Frumvarp um erfðaefni holdanautgripa lagt fram á alþingi
25.03.2015
Í gær lagði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fram á alþingi frumvarp til breytinga á lögum um innflutning dýra, sem lýtur að erfðaefni holdanautgripa. Með fyrirhuguðum lagabreytingum „er stefnt að því að einfalda feril við innflutning erfðaefnis holdanautgripa og stuðla að erfðaframförum í holdanautgriparækt. Sambærilegar reglur gilda um innflutning svínasæðis og svín sem vaxið hafa af innfluttu erfðaefni. Gert er ráð fyrir því að tekið verði tillit til þess þegar sett verða skilyrði fyrir innflutningi og einangrun erfðaefnisins og dýranna“ eins og segir í athugasemdum með frumvarpinu. Þar kemur einnig fram sú afstaða Landssambands kúabænda að frumvarpið sé afrakstur samstarfs ráðuneytis landbúnaðarmála og samtaka bænda undanfarin misseri og ár.
Á aðalfundi Landssambands kúabænda sem haldinn var á dögunum var samþykkt svofelld ályktun um nautakjötsframleiðslu og holdanautastofna:
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn í Reykjavík 12.-13. mars 2015, lýsir þungum áhyggjum yfir stöðu nautakjötsframleiðslunnar í landinu og ítrekar ályktanir fyrri aðalfunda um það efni. Afar brýnt er að öllum mögulegum leiðum verði beitt til að skjóta styrkari stoðum undir þessa grein íslensks landbúnaðar og henni gert fært að mæta þeim tækifærum sem vaxandi eftirspurn skapar. Fundurinn fagnar áformum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um innflutning dýra fram til þinglegrar meðferðar og væntir þess að það verði afgreitt á yfirstandandi þingi. Jafnframt væntir fundurinn þess að við gerð reglna um notkun á innfluttu holdanautasæði tekið fullt tillit til niðurstaðna áhættumats Veterinærinstituttet í Noregi, varðandi þær kvaðir sem lagðar verði á bú sem nota slíkt sæði.
Greinargerð
Innflutningur á nautgripakjöti var ríflega 1.000 tonn árið 2014, að andvirði rúmlega 900 milljóna kr. Jafnframt benda athuganir LK á þróun nautakjötsmarkaðar til þess, að þrátt fyrir að allir fæddir nautkálfar yrðu settir á til kjötframleiðslu og slátrun mjólkurkúa næði fyrra jafnvægi, dygði það ekki til að mæta vaxandi eftirspurn eftir nautgripakjöti. Því er afar brýnt að hraða svo sem kostur er öllum aðgerðum sem mega verða til að efla innlenda nautakjötsframleiðslu. Þar eru bein tengsl holdanautabænda við öflugt kynbótastarf einn mikilvægasti þátturinn.