Beint í efni

Fullveldisfernur komnar í búðir

05.11.2018

Laugardaginn 3. nóvember leit dagsins ljós afrakstur samstarfs afmælisnefndar fullveldis Íslands og Mjólkursamsölunnar þegar sérstakar fullveldisfernur komu í búðir. Fernurnar prýða sex mismunandi textar og myndskreytingar um markverða atburði sem áttu sér stað á árinu 1918. Fróðleiksmolarnir um fullveldisárið verða á mjólkurfernunum út afmælisárið og er samstarfið liður í að færa fræðslu um fullveldisárið inn á sem flest heimili í landinu.  

„Saga mjólkuriðnaðar á Íslandi er samofin fullveldisöldinni. Fyrsti vísirinn að mjólkuriðnaði voru rjómabúin svokölluðu sem áttu stutt blómaskeið í upphafi 20. aldar en lögðust flest niður eftir 1918. Með aukinni þéttbýlismyndun á öðrum og þriðja áratugi 20. aldar skapaðist markaður fyrir mjólk og mjólkurvörur og árið 1927 voru sett lög á Alþingi sem heimiluðu ríkissjóði að greiða fjórðung af stofnkostnaði mjólkurbúa. Í kjölfarið voru stofnuð mjólkursamlög víða um land og urðu þau flest 19 talsins. Á fullveldisöldinni hefur þróun mjólkurframleiðslu og mjólkuriðnaðar tekið miklum framförum í kjölfar tækninýjunga og nú er hlutfall mjólkur frá kúabúum sem tekið  hafa mjaltaþjóna í notkun eitt það hæsta í heiminum.“ segir í tilkynningu frá afmælisnefndinni.

Samstarf afmælisnefndar við Mjólkursamsöluna er liður í stærra verkefni sem afmælisnefnd var falið og miðar að því að vekja áhuga ungs fólks á fullveldisárinu og þeim merka áfanga sem náðist með sambandslögunum árið 1918. Mjólkursamsalan hefur allt frá árinu 1994  beitt sér fyrir eflingu móðurmálsins og var hugmynd afmælisnefndar um samstarf því vel tekið af fyrirtækinu. Mjólkurfernur koma við sögu á borðum flestra landsmanna á degi hverjum og eru þær því sterkur og skemmtilegur miðill til að koma jákvæðum skilaboðum og fróðleik á framfæri. Er það von allra sem að verkefninu koma að fernurnar veki áhuga og athygli fólks á öllum aldri.