Beint í efni

Fulltrúafundir – Fulltrúafundur 2015

24.11.2015

Fulltrúafundur LK 24. nóvember 2015 haldinn í Reykjavík.

 

1.Fundarsetning.

 

Sigurður Loftsson formaður LK setti fund og kynnti fundarefnið, fundarmenn af Austurlandi hafa ekki náð að komast á fundinn vegna forfalla í flugi en þeir munu væntanlega ná að fylgjast með fundinum í gegnum skype,  aðrir aðalfundarfulltrúar eru mættir á fundinn.

 

Tilnefnd voru sem fundarstjórar þau Jóhannes Torfason og Laufey Bjarnadóttir voru þau samþykkt sem fundarstjórar. Fundarritari var tilnefndur  Runólfur Sigursveinsson og var það samþykkt.

 

2. Meginlínur nýrra búvörusamninga – Sindri Sigurgeirsson formaður BÍ.

Sindri sagði frá því  að frá byrjun september hafi fulltrúar bænda í samninganefnd og fulltrúar ríkisins rætt meginlínur tilvonandi samnings um starfsskilyrði landbúnaðar frá 2017 til ársins 2026.

Áherslur bænda hafa verið mótaðar á aðalfundum LK, LS og SG auk mótaðar tillögur Búnaðarþings 2015. Hugsunin hefur verið einn rammasamningur með þremur undirsamningum og ef til vill fleirum. Fór yfir markmið BÍ sbr. ályktun Búnaðarþings nr, 28/2015.

 

Áherslur ríkisvaldins í viðræðunum í upphafi var að stefna í átt til almennra stuðningsforma en sníða jafnframt af galla núverandi kerfis.

 

Búið að gera tollasamning við ESB sem veldur erfiðleikum í samningsgerðinni en hins vegar er hægt að fara fram á ákveðnar breytingar á tollvernd gagnvart mjólkurframleiðslunni. Núna er ekki á borðinu að gera fleiri búgreinasamninga, undantekning er þó að vilji er til að útfæra sérstaklega stuðning við geitfjárrækt. Sérstakar viðræður verða um fjárfestingastuðning við aðrar greinar vegna aukinna aðbúnaðarkrafna. Rætt verður við félögin beint utan við samningana.

Samkomulag er um 10 ára samning, vilji er til að efla sérstaklega lífræna ræktun. Mikil vinna er eftir að  útfæra stærstu búgreinasamningana.

Meginatriði í stærri samningunum er að greiðslumark sem gengur kaupum og sölum hverfi á samningstímanum, tvær endurskoðanir 2019 og 2023. Stuðningur færist í afurða- og gripagreiðslur.

 

3. Stefnumörkun samningsaðila vegna samnings um starfsskilyrði nautgriparæktarinnar – Sigurður Loftsson formaður LK.

Sigurður ræddi þá sameiginlegu sýn sem hefur orðið til í ljósi samningsviðræðna hingað til. Gat um ályktun síðasta aðalfundar LK árið 2015 um samningsmarkmið nýs samnings við nautgripabændur. Meginlínurnar eru 10 ára samningur, stuðningsgreiðslur nýtist bændum betur, horfið frá kvótakerfi á miðjum samningstíma. Verðlagningin verði þróuð að breyttu fyrirkomulagi.

 

