Beint í efni

Fulltrúafundir – 01. f. 2000/2001

06.02.2001

 

Fundargerð fulltrúafundar Landssambands kúabænda 06.02.2001



Fulltrúafundur Landssambands kúabænda var haldinn í Súlnasal Hótel Sögu þriðjudaginn 6. febrúar 2001 og hófst kl. 11:00.

Þetta var gert:

1. Fundarsetning.
Þórólfur Sveinsson, formaður Landssambands kúabænda, setti fundinn og bauð sérstaklega velkomna landbúnaðarráðherra, Guðna Ágústsson, og aðstoðarmann hans, Sveinbjörn Eyjólfsson.

2. Skipun starfsmanna fundarins:

1. Kosinn fundarstjóri og varafundarstjóri.
Tillaga kom fram um Guðmund Þorsteinsson, Skálpastöðum, og var hún samþykkt samhljóða og tók hann þegar við stjórn fundarins. Hann bar síðan fram tillögu um að Gunnsteinn Þorgilsson, Sökku, yrði kosinn aðstoðarfundarstjóri og var hún samþykkt samhljóða.

2. Kosinn ritari.
Tillaga kom fram um að Gylfi Þór Orrason yrði ritari fundarins og var hún samþykkt samhljóða.

3. Könnun á mætingu fulltrúa.
    Fulltrúar á fundinum voru:
    Frá Mjólkursamlagi Kjalarnesþings:
    Kristján Finnsson, Grjóteyri
    Magnús Hannesson, Eystri-Leirárgörðum

    Frá Mjólkurbúi Borgfirðinga:
    Pétur Diðriksson, Helgavatni
    Guðmundur Þorsteinsson, Skálpastöðum
    Ásbjörn Pálsson, Syðri-Haukatungu II

    Frá Mjólkursamlaginu í Búðardal:
    Lára Hansdóttir, Á
    Guðrún Skarphéðinsdóttir, Kringlu, varamaður

    Frá Mjólkursamlagi Ísfirðinga:
    Árni Brynjólfsson, Vöðlum

    Frá Nautgriparæktarfélagi V-Hún:
    Jón Eiríksson, Búrfelli (varamaður)

    Frá Félagi austur-húnvetnskra kúabænda:
    Magnús Sigurðsson, Hnjúki
    Gróa Lárusdóttir, Brúsastöðum (varamaður)

    Frá Félagi kúabænda í Skagafirði:
    Þórarinn Leifsson, Keldudal
    Árni Sigurðsson, Marbæli

    Frá Búgreinaráði BSE í nautgriparækt:
    Stefán Magnússon, Fagraskógi
    Gunnsteinn Þorgilsson, Sökku
    Sigurgeir Pálsson, Sigtúnum
    Benjamín Baldursson, Ytri-Tjörnum (varamaður)

    Frá Félagi þingeyskra kúabænda:
    Sveinbjörn Sigurðsson, Búvöllum
    Atli Vigfússon, Laxamýri, varamaður

    Frá Nautgriparæktarfélagi Vopnafjarðar:
    Sigríður Bragadóttir, Síreksstöðum

    Frá Félagi nautgripabænda á Héraði og Fjörðum:
    Gunnar Jónsson, Egilsstöðum
    Jón Steinar Elísson, Hallfreðarstöðum (varamaður)

    Frá Nautgriparæktarfélagi Austur-Skaftafellssýslu:
    Eiríkur Egilsson, Seljavöllum

    Frá Félagi kúabænda á Suðurlandi:
    Birna Þorsteinsdóttir, Reykjum
    Gunnar Eiríksson, Túnsbergi
    Arnar Bjarni Eiríksson, Gunnbjarnarholti
    Grétar Einarsson, Þórisholti
    Elvar Eyvindsson, Skíðbakka II
    Sigrún Ásta Bjarnadóttir, Stóru-Mástungu
    Sigurður Loftsson, Steinsholti
    María Hauksdóttir, Geirakoti, varamaður
    Jóhann Nikulásson, Stóru-Hildisey

4. Staða og framvinda NRF-verkefnisins.
Þórólfur Sveinsson, formaður Landssambands kúabænda gerði í stuttu máli grein fyrir framvindu NRF-verkefnisins frá síðasta aðalfundi.

Snorri Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda, gerði í máli og myndum grein fyrir framkvæmdaáætlun NRF-verkefnisins og forsendum fyrir vali á gripum.

Þórólfur Sveinsson lagði fram og skýrði svohljóðandi tillögu stjórnar Landssambands kúabænda:

„Stjórn Landssambands kúabænda leggur til við fulltrúafund Landssambands kúabænda, haldinn á Hótel Sögu 6. febrúar 2001, að fundurinn ákveði fyrir sitt leyti að tilraunaverkefni með NRF-kúakynið verði frestað eftir að töku fósturvísa í Noregi lýkur. Jafnframt ákveði fundurinn að áður en fósturvísarnir verða settir í kýr í Hrísey fari fram atkvæðagreiðsla meðal mjólkurframleiðenda um framhald verkefnisins. Stjórn Landssambands kúabænda vinni tillögur um tímasetningu og form á atkvæðagreiðslu fyrir næsta aðalfund Landssambands kúabænda.“

Fundarstjóri gaf nú orðið frjálst um tillöguna.

Hrafnkell Karlsson gerði grein fyrir afstöðu stjórnar Bændasamtakanna til málsins. Mjög skiptar skoðanir hafa verið um þetta mál á meðal bænda og það fór mjög naumlega í gegnum búnaðarþing á sínum tíma. Á síðasta stjórnarfundi Bændasamtakanna var samþykkt tillaga sem er efnislega samhljóða þeirri tillögu sem hér er til umfjöllunar, þ.e. fyrir utan áformin um atkvæðagreiðslu, og var henni vísað til búnaðarþings. Hrafnkell kvað engin fagleg rök mæla með frestun tilraunarinnar, en umræðan í þjóðfélaginu hafi verið þannig að þetta mál væri orðið félagslega erfitt fyrir bændur. Því er eðlilegt að staldra nú við og endurmeta málið. Ferill rannsóknarverkefnisins er langur og þrepaskiptur og því hægt að taka ákvörðun á síðari stigum að hætta við án nokkurrar sjúkdómaáhættu. Hann kvaðst ávallt hafa verið stuðningsmaður þess að slík tilraun væri gerð enda teldi hann það skyldu sína sem forsvarsmaður bænda að leita allra leiða til að auka hagkvæmni í búrekstri. Ekki má hins vegar fórna meiri hagsmunum fyrir minni og hætta á að búfjársjúkdómar berist til landsins. Bændur eiga að nýta sér þann meðbyr sem nú er að finna í þjóðfélaginu með stuðningi almennings við íslensku kúna. Hann kvaðst hins vegar vera undrandi á því að stjórn Landssambands kúabænda legði til að farið skyldi í atkvæðagreiðslu um málið áður en haldið verði áfram með verkefnið. Eðlilegra væri að viðhafa atkvæðagreiðslu á síðari stigum þegar í ljós færi að koma hvað kæmi út úr tilrauninni. Að lokum kvaðst hann gera ráð fyrir að stjórn Bændasamtakanna myndi leggja málið fyrir búnaðarþing með svipuðum hætti og afgreiðsla þessa fundar kvæði á um.

Jón Steinar Elísson kvað tillögu stjórnar Landssambandsins hafa komið sér á óvart. Undirbúningur innflutningstilraunarinnar hefur staðið í nokkur ár en loks fékkst leyfi nú á haustdögum. Þetta mál er hins vegar ekki einkamál bænda og íslenskir neytendur eiga fullan rétt á að láta í ljós skoðun sína á því. Íslenskir neytendur og bændur búa við þá gæfu að geta treyst hver öðrum og sóknarfæri íslensks landbúnaðar liggja fyrst og fremst í framleiðslu hreinna og heilnæmra búvara í sátt við neytendur. Í gæðum felst fleira en verð og smekkur því að stöðugt aukin áhersla er lögð á framleiðsluaðferðir, dýravernd o.s.frv. Smithætta af mat hefur ekki verið hluti af íslenskum veruleika. Hann gerði að síðustu grein fyrir ályktun stjórnar Félags nautgripabænda á Héraði og Fjörðum vegna málsins.

