Beint í efni

Fuglafælur sem virka!

30.05.2012

Eins og sjá má af umræðunum á Kýrhausnum hér á naut.is er ágangur fugla á lönd bænda vandamál. Í Danmörku, rétt eins og hér á landi, er ágangur fugla á tún og akra einnig mikið vandamál. Þetta á sér í lagi við í nágrenni við friðlönd og engjar, sem og við flugvelli. Þá eiga þarlendir bændur sem eru í berjarækt og framleiðslu á eplum og perum einnig í vanda vegna ágangs spörfugla.

 

Nú hafa vísindamenn við Háskólann í Árósum hinsvegar þróað tilraunabúnað og lofa fyrstu niðurstöðurnar afar góðu, en í vikunni var haldin fyrsta kynning á þessum búnaði. Um er að ræða tölvustýrða fuglafælu sem spilar aðvörunarhljóð fuglanna sjálfra!

 

Fuglar venjast alla jafna hefðbundnum fælum en svo virðist sem þessi gerð af fuglafælu virki mun betur og að fuglarnir venjist ekki fælunum heldur haldi á brott! Kerfið byggir á því að tölva ”hlustar” á fuglana og greinir hvaða fuglar eru á ferð hverju sinni og spilar svo í kjölfarið upptökur af aðvörunarhljóðum þeirrar tegundar sem herjar á lönd bænda. Ef tölvan ”heyrir” áfram í fuglunum við akurinn þrátt fyrir allt, breytir hún einfaldlega um aðferð og spilar út hundsgelt og háværa hvelli eftir því sem þörf er á þar til fuglarnir halda á brott.

 

Enn sem komið er, er þetta tilraunaverkefni. Þó er talið að þessi fuglafæla fari á markað innan skamms, enda þörfin brýn hjá bændum víða um heim, en einnig á flugvöllum og víðar þar sem fuglar valda skaða eða hættu/SS.