunin samþykkt samhljóða.
10. Kosningar
Elvar Eyvindsson greindi frá störfum uppstillingarnefndar. Sagði nefndina ekki telja tök á að rígbinda tillögu að búnaðarþingsfulltrúum við landshluta, þótt leitast sé við að dreifa þeim, og lagði fram tillögu að stjórn og skoðunarmönnum. Síðan var kosið leynilegri kosningu.
Kosningu hlutu:
Formaður til eins árs:
Þórólfur Sveinsson, Ferjubakka kjörinn með 29 atkvæðum.
Meðstjórnendur til eins árs:
Kristín Linda Jónsdóttir, Miðhvammi með 28 atkvæðum
Birgir Ingþórsson, Uppsölum með 27 atkvæðum
Egill Sigurðsson, Berustöðum með 26 atkvæðum
Gunnar Sverrisson, Hrosshaga með 26 atkvæðum
1. varamaður til eins árs:
Sigurgeir Pálsson, Sigtúnum með 17 atkvæðum
2. varamaður til eins árs:
Gunnar Jónsson, Egilsstöðum með 17 atkvæðum
Skoðunarmenn til eins árs kjörnir með lófataki:
Aðalmenn: Pétur Diðriksson, Helgavatni og Magnús Hannesson, Eystri-Leirárgörðum
Til vara: Kristján Finnsson, Grjóteyri
Búnaðarþingsfulltrúar til 3 ára:
Þórólfur Sveinsson, Ferjubakka með 27 atkvæðum
Gunnar Jónsson, Egilsstöðum með 27 atkvæðum
Kristín Linda Jónsdóttir, Miðhvammi með 26 atkvæðum
Sigurður Loftsson, Steinsholti með 26 atkvæðum
María Hauksdóttir, Geirakoti með 23 atkvæðum
1. varafulltrúi: Birgir Ingþórsson, Uppsölum með 15 atkvæðum
2. varafulltrúi: Pétur Diðriksson, Helgavatni með 16 atkvæðum
3. varafulltrúi: Sigrún Ásta Bjarnadóttir, Stóru-Mástungu með 11 atkvæðum
4. varafulltrúi: Árni Brynjólfsson, Vöðlum með 14 atkvæðum
5. varafulltrúi: Jóhann Nikulásson, Stóru-Hildisey með 12 atkvæðum
11. Önnur mál.
Egill Sigurðsson þakkaði auðsýnt traust við stjórnarkjör. Ræddi tengsl búnaðarþingsfulltrúa við baklandið og lagði til að fyrir búnaðarþing verði boðað til formannafundar félaganna með fulltrúunum.
Hjörtur Hjartarson þakkaði ánægjulegt samstarf undanfarin ár.
Gunnar Eiríksson þakkaði samstarfið á fundinum.
Þórólfur Sveinsson þakkaði Hirti samstarfið. Þakkaði síðan viðurgjörning á staðnum og starfsmönnum fundarins, óskaði mönnum góðrar heimferðar og heimkomu og sleit fundi klukkan 19.12.