Stefán Magnússon þakkaði greinargóðar skýrslur formanns og framkvæmdastjóra. Hann benti á að með ákvörðun um innflutningstilraunina væri verið að setja í gang ferli sem tæki heilan áratug í vinnslu. Í dag er staðan sú að við búum við þá gæfu að bæði stjórnvöld og neytendur eru okkur hagstæðir. Þó er ekki hægt að horfa fram hjá því að stuðningur þessara aðila getur breyst, og mun breytast, á þeim tíu árum sem umrædd tilraun tekur. Fyrir fáum árum voru mjólkurframleiðendur í einhvers konar gjörgæslu íslenskra stjórnvald með háværum röddum um lækkun afurðaverðs, niðurfellingu beingreiðslna og innflutning ódýrari matvæla. Á næstu tíu árum munum við væntanlega fara í gegnum ýmsar breytingar í okkar alþjóðlega umhverfi, t.d. með WTO-samningunum, breytingum á EFTA-samningnum og umræðum, og jafnvel umsókn, um ESB-aðild. Hver verður staða okkur eftir tíu ár ef illa fer og aftur verður komin upp hörð krafa um um innflutning matvæla, lækkun beingreiðslna með stjórnvöld sem lítinn áhuga hafa á landbúnaði og neytendafrömuðum aftur komnum í gamla haminn? Það er farsælla að halda málinu áfram en flýja af hólmi og láta í veðri vaka að ófagleg vinnubrögð hafi verið viðhöfð við þessa framkvæmd sem stefndu lífsviðurværi okkar í hættu. Bændur eru sér hins vegar gjarnan sjálfum verstir og málflutningur þeirra bænda sem vilja enga tilraun gera flokkast einfaldlega undir skemmdarverkastarfsemi. Mjólk úr íslenskum kúm, sem munu koma til með að hafa eitthvert hlutfall erlenda erfðavísa, verður ekki þar með útlendsk mjólk. Við munum eftir sem áður framleiða heilnæmar vörur sem byggjast að mestu á innlendum aðföngum. Íslenskir kúabændur munu eftir sem áður leggja áherslu á að bjóða neytendum upp á góða, örugga og heilbrigða vöru þó að þeir séu einnig stöðugt leitandi leiða til að auka hagkvæmni í rekstri sínum. Við verðum að gera tilraunir til þess að sjá hvar íslenski kúastofninn stendur í samanburði við erlenda og sjá hvernig hægt er að gera hann betri. Hann kvaðst hugsanlega geta sætt sig við að verkefninu verði frestað fram á haustið á meðan mesti stormurinn gengur yfir en tillaga stjórnar um að málið verði ekki sett í gang aftur fyrr en að undangenginni atkvæðagreiðslu væri óásættanleg. Þá væri hreinlegra að hætta við málið. Eðlilegra væri að slík atkvæðagreiðsla fari fram á meðal mjólkurframleiðenda við lok tilraunaferilsins.

Þórarinn Leifsson tók undir fyrri hluta tillögunnar en var efins um atkvæðagreiðsluna og efaðist um að hún myndi skila svörum við réttum spurningum. Hann taldi það mundu skila betri árangri að nota tímann fram á haustið til þess að gera ítarlega skoðanakönnun á meðal mjólkurframleiðenda, og jafnvel einnig neytenda, og fá svör um hvað þeir vilja. Í þessari umræðu er verið að rugla saman tveimur atriðum, þ.e. annars vegar er verið að tala um eina afmarkaða innflutningstilraun og hins vegar erfðablöndun í íslenska kúastofninn. Hann benti á að það gras og korn sem ræktað væri á Íslandi væri uppfullt af erlendu erfðaefni. Menn tala gjarnan um íslenskt bygg, en hvaðan er erfðaefnið í íslenska bygginu? Það er allt erlent, en byggið er engu að síður íslenskt. Hann lýsti sig fylgjandi því að gerð verði stór skoðanakönnun um þetta mál, fremur en að farið verði með afmarkaðan þátt þess í almenna atkvæðagreiðslu á meðal mjólkurframleiðenda.

Sigurður Loftsson tók undir flest af því sem tveir síðustu ræðumenn höfðu fram að færa. Hann benti á að ef „vondu karlarnir“ í landbúnaðarráðuneytinu og Bændahöllinni hefðu ekki verið svona harðir í að tolla innfluttar landbúnaðarafurðir í gegnum tíðina þá hlytu neytendur að vera í slæmum málum í dag, því að þá væru þeir búnir að neyta mikils af menguðum matvælum. Hann kvaðst hafa verið þeirrar skoðunar um nokkurt skeið að bændur ættu ekki annarra kosta völ en að fresta tilrauninni um nokkurn tíma, en áform stjórnar Landssambandsins um að viðhafa atkvæðagreiðslu um málið bendir til þess að sá frestur geti orðið langur. Hann lagði til að verkefninu yrði frestað fram á sumar, en ef viðhafa á atkvæðagreiðslu um málið er nauðsynlegt að hún verði afstaðin fyrir aðalfund Landssambands kúabænda í ágústmánuði nk. Aðalfundurinn verður að geta tekið ákvörðun um framhaldið, verði innflutningstilrauninni hafnað í atkvæðagreiðslu, og falið stjórninni að huga að öðrum leiðum til þess að stéttin fái þrifist sem fullgildir atvinnurekendur á Íslandi framtíðarinnar.

Benjamín Baldursson þakkaði skýrslur formanns og framkvæmdastjóra. Hann benti á í sambandi við umræðuna um íslenska mjólk og sykursýki að hugmyndin væri sú að velja arfhreina gripi gagnvart A-1. Kynning á þessum málum hefur tekist illa og andstæðingar tilraunarinnar hafa náð betri áróðursstöðu. Hann lagði til að seinni hluti tillögu stjórnar Landssambandsins verði felldur út, þ.e. ákvæðið um atkvæðagreiðsluna. Að lokum benti hann á að þó að neytendur hefðu á sínum tíma hafnað írskum nautalundum í kjölfar kúariðuumræðunnar þá seldist hollenskt ungkálfakjöt mjög vel hér á landi um þessar mundir.

Sigríður Bragadóttir kvaðst sammála flestu sem fram hafi komið hjá fyrri ræðumönnum. Tillaga stjórnar um atkvæðagreiðslu er ekki nógu skýr. Um hvað á atkvæðagreiðslan að snúast? Hún kvaðst hafa verið hlynnt innflutningstilrauninni, en ekki mætti fullyrða um niðurstöður fyrr en að henni lokinni. Atkvæðagreiðsla á síðari stigum kæmi því vel til greina, þ.e. þegar niðurstöður liggja fyrir. Hún kvaðst hins vegar meta ástandið þannig nú að bændur ættu ekki annarra kosta völ en fresta málinu tímabundið. Þá lýsti hún stuðningi við hugmyndir um að óháður aðili yrði fenginn til þess að gera ítarlega skoðanakönnun á meðal almennings og bænda um málið. Einsýnt er að þetta mál hefur ekki fengið nægilega kynningu á meðal bænda og því miður virðist svo, sem þeir sem séu tilrauninni mótfallnir, taki engum rökum og láti tilfinningarnar einar ráða. Hún kynnti að síðustu tvær ályktanir frá félagsfundi í Nautgriparæktarfélagi Vopnafjarðar um málið.

