Fundargerð aðalfundar 1999
26.08.1999
Aðalfundur Landssambands kúabænda
haldinn í Árgarði 25.-26. ágúst 1999.
Formaður, Þórólfur Sveinsson, setti fund kl. 11.15 og bauð fundarmenn velkomna. Erlingur Teitsson og Ragnar Gunnlaugsson voru kjörnir fundarstjórar og Álfhildur Ólafsdóttir og Þorleifur Ingvarsson fundarritarar. Elvar Eyvindsson, Pétur Diðriksson og Gunnar Jónsson voru skipaðir í kjörbréfa- og uppstillingarnefnd
1. Skýrsla stjórnar.
Þórólfur Sveinsson flutti skýrslu stjórnar. Hann gerði að umtalsefni loforð SAM um greiðslur fyrir umframmjólk á liðnu verðlagsári, opinbera verðlagningu mjólkur og gerð nýs verðlagsgrundvallar. Einnig umsókn LK og BÍ um tilraunainnflutning á norskum fósturvísum og þjóðfélagsumræðuna sem henni hefur fylgt. Hann lagði áherslu á nauðsyn þess að byggt sé á þekkingu en ekki tilgátum. Þórólfur ræddi fyrirliggjandi breytingar á félagskerfi landbúnaðarins og sagðist í ljósi þeirra telja styrk fyrir LK að formaður þess taki sæti í stjórn BÍ. Stofnun Búnaðarháskóla á Hvanneyri minnir á þörfina fyrir endurskoðun fagþjónustu nautgriparæktarinnar. Greiðslumark í sauðfjárrækt þarf að verða seljanlegt milli bænda. Þýðingarmikið er að hámarka afrakstur fjármagns og vinnuafls og gæðastjórnun er mikilvæg til þeirra hluta – við þurfum að hjálpa bændum að stjórna en ekki stjórna þeim. Fyrirhugaðir WTO samningar geta orðið mjög afdrifaríkir fyrir íslenskan landbúnað. Að lokum þakkaði Þórólfur samstjórnarmönnum og kúabændum öllum samstarfið á liðnu ári.
2. Reikningar.
Guðbjörn Árnason, framkvæmdastjóri, yfirfór og skýrði endurskoðaða reikninga ársins 1998. Rekstrartekjur voru kr. 11.595.735 og rekstrargjöld kr. 10.804.185 en hagnaður að teknu tilliti til fjármunatekna og fjármagnsgjalda kr. 1.009.562. Niðurstaða efnahagsreiknings var kr. 13.029.326, þar af eigið fé kr. 12.375.390.
Heildargjöld afleysingasjóðs voru kr. 4.971.664 en tekjur kr. 1.287.560. Gjöld afleysingasjóðs umfram tekjur voru kr. 3.684.104 en greitt var til 22 afleysingahringja á árinu. Eignir sjóðsins í árslok voru kr. 15.584.372.
3. Skýrsla um störf Fagráðs í nautgriparækt.
Jón Gíslason, formaður ráðsins flutti skýrsluna. Ráðið hittist sex sinnum á árinu auk eins símafundar og árlegs samráðsfundar. Verkefni samráðsfundarins voru fjósbyggingar og lífræn og vistvæn framleiðsla. Helstu verkefni sem sinnt var á árinu voru samanburður gripa til kjötframleiðslu, íslensk mjólk og sykursýki barna, aukin hagkvæmni við fóðrun mjólkurkúa, ræktun og nýting á næpum og fóðurrófum og hagkvæmni gróffóðuröflunar. Þá voru styrkt þrjú nemendaverkefni. Einnig var veitt fé til umritunar hugbúnaðar fyrir kúabú. Hönnun fjósa var allmikið rædd sem og vinnumælingar og búnaður í fjósum.
4. Ávörp gesta.
Ari Teitsson, formaður Bændasamtaka Íslands, færði fundinum kveðjur og þakkir frá BÍ. Ari ræddi um aukna faglega hæfni bænda og að væntanlegt er forrit fyrir kúabændur sem heldur utan um nytskráningu, sjúkdoma og fóðrun. Verulegir fjármunir hafa verið settir til rekstrarleiðbeininga með nýjum samningi um leiðbeiningar og í þriðja lagi er verið að skoða möguleika á öflugri gæðastýringu ekki síst á kúabúum. Vinni þetta þrennt vel saman á nautgriparæktin að geta þróast hratt fram á veginn. Ari lýsti áhyggjum sínum af markaðsmálum og verðlagningu ekki síst af hvernig meta á saman vinnuna og tæknina. Vaxandi ábyrgð kúabænda á afurðavinnslunni geta líka fylgt ýmsir erfiðleikar. Ímynd stéttarinnar er mikilvæg og það er ekkert sjálfgefið að það takist að halda henni góðri og samspil hennar og verðlagningar framleiðslunnar getur verið viðkvæmt. Tilkoma „róbóta“ og aðrar tæknibreytingar geta valdið örri fækkun kúabænda og nauðsynlegt er að hugleiða hvaða áhrif slík fækkun getur haft á stuðningsvilja stjórnvalda og þjóðar við greinina. Hugsanlegir tollasamningar við Norðmenn um hross og mjólkurafurðir þarfnast umhugsunar.
Sveinbjörn Eyjólfsson, aðstoðarmaður landbúnaðarráðherra, flutti kæra kveðju Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra og annarra starfsmanna ráðuneytisins. Hann ræddi tollasamningsdrög við Norðmenn um hross og smurosta og sagði ekkert ljóst hver niðurstaðan verður. Í ráðuneytinu eru bundnar miklar vonir við úttekt RANNÍS. Sveinbjörn lagði áherslu á að starfsumhverfi landbúnaðar mun á næstu árum færast nær því sem gerist í nágrannalöndunum og jafnhliða því verður brýn nauðsyn að styrkja menntun bænda og nýta þau sóknarfæri sem felast í hreinleika framleiðslunnar. Sveinbjörn sagðist hafa kynnt sér fyrirliggjandi gögn um innflutning kúa af NRF-kyni en sagðist því miður ekki geta kynnt niðurstöðu ráðherra í málinu núna. Á þessari stundu hefði ekki verið hægt að segja annað en nei.
