Beint í efni

Fundarferð um málefni hrossaræktarinnar

22.03.2020

Nú nýverið lauk fundarferð um málefni hrossaræktarinnar en Sveinn Steinarsson, formaður Félags hrossabænda og Þorvaldur Kristjánsson, hrossaræktarráðunautur fóru í sína árlegu fundarferð um landið í febrúar og mars. Alls fóru þeir á átta staði um allt land og hittu samtals hátt í þrjúhundruð manns.

Það sem helst var rætt á fundunum voru breytingar á ræktunarmarkmiðinu fyrir íslenska hestinn. Samþykktar voru á aðalþingi FEIF í vetur, nýjar og uppfærðar lýsingar á hinum almennu ræktunarmarkmiðum, uppfærður dómskali fyrir dóma á kynbótahrossum og nýir vægistuðlar eiginleikanna í aðaleinkunn. Þessar breytingar mæltust almennt vel fyrir enda rækilega kynntar og ræddar á undanförnum árum. Þá var einnig farið yfir val kynbótahrossa inn á landsmót, þróun kynbótamatsins og breyttar reglur um afkvæmaverðlaun stóðhesta. Þetta verður allt einnig kynnt á vef RML og hestamiðlum á næstu dögum.

Þá fór Sveinn yfir starf Félags hrossabænda og helstu verkefni sem félagið hefur verið að sinna undanfarið. Náðst hafa samningar við ráðuneyti atvinnuvega og nýsköpunar og menntamála um áframhald á kynningar- og markaðsverkefninu Horses of Iceland. Fimm ára samningur þess við ríkið rann út á síðasta ári og afar mikilvægt var að endurnýja þennan samning enda um afar verðmætt verkefni að ræða. Mikil þekking hefur safnast upp á síðustu árum í þessu verkefni og náðst hefur að kynna íslenska hestinn gríðarlega á sýningum og viðburðum en ekki síst í gegnum samfélagsmiðla. Þetta kynningar- og markaðsstarf þarf að halda áfram og vera viðvarandi til langs tíma öllum þeim til hagsbóta sem reka mismunandi starfsemi í kringum íslenska hestinn.

Sveinn fór einnig yfir rannsóknir á sumarexemi en nú eru upprunnir afar spennandi og í raun stórkostlegir tímar í þessu verkefni. Búið er að leggja gríðarlega vinnu undanfarin ár í þróun forvarnarbóluefnis gegn sumarexemi sem skilað hefur bóluefni sem er afar efnilegt og virðist ætla að virka. Nú er því komið að lokafasa verkefnisins þar sem flytja á út 27 hross á svæði í Sviss sem er þekkt af miklu smitálagi og kanna hvernig bóluefnið virkar við raunaðstæður. Lokafasi þessi tekur þrjú ár en vísbendingar munu koma fram um virkni bólefnisins strax eftir fyrsta árið. Félag hrossabænda hefur stutt myndarlega við þetta framtak og útvegaði hrossin sem flutt voru út en um þæg reiðhross er að ræða sem munu nýtast í starfsemi í Sviss sem býður upp á reiðkennslu og útreiðar.

Það má því segja að spennandi tímar séu framundan í íslenskri hrossarækt, nú sem fyrr. Þetta er vetur breytinga að ýmsu leiti og spennandi verkefna sem verða vonandi til að færa allt okkar starf áfram veginn. Mikilvægt er að standa vörð um starfsemi Félags hrossabænda til framtíðar og tryggja félaginu fjárhagslegan rekstrargrundvöll enda um afar mikilvægt hagmunastarf fyrir heildina að ræða, hagsmunastarf sem fer ekki alltaf hátt.

Við viljum þakka hinum fjölmörgu sem lögðu leið sína á fundina kærlega fyrir komuna, þessir fundir eru okkur afar verðmætir til að kynna það sem er efst á baugi og fá að heyra skoðanir hestafólks og ræktanda á því og almennt öllu sem starfinu viðkemur. Þar fyrir utan eru þetta afar ánægjulegar ferðir enda hittum við skemmtilegt og kraftmikið hestafólk hvar sem leið okkar liggur um landið.

Sveinn Steinarsson

Þorvaldur Kristjánsson