Endurskoðunarákvæði verði 2019 og 2023 og fyrri endurskoðunin horfi til þróunar greinarinnar fyrstu ár samningsins. Sú síðari marki upphaf að næsta samningi. Árin 2017-2020 verður heildargreiðslumark að hámarki það sama og á árinu 2016. Heildargreiðslumark sett fast og síðan aflagt frá og með ársbyrjun 2021. A-greiðslur fylgi lögbýli, heildarupphæð svipuð 2017 og hún er 2016, lækka síðan um 5% á ári 2018 til 2020. Framleiðsluskylda A-greiðslna verði ákveðin með sama hætti og nú en að hámarki 80%. Framsali verði hætt frá 1. janúar 2017 en hins vegar innlausnarskylda á greiðslumarki. Framlög verði verðtryggð. B- og C-greiðslum slegið saman í einn lið og greiddar á alla innvegna mjólk, skipt í 12 jafna hluta. Gripagreiðslur tvöfaldaðar á  fyrsta ári samnings, sérákvæði um holdakýr fellur niður við upphaf samnings. Tillaga að fjöldamörkum vegna gripagreiðslna verði rýmkaðar verulega;  100% greiðsla á 1-120 kýr, 75% greiðsla á 121-140 kýr, 50% greiðsla á 141-160 kýr, 25% greiðsla á  161-180 kýr og yfir 181 kýr komi engar gripagreiðslur, eftir það skerðast heildargreiðslur í skrefum einnig, bú með yfir 260 kýr fá engar gripagreiðslur. Greitt verði að hámarki á 30.000 kýr, er nú að hámarki 27.400 kýr.

 

Kynbóta- og sæðingastarfsemi verði með sama hætti og áður, renni til Nautastöðvar og sæðinga. Jarðræktarstuðningur, nýliðunarstuðningur og þróunarfé færist í rammasamning landbúnaðarins. Rætt um að jarðræktarstuðningur verði tvöfaldaður frá því sem nú er.

 

Rætt um stuðning við aukin gæði nautkjöts, greitt á innlagða gripi í ákveðnum gæðaflokkum skv. EUROP-kerfi. Auk þess stuðningur við einangrunarstöð. Þá er rætt um fjárfestingastuðning og þá varðandi nærumhverfi gripa, skjól, meðhöndlunaraðstöðu og geymslurými búfjáráburðar. Allt að 40% stofnkostnaðar, þó aldrei meiri stuðningur við einstakar framkvæmdir en 10% af heildarupphæð fjárfestingastuðningsins hvert ár.

 

Varðandi afurðaverð verði miðað við heimild til samstarfs skv. búvörulögum, þ.e. söfnun, úrvinnsla og dreifing mjólkur og mjólkurafurða. Móttökuskylda á mjólk og afhendingarskylda til smærri vinnsluaðila. Bændur og iðnaðurinn geri sameiginlega tillögu um verðlagningu ársfjórðungslega, þ.e. lágmarksverð mjólkur innan greiðslumarks meðan það er enn við lýði. Tillaga tekin til meðferðar af þar til bæru stjórnvaldi, hliðstætt við orku- og fjarskiptamarkað.

 

Fulltrúar bænda leggja áherslur á að tollar á mjólkurvörum verði leiðréttir þannig að tollvernd skv. GATT-samningi frá 1995 haldi verðgildi, tollvernd verði þannig færð til samræmis við upphaflegt verðgildi í SDR. Þetta væri mótvægisaðgerð gagnvart tollasamningi við ESB.

 

Ekki hefur enn verið samið um upphæðir, unnið út frá svipuðum fjárhæðum og í núgildandi samningi. Rætt um hámarksstuðning á hvern bónda/bú sem ákveðið hlutfall af heildarstuðningi, líklegt 0,5 til 1%. Þá hafa fulltrúar bænda lagt áherslu á að heimilt verði að gjaldfæra greiðslumark sem keypt hefur verið eftir 1. janúar 2011.

 

4. Sviðsmyndir með væntanlegum áhrifum á einstök bú og horfur í þróun afurðaverðs hér heima og erlendis – Baldur Helgi Benjamínsson framkvæmdastjóri LK og Bjarni R. Brynjólfsson skrifstofustjóri SAM.