Bjarni Guðmundsson, formaður Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, þakkaði samskipti við kúabændur á liðnum árum. Hann greindi frá verklagi FL sem gefur um 12 Mkr til ráðstöfunar í þróun og hagræðingu í nautgriparækt á ári, sem þó hefur ekki allt verið notað. Upplýsingabylting kúabúanna og grundvallartæknibreytingar standa nú yfir. Skilaboð sín til kúabænda sagði Bjarni vera: „Komið með enn framsæknari, samræmdari og markvissari umsóknir til sóknar í nautgriparæktinni svo við getum nýtt þá fjármuni sem við höfum til þess.“
Óskar Gunnarsson, formaður Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði sagðist vilja skýra afstöðu SAM til greiðslu fyrir umframmjólk og lagði áherslu á nauðsyn þess að afurðastöðvarnar vinni samræmt. Betri kýr og ódýrara kjarnfóður skilaði meiru en gert var ráð fyrir. Nú er þó ekki annað að sjá en greitt verði fyrir alla umframmjólk yfirstandandi verðlagsárs. Birgðir eru orðnar mjög miklar og afurðir hafa verið fluttar út á mjög lágu verði. Einungis þrjú mjólkurbú hafa útflutningsleyfi og þeim þarf að fjölga. Óskar nefndi hugsanlegan smurostainnflutning frá Noregi og nauðsyn þess að sá innflutningur sem er leyfður sé á vörum sem ekki eru framleiddar hérlendis.
Matarhlé kl.12.40 til 13.30.
5. Niðurstöður kjörbréfanefndar.
Elvar Eyvindsson gerði grein fyrir áliti nefndarinnar. Eftirtaldir fulltrúar voru mættir:
Frá Mjólkursamlagi Kjalarnesþings:
Kristján Finnsson, Grjóteyri
Magnús Hannesson, Eystri-Leirárgörðum
Frá Mjólkurbúi Borgfirðinga:
Pétur Diðriksson, Helgavatni
Jón Gíslason, Lundi
Guðmundur Þorsteinsson, Skálpastöðum
Frá Mjólkursamlaginu í Búðardal:
Lára Hansdóttir, Á
Frá Mjólkursamlagi Ísfirðinga:
Árni Brynjólfsson, Vöðlum
Frá Nautgriparæktarfélagi V-Hún:
Skúli Einarsson, Tannstaðabakka
Frá Félagi austur-húnvetnskra kúabænda:
Birgir Ingþórsson, Uppsölum
Þorleifur Ingvarsson, Sólheimum
Frá Félagi kúabænda í Skagafirði:
Ragnar Gunnlaugsson, Hátúni II
Vagn Þormar Stefánsson, Minni Ökrum
Frá búgreinaráði BSE í nautgriparækt:
Guðmundur Bjarnason, Svalbarði
Sigurgeir Pálsson, Sigtúnum
Benjamín Baldursson, Ytri-Tjörnum
Þórður Þórðarson, Hvammi
Frá Félagi kúabænda á félagssvæði Ms.K.Þ.:
Erlingur Teitsson, Brún
Kristín Linda Jónsdóttir, Miðhvammi
Frá Nautgriparæktarfélagi Vopnafjarðar:
Sigríður Bragadóttir, Síreksstöðum
Frá Félagi nautgripabænda á Héraði og Fjörðum:
Jóhann Gísli Jóhannsson, Breiðavaði
Gunnar Jónsson, Egilsstöðum
Frá Nautgriparæktarfélagi Austur-Skaftafellssýslu:
Eiríkur Egilsson, Seljavöllum, varafulltrúi
Frá Félagi kúabænda á Suðurlandi:
Birna Þorsteinsdóttir, Stóru-Hildisey
Egill Sigurðsson, Berustöðum
Elvar Eyvindsson, Skíðbakka
Gunnar Kr. Eiríksson, Túnsbergi
Gunnar Sverrisson, Hrosshaga
Sigurður Loftsson, Steinsholti
Sigrún Ásta Bjarnadóttir, Stóru-Mástungu
María Hauksdóttir, Geirakoti.
6. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga.
Pétur Diðriksson ræddi um innflutning fósturvísa mjólkurkúa. Hann fordæmdi þann drátt sem er á svari ráðuneytis við umsókn um innflutning og taldi að L.K. yrði að leita réttar síns til að knýja fram svar. Hann sagði einnig nauðsynlegt að velta vöngum yfir ýmsum hagkvæmniþáttum, afkastaaukningu greinarinnar og ímynd.
Gunnar Jónsson sagðist knúinn til þess að taka undir hvert orð Péturs varðandi innflutninginn og sagðist engan veginn skilja hvers vegna menn væru dregnir svona á asnaeyrunum og kostnaður biðarinnar væri ómældur. Ef íslenska mjólkin er svona dýrmæt ættu bændur að fá lyfjaverð fyrir hana! Verði hin pólitíska ákvörðun sú að ekki verði leyft að gera tilraun með innflutning kúakyns verður jafnframt að stoppa innflutning á mjólkurvörum og borga íslenskum bændum meira. Gunnar sagði íslenska kúabændur ekki hafa nokkur efni á að greiða fyrir hrossaútflutningi enda launakjör þeirra afar léleg. Vandi sauðfjárbænda er atvinnuleysi en kúabænda vinnuþrælkun. Loks vakti Gunnar athygli á því að unga fólkið sem menntar sig flytur „suður“ í stað þess að gerast bændur enda bindingin mikil og launin lág.
Eiríkur Egilsson ræddi um innflutning kúa og benti á að mjólkurverð í Noregi er hærra en hérlendis. Hann sagði íslensku kúna e.t.v. það sem getur gefið kúabændum mesta „goodwill“ neytenda. Þá nefndi hann endurskoðun verðlagsgrundvallar og kjaramál kúabænda.
Birgir Ingþórsson sagðist telja kjaramálin langstærstu málin og í óviðunandi horfi. Hann sagðist ekki sjá fram á að erfitt yrði að ná vinnulið verðlagsgrundvallar upp. Stærsta vandamál kúabænda væri vinnuálag, binding og erfiðleikar með afleysingar. Kjörin og viðveruskyldan koma í veg fyrir að börnin vilji taka við. Birgir sagðist hafa velt fyrir sér hvort aukin samvinna og samrekstur geti verið lausn. Hann tók undir að dráttur á svari um innflutning væri algjörlega óviðunandi en sagðist jafnframt telja bændur komna með nokkuð sterka samningsstöðu um hinar „heilögu kýr“. Birgir taldi vöntun á greiðslum fyrir umframmjólk hafa hleypt verði á kvóta upp úr öllu valdi.
