Beint í efni

Fundað um verðlagsmál

21.02.2008

Verðlagsnefnd búvara fundaði í morgun vegna þeirrar stöðu sem uppi er vegna síhækkandi aðfangaverðs hjá bændum. Í nefndinni sitja fulltrúar landbúnaðarráðherra, Alþýðusambandsins (ASÍ), Bandalags starfsmanna ríkis og bæja (BSRB), Bændasamtakanna og Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM).


Að sögn Haraldar Benediktssonar formanns BÍ var fundurinn fyrst og fremst til þess að afla gagna og ræða málin. Ljóst þykir að grípa verður til aðgerða til að mæta þeim miklu hækkunum á aðföngum, s.s. á áburði og fóðri, sem bændur hafa mætt og munu sjá á næstu mánuðum og misserum. Engar ákvarðanir hafi hins vegar verið teknar um verðbreytingar á búvörum á fundinum.


Um fyrirhugaðar aðgerðir sem kynntar voru sem útspil ríkisstjórnarinnar í nýgerðum kjarasamningum vita menn fátt. Engin viðbrögð hafa borist frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu um hvað tillögurnar fela í sér. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kom fram að hún ætlaði að beita sér fyrir aðgerðum til að lækka vöruverð og þar væri einkum horft til matvælaverðs. Í þeim efnum verða sérstaklega skoðaðar frekari lækkanir á tollum og vörugjöldum.