 

Baldur Helgi ræddi viðskipti síðustu ára með greiðslumark í mjólk en núverandi fyrirkomulag  um kaup á greiðslumarki hefur verið  í gildi í 5 ár. Setti upp núvirði viðskipta frá árinu 1994 til ársins 2015. Kaup og sala var yfir milljarður króna á ári í nokkur ár. 69 milljónir lítra hafa skipt um hendur eða sem svarar til um 12 kr/l yfir allt tímabilið fyrir utan fjármagnskostnaðinn. Út frá núvirtu meðalverði má sjá t.d. að kaup árið 2005 sem væri í dag (núvirt) 600 kr/l.

 

Gat um nýlega spá erlendis frá um að mjólkurverð í Evrópu næstu misseri. Verð þar er um 49 kr/l miðað við núverandi gengi íslensku krónunnar. Raunhæft meðalskilaverð  á útflutningi sé nú um 40 kr/l. Miklar sveiflur hafa verið undanfarin ár í mjólkurverði til evrópskra bænda. Ræddi mismunandi sviðsmyndir út frá annars vegar stuðningsgreiðslum 2016 og hins vegar 2021, út frá mismunandi afurðastigi og að viðkomandi bú séu að framleiða í samræmi við greiðslumark eða að greiðslumarkið sé 80% af framleiðslu búanna.

 

Ræddi síðan um mögulega aukningu framleiðslu næstu ár, ef framleiðslan eykst um 1% á ári yrði framleiðslan um 163 milljónir lítra árið 2026. Ef framleiðsluaukningin yrði 5% ár ári þá yrði framleiðslan árið 2026 um 239 milljónir lítra.

 

Ræddi loks þann breytileika sem er í bústjórn einstakra búa, bar saman EBITDU á tæpum 40 kúabúum, er um 50 kr/l á hæstu búunum en fer niður í rúmar 20 kr/l á lökustu búunum.

 

5. Hvers vegna breytingar? – Dr. Daði Már Kristófersson forseti félagsvísindasviðs Háskóla Íslands.

 

Daði Már ræddi núverandi stuðningskerfi og þá væntanlegu breytingum sem felast í breyttu kerfi. Nauðsynlegt er að takast á við stöðuna og sjá fram á nýliðun í greininni og sókn næstu áratuga. Yfir 60% landbúnaðarstuðningsins 2011 var úthlutað á grundvelli framseljanlegs stuðnings. Nýliðar þurfa að kaupa sig inn í stuðningskerfið, kerfið leiðir til hás fjármagnskostnaðar búanna og þeir sem hætta búskap taka til sín stóran hluta af hinum virka stuðningi. Eftir því sem kerfið er lengur í gildi minnkar virkni þess.

 

Reiknað er með afnámi kvótakerfis á nokkrum tíma en framleiðsluskylda verði áfram að ákveðnu marki en heimild til innlausnar kvótans. Þá verði breytt fyrirkomulagi verðlagningar, frá tvískiptu kerfi yfir í eitt verð fyrir alla mjólk. Að auki munu þessar breytingar hafa í för með sér aukningu gripagreiðslna en framseljanlegur stuðningur lækkar. Þetta mun leiða til þess að önnur stýring verður til og þá í gegnum afurðaverð. Væntanlega mun verð taka mið af vegnu meðaltali verðs á innanlandsmarkaði og verðs á útflutningsmörkuðum. Þessi breyting mun hvetja til framleiðsluaukningu. Í fyrirliggjandi drögum er reiknað með aðlögun í fimm ár. Vega þarf saman ólíkar aðgerðir svo tryggja megi jafnvægi á markaði sem er mjög mikilvægt í kerfi sem er að taka breytingum.

 

Svo virðist að þessi nálgun í drögum að samningi sé  skynsamleg. Miklvægt að nýtt markaðsfyrikomulag fái tækifæri að þroskast og hins vegar er einnig mikilvægt að mat og endurskoðun eigi sér stað á samningstímanum eins og gert er ráð fyrir í drögunum.