Sigríður Bragadóttir þakkaði skýrslur og ávörp og sagðist taka undir hvert orð Gunnars Jónssonar varðandi innflutning erfðavísa og sagðist ekki skilja mismuninn á að flytja inn mjólkurkúakyn og aðra fósturvísa. Hún varaði við samningi við Norðmenn og einnig offjárfestingu við mjaltatækni. Sigríður benti á að fáir mjólkurframleiðendur væru í sínu héraði og yrðu þar afskiptir varðandi námskeiðahald. Einnig nefndi hún gæðastýringu, verðlagsmál og nýliðun greinarinnar. Hún sagðist telja kvótann nauðsynlegan ella myndu lögmál skógarins ráða.
Kristín Linda Jónsdóttir sagði einhverja framtíðarsýn ekki mega velta yfir það sem þarf að gera í dag. Brátt má búast við að kúabúin verði færri en þúsund sem er álíka fjöldi og einum heimilislækni er ætlað að sinna – en margir þjóna landbúnaðinum. Hún lagði áherslu á að dreifa ekki kröftunum við menntun stéttarinnar og sagði nauðsynlegt að efla starfsemina á Hvanneyri. Æskilegt væri að námskeið fyrir bændur teldu til eininga og að menntun bænda verði fjölbreyttari og markvissari. Það þarf að leita nýrra leiða við sölu afurðanna og benti Kristín Linda á blómaframleiðendur til fyrirmyndar. Hún lagði til að leitað verði samstarfs við bakara um að fjölga „bolludögum“ og bjóða rjómapönnukökur á sumardaginn fyrsta ásamt gamaldags rjómatertu á 17. júní. Á grilltímanum á að bjóða upp á handhægar rjómasósur. Hvernig er með möguleika á að nýta mjólkurvörur í snyrtivörur? Og íslenskan rjómalíkjör? Kristín Linda sagðist hefði getað sýnt samstöðu með öðrum bændum varðandi tollasamninga ef hún kæmi þeim til góða en margir fleiri en bændur hafa hagsmuni af hrossaræktinni og því ekki ástæða fyrir kúabændur að gefa eftir. Loks sagði Kristín Linda það óhæft hvernig stjórn SAM hefði leyft sér að draga bændur á asnaeyrunum varðandi greiðslur fyrir umframmjólk.
Egill Sigurðsson þakkaði framkomnar skýrslur og störf stjórnar og framkvæmdastjóra. Hann lýsti vonbrigðum sínum með að nýr landbúnaðarráðherra hefur ekki afgreitt innflutningsmálið og sagðist telja nauðsynlegt að fundurinn fjalli um málið. Egill sagði skýrsluhalds og forritamál þurfa skoðunar við og óskaði skýringa á því að miklum fjármunum hefði verið varið til umritunar forrits en síðan hætt og keypt annað. Þá spurði hann hvort ekki ætti að halda áfram að vinna að því að fá innflutningsgjald á kjarnfóður fellt niður.
Stefán Magnússon kom inn á það sem hann kallaði „farsann um greiðslur fyrir umframmjólk“. Hann fordæmdi harðlega framkomu afurðastöðvanna í þessu máli og benti á að mörgum stöðvanna réðu bændur sjálfir og þá yrði að kalla til ábyrgðar.
Guðmundur Þorsteinsson sagðist sem stjórnarmaður í Mjólkursamsölunni einn af þeim sem þátt tóku í umdeildri ákvörðun um að hvetja til aukinnar framleiðslu sl. haust. Hann sagðist telja að mjólkuriðnaðurinn hefði ekki átt að hverfa frá ákvörðuninni um greiðslu fyrir umframmjólkina, einungis hvetja menn til þess að endurmeta stöðuna. Trúnaðarbrestur mjólkuriðnaðarins og framleiðenda af þessum völdum væri afar slæmur. Tollaskipti á hrossum og smurosti og kartöfluflögum sagðist Guðmundur telja fráleit. Aukna tæknivæðingu kúabúa taldi Guðmundur vera óhjákvæmilegt að reyna. Hann taldi tormerki á að bændaskólarnir réðu við að sjá ellefu hundruð kúabúum fyrir nýliðun ef krafist væri fjögurra ára búnaðarnáms.
Halldór Runólfsson, yfirdýralæknir, svaraði framkomnum spurningum um innflutningsmál, bæði kúa og smurosta. Hann sagði samband mjólkurpróteina og sykursýki hafa verið blásið upp úr hófi fram en sagðist jafnframt telja litlar líkur á að margumræddur tollasamningur yrði að veruleika. Halldór kvað innflutning alltaf spurningu um áhættu og yrði alltaf að meta í hvert og eitt sinn. Ástæðuna fyrir hve langan tíma tekur að afgreiða innflutningsumsóknina sagði Halldór vera flókið samspil og óvenjulegt hve „þjóðarsálin“ hefur mikið blandast í málið. Krafan um aukinn vöruinnflutning er handan við hornið og sagðist Halldór telja betra að flytja inn erfðaefni með ábyrgum hætti.
Sveinbjörn Eyjólfsson, aðstoðarmaður landbúnaðarráðherra, sagðist hafa búist við að finna hér meiri samstöðu með hrossabændum um tollasamning og benti í skiptum mætti virkja hestamenn til meiri mjólkurdrykkju. Sveinbjörn sagðist hafa byrjað að skoða innflutningsmálið strax og hann kom til starfa í byrjun ágúst. Þá hefði verið ljóst að ef umsókn LK og skilyrði yfirdýralæknis verða ekki samræmd er ekki grundvöllur fyrir innflutningnum og að þeirri samræmingu er nú verið að vinna.
Þórólfur Sveinsson gerði grein fyrir aðkomu LK að hugsanlegum tollasamningi við Norðmenn og sagði forsendu LK að sjálfsögðu þá að kúabændur yrðu skaðlausir af málinu. Þá ræddi Þórólfur um nýjan verðlagsgrundvöll, tæknivæðingu og fylgni bústærðar og velvildar í garð landbúnaðar. Greinilegt er að frítími er hærra skrifaður sem lífsgæði nú en var fyrir tíu til tuttugu árum. Þórólfur sagði með ólíkindum hvernig tekist hefur að ná þjóðinni á flug í kringum hugsanlegan innflutning norskra kúa. Varðandi forrit fyrir kúabændur sagði Þórólfur að eftir skoðun hefði verið talið hagstæðara að nýta norskt forrit fyrir kúabændur en lykilatriði væri að kúabændur hefðu aðgang að góðu forriti.