Arnar Bjarni Eiríksson kvaðst vera ákafur stuðningsmaður NRF-tilraunarinnar. Hann benti á að áður en kúariðuumræðan kom upp hafi málið alfarið snúist um beta-kasein. Þeir sem hafa unnið gegn tilrauninni hafa ekki viljað hlusta á nein rök í málinu og því gripið alls óskylda kúariðuumræðu á lofti. Það er fásinna að halda því fram að við getum bannað allan innflutning landbúnaðarafurða á sama tíma og við stöndum í viðræðum um ýmsa alþjóðasamninga. Ísland er ekki nafli alheimsins. Þeir sem hafa verið á móti tilrauninni hafa í raun verið að vinna skemmdarverk á íslenskri mjólkurframleiðslu – pissa í skóinn sinn. Stuðningsmenn tilraunarinnar hafa tapað áróðursstríðinu í þessu máli, enda erfitt um vik þegar fólk er ekki reiðubúið að hlusta á skynsamleg rök. Neytendur hafa síðan lagt trúnað á þetta, en reynslan kennir okkur að þeir eru fljótir að gleyma. Alvarlegasta málið er hins vegar staða og tilvera Landssambands kúabænda, en stjórnarmenn vilja fara með málið í atkvæðagreiðslu til þess að geta viðhaldið tiltrú bænda. Hann taldi óæskilegt að farið yrði út í atkvæðagreiðslu um það hvort gera ætti tilraunina, en slíka ákvörðun væri auðvelt fyrir stjórnina að rökstyðja. Stjórn Landssambandsins lendir í einkennilegri stöðu ef hún lætur banna sér að kanna mál sem getur leitt til framfara fyrir búgreinina.

Elvar Eyvindsson taldi seinheppni í framvindu þessa máls vera með ólíkindum frá upphafi. Aldrei hefur tekist að kynna málið þannig að það skildist og umræðan í fjölmiðlum hefur allan tímann snúist um að íslenskir kúabændur væru að skipta um kúakyn en ekki gera samanburðartilraun. Eftir að ráðherra gaf síðan leyfið hefur hvert slysið rekið annað þannig að bændur og neytendur hafa snúist gegn málinu. Málið snýst nú um tilfinningar en ekki rök og því verðum við að fresta því um stund. Við megum ekki ögra viðskiptavinum okkar með því að halda áfram með málið vegna þess æsings sem það gæti haft í för með sér. Við verðum hins vegar að nýta okkur þann meðbyr sem þetta getur gefið íslenskum landbúnaði. Hann taldi erfitt að standa gegn því að málið verði borið undir atkvæði mjólkurframleiðenda enda myndi það viðhalda óæskilegri umræðu um það.

Þórarinn Leifsson lagði til að fellt yrði aftan af tillögu stjórnar Landssambandsins ákvæðinu um að farið skyldi með málið í atkvæðagreiðslu meðal mjólkurframleiðenda.

Þórólfur Sveinsson þakkaði kraftmikla og málefnalega umræðu. Menn velta atkvæðagreiðslunni fyrst og fremst fyrir sér. Hann kvaðst hafa orðið fyrir svolitlum vonbrigðum með að menn skuli gefa sér að einhver ein niðurstaða sé sú rétta en ekki að meirihlutinn hafi rétt fyrir sér. Sjálfur kvaðst hann hafa verið kosinn til félagsstarfa í krafti meirihluta atkvæða, hvort sem menn teldu það rétt eða rangt. Í þessari umræðu er verið að blanda saman félagsmálum kúabænda og kynbótum. Kannski væri það eðlilegt að stjórn Landssambandsins léti gera drög að kjörseðli fyrir aðalfundinn. Á honum kæmi fram stutt lýsing á því sem gert hefur verið og hvað áformað er að gera í framhaldinu og bændur síðan spurðir hvort þeir vilji halda áfram með verkefnið – já eða nei. Hann benti á að ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi hljóti að gefa hverjum og einum einstaklingi rétt til að rækta það búfé sem hann kýs. Ef stofnað verður félag um slíka ræktun hafa íslensk stjórnvöld ekki rétt á að banna það. Hann kvaðst skilja mæta vel afstöðu þeirra sem þætti súrt í broti að málið skuli enn tefjast og að hugsanlega verði það úr sögunni að heildarsamtök mjólkurframleiðenda muni annast verkefnið. Hann kvaðst helst hafa viljað halda þeirri stefnu að fara ekki út í atkvæðagreiðslu fyrr en niðurstöður tilraunarinnar lægju fyrir en kvaðst jafnframt skynja málið á þann hátt nú að bændur verði að fá að segja álit sitt áður en lengra verði haldið.

Pétur Diðriksson taldi þetta mál vera grundvallaratriði í nautgriparækt á Íslandi. Hann velti því fyrir sér hver staða sjálfstæðs ræktunarhóps, sem stofnaður kanna að verða um slíkt verkefni, verði innan Landssambands kúabænda. Yrði sá hópur að kljúfa sig út úr sambandinu? Hann lýsti skilningi á afstöðu formanns um að atkvæðagreiðsla sé ófrávíkjanlega, en hvernig sem úrslit hennar verða þá er það eitt víst að það verður enginn sigurvegari í málinu. Það er búið að reyna mikið undanfarin ár til að fá fólk til að skilja um hvað málið snýst, en menn hafa einfaldlega ekki viljað hlusta á rök. Ef farið verður í almenna atkvæðagreiðslu er því einsýnt að þetta verður fellt. Hann velti því síðan fyrir sér hvernig stjórn Landssambandsins hygðist starfa áfram að framfaramálum kúabænda með bundnar hendur. Það verður að fá bændur til að skilja að til að ná hámarksafrakstri í mjólkurframleiðslunni verða menn að leita allra leiða til þess og í þeim efnum er engin leið undanskilin. Þær „frímínútur“ sem bændur eru í nú vegna þessa máls munu ekki vara lengi. Allar aðrar stéttir samfélagsins freista þess að hámarka afköst sín í starfi og það sama hlýtur að gilda um kúabændur. Það hefur verið lýðræðislega staðið að því að fá samþykki fyrir þessari tilraun, aðalfundur hefur samþykkt hana og búnaðarþing hefur samþykkt hana. Því kvaðst hann engar forsendur sjá fyrir því að draga í land og fresta málinu því að með því værum við að lýsa yfir vantrausti á sjálfa okkur. Andstæðingar þessa mál gera sér ekki grein fyrir framtíðinni innan greinarinnar. Ef atkvæðagreiðslan mistekst, tapast, þá mun það kljúfa mjólkurframleiðendur í landinu í tvo hópa. Það hefur aldrei tekist í mannkynssögunni að sitja á framförum. Þó að meirihlutinn hafi haft þá skoðun að engu megi breyta þá brýst minnihlutinn undan því, jafnvel þó að 90% mjólkurframleiðenda væru því mótfallnir. Í áranna rás mun þeim síðan fjölga stöðugt sem kjósa framfarir.

Eiríkur Egilsson þakkaði tillögu stjórnar og taldi hana sýna glöggt hversu stjórnin væri félagslega þenkjandi. Hann upplýsti að á hans svæði væru 90% framleiðanda á þeirri skoðun að fresta málinu. Með atkvæðagreiðslu erum við að láta lýðræðið virka. Alltaf þegar menn verða undir í kosningum finnst þeim sem einhverjir hafi kosið vitlaust. Sá sem kýs gerir það samkvæmt sinni sannfæringu og bændum er fyllilega treystandi í því efni. Hluti fulltrúa á þessum fundi virðast hins vegar á þeirri skoðun um að bændur séu ófærir um að gera upp hug sinn. Skoðanir bænda eru skýrar í þessu máli og menn verða að lúta þeirri niðurstöðu sem verður. Sú hugmynd að fá eitthvað fyrirtæki úti í bæ til að gera skoðanakönnun, sem kalli fram rétta niðurstöðu, er ekki gáfuleg. Við verðum að huga að því sem mestu máli skiptir, þ.e. ímynd kúabænda og félagssamtaka þeirra, bæði inn á við og út á við. Tillaga stjórnarinnar opnar málið og hleypir henni úr því saumaklúbbs umhverfi það hefur verið í. Með atkvæðagreiðslunni verður höggvið á þennan félagslega hnút. Mestu máli skiptir í allri framleiðslu að geta selt hana og sölukostnaðurinn á eftir að aukast. En ef menn hafa góða ímynd verður sölukostnaðurinn minni og ekki sama pressa á innflutning. Þróunin er sú að hámarksafurðastefnan er á niðurleið en stefnan um jákvæða ímynd og gott hreinlegt umhverfi er á uppleið.