 

6. Umræður.

Sveinbjörn Sigurðsson fagnaði þeirri kynningu sem komin er. Höfum ályktað um þessar tillögur í þessa veru undanfarin ár á aðalfundum LK. Fýsilegra í dag að fara út í búskap skv. þessum drögum en var í upphafi núverandi kerfis. Í dag eru hins vegar komnir inn stórir aðilar með eigið fjármagn úr öðrum atvinnugreinum. Mikilvægt að skilyrða hámarksstuðning við ákveðna bústærð. Eins hafa margir beðið eftir þessum samningi m.t.t. stífra reglugerðaákvæða og væntanlega næst fjármagn inn í þann lið sérstaklega. Hvatti til að gengið yrði til samninga á þessum grunni.

 

Valgerður Kristjánsdóttir ræddi tollasamninginn og hættuna á auknum innflutningi t.d. osta og gæti þar af leiðandi þýtt verulegan samdrátt á innlendum framleiðsluvörum kúabænda.

 

Gústaf Jökull Ólafsson hvatti til þess að menn stæðu í lappirnar í að  verja  tollverndina. Á sama hátt þyrfti að takmarka möguleika manna sem koma með fjármagn úr öðrum greinum atvinnulífsins. Ef fjölskyldubúið á að fá að lifa, þarf að passa þetta. Hertar reglur um aðbúnað eru jákvæðar  og því er jákvætt að til sé staðar sérstakur stuðningur í þessa hluti. Mikilvægt að horfa á viðhorf almennings.

 

Hermann Ingi Gunnarsson. Margt gott í þessum tillögum en vantar meira um afurðastöðvaverðið í kynningu Sigurðar formanns. Til að tryggja afurðastöðvaverð þurfum við hins vegar ákveðna stýringu. Engin rekstrartrygging er í tillögum að breyttu kerfi og því vil ég leggja fram eftirfarandi tillögu:

 

„Fulltrúafundur 2015 beinir því til stjórnar LK að viðhalda framleiðslustýringu í greininni og jafnframt að tryggt verði að stuðningur við greinina sé að stærstum hluta beintengdur við framleiðslu afurða.

Greinargerð. Í ljósi gjörbreyttra aðstæðna á markaði frá aðalfundi 2015 þar sem nú er komið upp offramleiðsluástand auk mikillar óvissu á heimsmarkaði má ljóst vera að það þjónar engra hagsmunum að hverfa frá framleiðslustýringu. Sérstaklega í ljósi fenginnar reynslu af slíku ástandi. Hvort sem horft er til bænda eða  neytenda. Því er mikilvægt að tryggja megi greininni stöðugt framleiðsluumhverfi.

 

Eiríkur Egilsson. Velti fyrir sér þeim tillögum sem verið er að boða. Sýnist að þær tillögur sem liggja fyrir muni þýða að tekjur muni lækka hjá þeim sem hafa keypt greiðslumark á síðustu 10 árum og haldið sig innan greiðslumarksins í framleiðslu. Skiptir miklu máli að skerða ekki tekjur núverandi bænda. Mörg bú munu ekki ná að framleiða upp í sitt greiðslumark á þessu ári og þurfa að endurgreiða hluta af sínum greiðslum.

 

Daði Már. Allir eru að leita að ákveðinni lausn á afnámi kvótakerfis. Hins vegar  hefur sú lausn ekki fundist sem veldur ekki ákveðinni aðlögun á verði. Það er engin leið sársaukalaus. Megum ekki gleyma því að á næstu fimm árum er ákveðin aðlögun í boði.

 

Guðrún Eik Skúladóttir ræddi núverandi stöðu og velti fyrir sér hvað biði með breyttu kerfi. Hvað gerist ef engin framleiðslustýring er til staðar. Þola búin þetta, sérstaklega þau bú sem eru nýlega uppbyggð.