Jón Gíslason sagði að sótt hafi verið um innflutning NRF-kynsins vegna þess að heilsufarsástand í Noregi er gott. Þá ræddi Jón um skilyrði yfirdýralæknis fyrir innflutningnum og taldi þau torvelda tilraunina. Loks ræddi Jón forritunarmál kúabænda.
Að umræðum loknum voru reikningar LK árið 1998 bornir upp og samþykktir samhljóða.
7. Erindi.
a) Gæðastýring í mjólkurframleiðslu.
Gunnar Guðmundsson, ráðunautur Bændasamtaka Íslands.
b) Merkingar nautgripa.
Halldór Runólfsson, yfirdýralæknir.
Að loknu erindi Halldórs voru leyfðar fyrirspurnir varðandi erindi hans. Til máls tóku Guðmundur Þorsteinsson, Benjamín Baldursson og Eiríkur Egilsson. M.a. var spurt um forsendur þess að einungis mætti taka erfðavísa frá þrem búum og um „mjaltaróbóta“. Fram kom í svörum Halldórs að „mjaltaróbóti“ standist ekki mjólkurreglugerð.
Kaffihlé 16.45 til 17.10
c) Áhrif íslensks landbúnaðar, með áherslu á mjólkurframleiðslu og nautgriparækt, á efnahag á Íslandi.
Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.
Ýmsir spurðu nánar út í erindi Tryggva. Fram kom í að verg landsframleiðsla er áætluð um 630 milljarðar á ári og því til samanburðar eru bein og óbein áhrif nautgriparæktinnar um 4,8% af landsframleiðslunni eða um 30 milljarðar. Það er áætlað um helmingur almenns landbúnaðar. Spurt var hvort verð til framleiðenda væri um 15 milljarðar, hlutur mjólkuriðnaðarins um 4 milljarðar og hvort afgangurinn rynni til smásöluverslunarinnar.
d) Samanburður á afkomu kúabænda við almenna þróun kaupmáttar 1995 – 1997.
Jónas Bjarnason, forstöðumaður Hagþjónustu landbúnaðarins.
Birgir Óli Einarsson, Hagþjónustu landbúnaðarins.
Helstu niðurstöður voru:
Miðað við þróunina árin 1995, 1996 og 1997 er vísitala kaupmáttar launagreiðslugetu kúabúa 15,5% lægri en kaupmáttur launþega í árslok 1997. Vísitala launagreiðslugetu kúabúa þarf þannig að hækka um 18,3% til að ná kaupmætti launþega miðað við árslok 1997 miðað við áður gefnar forsendur um samanburð.
Fyrirspurnir við framkomin erindi:
Egill Sigurðsson spurði hvort gæðakerfi verði ekki að vera skylda hjá bændum sem skipta við sömu afurðastöð og bað um mat hagfræðinganna á hvernig kúabúin séu undir framtíðina búin.
Hjörtur Hjartarson sagði formann Fagráðs hafa kveðið upp þungan áfellisdóm um forrit hans. Áburðarforritið hafi margir bændur notað og Hólaskóli notað það við kennslu. Forritið Fóður hafi einnig fengið góðar viðtökur.
Birna Þorsteinsdóttir sagðist vera úr hópi þeirra bænda sem prófuðu Búrektor-forritið fyrst og alltaf hafa verið óánægð með það.
Þorleifur Ingvarsson spurði hvort Jónas gæti tekið út úr töflunum kostnað bænda vegna kvótakaupa og hve mikið betri afkoman væri ef ekki þyrfti að greiða dýru verði réttinn til að framleiða.
Jón Gíslason sagðist alls ekki hafa ætlað að gera lítið úr forritum Hjartar, eingöngu talað um Búrektor.
Sigurður Baldursson kvaðst hafa góða reynslu af Búrektor og ekki trúaður á að norska forritið verði mikið betra.
Stefán Magnússon spurði Jónas hvort hægt væri að meta hagkvæmni vélafjárfestinganna og hvort hægt væri að skjóta á hver eru tímalaun bænda miðað við niðurstöður Hagþjónustunnar.
Gunnar Jónsson spurði hvort hægt væri að sjá hvort dregið hafi úr aðkeyptri vinnu samhliða minnkaðri launagreiðslugetu.
Eiríkur Egilsson spurði hvort hagfræðingarnir sæu hvernig á að bæta afkomu kúabænda meðan ekki má hækka afurðirnar.
Pétur Diðriksson benti á að niðurstöður þær sem HÞL sýnir eru afleiðingarnar af ákvörðunum bænda sjálfra þótt vissulega sé greininni sköpuð ákveðin skilyrði. Hann sagist ekki sannfærður um að gliðnun kaupmáttar bænda annars vegar og almenns kaupmáttar hins vegar væri vegna þess að aðrir séu að kvelja bændur. Bændur ákveða sjálfir að kaupa kvóta fyrir á annað hundrað krónur lítrann. Skoðið vinnuþáttinn – í hvað fer tíminn? Hvaða vinnu er hægt að skera niður án þess að tekjurnar minnki? Þarf að fjárfesta í vélum fyrir milljón þegar framleiðslan er aukin um tíu þúsund lítra?
Guðmundur Þorsteinsson lagði áherslu á að verið er að skoða afkomu kúabænda eins og hún birtist í niðurstöðum búreikninga. Ekkert óeðlilegt að fari skriða af stað við endurnýjun véla þegar heldur rýmkast um. Skattalegar heimildir til hraðra fyrninga skekkja myndina þegar litið er beint á búreikninganiðurstöður. Nauðsynlegt að taka vinnuskýrslur inn í dæmið.
Kristín Linda Jónsdóttir spurði hvort ekki væri horft of einhæft til Noregs, með norsku kúakyni, norsku rekstrarforriti og gæðakerfi að norskri fyrirmynd. Hún lagði áherslu á nauðsyn þess að ná niður aðfangakostnaði og spurði hvort LK þyrfti ekki að gera átak á þessu sviði. Þarf ekki að veita þeim sem þjónusta bændur meira aðhald?