Gunnar Jónsson greindi frá fundi Félags kúabænda á Héraði og Fjörðum þar sem lýst var stuðningi við tillöguna um að fresta beri tilrauninni tímabundið. En af hverju í ósköpunum eigum við að gera það? Engin rök eru komin fram um að rétt sé að fresta málinu, enda ekkert sem bendir til þess að hætta sé á að kúariða geti borist til landsins með fósturvísum. Sérstaklega hefur verið hert á rannsóknarferlinu í því sambandi. Kúariða á aðrar leiðir og greiðari til að berast til landsins en með fósturvísainnflutningi. Við verðum hins vegar að lifa í sátt við neytendur, enda eigum við allt undir því að selja framleiðslu okkar. Hann kvaðst hafa verið feginn þeirri umræðu sem skapaðist í kjölfar innflutnings á írskum nautalundum og talið allt vera að snúast á sveif bænda og vörur þeirra metnar af verðleikum. Nú er hins vegar verið að selja hollenskt kálfakjöt í verslunum og gengur vel. Af hverju láta neytendur bjóða sér kjöt frá Hollandi, sem ekki hefði mikla hreinleikaímynd og væri í raun að kafna í eigin skít? Það er því enginn grundvöllur fyrir því að fresta samanburðartilrauninni nema að hægt verði að tryggja á sama tíma að allur innflutningur nautakjöts verði stöðvaður. En raunin er hins vegar sú að landbúnaðarráðherra hefur enga möguleika til þess. Hvað er þá til ráða? Hvernig eflum við samkeppnisstöðu okkar öðruvísi en með kynbótum? Það skiptir ekki höfuðmáli hvort kýrin telst norsk eða íslensk, heldur miklu frekar hvað við látum ofan í þær og hvernig við hirðum um þær. Það sem tryggir okkur velvild neytenda eru góðar og ódýrar vörur og það er fyrst og fremst verðið sem ræður til lengri tíma litið. Við erum búnir að berjast árum saman fyrir að fá að gera þessa tilraun og nú ætlum við að fresta þessu vegna niðurrifsradda úr okkar eigin röðum. Hann taldi stjórn Landssambandsins hafa farið á taugum í þessu máli og benti á að hún hafi verið lýðræðislega kjörin og hið sama gilti um búnaðarþing. Verði tilrauninni hafnað í atkvæðagreiðslu eykur það líkurnar á að stéttin klofni. Stjórnin á að halda sínu striki og leggja málið síðan í dóma aðalfundar þar sem í ljós mun koma hvort hún standi eða falli.

Kristín Linda Jónsdóttir kvað flesta þá sem talað hafi á undan sér hafa haldið því fram að ákvarðanir þeirra bænda sem hafa kosið að leggjast gegn innflutningi væru byggðar á tilfinningum en ekki rökum. Vísindi og rök eru hins vegar ekki allt í lífinu. Flest tökum við alvarlegustu ákvarðanir lífs okkar á tilfinningalegum grunni, t.d. er við giftum okkur. Því er ekki rétt að blása á þá hlið málsins. Af núverandi stjórnarmönnum Lk hef ég verið sú sem hef efast mest um ágæti tilraunarinnar. En sú tilraun sem náðist samstaða um gera, þ.e. sem tekur heilan áratug og unnt er að grípa inn í eða endurmeta hvenær sem er á ferlinu, er mér hins vegar að skapi. Farsælla er fyrir bændur að unnið sé að þessu á félagslegum grunni en ekki sérstökum hópum. Stjórn Lk er að starfa fyrir kúabændur í dag, en í þeim efnum ber henni að líta bæði til fortíðar og framtíðar. Hópur kúabænda er sannfærður um ágæti norsku kúnna en stór hópur íslenskra kúabænda trúir á aðrar leiðir, þ.e. að framtíðin sé best tryggð með því að halda núverandi sérstöðu og einangrun íslensku kýrinnar, hvort sem það er af vísindalegum eða tilfinningalegum rökum. Þessir kúabændur er ekki allt eintómir kjánar. Við getum ekki komið hér saman og neitað að horfast í augu við tilvist Búkolluhópsins. Hún kvaðst hafa skilning á ónægju þeirra, sem sannfærðir væru um ágæti tilraunarinnar, með frestunina. En í ljósi þess sem hefur verið að gerast á matvælamarkaði heimsins að undanförnu þá eru það fleiri sem eru þeirrar skoðunar að betra sé að viðhalda einangrun íslenska kúastofnsins að svo komnu máli. Það hefur ekki náðst samstaða meðal kúabænda um þetta tilraunaverkefni og við verðum að bera gæfu til þess að starfa eftir lýðræðislegum leiðum. Þær hræringar sem átt hafa sér stað innan stéttarinnar að undanförnu eru þess eðlist að ekki er hægt að líta fram hjá þeim. Hún lýsti jafnframt óánægju sinni með að Búkolluhópurinn skuli hafi ekki haft samband við Landssamband kúabænda vegna þessa máls. Mikilli orku hefur verið eytt í stofnun samtakanna og menn þar á bæ virðast ekki telja Landssamband kúabænda vettvang fyrir baráttumál sín. Við verðum hins vegar að bera fulla virðingu fyrir skoðunum þeirra félaga okkar sem telja að framtíð íslenska kúastofnsins sé betur tryggð með öðrum aðferðum en íblöndun erfðaefnis. Framlegð, framleiðni og hámarksafköst hefur verið mál málanna undanfarin ár, en þessi stefna er að bíða talsvert skipbrot um þessar mundir. Ákvörðun sú sem tekin var um innflutning erfðaefnis á sínum tíma, er orðin gömul og mikið hefur gerst síðan. Við stöndum frammi fyrir áður óþekktu ástandi á matvælamörkuðum heimsins. Íslenskir kúabændur þurfa allir sem einn að taka ábyrgð á þessu máli og því kýs ég atkvæðagreiðslu en ekki skoðanakönnun sem er erfitt er að túlka niðurstöður úr. Stjórn Lk er ekki að tapa þó að hún leiti eftir afstöðu umbjóðenda sinna í svo mikilvægu máli.

María Hauksdóttir taldi bændur standa frammi fyrir óvenjulegri stöðu. Búið er að vinna að þessu verkefni í langan tíma og menn voru farnir að sjá fram að það væri loks að komast á rekspöl. Hún kvaðst líta svo á að með þessari tilraun væri verið að horfa fram á veginn og undirbúa kúabændur undir framtíðina. Hún kvaðst ekki hafa trú á því að sá stuðningur neytenda, sem bændur nytu um þessar mundir, myndi endast lengi. Í þessum efnum er ennfremur fjölmargt sem við höfum enga stjórn á, s.s. alþjóðasamningar o.fl., og okkur mun ekki takast að loka Ísland af með girðingum. Við verðum því að horfast í augu við þá staðreynd að í æ ríkari mæli munu verða fluttar inn landbúnaðarafurðir í samkeppni við íslenska framleiðslu. Þess vegna þarf þessi atvinnuvegur að fá að þróast og bæta sig eins og gengur í öðrum atvinnuvegum. Henni fannst skrýtið hvernig umræðan um þetta mál hefur þróast þjóðfélaginu, þar sem ótrúlegasta fólk hefur verið fengið til þess að tjá sínar skoðanir á málinu. Þáttur fjölmiðla hefur verið einkennilegur og allur í hálfgerðum ekkifréttastíl. Grínast hefur verið með málið og ekki nógu vel útskýrt um hvað það snýst. Hún kvað umræðuna hafa sært sínar tilfinningar sem kúabónda því að þeir fræði- og vísindamenn, sem talað hafa á móti málinu, hafi iðulega talað mjög niður til bænda. Þeir hafa viljað hafa vit fyrir bændum sem þeir telja vera að fara að gera einhverja vitleysu. Þessar beljur eru nógu góðar fyrir ykkur og reynið bara að bæta þær. Það virðist vera komin upp óskapleg ást á kúnni í þjóðfélaginu, en í gegnum tíðina hefur hún nú ekki alltaf verið mjög hátt skrifuð. Talað hefur verið til bænda í þessu máli eins og einhvers konar undirmálsfólks. Hún lýsti síðan stuðningi við tillögu stjórnar Landssambandsins, enda óhjákvæmilegt að staldra við út af þessari móðursýki sem er í þjóðfélaginu þar sem ólíkum hlutum er blandað saman og engum rökum tekið. Sorglegast fannst henni að bændur væru sjálfir að ala á þessari tortryggni. Hún velti því fyrir sér hvort bændur ætluðu aftur að verða sér til skammar í huga almennings með því að ríða suður og mótmæla framförum. Það verður að skerpa línurnar í þessu máli og fá úr því skorið hvort rétt sé að Lk leiði þetta mál áfram eða ekki. Ef þetta leiðir til klofnings í röðum kúabænda þá verður bara að hafa það.