 

Valdimar Guðjónsson þakkaði framsögur og sagðist vera allsáttur við það sem kynnt hefur verið. Við getum verið bærilega sátt sem erum í framleiðslu núna og ætlum að vera áfram. Hugsanlega mætti gefa rýmri tíma í aðlögun en hins vegar eru þarna endurskoðunarákvæði sem er jákvætt. Skiptir máli að samningsaðilar eru sammála um að eigngera ekki kvótann. Mikilvægt að verja tollverndina og uppfæra gildin frá 1995.

 

Aðalsteinn Hallgrímsson þakkaði fyrir fundinn. Spurning hvernig við höndlum offramleiðslu ef hún er veruleg. Þurfum að leita leiða til að takmarka framleiðslu við ákveðið magn. Aðalsteinn lagði fram tillögu til umræðu á fundinum en mæltist ekki til afgreiðslu hennar á fundinum, frekar sem innlegg til fundarins. Tillagan var eftirfarandi:

 

„Fulltrúafundur LK haldinn 24.nóv. 2015 ályktar að í næsta búvörusamningi um mjólkurframleiðslu verði inni ákvæði um hámarks mjólkurmagn sem afurðastöðvum er skylt að taka á móti frá bændum. Þetta hámark skal taka breytingum eftir sölu á innanlandsmarkaði á hverjum tíma. Skiptingu á milli bænda skal vera á höndum ráðs sem skipað er af fulltrúm afurðastöðva, ríkisvalds og bændasamtaka. Hverjum og einstökum bónda er úthlutað rétti til eins árs í senn í réttu hlutfalli við rétt frá síðasta ári. Þessi réttur er ekki framseljanlegur og ef framleiðandi hættir framleiðslu skilar hann honum til ráðsins sem deilir honum síðan til þeirra sem sótt hafa um aukningu.“

 

Aðalsteinn ræddi síðan um hámarksstuðning til búa, stuðningur verði sem nemur stærð tvöfalds meðalbús. Staða bænda er gríðarlega misjöfn. Við ættum að hafa gagnagrunn t.d. frá 100 kúabúum um útgjöld á hverjum tíma til að sýna kostnað við framleiðsluna.

 

Jórunn Svavarsdóttir spurði hvernig verð á afurðum yrði ákveðið. Munu afurðastöðvar ákvarða verð einhliða eftir árið 2021?

 

Sigurður Loftsson þakkaði umræðurnar sem af er. Hugsunin varðandi verðmyndunina er þannig að skoða lykilþætti í kostnaði, t.d. kjarnfóður, áburður og búvélar. Þetta myndi skapa grunnverðmyndun til bænda. Meðan kvótinn er til staðar skapist þessi aðferðafræði sem verði nýtt áfram til verðlagningar eftir árið 2021.

Mikilvægt er að hafa þessi endurskoðunarákvæði í endanlegum samningi. Erfitt að hamla nýjum stórum aðilum að byrja kúabúskap. Það sem við getum haft áhrif á er form stuðningsgreiðslnanna en erfitt að banna mönnum að kaupa kvóta í núverandi kerfi.

Við höfum ávallt áhyggjur af þeirri stöðu sem við erum í. Ein af þeim leiðum sem við höfum í að stýra framleiðslu eru gripagreiðslur, sem eru í eðli sínu framleiðsluletjandi.

 

Valgerður Kristjánsdóttir. Er mögulegt að seinka aðeins því að leggja af kvótann. Eins með verðlagningu í breyttu kerfi, mögulega getur Egill Sigurðsson sagt frá viðhorfi sínu til þessara draga.

 

Samúel U. Eyjólfsson Ræddi framleiðslustýringuna og lagði áherslu á að halda henni áfram. Mikið væri í pípunum í byggingum og eins er spurning um áhrif tollasamningins við ESB. Eigum við að festa ákveðið verð á kvóta til að viðhalda viðskiptum og stöðugleika í framleiðslu. Ræddi síðan verðlagningu, eitt eða tvö verð. Síðan er það spurning um túlkun á nýjum samningnum, verður þetta túlkað sem útflutningsbætur?

