Beint í efni

Frostþurrkaðar skyrflögur vinna til nýsköpunarverðlauna

20.10.2020

Verkefnið Frosti, frostþurrkaðar og laktósafríar íslenskar skyrflögur, landaði 3. sæti í keppni um Gulleggið 2020 á föstudag. Á sunnudag hreppti verkefnið svo 3. sæti í EcoTrophelia, evrópskri keppni í vistvænni nýsköpun matar- og drykkjarvara.

Verkefnið felst í því að framleiða Frosta Skyr, frostþurrkaðar og laktósafríar skyrflögur með vanillubragði og blárri spírulínu sem gefur skyrinu fallegan bláan lit og eykur jafnframt næringargildi þess. Frosti Skyr er hágæða íslenskt próteinduft sem einnig er hægt að nota sem hefðbundið skyr, einungis með því að blanda vatni saman við skyrflögurnar og þá fæst skyrið á sínu hefðbundna formi. Þá er Frosti tilvalinn sem próteingjafi í heilsuþeytinga. Frostþurrkun eykur stöðuleika skyrsins og þar með útflutingsmöguleika á því. Auk þess þarf Frosti skyr ekki að vera geymdur í kæli og lengist geymslutíminn úr einum mánuði yfir í mörg ár.

Á bakvið verkefnið standa þær Aníta Þórunn Þráinsdóttir og Guðrún Alfa Einarsdóttir. Þær kynntust í námi í matvælafræði við Háskóla Íslands og þar kviknaði hugmyndin að Frosta skyr og tókst þeim að búa til frumgerðina af Frosta skyr á aðeins 6 vikum. Anítu og Guðrúnu langar að frostþurrka skyr sem komið er á síðasta söludag og minnka þar með matarsóun á skyri og með Frosta gefst tækifæri að selja skyr umbúðalaust í fyrsta skipti.

„Spírulína er blágrænn smáþörungur og er ein næringaríkasta fæða sem völ er á í heiminum, eða svokölluð ofurfæða. Spírulínan sem við notum er ræktuð af hátækni fyrirtæki á Íslandi. Eina aukaafurðin við framleiðslu á spírulínu er súrefni svo framleiðslan hefur neikvætt kolefnisspor. Bláa spírulínan sem við notumst við í Frosta Skyr er mjög næringarrík en jafnframt laus við fiskibragðið sem margir tengja við þörunga og hentar því einstaklega vel sem viðbót í matvæli.“ segir Guðrún Alfa í samtali við LK.

„Okkur fannst tilvalið að blanda saman ofurfæðu okkar Íslendinga við ofurfæðuna spírulínu og fá þessu frumlegu útkomu sem Frosti Skyr er. Það hefur alltaf verið okkar markmið að nota íslenska mjólk í vöruna okkar, þar sem að hún er sú besta í heimi. Stefnan er sett á gott samstarf við íslenska framleiðendur, en ekki er hægt að segja meira frá því að svo stöddu. Með okkar vöru opnast áður óþekktir möguleikar fyrir íslenskt skyr, bæði á erlendum sem og innlendum markaði.“ segir Guðrún ennfremur.

Aðspurð hvenær varan verði aðgengileg fyrir neytendur segja þær stefnuna vera setta á að varan fari í almenna sölu á næsta ári.

Hægt er að fylgjast með verkefninu á vefsíðunni frostiskyr.net eða á instagram reikningnum @frostiskyr. Einnig er hægt að hafa samband á frostiskyr@gmail.com.