Gunnar Guðmundsson svaraði Agli að álitamál væri hvort aðild að gæðakerfi ætti að vera frjáls. Hann benti á að í Noregi væri í raun gert ráð fyrir að „vottunin“ yrði hjá afurðastöðvunum. Afurðastöðvar hér gætu e.t.v. neitað að taka við afurðum frá öðrum en þeim sem eru með gæðakerfi. Skyldukerfi yrði e.t.v. fráhrindandi í augum bænda. Gunnar sagði að ekkert hefði verið ákveðið um að taka Norðmenn til fyrirmyndar við gæðastýringu þótt það sé í skoðun.
Jónas Bjarnason sagðist telja vaxtabyrðina of mikla og skammtímalánin of mikil í fyrirliggjandi niðurstöððum. Hann sagði hægt að taka út kvótakaupakostnaðinn en þetta sé allt spurning um uppsetningu og hvert á að vera virði kvótans í samningsloks skiptiu höfuðmáli. Jónas taldi hugsanlegt að meta hagkvæmni vélakaupa. Tímakaup mjólkurframleiðenda sagði hann alltof lágt og að dregið hafi úr aðkeyptu vinnuafli. Að lokum þakkaði Jónas kúabændum þann stuðning sem þeir hafa veitt Hagþjónustu landbúnaðarins.
Magnús B. Jónsson þakkaði fyrir að hafa fengið að sitja fundinn. Hann sagði Hvanneyrarskóla bera að sinna sínum gömlu verkefnum þrátt fyrir lagabreytinguna á síðasta vori sem hefur fengið skólanum nýjar skyldur til viðbótar.
8. Tillögur lagðar fram – skipan í nefndir.
Birgir Ingþórsson kynnti erindi varðandi leiðbeiningaþjónustu. Vísað til félagsmálanefndar.
Jón Gíslason kynnti tillögu varðandi greiðslur fyrir umframmjólk. Vísað til framleiðslunefndar.
Fundarstjóri lagði til að vísa áður útsendum málum til nefnda og var hún samþykkt.
Fundarstjóri kynnti eftirfarandi tillögur:
a) Frá stjórn Nautgriparæktarfélags A-Skaft. um verðuppbætur á ungkálfa. Vísað til framleiðslunefndar.
b) Áskorun frá stjórn Nautgriparæktarfélags A-Skaft. varðandi nýjan verðlagsgrundvöll. Vísað til félagsmálanefndar.
c) Frá Gunnari Sverrissyni um Tryggingarsjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga. Vísað til félagsmálanefndar.
d) Frá Gunnari Sverrissyni varðandi innihaldslýsingar á áburði. Vísað til fagmálanefndar.
Fundarstjóri kynnti eftirfarandi tillögu að skipan nefnda og var hún samþykkt:
Fagmálanefnd: Sigurður Loftsson, formaður, Árni Brynjólfsson, Eiríkur Egilsson, Guðmundur Bjarnason, Gunnar Sverrisson, Kristín Linda Jónsdóttir, Magnús Hannesson, Ragnar Gunnlaugsson, Skúli Einarsson og Þórður Þórðarson.
Félagsmálanefnd: Sigríður Bragadóttir, formaður, Benjamín Baldursson, Elvar Eyvindsson, Gunnar Jónsson, Jóhann Gísli Jóhannsson, Kristján Finnsson, María Hauksdóttir, Sigrún Ásta Bjarnadóttir og Vagn Þormar Stefánsson.
Framleiðslunefnd: Egill Sigurðsson, formaður, Birna Þorsteinsdóttir, Birgir Ingþórsson, Erlingur Teitsson, Gunnar Kr. Eiríksson, Jón Gíslason, Lára Hannesdóttir, Pétur Diðriksson, Sigurgeir Pálsson og Þorleifur Ingvarsson.
Fundi frestað kl. 19.20.
Fundi framhaldið 26. ágúst kl. 13.15.
9. Afgreiðsla mála.
Tillögur frá Framleiðslunefnd:
Tillaga 2.1. –framsögumaður Egill Sigurðsson.
„Aðalfundur LK 1999 haldinn í Árgarði í Skagafirði 25. og 26. ágúst 1999 harmar fljótfærnislegar og misvísandi ákvarðanir Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði og einstakra mjólkursamlaga varðandi greiðslur fyrir umframmjólk. Bendir fundurinn á að til grundvallar skynsamlegri bústjórn verða að liggja upplýsingar sem hægt er að treysta.“
Til máls tóku Stefán Magnússon og Þórólfur Sveinsson auk framsögumanns.
Samþykkt samhljóða.
Tillaga 2.2. –framsögumaður Egill Sigurðsson.
„Aðalfundur LK 1999 haldinn í Árgarði í Skagafirði 25. og 26. ágúst 1999 ályktar:
LK hefur alla tíð lagt áherslu á mikilvægi þess að afurðastöðvar í mjólkuriðnaði væru í eigu og undir stjórn mjólkurframleiðenda til að tryggja hagsmuni kúabænda.
Gildi þeirrar stefnu sannaðist eftirminnilega þegar bændur í Suður-Þingeyjarsýslu lentu í hremmingum vegna þrenginga Kaupfélags Þingeyinga. Jafnframt hafa komið fram sterkari vísbendingar en áður um að lagalegar forsendur séu fyrir því að innleggjendur mjólkursamlaga á vegum kaupfélaga eigi eignarréttarlegt tilkall til mjólkursamlaganna.
Því felur fundurinn stjórn LK að stuðla að því að mjólkursamlög sem enn eru starfrækt innan kaupfélaga, komist formlega í eigu framleiðenda og undir stjórn þeirra. Er stjórninni heimilað að styðja samtök mjólkurframleiðenda, eða einstaklinga í umboði þeirra, með fjárframlögum eða á annan hátt ef nauðsynlegt reynist að fara með slík mál fyrir dómstóla.“
Til máls tók Skúli Einarsson.
Samþykkt með þorra atkvæða.
Tillaga 2.3. – framsögumaður Egill Sigurðsson.
