Beint í efni

Frumvarp um niðurlagningu Bjargráðasjóðs

21.04.2008

Fram hefur verið lagt á Alþingi frumvarp til laga um brottfall laga um Bjargráðasjóð, nr. 146/1995, með síðari breytingum. Flutningsmaður er samgönguráðherra Kristján Lúðvík Möller. Frumvarpið í heild sinni má nálgast hér. Í greinargerð með frumvarpinu segir „að á undanförnum árum hafi verið umræða um að leggja Bjargráðasjóð niður og að tryggingar taki við hlutverki hans. Aðalástæður þessara umræðna eru sennilega þær að tjón eru ekki bætt að fullu og eigin áhætta tjónþola hefur hækkað á liðum árum.

Nokkrar kannanir hafa verið gerðar á undanförnum árum á bótakerfi sjóðsins og það borið saman við tryggingar sem í boði eru hjá tryggingafélögum. Vandinn hefur einkum verið sá að ekki eru til tryggingar sem eru fyllilega sambærilegar við bótareglur Bjargráðasjóðs. Enn fremur hefur verið litið svo á að ekki væri unnt að koma á slíku tryggingakerfi á almennum markaði á meðan sjóðurinn er starfræktur. Á hinn bóginn er ljóst að tryggingafélögin bjóða tryggingar af ýmsu tagi sem Bjargráðasjóður hefur ekki gert, svo sem sérstakar brunatryggingar og rekstrarstöðvunartryggingar.
Með breyttum búskaparháttum og stærri búum hafa æ fleiri bændur keypt slíkar tryggingar.

 

Á fundi stjórnar Bjargráðasjóðs 7. desember 2005 var samþykkt að gera úttekt á framtíðarhlutverki sjóðsins og tryggingum í landbúnaði í samráði við Bændasamtök Íslands. Úttektin
verði unnin af sérfróðum aðilum á sviði trygginga, laga og búrekstrar í samráði við áðurnefnda aðila. Í framhaldi af því samþykkti stjórn Bjargráðasjóðs 2. mars 2006 að skipa
nefnd til að fjalla um framtíðarhlutverk sjóðsins í samráði við stjórnarmenn. Óskað var tilnefningar í nefndina frá Bændasamtökum Íslands, félagsmálaráðuneytinu, landbúnaðarráðuneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Að frumkvæði nefndarinnar var 22. júní 2007 gerður samningur við ráðgjafarfyrirtækið ParX um að kanna viðhorf hagsmunaaðila til Bjargráðasjóðs. Rætt var við forsvarsmenn
Bændasamtaka Íslands, Landssamtaka sauðfjárbænda, Landssambands kúabænda, Félags kjúklingabænda, Félags eggjaframleiðenda, Svínaræktarfélags Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og fulltrúa félags- og landbúnaðarráðuneyta. Í minnisblaði um niðurstöður þeirra viðtala koma fram afar ólíkar skoðanir.

Skýrasta afstöðu tekur Samband íslenskra sveitarfélaga sem vill leggja sjóðinn niður í núverandi mynd og afnema framlög sveitarfélaga til hans. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga
hefur lýst þeirri afstöðu að starfsemi Bjargráðasjóðs sé miklu fremur atvinnumál tiltekinna starfsgreina en sveitarstjórnarmál. Af þeirri ástæðu og í ljósi þróunar á starfsemi sjóðsins á undanförnum árum leggur stjórnin áherslu á að sveitarfélögin verði leyst undan fjármögnun og rekstri sjóðsins og að eignum hans og skuldbindingum verði skipt upp milli eigenda. Hafa fulltrúar sambandsins rætt málið við ráðherra sveitarstjórnarmála á undanförnum missirum en jafnframt lagt áherslu á að ná þyrfti sátt við Bændasamtök Íslands um málið.

Landssamband kúabænda tekur einnig skýra afstöðu og vill að búgreinin hætti þátttöku í búnaðardeild Bjargráðasjóðs. Bændasamtök Íslands og önnur búgreinafélög, svo sem
Landssamtök sauðfjárbænda, Svínaræktarfélag Íslands, Félag kjúklingabænda og Félag eggjaframleiðenda, hafa ekki lýst jafn eindreginni afstöðu til áframhaldandi starfsemi Bjargráðasjóðs.
Þessi félög telja Bjargráðasjóð veita bændum mikilvæga tryggingavernd þótt starfsemin sé nokkuð umdeild meðal bænda. Jafnframt kunni að vera erfitt fyrir búgreinafélögin
að fá góða sjúkdómatryggingu fyrir sína félagsmenn. Meðal annars var nefnd sú hugmynd að Bændasamtök Íslands gætu tekið að sér að reka sjóðinn og gert um það samning við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið ef sveitarfélögin og Landssamband kúabænda hætta þátttöku“.

 

Eins og bændur kannast við, þá er búnaðargjald allra búgreina sama hlutfall af veltu, 1,2%. Er það skilyrði að hálfu innheimtumanna ríkissjóðs sem sjá um innheimtu þess. Skipting búnaðagjaldsins er hins vegar afar misjöfn milli einstakra þátta. Af búnaðargjaldi sem greitt er af grænmeti, blómum, grávöru og skógarafurðum rennur ekkert til Bjargráðasjóðs, þannig að segja má að þær greinar hafi tekið skýrasta afstöðu til sjóðsins. Af nautgripa- og hrossaafurðum renna 0,05 prósentustig til sjóðsins, 0,15 af afurðum sauðfjár, kartaflna, rófna og æðardúns, 0,20 af eggjum, 0,30 af svínaafurðum og hæsta hlutfall til Bjargráðasjóðs rennur af eggjaframleiðslunni sem greiðir ríflega helming af búnaðargjaldinu, 0,75 prósentustig til Bjargráðasjóðs. Ef frumvarp þetta verður að lögum þarf að nást samkomulag milli búgreinanna um framtíðarskiptingu búnaðargjaldsins, sem þarf eftir sem áður að vera það sama á allar búgreinar.