 

Egill Sigurðsson. Afurðastöðvaverð myndast af afkomunni bæði hjá vinnslunni og bændunum. Um 100 bú björguðu í raun að ekki þyrfti að flytja inn mjólkurvörur á innanlandsmarkaði. Seinni hluta árs hefur orðið mun meiri aukning í innvigtun en búist hafði verið við. Tollverndin er ákaflega mikilvæg.

 

Jóhannes Torfason sagði að árið 1985 var settur kvóti sem við búum við enn.Þá voru um 1.800 kúabændur en eru núna um 600. Árið 2013 var í raun umbreytingaár til aukinnar framleiðslu. Þessi drög núna virðist vera í takt við stefnumörkun bæði BÍ og LK auk stjórnarflokkanna. Verðum að viðhalda afurðavinnslunni í eigu bænda. Þessi drög horfa til framtíðar þó svo ekki sé nema til 10 ára, þetta er skynsamleg málamiðlun. Mikilvægi tollverndarinnar er gífurlegt, ef hægt verði að uppfæra tölurnar frá 1995 væri það geysilega gott.

 

Sigmundur Sigmundsson sagðist binda miklar vonir við endurskoðunarákvæði í drögum að samningi og færa mögulega til stuðning ef þyrfti. Hvaða staða kemur upp ef bændur fella samning í atkvæðagreiðslu? Vakti athygli á þeim aðilum sem eru að þjónusta landbúnaðinn á hverjum tíma – og  þeir eru ófáir.

 

Þórólfur Ómar Óskarsson ræddi áhyggjur manna af offramleiðslu. Núverandi kerfi er barn síns tíma en mögulega má  einfaldlega fara í slíkt kerfi aftur ef illa fer í verðlagningarmálunum í þeim tillögum sem boðaðar eru til breytinga.

 

Pétur Diðriksson. Lýst vel á fyrirliggjandi drög, einmitt  m.t.t. nýliðunar í greininni. Tækifærin sem felast í þessum drögum eru mikil. Við þurfum að hugsa um núverandi bændur og eins þá nýliða sem eru að byrja í starfi. Nú er ástæða til að breyta um fyrirkomulag í þeim anda sem birtast í drögunum. Ef þessi drög verða ekki samþykkt af bænda hálfu, þá mun pólitíkin ráða för um endanlega niðurstöðu. Engin leið til að stýra framleiðslunni í nýju kerfi en hins vegar hægt að hafa áhrif í gegnum stuðningsgreiðsluform.

 

Jón Gíslason ræddi samningsdrögin eins og þau liggja fyrir, ástæða breytinga er sú að kvótakerfið kostar of mikið, gerir nýliðun erfiða, þarna eru mikilvæg atriði varðandi tollvernd, svo virðist að tryggt verði ákveðið framleiðslumagn til útflutnings. 30% umframframleiðsla þýðir 13-14 kr lækkun afurðaverðs sem er væntanlega svipuð krónutala og kvótakerfið kosta árlega í dag. Hvað geri ég ef ég stend frammi fyrir lækkun verðs ? Ég dreg úr kostnaði, t.d. í kjarnfóðri, eins með erfiðar kýr, slátra þeim. Höfum ákveðin stjórntæki í eigin rekstri hvert og eitt.

 

Hermann Ingi Gunnarsson sagði ef þessi samningsdrög gengu eftir þá þyrftu  menn að átta sig á því að hluti bænda mun fara á hausinn. Væntanlega væru það yngri bændurnir sem hefðu staðið í framkvæmdum, eftir yrðu aðrir bændur, minna skuldugir og jafnvel með starfsemi annars staðar sem héldu velli. Ef  núverandi kerfi yrði áfram þá þyrfti að velta fyrir sér að setja þak á kvótann, þ.e. söluverð hans.