„Aðalfundur LK 1999 haldinn í Árgarði í Skagafirði 25. og 26. ágúst 1999 hvetur stjórn LK til að fylgjast vel með stöðu á kjötmarkaði og grípa til verðuppbóta á slátraða ungkálfa ef ástæða þykir til. Einnig hvetur fundurinn stjórn til að beita sér fyrir öflugu átaki í markaðsmálum nautakjöts.“
Til máls tóku Gunnar Jónsson og Þórólfur Sveinsson.
Samþykkt samhljóða
Tillaga 2.4. –framsögumaður Egill Sigurðsson.
„Aðalfundur LK 1999 haldinn í Árgarði í Skagafirði 25. og 26. ágúst 1999 minnir á fyrri samþykktir um niðurfellingu tolla af innfluttum kjarnfóðurblöndum og felur stjórn að fylgja málinu fast eftir.“
Samþykkt samhljóða með þorra atkvæða án umræðu.
Tillaga 2.5. –framsögumaður Egill Sigurðsson.
„Aðalfundur LK 1999 haldinn í Árgarði í Skagafirði 25. og 26. ágúst 1999 lýsir þungum áhyggjum yfir samdrætti í sölu mjólkurafurða. Telur fundurinn nauðsynlegt að legga enn aukna áherslu á sölu- og markaðsstarf til að snúa þeirri þróun við.“
Til máls tók Guðmundur Þorsteinsson.
Samþykkt samhljóða.
Tillaga 2.6. framsögumaður Egill Sigurðsson:
Tillagan var rædd og því næst endurskoðuð af nefndinni. Að því loknu var hún samþykkt samhljóða svohljóðandi:
„Aðalfundur LK 1999 haldinn í Árgarði í Skagafirði 25. og 26. ágúst 1999 samþykkir að skipa 3ja manna nefnd til að undirbúa nauðsynlegar breytingar í tilraunastarfsemi greinarinnar. Óskað er eftir að nefndin starfi með Fagráði í nautgriparækt.
Lagt er til að eftirtaldir skipi nefndina:
Jón Gíslason, Lundi
Sigurður Loftsson, Steinsholti
Sigurgeir Hreinsson, Hríshóli“
Tillögur frá Fagmálanefnd
Tillaga 1.1. – framsögumaður Sigurður Loftsson.
„Aðalfundur LK 1999 haldinn í Árgarði í Skagafirði 25. og 26. ágúst 1999 gerir þær kröfur að nákvæmar innihaldslýsingar séu aðgengilegar á öllum tilbúnum áburði.
Greinargerð:
Eftir að verslun var frjáls með tilbúinn áburð hefur eðlilega orðið samkeppni milli seljenda.
Eitt af því sem seljendur hafa notað í sínu auglýsingastríði eru meiningar um misjafnt innihald óæskilegra aukaefna (eiturefna), s.s. þungmálma eins og kadmíns.
Það er algjörlega óviðunandi fyrir bændur að fá ekki vitneskju um efnainnihald áburðarins bæði innlends og innflutts. Einnig þurfa bændur að fá vitneskju um hvaða áhrif þessi óæskilegu aukaefni hafa á okkar afurðir.“
Samþykkt samhljóða, umræðulaust.
Tillaga 1.2. – framsögumaður Sigurður Loftsson.
„Aðalfundur LK 1999 haldinn í Árgarði í Skagafirði 25. og 26. ágúst 1999 bendir á þá miklu möguleika sem Internetið býður upp á fyrir hvers konar upplýsingamiðlun og gagnvirk samskipti. Þessir möguleikar til að þjónusta bændur á ódýran og áhrifaríkan hátt eru enn að mestu ónotaðir af fagþjónustu landbúnaðarins. Því telur fundurinn nauðsynlegt að gerðar verði ráðstafanir til að fagefni sé gert aðgengilegt á netinu. Jafnframt er nauðsynlegt að aðstoða bændur við tölvuvæðingu“
Til máls tóku Guðmundur Þorsteinsson, Sigurður Baldursson, Sigríður Bragadóttur, Kristín Linda Jónsdóttir og Hjörtur Hjartarson auk framsögumanns.
Samþykkt samhljóða.
Tillaga 1.3. – framsögumaður Sigurður Loftsson.
„Aðalfundur LK 1999 haldinn í Árgarði í Skagafirði 25. og 26. ágúst 1999 beinir því til stjórnar að móta í samvinnu við aðra málsaðila hugmyndir að samræmdri gæðastýringu í nautgriparækt.
Greinargerð:
Mikil umræða og þróun á sér nú stað varðandi gæðakerfi í landbúnaði. Þau byggjast á kerfisbundinni skráningu upplýsinga og markvissum ákvörðunum á framleiðsluferlinum. Ávinningur af gæðastjórnun er bættur rekstur og minni áhætta í rekstri kúabúa. Einnig hefur gæðastjórnun gildi gagnvart neytendum og stjórnvöldum og hið innra eftirlit á að draga úr opinberu eftirliti. Mikið verk er fyrir höndum að þróa slíkt kerfi fyrir íslenskar aðstæður og kynna það bændum. Skyldumerkingar nautgripa hafa fyrr verið til umfjöllunar á aðalfundum LK en málið hefur ekki náð fram að ganga, enda ekki fyrr en á sl. ári sem lagastoð varð fyrir skyldumerkingum.“
Til máls tóku Þorleifur Ingvarsson, Sigurður Baldursson og Gunnar Sverrisson, auk framsögumanns.
Samþykkt samhljóða.
Tillaga 1.4. – framsögumaður Sigurður Loftsson.
„Aðalfundur LK 1999 haldinn í Árgarði í Skagafirði 25. og 26. ágúst 1999 fagnar ákvörðun stjórnvalda um að gera Hvanneyri að landbúnaðarháskóla. Fundurinn leggur áherslu á að þar verði markvisst byggð upp sem víðtækust aðstaða til kennslu og rannsókna í nautgriparækt.“
Samþykkt samhljóða án umræðu.
Tillaga 1.5. — framsögumaður Sigurður Loftsson.
„Aðalfundur LK 1999 haldinn í Árgarði í Skagafirði 25. og 26. ágúst 1999 átelur þann mikla drátt sem orðið hefur á afgreiðslu umsóknar um leyfi til innflutnings NRF-fósturvísa. Væntir fundurinn þess að landbúnaðarráðherra afgreiði umsóknina á allra næstu vikum.“
Samþykkt samhljóða án umræðu.
Tillögur frá Félagsmálanefnd:
Tillaga 3.1. – framsögumaður, Sigríður Bragadóttir.