Ásbjörn Pálsson kvaðst meta stöðuna þannig að tillaga stjórnar Lk væri skynsamleg og að hún hefði skynjað viðhorfin í þjóðfélaginu á réttan hátt. Þó að tilraunin sé mikilvæg þá væru bændur að hætta of miklu með því að halda henni til streitu nú. Hann upplýsti það að hann væri félagi í Búkollu og væri því mótfallinn tilrauninni. Stærstu mistökin taldi hann hafa verið gerð í upphafi, ekki síst með hunsun skoðanakönnunarinnar 1997, sem skipt hafi mönnum strax í tvær andstæðar fylkingar. Það eru ekki bara tómir vitleysingar sem vilja halda áfram að rækta íslenska stofninn. Þeir sem vilja innflutning verða að vera duglegri við að kynna bændum málstað sinn. Við værum að gera stór mistök ef við stöldruðum ekki við á þessum tímapunkti. Ég mun sætta mig vilja meirihlutans í atkvæðagreiðslu, jafnvel þó mín sjónarmið verði ekki ofan á.

Jón Eiríksson kvaðst hafa fylgst með framvindu þessa máls frá upphafi. Hann hafi hrökklast úr fagráði í nautgriparækt vegna andstöðu sinnar við þær hugmyndir sem uppi voru um málið á sínum tíma. Við verðum að fara okkur hægt í þessu máli því að grasrótin er tilrauninni mótfallin. Klofningur á meðal kúabænda út af málinu er staðreynd enda hefur því ekki verið stjórnað af mikilli visku. Áður en lengra er haldið verðum við að komast að því hvort búfjárkynin okkar séu einhvers virði markaðslega. Sérstaðan selur! Þá hlið málsins má ekki vanmeta. Menn tala um að beita vísindalegum rökum og sleppa allri tilfinningasemi. Vissulega er hægt að sækja ákveðna eiginleika með þessum aðferðum, en allur samanburður er flókinn og svona einföld tilraun megnar ekki að skera þar úr um allt. Ef menn hefðu strax í upphafi sett málið þannig fram að hér væri um afmarkaða tilraun að ræða hefðum við ekki lent í þeirri stöðu sem við erum í dag. Hunsun á niðurstöðum skoðanakönnunarinnar árið 1997 markaði upphafið. Nú eru hins vegar stöðugt að koma fréttir um kúariðufaraldur o.þ.h. sem er falinn eldur í þessu efni. Hann lýsti að lokum stuðningi við tillögu stjórnar Landssambandsins og taldi jafnframt eðlilegt að hún legði uppkast að kjörseðli fyrir aðalfundinn eins og formaður hefði lagt til.

Stefán Magnússon benti á að afgreiðsla þessa máls gæti tengst framtíð LK. Helsta deilan snýst um atkvæðagreiðslu þar sem fjallað verðu um þátttöku þess í innflutningstilraun og samanburðartilraun að innflutningi loknum. Menn geta ekki komið í veg fyrir innflutning með því að segja nei í atkvæðagreiðslunni. Með því að segja nei eru menn einfaldlega að flýta þessu ferli um u.þ.b. fimm ár. Segi menn nei er einsýnt að stofnað verður áhugafélög um innflutninginn og slíkt félag fer ekki að stunda neina tilraunastarfsemi. Það mun einfaldlega flytja inn fósturvísa og setja þá í dreifingu að þremur árum liðnum. Hann taldi augljóst að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar muni verða á þá leið að bændur vilji ekki að LK taki þátt í tilrauninni. Hin leiðin er sú að viðhafa ekki atkvæðagreiðslu um málið enda búið að vinna því brautargengi með lýðræðislegum hætti bæði á aðalfundi og búnaðarþingi. Einungis þannig höldum við þeirri einingu bænda að Landssamband kúabænda og Bændasamtök Íslands skuli hafa ræktunarstarf búgreinarinnar með höndum. Við eigum að ákveða það hér og nú að halda tilrauninni áfram og ef umbjóðendur okkar eru ekki sammála skipta þeir einfaldlega um stjórn á næsta aðalfundi. Að lokum lagði hann fram tillögu um að hvergi verði hvikað frá fyrri áformum og til vara að ákveðið verði að hætta við innflutninginn með öllu.

Kristján Finnsson viðurkenndi fúslega að hann hafi verið einn þeirra sem gengið hafi í Búkollu og kvaðst reyndar mundu ganga í öll sambærileg félög sem stofnuð kynnu að verða um aðra íslenskra búfjárstofna. Illa var staðið að þessum innflutningshugmyndum frá upphafi, enda fyrst lagt upp með að það ætti einfaldlega að skipta um kúastofn í landinu. Síðan hafa komið upp ýmis frekari atriði sem ættu að verða okkur til varnaðar, s.s. kúariðan o.fl. Hann hafnaði því að viðurkenna skipbrot kynbótastarfs íslenska kúastofnsins og taldi að bera þyrfti hann saman við fleiri kyn en NRF-kynið, enda víða að finna betri kyn. Ýmsir bændur eru að ná ótrúlegum árangri í framleiðslu með íslenskum kúm enda eru þær meðfærilegar og þægilegt að eiga við þær. Málsmeðferðin hefur breyst á síðustu misserum og er komin í annan farveg og rökin gjarnan búin til fyrir fólk af fjölmiðlum. Mikilvægasta atriðið við markaðssetningu afurðanna er að hafa neytendurna með sér. Viðhorf þeirra eru hins vegar stöðugt að breytast og þeir líta nú meira til hreinnar náttúru, öruggari framleiðslu, minni hjarða, dýraverndar o.s.frv. Við verðum því að staldra við, fresta tilrauninni og tileinka okkur aðra aðferðarfræði. Fólkið sem neytir vörunnar hefur sína skoðun og hana getum við ekki hunsað. Að lokum gat hann þess að stjórn Mjólkursamlags Kjalarnesþings hafi ályktað um það að hún sæi engin rök fyrir því að flytja inn norskan kúastofn til framræktunar.