 

Sævar Einarsson ræddi skiptingu stuðningsins, þ.e. þegar A-greiðslan minnkar og hverfur, hvert sá stuðningur færi, hann gæti  m.a. farið í stuðning í gripagreiðslur. Þjóðir í nágrannalöndum hafa farið þá leið að útdeila hluta stuðnings á alla gripi. Væntanlega munu allmagrir bændur óska eftir að fá að innleysa kvóta og hætta búskap.

 

Þórólfur Ómar Óskarsson ræddi málið m.t.t þess að ef til dæmis einhver skuldar  100 millur og er með  kvóta fyrir einungis hluta framleiðslunnar en framleiðir mun meira, núna á fullu afurðastöðvaverði. Ef framleiðslan á landsvísu er mun meiri en markaður er fyrir, á  hann þá á að fara að kaupa kvóta fyrir t.d. 40 millur til að halda áfram svipaðri framleiðslu og látum neytandann borga?

 

Laufey Bjarnadóttir óskaði eftir að fá nánari skýringar á greiðslum á ákveðin gæði í nautakjöti. Af hverju er þessi 80% viðmiðun í A-greiðslu? Af hverju er tröppun á A-greiðslum svona hæg til að byrja með?

 

Eiríkur Egilsson spurði um inngrip ríkisins í kaup á kvóta. Hver sú upphæð yrði og hvort hún færi endanlega út úr greininni.

 

Laufey Bjarnadóttir velti fyrir sér tvöföldun gripagreiðslna, og mengunarþátt gripanna, er ríkisvaldið tilbúið í þá umræðu?

 

Samúel U. Eyjólfsson velti fyrir sér gæðaálagi á nautakjötið, kemur þetta inn á íslenska gripi ef miða á við EUROP-kerfið? Hvað með framleiðsluskyldu fyrir árið 2016 og  hvert yrði þak á greiðslur á bú, m.t.t. fjölda aðila að búinu.

 

Aðalsteinn Hallgrímsson ræddi markaðssetningu á erlendan markað fyrir mjólkurvörur, er möguleiki á að ríkið sé tilbúið að setja fjármuni í þennan lið. Þörf á að skýra þessi drög vel fyrir hinum almenna kúabónda. Eins þarf að skýra vel málin fyrir lánastofnunum.

 

Jóhann Nikulásson þakkaði fyrir málefnalegar umræður á fundinum, eðlilegt að skoðanir séu skiptar um þessi drög þar sem verið er að hverfa frá kvótakerfinu á nokkrum árum. Eðlilegt að skoða þessar tillögur út frá hlut starfandi bænda og nýliða. Rætt hefur verið á fundinum um hvað myndi gerast ef við gerum ekkert til að breyta núverandi kerfi, þá myndum við fá aðila inn á markaðinn utan kerfisins líkt og Mjólka reyndi að gera á sínum tíma.

 

Hermann Ingi Gunnarsson sagðist ekki hafa neina patentlausn m.t.t. að viðhalda núverandi kerfi. Spurning er hins vegar hvernig nýtt kerfi ræður við umframmjólkina.

 

Hallur Pálsson spurði um verðákvarðanir á nýmjólk. Í samanburði við nágrannalöndin er verð hér  mjög lágt á mjólk til neytenda.

 

Guðný Helga Björnsdóttir ræddi stöðuna og núverandi kvótakerfi og það öngstræti sem það væri komið í, m.a. út frá erindi Daða Más fyrr í dag. Eðlilegt að menn séu óvissir um hvað bíður. Í nýju kerfi verða menn ekki beðnir um 100% framleiðsluskyldu. Aðstæður manna eru mismunandi en eigum við að sætta okkur við kerfi sem kostar svona mikið sbr. orð Baldurs fyrr í dag.