Tillagan var rædd og því næst endurskoðuð af nefndinni. Að lokinni endurskoðun nefndarinnar á orðalagi var hún samþykkt svohljóðandi:
„Aðalfundur LK 1999 haldinn í Árgarði í Skagafirði 25. og 26. ágúst 1999 vísar til stefnumörkunar aðalfundar 1998 varðandi leiðbeiningaþjónustu. Þar sem fljótlega má vænta niðurstöðu RANNÍS-verkefnisins sem fjallar m.a. um þennan þátt, telur fundurinn augljóst að frekari vinna við stefnumörkun á þessu sviði bíði hennar.
Greinargerð:
Félag kúabænda í Austur-Hún. óskaði eftir því að aðalfundur LK 1999 tæki afstöðu til eftirfarandi:
Hvort leiðbeiningaþjónustan eigi að vera áfram á vegum búnaðarsambanda og fjármögnuð með líku sniði og nú er þ.e. að mestu með hluta af búnaðargjaldi og framlögum frá því opinbera eða hvort leiðbeiningaþjónustan færist til búgreinafélaganna og hver búgrein ákveði fyrir sig hvernig þessari þjónustu verði háttað og hvernig hún verði fjármögnuð.“
Tillaga 3.2. – framsögumaður Sigríður Bragadóttir.
„Aðalfundur LK 1999 haldinn í Árgarði í Skagafirði 25. og 26. ágúst 1999
telur að taka þurfi reglur um tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga til endurskoðunar. Athuga þarf hvort sjóðurinn hafi gagnast bændum og ef svo er ekki, hvort hægt sé að lækka tryggingagjald bænda sem nemur því gjaldi sem rennur til sjóðsins.“
Til máls tóku Þorleifur Ingvarsson og María Hauksdóttir.
Samþykkt samhljóða.
Tillaga 3.3. – framsögumaður Sigríður Bragadóttir.
„Aðalfundur LK 1999 haldinn í Árgarði í Skagafirði 25. og 26. ágúst 1999 gerir þá afdráttarlausu kröfu að íbúum í dreifbýli verði tryggðir sömu möguleikar á tölvusamskiptum og eru í þéttbýli.
Greinargerð:
Miklar vonir eru bundnar við að tölvuvinnsla í gegnum Internetið sé líkleg til að skapa landsbyggðinni nýja og betri stöðu í atvinnumálum, auk þess sem greið tölvusamskipti eru mjög nauðsynleg fyrir atvinnurekstur eins og kúabúskap. Því miður er símakerfið í dreifbýlinu afkastaminna að þessu leyti en í þéttbýlinu og er það óviðunandi ástand og nánast tæknileg búsetuhindrun.“
Samþykkt samhljóða, án umræðu.
Tillaga 3.4. – framsögumaður, Sigríður Bragadóttir.
Þessi tillaga var rædd og því næst endurskoðuð í nefndinni. Eftir umræður var hún samþykkt samhljóða svohljóðandi:
„Aðalfundur LK 1999 haldinn í Árgarði í Skagafirði 25. og 26. ágúst 1999 minnir á að í samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar eru ný ákvæði um verðlagsgrundvöll kúabús. Ekki liggur fyrir verðlagsgrundvöllur sem byggir á þessum forsendum. Fundurinn hvetur verðlagsnefnd til þess að ljúka þessu verki sem fyrst og felur stjórn LK að fylgja því eftir.“
Tillaga 3.5. – framsögumaður Sigríður Bragadóttir.
„Aðalfundur LK 1999 haldinn í Árgarði í Skagafirði 25. og 26. ágúst 1999 skorar á stjórn LK að vinna ötullega að bættum kjörum kúabænda. Í því sambandi má benda á:
a) Lækkun á kjarnfóðurgjaldi.
b) Enn frekari hagræðingu í mjólkuriðnaði. Aðgerðir á því sviði hafa nú þegar skilað árangri.
c) Hugsanlega hækkun á afurðaverði.
d) Aukna áherslu á markaðsmál, t.d. í sambandi við aðrar atvinnugreinar.
e) Aukna hagkvæmni í kaupum aðfanga.“
Til máls tóku Gunnar Eiríksson, Gunnar Sverrisson og Eiríkur Egilsson. Tillagan send aftur til nefndar.
Tillaga 3.6. – framsögumaður Sigríður Bragadóttir.
„Aðalfundur LK 1999 haldinn í Árgarði í Skagafirði 25. og 26. ágúst 1999 beinir því til stjórnar að endurskoða reglur afleysingasjóðsins með það í huga að gera notkun á afleysingaþjónustu almennari.“
Samþykkt samhljóða án umræðu.
Kaffihlé kl. 15.05 til 15.45
Tillaga 3.5. önnur umræða- framsögumaður, Sigríður Bragadóttir, gerði grein fyrir endurbættri tillögu svohljóðandi:
„Aðalfundur LK 1999 haldinn í Árgarði í Skagafirði 25. og 26. ágúst 1999 skorar á stjórn LK að vinna ötullega að bættum kjörum kúabænda. Í því sambandi má benda á:
f) Hækkun afurðaverðs.
g) Enn frekari hagræðingu í mjólkuriðnaði. Aðgerðir á því sviði hafa nú þegar skilað árangri.
h) Niðurfelling kjarnfóðurgjalds.
i) Aukna áherslu á markaðsmál, t.d. í samvinnu við aðrar atvinnugreinar.
j) Aukna hagkvæmni í kaupum aðfanga.“
Samþykkt samhljóða.
Því næst mælti Sigríður Bragadóttir fyrir eftirfarandi tillögum:
4.1.„Aðalfundur LK haldinn að Árgarði í Skagafirði 25. og 26. ágúst 1999 samþykkir eftirfarandi fjárhagsáætlun fyrir árið 2000.