Egill Sigurðsson taldi enga leið að fá svör við spurningum síðasta ræðumanns nema með því að framkvæma tilraunina. Stjórn LK hefur komist að þeirri niðurstöðu að farsælast sé að málið verði lagt í almenna atkvæðagreiðslu á meðal mjólkurframleiðenda. Það var óheppilega staðið að þeirri skoðanakönnun sem haldin var árið 1997 og sú félagslega meðferð sem viðhöfð hefur verið í framhaldi málsins hefur verið gagnrýnd mikið. Við verðum að huga að baklandinu og megum ekki slátra félagslegri samstöðu út af tilraunaverkefni. Menn hafa blandað því saman í umræðunum hvort hér sé um beina ákvörðun um innflutning að ræða eða einfalda samanburðartilraun. Við þurfum vinnufrið um málið og því þarf atkvæðagreiðslu. Hugsanlega er sú leið fær að gera skoðanakönnun á meðal bænda, en slíkt býður upp á hættuna á mistúlkunum. Einhver slík tilraun verður hins vegar framkvæmd hvort sem svarið verður já eða nei í atkvæðagreiðslu um hvort ráðast eigi í hana á félagslegum grunni Landssambandsins eða ekki. Helstu rökin fyrir að málinu skuli frestað til skamms tíma eru þau að freista þess að viðhalda félagslegri samstöðu meðal kúabænda um ræktunarmál sín. Ef stjórnin bíður skipbrot í þessu máli þá hljóta aðrir aðilar að taka við, einhverjir sem sjá aðrar lausnir á þeim vandamálum sem mjólkurframleiðslan kemur til með að standa frammi fyrir eftir tíu ár. Framleiðni mjólkurframleiðslunnar er mikið minni hér á landi en víða annars staðar og við verðum metnir á slíkum samanburði í framtíðinni hvort sem okkur líkar betur eða verr. Afstaða stjórnar Lk til málsins er óbreytt enda hafa engin rök komið fram sem hafa breytt henni. Með atkvæðagreiðslu er verið að setja félagslega einingu kúabænda að veði. Hann kvaðst ekki trúa því að bændur væru svo skammsýnir að ætla sér að hindra þessa tilraun til frambúðar. Menn hljóta að átta sig á að við erum betur settir með því að halda ræktunarstarfinu áfram á félagslegum grunni. Einungis 20-25 þúsund kýr eru í virkri ræktun um þessar mundir og þar af einungis 17-18 þúsund sem eru almennilega ættfærðar. Markviss ræktun úr þessum litla stofni gefur okkur of litla möguleika því að erfðafestan er alltof lítil. Hann lagði að lokum til að gert yrði stutt fundarhlé til þess að fulltrúum auðnaðist að sameina þær tillögur um afgreiðslu málsins sem búið væri að bera upp á fundinum.

Gunnar Sverrisson skýrði frekar af hverju stjórn Landssambands kúabænda legði áherslu á atkvæðagreiðslu í tillögu sinni. Hann tók undir það með formanni að sú ákvörðun hafi ekki verið tekin í neinni örvæntingu heldur eftir margra vikna yfirlegu. Slík niðurstaða er farsælust í því gjörningaveðri sem staðið hefur undanfarið. Hann kvaðst ávallt hafa verið stuðningsmaður þess að tilraunin verði gerð en það væri hins vegar félagslega ógerlegt fyrir stjórn LK að hafna því að fá álit umbjóðendanna í atkvæðagreiðslu. Ef menn líta á slíka atkvæðagreiðslu sem vantraust á stjórnina þá verður einfaldlega að skipta um stjórn á næsta aðalfundi.

Birgir Ingþórsson bað fundarmenn að setja sig í spor stjórnar LK. Við höfum á bak við okkur samþykktir frá aðalfundi og þær hafa verið á einn veg og unnið hefur verið nákvæmlega eftir þeim. Stjórnin metur stöðuna hins vegar þannig nú að endurmats sé þörf og því er þessi tillaga lögð fram. Stjórnin taldi sér ekki heimilt að fresta tilrauninni nema með samþykki fulltrúafundar sem hér er saman kominn. Við eigum enga möguleika til að halda málinu áfram óbreyttu við núverandi aðstæður, auk þess sem það hlýtur að vera okkur kappsmál að vinna málinu framgang á félagslegum grunni. Ef hópur manna tekur sig saman um að fara aðra leið í þessu máli þá er stjórn Landssambandsins um megn að stöðva slík áform. Menn hafa deilt mikið um réttmæti þess að viðhafa almenna atkvæðagreiðslu um málið, en við jafn umdeilt mál og þetta væri eðlilegt að hafa almenna atkvæðagreiðslu. Við hljótum að lúta vilja meirihlutans og í því felst ekki neitt skipbrot fyrir stjórn Landssambandsins þó að niðurstaðan verði sú að bændur vilji að hætt sé við tilraunina. Aðal spurningin er sú hversu mikið við eigum að flýta okkur í þessu máli. Við þurfum ennfremur að nýta tímann vel fram að atkvæðagreiðslunni til þess að vinna málinu brautargengi á meðal umbjóðendanna.

Jón Steinar Elísson kvaðst hafa verið mikill „framsóknarmaður“ í afstöðu sinni til málsins og farið í marga hringi. Hann kvaðst þó hafa tekið afdráttarlausa afstöðu til þess nú, ekki síst vegna makalauss málflutnings nokkurra einstaklinga á þessum fundi. Afstaða þeirra, sem hvað harðastir eru fylgjandi innflutningstilrauninni, er ekki þannig að til eftirbreytni sé. Menn hóta jafnvel að kljúfa Landssambandið ef málið verður lagt fyrir bændur í almennri atkvæðagreiðslu. Hann hrósaði stjórninni fyrir að boða til fulltrúafundar um málið og kvað það glöggt sýna þann ásetning hennar að fara að vilja meirihlutans. Hann kvað tillögu stjórnar styrkja Landssambandið og taldi óþarft að óttast klofning innan þeirra. Við eigum að bjóða Búkollufólkið velkomið til skrafs og ráðagerða og ekki telja alla sem eru öndverðrar skoðunar vera vitleysinga. Vanda þarf vel til kynningar á málinu áður en til atkvæðagreiðslunnar kemur og gæta þess að leyfa öllum sjónarmiðum að koma fram. Neytendur eru í auknum mæli að beina kröfum sínum að öðrum atriðum en framleiðni, hagræðingu o.þ.h., svo sem aðferðafræðinni við framleiðsluna, dýravernd o.s.frv.

Lára Hansdóttir lýsti sig sammála síðasta ræðumanni um flest. Hún kvaðst tala fyrir hönd sinna heimamanna sem allir væru alfarið á móti innflutningi. Því hefur verið haldið fram að Færeyingar hafi eyðilagt kúastofn sinn með innflutningi á norskum kúm. Neytandinn virðist vera að fælast allt kjöt vegna kúariðuumræðunnar. Sögur heyrast stöðugt af því að íslensk hótel hafi smyglað kjöt á boðstólum. Þá er talið að Bretar hafi staðið í stórfelldum útflutningi á kúariðukjöti löngu eftir að bann var lagt á. Íslendingar eru nú farnir að flytja inn kálfakjöt frá Hollandi og á meðan hrannast upp birgðir innlends nautakjöts.

Arnar Bjarni Eiríksson lagði fram breytingartillögu við tillögu stjórnar. Hann kvaðst skynja á umræðunni á þessum fundi þannig að málið verðir að fara í almenna atkvæðagreiðslu á meðal mjólkurframleiðenda. Því vildi hann reyna að sætta sjónarmið manna. Hann lagði áherslu á að mikil og góð kynning verði viðhöfð áður en atkvæðagreiðslan fari fram, en hann kvaðst hins vegar ekki sjá ástæðu til þess að bíða með hana allt fram yfir aðalfundi næsta haust. Ef niðurstöður atkvæðagreiðslunnar verða neikvæðar er ljóst að hagsmunahópur mun verða stofnaður til að fara af stað með innflutning.