 

Sindri Sigurgeirsson þakkaði fyrir umræður á fundinum. Eðlilegt að menn hafi áhyggjur af mögulegri offramleiðslu en þetta hefur m.a. verið rætt í samningsnefndinni. Í morgun hitti hann og Sigurður Loftsson bankastjóra Arionbanka og annan fulltrúa bankans til að kynna drögin sem kynnt voru hér í dag. Engar athugasemdirnar komu fram frá fulltrúum Arion um breytta skipan samnings m.t.t. fyrirgreiðslu til bænda. Reynt verður að ná fundi bankastjóra Landsbankans til að kynna stöðuna á sama hátt á næstu dögum. Sömuleiðis verður efnt til sérstaks fundar með fulltrúum lánastofnana þegar nýr samningur liggur fyrir í fyllingu tímans, þar sem rædd verða ýmis mál vegna fjármögnunar landbúnaðarins til framtíðar.

 

Sigurður Loftsson þakkaði mjög góðar og nauðsynlegar umræður á fundinum. Rætt hefur í viðræðunum um að ca. 2 milljarðar verði  í A-greiðslur fyrsta árið, niðurtröppunin tengist endurskoðuninnni, úreldingakostnaðurinn er ca. 80 kr/l. Hvað verður um peningana? Þeir munu færast yfir á aðra liði samningsins, háð þó endurskoðunarákvæðum samningsins. Ekki hefur verið rætt um tengingu loftlagsumræðunnar og gripagreiðslna. Einstakir bændur geta leyst til sín A-greiðslurnar og undirbúið sig til framtíðar í framleiðslu eða horfið til annarra starfa. Líklegt að töluvert mörg bú vilji fara út á næstu árum út frá mismunandi ástæðum, bæði m.t.t. aldurs og eins hertra krafna um aðstöðu til framleiðslu.  Við höldum  áfram svipuðu kerfi til að byrja með,  þeir sem eru með greiðslumark njóta áfram forgangs fyrstu árin. Tollamálin eru enn í umræðunni og ekki komin niðurstaða í það mál. Í breyttu verðlagningarkerfi mun verð á nýmjólk eitthvað breytast út frá verðþoli á markaði. Með tilkomu breyttrar verðákvörðunar og eitt verð munum við þurfa að feta okkur áfram í breyttu kerfi og þurfum að fara varlega, höfum stuðningsgreiðslurnar og  endurskoðunarákvæðin til þess og ríkisvaldið er tilbúið að vinna áfram að málinu. Varðandi nautakjötið þá kemur sá stuðningur í gegnum slátrun í sláturhúsunum, óháð því hvort kjötið er tekið heim í vinnslu.

 

Í lok umræðu var borin fram fyrrgreind tillaga Hermanns Inga. Atkvæðu féllu þannig að 8 sögðu já en 16 sögðu nei og því var tillagan felld.

 

7. Önnur mál

Jón Gíslason ræddi síðustu ákvörðun verðlagsnefndar um hækkun á mjólkurverði til bænda. Hverjar eru skýringar fulltrúa LK í verðlagsnefnd á þetta lítilli hækkun til bænda?

 

Sigurður Loftsson ræddi um framleiðsluskylduákvæði fyrir næsta ár, ekkert ákveðið í þeim efnum enn. Bíður ákvörðunar ráðuneytis. Varðandi verðákvörðunina síðustu, þá lækkaði fóðurverð milli tímabila og í heild lækkaði breytilegur kostnaður, á móti hækkaði almenni launahlutinn, þó svo allar launahækkanir hafi ekki verið komnar fram þegar verð til bænda hækkaði.

Í lok umræðu kom fram hjá fundarstjórum að  31 sinni hafi fundarmenn  kvatt sér hljóðs á fundinum.

 

Sigurður Loftsson formaður LK lagði til að fundarritari og fundarstjórar myndu ganga frá fundargerð. Þakkaði enn og aftur fyrir fundinn og umræðurnar, þakkaði starfsmönnum fundarins vel unnin störf  og sagði fundi slitið kl. 17.07

 

Runólfur Sigursveinsson

Fundarritari

 

Laufey Bjarnadóttir (sign)

Jóhannes Torfason (sign)