Beint í efni

Frumsýning á kynningarmyndbandi HORSES OF ICELAND

02.02.2024

Markaðsverkefninu Horses of Iceland var hleypt af stokkunum sem fjögurra ára verkefni og hófst árið 2016. Til þess var stofnað af öllum stærstu samtökum og stofnunum innan hestamennskunnar, einkafyrirtækjum og íslenska ríkinu ásamt Íslandsstofu. Aðilum í hestatengdri starfsemi um heim allan stendur til boða að gerast þátttakandi að verkefninu. 

Stórbrotinn ævintýraheimur
Myndbandið sýnir hestinn í íslenskri náttúru, eiginleika hans og það sem hann stendur fyrir. Hann er náttúra Íslands holdi klædd, einstakur og ósvikinn. Hann er laus við alla tilgerð en að sama skapi gríðarlega kraftmikill, heillandi og fjölhæfur. Aldagamalt hlutverk íslenska hestsins sem þarfasta þjónsins hefur vikið fyrir tækninýjungum en hlutverk hans í dag er ekki síður mikilvægt. Íslenski hesturinn opnar fyrir okkur stórbrotinn ævintýraheim. Sem reiðhestur sinnir íslenski hesturinn því hlutverki að veita okkur aðgang að samfélagi fólks þar sem vinátta, félagsskapur og lífsgleði er öðru mikilvægara og sem reiðhestur sinnir íslenski hesturinn því hlutverki enn fremur að tengja hestamenn nánar við náttúruna.

Frábært dæmi um hverju gott samstarf getur skilað
„Það hefur verið afar ánægjulegt að taka þátt og starfa að markaðsverkefninu Horses of Iceland sem er í raun frábært dæmi um hverju gott samstarf getur skilað,“ segir Sveinn Steinarsson formaður Félags hrossabænda en félagið er einn af stofnaðilum verkefnisins. „Við í Félagi hrossabænda bindum miklar vonir við að verkefnið og að samstarfið sé komið til að vera um langa framtíð. Við hvetjum okkar félaga og alla aðra sem hafa hagsmuni af íslenska hestinum til að gerast þátttakendur í verkefninu og taka virkan þátt í að móta áherslur við markaðsetningu á okkar frábæra hesti.“  

Íslenski hesturinn um allan heim
Tilgangur markaðsverkefnisins Horses of Iceland er að auka vitund um og styrkja ímynd íslenska hestsins á alþjóðavettvangi, kynna vörur og þjónustu honum tengdum með faglegu markaðsstarfi undir merkjum Horses of Iceland – bring you closer to nature.

Um er að ræða alþjóðlegt verkefni enda er íslenska hestinn að finna í 21 landi í Evrópu, Norður-Ameríku og Ástralíu. Það þýðir að allt markaðsefni og aðgerðir taka mið af fjölbreyttum aðstæðum og styðja við útbreiðslu hestsins um heim allan. Ísland er upprunalandið sem hefur mikla sérstöðu í hugum þeirra sem eiga íslenska hestinn. Í dag eru um 60 samstarfsaðilar að verkefninu.

Um framleiðslu myndbandsins
Það var Tjarnargatan sem framleiddi myndbandið, Arnar Helgi Hlynsson leikstýrði og skrifaði handritið ásamt Sigtryggi Magnasyni. Grafík var í höndum Hólmsteins Össurar Kristjánssonar og tónlistina skapaði Kjartan Hólm.