Gunnar Eiríksson gat þess að hann hefði hætt í Fagráði í nautgriparækt á sínum tíma vegna þess að hann hafi verið á móti fyrstu hugmyndunum um innflutning. Skoðanakönnunina árið 1997 taldi hann hafa verið algjört klúður sem skemmt hafi málið. Við megum ekki gera lítið úr þætti neytenda í þessu máli og verðum að hlusta á hvað þeir hafa til málanna að leggja. Tilfinningarugl segja menn, en þetta er nú einu sinni fólkið sem kaupir vörurnar okkar. Afstaða mín til tilraunainnflutnings var neikvæð til að byrja með, en með þeirri afmörkuðu tilraun sem nú er stefnt að hef ég skipt um skoðun. Við verðum að gera slíka tilraun og fá þennan samanburð og því fyrr því betra. Ef LK missir tök á málinu, þannig að hópur verði myndaður um innflutninginn, verður þetta ekki eins markvisst og ef haldið væri utan um það á félagslegum grunni. Hann lýsti að lokum stuðningi við tillögu stjórnar Landssambandsins og kvaðst treysta henni fyllilega til að fylgja málinu farsællega eftir.

Elvar Eyvindsson benti á að að margir teldu raunverulega möguleika í því fólgna að halda áfram með ræktun íslensku kýrinnar. Óskastaðan væri sú að neytendur sættu sig við að greiða hærra verð fyrir slík framleiðslu. Hann lagði síðan fram tillögu þess efnis að leitað verði leiða til að meta þýðingu og mikilvægi sérstöðu íslenska kúakynsins með tilliti til ímyndar og markaðsstöðu afurðanna. Áhersla verði lögð á að niðurstöður liggi fyrir áður en ákvörðun verður tekin um notkun NRF-kynsins í ræktun hjá bændum.

Kristján Finnsson taldi það skynsama aðferðarfræði í þessari tilfinningalegu umræðu að Landssambandið notaði tækifærið og spyrði neytendur álits. Eru neytendur tilbúnir til þess að greiða hærra verð fyrir framleiðslu íslensku kýrinnar en innfluttar? Eru stjórnmálamennirnir tilbúnir til þess að styðja þetta mál? Hann lýsti síðan fullu trausti á stjórn LK og það þótt hún yrði undir í atkvæðagreiðslu. Hann benti á að íslenskir kúabændur stæðu þegar í harðri samkeppni á innanlandsmarkaðnum því að árlega væri, auk írskra nautalunda og hollensks kálfakjöts, flutt inn verulegt magn af jógúrt. Að lokum kvaðst hann vonast eftir skynsamlegri ákvörðun frá þessum fundi til hagsbóta fyrir íslenska mjólkurframleiðendur.

Fundarstjóri gerði síðan stutt fundarhlé til þess að þeir sem flutt höfðu tillögur um afgreiðslu málsins gætu samræmt tillöguflutning og auðveldað þannig störf fundarins.

Að loknu fundarhléi gerði fundarstjóri síðan grein fyrir í hvaða röð tillögur um málið myndu verða afgreiddar í atkvæðagreiðslu. Hann gaf síðan orðið frjálst um efni tillagnanna og formið á framsetningu þeirra.

Sigurður Loftsson lýsti andstöðu við tillöguflutning Stefáns Magnússonar og kvaðst styðja tillögu Arnars Bjarna Eiríksson. Koma verður málinu í fastan farveg og fá það á hreint hvort félagslegur stuðningur sé við það og ekki draga það lengur en til sumarsins. Lýsti ennfremur stuðningi við tillögu Elvars Eyvindssonar.

Eiríkur Egilsson óskaði eftir nánari útskýringum á tillögu Arnars Bjarna Eiríkssonar.

Þórólfur Sveinsson kvað óvarlegt að ákveða á þessum fundi hvenær farið skyldi af stað með verkefnið á ný. Varlegra væri að taka ákvörðun þar um á aðalfundi LK í ágúst nk. Í því felst styrkur fyrir stjórnina ef aðalfundur tekur ákvörðun um form og fyrirkomulag atkvæðagreiðslunnar.

Arnar Bjarni Eiríksson svaraði spurning Eiríks Egilssonar og kvað tillögu sína ekki fela í sér neina hættu á að hægt væri að sniðganga úrslit atkvæðagreiðslunnar.

Gunnar Jónsson lýsti yfir stuðningi við tillögu Stefáns Magnússonar um að hvergi verði hvikað frá fyrri áformum um innflutning á fósturvísum af NRF-kyni. Menn hafa í umræðum hér verið að rugla saman hreinleika varanna, hormónum o.þ.h. við áform um tilraun til búfjárkynbóta. Vilji stjórnar Lk stendur til að gera slíka tilraun, aðalfundur hefur samþykkt þau áform, en með því að fresta málinu er verið að viðurkenna að bændur séu hræddir við tilraunina. Stjórnin á að halda sínu striki og standa og falla með þessu máli. Það verðu nýr aðalfundur í haust og þar er hægt að kjósa um málið og ef menn verða mótfallnir tilrauninni þar, verður einfaldlega hætt við allt saman.

Benjamín Baldursson kvaðst sammála síðasta ræðumanni. Mönnum mun finnast þetta sjálfsagt eftir nokkra mánuði.

Pétur Diðriksson lýsti stuðningi við þá tillögu Stefáns Magnússonar að hvergi skuli hvikað. Við eigum að drífa málið í gegn og halda okkar striki. Stjórn LK hefur umboð til að fylgja málinu eftir og verður að takast á við það verkefni. Áróðursstríðið heldur ekki til lengdar, en veruleikinn er afkomumöguleikar í búgreininni. Neytendur eru okkar viðskiptavinir en þeir munu ekki segja okkur framleiða lélega vörur sökum þess eins að við viljum kynbæta bústofninn og búa til góða vöru á hagkvæman hátt. Þeir bændur, sem vilja það ekki, eru á leiðinni út úr greininni án þess að vita af því.

Magnús Sigurðsson vildi að stjórnin fengi tækifæri til þess að vinna að málinu á þann hátt sem hún telur farsælast. Umræðan hefur verið íslenskum bændum gagnleg og hefur sannfært neytendur um hreinleika íslenskra landbúnaðarafurða.

Var þá gengið til atkvæða.
Fyrst var fyrir tekin svohljóðandi tillaga Stefáns Magnússonar nr. 1.a:

„Fulltrúafundur Landssambands kúabænda, haldinn 6. febrúar 2001, leggur til að ekki verði hvikað frá fyrri áformum um innflutning fósturvísa af NRF-kyni.“

Atkvæði féllu þannig að tillagan var felld með 18 atkvæðum gegn 7.

Því næst var fyrir tekin svohljóðandi tillaga Stefáns Magnússonar nr. 1.b:

„Fulltrúafundur Landssambands kúabænda, haldinn 6. febrúar 2001, leggur til að hætt verði við innflutning fósturvísa af NRF-kyni.“

Atkvæði féllu þannig að tillagan var felld með 19 atkvæðum gegn 4.

Gunnar Jónsson kvaddi sér hljóðs og óskaði eftir að fá að ræða frekar viðaukatillögu Arnars Bjarna Eiríkssonar og varð fundarstjóri við þeirri ósk.

Gunnar Jónsson sagði svör vanta frá ráðamönnum um hvort þeir hygðust gera eitthvað til að stöðva innflutning á ýmsu því sem skapaði íslenskum búfjárstofnum meiri hættu en fyrirhuguð fósturvísatilraun. Hvernig eiga neytendur að geta treyst því að þeir séu ekki að borða innflutt nautakjöt? Ráðherra hefur þvegið hendur sínar af málinu. Við erum að tefja fyrir framförum með því að hafna því að afla megi nauðsynlegra upplýsinga til að meta samkeppnishæfni kúakynsins okkar. Stjórn Landssambands kúabænda verður að afla svara við þessum spurningum.

Þórólfur Sveinsson kvað stjórn LK leggja til frestun á málinu vegna þess að hún teldi hagsmunum kúabænda betur borgið með þeim hætti. Stjórnin hefur ekki tök á að skipa málum hvað varðar stjórnvaldsfyrirmæli um eftirlit með innflutningi matvæla. Þau mál eru til skoðunar á vegum ríkisstjórnarinnar. Kúabændur sjálfir mega ekki tengja saman innflutning á fósturvísum og matvælum sem kunna að bera með sér sjúkdóma. Stjórn Landssambandsins mun halda áfram vinnu við þetta mál í samstarfi við Bændasamtökin. Það beinist ekki síst að unnum innfluttum landbúnaðarafurðum, en vilji menn ganga lengra eru það gæludýrin og farfuglarnir sem koma næst.