![]() | ![]() | ![]() | ![]() | ![]() | ![]() | ![]() |
Tekjur: | ![]() | Áætlun ’00 | Reikn.’98 | ![]() | ![]() | |
![]() | ![]() | ![]() | ![]() | ![]() | ![]() | ![]() |
![]() | Búnaðarsjóður | ![]() | 7.500.000 | 5.058.970 | ![]() | ![]() |
![]() | Búnaðarmálasjóður | ![]() | 0 | 1.530.133 | ![]() | ![]() |
![]() | Framleiðsluráðsgjald | ![]() | 0 | 473.000 | ![]() | ![]() |
![]() | Framl. v. nautgr. kjöts | ![]() | 6.000.000 | 4.200.000 | ![]() | ![]() |
![]() | Útseld þjónusta | ![]() | 200.000 | 200.000 | ![]() | ![]() |
![]() | Fjármagnsliðir | ![]() | 1.180.000 | 218.012 | ![]() | ![]() |
![]() | Aðrar tekjur | ![]() | ![]() | 133.632 | ![]() | ![]() |
Tekjur alls: | ![]() | ![]() | 14.880.000 | 11.813.747 | ![]() | ![]() |
![]() | ![]() | ![]() | ![]() | ![]() | ![]() | ![]() |
![]() | ![]() | ![]() | ![]() | ![]() | ![]() | ![]() |
Gjöld: | ![]() | ![]() | ![]() | ![]() | ![]() | ![]() |
![]() | Félagsstarf LK | ![]() | 8.240.000 | 6.434.806 | ![]() | ![]() |
![]() | Markaðsmál nautgr. kjöts | ![]() | 5.700.000 | 4.309.821 | ![]() | ![]() |
![]() | Annar kostnaður | ![]() | 200.000 | 0 | ![]() | ![]() |
![]() | Afskriftir | ![]() | 70.000 | 59.558 | ![]() | ![]() |
![]() | ![]() | ![]() | ![]() | ![]() | ![]() | ![]() |
Gjöld alls: | ![]() | ![]() | 14.210.000 | 10.804.185 | ![]() | ![]() |
![]() | ![]() | ![]() | ![]() | ![]() | ![]() | ![]() |
Mismunur: | ![]() | ![]() | 670.000 | 1.009.562 | ![]() | ![]() |
![]() | ![]() | ![]() | ![]() | ![]() | ![]() | ![]() |
![]() | ![]() | ![]() | ![]() | ![]() | ![]() | ![]() |
4.2. „Aðalfundur LK 1999 samþykkir að þóknun fyrir setu á aðalfundi verði kr. 12.000,- á hvern fulltrúa.“
Til máls tóku Þórólfur Sveinsson, Egill Sigurðsson, Gunnar Jónsson, Þórólfur Sveinsson
Báðar tillögur samþykktar samhljóða.
10. Kosningar.
Elvar Eyvindsson greindi frá störfum uppstillingarnefndar og lagði fram tillögu að stjórn og skoðunarmönnum. Síðan var kosið leynilegri kosningu.
Kosningu hlutu:
Formaður til eins árs:
Þórólfur Sveinsson kjörinn með 27 atkvæðum.
Meðstjórnendur til eins árs:
Kristín Linda Jónsdóttir með 27 atkvæðum
Birgir Ingþórsson með 25 atkvæðum
Hjörtur Hjartarson með 22 atkvæðum
Gunnar Sverrisson með 22 atkvæðum
1. varamaður til eins árs:
Egill Sigurðsson með 16 atkvæðum
2. varamaður til eins árs:
Sigurgeir Pálsson með 15 atkvæðum
Skoðunarmenn til eins árs kjörnir með lófataki:
Magnús Hannesson
Pétur Diðriksson
Til vara: Kristján Finnsson.
11. Önnur mál.
Kristín Linda Jónsdóttir þakkaði fyrir kosninguna og þann kjark sem menn sýndu að kjósa kasólétta konu í stjórn. Síðan minnti hún á að hún hefði bæði síma og netfang og hvatti menn til að koma skoðunum sínum á framfæri við hana og aðra stjórnarmenn.
Guðmundur Þorsteinsson leit yfir farinn veg eftir þrettán ára stjórnarsetu og sagði það vera komið í ljós að fullur grundvöllur er fyrir starfi LK. Hann þakkaði samstarf liðinna ára og óskaði nýrri stjórn velfarnaðar.
Stefán Magnússon þakkaði fráfarandi stjórn ágætt samstarf og óskaði nýkjörinni stjórn velfarnaðar.
Birgir Ingþórsson þakkaði auðsýnt traust og lagði áherslu á þörfinni að berjast fyrir bættum kjörum. Hann þakkaði fráfarandi stjórn gott verk.
Sigurður Baldursson óskaði nýkjörinni stjórn til hamingju með kjörið og þakkaði gott samstarf á liðnum árum.
Guðbjörn Árnason þakkaði fráfarandi stjórn gott samstarf og óskaði nýjum stjórnarmönnum til hamingju.
María Hauksdóttir óskaði nýrri stjórn til hamingju og lýsti sérstakri ánægju yfir að nú skuli vera komin kona í stjórn LK. Hún þakkaði fráfarandi stjórn og sérstaklega Guðmundi Þorsteinssyni.
Þórður Þórðarson beindi þeirri spurningu til Þórólfs og Ara hvernig ábendingum BÍ varðandi skipulagslög hefði reitt af og hvort þeir telji möguleika á að bæta stöðu landeigenda gagnvart sveitarfélögunum. Einnig spurði hann þá hvort þeir teldu einhvern möguleika á að fá breytingar á jarðabótaframlögum í þá veru að hefðbundnar búgreinar njóti meiri framlaga. Loks beindi hann þeirri spurningu til nýkjörinnar stjórnar hvernig LK muni bregðast við ef sláturleyfishafar fara að borga langt undir viðmiðunarverði. Eru menn tilbúnir til þess að varna því að gripir fari inn í þau sláturhús sem ekki borga viðmiðunarverð?
Ari Teitsson sagði skipulagslögin vera staðreynd, sumar ábendingar bænda hefðu náð fram að ganga, aðrar ekki. Hann taldi ekki líkur á breytingum á búnaðarlögum að sinni.
Þórólfur Sveinsson sagðist ekki sjá fyrir hver yrðu viðbrögð Íslendinga ef íslenskir bændur tækju upp starfsaferðir franskra bænda. Þórólfur þakkaði kosninguna og fráfarandi stjórnarmönnum. Hann flutti Guðmundi Þorsteinssyni sérstakar þakkir og bauð nýja stjórnarmenn velkomna. Hann taldi vist hafa verið góða hjá Skagfirðingum og aðbúnað allan með ágætum. Þórólfur þakkaði fundinn og sagði honum slitið klukkan 17.30.