Beint í efni

Fullvinna lífrænan úrgang til áburðarframleiðslu

24.06.2022

Landeldissamtök Íslands (ELDÍS) voru stofnuð á dögunum en aðild að samtökunum geta átt fyrirtæki sem hafa fengið útgefið rekstrar- og starfsleyfi til þauleldis á fiski á landi. Með þauleldi fisks á landi er átt við íslensk landeldisfyrirtæki sem ala fisk frá seiðum til slátrunar á landi eingöngu.

Undirrituð hefur verið viljayfirlýsing á milli Bændasamtaka Íslands og Landeldissamtaka Íslands (ELDÍS) um að vinna sameiginlega að fullvinnslu lífræns úrgangs til áburðarframleiðslu á Íslandi. Þannig er þegar hafin ein af þeim framtíðaraðgerðum sem lögð var til í Spretthópnum sem skilaði tillögum sínum til matvælaráðherra á dögunum. Með viljayfirlýsingunni og samstarfinu er stefnt að því að fá hagaðila að verkefninu, greina fýsileika þess, kosti og galla, sækja um styrki og þróa umgjörð og tæknilausnir. Lífrænn úrgangur og hliðarafurðir eru orðnar enn mikilvægari auðlindir en áður til áburðarnotkunar í ljósi mikilla hækkana á innflutum tilbúnum áburði. Hlutverk BÍ og ELDÍS næstu mánuði verður að vinna að sameiginlegri umsókn í samkeppnissjóði á sviði loftlags- og umhverfismála á grundvelli þeirrar hugmyndafræði að með innlendri endurnýtingu á lífrænum efnum sem falla til við landbúnað og landeldi sé hægt að framleiða áburð sem mætir þörfum innanlandsmarkaðar og þannig stuðla að aukinni sjálfbærni í íslenskum landbúnaði.

Aðilar að ELDÍS eru Landeldi hf., Samherji hf., Geo Salmo, Matorka, ILFS í Vestmannaeyjum. Rúnar Þór Þórarinsson frá Landeldi hf., verður stjórnarformaður hins nýstofnaða félags.