Egill Sigurðsson taldi þær varnir sem landsmenn hefðu áður haft gegn innflutningi búvara vera brostnar. Ísland er orðið hluti af stærri heild með þeim alþjóðasamningum sem við höfum gert og þar með höfum við engin verkfæri í höndunum lengur til að loka á slíkan innflutning. Stjórn Landssambands kúabænda mun hins vegar að sjálfsögðu reyna að vekja athygli yfirvalda á því að takmarka beri slíkan innflutning eins og kostur er.

Var þá atkvæðagreiðslu fram haldið. Fyrir var tekin svohljóðandi viðaukatillaga Arnars Bjarna Eiríkssonar við eigin tillögu:

„Þá leggur fundurinn áherslu á góða kynningu á tilgangi og markmiðum tilraunarinnar og því hversu takmörkuð hún er.“

Atkvæði féllu þannig að tillagan var samþykkt með 19 samhljóða atkvæðum.

Því næst var borin fram svohljóðandi tillaga Arnars Bjarna Eiríkssonar svo breytt:

„Fulltrúafundur Landssambands kúabænda, haldinn 6. febrúar 2001, samþykkir að tilraunaverkefni með NRF-kúakynið verði frestað eftir að töku fósturvísa í Noregi lýkur. Jafnframt ákveður fundurinn að fram fari atkvæðagreiðsla meðal greiðslumarkshafa mjólkur um aðild Landssambands kúabænda að verkefninu fyrir 1. september nk. Þá leggur fundurinn áherslu á góða kynningu á tilgangi og markmiðum tilraunarinnar og því hversu takmörkuð hún er.“

Atkvæði féllu þannig að tillagan var felld með 11 atkvæðum gegn 9.

Því næst var borin fram sama viðaukatillaga Arnars Bjarna Eiríkssonar við tillögu stjórnar Landssambands kúabænda. Atkvæði féllu þannig að tillagan var samþykkt með 21 samhljóða atkvæði.

Þá var upprunalega tillaga stjórnar Landssambands kúabænda borin upp svo breytt. Atkvæði féllu þannig að tillagan var samþykkt með 26 samhljóða atkvæðum.

Að lokum var borin fram svohljóðandi tillaga Elvars Eyvindssonar:

„Fulltrúafundur Landssambands kúabænda, haldinn 6. febrúar 2001, samþykkir að leitað verði leiða til að meta þýðingu og mikilvægi sérstöðu íslenska kúakynsins með tilliti til ímyndar og markaðsstöðu afurðanna. Leitast verði við að niðurstöður liggi fyrir áður en ákvörðun verður tekin um notkun NRF-kynsins í ræktun hjá bændum.“

Atkvæði féllu þannig að tillagan var samþykkt með 25 samhljóða atkvæðum.

5. Útreikningur greiðslumarks og fyrirkomulag beinna greiðslna.
Þórólfur Sveinsson, formaður Landssambands kúabænda, gerði grein fyrir hugmynd sem uppi er um að gefa út tvískipt greiðslumark, þ.e. próteingreiðslumark og fitugreiðslumark. Kostirnir við slíka skiptingu eru þeir að þannig yrðu gefin rétt skilaboð um það heildarmagn sem þörf væri á fyrir markaðinn hverju sinni. Hann tók það hins vegar fram að hér væri um hugmynd að ræða sem þyrfti að útfæra nánar, auk þess sem eftir væri að kanna hvort hún stæðist þau lög og reglugerðir sem vörðuðu málið. Taka verður ákvörðun um hvort farið verður út í þessa breyting áður en landbúnaðarráðherra setur reglur um greiðslumark næsta verðlagsárs, en það mun hann gera í júnímánuði næstkomandi. Hann lagði síðan fram og skýrði útreikninga á greiðslumarki og fyrirkomulagi beinna greiðslna.

Pétur Diðriksson velti fyrir sér hvaða áhrif það myndi hafa að tvískipta þannig greiðslumarkinu og kvaðst telja að verði sú leið farin myndi það leiða til að bændur freistuðu þess í auknum mæla að framleiða nákvæmlega upp í greiðslumarkið. Bestu leiðina til þess að ná upp próteinhlutfalli mjólkur kvað hann vera þá að láta kýrnar bera á vorin.

Eiríkur Egilsson lagði áherslu á að ef ákvörðun verði tekin um að tvískipta þannig greiðslumarkinu verði ferill breytinganna nægilega langur þannig að bændur nái að aðlaga framleiðslu sína breytingunum. Hann taldi það fyrirkomulag C-greiðslna sem nú væri viðhaft ekki vera skynsamlegt því að samkvæmt því erum við að greiða lægra verð þegar mjólk vantar og hærra þegar nóg er til af henni. Kvaðst hann því hlynntur því að C-greiðslan verði jöfn yfir allt verðlagsárið.

Guðmundur Þorsteinsson taldi að tvískipt greiðslumark muni hafa þau áhrif að draga úr áhuga framleiðenda á að hækka próteinhlutfall mjólkur. Hann taldi heppilegra að bændur fengju þessar greiðslur í gegnum afurðaverðið en sem arð. C-greiðslan hefur leitt til þess að við fáum mjólkina ekki á réttum tíma og því þarf að breyta. Það verður að aðlaga þetta að þörfum markaðarins, en í þeim tilgangi mætti hugsanlega sameina C- og B-greiðslurnar, með því að fastsetja þær við ákveðna krónutölu á mjólkurinnlegg innan greiðslumarks í hverjum mánuði. Þannig verður verðið hæst þegar innvigtunin er minnst.

Kristján Finnsson sagði það hafa legið í loftinu á síðasta ári að færi þyrfti til C-greiðsluna. Menn verða að vera þess meðvitaðir að þeir eru að framleiða inn á markað og verða því að lúta þörfum hans. Sá var líka upprunalegi tilgangurinn með C-greiðslunni. Búskaparhættir kúabænda eru hins vegar að breytast og margir þeirra vilja nú framleiða meiri mjólk á veturna. Þessi hugmynd um tvískiptingu greiðslumarksins er góðra gjalda verð til að samræma framleiðsluna þörfum markaðarins. Menn þurfa hins vegar fyrirvara til þess að geta aðlagað framleiðsluferli sitt nýjum reglum. Það er mjög óábyrgt gagnvart markaðnum að framleiða litla eða enga mjólk í ágúst og september.

Arnar Bjarni Eiríksson fjallaði um C-greiðsluna og efaðist um réttmæti þess að greiða sérstök ágúst- og september verðlaun nema á sama tíma verði verðlagsáramótin færð frá 1. september til 1. janúar.

Egill Sigurðsson benti á að ef hugmyndirnar um tvískipt greiðslumark næðu fram að gang fengju bændur 5-6 krónur í álag á lítra, en það ætti að tryggja að öll sú mjólk sem bændur framleiða berist afurðastöðvunum.

6. Önnur mál:

a) Stofnun ræktunarhóps um NRF-kýr.
Arnar Bjarni Eiríksson gat þess að nokkrir fulltrúa hefðu í hyggju að nýta tímann að loknum fundinum til þess að ræða stofnun ræktunarhóps um NRF-kýr.

Fundarstjóri lagði til að honum og fundarritara yrði falin afgreiðsla fundargerðarinnar og hún síðan send fulltrúum. Samþykkti fundurinn það.
Hann eftirlét síðan Þórólfi Sveinssyni, formanni Landssambands kúabænda, að slíta fundinum.

Þórólfur Sveinsson þakkaði fundarmönnum fyrir og málefnalegar umræður, óskaði þeim góðrar heimferðar og sagði fundi slitið.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:40.

/Gylfi Þór Orrason